Categories
Greinar

Landið okkar

Deila grein

29/08/2017

Landið okkar

Landið okkar er verðmætt sökum náttúruauðlinda og landfræðilegrar legu. Önnur ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) hafa takmarkað eignarhald erlendra aðila að landi og það eigum við einnig að gera. Núverandi löggjöf er ógagnsæ og heimildir og takmarkanir erlendra aðila utan EES-svæðisins í fasteignum hér á landi því óskýrar m.a. vegna þess að ráðherra getur veitt undanþágu. Því er nauðsynlegt að ráðast í heildarendurskoðun laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna.

Lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna kveða á um að enginn megi öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum á Íslandi, þar á meðal veiðirétt, vatnsréttindi eða önnur fasteignaréttindi, nema að viðkomandi aðili sé íslenskur ríkisborgari eða með lögheimili á Íslandi. Samkvæmt núgildandi lögum hafa aðilar á EES-svæðinu, einstaklingar og lögaðilar, sömu réttindi og íslenskir ríkisborgarar í þessum efnum. Hins vegar getur ráðherra vikið frá þessu skilyrði samkvæmt umsókn frá þeim sem hefur rétt til að stunda atvinnurekstur hér á Íslandi og vill öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni eða til að halda þar heimili. Í gildi var reglugerð sem meinaði erlendum aðila með lögheimili á EES-svæðinu að kaupa land nema að kaupin væru liður í að hann nýtti rétt sinn til að hafa á Íslandi lögmæta dvöl eða starfsemi.

Fyrrverandi ráðherrar hafa skipað vinnuhópa um málið sem hafa skilað ýmsum gagnlegum tillögum. Hins vegar hefur þeim tillögum ekki verið hrint í framkvæmd. Það er nauðsynlegt að marka skýrari stefnu, því eins og löggjöfin er í dag þá fylgja jafnframt yfirráð yfir þeirri auð- lind sem er á svæðinu. Í endurskoðuninni þarf að horfa til þess að settar séu skýrar takmarkanir um fjárfestingar erlendra aðila utan EES-svæðisins. Líta má til ríkja á borð við Noreg, Svíþjóð og Danmörku í þessum efnum. Ef ekkert verður aðhafst, þá myndast tómarúm sem fjársterkir aðilar nýta sér og of seint verður að koma í veg fyrir að náttúruauðlindir glatist úr eigu þjóðarinnar vegna tómlætis. Staðreyndin er sú að landfræðileg lega Íslands er afar verðmæt og mun aukast að verðmæti í framtíðinni meðal annars vegna aukins mikilvægis norðurslóða. Alþingi hefur verk að vinna til að gæta að hagsmunum Íslands.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, alþingismaður og varaformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu 29. ágúst 2017

Categories
Greinar

Hvað ætlar ríkisstjórnin að láta sauðfjárbændur standa lengi á brúninni?

Deila grein

17/08/2017

Hvað ætlar ríkisstjórnin að láta sauðfjárbændur standa lengi á brúninni?

Það er sorglegt og í raun pínlegt að horfa uppá ráðaleysi eða viljaleysi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar til að taka á þeim gríðarlega vanda sem blasir við sauðfjárbændum.

Ráðherra landbúnaðarmála hefur vart virt bændur viðlits, hvað þá hlustað á varnaðarorð þeirra. Það er löngu ljóst að landbúnaðarráðherra ræður ekki við hlutverkið og því þarf að færa lausn þessa máls frá ráðherranum og það fyrir löngu. Bændur hafa bent á lausnir og mörg fordæmi eru erlendis frá fyrir því að stjórnvöld komi matvælaframleiðslu til aðstoðar.

Árin 2015 og 2016 samþykkti Evrópusambandið (ESB) að veita rúmum 217,5 milljörðum íslenskra króna (á gengi dagsins) til að styðja við mjólkuriðnaðinn. Þetta voru sértækar aðgerðir, til viðbótar við almennan stuðning sambandsins við greinina.
Nú hafa ráðherrar Viðreisnar veik hné þegar ESB ber á góma og ættu því að geta réttlætt fyrir sér sérstækar aðgerðir til handa íslenskum bændum í takt við aðgerðir draumalandsins.

Ef heildarmyndin er skoðuð þá er miklu meira undir en eingöngu sauðfjárbúin. Það er byggðin um landið, það er ferðaþjónustan í sveitunum, það er öll önnur starfsemi sem fylgir byggð í sveitum landsins. Allt þetta er undir. Þetta snýst um miklu meira en landbúnaðinn einan.

Hvað er hægt að gera? Ég beitti mér fyrir því að ríkisstjórn Framsóknarflokks setti 100 milljónir króna í aukið markaðsstarf lambakjöts. Skoða þarf að auka þá fjármuni, setja á útflutningsskyldu en strax þarf ríkið að kaupa upp þær birgðir sem fyrir eru. Mikil hagræðing hefur orði í umhverfi afurðastöðva undanfarin ár en þar þarf áfram að hagræða. Fækka þar stóru afurðastöðvunum og einfalda umgjörð þeirra sem vilja bjóða uppá beint frá býli. Bændur hafa haft hugmyndir um hvernig draga má úr framleiðslu og er eðlilegt að skoða það vandlega.

Mestu skiptir að brugðist sé strax við, fordæmin eru til en svo virðist sem ríkisstjórnina skorti vilja.

Gunnar Bragi Sveinsson, alþingismaður

Greinin birtist á Vísi, 17. ágúst 2017

Categories
Greinar

Láta reka á reiðanum

Deila grein

17/08/2017

Láta reka á reiðanum

Fréttir berast af því að vogunarsjóðirnir sem keyptu tæplega 30 prósenta hlut í Arion banka í vor muni ekki nýta sér forkaupsrétt sinn og eignast meirihluta í bankanum. Þetta eru stórtíðindi ef rétt reynist og jákvæð þróun en áfram ríkir þó óvissa um framhaldið.

Fjármálaráðherra þjóðarinnar fagnaði innkomu vogunarsjóðanna á sínum tíma en ljóst er að það var enn eitt illa ígrundað frumhlaupið. Aðstæður á Íslandi eru einstakar, þar sem eignarhald Ríkissjóðs Íslands á fjármálafyrirtækjum er með því umfangsmesta meðal ríkja í Evrópu og mikið eigið fé er bundið í bönkunum eða um 500 milljarðar króna. Tímann sem nú fer í hönd verður að nýta vel til að móta framtíðarstefnu. Fjármálakerfi hverrar þjóðar skiptir miklu máli, þar sem það miðlar fjármagni á milli aðila og er mikið hreyfiafl vegna þessa. Fjármálakerfið þarf að vera hagkvæmt og þjóna landsmönnum öllum. Eignarhald verður að vera gagnsætt til að það skapist traust. Miklu máli skiptir að eigendur hafi góða bankareynslu og séu traustir fjárhagslegir bakhjarlar.

Heildarstefnumótun verður að eiga sér stað og þingið þarf að koma að þessari vinnu. Meta á hversu stór eignarhlutur ríkissjóðs á að vera til skemmri og lengri tíma litið. Skoða þarf gaumgæfilega hvaða form eignarhalds hentar best hagsmunum hagkerfisins. Einnig þarf að kanna fýsileika erlends eignarhalds og líta sérstaklega til Norðurlandanna. Að auki verða stjórnvöld að hafa það hugfast að miklar tæknibreytingar eru að eiga sér stað í fjármálaþjónustu. Ef stjórnvöld halda áfram að vera í fríi frá þessari vinnu, þá getur slíkt kæruleysi rýrt verðgildi eignarhlutar ríkisins. Staða ríkisstjórnarinnar er veik í dag, þar sem engin heildarstefnumótun á sér stað. Alls staðar þar sem stjórnleysi ríkir myndast tómarúm sem verður á endanum fyllt og þá ekki endilega með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Ástæðan fyrir öllu þessu stefnuleysi er einföld. Skortur á framtíðarsýn og kjarki til að taka ákvarðanir. Þær fréttir að vogunarsjóðir ætli ekki að nýta forkaupsréttinn ættu vonandi að vekja ráðamenn þjóðarinnar af þyrnirósarsvefni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þingmaður og varaformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. ágúst 2017

Categories
Greinar

Snemmbúin sláturtíð

Deila grein

16/08/2017

Snemmbúin sláturtíð

Eins og alþjóð veit þá er komin upp grafalvarleg staða meðal sauðfjárbænda sem taka þarf föstum tökum til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot og alvarlega byggðaröskun.

Ekki er hægt að segja að bændur hafi ekki sýnt vilja til að aðlagast breyttum aðstæðum því þeir hafa fundað stíft með landbúnaðarráðherra og lagt fram tillögur að úrbótum. Enn sem komið er hefur ráðherra hvorki sýnt skilning né áhuga á málefninu.

Atvinnuveganefnd átti góðan fund í gær með hagsmunaaðilum þar sem Landsamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands lögðu fram tillögur að aðgerðum. Ef gengið verður hratt og vel til verks verður komið í veg fyrir allt að þriðjungs tekjuskerðingu bænda, hagkvæmni aukin og dregið verður úr kolefnisspori landsins.

Greiðsluþrot blasir við
Tillögur bænda fjalla m.a. um að efla útflutning til að jafna sveiflur á innanlandsmarkaði og draga þar með úr afurðaverðfalli til bænda í haust. Ef bændur fá ekki áheyrn og ekki tekst að koma jafnvægi á markaðinn mun greiðsluþrot blasa við á mörgum býlum landsins sem stjórnvöld munu ekki geta haft neina stjórn á.

Vandinn snýr fyrst og fremst að lokun erlendra markaða, en hann er tímabundinn. Því miður hefur m.a. Rússlandsmarkaður lokast núna, en það þýðir ekki að gefast upp. Auka þarf nýsköpun og vinna að nýjum mörkuðum. Á meðan unnið er að því að byggja upp traust að nýju á erlendum mörkuðum mega ráðherrar Viðreisnar ekki senda út röng skilaboð. Hvorki til erlendra aðila né loka á samtalið við bændur.

Einnig þarf að draga úr óeðlilegum sveiflum en stutt er síðan afurðastöðvarnar þurftu að takmarka sölu til viðskiptavina sinna erlendis vegna aukinnar eftirspurnar. Samvinna afurðastöðva á erlendum mörkuðum myndi án efa gera þeim betur kleift að þróa nýjar og réttar vörur fyrir nýja markaði.

Eins og í öðrum löndum
Ráðherra má ekki heyra minnst á uppkaup á landbúnaðarframleiðslu.
Þau lönd sem við berum okkur saman við stýra sinni landbúnaðarframleiðslu gagngert til þess að koma í veg fyrir afurðaverðslækkun til bænda m.a. með inngripum á markaði. Umframbirgðir eru þá keyptar upp/seldar út af markaði til að tryggja fæðuöryggi, framleiðsluvilja og afkomu bænda.

Ríkisstjórnin verður að taka á þeim tímabundnu vandamálum sem uppi eru núna í sauðfjárræktinni og vinna með bændum en ekki gegn. Á þann hátt tryggjum við búsetu hringinn í kringum landið og styðjum við afleidd störf sem verða til vegna matvælaframleiðslu, m.a. í ferðaþjónustu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. ágúst 2017

Categories
Greinar

Viðreisn á villigötum

Deila grein

15/08/2017

Viðreisn á villigötum

Ráðherrar Viðreisnar keppast við að koma með hverja rangfærsluna á fætur annarri þessa dagana. Fjármálaráðherra heldur því fram að erfiðleika í sauðfjárframleiðslu sé að rekja til nýs búvörusamnings. Velferðaráðherra telur að hátt matvælaverð sé til komið vegna matvöru sem nýtur innflutningsverndar. Hvort tveggja er alrangt.

Sorglegt er að sjá hve litla þekkingu og skilning þessir ágætu herramenn hafa á málefninu og takmarkaða löngun til að setja sig inn í atvinnugreinar landsbyggðanna. Legg til að þeir stofni leshring og lesi nýja búvörusamninginn. Enn hefur ekkert „kindakíló“ verið framleitt undir nýjum búvörusamningi.

Skilvirkari landbúnaður
Til að byrja á byrjuninni þá er markmiðið í nýjum búvörusamningi að undirbúa landbúnaðinn fyrir áskoranir næstu ára og gera stuðningskerfið skilvirkara. Skapa greininni fjölbreytt sóknartækifæri með sjálfbærni, nýsköpun, heilnæmi afurða og velferð dýra að leiðarljósi. Auknir fjármunir voru settir í að framfylgja velferð dýra, að efla lífræna ræktun og til að auka fjölbreytni í landbúnaði almennt. Allt neytendum og bændum til hagsbóta.

Í nýjum búvörusamningi verða beingreiðslur til bænda afnumdar í áföngum. Í tíð síðustu ríkisstjórnar voru auk þess tollar felldir niður og lækkaðir af landbúnaðarvörum, beinlínis til að örva samkeppni. Ekki er gert ráð fyrir að dregið verði úr beingreiðslum til grænmetisbænda og búið er að innleiða niður­greiðslu á raforku. Þess má einnig geta að stuðningur við jarðrækt og lífræna framleiðslu er stóraukinn í nýjum samningi sem er m.a. í takt við tillögur samráðsvettvangs um aukna hagsæld.

Ég held við getum öll verið sammála um að það er eftirsótt að geta valið um matvæli sem eru framleidd undir ströngu eftirliti þar sem notkun fúkkalyfja er brot af því sem gerist í öðrum ríkjum í Evrópu og að kröfur um aðbúnað dýra séu eins og best verður á kosið.

Samkeppnin
Líkt og velferðaráðherra þá fagna ég aukinni samkeppni þar sem neytendur geta borið saman verð og gæði. Ráðherra er hins vegar á rangri leið þegar hann telur að matvælaverð sé bundið við tolla. Staðreyndin er sú að búið er að fella niður tolla og lækka. Því er ekki lengur hægt að halda því fram að háir tollar stuðli að háu matvælaverði.
Ef matvælaverð er hátt hér á landi þá beinast mínar grunsemdir að álagningu matvæla sem verður til gegnum milliliði. Þessu til stuðnings þá hefur Samkeppniseftirlitið bent á að álagning verslana og/eða þar með vöruverð sé almennt hærra hér á landi vegna samþjöppunar einstakra aðila.

Getur verið að ráðherrar Viðreisnar séu í hagsmunagæslu fyrir fjármálaöfl og heildsala sem lengi hafa eldað grátt silfur við framleiðslugreinar landsmanna? Getur verið að hagræðingaraðgerðirnar sem ráðandi aðilar í versluninni fóru í hafi ekki skilað tilætluðum árangri? Þá má spyrja sig af hverju verslunin geti ekki mætt nýrri samkeppni sem hefur komið til sl. mánuði.

Ráðherrarnir leyfa sér að ráðast á undirstöður atvinnugreinar landsbyggðarinnar. Í sama augnabliki loka þeir augunum fyrir ábyrgri stefnu í sjálfbærni, dýravelferð, sýklalausum matvælum og aðgerðum í loftslagsmálum. Er þessum mönnum sjálfrátt? Hversu ótengdir geta menn verið og halda menn virkilega að þeir geti slegið ryki í augu neytenda? Getur verið að þeir sem tala mest fyrir frjálsri samkeppni skorti kjarkinn til að mæta henni þegar á hólminn er komið?

Hvar er forsætisráðherra?
Og að lokum. Stefnu- og ráðleysið hjá ríkisstjórninni er algert. Forsætisráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn leyfir Viðreisn að stýra umræðunni með því að stíga ekki fram. Hefur kúvending átt sér stað í forsætisráðuneytinu? Á að leyfa endalausar árásir á grundvallaratvinnugreinar landsbyggðarinnar? Það eru margir sem bíða svara – en munu ekki getað beðið endalaust!

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. ágúst 2017

 

Categories
Greinar

Háir vextir

Deila grein

10/08/2017

Háir vextir

Háir vextir hér á landi eru undirliggjandi vandi hagkerfisins og hafa mikil áhrif á gengisflökt krónunnar. Háir vextir draga erlent fjármagn til landsins sem veldur sveiflukenndu gengi. Háir vextir valda því að íslensk heimili greiða nokkrum milljónum króna meira af húsnæðislánum sínum borið saman við löndin í kringum okkur og fyrirtækin greiða hærri fjármagnskostnað. Háir vextir eru tilkomnir vegna ákvörðunar Seðlabankans og bankarnir græða. Þetta er hins vegar hægt að laga, næsti vaxtaákvörðunardagur er 23. ágúst.

Verndun vaxta
Háir vextir sem leiða óhjákvæmilega til vaxtamunaviðskipta eru í eðli sínu óstöðug atvinnugrein innan hagkerfisins og valda þrýstingi á gjaldmiðilinn. Fjármálaráðherra lætur reka á reiðanum. Fer í herferð gegn eigin mynt og heldur hinu gagnstæða fram, að háir vextir séu tilkomnir vegna óstöðugleika krónunnar. Staðreyndin er sú að eftirspurnin eftir háum vöxtum er mikil og krónan sveiflast í kjölfarið. Þeir sem fjármagnið eiga sækjast eftir því að fjárfesta hér á hærri vöxtum en hægt er að fá í öðrum löndum. Hagkerfið er gjörbreytt frá 2003 þegar núverandi peninga- og hávaxtastefna voru tekin upp. Núna erum við útflytjendur á fjármagni.

Viðvarandi vaxtavandamál
Hætturnar eru kunnuglegar. Þegar verðbólguvæntingar aukast þá er líklegt að Seðlabankinn hækki vexti og dragi til sín fleiri fjárfesta sem styrkir krónuna enn frekar. Fjárfestar munu ekki hika í sínum ákvörðunartökum og geta metið að hæstu hæðum krónunnar sé náð, farið út með sitt fé, allir í einu og afleiðingin er gamalkunn; gengið fellur og verðbólgudraugurinn rankar við sér.
Það er því ekki boðlegt að ráðstöfunarfé almennings stýrist af væntingum fjárfesta, hvort þeir eigi að selja krónurnar eða ekki sem þeir eru að ávaxta hér á landi. Þeir sem fjármagnið eiga stýra sveiflunum, hagnast sem aldrei fyrr – og bilið breikkar milli þeirra sem eiga og hinna sem greiða.

Það sem þarf að gera
Ráðaleysi er einkennandi fyrir ríkisstjórnina. Fjármálaráðherra og hans flokkur sem á aðild að ríkisstjórn eiga þá ósk heitasta að skipta út krónunni út fyrir evru. Þeir efnameiru skuli auk þess hagnast á háum vöxtum. Ekki verður heldur séð að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi beinst sérstaklega að því að undirbúa hagkerfið til að taka á móti sveiflum. Er ekki skynsamlegt að halda áfram að byggja upp gjaldeyrisforða til að vega upp á móti útstreymi fjármagns? Á sama hátt er brýnt að byggja upp stöðugleikasjóð með það að markmiði að hjálpa til við efnahagslegan stöðugleika. Vaxtamunaviðskipti er of áhættusöm atvinnugrein og leiðir til meira ójafnvægis en hagkerfið ræður við. Ójöfnuður eykst. Þess vegna þarf að lækka vexti.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 10. ágúst 2017

Categories
Greinar

Stóra myndin í uppbyggingu fiskeldis

Deila grein

09/08/2017

Stóra myndin í uppbyggingu fiskeldis

Síðastliðið haust setti ég af stað sem sjávarútvegsráðherra, vinnu við stefnumótun fyrir fiskeldi en þar var lagt upp með að taka tillit til allra þeirra þátta sem varða uppbyggingu fiskeldis hér á landi. Erfðablöndun er mikilvægur þáttur af þeirri heildarmynd en alls ekki sá eini. Árið 2004 var megnið af strandlengju landsins lokað fyrir fiskeldi til þess að passa uppá íslenska laxastofninn og þá sérstaklega gagnvart erfðablöndun. Í ráðherratíð minni var ég spurður útí þá aðgerð af ráðherrum annarra landa, sem fannst mikið til koma hve langt Íslendingar væru að ganga til þess að vernda íslenska laxastofninn.

Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar um erfðablöndun er ágætt fyrsta skref til þess að meta áhrifin af fiskeldi betur, stofnunin nefnir hinsvegar sjálf að óvissa sé mikil um niðurstöður enda verið að beita þessari aðferðafræði í fyrsta sinn. Fram hafa komið greinargóðar athugasemdir um að ekki sé tekið tillit til fyrirbyggjandi aðgerða í skýrslunni. Auðvitað verður að gera þá kröfu að sú þekking og tækni sem sem er til staðar sé nýtt til þess að fyrirbyggja mögulegan skaða og eðlilegt að taka tillit til þess er kemur að ákvöðrun um framhald fiskeldis í Djúpinu. Nauðsynlegt er að horfa á heildarmyndina, a.m.k. var það markmið mitt er vinnan var sett af stað. Það þýðir að taka þarf einnig inn samfélagslega- og byggðalega þætti. Ekki er hægt að komast að niðurstöðu án þess að samfélagsleg áhrif séu metin.

Mikilvægt er að Hafrannsóknarstofnun fái ráðrúm til þess að klára sína rannsóknar og þróunarvinnu. Í dag er ekki hægt að leggja þær rannsóknir til grundvallar ákvarðanatöku um framtíð fiskeldis.

Sé horft til þess, mögulegra mótvægisaðgerða og hinna jákvæðu samfélagsáhrifa eru engar forsendur fyrir því að loka Djúpinu.

Þegar ég tók þá ákvörðun að fiskeldissvið Hafrannsóknarstofnunar skyldi staðsett á Ísafirði frá og með árinu 2018 og að eftirlit Matvælastofnunar yrði staðsett á Vestfjörðum og Austfjörðum, var það m.a. til að sýna í verki áherslu stjórnvalda á mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir landsbyggðina. Hlakka ég til að sjá starfsemi þessara stofnana vaxa og eflast á Vestfjörðum í nálægð við uppbygginguna.

Í stærra samhengi er svo fiskeldi að verða sífellt stærri hluti af fiskneyslu í heiminum og við sem sjávarútvegsþjóð getum ekki setið eftir. Mikil verðmætasköpun fylgir eldinu sem þjóðarbúið og byggðir landsins njóta, viðsnúningurinn á sunnanverðum Vestfjörðum er lifandi dæmi þess.

Við erum í þeirri forréttindastöðu að vera að byggja eldi hér upp nánast frá grunni, þannig getum við lært af mistökum okkar og annarra eldisþjóða og tryggt að gera þetta rétt og vel. Vestfirðingum hefur fækkað um 25% á síðustu 30 árum og þeir eru ekki að biðja um álver eða stóriðju, þeir eru að biðja um sanngirni ríkisvaldsins, að það leggist ekki í veg fyrir umhverfisvæna matvælaframleiðslu með boðum og bönnum heldur finni lausnir á þeim vandamálum sem fylgt geta slíkri starfsemi. Fyrir því mun ég berjast inní umhverfisnefnd þingsins og á þinginu sjálfu.

Gunnar Bragi Sveinsson, alþingismaður.

Greinin birtist á bb.is 8. ágúst 2017.

Categories
Greinar

Leiksýning fjármálaráðherra

Deila grein

21/07/2017

Leiksýning fjármálaráðherra

Íslensk hagstjórn stendur frammi fyrir tveimur umfangsmiklum verkefnum á næstu misserum. Annars vegar að byggja upp traust á fjármálakerfinu og hins vegar að endurskoða peningastefnuna.

Til að auka traust og tiltrú á fjármálakerfinu og stofnanaumgjörðinni er nauðsynlegt að ráðist sé í breytingar og að eftirlit með fjármálastofnunum verði fært undir einn hatt í stað tveggja eins og er í dag. Sameina þarf starfsemi Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins er lýtur að bankaeftirliti. Í byrjun júlímánaðar tók gildi ný eigendastefna ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki. Engin framtíðarsýn er sett þar fram fyrir utan það að selja skuli eignarhluti í bönkunum. Ríkisstjórnin stefnir að því að ríkið eigi 34-40 prósenta eignarhlut í Landsbankanum hf. til langframa en annað verði selt þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi. Engin haldbær rök eru færð fyrir því hvers vegna ríkissjóður hyggst eiga að hámarki 40 prósent í Landsbankanum, en ekki meira eða minna. Ástæða þess er einföld, það skortir sýn í þessu veigamikla máli.

Til þess að stefnumótun sé farsæl og trúverðug þarf bæði skýra framtíðarsýn og góðan undirbúning. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur hafnað gjaldmiðli þjóðarinnar án þess að vera búinn að undirbúa málið nokkuð innan ríkisstjórnarinnar. Skipuð var verkefnastjórn um endurmat á peningastefnu þar sem gengið er út frá því að umgjörð krónunnar verði bætt. Óskað hefur verið eftir samvinnu og sátt um vinnu þessarar verkefnastjórnar. En hvernig er það hægt þegar fjármála- og efnahagsráðherra ætlar sjálfur ekki að leyfa verkefnastjórninni að vinna í friði og er kominn með fyrirframgefna niðurstöðu? Hvað mun ráðherrann gera ef verkefnastjórnin kemst að annarri niðurstöðu en ráðherrann? Er Viðreisn þá sætt í ríkisstjórninni? Eða er ekkert að marka orð fjármála- og efnahagsráðherra þegar hann tekur afstöðu í grundvallarmáli eins og þessu? Það er fáheyrt að fjármálaráðherra þjóðríkja tali gegn eigin gjaldmiðli. Ef mark er tekið á ráðherranum þá veikist gjaldmiðillinn og almenningur verður fyrir kjararýrnun.

Þetta nýjasta krónufrumhlaup ráðherrans minnir okkur á þegar hann ætlaði að kasta 10.000 króna seðlinum án æskilegs undirbúnings og hörfaði á mettíma af leiksviðinu með málið. Þjóðin á betri vinnubrögð og undirbúning skilið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 21. júlí 2017.

Categories
Greinar

Okurvextir

Deila grein

21/07/2017

Okurvextir

Háir vextir hérlendis eru undirliggjandi vandi hagkerfisins. Í gegnum árin hafa vextir alltaf verið háir óháð því hvort hér sé kreppa með fjármagnshöftum eða blússandi gangur í hagkerfinu. Íslensk heimili greiða nokkrum milljónum krónum meira af húsnæðislánum sínum borið saman við löndin í kringum okkur og fyrirtækin greiða hærri fjármagnskostnað. Þetta er hins vegar hægt að laga.

Stýrivextir eru nú 4,75% á með­an þeir eru við núllið í nágrannalöndum okkar. Ekki hafa fengist skýr svör frá Seðlabankanum hvers vegna vextir hér á landi þurfa að vera háir – alltaf! Seðlabankinn tók hænuskref til lækkunar í vor en hafa þær eitthvað að segja? Nærtækara hefði verið að taka skrefið til fulls til lækkunar, því ef aðgerðir Seðlabankans ná ekki tilætluðum árangri er hætt við að hann missi trúverðugleikann.

Hvað veldur?

Frá ársbyrjun 2014 hefur Seðlabankinn spáð hærri verðbólgu en raunin hefur orðið og miðað stýrivexti við þær spár. Afleiðingin er sú að Seðlabankinn hefur haldið vöxtum of háum allan þennan tíma.

Þá er því haldið fram að vaxtamunurinn við útlönd sé rakinn til þess að verðbólga hafi verið hærri hérlendis en erlendis. Það leiði til þess að verðbólguvæntingar séu hærri sem síðan hljóti að leiða til hærri nafnvaxta. Jafnframt hefur því verið haldið fram að sparnaðarvilji sé fremur lítill meðal almennings og því þurfi tiltölulega hátt raunvaxtastig til þess að halda innlendri eftirspurn í skefjum á uppsveiflutímum. Þessi sögulegu rök eru í sjálfu sér góð og gild.

Breyttir tímar

En nú er ljóst að einkaneysla hefur aukist hægar en vöxtur ráðstöfunartekna, samhliða að skuldir heimila hafa lækkað sem hluti af landsframleiðslu.

Og að staðan er sú að verðbólga og verðbólguvæntingar hafa verið undir skilgreindum markmiðum Seðlabankans nú á fjórða ár og hagkerfið er gjörbreytt frá því sem áður var. Við erum í raun orðin að útflytjendum á fjármagni.

Hvað þýða háir vextir?

Háir vextir ýta undir ójöfnuð hér á landi. Heimilin borga stærri hlut ráðstöfunartekna sinna til fjármálageirans í formi vaxta. Þeir sem fjármagnið eiga hagnast sem aldrei fyrr – og bilið breikkar milli þeirra sem eiga og hinna sem greiða. Þá verða fjárfestingar mun dýrari fyrir fyrirtækin og atvinnulífið minna samkeppnishæft við erlend fyrirtæki og þar með innflutning.

Háir vextir sem leiða til vaxtamunaviðskipta eru í eðli sínu óstöðug atvinnugrein innan hagkerfisins og valda óþarfa þrýstingi á krónuna.

Ekki er eftirsóknarvert að bjóða erlendum fjárfestum upp á hærri vexti ef tilgangur þeirra er aðeins skammtímagróði. Viðvarandi gjaldeyrisinnstreymi vegna ferðamanna er eitt, en skammtíma innflæði vegna vaxtamunar er allt annað og mun verra ef stýringin er ekki rétt. Ástæðan er sú að allt í einu geta fjárfestar tekið ákvörð­ un um að hæstu hæðum krónunnar sé náð, farið út með sitt fé, allir í einu og afleiðingin er gamalkunn; gengið fellur og verðbólgudraugurinn rankar við sér.

Afleiðing hárra vaxta verður einnig til þess að innlendir fjárfestar, s.s. lífeyrissjóðir þora ekki að fjárfesta erlendis. Einn daginn geta þeir ekki beðið lengur– allir fara út í einu – enginn vill vera síðastur – afleiðingin er þekkt!

Það sem þarf að gera

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans þurfa að beinast að því að jafna sveiflur og laga galla. Fjármagnið sem kemur inn þarf að vera eftirsóknarvert og lífeyrissjóðirnir þurfa að sjá ávinning í því að dreifa áhættunni með því að nýta sér kaup á erlendum eignum.

Til að spyrna á móti háu vaxtastigi og fyrirbyggja skaðleg áhrif sterks gengis á útflutningsatvinnugreinarnar þá þarf að halda áfram að byggja upp gjaldeyrisforða. Seðlabankinn hefur ekki getað rökstutt með skýrum hætti hvers vegna reglubundnum gjaldeyriskaupum var hætt og kom sú tilkynning nokkuð á óvart að ekki væri talin þörf fyrir frekari stækkun forðans. Þess í stað keypti Seðlabankinn krónur sem var líka nokkuð óvænt.

Á sama hátt er brýnt að byggja upp stöðugleikasjóð með það að markmiði að hjálpa til við efnahagslegan stöðugleika.

Vaxtamunaviðskipti er of áhættusöm atvinnugrein og leið­ir til meira ójafnvægis en hagkerfið ræður við. Þess vegna þarf að lækka vexti. Seðlabankinn hefur tækifæri til að bregðast við 23. ágúst næstkomandi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 20. júlí 2017.

Categories
Greinar

Vitlaust gefið

Deila grein

20/07/2017

Vitlaust gefið

Heilbrigðisþjónustunni á Suðurnesjum er ábótavant. Það er staðreynd sem íbúum hér er vel kunn. Nýleg úttekt Landlæknis á starfseminni staðfestir þetta. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur mætt afgangi í kerfinu um árabil. Suðurnesin eru öflugt og ört vaxandi samfélag sem tekur einnig á móti miklum fjölda ferðamanna á ári hverju. Við þurfum því að tryggja rekstur HSS til framtíðar.

HSS fær næstminnst úr ríkissjóði
Í Víkurfréttum birtist nýlega grein frá hjúkrunarráði HSS. Greinin bar heitið: „Nú þurfa allir að taka á honum stóra sínum“. Undirrituð taka heilshugar undir það. Í grein hjúkrunarráðs var farið yfir nokkrar afar mikilvægar staðreyndir er varða stöðu HSS, eins og til dæmis að Slysa- og bráðamóttaka HSS er með minnstu mönnun miðað við aðrar stofnanir á landinu þrátt fyrir að vera ein af þremur stærstu slysa- og bráðamóttökum landsins. Deildarstjórar Slysa- og bráðamóttöku HSS rituðu einnig grein í VF þar sem þær draga fram það misræmi sem er á milli úthlutunar ríkisfjár til heilbrigðisstofnanna. Þar fer HSS verulega halloka en samkvæmt  skýrslu Ríkisendurskoðun (mars 2016) kom fram að HSS fékk næst minnst allra heilbrigðisstofnana landsins eða tæpa 2,5 milljarða, Heilbrigðisstofnun Norðurlands fékk 4,7 milljarða sem er svipað og Suðurland fékk. Eina stofnunin sem fékk minna en við voru Vestfirðirnir með tæpa 2 milljarða en Vestfirðirnir eru talsvert minna samfélag en Suðurnesin. HSS tekur á móti svipuðum fjölda sjúklinga og bráðamóttakan á Akureyri.

Starfsfólk þarf að hlaupa hraðar
Í nýlegri rannsókn kemur m.a. að aukning í komum á erlendum ferðamönnum á bráðamóttöku HSS hefur aukist um 344% milli áranna 2005 og 2016. Aðrir þættir hafa líka áhrif, eins og gríðarleg fjölgun íbúa á Suðurnesjum og fjölgun hælisleitenda. Margir íbúar Ásbrúar eru hér tímabundið og eru því ekki skráðir með lögheimili hér en fá samt sem áður þjónustu hjá HSS. Auðvitað þarf að taka slíka þætti með í dæmið þegar fé er úthlutað til reksturs. Þrátt fyrir þessa fjölgun þjónustuþega hefur mönnun á vaktir ekki aukist. Eftir miðnætti er t.d. enginn hjúkrunarfræðingur á vakt á slysa- og bráðamóttökunni, aðeins einn læknir. Um helgar er enn styttri vöktun en þá er enginn hjúkrunarfræðingur á slysa- og bráðamóttöku í 16 klukkustundir af 24. Þessi þjónusta er ekki boðleg fyrir samfélag sem telur ríflega 20 þúsund íbúa auk þess að hér er staðsett alþjóðleg flugstöð og mest sótti ferðamannastaður landsins, Bláa lónið. Þetta álag er heldur ekki boðlegt fyrir starfsfólk HSS sem gerir sitt allra besta tili að hlúa að veikum og slösuðum alla daga, allt árið.

Tryggjum sanngjarnari skiptingu fjármagns
Ástandið á HSS er því miður lýsandi fyrir heilbrigðiskerfið okkar að mörgu leyti. Það hefur þróast en þó ekki verið gerð heildstæð stefnumótun fyrir kerfið til langs tíma. Heilbrigðiskerfið virðist stundum lifa sjálfstæðu lífi og fjármagni útdeilt eftir því hvernig vindar blása þann daginn. Þessu viljum við Framsóknarmenn breyta og gerðum að forgangsmáli okkar á síðasta þingi að gerð yrði heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Málið var samþykkt á vordögum og nú stendur yfir vinna í heilbrigðisráðuneytinu sem við fáum fregnir af frá ráðherra á haustdögum.

Hvað felst í heilbrigðisáætlun?
Áætlunin gengur m.a. út á að fé verði úthlutað til stofnana með markvissum hætti og tekið tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, forvarna og lýðheilsu og umfangi ferðamannastaða, svo eitthvað sé nefnt. Skilgreint verði hvaða þjónustu eigi að veita á Landspítalanum, hvaða þjónustu eigi að veita á heilbrigðisstofnunum víða um landið og hvaða þjónustu einkaaðilar eigi að hafa möguleika til að sinna og hvort það sé hagkvæmt og æskilegt. Í áætluninni skal koma fram hvort og hvaða sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala. Við gerð heilbrigðisáætlunar verði haft samráð við fagfólk víðs vegar af landinu, helstu hagsmunaaðila og notendur. Að lokum er skýrt kveðið á um að fjármálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið komi að vinnu heilbrigðisáætlunar til að tryggja fjármagn til málaflokksins og menntun fagfólks í heilbrigðisgreinum.

Heildstætt kerfi og jafnræði
Tölurnar sýna okkur það svart á hvítu að það er ekki rétt gefið. Því þarf að bregðast við strax en fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir 2018 verður lögð fyrir þingið í september. Heilbrigðisáætlunin er verkefni sem mun til lengri tíma tryggja aukið jafnræði á milli stofnana og að heilbrigðiskerfið okkar sé byggt markvisst upp og horft til allra þátta þess.

Silja Dögg Gunnarsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Víkurfréttum 20. júlí 2017.