Categories
Greinar

Skilvirk þróunarsamvinna

Deila grein

28/03/2015

Skilvirk þróunarsamvinna

Karl_SRGBMikilvægt er að fyrirkomulag þróunarsamvinnu Íslands sé eins vel skipulagt og skilvirkt og kostur er. Þær alþjóðlegu kröfur sem gerðar eru til ábyrgrar stjórnar og stefnu á þessu sviði fara ört vaxandi en árlega fara rúmlega fjórir milljarðar í alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Kröfurnar urðu ekki minni eftir að Ísland gerðist aðili að þróunarsamvinnunefnd OECD. Sú nefnd lagði til að Ísland myndi skoða fyrirkomulag og skipulag þróunarsamvinnu með tilliti til þess hvernig hámarksskilvirkni væri náð. Utanríkisráðuneytið tók þessar ábendingar alvarlega og til sérstakrar skoðunar.

Ólíkar leiðir teknar til skoðunar
Utanaðkomandi sérfræðingur var fenginn til að framkvæma úttekt á þróunarsamvinnu Íslands og er sú úttekt mjög ítarleg. Hún byggir á samtölum við rúmlega 200 einstaklinga sem koma bæði að alþjóðlegri þróunarsamvinnu hér á landi og erlendis. Úttektin byggir einnig á reynslu þeirra landa sem Ísland vill oftast bera sig saman við.

Við vinnuna voru skoðaðar þrjár ólíkar leiðir. Tvær af þeim sneru að sameiningu, hvort sem var innan ráðuneytis eða Þróunarsamvinnustofnunar, og sú þriðja að því að halda núverandi fyrirkomulagi með fremur litlum breytingum. Niðurstaða úttektarinnar var að samhæfing allra aðila sem starfa á vegum íslenskra stjórnvalda að þróunarsamvinnu eigi að vera á einum stað. Eingöngu þannig sé hægt að hámarka líkur á mestum árangri með mestri skilvirkni.

Mörg samanburðarlandanna í skýrslunni hafa þegar gengið í gegnum breytingar á fyrirkomulagi sem eru sambærilegar þeim breytingum á fyrirkomulagi sem nú eru fyrirhugaðar hér á landi. Þær breytingar fela í sér að verkefni sérstakrar Þróunarsamvinnustofnunar eru færð inn til ráðuneytis sem fari eftirleiðis með alla þróunarsamvinnu. Slíkt fyrirkomulag er heppilegt þar sem sterk tengsl eru á milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála. Nýjustu dæmin um slíkar sameiningar málaflokka eru frá Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Þá má geta þess að öll Norðurlöndin, að Svíþjóð undanskilinni, hafa flutt starfsemi sem þessa inn í ráðuneytin.

Þekking mun ekki glatast
Það er einnig mikilvægt að halda því vel til haga að þær breytingar sem um ræðir í frumvarpinu snúa einungis að stjórnskipulagi þróunarsamvinnu, en ekki að stefnumótun eða því hvernig við störfum á vettvangi. Áherslan mun haldast á tvíhliða þróunarsamvinnu í samstarfslöndunum þremur og á vettvangi fjölþjóðlegra stofnana. Þá mun starfsmönnum Þróunarsamvinnustofnunar verða tryggð sambærileg störf í ráðuneytinu og vera valkvætt hvort það starf sé flutningsskylt. Með því er tryggt að sú sérfræðiþekking sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur byggt upp muni ekki glatast. Tilgangurinn með þessum breytingum er að gera gott starf enn betra. Það er markmiðið sem við þurfum ávallt að hafa að leiðarljósi í vinnu sem þessari.

Karl Garðarsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.[/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]

Categories
Greinar

Nýjar höfuðstöðvar Landsbankans við Austurhöfn

Deila grein

25/03/2015

Nýjar höfuðstöðvar Landsbankans við Austurhöfn

frosti_SRGBÍ skýrslu stjórnar Landsbankans fyrir aðalfund 18. mars voru ítrekuð áform um að reisa nýjar höfuðstöðvar bankans við Austurhöfn, einum dýrasta byggingarreit landsins. Í skýrslunni segir:

„Gert er nú ráð fyrir að rýma um 28 þúsund fermetra og koma starfseminni sem á þeim var fyrir á um 15 þúsund fermetrum í nýju sérhönnuðu húsnæði. Reikna má með um 600 milljóna króna sparnaði á ári.“

Fagna ber hagræðingu í rekstri Landsbankans, hún er mikilvægur þáttur í því að bankinn geti veitt betri kjör, en sú spurningin vaknar hvort hagræðingin gæti ekki orðið enn meiri ef byggt væri hóflegt skrifstofuhúsnæði á hagkvæmri lóð? Það hljóta að finnast hagkvæmari lóðir í Reykjavík en Austurhöfn. Verður nóg af bílastæðum fyrir starfsfólkið, viðskiptavini bankans og þau fyrirtæki sem koma til með að fylla þessa 28 þúsund fermetra sem bankinn mun rýma?

Hvað mun þetta kosta og hver borgar?

Kostnaðaráætlun fyrir verkefnið hefur ekki verið kynnt en ólíklegt má telja að 15 þúsund fermetra bygging við Austurhöfn muni kosta minna en sjö milljarða. Kostnaðarauki vegna staðarvalsins mun lenda á viðskiptavinum bankans með einum eða öðrum hætti, hvort sem er í gegnum hærri vexti á lánum, með hærri þjónustugjöldum eða með hærri sköttum.

Höfuðmarkmið bankans er arðsemi eigin fjár

Stefnumótun bankans til ársins 2020 var einnig kynnt á aðalfundinum. Höfuðmarkmiðið er sagt „viðunandi arðsemi eigin fjár“. Arðsemi eigin fjár bankans var 12,5% árið 2014 sem hlýtur að teljast meira en viðunandi. Við fyrstu sýn er öll arðsemi af hinu góða.

Stóru bankarnir þrír skipta hinsvegar með sér meira en 90% af markaðinum. Á slíkum fákeppnismarkaði er hætt við að samkeppni verði ekki nægilega hörð til að tryggja viðskiptavinum bestu kjör. Bankar geta þá aukið arðsemi sína með því að auka vaxtamun og gjaldtöku. Það kæmi sér því best fyrir landsmenn ef Landsbankinn tæki upp það höfuðmarkmið að bjóða upp á bestu kjör og hóflega arðsemi. Aðrir bankar yrðu þá væntanlega að mæta samkeppninni til að halda í sína viðskiptavini. Allir landsmenn myndu njóta góðs af virkari samkeppni á bankamarkaði.

Eignarhlutur starfsmanna

Árið 2009 gerði núverandi Landsbanki, LBI hf og þáverandi fjármálaráðherra samkomulag um að starfsfólk bankans myndi eignast tæplega 1% hlut í bankanum. Hlutirnir voru afhentir í mars 2013 og nam verðmæti þeirra eftir skatta 1,8 milljörðum króna. Það má reikna með að eignaraðild starfsmanna sé hvati til að auka arðsemi bankans.

Þar sem íslenski bankamarkaðurinn einkennist af fákeppni, er hætt við að hærri arðsemi Landsbankans verði á kostnað almennings. Eignaraðildin og hvatinn sem hann myndar er því óheppileg frá sjónarhóli landsmanna.

Sé vilji er fyrir hendi mætti leysa málið með því að láta bankann kaupa til baka hlut starfsmanna svo ríkið verði 100% eigandi að bankanum. Þá mætti setja honum aðalmarkmið að veita góða þjónustu á lágu verði og skila hóflegri arðsemi. Þannig myndi Landsbankinn skapa landsmönnum mest verðmæti.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.[/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]

Categories
Greinar

Framtíðarsýn í skipulagsmálum

Deila grein

19/03/2015

Framtíðarsýn í skipulagsmálum

Sigrún Magnúsdóttir_001Landsskipulagsstefna er nýtt og spennandi skipulagsverkfæri sem er ætlað að stuðla að sjálfbærri þróun, skilvirkri áætlanagerð og vera sveitarstjórnum leiðarljós við skipulagsgerð, en felur ekki í sér fyrirmæli um nákvæma útfærslu. Meðal annars er lögð áhersla á samspil ólíkrar landnotkunar og nýtingar lands einkum fyrir landbúnað, ferðaþjónustu og skógrækt.

Þingsályktunartillaga um landskipulagsstefnu 2015-2026 verður lögð fram nú á vorþingi. Umhverfis- og auðlindaráðherra fól Skipulagsstofnun í október 2013 að hefja vinnu við stefnuna og kynnti viðfangsefni og áherslur. Í vinnu sinni hefur Skipulagsstofnun nýtt vel þann tímaramma sem var til umráða og átt náið samráð við almenning, sveitarstjórnir, opinberar stofnanir og félagasamtök víða um land.

Ferlið hefur tekist sérlega vel. Reglulega var leitað eftir ábendingum og hugmyndum og segja má að almennt hafi þátttaka verið góð á fundum. Auk þess hefur sérstök nefnd verið Skipulagsstofnun og ráðherra til ráðgjafar.

Landið teiknað
Frá byrjun hefur almenningi gefist kostur á að koma að verkefninu og útfæra hugmyndir sínar myndrænt. Meðal annars var þátttakendum á opnum fundum boðið til vinnusmiðju þar sem einn eða nokkrir saman í hóp teiknuðu upp sína hugmynd að landsskipulagi á Íslandskort í mismunandi litum, allt eftir viðfangsefnum svo úr urðu um 100 kort sem nýttust í vinnunni.
Í framhaldinu var nokkrum valkostum stillt upp og þeir ræddir ítarlega á opnum fundum þar sem skipst var á skoðunum og samtímis boðið upp á að koma að skriflegum athugasemdum sem nýttar voru við endanlega tillögu að landsskipulagsstefnu. Loks sendi Skipulagsstofnun bréf á um 180 aðila með beiðni um umsögn og bárust 73 umsagnarbréf. Farið var yfir allar innsendar athugasemdir áður en gengið var frá formlegri tillögu að landsskipulagsstefnu sem skilað hefur verið til umhverfis- og auðlindaráðherra.

Ég hvet eindregið til þess að sem flestir kynni sér ferlið og tillöguna á landskipulag.is. Þegar vel tekst til getur skipulagsvinna dregið fram ímynd staða eða svæða og mætt þörf okkar á hverjum tíma, eins og fyrir aukna ferðaþjónustu. Aukin ásókn í takmarkaðar auðlindir getur leitt til aukins álags á umhverfið og óvissu og mun landskipulagsstefna því þurfa að vera í virkri þróun til framtíðar.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Samþykktu fyrir 23. mars

Deila grein

18/03/2015

Samþykktu fyrir 23. mars

Elsa-Lara-mynd01-vefur69 þúsund umsóknir bárust frá 105 þúsund einstaklingum um skuldaleiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum. Frestur til að samþykkja leiðréttinguna rennur út þann 23. mars nk. Þessi frestur á við um þær umsóknir þar sem niðurstöður voru birtar þann 23. desember sl. Enn á eftir að vinna úr 3.900 umsóknum og unnið er hörðum höndum við að klára vinnslu þeirra. Ýmsar ástæður liggja þar að baki. Í nokkrum tilvikum vantar frekari gögn sem kallað hefur verið eftir frá umsækjendum og í öðrum tilvikum er m.a. um að ræða dánarbú og breytingar á fjölskylduhögum.

68 milljörðum þegar ráðstafað
80 milljörðum var ráðstafað í beina niðurfellingu skuldaleiðréttingarinnar. Nú þegar hefur 68 milljörðum verið ráðstafað inn á verðtryggðar húsnæðisskuldir landsmanna og búið er að ganga frá afgreiðslu þeirra mála inni í bankakerfinu. Í þeim tilvikum hafa áhrif leiðréttingarinnar komið fram, bæði hvað varðar höfuðstól lánanna og í afborgunum. Gaman hefur verið að fá fréttir frá fólki sem er ánægt með leiðréttinguna. Segja hana hafa góð áhrif á heimilisbókhaldið. Segjast geta farið 2-3 sinnum í matvöruverslunina fyrir þá upphæð sem lánið minnkar um. Alla munar um það. Auðvitað er það mismunandi hvað lánin lækka um, fer allt eftir skuldahlutfalli hvers og eins. Þak aðgerðarinnar var fjórar milljónir.

Þeir sem eiga eftir að samþykkja leiðréttinguna, eiga að hafa fengið póst eða eiga von á pósti frá ríkisskattstjóra, sem á að minna á samþykkisfrestinn. Samkvæmt fréttum frá ríkisskattstjóra hafa margir tekið vel við sér þegar þeir hafa fengið áminningarpósta þessa efnis.

Heimilin áfram í fyrsta sæti
Nú hafa rúmlega 32 þúsund umsóknir borist um ráðstöfun séreignasparnaðar. Hægt er að velja um tvær leiðir. Það er að borga séreignasparnað inn á húsnæðislán eða borga inn á sérstakan húsnæðissparnað. Enn er hægt að sækja um þessa aðgerð og gildir hún til ársins 2017.

Auk þessa styttist verulega í frumvörp er koma á móts við þá sem eru á leigumarkaði. Þar er m.a. tekið á uppbyggingu húsnæðissamvinnufélaga, unnið að lækkun leiguverðs, auknu framboði íbúða og meiri stuðningi við þá sem búa í leiguhúsnæði, í gegnum húsnæðisbætur.

Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar eru frumvörp er varða afnám verðtryggingar af neytendalánum, væntanleg í þingið í lok mars. Þau miða að því að fyrstu skref í afnámi verðtryggingarinnar af neytendalánum, fari fram í byrjun ársins 2016.
Það er óhætt að halda því fram að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi sett heimilin í fyrsta sæti og haldi þeirri forgangsröðun áfram.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Með allt á hreinu

Deila grein

17/03/2015

Með allt á hreinu

Silja-Dogg-mynd01-vefÉg átti fyrir skömmu fund með írskum meistaranemum í stjórnmálafræði. Þau voru m.a. að velta fyrir sér hvort ESB þætti innganga Íslands í sambandið eftirsóknarverð. Nemarnir veltu líka upp þeirri spurningu hvort það hefði ekki grafið undan trúverðuleika Íslands að sækja um aðild að ESB þar sem þing og þjóð voru frá upphafi klofin í afstöðu sinni. Og síðast en ekki síst, hvort íslensk stjórnvöld ætli að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu á næstunni um ESB. Eftirfarandi línur endurspegla umræður okkar…

Land tækifæranna

Já, Ísland er eftirsóknarvert land. Vatn, orka og matur eru það sem þjóðir heims þurfa til framtíðar og lega landsins er eftirsóknarverð m.a. vegna aðgangs að Norðurskautinu. Berum nú saman stöðu Evrópusambandsins og stöðu Íslands í dag. Á Íslandi er ágætur hagvöxtur og lítið atvinnuleysi. Svo er ekki í ESB. Árangur Íslands og endurreisn efnahagslífsins hér hefur vakið eftirtekt á heimsvísu þó svo að ýmis verkefni séu enn óleyst. Staðan var allt önnur árið 2009. Hvers vegna ættu Íslendingar að vilja ganga inn í Evrópusambandið nú? Vilja menn kannski bara fá að sjá hinn „meinta samning“?

Innihald pakkans

Á bls. 32 í skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ er fjallað um skilyrði fyrir aðild þar stendur m.a.: „Þau lönd sem óska eftir aðild að Evrópusambandinu gangast undir ákveðin grundvallarskilyrði. Í meginatriðum snúast þau um að aðildarríki samþykki sáttmála Evrópusambandsins, markmið þeirra og stefnu og þær ákvarðanir sem teknar hafa verið þeir öðluðust gildi. Gengið er út frá því að umsóknarríki sækist eftir aðild. Þá leiðir innkoma nýs ríkis ekki til þess að nýtt samband verði til auk þess sem umsóknarríki ber að samþykkja réttarreglur sambandsins (fr. acquis comunitare). Þá er umbreytingarfrestur takmarkaður og felur ekki í sér undanþágu frá grunnsáttmálum og meginreglum sambandsins. Þá er að lokum gerð krafa um skilyrði fyrir inngöngu.“

Þetta er það aðildarferli sem Ísland gekk inn í þegar það sótti um aðild árið 2009. Í sömu skýrslu á bls. 37 stendur: „Almennt má segja að stækkunarferlið sem Ísland gekk inn í einkennist af auknum skilyrðum fyrir inngöngu, sé miðað við það sem áður tíðkaðist. Þrátt fyrir bjartsýni um annað virðist hafa verið lítil ástæða til að ætla að Ísland fengi aðra meðferð í umsóknarferli en þau önnur lönd sem voru að sækja um aðild á sama tíma.“

Þetta sýnir okkur svart á hvítu að ekki er um samningaviðræður að ræða. Við munum ekki fá neina sérmeðferð ef við göngum í ríkjasamband Evrópuþjóða.

Heiðarlegt gagnvart ESB

Ákvörðun utanríkisráðherra um að senda ESB formlegt bréf um að Ísland væri ekki umsóknarríki lengur, var hárrétt og heiðarleg. Stjórnarflokkarnir eru báðir með þá yfirlýstu stefnu að ganga ekki inn í ESB og meirihluti þings styður ekki inngöngu í ESB. ESB hefur lengi óskað eftir skýru svari frá íslenskum stjórnvöldum og þessi niðurstaða nú var fengin í samráði við ESB. Lögfræðilegt álit frá 2013 liggur fyrir að þing er ekki bundið af þingsályktun annarrar ríkisstjórnar. Þingið fjallaði um ESB-málið dögum saman á síðasta vorþingi. Tvær skýrslur voru gefnar út. Utanríkismálanefnd þingsins hefur frá upphafi vitað hver stefna ríkisstjórnarinnar er og eitt af fyrstu verkum ráðherra í embætti var að leysa samninganefndirnar upp og stöðva aðlögunarferlið. Stækkunarstjóri ESB hefur í millitíðinni lýst því yfir að ekki standi til að taka fleiri þjóðir í sambandið a.m.k. næstu fimm árin. Formlegt bréf utanríkisráðherra nú til ESB á því ekki að koma neinum á óvart.

Ómöguleikinn

Næsta spurning er þá hvort ríkisstjórnin muni efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Svarið er nei. Ríkisstjórnin hefur engin áform uppi um að efna til þjóðatkvæðis um viðræður við Evrópusambandið, þar sem slíkt væri atkvæðagreiðsla um mál sem hún er mótfallin. Komi til þess að hefja ætti aðildarferlið að nýju telur núverandi ríkisstjórn mikilvægt að það sé ekki gert án þess að spyrja þjóðina fyrst hvort hún vilji gerast aðili að ESB.

Skýr stefna

Hvers vegna mátti málið ekki liggja óhreyft? Það er vegna þess að það hefur gildi í utanríkismálum að vera eitt af umsóknarríkjum ESB. Stefna núverandi ríkisstjórnar er að efla alþjóðlegt samstarf enn frekar m.a. með gerð fríverslunarsamninga og við erum einnig aðilar að Norðurskautsráði. Það að vera umsóknarríki ESB grefur undan stöðu okkar og tækifærum. Það hefði e.t.v. verið „þægilegra“ að láta ESB-málið liggja en stjórnmál eiga ekki að snúast um þægindi. Þau snúast um að taka ákvarðanir, framfylgja yfirlýstri stefnu, sannfæringu sinni, og koma heiðarlega fram við samstarfsaðila og þjóðina. Það hefur núverandi ríkisstjórn nú gert.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í DV 17. mars 2015

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Athugasemdir við erindi stjórnarandstöðunnar til forystu Evrópusambandsins

Deila grein

16/03/2015

Athugasemdir við erindi stjórnarandstöðunnar til forystu Evrópusambandsins

GBSStjórnarandstaðan, fulltrúar minnihlutans á Alþingi, hafa fundið hjá sér hvöt til að senda forystu Evrópusambandsins bréf þar sem staða aðildarumsóknar á Alþingi er skrumskæld á ýmsa vegu. Nauðsynlegt er að gera athugasemd við verstu rangfærslurnar.

Í bréfinu er látið í veðri vaka að ályktun Alþingis frá 16. júlí 2009 lýsi ríkjandi afstöðu á Alþingi og hafi einhvers konar lagagildi sem ríkisstjórninni sé óheimilt að víkja frá. Ekkert er fjær sanni. Þessi ályktun var samþykkt að frumkvæði þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat og fól í sér pólitíska stuðningsyfirlýsingu við þau áform hennar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Áhrif ályktunarinnar voru því fyrst og fremst pólitísks eðlis en ekki lagalegs. Í ljósi þess hvaðan frumkvæðið kom er ekki örgrannt um að tilgangurinn hafi öðru fremur verið að þétta eigin raðir, en dugði þó ekki til.

Þýðing og áhrif þingsályktana
Stjórnlagafræðingar hafna því almennt – bæði í ræðu og riti – að þingsályktanir hafi lagalega bindandi áhrif. Af lögmætisreglunni leiðir að eingöngu með lagasetningu verður pólitískum stefnumiðum umbreytt í gildandi rétt. Jafnvel þótt þingsályktanir hafi ekki lagalega þýðingu leiðir af þingræðisreglunni að þær geta haft mikla pólitíska þýðingu og að því leyti virkað sem fyrirmæli til ríkisstjórnarinnar. Af þingræðisreglunni leiðir hins vegar að pólitísk áhrif þingsályktana haldast í hendur við þann þingstyrk sem að baki þingsályktun býr. Ef þingstyrkur dvínar eða hverfur, hlýtur þýðing fyrirmæla sem í ályktuninni kunna að vera fólgin að breytast í samræmi við það og eftir atvikum fjara út. Framkvæmd þingsályktunar sem varðar umdeilt pólitískt mál getur þannig verið undir því komin að viðkomandi stefnumál njóti tilskilins stuðnings í þinginu. Pólitísk þýðing þingsályktunar helst í hendur við þann meirihluta sem er í þinginu hverju sinni og tryggir að völd og ábyrgð fari saman. Í kerfið sjálft er þannig innbygð ákveðin tæknileg útfærsla lýðræðislegra stjórnarhátta. Án hennar er hætt við að stefna ríkisstjórnar hverju sinni ætti erfitt uppdráttar og þingræðið yrði í raun lítils virði.

Staða ESB-þingsályktunar
Að þessu athuguðu hefur ESB-þingsályktunin frá 2009 eingöngu pólitíska þýðingu en ekki lagalega. Sá meirihluti sem að henni stóð og þau stefnumál sem hann stóð fyrir féll í kosningunum 2013. Sú ríkisstjórn sem þá tók við verður ekki knúin til að fylgja eftir þeim ályktunum sem fyrri ríkisstjórn fékk samþykktar í tíð meirihluta sem er ekki lengur fyrir hendi. Það samræmist ekki lýðræðislegum stjórnarháttum ef hún væri bundin af að fylgja eftir stefnumálum fyrri ríkisstjórnar. Áhrif ESB-ályktunarinnar eru því þau sömu og áhrif ríkisstjórnarinnar sem að henni stóð, þau fjöruðu út um leið og þeim var hafnað af kjósendum. Það er tímabært að fulltrúar minnihlutans átti sig á þessum leikreglum lýðræðisins og virði þær í stað þess að slá ryki í augu almennings og alþjóðastofnunar á þann hátt sem bréf þeirra er til marks um.

Samráð við utanríkismálanefnd
Bréfritarar halda því einnig fram að ríkisstjórnin hafi vanrækt að hafa lögbundið samráð við utanríkismálanefnd um meiriháttar utanríkismál áður en erindi ríkisstjórnarinnar til stækkunarstjóra og formennskuríkis Evrópusambandsins var sent.

Að því gefnu að meðferð umsóknar um aðild að Evrópusambandinu teljist meiriháttar utanríkismál þrátt fyrir að hafa legið í láginni síðan fyrri ríkisstjórn stöðvaði aðildarferlið fyrir rúmum tveimur árum, hefur afstaða ríkisstjórnarinnar til umsóknarinnar verið öllum ljós. Hún hefur margoft verið rædd í utanríkismálanefnd, þ. á m. þegar hléi fyrri ríkisstjórnar var fram haldið, þegar samninganefndin og -hóparnir voru leystir frá störfum, þegar framkvæmdastjórnin féll frá samningsbundum fégreiðslum til ýmissa aðlögunarverkefna (IPA-styrkir) og nú síðast þegar þingsályktunartillaga um að draga aðildarumsóknina til baka var til meðferðar á síðasta þingi. Það er því fjarri öllu lagi að halda því fram að sú afstaða sem nú hefur verið áréttuð við framkvæmdastjórn og ráð ESB hafi ekki verið rædd við utanríkismálanefnd. Bréfið felur eingöngu í sér aðra útfærslu á þeim áformum sem í þingsályktunartillögunni voru fólgin. Málið hefur margoft verið til umræðu í utanríkismálanefnd og samráðsskylda samkvæmt þingskapalögum er því að fullu uppfyllt.

Bréf stjórnarandstæðinga hefur að geyma fleiri rangfærslur og missagnir sem ég hirði ekki um að leiðrétta hér. Það sem meginmáli skiptir er að með bréfi ríkisstjórnarinnar hefur endapunkturinn verið settur aftan við umsóknarferli sem gangsett var án þess að fullur hugur fylgdi máli og nýtur ekki meirihluta stuðnings á Alþingi. Lýðræðislegt umboð og stjórnskipulegar heimildir ríkisstjórnarinnar eru hafnar yfir vafa og byggja á stefnu sem öllum hafa lengi verið ljósar, jafnt utanríkismálanefnd sem öðrum.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Ríkisábyrgð á innstæðum banka er óumflýjanleg

Deila grein

12/03/2015

Ríkisábyrgð á innstæðum banka er óumflýjanleg

frosti_SRGBHrun bankana hefur bætt skilning almennings á því hve bankar eru frábrugðnir öðrum fyrirtækjum. Komið hefur í ljós að þeir geta fjármagnað fjárfestingar sínar og útlán með innstæðum sem njóta óhjákvæmilega ríkisábyrgðar. Eigendur bankainnstæðna vita að ríkissjóður mun ávallt koma til bjargar ef banki getur ekki staðið í skilum og geta því sætt sig við lægri vexti á innstæður sínar. Bankar hafa því beinan hag af ríkisábyrgðinni en greiða þó ekkert fyrir hana. 

Í lögum um ríkisábyrgðir, segir að ríkissjóður megi aðeins veita ábyrgð með samþykki Alþingis. Yfirlýsing ríkisstjórnar Geirs H. Harde um að innstæður í íslenskum bönkum og sparisjóðum væru tryggðar að fullu var ekki lögð fyrir Alþingi til staðfestingar og bankar hafa ekki greitt ríkisábyrgðargjald fyrir að njóta þessarar ívilnunar. Ýmsir þingmenn hafa dregið í efa að yfirlýsingin geti haft gildi.

Í þingræðu miðvikudaginn 5. mars sl, um innstæðutryggingar, vakti ég athygli á því að innstæður í bönkum nytu óhjákvæmilega ríkisábyrgðar og því ættu bankar að greiða ríkisábyrgðargjald.

Í 6. gr. laga um ríkisábyrgðir segir:

Bankar, lánasjóðir, lánastofnanir, fyrirtæki og aðrir þeir aðilar sem lögum samkvæmt njóta, eða hafa notið, ábyrgðar ríkissjóðs, hvort sem hún er tilkomin vegna eignaraðildar ríkissjóðs eða annars,skulu greiða ábyrgðargjald af þeim skuldbindingum sínum sem ríkisábyrgð er á.

Svo virðist sem túlka megi þessa grein þannig að allir bankar með eignaraðild ríkissjóðs njóta ríkisábyrgðar skuli greiða ábyrgðargjald. Í sömu grein segir jafnframt að:

Ábyrgðargjald skal svara að fullu til þeirrar ívilnunar sem viðkomandi aðili nýtur, á grunni ríkisábyrgðar, í formi hagstæðari lánskjara umfram þau kjör sem almennt bjóðast á markaði án ríkisábyrgðar. Ábyrgðargjald samkvæmt málsgrein þessari skal ákveðið á grundvelli mats óháðs aðila á lánskjörum með og án ríkisábyrgðar og skal gjaldið reiknað af höfuðstól gjaldskyldra skuldbindinga eins og hann er að meðaltali á hverju gjaldtímabili, sbr. 8. gr.]1)”

Það ætti að vera hafið yfir vafa að bankar njóta ívilnunar vegna “óhjákvæmilegrar” ríkisábyrgðar á innstæður og ríkið á að innheimta gjald sem svarar að fullu til þeirrar ívilnunar.

Í stað þess að stinga höfðinu í sandinn og láta sem ekki sé ríkisábyrgð á innstæðum í innlendum bönkum tel ég að Alþingi ætti að setja lög um ábyrgðina og innheimta gjald fyrir hana.

Færa mætti rök fyrir því að ríkisábyrgð skipti mestu máli um lausar innstæður, en þær nema nú u.þ.b. 500 milljörðum. Ef við gefum okkur sem dæmi að hin óumflýjanlega ríkisábyrgð hafi lækkað vaxtakröfu innstæðueigenda um 2% þá eru þetta 10 milljarðar á ári sem ættu að renna til ríkisins.

Hvers vegna ríkisábyrgð á innstæðum er óumflýjanleg

Samfélagið er háð því að almenningur og fyrirtæki hafi aðgang að peningum. Aðeins 9% af peningum í landinu er á formi seðla og myntar, afgangurinn er í formi innstæðna sem eru loforð banka um að afhenda seðla sé þess óskað.

Það er augljóst að bankar geta ekki staðið í skilum ef of margir vilja taka út seðla samtímis. Þetta er brothætt kerfi. Vakni grunsemdir um að banki geti ekki staðið í skilum hlaupa allir til og vilja taka út innstæður sínar, því það er ekki nóg laust fé handa öllum. Við slíkt áhlaup er bankinn kominn í verulegan vanda nema ríkissjóður stöðvi áhlaupið með því að lýsa yfir ríkisábyrgð á innstæðum.

Ef á reynir mun ríkissjóður alltaf kjósa að gefa út slíka yfirlýsingu, því hinn kosturinn er miklu verri fyrir samfélagið. Ef stór innlánsstofnun verður ógreiðslufær þá gæti stór hluti fyrirtækja og landsmanna ekki nálgast peninga sína (lausar innstæður) og þar með ekki átt viðskipti eða keypt brýnustu nauðsynjar. Hagkerfi okkar er því gjörsamlega háð því að innlánsstofnanir séu gjaldfærar, því annars hættir stór hluti peningamagnsins í landinu að virka. Á meðan innlánsstofnunum er falið að búa til peningana sem hagkerfið reiðir sig algerlega á mega þær aldrei verða gjaldþrota.

Það er því ljóst að svo lengi sem bönkum er heimilt að búa til peninga í formi innlána munu innlán þeirra óhjákvæmilega njóta ríkisábyrgðar. Æskilegt er að horfast í augu við þann veruleika og innheimta eðlilegt gjald fyrir ábyrgðina.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í www.frostis.is 7. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Af börnum og brjóstarhöldurum

Deila grein

10/03/2015

Af börnum og brjóstarhöldurum

Jóhanna María - fyrir vefMóðir skrifaði frásögn á netið, þar segir hún frá upplifun sem byrjaði með símtali frá skóla dóttur hennar. Hún var beðin um að koma úr vinnu þar sem dóttir hennar hefði lent í stimpingum við annan nemanda. Þegar hún mætir er henni heldur brugðið að ganga inn í herbergi fullt af fólki. Þarna sat dóttir hennar ásamt skólastjóranum, umsjónakennara, samnemanda og foreldrum hans ásamt umsjónamanni árgangsins. Samnemandi dóttur hennar, sem var karlkyns, sat með blóðugt nef og konan fann strax hvernig horft var ásakandi á sig. Þá voru málin reifuð, drengurinn hafði verið að fikta í brjóstarhaldara dóttur hennar og þrátt fyrir að hafi beðið hann um að hætta, sagt umsjónakennaranum frá því hvað hann væri að gera þá hélt drengurinn áfram og náði að lokum að opna brjóstarhaldarann hennar. Þegar hann náði því kýldi hún drenginn tvisvar.
Móðirin lét sér hvergi bregða og spurði hvort hún hefði verið kölluð úr vinnu til að athuga hvort hún og dóttir hennar ætluðu að kæra drenginn fyrir kynferðislega áreitni. Þá kom annað hljóð í belginn. Atvikið var „ekki svo alvarlegt“ að mati viðstaddra og móðirin beðin um að slaka á og hugsa aðeins hvað hefði gengið á. Dóttirin benti réttilega á að hún hefði beðið drenginn um að hætta og þegar hún hafði látið kennarann vita fékk hún bara svar um að láta sem ekkert væri og þá myndi hann hætta þessu.
Móðirin spurði þá kennarann af hverju hann hefði leyft þetta í stað þess að ganga á milli og stoppa drenginn. Í beinu framhaldi spurði hún hvort hún mætti snerta klofið á honum eða hvort hann gæti ekki opnað brjóstarhaldarann á móður drengsins, svona fyrst þetta væri allt svo smávægilegt og eðlilegt. Það urðu allir orðlausir, kennarinn hélt áfram að benda á að dóttir hennar hefði kýlt drenginn. Móðirin sagði það ekkert skrýtið, hún hefði verið að verja sig fyrir kynferðislegri áreitni.

Þetta er spurningin, hvenær hætti stríðni að vera bara stríðni, hvenær er það orðið kynferðisleg áreitni og hvað kennum við börnum með því að segja : „Hundsaðu þetta bara“?

Ef ókunnugur maður myndi strjúka lærið á dóttur þinni eða opna brjóstarhaldara hennar án samþykkis, þá yrðir þú brjáluð/brjálaður. Það á ekki að vera öðruvísi þó þar sé á ferð jafnaldri hennar. Ef barninu líður illa vegna hegðun samnemenda verður að taka á því.
Ein lélegasta afsökun fyrr og síðar hjá kennurum sem nenna ekki að taka á málunum hefur verið: „Hann er bara skotinn í þér.“ Og hvað með það?
Það réttlætir það ekkert að viðkomandi reyndi að kyssa mig í frímínútum, sló mig í rassinn frammi á gangi eða potaði í brjóstið á mér þegar ég vildi það ekki, bað hann um að hætta og jafnvel ýtti honum í burtu.
Við sátum nokkrar yfir kaffibolla um daginn og vorum að ræða þessi mál. Sem stelpur fengum við áhugalaus skilaboð um að láta þetta framhjá okkur fara, hundsa viðkomandi eða að taka þessu sem hrósi því „hann væri bara skotinn“.

Talandi um kolröng skilaboð. Voru skilaboðin s.s. að segja ekki frá því ef einhver snerti okkur á óviðeigandi hátt, að láta sem ekkert væri þó það væri verið að káfa á okkur og verst af öllu að þykja við eftirsóknarverðar ef einhver elti okkur á röndum til að snerta okkur og kyssa, gegn okkar vilja. Allt þetta er alveg jafn alvarlegt þó viðkomandi sé jafnaldri manns. 12 ára stelpa sem er kannski að byrja á kynþroskaskeiðinu á skilið að fá heilbrigðari skilaboð út í lífið en þetta.

Og hvaða skilaboð gefum við ungum strákum með því sama? Að það sé í lagi að snerta stelpur þó þær vilji það ekki því þær segja ekki frá og ef þær gera það er þeim sagt að hundsa þetta.
Svona hegðun væri ekki liðin á kennarastofunni, að sögukennarinn læddist að stærðfræðikennaranum og klipi í rassinn á henni. Þegar hún snéri sér að honum og spyr hvað þetta eigi að þýða þá komi líffræðikennarinn aðsvífandi og segði kæruleysislega: „Hvaaaða, láttu bara eins og ekkert sé, no biggie!“

Hugsum aðeins um hvaða skilaboð við sendum börnum, það hefur áhrif á þau út lífið. Jafningjafræðsla er orðin svo mikilvægur þáttur af menntun barna og hana þarf að byrja sem fyrst. Er það ekki líka tilgangur skóla, að kenna þeim eitthvað sem þau eiga eftir að nota út lífið.

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í DV 6. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Hver er þinn réttur?

Deila grein

10/03/2015

Hver er þinn réttur?

Elsa-Lara-mynd01-vefurFjármögnunarfyrirtækið Lýsing, hefur tapað nokkrum dómsmálum á undanförnum mánuðum. Um er að ræða mál sem rekin hafa verið fyrir héraðsdómi og einnig í Hæstarétti. Oft er um að ræða mál sem hafa fordæmisgildi fyrir aðra lánasamninga, er hafa verið gefnir út hjá fjármögnunarfyrirtækinu.

Í síðustu viku tapaði Lýsing tveimur dómsmálum vegna gengistryggðra lána í Hæstarétti Íslands. Ágreiningur í málunum laut að því hvort lántakendur gætu borið fyrir sig fullnaðarkvittanir vegna greiddra vaxta frá stofndegi lánasamningsins til maí 2010, vegna þess hluta lánanna sem bundnir voru ólögmætri gengistryggingu.

Talið er það séu allt að 10 þúsund lánasamningar sem dómarnir í síðustu viku geta haft áhrif á. Því miður virðist það vera svo að hver og einn sem hefur gengistryggðan lánasamning, sem hafi sömu lánaskilmála og dæmdir voru ólögmætir, þurfi að sækja mál sitt til að fá réttlætinu fullnægt. Það mun þó koma í ljós á næstu dögum eða vikum, samkvæmt tilkynningu á vef Lýsingar. Sá háttur hefur verið hafður á hingað til í þessum málum, innan þessa fjármögnunarfyrirtækis.

Lögfræðingurinn sem sótti málin í síðustu viku gegn Lýsingu telur að allar varnir fjármögnunarfyrirtækisins séu brostnar. Þeir dómar sem hafi fallið séu fordæmisgefandi og nái til mikils hluta lána, af þessu tagi. Lána sem Lýsing hefur til þessa hafnað útreikningi á.

Óþolandi og ólíðandi vinnubrögð

Í ræðum mínum í Störfum þingsins í síðustu viku, ræddi ég framgang fjármála- og fjármögnunarfyrirtækja í málum sem þessum. Málum þar sem þessi fyrirtæki neita að endurreikna lán, nema einstaklingar fari í mál til að leita réttar síns. Þrátt fyrir að samskonar lán, með sömu lánaskilmála hafi verið dæmd ólögmæt bæði fyrir héraðsdómi og í Hæstarétti. Margir þeirra sem standa í þessum sporum finnst erfitt að sækja mál sín. Finnst það bæði kostnaðarsamt og flókið. Vegna þessara þátta er talsverður fjöldi einstaklinga sem fer á mis við það sem þau geta átt rétt á. Þessi vinnubrögð fjármála –  og fjármögnunarfyrirtækja eru algjörlega óþolandi og ólíðandi með öllu.

Hvað getur þú gert?

Það eru lögfræðingar sem sérhæfa sig í málum sem þessum. Nokkrir þeirra bjóða þeim sem eru m.a. með gengistryggð lán, upp á forathugun á lánunum. Sú athugun kostar ekki neitt. Að henni lokinni er hægt að fá að vita með talsverðri vissu, hvort lánið falli undir sömu skilmála og hafa verið dæmdir ólögmætir fyrir dómstólum. Ef svo er þá er jafnframt hægt að fá grófa áætlun um áætlaða inneign hjá fjármála – eða fjármögnunarfyrirtækinu. Ef áhugi er síðan fyrir að stefna fyrirtækinu, þá taka lögfræðingarnir málskostnaðargjald fyrir það. Þeir einstaklingar sem hafa fjölskyldutryggingar eru margir tryggðir fyrir þeim kostnaði. Það ætti öllum að vera auðvelt að hafa samband við tryggingarfélagið sitt og kanna stöðu sína í þessum málum.

Hvað getur Alþingi gert?

Nauðsynlegt er að endurskoða lög um neytendavernd og tryggja með öllu að fjármála – og fjármögnunarfyrirtæki, geti ekki leikið þennan leik til framtíðar. Endurskoða þarf lög og reglugerðir um fjármála- og fjármögnunarfyrirtæki og skerpa betur á réttindum neytenda, með það í huga að neytandinn beri ekki einn ábyrgð ef efnahagsleg áföll eiga sér stað. Ábyrgðin verður einnig að liggja hjá lánveitanda. Auk þessa hefur verið kallað eftir endurskoðun á skilyrðum til gjafsókna, m.a. að kanna hvort hægt sé að endurskoða þau tekjuviðmið sem sett eru fram í skilyrðum umsóknar.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 10. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Grænt kynlíf

Deila grein

08/03/2015

Grænt kynlíf

Jóhanna María - fyrir vefOrðið þalöt ber ekki mikið yfir sér, en þalöt eru efni sem hafa þá eiginleika að mýkja plast. Vegna eiginleika þeirra eru þau vinsæl í iðnaði og m.a. notuð í framleiðslu leikfanga og húsbúnaðar.

Einhvern tíma var það mikið í umræðunni að karlmenn ættu að forðast það að drekka úr plastglösum og flöskum því það gæti valdið ófrjósemi. Sumir hristu hausinn en þarna var í raun umræða um skaðsemi þalata sem hefur verið þekkt um áratugaskeið. Unnið hefur verið markvisst að því að banna og takmarka notkun þeirra til verndar heilsu almennings. Notkun þalata hér á landi er ekki mikil en þau geta fundist í innfluttum vörum. Eftirlit með þalötum í innfluttum vörum er gott í dag en mætti vera betra, þá er helst notast við tilkynningar á evrópskum markaði sem og frá nágrannalöndum til að gæta þess að vörur sem innihalda þalöt komist ekki í dreifingu hérlendis. Ábyrgðin er þó á hendi framleiðenda, þeir eiga að tryggja að vörur sem innihalda þalöt komi ekki á markað.

Það er mikilvægt að fólk sé meðvitað um hvar þalöt er að finna. Þá geta hjálpartæki ástarlífsins, sem eru misjöfn að gæðum og gerðum, innihaldið þalöt. Sleipiefni og smokkar geta einnig verið úr eða innihaldið mýkt plastefni.

Til að vísa aftur í umræðuna um ófrjósemi hérna ofar þá geta þalöt haft skaðleg áhrif á frjósemi bæði hjá körlum og konum, þau geta einnig skaðað fóstur. En fóstur og nýfædd börn eru viðkvæmust fyrir þessum efnum. Það er mikilvægt fyrir ungar konur og konur á barneignaraldri að forðast þalöt, því fái þær þalöt í líkama sinn geta þau borist í ófætt barn og skaðað þroska þess. Það á líka við um lítil börn sem eiga eftir að taka út mikinn þroska, en sem dæmi hafa þalöt fundist í brjóstamjólk.

Eins og kemur fram í svari umhverfisráðherra við fyrirspurn um þalöt sem lagt var fram í vikunni þá hefur notkun skaðlegustu þalatanna í leikföngum og öðrum vörum sem börn geta komist í snertingu við minnkað til muna en í staðinn eru notuð þalöt sem talin eru minna skaðleg. Þalöt eru eftir sem áður notuð við framleiðslu vöru úr PVC-plasti sem þarf að vera mjúk og sveigjanleg.

En þalöt hafa ekki einungis áhrif á okkur mennina því þau brotna misvel niður í umhverfinu og hafa mælst víða. Á sumum stöðum getur lífríkinu stafað hætta af þeim svo endurvinnsla, förgun og meðferð hluta sem innihalda þalöt er einnig mikilvæg.

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.