Categories
Greinar

Gott samstarf við ESB

Deila grein

20/04/2015

Gott samstarf við ESB

haraldur_SRGBSú stefna beggja stjórnarflokkana að hag Íslands sé betur borgið utan ESB verið skýr frá upphafi. Í samningaviðræðum stjórnarflokkanna á sínum tíma var sú ákvörðun tekin að halda ekki áfram aðildarviðræðum við ESB nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórnin hefur lagt ríka áherslu á að ekki verði farið í slíkt ferli án aðkomu þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin hefur fylgt þeirri stefnu sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálannum. Staðan á málinu er því skýr gagnvart ESB, aðildarríkjum þess og íslensku þjóðinni. Á fundum forsætisráðherra Íslands með forseta framkvæmdastjórnar ESB og forseta leiðtogaráðsins í júlí 2013 var þessi stefna ríkisstjórnarinnar útskýrð. Á þeim fundum kom skýrt fram að þessir tveir leiðtogar stofnana ESB myndu fagna skýrri stefnu Íslands varðandi aðildarferlið.

Breytingar hér á landi og hjá ESB

Staðan hefur einfaldlega breyst mikið frá árinu 2009. Endurreisn efnahagslífsins hér á landi hefur vakið verðskuldaða athygli vítt og breitt um heiminn og við erum ánægð með þann stöðugleika sem hér er að myndast. Það endurspeglast í litlu atvinnuleysi, auknum kaupmætti og ágætum hagvexti. Í júlí 2014 tilkynnti Jean-Claude Juncker, þá nýkjörinn forseti framkvæmdastjórnar ESB, að gera ætti hlé á stækkun sambandsins næstu fimm árin. Talsmaður Juncker staðfesti síðar að Ísland væri á meðal þeirra landa sem Juncker ætti við. Það má því segja að viðræðunum hafi verið sjálfhætt á þeim tíma. Því miður virðast ýmis vandamál herja á aðildarríki ESB um þessar mundir sem endurspeglast svo í þessari ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB árið 2014 um að loka á alla stækkun ESB í nokkur ár.

Mikilvægi góðs samstarfs við ESB

Mikilvægt er að stuðla að áframhaldandi öflugum samskiptum við ESB á grundvelli EES-samningsins og hefur núverandi ríkisstjórn lagt mikla áherslu á slík samskipti milli ESB og Íslands. Á þetta lagði utanríkisráðherra einnig sérstaka áherslu á í bréfi sínu til ESB nýverið. Sérstaklega mikilvægt er að hlúa að EES-samningnum og efla þátttöku Íslands á vettvangi hans. Ríkisstjórnin gaf út Evrópustefnu í mars árið 2014 sem byggist á efldri hagsmunagæslu á vettvangi  EES-samningsins og annarra gildandi samninga Íslands og ESB. Frá þeim tíma hefur verið unnið á grundvelli þeirrar stefnu. EES-samningurinn er mikilvægur fyrir útflutningshagsmuni Íslands, ekki síst sjávarútveg þar sem íslenskar afurðir eru í frjálsu flæði á evrópska efnhagssvæðinu. Huga þarf að virkni samningsins sem slíks og ekki síður að hagsmunum Íslands innan hans.

Það hefur gætt misskilnings í umræðunni og oft á tíðum rætt mjög einsleitt um málið. Framsóknarflokkurinn vill viðhalda góðu samstarfi við ESB og horfa víðar fyrir Ísland í alþjóðasamstarfi t.d. til nýmarkaðssvæða. Við erum hinsvegar staðföst á þeirri skoðun að hagsmunum íslensku þjóðarinnar sé best borgið utan ESB. Ísland er land tækifæranna með ógrynni af auðlindum sem tryggja þarf að þjóðin njóti góðs af til lengri tíma.

 Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. apríl 2015.

Categories
Greinar

Brennið þið vitar

Deila grein

20/04/2015

Brennið þið vitar

Silja-Dogg-mynd01-vefÍslensk þjóð stendur á tímamótum. Framundan eru brýn verkefni eins og kjarasamningar, afnám gjaldeyrishafta, breytingar á húsnæðiskerfinu og afnám verðtryggingar. Við úrlausn þessara verkefna verðum við að sýna samstöðu og sanngirni. Tryggja stöðugleika og áframhaldandi uppbyggingu innviða, s.s. heilbrigðis- og menntakerfis.

Vinna, vöxtur, velferð

Frá því að ný ríkisstjórn tók við hefur hagvöxtur á Íslandi verið einn sá almesti í Evrópu. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hefur lagt áherslu á að hætta að safna skuldum því þá fer stór hluti teknanna í að borga vexti í stað þess að nýtast í það sem skiptir mestu máli, félagslegt öryggi, heilbrigði, menntun og trausta innviði. Framlög til heilbrigðismála hafa nú verið stóraukin og hafa í raun aldrei verið meiri sem og framlög til félagsmála en á þessum sviðum mun þó þurfa að gera enn betur. Frá því að ríkisstjórnin tók við hefur störfum á Íslandi fjölgað um meira en 10.000.

Jöfn tekjuskipting og minnst fátækt

Kaupmáttur landsmanna er nú orðinn meiri en nokkru sinni fyrr. Aldrei þessu vant hafa umsamdar launahækkanir skilað sér nær allar í auknum kaupmætti vegna þess að verðbólga hélst í lágmarki. Ráðstöfunartekjur heimilanna hafa aukist. Þar spilar leiðrétting húsnæðismála stórt hlutverk sem og lækkanir á tollum, gjöldum og sköttum. Samkvæmt nýlegri skýrslu Velferðarvaktarinnar er Ísland nú með þriðja mesta jöfnuð í tekjuskiptingu og minnsta fátækt af þjóðum OECD. En þrátt fyrir að ástandið sé gott þá eigum við að sækja fram af enn meiri krafti til að skapa réttlátt samfélag jöfnuðar, og gera það án þess að veikja hvatann til að vinna og skapa ný verðmæti.

Stöðugleiki og sanngirni

Stöðugleiki er ein mikilvægasta undirstaða heilbrigðs efnahagslífs. Við búum nú við stöðugleika og möguleikar til áframhaldandi kaupmáttaraukningar eru miklir. Verðbólga er engin. Í ljósi stöðunnar er mikilvægt að samfélagslegur sáttmáli sé til staðar. Yfirvofandi kjarasamningar mega ekki ógna stöðugleikanum. Það er líka ámælisvert að menn hækki nú stjórnarlaun um tugi prósenta og óskir um fjórfalda hækkun bankabónusa er af sama meiði. Óréttlátar kröfur, svo ekki sér meira sagt.

Stóra málið

Mikil vinna hefur verið lögð í að undirbúa afnám gjaldeyrishafta. Leiðarljósið í þeirri vinnu er að tryggja hagsmuni Íslands. Stærsta hindrunin við losun hafta hefur verið hin óuppgerðu slitabú föllnu bankanna. Þar liggja enn kröfur upp á þúsundir milljarða. Langstærstur hluti krafnanna eru í eigu erlendra vogunarsjóða. Þeir keyptu kröfurnar á brunaútsölu eftir fall bankanna og hafa hagnast gríðarlega, að minnsta kosti á pappírunum.  Matið á verðmæti krafnanna sveiflast, m.a. eftir gengi gjaldmiðla en það nemur yfir 20 milljörðum Bandaríkjadala eða sem nemur yfir 2.500 milljörðum króna.

Gæta hagsmuna þjóðarinnar

Það munaði litlu árið 2012 að stjórnvöld spiluðu frá sér stöðunni gagnvart kröfuhöfum bankanna vegna sama hugarfars og réði för í Icesave-málinu. Frá því að ný ríkisstjórn tók við hefur algjör kúvending orðið í þessum málum. Stefna ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs er að allar ákvarðanir, varðandi afnámið, eru  byggðar á þeim forsendum að tryggt sé að almenningur á Íslandi þurfi ekki að taka á sig auknar byrðar – enda eru þær þegar orðnar nægar vegna falls bankanna.

Húsnæðismál og afnám verðtryggingar

Svona að lokum er rétt að nefna fleiri stór og mikilvæg mál sem framundan eru, það eru án efa húsnæðismálin og afnám verðtryggingar. Húsnæðismálin hafa alla tíð verið á forgangslista okkar Framsóknarmanna. Markmið okkar er að tryggja möguleika allra á að búa við öryggi og tryggja jafnræði í aðgangi að íbúðalánum óháð búsetu.

Núverandi ríkisstjórn hefur nú þegar ráðist í ýmsar aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili, styðja leigjendur og gera fólki betur kleift að kaupa fyrstu íbúð eða stækka við sig. Fyrirliggjandi eru umfangsmiklar tillögur að nýju húsnæðiskerfi sem félagsmálaráðherra mun kynna fljótlega en með því verða öll búsetuform styrkt, hvort sem fólk tekur lán til að kaupa íbúð, leigir eða er þátttakandi í húsnæðissamvinnufélagi. Stefnt er á að félagslega kerfið verður bætt og sérstaklega hugað að lánveitingum á svæðum þar sem markaðurinn virkar ekki sem skyldi.

Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar á neytendalánum hefur skilað niðurstöðu í samræmi við stjórnarsáttmálann og ríkisstjórnin hefur samþykkt að unnin verði frumvörp á þeim grundvelli. Sú vinna stendur nú yfir í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Framsóknarflokkurinn ályktaði á nýliðnu flokksþingi að verðtrygging skyldi afnumin af nýjum húsnæðislánum.

Í ljósi stöðunnar þá bind ég miklar væntingar til þess að allir kjörnir fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi Íslendinga muni standa þétt saman og leysa ofangreind mál í sátt.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í DV 17. apríl 2015.

Categories
Greinar

Fæðingar hér og fæðingar þar

Deila grein

20/04/2015

Fæðingar hér og fæðingar þar

Silja-Dogg-mynd01-vefFæðingarstöðum á Íslandi hefur fækkað hin síðari ár. Í svo fámennu og dreifbýlu landi sem Ísland er, er skiljanlegt að erfitt sé að halda úti fæðingarþjónustu á hverjum stað. Engu að síður verðum við að tryggja jöfnuð á milli þegna landsins og því verður kerfið að vera skipulagt á þann hátt, að komið sé til móts við fólk sem ekki á kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð. Ein leið væri til dæmis sú að breyta núverandi löggjöf um fæðingarorlof, en ég lagði fram frumvarp þess efnis á yfirstandandi vorþingi.

Löng bið

Verðandi foreldrar á landsbyggðinni sem búa fjarri fæðingarþjónustu eða/og búa við þær landfræðilegu aðstæður að samgöngur eru ótryggar, þurfa yfirleitt að fara að fara að heiman nokkru fyrir áætlaðan fæðingardag. Þetta á t.d. við um íbúa í Vestmannaeyjum og Höfn í Hornafirði. Yfirleitt er miðað við 38. viku meðgöngu nema að um áhættumeðgöngu sé að ræða. Börnin koma þegar þeim hentar þannig að foreldrar geta lent í því að bíða fæðingar í allt að 4 vikur, fram að 42. viku en þá eru konur yfirleitt gangsettar.

Réttlætismál

Núverandi kerfi felur í sér óásættanlegan ójöfnuð á milli landshluta. Verðandi foreldrar á landsbyggðinni þurfa t.d. oft að hefja töku fæðingarorlofs fyrr, af ofangreindum ástæðum og þá dregst sá tími, þ.e. biðtíminn eftir barninu, frá orlofinu. Þannig að barn og foreldrar njóta styttri samveru þegar barnið kemur loksins í heiminn. Með því að breyta lögum um fæðingarorlof gætum við tryggt rétt barna til að njóta jafnlangs tíma með foreldrum sínum eftir fæðingu eins og þau börn sem eiga heima í nágrenni við fæðingarþjónustu.

Hár dvalarkostnaður

Annað atriði sem ég tel þarf að huga betur að er dvalarkostnaður þeirra sem þurfa að fara að heima vegna barnsfæðinga og eiga ekki ættingja eða vini sem geta hýst þá á meðan á biðinni stendur. Ein leið væri að bæta við rýmum á sjúkrahótelum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá mér um fæðingarþjónustu (https://www.althingi.is/altext/144/s/1073.html)  kom m.a. fram að fyrirhuguð bygging sjúkrahótels við Landspítalann nú á þessu ári og í undirbúningi er aðstaða fyrir fólk á sjúkrahóteli á Akureyri. Þannig að svo virðist sem hlutirnir séu að mjakast í rétta átt, sem er vel. Það er mín skoðun að á meðan  hið opinbera getur ekki útvegað fólki dvalarstað á sjúkrahóteli, verði að koma til móts við fólk með fjárstyrk vegna dvalarkostnaðar í nágrenni við fæðingarstað. Fólk ekki að gjalda þess að búa fjarri fæðingarstöðum.

Frumvarp um breytingu á lögum um fæðingarorlof:

https://www.althingi.is/altext/144/s/1089.html

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Categories
Greinar

Horft yfir farinn veg

Deila grein

13/04/2015

Horft yfir farinn veg

GBSNú eru tæp tvö ár liðin síðan Framsókn tók við völdum. Á þeim tíma höfum við uppfyllt eitt helsta kosningaloforð okkar um að leiðrétta verðtryggð fasteignaveðlán. Við höfum lagt ríka áherslu á að bæta hag heimilanna, minnka greiðslubyrði og auka ráðstöfunartekjur. Þau 99,4% umsækjenda sem fengu umsókn sína samþykkta 23. desember síðastliðinn hafa samþykkt leiðréttinguna.

Strax var ráðist í það verkefni að taka til baka svokallaðar Árna Páls skerðingar, sem aldraðir og öryrkjar urðu fyrir í júní 2009. Framsókn hefur lagt mikla vinnu í að bæta stöðu leigjenda og gera þeim sem lægstar hafa tekjurnar auðveldara um vik að koma sér þaki yfir höfuðið og fjölga framboði af leiguhúsnæði. Tvö frumvörp eru þegar komin til þingsins en tvö eru föst í kostnaðarmati hjá fjármálaráðuneytinu. Þegar þau frumvörp koma mun það sýna, svo ekki verði um villst, að ríkur vilji er hjá okkur framsóknarmönnum að bæta stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði og einnig þeim sem lægstar hafa tekjurnar.

Byggðamálin skipta miklu. Hafin er vinna við eflingu landsbyggðarinnar með lagningu ljósleiðara. Nútímasamfélag starfar ekki án aðgangs að háhraða interneti. Verkefnið mun leiða til þess að atvinnuskapandi verkefni geta fæðst hvar sem er á landinu vegna áreiðanleika og öryggis í fjarskiptum.

Framsóknarmenn hafa lagt áherslu á jafnrétti til búsetu með jöfnun raforku- og húshitunarkostnaðar. Frumvörp þess efnis hafa nú þegar verið kynnt fyrir þinginu. Það er ekki nema sanngjarnt að íbúar landsbyggðarinnar njóti álíka þjónustu af hendi ríkisins þegar þeir hafa sömu skyldur gagnvart ríkissjóði og aðrir.

Leitað hefur verið sátta í orkumálum. Verkefnisstjórn rammaáætlunar, um vernd og orkunýtingu landssvæða, er með til umfjöllunar tæplega þrjátíu kosti sem verða flokkaðir á næstu mánuðum. Eftir u.þ.b. ár verður komin tillaga að niðurstöðu. Þegar búið er að setja kosti á ás verndar eða nýtingar er brýnt að virða þá niðurstöðu, á hvorum endanum sem er.
Frumvarp Sigurðar Inga, sjávarútvegsráðherra, um stjórnun fiskveiða boðaði meðal annars að sett yrði í lög að fiskveiðiauðlindirnar yrðu í þjóðareign. Verndun og stjórn á nýtingu fiskistofna og annarra lifandi auðlinda hafsins og hafsbotnsins skiptir Íslendinga máli efnahagslega. Það er því miður að stjórnmálunum hafi ekki hafi tekist að sameinast um þetta mikilvæga frumvarp og jafnframt þessa dýrmætu auðlind Íslands sem við eigum auðvitað öll að njóta góðs af.

Áhersla Framsóknar í ríkisstjórn verður áfram alþjóðasinnuð. Íslendingar verða að horfa til alls heimsins sem markaðssvæðis og sækja fram, t.d. í gerð samninga um fríverslun, fjárfestingar, loftferðir og tvísköttun, ásamt því að vegabréf Íslendinga opni sem flestar dyr áfram. Við munum vinna með Evrópu í gegnum EES samninginn. Þá ber okkur skylda til að búa þannig um hnútana að utanríkisþjónustan geti gætt mikilvægra hagsmuna landsins á vettvangi erlendis. Ísland á gríðarlega mikið undir því að staðinn sé vörður um landhelgina, landgrunnið, réttinn til sjálfbærrar nýtingar auðlinda og frjáls viðskipti svo eitthvað sé nefnt.
Mikið hefur gerst á aðeins tveimur árum. Það er Framsókn í samfélaginu.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. apríl 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.[/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]

Categories
Greinar

Snjallsími á hjólum

Deila grein

31/03/2015

Snjallsími á hjólum

haraldur_SRGBNýr tími er runninn upp í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Gatnakerfið ræður ekki við bílafjöldann. Langar bílabiðraðir myndast þegar fólk fer í og úr vinnu. Slíkt er afar óhagkvæmt fyrir samfélag okkar. Hvað er til ráða? Svörin eru mörg. Eitt þeirra er að innleiða nýja tækni. Internetið og farsími eru ekki gömul fyrirbæri. Þó ég sé aðeins 27 ára man ég þá tíma að þessi tækni var takmörkuð. Nú er internetið og farsíminn hluti af grunnþörfum fólks og ljósleiðaravæðing eitt af mikilvægustu verkefnum samtímans. Þessa tækni er verið að setja í bíla og gera ökumenn óþarfa. Bílaframleiðendur eins og Mercedes Benz, General Motors, Audi og Volvo eru með tilraunabíla sem keyra mannlausir í lifandi borgum. Bílarnir skynja götuna, aðra í umferðinni, umferðarljós, gangstéttir og fleira.

Færri slys
Nær öll slys sem verða í umferðinni eru vegna mannlegra mistaka. Gætu sjálfkeyrandi bílar aukið umferðaröryggi og lækkað slysatíðni? Með interneti og farsímatækni geta bílarnir talað saman. Til dæmis ef einn bíll hægir á, þá veit öll bílaröðin af því. Það getur skipt sköpum því, fyrir hemlun bifreiða er viðbragðstími ökumanns 2,5 sek. Það þýðir að á 90 km/klst. hefur bíllinn farið yfir 60 m áður en stigið er á bremsurnar. Við blasir að ef viðbragðstíminn er færður niður í nánast núll með háhraðatækni, mun það auka öryggi. Þessi nýja tækni ætti að minnka til muna algengustu slys í umferðinni, aftanákeyrslur.

Færri umferðarteppur
Bílar framtíðarinnar verða rafmagnsknúnir og tala saman. Verði nógu margir bílar í snjallkerfinu, þurfa fæst okkar að eiga bíla lengur. Þetta gæti auðveldlega gerst á fjölmennustu stöðum landsins. Með snjallsímanum pantar fólk skutl með snjallbílnum og vegna fjölda þeirra þarf lítið að bíða og auðvelt verður að sameinast í bíla. Þetta kerfi ætti að vera ódýrara fyrir einstaklinga ef öll gjöld einkabíls eru reiknuð með. Einnig mun kerfið geta sparað mikinn ferðatíma með því að nota reikniaðferðina „bestun“ til að finna fljótlegustu leiðina því áfangastaður allra bíla er þekktur. Þannig ættu umferðarteppur að heyra sögunni til. Við Íslendingar eigum að gera það sem í okkar valdi stendur til að ýta á eftir ofangreindri tækniþróun. Þar geta stjórnvöld lagt hönd á plóg.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 30. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.[/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]

Categories
Greinar

Skilvirk þróunarsamvinna

Deila grein

28/03/2015

Skilvirk þróunarsamvinna

Karl_SRGBMikilvægt er að fyrirkomulag þróunarsamvinnu Íslands sé eins vel skipulagt og skilvirkt og kostur er. Þær alþjóðlegu kröfur sem gerðar eru til ábyrgrar stjórnar og stefnu á þessu sviði fara ört vaxandi en árlega fara rúmlega fjórir milljarðar í alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Kröfurnar urðu ekki minni eftir að Ísland gerðist aðili að þróunarsamvinnunefnd OECD. Sú nefnd lagði til að Ísland myndi skoða fyrirkomulag og skipulag þróunarsamvinnu með tilliti til þess hvernig hámarksskilvirkni væri náð. Utanríkisráðuneytið tók þessar ábendingar alvarlega og til sérstakrar skoðunar.

Ólíkar leiðir teknar til skoðunar
Utanaðkomandi sérfræðingur var fenginn til að framkvæma úttekt á þróunarsamvinnu Íslands og er sú úttekt mjög ítarleg. Hún byggir á samtölum við rúmlega 200 einstaklinga sem koma bæði að alþjóðlegri þróunarsamvinnu hér á landi og erlendis. Úttektin byggir einnig á reynslu þeirra landa sem Ísland vill oftast bera sig saman við.

Við vinnuna voru skoðaðar þrjár ólíkar leiðir. Tvær af þeim sneru að sameiningu, hvort sem var innan ráðuneytis eða Þróunarsamvinnustofnunar, og sú þriðja að því að halda núverandi fyrirkomulagi með fremur litlum breytingum. Niðurstaða úttektarinnar var að samhæfing allra aðila sem starfa á vegum íslenskra stjórnvalda að þróunarsamvinnu eigi að vera á einum stað. Eingöngu þannig sé hægt að hámarka líkur á mestum árangri með mestri skilvirkni.

Mörg samanburðarlandanna í skýrslunni hafa þegar gengið í gegnum breytingar á fyrirkomulagi sem eru sambærilegar þeim breytingum á fyrirkomulagi sem nú eru fyrirhugaðar hér á landi. Þær breytingar fela í sér að verkefni sérstakrar Þróunarsamvinnustofnunar eru færð inn til ráðuneytis sem fari eftirleiðis með alla þróunarsamvinnu. Slíkt fyrirkomulag er heppilegt þar sem sterk tengsl eru á milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála. Nýjustu dæmin um slíkar sameiningar málaflokka eru frá Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Þá má geta þess að öll Norðurlöndin, að Svíþjóð undanskilinni, hafa flutt starfsemi sem þessa inn í ráðuneytin.

Þekking mun ekki glatast
Það er einnig mikilvægt að halda því vel til haga að þær breytingar sem um ræðir í frumvarpinu snúa einungis að stjórnskipulagi þróunarsamvinnu, en ekki að stefnumótun eða því hvernig við störfum á vettvangi. Áherslan mun haldast á tvíhliða þróunarsamvinnu í samstarfslöndunum þremur og á vettvangi fjölþjóðlegra stofnana. Þá mun starfsmönnum Þróunarsamvinnustofnunar verða tryggð sambærileg störf í ráðuneytinu og vera valkvætt hvort það starf sé flutningsskylt. Með því er tryggt að sú sérfræðiþekking sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur byggt upp muni ekki glatast. Tilgangurinn með þessum breytingum er að gera gott starf enn betra. Það er markmiðið sem við þurfum ávallt að hafa að leiðarljósi í vinnu sem þessari.

Karl Garðarsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.[/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]

Categories
Greinar

Nýjar höfuðstöðvar Landsbankans við Austurhöfn

Deila grein

25/03/2015

Nýjar höfuðstöðvar Landsbankans við Austurhöfn

frosti_SRGBÍ skýrslu stjórnar Landsbankans fyrir aðalfund 18. mars voru ítrekuð áform um að reisa nýjar höfuðstöðvar bankans við Austurhöfn, einum dýrasta byggingarreit landsins. Í skýrslunni segir:

„Gert er nú ráð fyrir að rýma um 28 þúsund fermetra og koma starfseminni sem á þeim var fyrir á um 15 þúsund fermetrum í nýju sérhönnuðu húsnæði. Reikna má með um 600 milljóna króna sparnaði á ári.“

Fagna ber hagræðingu í rekstri Landsbankans, hún er mikilvægur þáttur í því að bankinn geti veitt betri kjör, en sú spurningin vaknar hvort hagræðingin gæti ekki orðið enn meiri ef byggt væri hóflegt skrifstofuhúsnæði á hagkvæmri lóð? Það hljóta að finnast hagkvæmari lóðir í Reykjavík en Austurhöfn. Verður nóg af bílastæðum fyrir starfsfólkið, viðskiptavini bankans og þau fyrirtæki sem koma til með að fylla þessa 28 þúsund fermetra sem bankinn mun rýma?

Hvað mun þetta kosta og hver borgar?

Kostnaðaráætlun fyrir verkefnið hefur ekki verið kynnt en ólíklegt má telja að 15 þúsund fermetra bygging við Austurhöfn muni kosta minna en sjö milljarða. Kostnaðarauki vegna staðarvalsins mun lenda á viðskiptavinum bankans með einum eða öðrum hætti, hvort sem er í gegnum hærri vexti á lánum, með hærri þjónustugjöldum eða með hærri sköttum.

Höfuðmarkmið bankans er arðsemi eigin fjár

Stefnumótun bankans til ársins 2020 var einnig kynnt á aðalfundinum. Höfuðmarkmiðið er sagt „viðunandi arðsemi eigin fjár“. Arðsemi eigin fjár bankans var 12,5% árið 2014 sem hlýtur að teljast meira en viðunandi. Við fyrstu sýn er öll arðsemi af hinu góða.

Stóru bankarnir þrír skipta hinsvegar með sér meira en 90% af markaðinum. Á slíkum fákeppnismarkaði er hætt við að samkeppni verði ekki nægilega hörð til að tryggja viðskiptavinum bestu kjör. Bankar geta þá aukið arðsemi sína með því að auka vaxtamun og gjaldtöku. Það kæmi sér því best fyrir landsmenn ef Landsbankinn tæki upp það höfuðmarkmið að bjóða upp á bestu kjör og hóflega arðsemi. Aðrir bankar yrðu þá væntanlega að mæta samkeppninni til að halda í sína viðskiptavini. Allir landsmenn myndu njóta góðs af virkari samkeppni á bankamarkaði.

Eignarhlutur starfsmanna

Árið 2009 gerði núverandi Landsbanki, LBI hf og þáverandi fjármálaráðherra samkomulag um að starfsfólk bankans myndi eignast tæplega 1% hlut í bankanum. Hlutirnir voru afhentir í mars 2013 og nam verðmæti þeirra eftir skatta 1,8 milljörðum króna. Það má reikna með að eignaraðild starfsmanna sé hvati til að auka arðsemi bankans.

Þar sem íslenski bankamarkaðurinn einkennist af fákeppni, er hætt við að hærri arðsemi Landsbankans verði á kostnað almennings. Eignaraðildin og hvatinn sem hann myndar er því óheppileg frá sjónarhóli landsmanna.

Sé vilji er fyrir hendi mætti leysa málið með því að láta bankann kaupa til baka hlut starfsmanna svo ríkið verði 100% eigandi að bankanum. Þá mætti setja honum aðalmarkmið að veita góða þjónustu á lágu verði og skila hóflegri arðsemi. Þannig myndi Landsbankinn skapa landsmönnum mest verðmæti.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.[/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]

Categories
Greinar

Framtíðarsýn í skipulagsmálum

Deila grein

19/03/2015

Framtíðarsýn í skipulagsmálum

Sigrún Magnúsdóttir_001Landsskipulagsstefna er nýtt og spennandi skipulagsverkfæri sem er ætlað að stuðla að sjálfbærri þróun, skilvirkri áætlanagerð og vera sveitarstjórnum leiðarljós við skipulagsgerð, en felur ekki í sér fyrirmæli um nákvæma útfærslu. Meðal annars er lögð áhersla á samspil ólíkrar landnotkunar og nýtingar lands einkum fyrir landbúnað, ferðaþjónustu og skógrækt.

Þingsályktunartillaga um landskipulagsstefnu 2015-2026 verður lögð fram nú á vorþingi. Umhverfis- og auðlindaráðherra fól Skipulagsstofnun í október 2013 að hefja vinnu við stefnuna og kynnti viðfangsefni og áherslur. Í vinnu sinni hefur Skipulagsstofnun nýtt vel þann tímaramma sem var til umráða og átt náið samráð við almenning, sveitarstjórnir, opinberar stofnanir og félagasamtök víða um land.

Ferlið hefur tekist sérlega vel. Reglulega var leitað eftir ábendingum og hugmyndum og segja má að almennt hafi þátttaka verið góð á fundum. Auk þess hefur sérstök nefnd verið Skipulagsstofnun og ráðherra til ráðgjafar.

Landið teiknað
Frá byrjun hefur almenningi gefist kostur á að koma að verkefninu og útfæra hugmyndir sínar myndrænt. Meðal annars var þátttakendum á opnum fundum boðið til vinnusmiðju þar sem einn eða nokkrir saman í hóp teiknuðu upp sína hugmynd að landsskipulagi á Íslandskort í mismunandi litum, allt eftir viðfangsefnum svo úr urðu um 100 kort sem nýttust í vinnunni.
Í framhaldinu var nokkrum valkostum stillt upp og þeir ræddir ítarlega á opnum fundum þar sem skipst var á skoðunum og samtímis boðið upp á að koma að skriflegum athugasemdum sem nýttar voru við endanlega tillögu að landsskipulagsstefnu. Loks sendi Skipulagsstofnun bréf á um 180 aðila með beiðni um umsögn og bárust 73 umsagnarbréf. Farið var yfir allar innsendar athugasemdir áður en gengið var frá formlegri tillögu að landsskipulagsstefnu sem skilað hefur verið til umhverfis- og auðlindaráðherra.

Ég hvet eindregið til þess að sem flestir kynni sér ferlið og tillöguna á landskipulag.is. Þegar vel tekst til getur skipulagsvinna dregið fram ímynd staða eða svæða og mætt þörf okkar á hverjum tíma, eins og fyrir aukna ferðaþjónustu. Aukin ásókn í takmarkaðar auðlindir getur leitt til aukins álags á umhverfið og óvissu og mun landskipulagsstefna því þurfa að vera í virkri þróun til framtíðar.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Samþykktu fyrir 23. mars

Deila grein

18/03/2015

Samþykktu fyrir 23. mars

Elsa-Lara-mynd01-vefur69 þúsund umsóknir bárust frá 105 þúsund einstaklingum um skuldaleiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum. Frestur til að samþykkja leiðréttinguna rennur út þann 23. mars nk. Þessi frestur á við um þær umsóknir þar sem niðurstöður voru birtar þann 23. desember sl. Enn á eftir að vinna úr 3.900 umsóknum og unnið er hörðum höndum við að klára vinnslu þeirra. Ýmsar ástæður liggja þar að baki. Í nokkrum tilvikum vantar frekari gögn sem kallað hefur verið eftir frá umsækjendum og í öðrum tilvikum er m.a. um að ræða dánarbú og breytingar á fjölskylduhögum.

68 milljörðum þegar ráðstafað
80 milljörðum var ráðstafað í beina niðurfellingu skuldaleiðréttingarinnar. Nú þegar hefur 68 milljörðum verið ráðstafað inn á verðtryggðar húsnæðisskuldir landsmanna og búið er að ganga frá afgreiðslu þeirra mála inni í bankakerfinu. Í þeim tilvikum hafa áhrif leiðréttingarinnar komið fram, bæði hvað varðar höfuðstól lánanna og í afborgunum. Gaman hefur verið að fá fréttir frá fólki sem er ánægt með leiðréttinguna. Segja hana hafa góð áhrif á heimilisbókhaldið. Segjast geta farið 2-3 sinnum í matvöruverslunina fyrir þá upphæð sem lánið minnkar um. Alla munar um það. Auðvitað er það mismunandi hvað lánin lækka um, fer allt eftir skuldahlutfalli hvers og eins. Þak aðgerðarinnar var fjórar milljónir.

Þeir sem eiga eftir að samþykkja leiðréttinguna, eiga að hafa fengið póst eða eiga von á pósti frá ríkisskattstjóra, sem á að minna á samþykkisfrestinn. Samkvæmt fréttum frá ríkisskattstjóra hafa margir tekið vel við sér þegar þeir hafa fengið áminningarpósta þessa efnis.

Heimilin áfram í fyrsta sæti
Nú hafa rúmlega 32 þúsund umsóknir borist um ráðstöfun séreignasparnaðar. Hægt er að velja um tvær leiðir. Það er að borga séreignasparnað inn á húsnæðislán eða borga inn á sérstakan húsnæðissparnað. Enn er hægt að sækja um þessa aðgerð og gildir hún til ársins 2017.

Auk þessa styttist verulega í frumvörp er koma á móts við þá sem eru á leigumarkaði. Þar er m.a. tekið á uppbyggingu húsnæðissamvinnufélaga, unnið að lækkun leiguverðs, auknu framboði íbúða og meiri stuðningi við þá sem búa í leiguhúsnæði, í gegnum húsnæðisbætur.

Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar eru frumvörp er varða afnám verðtryggingar af neytendalánum, væntanleg í þingið í lok mars. Þau miða að því að fyrstu skref í afnámi verðtryggingarinnar af neytendalánum, fari fram í byrjun ársins 2016.
Það er óhætt að halda því fram að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi sett heimilin í fyrsta sæti og haldi þeirri forgangsröðun áfram.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Með allt á hreinu

Deila grein

17/03/2015

Með allt á hreinu

Silja-Dogg-mynd01-vefÉg átti fyrir skömmu fund með írskum meistaranemum í stjórnmálafræði. Þau voru m.a. að velta fyrir sér hvort ESB þætti innganga Íslands í sambandið eftirsóknarverð. Nemarnir veltu líka upp þeirri spurningu hvort það hefði ekki grafið undan trúverðuleika Íslands að sækja um aðild að ESB þar sem þing og þjóð voru frá upphafi klofin í afstöðu sinni. Og síðast en ekki síst, hvort íslensk stjórnvöld ætli að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu á næstunni um ESB. Eftirfarandi línur endurspegla umræður okkar…

Land tækifæranna

Já, Ísland er eftirsóknarvert land. Vatn, orka og matur eru það sem þjóðir heims þurfa til framtíðar og lega landsins er eftirsóknarverð m.a. vegna aðgangs að Norðurskautinu. Berum nú saman stöðu Evrópusambandsins og stöðu Íslands í dag. Á Íslandi er ágætur hagvöxtur og lítið atvinnuleysi. Svo er ekki í ESB. Árangur Íslands og endurreisn efnahagslífsins hér hefur vakið eftirtekt á heimsvísu þó svo að ýmis verkefni séu enn óleyst. Staðan var allt önnur árið 2009. Hvers vegna ættu Íslendingar að vilja ganga inn í Evrópusambandið nú? Vilja menn kannski bara fá að sjá hinn „meinta samning“?

Innihald pakkans

Á bls. 32 í skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ er fjallað um skilyrði fyrir aðild þar stendur m.a.: „Þau lönd sem óska eftir aðild að Evrópusambandinu gangast undir ákveðin grundvallarskilyrði. Í meginatriðum snúast þau um að aðildarríki samþykki sáttmála Evrópusambandsins, markmið þeirra og stefnu og þær ákvarðanir sem teknar hafa verið þeir öðluðust gildi. Gengið er út frá því að umsóknarríki sækist eftir aðild. Þá leiðir innkoma nýs ríkis ekki til þess að nýtt samband verði til auk þess sem umsóknarríki ber að samþykkja réttarreglur sambandsins (fr. acquis comunitare). Þá er umbreytingarfrestur takmarkaður og felur ekki í sér undanþágu frá grunnsáttmálum og meginreglum sambandsins. Þá er að lokum gerð krafa um skilyrði fyrir inngöngu.“

Þetta er það aðildarferli sem Ísland gekk inn í þegar það sótti um aðild árið 2009. Í sömu skýrslu á bls. 37 stendur: „Almennt má segja að stækkunarferlið sem Ísland gekk inn í einkennist af auknum skilyrðum fyrir inngöngu, sé miðað við það sem áður tíðkaðist. Þrátt fyrir bjartsýni um annað virðist hafa verið lítil ástæða til að ætla að Ísland fengi aðra meðferð í umsóknarferli en þau önnur lönd sem voru að sækja um aðild á sama tíma.“

Þetta sýnir okkur svart á hvítu að ekki er um samningaviðræður að ræða. Við munum ekki fá neina sérmeðferð ef við göngum í ríkjasamband Evrópuþjóða.

Heiðarlegt gagnvart ESB

Ákvörðun utanríkisráðherra um að senda ESB formlegt bréf um að Ísland væri ekki umsóknarríki lengur, var hárrétt og heiðarleg. Stjórnarflokkarnir eru báðir með þá yfirlýstu stefnu að ganga ekki inn í ESB og meirihluti þings styður ekki inngöngu í ESB. ESB hefur lengi óskað eftir skýru svari frá íslenskum stjórnvöldum og þessi niðurstaða nú var fengin í samráði við ESB. Lögfræðilegt álit frá 2013 liggur fyrir að þing er ekki bundið af þingsályktun annarrar ríkisstjórnar. Þingið fjallaði um ESB-málið dögum saman á síðasta vorþingi. Tvær skýrslur voru gefnar út. Utanríkismálanefnd þingsins hefur frá upphafi vitað hver stefna ríkisstjórnarinnar er og eitt af fyrstu verkum ráðherra í embætti var að leysa samninganefndirnar upp og stöðva aðlögunarferlið. Stækkunarstjóri ESB hefur í millitíðinni lýst því yfir að ekki standi til að taka fleiri þjóðir í sambandið a.m.k. næstu fimm árin. Formlegt bréf utanríkisráðherra nú til ESB á því ekki að koma neinum á óvart.

Ómöguleikinn

Næsta spurning er þá hvort ríkisstjórnin muni efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Svarið er nei. Ríkisstjórnin hefur engin áform uppi um að efna til þjóðatkvæðis um viðræður við Evrópusambandið, þar sem slíkt væri atkvæðagreiðsla um mál sem hún er mótfallin. Komi til þess að hefja ætti aðildarferlið að nýju telur núverandi ríkisstjórn mikilvægt að það sé ekki gert án þess að spyrja þjóðina fyrst hvort hún vilji gerast aðili að ESB.

Skýr stefna

Hvers vegna mátti málið ekki liggja óhreyft? Það er vegna þess að það hefur gildi í utanríkismálum að vera eitt af umsóknarríkjum ESB. Stefna núverandi ríkisstjórnar er að efla alþjóðlegt samstarf enn frekar m.a. með gerð fríverslunarsamninga og við erum einnig aðilar að Norðurskautsráði. Það að vera umsóknarríki ESB grefur undan stöðu okkar og tækifærum. Það hefði e.t.v. verið „þægilegra“ að láta ESB-málið liggja en stjórnmál eiga ekki að snúast um þægindi. Þau snúast um að taka ákvarðanir, framfylgja yfirlýstri stefnu, sannfæringu sinni, og koma heiðarlega fram við samstarfsaðila og þjóðina. Það hefur núverandi ríkisstjórn nú gert.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í DV 17. mars 2015

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.