Categories
Greinar

Heimilin eru undirstaðan

Deila grein

18/11/2014

Heimilin eru undirstaðan

Silja-Dogg-mynd01-vefÞingmenn Framsóknarflokksins hafa í sex ár, eða allt frá Hruni, barist fyrir því að stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt. Úrtöluraddirnar voru margar og þingmenn þáverandi stjórnarflokka komust að þeirri niðurstöðu að ekki yrði meira gert fyrir skuldsett heimili. Á sama tíma voru milljarðar afskrifaðir hjá fyrirtækjum og einstaklingar með gengistryggð lán fengu þau leiðrétt. Eftir sat fólkið með verðtryggðu lánin og fékk ekki neitt.

Góðar viðtökur

Eitt af fyrstu málum ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs var framlagning þingsályktunartillögu í tíu liðum um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Leiðrétting stökkbreyttra verðtryggðra húsnæðislána var einn liður af tíu. Nýtt húsnæðiskerfi er annar liður og sú vinna er langt á veg komin. Leiðréttingin var kynnt í nóvember sl., opnað var fyrir umsóknir um leiðréttingar í maí. Umsóknarferlið var einfalt og nú hefur fengist niðurstaða í 90% umsókna. Almenn ánægja er með aðgerðina.

Sanngjörn aðgerð

Heildarumfang leiðréttingarinnar eru 150 milljarðar króna. Leiðréttingin skiptist í tvær aðgerðir, það er 80 milljarða króna leiðréttingu og 70 milljarðar króna fara í skattleysi séreignasparnaðar við inngreiðslu á höfuðstól lána. Sú leið kemur t.d. ungu fólki til góða sem og leigjendum sem vilja leggja fyrir og eignast húsnæði. Stjórnarandstaðan talar um verið sé að gefa ríku fólki peninga. Það er rangt! Ólíkt aðgerðum fyrri ríkisstjórnar þá fer 75% leiðréttingarinnar til heimila sem eru með undir 7 milljónum króna á ári. Það eru ekki auðmenn. Hámark leiðréttingar á heimili eru 4 milljónir. Þannig að niðurstaðan er sú að um sanngjarna aðgerð er að ræða sem kemur flestum heimilum til góða. Einnig leigjendum og ungu fólki. Rétt er að benda á að ef þessi leiðrétting kæmi ekki til nú, þá yrði hækkun höfuðstóls enn meiri vegna verðbólgunnar.

Aukinn kaupmáttur

Sérfræðingar eru sammála um að skuldaleiðréttingin muni hafa jákvæð efnahagsleg áhrif og verði ekki þensluhvetjandi. Kaupmáttur frjálsra ráðstöfunartekna fyrir þátttakendur í leiðréttingu mun aukast um 17% til ársins 2017 og áhrif leiðréttingarinnar eru metin 3% á ári. Þannig að ráðstöfunartekjur munu samkvæmt þessu aukast um 130-200 á ári hjá þátttakendum í leiðréttingunni á árunum 2015-2017.

Hárrétt forgangsröðun

Skuldaleiðréttingin er einn liður af mörgum í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að leysa skuldavanda heimilanna þar sem heimilin eru undirstaðan. Við verðum að byrja á byrjuninni. Samhliða er unnið að því að lækka skuldir ríkissjóðs og afnámi hafta. Þegar við náum að reisa efnahag landsins þá getum við styrkt innviðina sem við erum öll sammála um að standa beri vörð um; menntakerfið, heilbrigðiskerfið, samgöngumannvirki og fleira.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. nóvember 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Allur forsendubresturinn er leiðréttur umfram 4%

Deila grein

18/11/2014

Allur forsendubresturinn er leiðréttur umfram 4%

pallElsa-Lara-mynd01-vefurNú hafa um 90 % þeirra sem sóttu um leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum, fengið niðurstöður birtar inni á vefnum leiðrétting.is. Um 10 % útreikninga eru eftir. Unnið er hröðum höndum við útreikning þeirra sem eftir eru og áætlað er að niðurstöður muni birtast á næstu 2 – 3 vikum.

Leiðréttingin, tvær aðgerðir
Eins og fram hefur komið þá skiptist leiðréttingin í tvær aðgerðir. 80 milljarða króna leiðréttingu sem kemur til framkvæmdar í einu lagi, lánunum verður skipt niður í frumlán og leiðréttingalán. Lántaki greiðir eingöngu af frumláni og leiðréttingarlánið fellur niður á einungis rúmu ári. Það er styttri tími en áður var áætlaður. Ástæða þess að ákveðið var að stytta tímann var að minnka vaxtakostnað til fjármálastofnanna og setja meira til heimilanna. Það er afar jákvætt. Hinn hluti leiðréttingarinnar eru 70 milljarðar sem fara í skattleysi séreignasparnaðs við inngreiðslu á höfuðstól lána.

80 milljarða króna leiðréttingin leiðréttir forsendubrest umfram 5,8 %. Skattfrelsi við innborgum séreignasparnaðar á höfuðstól, það eru 20 milljarðar af þeim 70, færa viðmið leiðréttingarinnar niður í 4 % verðbólgu yfir viðmiðunartímabilið við fullnýtingu leiðréttingar. Framlag ríkisins til leiðréttingarinnar leiðréttir því alla verðbólgu áranna 2008 – 2009 yfir 4 %. Inngreiðslur séreignasparnaðar eru hreint viðbót við það.

Hvaðan koma peningarnir?
Beina leiðréttingin, það eru 80 milljarðarnir koma frá þrotabúum gömlu bankanna. Undanþága slitabúa gömlu bankanna frá skattheimtu var afnumin þannig að hægt væri að sækja peninga beint til kröfuhafanna sem eiga þrotabúin. Um er að ræða nýjan tekjustofn þar sem ríkissjóður hefur eingöngu milligöngu. Ánægjulegt er að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sýni kjark og þor í þessum efnum. Kominn var tími til að þær fjármálastofnanir sem fóru ógætilega í aðdraganda hrunsins, komi á móts við heimili landsins og skila hluta skaðans til baka. Annað er algjörlega óásættanlegt.

Tölulegar upplýsingar um leiðréttinguna
Um 90 þúsund einstaklingar fá skuldaleiðréttingu í gegnum beina niðurfellingu og meðal fjárhæð leiðréttingarinnar er 1,350,000 krónur. Meðaltal hjóna er 1,510,000 og hver einstaklingur fær 1,100,000 krónur að jafnaði.

Vegna aðgerðanna munu vaxtagjöld heimilanna lækka um 22 % fram til ársins 2017 og eiginfjárstaða 54 þúsund heimila, rúmlega 90 þúsund einstaklinga styrkjast. Einstaklingar sem skulda minna en 15 milljónir króna og heimili sem skulda minna en 30 milljónir fá rúmlega 70 % af fjárhæð leiðréttingarinnar. 55 % af fjárhæð leiðréttingarinnar fer til einstaklinga sem eiga minna en 4 milljónir og til heimila sem eiga minna en 13 milljónir í eigið fé. Jafnframt eru einstaklingar með 330 þúsund á mánuði og hjón þar sem hvort fyrir sig hefur 450 þúsund í mánaðarlaun, tíðasta gildið í leiðréttingunni. Meira en helmingur af heildarfjárhæð leiðréttingarinnar rennur til fólks sem er undir meðallaunum. Meðalheildarlaun á mánuði á Íslandi eru 520 þúsund krónur. Mest fá þeir sem eiga minnst.

Elsa Lára Arnardóttir og Páll Jóhann Pálsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. nóvember 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Hvað er svona ósanngjarnt?

Deila grein

11/11/2014

Hvað er svona ósanngjarnt?

Elsa-Lara-mynd01-vefurÍ fréttum gærdagsins fór formaður Samfylkingarinnar stórum orðum um skuldaleiðréttingu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hann heldur því fram að leiðréttingin, skuldaaðgerð á verðtryggðum húsnæðislánum, sé afskaplega ósanngjörn. Hvaða þættir eru það sem að honum finnast svona ósanngjarnir?

Aðeins um leiðréttinguna
Heildarumfang leiðréttingarinnar eru 150 milljarðar króna, sem fram fer á þremur árum. Leiðréttingin skiptist í tvær aðgerðir, það er 80 milljarða króna leiðréttingu. Leiðréttingu sem kemur til framkvæmdar í einu lagi og skiptir láninu niður í frumlán og leiðréttingalán. Lántaki greiðir eingöngu af frumláni en leiðréttingarlánið fellur niður á rúmu ári. 70 milljarðar króna fara í skattleysi séreignasparnaðs við inngreiðslu á höfuðstól lána.

91 þúsund einstaklingar frá skuldaleiðréttingu í gegnum beina niðurfellingu og meðal fjárhæð leiðréttingarinnar verður 1,350,000 krónur. Meðaltal hjóna er 1,510,000 og hver einstaklingur fær 1,100,000 krónur að jafnaði.

Einstaklingar með 330 þúsund á mánuði og hjón þar sem hvort fyrir sig hefur 450 þúsund í mánaðarlaun, er tíðasta gildið í leiðréttingunni. Meðalheildarlaun á mánuði á Íslandi eru 520 þúsund krónur.

Forsendubresturinn leiðréttur
80 milljarða króna leiðréttingin leiðréttir forsendubrest umfram 5,8 %. Skattfrelsi við innborgum séreignasparnaðar á höfuðstól, það eru 20 milljarðar af þeim 70 færa viðmið leiðréttingarinnar niður í 4 % verðbólgu yfir viðmiðunartímabilið við fullnýtingu leiðréttingar. Framlag ríkisins til leiðréttingarinnar leiðréttir því alla verðbólgu áranna 2008 – 2009 yfir 4 %. Inngreiðslur séreignasparnaðar eru hreint viðbót við það.

Tölulegar staðreyndir
Vegna leiðréttingarinnar munu ráðstöfunartekjur heimilanna aukast um 17 % eða 130 – 220 þúsund krónur á árunum 2015 – 2017. Einnig munu afborganir og vaxtagjöld heimilanna lækka um 22 % fram til ársins 2017. Jafnframt mun eiginfjárstaða 54 þúsund heimila, rúmlega 90 þúsund einstaklinga styrkjast með beinum hætti. 4 þúsund aðilar munu færast úr því að eiga minna en ekki neitt yfir í að eiga jákvætt fé í fasteignum sínum. Verðtryggð húsnæðislán geta við fullnýtingu leiðréttingarinnar lækkað um eða yfir 20 %.

Er þetta afskaplega ósanngjarnt?
Í 110 % leið fyrri ríkisstjórnar var heildarniðurfærsla verðtryggðra húsnæðisskulda um 45 milljarðar. Aðgerðin nýttist aðeins 10 % heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir, rúmlega 7000 heimilum. 36 milljarðar af þeirri upphæð fóru til einungis 2500 einstaklinga. Það þýðir að lán voru lækkuð að meðaltali um 14,4 milljónir á hvern þann sem fékk hlut úr þeim potti.

Meðaltekjur þessara 775 heimila á mánuði á árinu 2009 voru 750 þúsund, tugur þeirra var með meðaltekjur yfir 2 milljónir króna á mánuði. Dæmi eru um að einstaklingar sem höfðu meira en 2 milljónir í mánaðarlaun hafi fengið meira en 50 milljónir króna niðurfelldar. Það eru jafnframt til dæmi um 100 milljón króna niðurfellingar. Þetta eru upplýsingar sem koma úr gögnum fjármálaráðuneytisins.

Á meðan 10 % heimila fengu niðurfellingar sem byggðust upp á ofangreindum upplýsingum. Þá sátu margir eftir og fengu ekki leiðréttingar á sínum málum. Það voru 90 % þeirra heimila sem voru með verðtryggð húsnæðislán.

Kannski er það einmitt það sem var svona afskaplega ósanngjarnt.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á visir.is 11. nóvember 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Jafnrétti á vinnumarkaði – aðgerðir sem virka

Deila grein

11/11/2014

Jafnrétti á vinnumarkaði – aðgerðir sem virka

Eygló HarðardóttirÍ skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins um mun á stöðu kvenna og karla sem kom út í október síðastliðnum mælist kynjajafnrétti hvergi meira en á Íslandi sjötta árið í röð. Hinar Norðurlandaþjóðirnar skipa sér í næstu fjögur sæti. Við erum stolt af árangrinum þótt enn sé langt í land svo fullu kynjajafnrétti verði náð. Það er til dæmis ólíðandi að enn skuli ekki sömu laun greidd fyrir sambærileg störf, að konur séu enn í minnihluta í áhrifa- og stjórnunarstöðum í samfélaginu og hve erfiðlega gengur að brjóta upp kynjaskiptingu starfa á vinnumarkaði. Norðurlöndin hafa átt í samstarfi á sviði jafnréttismála á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar í 40 ár. Ráðherranefndin hefur stutt rannsóknasamstarf sem hefur kortlagt og sýnt hvernig kynferði ræður enn sem fyrr miklu um náms- og starfsval ungmenna sem við vitum að viðheldur kynjaskiptingu starfa og launamisrétti á vinnumarkaði.

Spennandi ráðstefnur

Í formennskuáætlun Íslands í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar 2014 hefur verið lögð áhersla á að efla umræðu um árangursríkar leiðir til að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði. Þann 12. og 13. nóvember nk. verða haldnar tvær ráðstefnur um jafnlauna- og vinnumarkaðsmál í Reykjavík. Niðurstöður norræna rannsóknarverkefnisins Hlutastörf, kyn og og dreifing tekna verða kynntar á ráðstefnunni 12. nóvember og daginn eftir mun norrænn starfshópur um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði, í samstarfi við aðgerðahóp íslenskra stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti, halda ráðstefnu um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði. Á ráðstefnunum munu margir erlendir og hérlendir sérfræðingar halda erindi og taka þátt í pallborðsumræðum um brennandi spurningar sem snúa að jafnrétti á vinnumarkaði.

Launarannsókn á öllum vinnumarkaðinum

Aðgerðahópur um launajafnrétti hefur m.a. það hlutverk að vinna að samræmingu rannsókna á kynbundnum launamun og hefur falið Hagstofu Íslands gerð launarannsóknar sem nær til vinnumarkaðarins alls. Í samstarfi við Háskóla Íslands er nú unnið að viðamikilli rannsóknaskýrslu um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði og mun hún nýtast hópnum við gerð framkvæmdaáætlunar um leiðir til að brjóta upp kynbundið náms- og starfsval sem rannsóknir hafa margoft sýnt að viðhaldi launamun kynjanna. Gera þarf ungt fólk meðvitað um valmöguleika sína svo það velji sér nám og starf í samræmi við áhugasvið og hæfileika. Hvernig getum við til dæmis hvatt stúlkur til náms í raungreinum og fengið drengi til að skoða með opnum huga möguleikann á því að verða hjúkrunarfræðingar eða kennarar?

Aðgerðahópurinn hefur staðið fyrir tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals og nýlega undirritaði ég reglugerð um vottun jafnlaunakerfa á grundvelli hans. Staðallinn gerir fyrirtækjum og stofnunum kleift að tryggja að málsmeðferð og ákvarðanataka í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins munu í vikunni undirrita samstarfsyfirlýsingu um námskeiðshald og fræðslu til þeirra sem hyggjast innleiða staðalinn og þá verða jafnframt veitt verðlaun í hönnunarsamkeppni um gerð jafnlaunamerkis sem fyrirtæki með jafnlaunavottun geta auðkennt sig með.

Við mótun nýrrar vinnumarkaðsstefnu verður sérstaklega skoðað hvernig ákvarðanir stjórnvalda hafa ólík áhrif á kynin. Eins verður horft til árangurs af samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í aðgerðahópi um launajafnrétti en ákveðið var á ríkisstjórnarfundi þann 24. október að halda samstarfinu áfram til næstu tveggja ára. Ég vona að þessar aðgerðir eigi eftir að marka framfaraspor í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 11. nóvember 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Leiðréttingin í höfn

Deila grein

10/11/2014

Leiðréttingin í höfn

Sigmundur Davíð GunnlaugssonÍ dag verða niðurstöður leiðréttingar á verðtryggðum húsnæðislánum kynntar og á morgun verða niðurstöðurnar birtar 69 þúsund heimilum á heimasíðu verkefnisins, leiðrétting.is. Þetta er gleðistund fyrir heimilin í landinu. Jafnframt er þetta gleðistund fyrir ríkisstjórnina sem setti bætta stöðu heimila í forgang í stefnuyfirlýsingu sinni.

Af hverju leiðrétting?

Leiðréttingin færir verðtryggð lán heimilanna í þau stöðu sem þau hefðu verið í ef óvænt og mikil verðbólga hefði ekki sett skuldastöðu heimilanna í uppnám á árunum 2008 og 2009. Á þessum tíma var mikið ójafnvægi í íslenskum þjóðarbúskap. Gengi íslensku krónunnar hrapaði, verðbólga fór úr böndunum, eignaverð hrundi og samdráttur varð í landsframleiðslu. Verðbólga hefur áður farið úr böndunum á Íslandi og gengið fallið en það sem skilur forsendubrestinn frá öðrum verðbólgutímabilum eru þættir sem tengjast fylgifiskum fjármálakreppa, svo sem þróun launa, kaupmáttar og eignaverðs.

Leiðréttingin er óhefðbundin aðgerð til að bæta hag heimila. En stjórnvöld og seðlabankar fjölmargra ríkja beittu sér fyrir óhefðbundnum og fordæmalausum aðgerðum í fjármálakreppunni til að draga úr hættu á langvarandi stöðnun. Gríðarleg inngrip seðlabanka leiddu til mikilla vaxtalækkana. Víða á Vesturlöndum hagnaðist yngra og skuldsettara fólk vegna lægri vaxta á húsnæðislánum en eldra fólk og fjármagnseigendur töpuðu vöxtum sem þeir hefðu ella fengið.

Á Íslandi voru einstakar aðstæður til að takast á við bankahrunið og fjármálakreppuna. Lausnin lá í því að landið hafði að miklu leyti verið afskrifað efnahagslega. Það gafst því tækifæri til að nýta þá staðreynd til að leiðrétta stöðu landsins og heimilanna. Bent var á að íslenska ríkið ætti að kaupa kröfur á hina föllnu banka og færa ætti niður skuldir heimilanna í ljósi þess að verðmæti þeirra hefði þegar verið afskrifað að verulegu leyti. Hvorugt var gert og um tíma leit út fyrir að tækifærið til að koma til móts við heimili með verðtryggð fasteignalán hefði farið forgörðum. Með útsjónarsemi og mikilli vinnu fjölda fólks hefur nú tekist að snúa við stöðu sem virtist töpuð og ná bestu mögulegu niðurstöðu.

Leiðréttingin er réttlætismál. Ólík lánsform með ófyrirsjáanlegri áhættu eiga ekki að ákvarða örlög heimila. Sá stóri hópur sem var með hefðbundin verðtryggð lán en gat ekki nýtt sér 110% leiðina hefur legið óbættur hjá garði þar til nú.

Framkvæmdin

Þó hugmyndafræðin að baki leiðréttingunni sé einföld og réttlát er framkvæmdin hins vegar tæknilega flókin. Það kemur einkum til af því að mörg ár eru liðin frá því að heimilin urðu fyrir forsendubresti og einkahagir margra hafa tekið breytingum frá þeim tíma. Þrátt fyrir þetta hefur framkvæmdin gengið afar vel. Framkvæmdin er umfangsmikið samstarfsverkefni hins opinbera, lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja. Samvinna þessara aðila hefur verið til mikillar fyrirmyndar.

Tökum höndum saman

Leiðréttingin tengist uppgjöri slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja. Verja skal hluta af fyrirsjáanlegu svigrúmi sem myndast við uppgjörið til að koma til móts við heimilin. Þar sem meira liggur á leiðréttingunni en uppgjöri slitabúa er bilið brúað með aðkomu ríkissjóðs. Svigrúmið er hins vegar þegar byrjað að myndast fyrir milligöngu ríkisins en slitabúin greiða nú tugi milljarða í skatta árlega.

Leiðréttingin er einungis fyrsta aðgerð af mörgum sem ríkisstjórnin hyggst innleiða á kjörtímabilinu í því skyni að skapa heilbrigðara umhverfi bæði heimila og fjármálamarkaðar. Losun fjármagnshafta, afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum, uppbygging húsnæðiskerfisins og endurskipulagning Íbúðalánasjóðs eru mikilvægar vörður á þeirri leið. Þannig munu öll heimili, óháð fjölskyldugerð og láns- eða leiguformi, njóta góðs af breytingunum.

Öll þessi verkefni taka tíma og geta krafist þolinmæði, enda verða aðstæður að vera hagfelldar svo að ekki verði lögð veruleg fjárhagsleg áhætta á heimilin. Flest bendir til að hagstæðar aðstæður séu að skapast til þessara verka þó vissulega séu blikur á lofti, t.d. vegna óvissu um kjarasamninga.

Tvíþætt aðgerð

Eins og kunnugt er eru skuldalækkunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar tvíþættar. Annars vegar aðgerðir til beinnar niðurfærslu á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar lækkun höfuðstóls með skattleysi séreignarlífeyrissparnaðar í þrjú ár. Þessar aðgerðir falla mjög vel saman. Heimili sem nýtur hámarksleiðréttingar getur lækkað höfuðstól láns síns um meira en sex milljónir króna á þremur árum. Til dæmis getur heimili með meðallán tekið um aldamótin lækkað höfuðstól lánsins um 20% nýti það sér hámarks skattfrelsi séreignarlífeyrissparnaðar. Bein lækkun höfuðstóls í leiðréttingunni er að meðaltali um 1,3 milljónir króna.

Heimilin í landinu eru hornsteinn okkar samfélags. Með því að skila fjármagni til heimila sem urðu fyrir ófyrirséðu tjóni mun þessi umfangsmikla leiðrétting ekki aðeins bæta stöðu tugþúsunda heimila með beinum hætti heldur einnig koma samfélaginu öllu til góða.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. nóvember 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Hversu há eru vaxtagjöldin?

Deila grein

06/11/2014

Hversu há eru vaxtagjöldin?

Elsa-Lara-mynd01-vefurÞað væri áhugavert að fá upplýsingar um vaxtagjöld ríkisins frá hruni, vegna lána til bjargar fjármálakerfinu. Heyrst hefur að sú tala gæti verið í kringum 58 milljarða króna. Til að fá fullkomna vissu um kostnaðinn þá er ég að leggja fram skriflega fyrirspurn til fjármála – og efnahagsráðherra um málið. Svör ættu að berast upp úr miðjum nóvembermánuði.

Áhugaverðar upplýsingar
Áhugavert er að vita hvort þessar tölur séu réttar. Ástæðan er sú að all nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa komið fram með stór orð. Orð þessa efnis að þeir 80 milljarðar króna sem renna munu til heimila á næstu dögum í gegnum leiðréttinguna, sé illa varið. Þeirra skoðun er að nýta eigi peningana í aðra og þarfari hluti.
 
Furðulegur málflutningur
Ég skil ekki þennan málflutning. Af hverju er í góðu lagi að greiða tugi milljarða til fjármálastofnanna, en þegar kemur að heimilum landsins þá ætlar allt um koll að keyra? Nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa komið fram með orð eins og ,,arfavitlaus skuldaniðurfelling“ og ,,við teljum arfavitlausa fásinnu að fara í þessar skuldaleiðréttingar með þessum gríðarlega tilkostnaði fyrir hið opinbera.“

Hvað er vaxtakostnaður vegna fjármálakerfisins annað en gríðarlegur tilkostnaður fyrir hið opinbera? Hvers vegna finnst sumum þingmönnum stjórnarandstöðunnar það í lagi að fjármálastofnanir sogi sífellt til sín fjármagn frá heimilum landsins? Af hverju finnst nokkrum þeirra ekki í lagi að krefja föllnu fjármálastofnanirnar um að borga hluta tilfærslunnar til baka? Það er að mínu mati algjörlega óskiljanlegt.

Rangur málflutningur
Á sama tíma fara þingmenn stjórnarandstöðunnar með rangan málflutning og segja leiðréttinguna gagnast að mestu hátekjufólki, sá málflutningur er rangur. Staðreyndin er sú að skuldaleiðréttingin er þannig útfærð að þeir tekjulægri fá hlutfallslega meira. Hátt í helmingur leiðréttingarinnar fer til heimila með undir 6 milljón krónur í árslaun. Heimili þar sem tveir einstaklingar eru hvor um sig með undir 250 þús. krónur í mánaðarlaun.

Staðreyndir úr gögnum ráðuneyta
Staðreyndin sú að 110 % leiðin nýttist aðeins 10 % heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir. Um 1% heimilanna hrepptu helming niðurfærslunnar, það eru 20 milljarða króna. Þessi 775 heimili fengu hvert yfir 15 milljón króna niðurfærslu og var meðaltal niðurfærslu um 26 milljónir. Meðaltekjur þessara heimila voru 750 þúsund á mánuði og talsvert mörg dæmi um að menn hafi haft 2 milljónir á mánuði.

Mig langar því að biðja þingmenn stjórnarandstöðunnar að líta sér aðeins nær. Skoða sín eigin verk áður en farið er að gagnrýna verk annarra.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á visir.is 6. nóvember 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Skuldir heimilanna lækka um 80 milljarða

Deila grein

05/11/2014

Skuldir heimilanna lækka um 80 milljarða

ásmundur_Srgb_fyrir_veffrosti_SRGB_fyrir_vefWillum Þór ÞórssonHöfuðstólsleiðrétting ríkisstjórnarinnar skilar hátt í 70 þúsund heimilum lækkun á húsnæðisskuldum sem nemur samtals 80 milljörðum. Aðgerðin er fjármögnuð með hækkun skatta á fjármálafyrirtæki og ekki síst með því að afturkalla skattundanþágu sem fyrri ríkisstjórn hafði veitt slitabúum gömlu bankanna.

Það er dapurlegt að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur (JS) hafi ákveðið að undanskilja slitabúin og þar með erlenda kröfuhafa frá skatti upp á tugi milljarða. Þess í stað var í þrígang reynt að koma skuldum fallinna einkabanka á herðar íslenskra heimila með Icesave-samningum. Það er ljóst að sá gríðarlegi niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarkerfi sem ríkisstjórn JS fór í hefði ekki þurft að koma til hefði ríkisstjórnin ákveðið að skattleggja eignir erlendu kröfuhafanna eins og Framsóknarmenn bentu á.

Um 69 þúsund heimili sóttu um niðurfærslu lána vegna húsnæðiskaupa. Sýnir það hve þörfin var brýn, enda þurftu heimilin í landinu að bera uppi kostnaðinn á hruninu, með auknum sköttum, hækkandi verðlagi á sama tíma og húsnæðislán heimilanna hækkuðu mikið. Meðalfjárhæð niðurfærslu á hvert heimili verður líklega vel yfir 1 mkr.

110%-leið fyrri ríkisstjórnar nýttist aðallega tekjuhæstu heimilum en skildi þau tekjulægri eftir með vandann. 110%-leiðin fól í sér að bankar afskrifuðu lán sem voru yfir 110% af markaðsvirði fasteigna. Leiðin nýttist aðeins um 10% heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir. Um 1% heimilanna hrepptu helming niðurfærslunnar, rúmlega 20 milljarða króna. Þessi 775 heimili fengu hvert yfir 15 mkr. niðurfærslu og var meðaltal niðurfærslu um 26 mkr. Dæmi eru um einstaklinga sem fengu meira en 100 milljónir afskrifaðar. Fyrri ríkisstjórn ber þannig ábyrgð á 20 milljarða króna niðurfærslu á lánum auðugasta hluta þjóðarinnar. Ríkisstjórn JS lækkaði skuldir tekjumesta fólksins á sama tíma og erlendir kröfuhafar voru undanskildir eðlilegum skattgreiðslum.

Skuldaleiðrétting
Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fór aðra og sanngjarnari leið. Hámarksleiðrétting á hvert heimili var ákveðin fjórar milljónir króna. Skuldaleiðréttingin er þannig útfærð að þeir tekjulægri fá hlutfallslega meira. Hátt í helmingur leiðréttingarinnar fer til heimila með undir 6 milljón krónur í árslaun. Heimili þar sem tveir einstaklingar eru hvor um sig með undir 250 þús. krónur í mánaðarlaun.

Skuldaleiðréttingin er efnahagsleg aðgerð og fær jákvæðar umsagnir hjá erlendum aðilum og lánshæfismatsfyrirtæki hafa t.d. hækkað lánshæfismat Íslands. Þá hefur alþjóðlegt lánshæfismat fjármálafyrirtækja hér á landi einnig hækkað. Lækkun skulda er að mati margra erlendra hagfræðinga skilvirkasta leiðin til að draga úr neikvæðum afleiðingum efnahagsáfalls og flýta fyrir endurbata hagkerfisins.

Talsmenn stjórnarandstöðunnar, sem á hátíðarstundum kenna sig við velferð og jöfnuð, reyna að gera lítið úr leiðréttingu ríkisstjórnarinnar á skuldum heimilanna. En hið rétta er að leiðréttingin dreifist mun jafnar en aðgerðir fyrri ríkisstjórnar og heimilin munar um að fá skuldalækkun upp á 80 milljarða. Í stað þess að slá ryki í augu almennings ættu þingmenn stjórnarandstöðunnar að styðja ríkisstjórnina í því að lækka skuldir íslenskra heimila.

Ásmundur Einar Daðason, Frosti Sigurjónsson og Willum Þór Þórsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. nóvember 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Söguríkt Rauðarárholt

Deila grein

04/11/2014

Söguríkt Rauðarárholt

sigrunmagnusdottir-vefmyndMiðborgarkjarni
Skólavörðuholtið sem og Öskuhlíðin blómstra sem viðkomustaðir fjölmargra ferðalangra. Báðir staðir skarta sögu hvað varðar atvinnulíf og félagsstarf skólanema. Við eigum fleiri holt og hæðir innan borgarinnar ekkert síður en Rómaborg. Rauðarárholtið er ekki síður þrungið sögu atvinnulífs og skólastarfs.

Sjómannaskólinn var lengi eitt aðalkennileiti borgarinnar, enda sást hann víða að og var tekin sem viðmið til glöggvunar fyrir ferðamenn í Reykjavík. Enda innsiglingavitinn fyrir sjófarendur settur í turn skólans og hann var í orðsins fyllstu merkingu vitinn, sem lýsti mönnum leið í örugga höfn.

Hinn mikli fjöldi ferðalanga sem kýs að sækja okkur heim, hefur komið okkur nokkuð í opna skjöldu. Dagsskipunin er því að reyna að dreifa álaginu og opna sýn á fleiri staði til að taka á móti gestum okkar. Mig langar að vekja athygli á Rauðarárholtinu og hvað það er kyngimagnað og býr yfir miklum möguleikum til að laða að og hafa ofan af fyrir mörgum gestum.

Kirkja seiðir að ferðamenn
Það eru ekki mörg holt sem státa af tveim kirkjum. Þegar sækja ferðamenn mikið til Rauðarárholtsins til að skoða og mynda eina fallegustu kirkju borgarinnar – Háteigskirkju. Hvað svo? Enginn staður til að sækja í fræðslu eða upplýsingar. Ekkert kaffihús – nema heppnin sé með og einhver vegfarandi geti vísað á Kjarvalsstaði. Hvers vegna er ekki notalegt kaffihús á Rauðarárholti fyrir heimamenn, nemendur og ferðalanga? Það er sagt að ferðamenn sækist sérstaklega eftir að koma á staði þar sem heimafólk er fyrir. Það er enginn smáfjöldi fólks sem sækir vinnu og nám á Rauðarárholtið á hverjum virkum degi fyrir utan afar fjölbreytta íbúasamsetningu svæðisins.

Útsýnispallur og útileikhús
Á Rauðarárholtinu er kaldavatnstankur, sem settur var upp til að eiga ávallt nægjanlegt vatn tiltækt, en hann var settur upp eftir brunann mikla í Reykjavík árið 1925. Uppi á tankinum er lítill útsýnispallur, en þaðan er stórkostlegt útsýni yfir borgina og hafið. Það væri ekkert stórmál að gera trébekki í hálfhring til norðurs út frá tankinum niður á melinn. Það væri tilvalið svæði til að vera með leiksýningar eða kynningar fyrir ferðamenn. Einnig gætu hinir fjölmennu skólar Rauðarárholtsins nýtt sér slíkt útisvið til ýmissa athafna og fræðslu.

Rétt við Vatnstankinn stendur fallegt listaverk eftir Sigurjón Ólafsson „Saltfiskstöflun“ af konum við þurrkun og stöflun saltfisks. Á Rauðarárholtinu fór fram töluverð saltfiskvinnsla. Á klöppunum – grjótinu var saltfiskurinn þurrkaður í sólinni. Nokkrir steinar þar bera menjar um að á þeim var fiskur barinn. Þetta eru mikilvægar minjar í borginni um atvinnugreinina sem flutti okkur inn í nútímann. Við fórum að salta fisk í auknum mæli þegar bátar stækkuðu og gátu sótt lengra til hafs. Þá var bakarinn Bernhöft sóttur til útlanda um 1845 til að baka rúgbrauð í vertíðarbáta. Bernhöftsbakari er sennilega elsta starfandi fyrirtæki borgarinnar. Rúgbrauð og saltfiskur ættu að vera eitt aðaleinkenni í matargerð okkar og sem við eigum að miðla til heimamanna sem og ferðamanna.

Menntabraut
Eigum við kannski að kalla staðinn Menntaholtið, mér er tjáð að stígur þar beri nafnið menntabraut, enda ekki óeðlilegt því að óvíða er þéttara samfélag nema á öllum aldri að feta sinn menntastíg. Á holtinu er grunnskóli, leikskóli, dansskóli, tækniskóli og kennaraháskóli – slær einhver staður þetta holt út hvað varðar fjölbreyttni í menntun á litlu svæði?

Umhverfisparadís
Síðast en ekki síst er unnt að gera Rauðarárholtið að umhverfisvænasta svæði borgarinnar – svæði án bíla. Bortækni fleygir fram og næsta víst að unnt er að bora stóran bílahelli undir holtið með innakstri frá Skipholti. Stigar og lyftur kæmu upp úr hellinum á nokkrum stöðum. Þá væri unnt að halda magnaða tónleika í slíkum bergsal.

Sannarlega er hægt að gera Rauðarárholtið að flottum söguríkum miðborgarkjarna með kaffihúsum, leikhúsum, verslunum og fleiru sem prýðir slíka staði.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Skjaldborgin rís eftir langa bið

Deila grein

29/10/2014

Skjaldborgin rís eftir langa bið

Silja-Dogg-mynd01-vefElsa-Lara-mynd01-vefurInnan skamms verða verðtryggð húsnæðislán heimilanna leiðrétt. Um jafnræðisaðgerð er að ræða sem mun koma flestum íslenskum heimilum til góða. Loksins fá heimilin að njóta einhverrar sanngirni og réttlætis. Húsnæðismálin eru einnig í brennidepli en húsnæðismálaráðherra mun leggja fram fjögur frumvörp þessa efnis á yfirstandandi þingi. Lengi hefur verið talað um þörf á nýju húsnæðiskerfi og loksins sjáum við fram á að það verði að veruleika.

Stóra planið gengur upp

Á sumarþingi 2013 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um  aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Tillagan var í tíu liðum og leiðréttingin er aðeins einn liður af tíu. Aðrir þættir aðgerðaráætlunar eru t.d. að gerðar verði tillögur um framtíðarskipan húsnæðismála. Umsóknir um leiðréttingu á lánum voru 69 þúsund frá 105 þúsund einstaklingum. Umsóknarferlið var einfalt og vinnan við að reikna út leiðréttinguna gengur mjög vel. Innan skamms munu tilkynningar berast um leiðréttingu lána

Spunameistararnir

Nú þegar leiðréttingin er handan við hornið er eins og sumir hafi gleymt af hverju farið var í þessa vegferð. Á síðasta kjörtímabili vildu sumir þingmenn þáverandi stjórnarflokka fara í aðgerðir til að leiðrétta stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán. Úr því varð ekki. Þáverandi forsætisráðherra sagði nefnilega að ekki yrði meira gert fyrir skuldsett heimili. Á sama tíma var ráðist í stórar efnahagsaðgerðir; skuldir fyrirtækja afskrifaðar og gengistryggð lán voru endurreiknuð. Þeir sátu eftir sem skulduðu verðtryggð lán.

Tekjulágir fá meira

Sama fólk og talaði á síðasta kjörtímabili fyrir nauðsyn þess að leiðrétta stökkbreytt lán, talar nú gegn aðgerðum ríkisstjórnarinnar og kastar vísvitandi ryki í augu almennings. Talað er um kaldar pizzur og visa skuldir í þessu samhengi. Sannleikurinn er sá að hlutfall fjárhæðar niðurfærslu og árstekna er hærra hjá tekjulægri heimilum en þeim tekjuhærri. Þannig að þeir tekjulægri fá hlutfallslega meira. Tæpur helmingur leiðréttingarinnar fer til heimila með undir 6 milljón kr.í árslaun sem eru t.d. heimili þar sem tveir einstaklingar eru hvor um sig með undir 250 þús. kr. í mánaðarlaun. Meðalfjárhæð niðurfærslu hækkar eftir því sem fjöldi barna er meir, þar sem stærri fjölskyldur eiga iðulega stærra húsnæði og meiri skuldir. Rétt er að benda á að ef þessi leiðrétting kæmi ekki til nú, þá yrði hækkun höfuðstóls enn meiri vegna verðbólgunnar.  Unnið er hörðum höndum innan ráðuneyta að afnámi verðtryggingar og munu niðurstöður þeirrar vinnu liggja fyrir í mars 2015.

Skattgreiðendur og hrægammar

Það hefur legið fyrir frá því framkvæmd leiðréttingarinnar var kynnt að bankaskattur yrði hækkaður og undanþága fjármálastofnana í slitameðferð frá skattinum  afnumin. Í fyrsta sinn eru þrotabúin skattlögð og gert er ráð fyrir að þessar breytingar auki tekjur ríkissjóðs um 92 m.kr. á fjórum árum.  Það er fráleitt að halda því fram að heimilin borgi leiðréttinguna í þeim skilningi sem sumir kjósa að túlka svo. Þeir sem ekki eiga húsnæði geta einnig notið góðs af aðgerðum ríkisstjórnarinnar með því að nýta séreignarsparnað og safna í sjóð til húsnæðiskaupa . Nýtt húsnæðiskerfi mun einnig tryggja hagmuni leigjenda mun betur en nú er.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar stendur með heimilunum og ræðst í verkefni sem fyrri ríkisstjórn taldi ógerlegt. Núverandi ríkisstjórnar verður minnst í sögubókum framtíðarinnar fyrir að hafa reist hina langþráðu skjaldborg um heimilin í landinu.

Silja Dögg Gunnarsdóttir og Elsa Lára Arnardóttir

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Sárt bítur soltin lús

Deila grein

23/10/2014

Sárt bítur soltin lús

Þorsteinn sæmundsson_SRGB_fyrir_vefFulltrúar þeirra sem þorðu ekki, gátu ekki og vildu ekki leiðrétta verðtryggð húsnæðislán heimilanna meðan þeir áttu þess kost, eiga bágt með að sætta sig við að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar stendur með heimilunum í landinu og vinnur markvisst að því að niðurstaða fyrirhugaðrar skuldaleiðréttingar liggi fyrir innan tíðar. Fremstur í flokki úrtölumanna fer háttvirtur þingmaður Helgi Hjörvar, sár og svekktur. Eins og fyrri daginn lætur þingmaðurinn staðreyndir ekki flækjast fyrir sér heldur veður elginn og ruglar út í eitt. Sá sem hér ritar hefur áður látið þá skoðun sína í ljós að háttvirtur þingmaður Helgi Hjörvar sé ekki töluglöggur. Sá Akkillesarhæll þingmannsins kom berlega í ljós á Alþingi í síðustu viku. Þar fór hann að vanda rangt með tölur og ruglaði saman óskyldum hlutum. Þegar að því var fundið bar þingmaðurinn sig aumlega og birti „gögn“ á Eyjunni í því augnamiði að styðja við bullið en „gögnin“ leiddu einmitt í ljós veilurnar í málflutningi hans. Meðal þess sem háttvirtur þingmaður kom inn á var fjármögnun leiðréttingarinnar. Hann heldur því fram að heimilin í landinu séu sjálf að borga leiðréttinguna.

Þrotabúin skattlögð
Hið rétta er að það hefur ávallt legið fyrir að ríkið gæti þurft að vera milliliður, sérstaklega ef menn vildu flýta leiðréttingunni. Það hefur einnig legið fyrir frá því framkvæmd leiðréttingarinnar var kynnt að sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, svokallaður bankaskattur, hefur verið hækkaður og undanþága fjármálastofnana í slitameðferð frá skattinum verið afnumin. Gert er ráð fyrir að þessi breyting á bankaskattinum auki árlegar tekjur ríkissjóðs um 92 milljarða á fjórum árum. Í fyrsta sinn eru þrotabúin skattlögð, nokkuð sem fyrrverandi ríkisstjórn heyktist á að koma í verk allan sinn starfstíma. Þingmaðurinn heldur því fram að meðalleiðrétting skulda verði um 5%. Í þessu dæmi tekur þingmaðurinn mið af heildarskuldum heimilanna, þ.m.t. yfirdráttar- og Visa-skuldir. Vissulega stendur núverandi ríkisstjórn með heimilunum í landinu en aldrei stóð til að leiðrétta Visa-skuldir.

Þingmaðurinn „gleymir“
Hið rétta er að áætlanir gera ráð fyrir að meðallækkun verðtryggðra húsnæðisskulda samkvæmt leiðréttingunni verði um 11% en það hlutfall er háð fjölda þeirra sem rétt eiga á leiðréttingu. Heildarupphæð húsnæðislána í lok árs nam 1.242 milljónum króna skv. Hagstofunni. Þingmaðurinn segir að hækkun neðra þreps VSK úr 7 í 12% muni hækka matarverð um 5%. Þarna „gleymir“ þingmaðurinn að taka inn í myndina afnám vörugjalda m.a. af matvælum. Einnig „gleymir“ þingmaðurinn að taka tillit til lækkunar efra þreps VSK og áhrifa hennar. Hið rétta er að verð á nauðsynjum mun skv. núverandi frumvarpi hækka um 3,4% en að teknu tilliti til áhrifa af niðurfellingu vörugjalda og lækkun efra þreps mun kaupmáttur heimila aukast.

Sá fræjum tortryggni
Auk þessa kýs þingmaðurinn að líta fram hjá fyrirhugaðri hækkun barnabóta og annarra mótvægisaðgerða við fimbulfamb sitt. Þingmaðurinn fer mikinn vegna vaxtabóta og velur að sjálfsögðu að nota árið 2011 sem viðmiðunarár en þá voru vaxtabætur hæstar. Vaxtabætur hafa farið lækkandi vegna bættrar eiginfjárstöðu heimilanna. Þannig lækka þær milli áranna 2014 og 2015 um rúmar 400 milljónir. Bætt eiginfjárstaða heimilanna varð þingmanninum raunar að umræðuefni nýlega þar sem hann taldi skuldaleiðréttinguna ónauðsynlega hennar vegna. Erfitt er að gera sér grein fyrir hvað þingmaðurinn nákvæmlega vill. En talnablekkingavefurinn sem hann hefur spunnið þvælist líklega fyrir honum. Þingmaðurinn vakti ítrekað athygli á því á síðasta kjörtímabili að nauðsynlegt væri að leiðrétta skuldir heimila. Hann bjó þá við þá ógæfu að styðja ríkisstjórn sem hélt sérstakan blaðamannafund til að tilkynna að ekki væri ráðrúm til að gera meira fyrir skuldsett heimili.

Þingmaðurinn og skoðanabræður hans virðast ekki geta sætt sig við að núverandi ríkisstjórn er að standa við kosningaloforð sín. Sárast er að með málflutningi sínum reyna þessir sömu menn að grafa undan aðgerðum ríkisstjórnarinnar og sá fræjum tortryggni í brjóst þeirra sem munu njóta góðs af þeim í stað þess að gleðjast yfir því að hagur heimilanna í landinu sé bættur.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 23. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.