Categories
Greinar

19. júní – „betur má ef duga skal“

Deila grein

19/06/2015

19. júní – „betur má ef duga skal“

Anna-Kolbrun-ArnadottirÞað er við hæfi að líta um öxl á þessum degi. Árið 1911 samþykkti Alþingi með miklum meirihluta frumvarp Hannesar Hafsteins um algert jafnrétti kynjanna til skólagöngu, námsstyrkja og embætta. Árið 1915, 19. júní, staðfesti konungur stjórnarskrána með réttindum kvenna, sem þær síðan hafa haft. Þessu ber að fagna og minnast, jafnvel 100 árum seinna. Við fögnum þessu í dag með hátíðarhöldum um allt land. En áfram þarf að vinna, það er ljóst að með jöfnum rétti kynja til skólagöngu var lagður grunnurinn að því jafnrétti sem við þekkjum hér á landi en það var og er ekki sjálfgefið.

Ísland er vissulega í fararbroddi á sviði jafnréttismála í alþjóðlegum samanburði, en betur má ef duga skal. Það eru enn verkefni sem við þurfum að vinna að eins og áður sagði, huga þarf að réttindum kvenna jafnt innan lands og utan. Launamunur kynjanna er enn til staðar hér á landi þó vísbendingar gefi nú til kynna að hann dragist saman. Einnig þarf að stuðla að og efla jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Við þurfum áfram að beita öllum hugsanlegum ráðum til þess að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, það á aldrei að líðast.

Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur dæmi sem okkur ber að halda áfram að vinna að og það er mikilvægt að við hugum að jafnrétti á hverjum degi og minnumst þess jafnframt að samtakamáttur kvenna var og er mikill. Við megum ekki gleyma því að þegar konur komu saman á Austurvelli 1915 til að fagna kosningaréttinum var ákveðið að reisa spítala, ákvörðun sem velkst hafði fyrir körlum á Alþingi í mörg ár. Konur tóku málið að sér, hófu fjáröflun og Landsspítali reis.

Kæru konur um leið og við minnumst afreka innanlands er gott að við hugum einnig að konum utan landsteinanna, barnungar stúlkur eru enn þvingaðar í hjónabönd, umskurður kvenna viðgengst víða, stúlkum er meinaður aðgangur að menntun og eru jafnvel skotnar í höfuðið ef þær ákveða að sækja sér menntun þrátt fyrir augljósa hættu. Á þessum degi sem og aðra daga eigum við því einnig að sýna kynsystrum okkar stuðning hvar sem þær eru í heiminum.

Innilega til hamingu með daginn – höldum áfram að vera þær fyrirmyndir sem formæður okkar allra voru.

Anna Kolbrún Árnadóttir,
Formaður Landssambands Framsóknarkvenna.

Categories
Greinar

Afnám hafta skiptir okkur öll máli

Deila grein

18/06/2015

Afnám hafta skiptir okkur öll máli

ÞórunnElsa-Lara-mynd01-vefurAðgerðaáætlun um afnám fjármagnshafta hefur nú litið dagsins ljós. Um er að ræða heildstæða lausn sem setur hagsmuni almennings í forgang og byggjast aðgerðirnar upp á gagnsæi og viðurkenndri aðferðafræði.

Gríðarleg vinna hefur farið í undirbúning á þessu stóra og mikilvæga máli, sem skiptir öll heimili landsins miklu máli. Það er nú svo að allir Íslendingar tóku á sig verulegan skell í efnahagshruninu og þungar byrðar voru lagðar á landsmenn alla. Þess vegna er afar ánægjulegt að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur nú kynnt aðgerðir, sem eiga að tryggja að sú kollsteypa sem allir urðu fyrir, endurtaki sig ekki. Það verða ekki lagðar frekari byrðar á landsmenn vegna hafta.

Aðeins um tölur
Samkvæmt aðgerðaáætluninni hafa slitabú gömlu bankanna tvo möguleika til að koma sér út úr höftum. Annars vegar er um að ræða stöðugleikaframlag, en þá hafa slitabúin frest til ársloka 2015 til að uppfylla stöðugleikaskilyrðin. Ef slitabúin uppfylla ekki skilyrðin fyrir árslok verður lagður á þau stöðugleikaskattur. Skatturinn nemur 39% af heildareignum slitabúana og álagning fer fram hinn 15. apríl 2016. Skatturinn skal vera að fullu greiddur um mitt sama ár. Sama hvor leiðin verður farin er niðurstaðan sú sama fyrir þjóðarbúið: Losun hafta hefur ekki neikvæð áhrif á efnahagslífið og lífskjör almennings í landinu.

Áhrif á ríkissjóð
Nauðsynlegt er að lækka skuldir ríkissjóðs og ná niður þeim gríðarlega vaxtakostnaði sem greiða þarf á hverju ári. Vaxtagjöld ríkissjóðs fyrir þetta ár eru 77 milljarðar. Þessi fjárlagaliður er einn stærsti útgjaldaliður fjárlaga. Batnandi hagur ríkissjóðs mun birtast í batnandi hag almennings í landinu. Með lægri skuldum mun svigrúm aukast í ríkisfjármálum. Það getur orðið til þess að við höfum meiri möguleika en áður til að byggja upp okkar mikilvægu innviði og bæta grunnþjónustu samfélagsins. Aðalatriðið er að það verði gert í samræmi við ábyrga ríkisfjármálastefnu. Það er það sem skiptir öllu máli fyrir Íslendinga.

Svigrúmið sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson talaði einn flokksformanna um í kosningabaráttunni árið 2015 er svo sannarlega til staðar. Það er 850 milljarðar.

Þórunn Egilsdóttir og Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. júní 2015.

Categories
Greinar

Vel gert!

Deila grein

16/06/2015

Vel gert!

Silja-Dogg-mynd01-vefPállGeir H. Haarde blessaði Ísland í frægri ræðu í sjónvarpssal þann 6. október árið 2008. Í ræðunni lýsti hann þeim efnahagserfiðleikum sem Ísland stóð frammi fyrir. Sama dag lagði hann fram frumvarp að neyðarlögum á Alþingi. Atburðarásin sem eftir fylgdi var ævintýraleg. Á Austurvelli loguðu eldar. Uppreisn fólksins og bylting. Á þessum miklu umbrotatímum í sögu þjóðarinnar tók Sigmundur Davíð Gunnlaugsson við sem formaður Framsóknarflokksins.

Framsókn er flokkur heimilanna
Eftir að Geir H. Haarde baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt 26. janúar 2009 mynduðu vinstri flokkarnir minnihlutastjórn sem tók við völdum sex dögum síðar, þann 1. febrúar, og varði Framsóknarflokkurinn hana vantrausti. Framsókn setti fram þrjú skilyrði fyrir því að verja ríkisstjórnina falli. Þau voru að efna til stjórnlagaþings síðsumars 2009, að boðað yrði til þingkosninga í síðasta lagi 25. apríl 2009 og síðast en ekki síst að ráðist verði í miklar aðgerðir til hjálpar heimilum og fyrirtækjum í landinu. Síðasta loforðið sveik vinstri stjórnin. Skjaldborginni var slegið upp í kringum fjármálafyrirtækin, ekki heimilin. Íslenskum heimilum blæddi á meðan. Hlegið var að tillögum Framsóknar um 20% niðurfærslu stökkbreyttra húsnæðislána. Fyrirtækin réru lífróður og fólk missti vinnuna. Kaupmáttarskerðingin var gríðarleg og eignir brunnu upp. Það má ekki gleyma því að sumir þessara aðila hafa aldrei beðið þess bætur.

Þrennan
Vinstri stjórnin vildi samþykkja Icesave-samningana sem hefðu orðið til þess að núverandi og næstu kynslóðir Íslendinga tækju á sig gríðarlegar fjárhagslegar byrðar í erlendum gjaldeyri sem þjóðarbúið réð engan veginn við. Framsókn barðist gegn því og hafði sigur. Það var svo sannarlega kosið til þings að nýju vorið 2013 og þá vann Framsókn kosningasigur. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur leitt ríkisstjórnina sl. tvö ár með góðum árangri. Húsnæðislán heimilanna hafa verið leiðrétt og nú liggur fyrir áætlun um losun hafta. Forystumenn Samfylkingarinnar létu hafa eftir sér að þeir teldu nánast ómögulegt að afnema höftin án upptöku evru. Svo er ekki. Sú áætlun sem nú liggur fyrir er vel unnin og flestir sem hafa tjáð sig um hana hafa lýst ánægju sinni og telja hana betri en menn þorðu að vona.

Lækka skuldir ríkissjóðs
Ríkir almannahagsmunir liggja að baki afnámsáætlun stjórnvalda en hún byggist á gagnsæi og viðurkenndri aðferðafræði. Lausnin byggist á jafnræði, virðir lög og alþjóðlegar skuldbindingar. Hún stuðlar jafnframt að því að gengi krónunnar endurspegli raunhagkerfið eftir losun hafta. Í dag er ríkissjóður að greiða um 80 milljarða í vexti á ári en með þessari aðgerð gæti vaxtagreiðsla ríkisins lækkað um ca 35 til 40 milljarða sem samsvarar um 75% af rekstrarkostnaði Landspítalans.

Haftaafnámsferlið er grundvallað á hagsmunum heimilanna og fyrirtækja enda er það skilyrði aðgerðanna að raunhagkerfið taki ekki út frekari aðlögun en þegar er orðin. Svigrúmið er til staðar og það verður nýtt til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, öllum landsmönnum til heilla. Nánari upplýsingar um afnám hafta má finna á vef fjármálaráðuneytisins.

Silja Dögg Gunnarsdóttir og Páll Jóhann Pálsson

Greinin birtist í DV 12. júní 2015.

Categories
Greinar

Hugmynd sett í framkvæmd – stóru orðin standa

Deila grein

16/06/2015

Hugmynd sett í framkvæmd – stóru orðin standa

Hjálmar Bogi HafliðasonÞað er draumur hvers manns að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Öll fáum við hugmyndir sem okkur langar til að verði að veruleika en aðeins brot af öllum þeim birtist okkur í raunveruleikanum. Allir stjórnmálamenn eiga sér drauma og setja þá fram í von um fylgi við málstað sinn. Eitt er að setja fram hugmynd og eiga drauma en hitt að sjá málstað sinn verða að veruleika.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við völdum fyrir tveimur árum og ljóst að margt hefur áunnist á þeim tíma, unnið að öðru og ýmislegt sem betur mátti fara. Það breytir því ekki að einu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar hefur verið hrint í framkvæmd og til stendur losun gjaldeyrishafta. Slíkt var draumur og hugmyndir margra stjórnmálamanna.

Stór orð um losun gjaldeyrishafta féllu fyrir alþingiskosningar árið 2013. Þau orð standa. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hefur komið hugmyndum margra stjórnmálamanna og draum annarra í framkvæmd. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hyggst verja hagsmuni þjóðarinnar með hagsmuni allra að leiðarljósi en ekki sérhagsmuni. Hótun um stöðugleikaskatt tryggir stöðu stjórnvalda og þrýstir á kröfuhafa að fallast á skilyrði stjórnvalda. Þessi leið er skynsamleg og leiðir til jafnvægis í kerfinu. Leið sem á sér ekki fordæmi í samtímanum og út fyrir hefðbundnar leiðir í efnahagsmálum. Sigmundur Davíð forsætisráðherra reynist því maður orða sinna, stóru orðanna sem aðra stjórnmálamenn dreymdi og höfðu hugmyndir um. Stóru orðin standa sama hvaða skoðun og viðhorf fólk hefur.

Þessi áætlun felur í sér mikil tímamót og eftir mikla vinnu forsætis- og fjármálaráðuneytis, Seðlabanka Íslands og ýmissa sérfræðinga hefur henni verið hrint í framkvæmd.

Hjálmar Bogi Hafliðason

Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. júní 2015.

Categories
Greinar

Vilji og staðfesta

Deila grein

15/06/2015

Vilji og staðfesta

SIJAfnám hafta er farið af stað. Ítarleg útfærsla á aðgerðunum var kynnt þann 8. júní síðastliðinn og óhætt að segja að viðbrögðin við þeirri kynningu hafi verið mikil og góð. Allt frá árinu 2009 hefur Framsóknarflokkurinn barist fyrir hagsmunum almennings og þjóðarinnar í heild. Þar hefur réttlæti og sanngirni spilað stórt hlutverk hjá flokknum. Eftir að síðasta ríkisstjórn tilkynnti að meira ætti ekki að gera fyrir heimilin í landinu var nóg komið. Sigmundur Davíð talaði alltaf um að svigrúm myndi skapast við afnám hafta og að leita þyrfti allra leiða til að hámarka það svigrúm, almenningi og þjóðinni til heilla.

Framsóknarfólk fékk svo sannarlega að heyra það í aðdraganda síðustu kosninga, bæði þegar talað var um leiðréttingu á skuldum heimilanna og glímuna við kröfuhafa föllnu bankanna. Ýmis orð voru notuð, sem ekki verða höfð hér eftir, til að lýsa því hversu fráleitur málflutningur flokksins var. Nú hefur það heldur betur komið í ljós að full innistæða var fyrir loforðum Framsóknarflokksins. Það hefur flokkurinn einfaldlega sýnt í framkvæmd það sem af er kjörtímabilinu.

Málflutningurinn skýr frá upphafi
Sigmundur Davíð, formaður Framsóknarflokksins, mætti í þáttinn Forystusætið á RÚV fyrir kosningarnar 2013. Þar spurðu fréttamenn hann ítrekað hvernig Framsóknarflokkurinn gæti leyft sér að tala með allt öðrum hætti en aðrir flokkar sem í framboði voru til þings, með öðrum hætti en fjölmargir sérfræðingar, fræðimenn og aðrir og lofa einhverju sem ekki væri fast í hendi. Þar svaraði formaðurinn því til að málið væri í raun og veru mjög einfalt og skýrt. Ríkið hefði öll þau tæki sem þyrfti til að ná fram þeirri niðurstöðu sem væri ásættanleg fyrir Ísland.

Næst sagði annar fréttamaður þáttarins formanninn vera að lofa því að á næstu fjórum árum myndi þetta svigrúm skapast, upp á 300 milljarða króna. Fréttamennirnir sögðu aðra flokka ekki hafa talað með þetta afdráttarlausum hætti eins og Framsóknarflokkurinn gerði á þessum tíma. Sigmundur Davíð sagði að ef menn hefðu viljann og væru fastir fyrir, hefði ríkið öll þau tæki sem þyrfti til þess að þrýsta enn frekar á samninga. Þessi málflutningur Framsóknarflokksins fyrir kosningar 2013 er nákvæmlega í takt við þá leið sem nú hefur verið boðuð af ríkisstjórninni við afnám hafta, orð hans fyrir tveimur árum lýsa einmitt því sem er að eiga sér stað með áætlun ríkisstjórnarinnar í dag.

Höldum áfram veginn
Gjaldþrot bankanna þriggja á Íslandi var eitt það stærsta í heiminum. Ríkissjóður hefur verið gríðarlega skuldsettur frá efnahagshruni og hefur sú staða hamlað ýmsum mikilvægum framkvæmdum. Nauðsynlegt er að nota fjármunina til að greiða niður skuldir við Seðlabanka Íslands og ríkið. Slík niðurgreiðsla gæti lækkað skuldir ríkisins um tugi prósenta og jafnframt sparað ríkinu vaxtagreiðslur um tugi milljarða á ári. Það sjá allir að þeim fjármunum er betur varið í aðra hluti. Með þessum aðgerðum er verið að tryggja hagsmuni almennings á Íslandi til framtíðar. Til hamingju með áfangann!

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. júní 2015.

Categories
Greinar

Unnið gegn ofbeldi

Deila grein

11/06/2015

Unnið gegn ofbeldi

EÞHBrýnt er að vinna gegn ofbeldi í íslensku samfélagi. Innan stjórnsýslunnar höfum við innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra tekið höndum saman um að vinna gegn ofbeldi og niðurbrjótandi áhrifum þess, auka fræðslu og forvarnarstarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála. Einnig verður efnt til samráðs á landsvísu milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis og lögreglu og ákæruvalds undir forystu ráðuneyta okkar þriggja og undirbúin aðgerðaáætlun til fjögurra ára gegn ofbeldi í samfélaginu. Samstarfið mun aðallega ná til ofbeldis gegn börnum, ofbeldis í nánum samböndum, kynferðislegs, andlegs og líkamlegs ofbeldis og ofbeldis gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Jafnframt mun vinnan taka til þess sem telst hatursfull orðræða sem hvetur til ofbeldis eða annarrar refsiverðrar háttsemi sem er lítillækkandi eða ógnandi í garð einstaklinga eða hópa fólks, svo sem vegna þjóðernis, kynþáttar, trúar, fötlunar, kynhneigðar eða kyns.

Samráð við lögreglu og ákæruvald
Að undanförnu hef ég átt góða samráðsfundi með ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóranum og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu sem allir eru mjög áhugasamir um að ná betri árangri með auknu samráði. Nýleg skýrsla ríkislögreglustjóra endurspeglar þetta en þar er m.a. lögð áhersla á að myndaður verði samráðsvettvangur lögreglu, félagsþjónustu og heilbrigðisyfirvalda til að auka öryggi í samfélaginu. Frumkvæðið sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið með auknu samstarfi gegn ofbeldi, fyrst á Suðurnesjunum og nú höfuðborgarsvæðinu, er einnig mikilvægt og hefur sannað sig.

Beauty tips
Opinber umræða um kynferðisofbeldi hefur aukist og nú síðast vegna Facebook-hópsins Beauty tips. Þar hafa þolendur hafnað þöggun og sagt sögu sína. Þolendur ofbeldis, sem oftast eru konur, þurfa á stuðningi að halda. Velferðarráðuneytið hefur veitt fé sem fjármagnar stöðu sálfræðinga við Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítalann. Sá stuðningur beinist sérstaklega að því að veita fórnarlömbum ofbeldis um allt land meðferð og stuðning. Ráðuneytið ákvað einnig nýlega að veita viðbótarframlag til meðferðarúrræðisins Karlar til ábyrgðar. Úrræðið er sérhæft fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum, en var nýlega útvíkkað og stendur einnig konum til boða. Með samstilltu átaki má ná betri árangri í baráttunni gegn ofbeldi í íslensku samfélagi.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 11. júní 2015.

Categories
Greinar

Frumskylda að verja lífskjör almennings

Deila grein

10/06/2015

Frumskylda að verja lífskjör almennings

ÞórunnVilllumFrumskylda stjórnvalda er að verja þjóðarhagsmuni og huga að hagsmunum heildarinnar.

Framsóknarflokkurinn var eini flokkurinn sem þorði að taka afgerandi afstöðu og lýsa því yfir í aðdraganda kosninga að hægt væri að fara þá leið sem boðuð hefur verið við losun hafta. „Ríkið hefur tækin sem þarf til þess að ná þeirri niðurstöðu sem er ásættanleg fyrir Ísland,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson meðal annars þegar hann svaraði fréttamönnum fyrir kosningar hvers vegna hann gæti einn haldið þessu fram. Enginn annar flokkur taldi sig geta skapað þetta svigrúm.

Afnám hafta er mikilvægasta verkefni ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og lýtur allt að því að gæta hagsmuna íslenskra heimila, verja efnahagslegan stöðugleika og byggja þjóðfélagið upp til framtíðar. Lagður er grunnur að betri afkomu sem hefur víðtæk áhrif án þess að raska efnahagslegum stöðugleika. Bjartari horfur eru framundan.

Í kjölfar hruns íslenska fjármálakerfisins tók þorri Íslendinga á sig verulegan skell vegna gengisfalls íslensku krónunnar og kaupmáttarskerðingu í framhaldi af því. Þjóðin mun ekki taka á sig frekari byrðar því markmið aðgerða stjórnvalda er að kollsteypan sem hér varð endurtaki sig ekki. Sú kollsteypa er ekki valkostur.

Stöðugleikinn er stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. Ráðist er að rót vandans til verndar raunhagkerfinu og efnahagslegri velferð almennings á Íslandi. Áætlun stjórnvalda nú við losun hafta boðar lausn á greiðslujafnaðarvanda þjóðarbúsins án þess að ógna efnahagslegum stöðugleika.

Stöðugleikaskilyrði og stöðugleikaskattur skapa ramma til þess að hægt sé að mæta kröfum íslensku þjóðarinnar. Árlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs munu lækka um tugi milljarða króna á ári. Aðgerðirnar eru forsenda þess að hægt verður að losa höftin, skapa svigrúm til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og tryggja hagsmuni almennings til framtíðar.

Afnám fjármagnshafta er mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar. Það hagsmunamál er í góðum höndum.

Þórunn Egilsdóttir og Willum Þór Þórsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. júní 2015.

Categories
Greinar

Afnám hafta er hafið

Deila grein

09/06/2015

Afnám hafta er hafið

GBSFyrir síðustu kosningar voru tvö af helstu kosningamálum Framsóknarflokksins að leiðrétta fasteignaskuldir heimilanna og aflétta höftum þannig að svigrúm skapaðist til að verja og bæta efnahagslega stöðu landsmanna.

Sigmundur Davíð hefur ætíð haldið því fram að svigrúmið væri til staðar en að leita þyrfti allra leiða til að hámarka það og ekki gefa neina afslætti. Nú er þetta orðið staðreynd. Ekki er um að ræða 300 milljarða, heldur hátt í 1.000 milljarða króna sem þetta svigrúm mun reynast.

Vandinn í sinni einföldustu mynd er að í slitabúum föllnu fjármálafyrirtækjanna eru gríðarlegar eignir. Þessar eignir vilja eigendur þeirra flytja úr landi í formi gjaldeyris. Á Íslandi er ekki til nægur gjaldeyrir til að þessir 1.200 milljarðar (erlenda snjóhengjan) geti farið úr landi.

Áætlun stjórnvalda tryggir að almenningur á Íslandi og íslensk fyrirtæki munu ekki bera auknar byrðar enda er nóg komið. Aðgerðirnar miða að því að koma í veg fyrir hrun íslensku krónunnar og þar með aðra kollsteypu með auknum byrðum á samfélagið. Áætlunin felur því í sér heildstæðar aðgerðir til að taka á vandanum í áföngum, án þess að jafnvægi í hagkerfinu verði raskað og án þess að ríkissjóður eða almenningur taki á sig auknar fjárhagslegar byrðar.

Verið er að leysa risavaxinn vanda sem skapaðist með einu stærsta gjaldþroti heimssögunnar þegar bankarnir þrír féllu. Það að leysa slíkt er almennt erfitt, hvað þá innan eins minnsta hagkerfis Evrópu. Skuldir fjármálakerfisins eru rót vandans og kölluðu á höftin.

Til að klára þetta mál þurfti kjark, gott fólk og trú á að verkefnið tækist. Það þurfti að horfa út fyrir boxið og á endanum varð til leið sem ekki hefur áður verið farin. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafði trú á verkefninu, skildi mikilvægi þess fyrir íslenskt samfélag og nú sjáum við fyrstu skrefin að nýjum tímum tekin.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 9. júní 2015.

Categories
Greinar

Tækifæri vegna styttingar meðalnámstíma til stúdentsprófs

Deila grein

29/05/2015

Tækifæri vegna styttingar meðalnámstíma til stúdentsprófs

líneikÞað er fagnaðarefni hversu góður árangur er að nást við að stytta meðalnámstíma til stúdentsprófs úr 4 árum í 3. Það er löngu tímabært því í allt of mörg ár hefur tími margra nemenda farið í að endurtaka námsefni á mörkum skólastiga. Breytingin sem verður við styttingu meðalnámstíma á ekki að draga úr sveigjanleika í námstíma eða námi. Í breytingunni felast þvert á móti tækifæri til að auka á einstaklingsmiðun og möguleika nemenda til að stýra sínum hraða, jafnframt því að tryggja námsleiðir fyrir alla.

Það er ljóst að við stöndum á tímamótum sem birtist m.a. í að nemendum á framhaldsskólastigi fækkar, bæði vegna styttingar námstíma og fækkunar fólks á framhaldsskólaaldri.  Á þessum tímamótum eigum við að nýta tækifærið til að styrkja skólastarf með hagsmuni nemenda í fyrirrúmi. Í nokkrum skólum á landsbyggðinni er fyrirsjáanlegt að nemendafjöldi fari niður fyrir þá stærð sem okkur er tamt að líta á sem lágmarks stærð framhaldsskóla.

Sameining er ekki eina leiðin

Gjarnan hefur verið litið á sameiningu skóla sem einu mögulegu viðbrögðin við mikilli fækkun nemenda.  Sameining er hins vegar ekki almenna lausnin á verkefninu sem við blasir. Minnstu skólarnir á landsbyggðinni hafa á síðustu árum þróað dreifnám, kennslu þar sem sérhæfður kennari á einum stað sér um kennslu í fleiri en einum skóla. Uppúr því er sprottinn Fjarmenntaskólinn, skóli sem eykur möguleika minni skólanna til að bjóða fjölbreytt nám og þar eru einnig ýmsar starfsnámsbrautir í boði s.s sjúkra- og félagsliðanám.  Margir af stærri framhaldsskólum landsins bjóða upp á öflugt dreifnám bæði sumar og vetur. Þá er töluvert um að minni grunnskólar á landsbyggðinni nýti dreifnám til að auka valkosti eldri nemenda sem eru tilbúnir að hefja framhaldsskólanám áður en grunnskóla lýkur.  Á grunnskólastigi hefur verið boðið upp á dreifnám fyrir tvítyngda nemendur í móðurmáli en fjölga þyrfti tungumálum í boði.

Möguleikana sem felast í dreifnámi má nýta enn betur til að auka sveigjanleika og einstaklingsmiðun náms. Við höfum ekki efni á öðru í dreifbýlu landi. Gæði dreifnáms geta vissulega verið misjöfn ekki síður en staðbundins nám, en á síðustu 20 árum hefur safnast upp mikil þekking og reynsla auk þess sem tækninni fleygir stöðugt fram.  Við verðum að byggja ofan á þessa reynslu, setja skýr markmið og gera kröfur um gæði.

Samstaf ólíkra aðila

Á þéttbýlli svæðum gætu skapast tækifæri til sameiningar skóla, en á dreifbýlli svæðum þarf að horfa til annars konar samstarfs og þá ekki eingöngu við aðra framhaldsskóla, s.s. við grunnskóla, skólaskrifstofur, símenntunarmiðstöðvar, þekkingarsetur, vinnumiðlanir, starfsendurhæfingu eða heilbrigðisstofnanir.  Það getur vissulega verðir flóknara að koma á samstarfi ólíkra stofnanna og málaflokka.  Slíkt samstarf getur krafist þess að stofnanir sem heyra undir mismunandi ráðuneyti og sveitarfélög þurfi að vinna saman, en það er úrlausnarefni sem þarf að nálgast með opnum huga.

Skynsamleg nálgun væri að horfa á hvaða stofnanir á svæðinu þurfa á tiltekinni þekkingu að halda, s.s. þekkingu námsráðgjafa eða sálfræðings. Í kjölfarið væri hægt að móta aðlaðandi starf og starfsaðstöðu í samstarfi nokkurra stofnana, til að þekkingin yrði til staðar innan samfélagins þrátt fyrir að ekki sé grundvöllur fyrir fullu starfi í hverri stofnun. Með þeim hætti yrði til starf á svæðinu í stað þess að þjónustunni yrði sinnt frá stærri stofnunum í landshlutanum eða jafnvel miðlægri stofnun utan hans.

Það er líka tímabært að taka umræðuna um meira samstarf grunnskóla og framhaldsskóla, samnýtingu stoðþjónustu og kennara.  Nú þegar tilteknir námsþættir sem áður voru á framhaldsskólastigi eru komnir í grunnskólann ættu kennarar að geta unnið á báðum skólastigum eins og nemendur.

Samráð en ekki valdboð

Við val á leiðum sem henta mismunandi skólastofnunum þarf að virkja sem flesta og þar ætti menntamálaráðuneytið, sem ber ábyrgð á málflokknum, að vera leiðandi.

Samráð á ekki að byggja á fundum þar sem fulltrúar yfirvalda mæta og viðra sínar hugmyndir, samráð snýst um að hagsmunaðilum sé falið að koma með tillögur til úrlausnar á verkefninu sem fyrir liggur.  Yfirvöld þurfa svo að taka við tillögunum og vinna með þær og velja leiðir sem síðan eru unnar áfram í samstarfi.  Í framhaldsskólalögum er aðkoma hagsmunaaðila  tryggð í gegnum skólanefndir, skólaráð, foreldraráð og nemendafélög, auk þess er hlutverk sveitarfélaga og stjórnmálmanna mikilvægt.

Samráð þarf snúast um möguleikana í stöðunni og sameiginlega framtíðarsýn en má ekki verða einstefna hugmynda.

Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í DV 29. maí 2015.

Categories
Greinar

Verðmæti kortlögð

Deila grein

27/05/2015

Verðmæti kortlögð

sigrunmagnusdottir-vefmyndÍ sumar eins og undanfarin ár verða Íslendingar gestgjafar þúsunda erlendra ferðamanna. Það er ánægjulegt að svo margir óski eftir því að sækja Ísland heim en ljóst er að stöðug auking ferðamanna hingað til lands kallar á auknar framkvæmdir til uppbyggingar og verndar náttúru á fjölsóttum og viðkvæmum stöðum. Íslensk náttúra er undirstaða ferðaþjónustunnar og slík auðlind á á hættu á að vera ofnýtt ef átroðningur um einstaka svæði verður of mikill. Ímynd Íslands og orðspor má ekki skaðast. Ábyrgðin er okkar allra og ekki síst þeirra sem njóta.

Langtímastefna í innviðafrumvarpi
Í gær samþykkti ríkisstjórnin 850 milljóna króna framlag til framkvæmda strax í sumar á ferðamannastöðum sem eru í eigu eða umsjón ríkisins. Unnið hefur verið að því í viðkomandi ráðuneytum og stofnunum að kortleggja álagið á landið og forgangsraða bráðaaðgerðum til uppbyggingar á innviðum viðkvæmra ferðamannastaða. Þótt slík átaksverkefni séu góðra gjalda verð er ekki síður mikilvægt að móta stefnu til langtíma. Í frumvarpi sem ég mælti fyrir á Alþingi á mínum fyrstu dögum í embætti er kveðið á um gerð heildstæðrar áætlunar um verndaraðgerðir sem tekur á skipulagi og framtíðarstefnu á ferðamannasvæðum. Afar brýnt er að taka málið föstum tökum en því miður höfum við ekki náð að byggja upp svæði í takt við mikla aukningu ferðamanna á síðustu árum.

Þörfin er brýn
Þetta er í fyrsta sinn hér á landi sem unnið er að heildstæðri áætlun sem nær yfir allt landið. Innviðafrumvarpið, sem bíður annarrar umræðu á Alþingi, rammar inn mikilvæga þætti sem stuðla að því að vernda svæðin og búa undir vaxandi álag. Markmið frumvarpsins er að móta stefnu og samræma tillögur um slíka uppbyggingu og viðhald ferðamannsvæða með náttúruvernd og sjálfbærni að leiðarljósi. Skýr markmið þarf að setja fyrir einstaka svæði, út frá því hvers konar upplifun þau bjóða, til hvaða markhópa þau höfða og ekki síst hversu viðkvæm þau eru. Náttúra landsins er viðkvæm en koma þarf í veg fyrir tjón með því að lagfæra og fyrirbyggja skemmdir eftir traðk, merkja leiðir, byggja göngustíga, göngubrýr, hreinlætisaðstöðu og fleira. Þá þarf öryggi að vera í fyrirrúmi og hönnun hvers konar að falla vel að landslaginu. Þannig er stuðlað að vernd náttúrunnar ásamt upplifun og öryggi einstaklingsins á ferð um landið.

Í frumvarpinu er lagt upp með að svæði í eigu hins opinbera eigi sjálfkrafa aðild að áætluninni og sveitarfélög geri jafnframt tillögu um þau svæði sem staðsett eru innan marka þeirra. Landsvæði í einkaeigu munu falla undir áætlunina, óski viðkomandi landeigandi þess.

Friðlýst svæði
Nú þegar er búið að friðlýsa um 20% landsins og hefur hið opinbera ábyrgðarhlutverki að gegna gagnvart umsjón, rekstri og vöktun á viðkomandi svæðum. Ástand friðlýstra svæða er misgott. Umhverfisstofnun hefur tekið saman lista yfir stöðu friðlýstra svæða og þeirra sem þarf að sinna sérstaklega, sk. rauðan og appelsínugulan lista. Mörg friðlýst svæði eru jafnframt áningarstaðir undir miklu álagi ferðamanna þar sem bregðast þarf skjótt við með markvissum aðgerðum. Samantekt Umhverfisstofnunar um ástand friðlýstu svæðanna sem hlúa þarf sérstaklega að mun nýtast vel inn í vinnuna við þá forgangsröðun verkefna sem framundan er.

Ég bind miklar vonir við innviðafrumvarpið, en við samþykkt þess munu verða tímamót í markvissri uppbyggingu og vernd á ferðamannastöðum með vernd náttúru, sjálfbæra nýtingu og langtímahugsun að leiðarljósi.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. maí 2015.