Categories
Greinar

Undirskriftir fyrir útgerðina

Deila grein

10/05/2015

Undirskriftir fyrir útgerðina

haraldur_SRGBÁ fáum sviðum hafa Íslendingar náð jafnmikilum árangri og í sjávarútvegi. Þrátt fyrir það, og ef til vill vegna þess, er umræðan um íslenskan sjávarútveg oft á tíðum neikvæð og jafnvel fjarstæðukennd. Íslenskur sjávarútvegur skilar nú meiri tekjum til samfélagsins en nokkurn tíma í sögu landsins. Fiskur í sjó telst þó ekki alls staðar verðmæt auðlind. Í flestum löndum er sjávarútvegur ekki arðbær grein. Ríki sem stunda sjávarútveg, og hafa efni á, veita iðulega miklu af fjármagni skattgreiðenda í ríkisstuðning við greinina á sama tíma og þau stunda rányrkju á fiskstofnum. Hér á landi hefur hins vegar skynsamleg stjórn fiskveiða leitt til þess að saman fara hagkvæmar og sjálfbærar veiðar. Sjávarútvegur þar sem náttúran er vernduð en samfélagið, allur almenningur, hagnast á greininni í stað þess að hún sé byrði á skattgreiðendum.

Viðhorf til atvinnu- og verðmætasköpunar
Þessa dagana ber talsvert á fólki sem þykir hvorki við hæfi að þeir sem reka fyrirtæki hagnist né að þeir tapi peningum og má vart á milli sjá hvort telst meiri synd.

Þessum hópi, sem tortryggir alla sem búa til störf og skila tekjum til samfélagsins, virðist vera alveg sérstaklega í nöp við þá sem ná árangri á sviði sjávarútvegs og skila með því sköttum í ríkiskassann. Það er kaldhæðnislegt að þeir hinir sömu tala iðulega fyrir breytingum sem eru til þess fallnar að tryggja hámarkssamþjöppun í greininni þar sem fá fyrirtæki á fáum stöðum með hámarkshagkvæmni, þar með talið ódýru vinnuafli, hafa forskot á að kaupa aflaheimildir.

Óneitanlega þarf að bæta kjör fiskverkafólks í landi og styrkja tengsl útgerðarinnar við byggðirnar en það er ekki gert með því að selja aflaheimildir til erlendra verksmiðjuskipa eins og þeir sem vilja »bjóða upp kvótann« boða.

»Makrílfrumvarpið«
Einhver mesta pólitíska kaldhæðni sem birst hefur á Íslandi í seinni tíð hlýtur þó að vera undirskriftasöfnun sem nú stendur yfir gegn svokölluðu makrílfrumvarpi.

Aðdragandinn var þessi: Umboðsmaður Alþingis skilaði í fyrrasumar niðurstöðu um að það bæri að skipta upp veiðiheimildum á makríl (hlutdeildarsetja). Sjávarútvegsráðherra hafði tvo kosti í stöðunni. Hann gat valið einföldu leiðina, þá sem lá beinast við, og gefið út reglugerð um að sömu reglur giltu um makrílinn og aðrar tegundir. Semsagt, engin aðkoma Alþingis, engin umræða, málið afgreitt.

En ráðherrann, sem að vanda var að huga að því að tryggja samfélaginu hámarksávinning af auðlindinni, ákvað þess í stað að fara erfiðu leiðina og setja sérstök lög um makrílinn. Það var ekki vinsælt hjá mörgum útgerðum enda var ráðherrann með því að setja nýjar hömlur, skerða heimildir og treysta yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindinni.

Andstaða úr óvæntri átt
Þá gerðist hið óvænta: Stjórnarandstaðan og bandamenn hennar, uppfullir af fordómum í garð stjórnarflokkanna og alls þess sem viðkemur stjórn fiskveiða, taldi að frumvarp ráðherrans hlyti að fela það í sér að verið væri að
gefa einhverjum eitthvað.

Ræður í anda millistríðsáranna um sérhagsmuni og gjafir til útvalinna létu ekki á sér standa. Sumir töldu sér meira að segja sæmandi að ráðast persónulega á þingmann fyrir að maki hans ætti bát sem félli undir ný lög um makrílveiðar. Ráðherrann hlyti að vera að hygla samflokksmanni sínum.

Enginn hafði þó fyrir því að kanna málið og komast að því að nýju lögin munu skerða afla »maka-bátsins« um meira en helming frá árinu áður. En um það snýst einmitt frumvarpið; að setja takmarkanir og skerða heimildir frekar en hitt og í stað þess að ráðstafa kvóta ótímabundið gildir hann aðeins í sex ár. Það var ekki verið að gefa heldur taka. Keppinautar okkar við makrílveiðar, Danir, höfðu þó komist að því að sex ár væri of skammur tími til að fyrirtækin gætu gert ráðstafanir og ákváðu að lengja tímann.

Undirskriftir fyrir útgerðina
Svo var ráðist í undirskriftasöfnun til að andmæla frumvarpinu af ótta við að með því væri verið að gefa einhverjum útvöldum það sem þjóðin ætti. Til að undirstrika tilfinningalegan grunn söfnunarinnar var birt mynd af barni sem heldur á þorski eins og andvana gæludýri.

Líklega ætti það ekki að koma fólki sem fylgist með vendingum stjórnmálanna á óvart að þeir sem hafa verið duglegastir við að vekja athygli á undirskriftasöfnuninni eru þeir sömu og lögðu fyrir skömmu allt kapp á að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. En eins og flestum ætti að vera kunnugt hefði það falið í sér að makríllinn væri ekki fyrir íslensk fiskiskip, hvað þá íslensk þjóðareign. Hann væri eign ESB til ráðstöfunar frá Brussel.

Hin einstæða kaldhæðni liggur þó í því að undirskriftasöfnunin er umfram allt stuðningur við stóru útgerðarfyrirtækin og afstöðu þeirra. Þeir sem nú safna undirskriftum af kappi eru að gera það í þágu þeirra sem þeir hafa sérstaka andúð á og uppnefna »sægreifana« eða sérhagsmunaöfl.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. maí 2015.

Categories
Greinar

Hafið bláa hafið

Deila grein

07/05/2015

Hafið bláa hafið

HÞÞ1„Hafið bláa, hafið hugann dregur, hvað er bak við ystu sjónarrönd?“ Þetta eru ljóðlínur sem Íslendingar kannast vel við. En hafið okkar bláa er ekki bara efni í fallegar ljóðlínur. Það er okkar stærsta náttúruauðlind sem þarf að nálgast af virðingu og hún þarf að vera til staðar fyrir komandi kynslóðir. Það vita Íslendingar. Til þess að svo megi verða þarf að huga að lífríkinu og umhverfi hennar með markvissum hætti.

Mengun sjávar er alþjóðlegt vandamál ekki síður en mengun lofthjúps jarðar þar sem umferð skipa er óháð landamærum og losun mengandi efna á einum stað hefur oftar en ekki áhrif fjarri losunarstaðnum. Fjölmargir mengunarvaldar, af mannavöldum, ógna hreinleika og heilbrigði hafsins og eru afleiðingar margs konar mengunar sem sífellt fer vaxandi. Óhugnanlegt magn af úrgangi og spilliefnum berast í hafið dag hvern og því miður eru að koma í ljós ýmsar óæskilegar breytingar á vistkerfi sjávar af völdum manna.

Ísland fer með forsæti í Norðurlandaráði á árinu 2015. Í formennskuáætluninni, þar sem markmið íslensku formennskuáætlunarinnar koma fram, er lögð sérstök áhersla á norðurslóðir með áherslu á hafið sem umlykur Ísland. Á níunda áratug síðustu aldar beindist athyglin að siglingum og mengun sjávar og á tíunda áratugnum að umhverfis- og öryggismálum. Markmið íslensku formennskuáætlunarinnar er að halda áfram því starfi sem unnið hefur verið varðandi umhverfismál, loftslagsbreytingar, efnahagsmál, samfélagsmál og öryggismál en allt eru þetta þættir sem snúa að hafinu okkar.

Stefna íslenskra stjórnvalda í málefnum hafsins felur m.a. í sér að tryggja sjálfbærni þess og vinna gegn mengun sjávar. Ísland hefur verið þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði og leiðandi í málefnum hafsins. Íslensk stjórnvöld hafa staðfest þó nokkra alþjóðlega samninga um varnir gegn mengun sjávar frá skipum. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á og hefur eftirlit með framfylgd flestra þeirra. Þá gegnir umhverfis- og auðlindaráðuneyti stefnumótunar- og eftirlitshlutverki á þessu sviði. Það ákveður t.d. hvaða alþjóðasamningar eru staðfestir og setur reglugerðir vegna þeirra. Að auki gegna stofnanir innanríkisráðuneytis, Samgöngustofa og Landhelgisgæsla Íslands, afmörkuðum hlutverkum á þessu sviði.

Skýr stefnumörkun stjórnvalda
Þó að stefnumörkun stjórnvalda sé skýr varðandi verndun sjávar gegn mengun er nauðsynlegt að gera aðgerðaráætlanir. Áætlanir um það hvernig skuli framfylgja settum markmiðum og auka fjármagn til að hrinda þeim í framkvæmd. Það eru ekki bara óþrjótandi möguleikar sem felast í því að vera staðsett á norðurhluta Atlandshafsins. Í því felast einnig miklar skyldur. Sjálfbær veiði, góð umgengni og ítarlegar rannsóknir eru góð markmið en þeim þarf að fylgja eftir.

Höskuldur Þórhallsson

Greinin birtist í Öldunni, fréttablaði um sjávarútveg 6. maí 2015.

Categories
Greinar

Makrílfrumvarpið, kjarni málsins?

Deila grein

06/05/2015

Makrílfrumvarpið, kjarni málsins?

haraldur_SRGBÍ gildi eru lög um stjórn fiskveiða frá 2006 og lög frá 1996 um stjórn veiða á deilistofnum eins og makríl. Þeim verður að fylgja þar sem ekki hefur náðst samstaða um breytingar, hvorki við stjórnarandstöðu né við samstarfsflokkinn. Í þeim lögum kemur skýrt fram að útgerðir sem stunda veiðar á nýjum tegundum eignast rétt til veiða í samræmi við veiðireynslu.

-Áðurnefnd lög kveða á um að þegar veiðar eru takmarkaðar þá skuli úthluta veiðirétti til þeirra sem hafa stundað veiðar.

-Árið 2011 voru komin 3 ár og hefði þá átt að kvótasetja makrílinn samkvæmt áðurnefndum lögum og áliti umboðsmanns Alþingis.

-Í stað þess að setja makrílinn í kvóta með reglugerð, sem hefði fært stærstu útgerðaraðilunum megnið af kvótanum, er honum úthlutað til skemmri tíma með auka gjaldi upp á 1,5 milljarð á ári umfram hefðbundin veiðigjöld, auk þess að dreifingin á veiðiréttinum er meiri, t.d. til smábátaútgerða sem geta nú aukið veiðar á markíl á grunnslóð.

-Áfram gildir 1. ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða þar sem skýrt er tekið fram sameign íslensku þjóðarinnar á nytjastofnum á Íslandsmiðum. Ágreiningur hefur verið uppi um hvort ríkið geti tekið veiðiheimildir af núverandi kvótahöfum nema að það yrði gert yfir mjög langan tíma. Það er því ljóst að úthlutun á makríl til 6 ára er í því samhengi verulega stuttur tími.

-Framsókn hefur talað fyrir því að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

-Í frumvarpi ráðherra er gert ráð fyrir sérstöku veiðigjaldi á makríl sem er um 10 krónur á hvert kíló. Heyrst hafa gagnrýnisraddir um að gjaldið sé of lagt og of hátt. Sumir hafa gengið svo langt að telja að veiðigjald á makríl geti verið allt að fimm sinnum hærra. Horfa skal til þess að meðalverð á makríl til útgerða er um 60 krónur á kíló. Augljóst á að vera að útgerð sem á að greiða 90 krónur fyrir veitt kíló á makríl þarf að greiða með veiðunum 30 krónur á hvert og eitt kíló. Það er einfaldlega dæmi sem gengur aldrei upp.

-Líkt og áður segir eru lög í gildi um stjórn fiskveiða. Í þeim lögum er ekki að sjá að ríkið hafi heimild til að setja veiðiheimildir á markað sem útgerðir hafa stundað veiðar á í áratug. Myndu menn kjósa að breyta lögum um stjórn fiskveiða með þeim hætti að ríkinu væri heimilt að setja veiðirétt á uppboð, er ljóst að afleiðingarnar yrðu helst þær að enginn hvati væri til að taka fyrstu skref við veiðar á nýjum tegundum og að þeir sem fyrir eru sterkir í greininni munu hafa yfirgnæfandi forskot. Slíkt myndi leiða til óhemju mikillar samþjöppunnar í greininni og á landsbyggðinni allri.

-Fyrri ríkisstjórn hafði tækifæri til að breyta lögum með þeim hætti að löglegt væri úthluta veiðiheimildum á nýjum tegundum, eins og makríl, með öðrum hætti en núverandi lög kveða á um. Þegar litið er til fyrirliggjandi frumvarps og umræðu um að hlutdeildarsetja makríl í gamla kerfið til eins árs í senn og með því færa stærstu uppsjávarfyrirtækjunum nær allar veiðiheimildir á makríl, þá væri fundarheitið hjá Samfylkingunni í kvöld um „Markríll fyrir millana“ fyrst viðeigandi.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist á www.visir.is 7. maí 2015.

Categories
Greinar

Að kasta steini úr glerhúsi

Deila grein

05/05/2015

Að kasta steini úr glerhúsi

Elsa-Lara-mynd01-vefurÁGÚSTHún var um margt athyglisverð grein bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar í síðasta tölublaði Fjarðarpóstsins. „Jöfnum leikinn“ var yfirskrift greinarinnar sem skrifuð var í tilefni af baráttudegi verkafólks, 1. maí.

Um margt erum við sammála en farið er ansi frjálslega eða beinlínis ranglega með staðreyndir í umfjöllun um frumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra. Í greinni segir orðrétt: „Ekkert bólar á húsnæðisfrumvarpi velferðaráðherra á þeim tveimur árum sem hún hefur unnið að málinu.” Hér er ekki um einstakt frumvarp að ræða, heldur nokkur frumvörp. Það ættu allir þeir, sem hafa áhuga á að fara rétt með, að vita. Förum aðeins yfir málið.

Að hafa raunhæft val um búsetuform, er okkur öllum mikilvægt. Það er svo að sumir kjósa að eiga húsnæði, aðrir vilja leigja og enn aðrir kjósa að fara milliveginn, og búa í húsnæðissamvinnufélögum. Ef þetta raunverulega val, á að vera til staðar er nauðsynlegt að bregðast við og koma fram með frumvörp sem stuðla að úrbótum í þessum mikilvæga málaflokki. Þessi mál skipta stóran hóp einstaklinga í landinu miklu máli.

Gengið í málið
Í september 2013 skipaði Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Verkefnisstjórninni var falið að koma fram með tillögur um framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Þá var henni falið að koma með tillögur að nýju húsnæðislánakerfi, m.a. með það í huga að tryggja virkan leigumarkað og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem slíkt þurfa.

Verkefnastjórnin skilaði viðamiklum tillögum til félags- og húsnæðismálaráðherra í maí 2014 og núna tæpu ári síðar, hafa fjögur frumvörp komið fram sem byggja á tillögum verkefnisstjórnarinnar. Tvö þeirra hafa farið í gegnum 1. umræðu í þinginu og hefur nú verið vísað til afgreiðslu velferðarnefndar.

Þau fjalla um húsaleigulög og húsnæðissamvinnufélög. Tvö frumvörp eru enn í kostnaðarmati hjá fjármálaráðuneytinu og mikilvægt er að þau komist þaðan sem fyrst. Þau frumvörp fjalla um stofnstyrki vegna uppbyggingar á leiguhúsnæði og auknar húsnæðisbætur til leigjenda.

Ekki byggt á sandi
Þegar félags- og húsnæðismálaráðherra mælti fyrir frumvörpunum um húsaleigulög og húsnæðissamvinnufélög, þá kom gagnrýni frá þingmanni Samfylkingarinnar, Kristjáni L. Möller. Hann gagnrýndi hversu langur tími hefur farið í að skrifa frumvörpin, sem hér um ræðir.

Auðvitað er það svo að frumvörpin hefðu gjarnan mátt koma fyrr inn í þingið. En til að gæta allrar sanngirni, þá verður það að koma fram að mikið samráð var innan velferðarráðuneytisins við vinnslu frumvarpanna. Ástæðan er jafnframt sú að við höfum lært af reynslunni og hversu miklu máli skiptir að vanda sig í þessum stóru málum. Við vonum jafnfram að þingmaðurinn hafi lært af reynslunni og hversu mikilvægt það sé að byggja ekki upp óraunhæfar tillögur, sem eru byggðar upp á sandi.

Staðreyndir upp á borðið
Vegna gagnrýninnar þá er rétt að rifja upp nokkrar staðreyndir, svona til að hafa hlutina uppi á borðinu. Þingmenn Samfylkingarinnar voru ráðherrar í félagsmálaráðuneytinu, síðar velferðarráðuneytinu árin 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012 og fram að kosningum árið 2013. Á þessu tímabili voru skipaðar þrjár nefndir sem vinna áttu tillögur að bættu húsnæðiskerfi.

Engin frumvörp komu  fram sem byggð voru á vinnu þessara nefnda, það voru ekki einu sinni til drög að frumvörpum er vörðuðu efnið.  Að þingmaður Samfylkingarinnar gagnrýni núverandi ríkisstjórn fyrir seinagang í þessum málum, kemur úr hörðustu átt. Samfylkingin hafði hátt í 7 ár til að bregðast við þessum málum, en ekkert gerðist. Gunnar Axel, er einn af höfundum greinarinnar ,,Jöfnum leikinn“ og oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.

Jafnframt var hann um tíma aðstoðarmaður Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra, á síðasta kjörtímabili. Honum ætti því að vera fullkunnugt um þessi mál og ætti að hafa getu til að ræða um þau af heilindum og fagmennsku en ekki vera með ómerkilegar tilraunir til að slá ryki í augu fólks. Samfylkingin er því að kasta steinum úr glerhúsi í þessu máli. Á það nokkuð við um fleiri mál?

Elsa Lára Arnardóttir og Ágúst Bjarni Garðarsson

Greinin birtist í www.visir.is 5. maí 2015.

Categories
Greinar

Forgangsröðum í þágu velferðar

Deila grein

05/05/2015

Forgangsröðum í þágu velferðar

Elsa-Lara-mynd01-vefurFlokksþing Framsóknarflokksins fór fram um miðjan apríl. Þingið var afar vel heppnað og þátttaka félagsmanna mjög góð. Ánægjulegt var að hitta félagsmenn, sem komu víðsvegar af landinu og tóku þátt í málefnavinnu flokksins, í hinum ýmsu málefnahópum. Á þinginu kom skýrt fram að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar,  ætti að halda sínu góða verki áfram og forgangsraða í þágu velferðar. Vert er að geta þess að í síðustu fjárlögum fór ríflega 40 % af öllum útgjöldum ríkissjóðs til velferðar – og heilbrigðismála. Má þar m.a. nefna að barnabætur hækkuðu um 1,3 milljarð, húsaleigubætur hækkuðu um 400 milljónir, útgjöld til almannatrygginga hækkuðu um 10 milljarða og 150 milljónir fóru í auknar niðurgreiðslur á lyfjakostnaði.  Auk þessa hefur aldrei jafn mikið fjármagn verið sett inn í rekstur Landspítala og framlög til reksturs heilbrigðisstofnana jukust um 2 milljarða á milli ára. Óhætt er að segja að margt hafi verið vel gert í velferðar – og heilbrigðismálum, og þannig verðum við að halda áfram. Málefnin eru mörg sem vinna þarf að og margar stórar áskoranir bíða handan við hornið. Í því samhengi getur verið afar gagnlegt að líta í skýrslu Velferðarvaktarinnar, sem skilað var til félagsmálaráðherra fyrir nokkru síðan.

Styðjum við barnafjölskyldur

Í fjárlögum fyrir árið 2015 hækkuðu barnabætur um 1,3 milljarð á milli ára. Þessi aukning skilaði sér að mestu til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar, enda var það markmið hækkunarinnar. Þetta var vel gert en nauðsynlegt er að horfa fram á veginn og halda góðu verki áfram. Ef horft er til skýrslu Velferðarvaktarinnar þá kemur þar fram að mikilvægt sé að styrkja vel við tekjulágar barnafjölskyldur, með því að einfalda og efla bótakerfið sem tekur til barnafjölskyldna. Það er m.a. hægt með því að greiða ótekjutengdar barnabætur og að auki tryggja barnafjölskyldum, í formi barnatryggingar, tilgreinda lágmarksframfærslu óháð því hvaðan tekjur fjölskyldunnar koma. Tillögur Velferðarvaktarinnar eru þær að stjórnvöld skipi starfshóp, til að ná fram samstöðu um þessar tillögur.

Lágmarksframfærslan, hver er hún?

Í skýrslu Velferðarvaktarinnar kemur fram að nauðsynlegt sé að stjórnvöld skilgreini lágmarksframfærsluviðmið. Því er mikilvægt að ríki og sveitarfélög, ásamt ýmsum hlutaðeigandi aðilum, vinni saman að því að ná víðtækri samstöðu um hvaða viðmið eigi að liggja að baki þegar ákvarðanir um lágmarksbætur eru teknar. Þessar tillögur hafa nokkurn samhljóm við fyrsta þingmannamál Framsóknarflokksins á þessum þingvetri. En það var að leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis, að fela félags – og húsnæðismálaráðherra, að hefja útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili. Samkvæmt tillögunni skal vinna útreikningana í samráði við hlutaðeigandi aðila, má þar m.a. nefna ríki og sveitarfélög. Lagt er til að gerð verði könnun á raunframfærslukostnaði einstaklinga og fjölskyldna í landinu. Þessi raunframfærslukostnaður verði síðan nýttur til að finna út lágmarksneysluviðmið. Þingsályktunartillagan er nú í efnislegri meðferð inni í velferðarnefnd þingsins.

Gjaldfrjáls grunnþjónusta

Í skýrslu Velferðarvaktarinnar kemur fram að standa þurfi vörð um velferðarþjónustu og menntakerfið með því að hafa lögbundna þjónustu gjaldfrjálsa. Á það sérstaklega við um grunnþjónustu við börn svo barnafjölskyldur standi ekki frammi fyrir óvæntum og óyfirstíganlegum útgjöldum vegna þeirra þátta. Þessi tillaga Velferðarvaktarinnar er í algjöru samræmi við ályktun flokksþings Framsóknarmanna en þar segir að standa þurfi vörð um hagsmuni barna, með því að hafa lögbundna þjónustu gjaldfrjálsa.

Allir þurfa þak yfir höfuðið

Allir þurfa að eiga öruggt heimili og mikilvægt er að börn búið við trygg húsnæðismál til lengri tíma. Samkvæmt tillögum Velferðarvaktarinnar þarf að taka upp nýtt kerfi, húsnæðisbætur, sem hafi það að markmiði, að jafna stöðu leigjenda, búseturéttarhafa og eigenda vegna húsnæðiskostnaðar.  Afar ánægjulegt er að sjá þann samhljóm sem birtist í þessum tillögum við tillögur framsóknarmanna í húsnæðismálum.  Frumvarp þessa efnis er á þingmálaskrá félags – og húsnæðismálaráðherra. Umrætt frumvarp er nú í kostnaðarmati hjá fjármálaráðuneytinu og bíður niðurstöðu útreikninga. Þegar frumvarpið verður að lögum þá mun það, án efa, hafa jákvæð efnahagsleg áhrif á stuðning við þær fjölskyldur sem eru á leigumarkaði. Því er mikilvægt að málið nái fram að ganga, sem allra fyrst.

Við hljótum öll að vera sammála um að gera vel í velferðarmálum. Okkur greinir kannski á um leiðir en látum það ekki trufla okkur. Gleðjumst yfir þeim áföngum sem við höfum náð um leið og við undirbúum næstu skref, til að gera enn betur. Forgangsröðum í þágu velferðar.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 5. maí 2015.

Categories
Greinar

Stöðugleiki tryggir aukna velferð

Deila grein

02/05/2015

Stöðugleiki tryggir aukna velferð

Sigmundur-davíðAlþjóðlegur baráttudagur verkafólks hefur verið haldinn hátíðlegur á Íslandi í yfir 90 ár. Dagurinn er helgaður baráttu og samstöðu verkafólks fyrir bættum kjörum og réttlátara samfélagi. Þessi barátta hefur skilað verkafólki og raunar öllu launafólki miklum ávinningi í gegnum tíðina og átt drjúgan þátt í því að tekist hefur að skapa gott samfélag.

Þó lífskjör séu hér almennt góð og alþjóðlegur samanburður sýni mjög sterka stöðu Íslands á nær öllum sviðum hefur gengið erfiðlega að skapa hér stöðugt efnahagsumhverfi til lengri tíma. Mikil orka hefur farið í deilur á vinnumarkaði, stundum til að ræða skiptingu á því sem ekki hefur verið til. Þeirri orku væri betur varið í það að skapa meira til skiptanna. Samtökum á vinnumarkaði og ríkinu hefur ekki tekist að sameinast um aðgerðir til framleiðniaukningar til að ná því markmiði. Þar getum við tekið aðrar Norðurlandaþjóðir okkur til fyrirmyndar.

Innistæðulausir tékkar
Aukin velferð almennings er stærsta verkefni stjórnmálanna á hverjum tíma. Um nokkurt skeið hefur staða þjóðarbúsins verið að batna og kjaraviðræður taka mið af því. Sem betur fer er nú eitthvað til skiptanna og kaupmáttur hefur vaxið óvenju hratt. Verkefni samningsaðila er að skipta með sér ávinningi með réttlátum hætti, en ekki að gefa út innstæðulausa tékka sem færa okkur aftur í tímann og rýra lífskjör. Ríkisstjórnin vill forðast samninga sem geta leitt til verðbólgu og trúir því að verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur séu sama sinnis.

Hátíðahöldin í dag eru haldin við óvenjulegar aðstæður. Verðbólga er lág, kaupmáttur hefur aukist, hagvöxtur er umtalsverður og atvinnuleysi lítið. Á hinn bóginn hvílir yfir deginum skuggi vinnudeilna og verkfalla. Þau eru nú þegar skollin á og í undirbúningi eru frekari verkföll sem lamað geta þjóðfélagið undir lok mánaðarins. Mikil ábyrgð hvílir því á atvinnurekendum, verkalýðshreyfingunni og stjórnvöldum. Allir ættu að vera meðvitaðir um afleiðingar þess fyrir samfélagið ef gerðir verða samningar sem leiða til víxlverkunar launa og verðlags. Aðilar vinnumarkaðarins þurfa að finna lausn sem skapar réttláta dreifingu þeirra auknu verðmæta sem eru að verða til. Ríkisstjórnin ítrekar vilja sinn til að liðka fyrir gerð slíkra samninga.

Ég sendi öllu launafólki í landinu góðar kveðjur á baráttudegi verkafólks.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. maí 2015.

Categories
Greinar

Hvati til sparnaðar

Deila grein

29/04/2015

Hvati til sparnaðar

Elsa-Lara-mynd01-vefurSparnaður er mikilvægur fyrir okkur öll, sama hvort við reynum að spara fyrir hlutum sem okkur langar til að eignast, eða þegar við söfnum okkur fyrir útborgun í stærri hluti, eins og t.d. húsnæði.

Það er staðreynd að undanfarin ár hafa margir átt erfitt með að ná endum saman, hvað þá að hafa eitthvað auka fjármagn til að leggja til hliðar. Auk þessa hefur hvati til sparnaðar, ekki verið til staðar.

Í mars s.l. lagði ég fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt. Samkvæmt frumvarpinu eiga þeir sem leggja fé til hliðar vegna húsnæðiskaupa, húsnæðisbygginga eða verulegra endurbóta á húsnæði rétt á sérstökum skattaafslætti. Afslátt upp á  20% af innleggi hvers tekjuárs, en þó aldrei hærri fjárhæð en 200 þúsund krónur. Ef frumvarpið nær fram að ganga, þá kemur það til viðbótar öðrum opinberum úrræðum, sem eiga að auðvelda fólki að eignast húsnæði. Þar má m.a. nefna húsnæðissparnað í gegnum séreignasparnað, sem er eitt af úrræðum núverandi ríkisstjórnar í málefnum heimilanna.  Hugsunin á bak við þetta frumvarp, sem núna er lagt fram, er að einstaklingar og fjölskyldur hafi raunhæft val um leiðir til sparnaðar í húsnæðismálum. Samkvæmt frumvarpinu er hægt að ákveða upphæð sem lögð er inn mánaðarlega, sem getur verið mismunandi milli einstaklinga. Getur farið eftir efnahag og svigrúmi hvers og eins.

Samkvæmt frumvarpinu verður sparnaðurinn lagður inn á sérstakan húsnæðissparnaðarreikning, og getur hver maður aðeins átt einn slíkan reikning. Reikningarnir skulu vera bundnir til 10 ára frá þeim tíma er fyrst var lagt inn á reikninginn. Færi reikningseigandi sönnur á kaup íbúðarhúsnæðis til eigin búsetu, eða að hafin sé bygging, eða verulegar endurbætur sem nemi a.m.k. 20% af fasteignamati slíks húsnæðis, skal heildarinneignin vera honum laus til ráðstöfunar að því marki sem nemur kostnaði vegna þessa, enda séu þá full tvö ár liðin frá því að sparnaður hófst.

Lagt er til að reglubundinn sparnaður til húsnæðisöflunar sem stofnað er til fyrir 34 ára aldur í formi samningsbundinna innlána hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum veiti reikningseiganda skattafslátt innan vissra marka. Sparnaðurinn verði að lágmarki bundinn í tvö ár ef viðkomandi sýnir með óyggjandi hætti fram á öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota, þar með talið búseturéttar, eða að hafin sé bygging eða verulegar endurbætur slíks húsnæðis, en annars verði heildarinneignin laus til frjálsrar ráðstöfunar að liðnum tíu árum. Tilgangur frumvarpsins er jafnframt sá að hvetja til almenns sparnaðar vegna eigin fjárframlags til öflunar íbúðarhúsnæðis.

Sams konar átak var gert með lögum nr. 49/1985 um húsnæðissparnaðarreikninga sem eru fallin úr gildi, en af þeim er tekið mið í þessu frumvarpi, þó með nokkrum breytingum. Munurinn felst m.a. í því að í þessu frumvarpi eru ekki eins ítarleg ákvæði um form og efni þeirra samninga sem um ræðir. Þess í stað er fjármálaráðherra falið að setja nánari reglur bæði um form og efni sem ætla verður að hann geri að höfðu samráði við Samtök fjármálafyrirtækja og aðra hlutaðeigandi aðila. Einnig er lagt til að vaxtatekjur af umræddum reikningum verði undanþegnar fjármagnstekjuskatti.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að börn undir 16 ára aldri sem ekki teljast sjálfstæðir skattaðilar geti notið skattafsláttarins og jafnframt að því sem óráðstafað er verði ráðstafað til framfærenda þess að jöfnu séu framfærendur tveir.

Innstæða á húsnæðissparnaðarreikningi er undanþegin aðför skuldheimtumanna. Við andlát innstæðueiganda rennur innstæðan til dánarbúsins án bindingar.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 24. apríl 2015.

Categories
Greinar

Sáttmálinn

Deila grein

27/04/2015

Sáttmálinn

Silja-Dogg-mynd01-vefSamfélagsleg sátt getur aldrei byggt á öðru en sanngirni. Stöðugleiki næst ekki nema að samfélagsleg sátt sé til staðar. Sú sátt næst ekki ef sumir ætla sér 30-40% launahækkanir en öðrum 3%. Óréttlæti er því helsta ógn stöðugleikans, ekki kröfur þeirra lægst launuðu um að lágmarkslaun séu 300 þúsund. Það hlýtur að vera eðlilegt að ætla sér að geta lifað af launum fyrir fullt starf.

Línudans
Fámennið og nálægðin á Íslandi krefst jöfnuðar og réttlætis. Erfitt kann að vera að ná fullkomnum jöfnuði og spurning hvort hann þarf að verða alger. Hvatar til samkeppni og framfara verða líka að vera til staðar. Heilbrigt samfélag byggist á að finna hið hárfína jafnvægi á milli þessara þátta.

Burt með bankabónusa
Framsóknarflokkurinn hélt nýlega afar vel heppnað flokksþing og þar voru m.a. lagðar fram ályktanir um að lægstu laun yrðu 300 þúsund og að bankabónusar yrðu bannaðir. Græðgin varð okkur að falli 2008. Við verðum að láta þá bitru reynslu okkur að kenningu verða og liður í því er að banna bankabónusa. Lögleiðing þeirra mun einungis ýta undir græðgi og frekari ofþenslu bankakerfisins.

Minnst fátækt
Ísland er loks á uppleið eftir sjö mögur ár. Aldrei þessu vant hafa umsamdar launahækkanir skilað sér nær allar í auknum kaupmætti vegna þess að verðbólga hefur verið í lágmarki. Leiðrétting húsnæðislána sem og lækkanir á tollum, gjöldum og sköttum hafa einnig aukið ráðstöfunartekjur heimilanna. Samkvæmt nýlegri skýrslu Velferðarvaktarinnar er Ísland nú með þriðja mesta jöfnuð í tekjuskiptingu og minnsta fátækt af þjóðum OECD. Því er nú brýtn að stíga varlega til jarðar.

Dýrt húsnæði
Fréttir herma að gjá sé á milli deiluaðila í yfirstandandi kjaraviðræðum. Ég tel að nýtt húsnæðiskerfi muni skipta máli í þessum efnum. Í dag er húsnæði allt of dýrt og kerfið meingallað. Kjör fólks munu tvímælalaust batna með betra kerfi. Fyrirliggjandi eru umfangsmiklar tillögur að nýju húsnæðiskerfi sem félagsmálaráðherra mun kynna fljótlega en með því verða öll búsetuform styrkt, hvort sem fólk tekur lán til að kaupa íbúð, leigir eða er þátttakandi í húsnæðissamvinnufélagi.

Þó svo að menn séu sammála um að svigrúm sé til að auka jöfnuð enn frekar, þá megum við ekki ganga of langt og hleypa verðbólgudraugnum úr búrinu.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 22. apríl 2015.

Categories
Greinar

Gott samstarf við ESB

Deila grein

20/04/2015

Gott samstarf við ESB

haraldur_SRGBSú stefna beggja stjórnarflokkana að hag Íslands sé betur borgið utan ESB verið skýr frá upphafi. Í samningaviðræðum stjórnarflokkanna á sínum tíma var sú ákvörðun tekin að halda ekki áfram aðildarviðræðum við ESB nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórnin hefur lagt ríka áherslu á að ekki verði farið í slíkt ferli án aðkomu þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin hefur fylgt þeirri stefnu sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálannum. Staðan á málinu er því skýr gagnvart ESB, aðildarríkjum þess og íslensku þjóðinni. Á fundum forsætisráðherra Íslands með forseta framkvæmdastjórnar ESB og forseta leiðtogaráðsins í júlí 2013 var þessi stefna ríkisstjórnarinnar útskýrð. Á þeim fundum kom skýrt fram að þessir tveir leiðtogar stofnana ESB myndu fagna skýrri stefnu Íslands varðandi aðildarferlið.

Breytingar hér á landi og hjá ESB

Staðan hefur einfaldlega breyst mikið frá árinu 2009. Endurreisn efnahagslífsins hér á landi hefur vakið verðskuldaða athygli vítt og breitt um heiminn og við erum ánægð með þann stöðugleika sem hér er að myndast. Það endurspeglast í litlu atvinnuleysi, auknum kaupmætti og ágætum hagvexti. Í júlí 2014 tilkynnti Jean-Claude Juncker, þá nýkjörinn forseti framkvæmdastjórnar ESB, að gera ætti hlé á stækkun sambandsins næstu fimm árin. Talsmaður Juncker staðfesti síðar að Ísland væri á meðal þeirra landa sem Juncker ætti við. Það má því segja að viðræðunum hafi verið sjálfhætt á þeim tíma. Því miður virðast ýmis vandamál herja á aðildarríki ESB um þessar mundir sem endurspeglast svo í þessari ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB árið 2014 um að loka á alla stækkun ESB í nokkur ár.

Mikilvægi góðs samstarfs við ESB

Mikilvægt er að stuðla að áframhaldandi öflugum samskiptum við ESB á grundvelli EES-samningsins og hefur núverandi ríkisstjórn lagt mikla áherslu á slík samskipti milli ESB og Íslands. Á þetta lagði utanríkisráðherra einnig sérstaka áherslu á í bréfi sínu til ESB nýverið. Sérstaklega mikilvægt er að hlúa að EES-samningnum og efla þátttöku Íslands á vettvangi hans. Ríkisstjórnin gaf út Evrópustefnu í mars árið 2014 sem byggist á efldri hagsmunagæslu á vettvangi  EES-samningsins og annarra gildandi samninga Íslands og ESB. Frá þeim tíma hefur verið unnið á grundvelli þeirrar stefnu. EES-samningurinn er mikilvægur fyrir útflutningshagsmuni Íslands, ekki síst sjávarútveg þar sem íslenskar afurðir eru í frjálsu flæði á evrópska efnhagssvæðinu. Huga þarf að virkni samningsins sem slíks og ekki síður að hagsmunum Íslands innan hans.

Það hefur gætt misskilnings í umræðunni og oft á tíðum rætt mjög einsleitt um málið. Framsóknarflokkurinn vill viðhalda góðu samstarfi við ESB og horfa víðar fyrir Ísland í alþjóðasamstarfi t.d. til nýmarkaðssvæða. Við erum hinsvegar staðföst á þeirri skoðun að hagsmunum íslensku þjóðarinnar sé best borgið utan ESB. Ísland er land tækifæranna með ógrynni af auðlindum sem tryggja þarf að þjóðin njóti góðs af til lengri tíma.

 Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. apríl 2015.

Categories
Greinar

Brennið þið vitar

Deila grein

20/04/2015

Brennið þið vitar

Silja-Dogg-mynd01-vefÍslensk þjóð stendur á tímamótum. Framundan eru brýn verkefni eins og kjarasamningar, afnám gjaldeyrishafta, breytingar á húsnæðiskerfinu og afnám verðtryggingar. Við úrlausn þessara verkefna verðum við að sýna samstöðu og sanngirni. Tryggja stöðugleika og áframhaldandi uppbyggingu innviða, s.s. heilbrigðis- og menntakerfis.

Vinna, vöxtur, velferð

Frá því að ný ríkisstjórn tók við hefur hagvöxtur á Íslandi verið einn sá almesti í Evrópu. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hefur lagt áherslu á að hætta að safna skuldum því þá fer stór hluti teknanna í að borga vexti í stað þess að nýtast í það sem skiptir mestu máli, félagslegt öryggi, heilbrigði, menntun og trausta innviði. Framlög til heilbrigðismála hafa nú verið stóraukin og hafa í raun aldrei verið meiri sem og framlög til félagsmála en á þessum sviðum mun þó þurfa að gera enn betur. Frá því að ríkisstjórnin tók við hefur störfum á Íslandi fjölgað um meira en 10.000.

Jöfn tekjuskipting og minnst fátækt

Kaupmáttur landsmanna er nú orðinn meiri en nokkru sinni fyrr. Aldrei þessu vant hafa umsamdar launahækkanir skilað sér nær allar í auknum kaupmætti vegna þess að verðbólga hélst í lágmarki. Ráðstöfunartekjur heimilanna hafa aukist. Þar spilar leiðrétting húsnæðismála stórt hlutverk sem og lækkanir á tollum, gjöldum og sköttum. Samkvæmt nýlegri skýrslu Velferðarvaktarinnar er Ísland nú með þriðja mesta jöfnuð í tekjuskiptingu og minnsta fátækt af þjóðum OECD. En þrátt fyrir að ástandið sé gott þá eigum við að sækja fram af enn meiri krafti til að skapa réttlátt samfélag jöfnuðar, og gera það án þess að veikja hvatann til að vinna og skapa ný verðmæti.

Stöðugleiki og sanngirni

Stöðugleiki er ein mikilvægasta undirstaða heilbrigðs efnahagslífs. Við búum nú við stöðugleika og möguleikar til áframhaldandi kaupmáttaraukningar eru miklir. Verðbólga er engin. Í ljósi stöðunnar er mikilvægt að samfélagslegur sáttmáli sé til staðar. Yfirvofandi kjarasamningar mega ekki ógna stöðugleikanum. Það er líka ámælisvert að menn hækki nú stjórnarlaun um tugi prósenta og óskir um fjórfalda hækkun bankabónusa er af sama meiði. Óréttlátar kröfur, svo ekki sér meira sagt.

Stóra málið

Mikil vinna hefur verið lögð í að undirbúa afnám gjaldeyrishafta. Leiðarljósið í þeirri vinnu er að tryggja hagsmuni Íslands. Stærsta hindrunin við losun hafta hefur verið hin óuppgerðu slitabú föllnu bankanna. Þar liggja enn kröfur upp á þúsundir milljarða. Langstærstur hluti krafnanna eru í eigu erlendra vogunarsjóða. Þeir keyptu kröfurnar á brunaútsölu eftir fall bankanna og hafa hagnast gríðarlega, að minnsta kosti á pappírunum.  Matið á verðmæti krafnanna sveiflast, m.a. eftir gengi gjaldmiðla en það nemur yfir 20 milljörðum Bandaríkjadala eða sem nemur yfir 2.500 milljörðum króna.

Gæta hagsmuna þjóðarinnar

Það munaði litlu árið 2012 að stjórnvöld spiluðu frá sér stöðunni gagnvart kröfuhöfum bankanna vegna sama hugarfars og réði för í Icesave-málinu. Frá því að ný ríkisstjórn tók við hefur algjör kúvending orðið í þessum málum. Stefna ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs er að allar ákvarðanir, varðandi afnámið, eru  byggðar á þeim forsendum að tryggt sé að almenningur á Íslandi þurfi ekki að taka á sig auknar byrðar – enda eru þær þegar orðnar nægar vegna falls bankanna.

Húsnæðismál og afnám verðtryggingar

Svona að lokum er rétt að nefna fleiri stór og mikilvæg mál sem framundan eru, það eru án efa húsnæðismálin og afnám verðtryggingar. Húsnæðismálin hafa alla tíð verið á forgangslista okkar Framsóknarmanna. Markmið okkar er að tryggja möguleika allra á að búa við öryggi og tryggja jafnræði í aðgangi að íbúðalánum óháð búsetu.

Núverandi ríkisstjórn hefur nú þegar ráðist í ýmsar aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili, styðja leigjendur og gera fólki betur kleift að kaupa fyrstu íbúð eða stækka við sig. Fyrirliggjandi eru umfangsmiklar tillögur að nýju húsnæðiskerfi sem félagsmálaráðherra mun kynna fljótlega en með því verða öll búsetuform styrkt, hvort sem fólk tekur lán til að kaupa íbúð, leigir eða er þátttakandi í húsnæðissamvinnufélagi. Stefnt er á að félagslega kerfið verður bætt og sérstaklega hugað að lánveitingum á svæðum þar sem markaðurinn virkar ekki sem skyldi.

Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar á neytendalánum hefur skilað niðurstöðu í samræmi við stjórnarsáttmálann og ríkisstjórnin hefur samþykkt að unnin verði frumvörp á þeim grundvelli. Sú vinna stendur nú yfir í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Framsóknarflokkurinn ályktaði á nýliðnu flokksþingi að verðtrygging skyldi afnumin af nýjum húsnæðislánum.

Í ljósi stöðunnar þá bind ég miklar væntingar til þess að allir kjörnir fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi Íslendinga muni standa þétt saman og leysa ofangreind mál í sátt.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í DV 17. apríl 2015.