Categories
Greinar

Rétt skal vera rétt

Deila grein

13/05/2014

Rétt skal vera rétt

Elsa lára_SRGB_fyrir_vefTalsverð umræða hefur orðið um skuldaleiðréttingu ríkisstjórnar Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins. Nokkur gagnrýni hefur verið um aðgerðirnar og hefur hún m.a. snúist um að þær gagnist að mestu þeim eignameiri og tekjuhærri. Þessi gagnrýni hefur verið nokkuð hávær frá stjórnarandstöðunni, sem hefur verið dugleg að halda þeirri villandi umræðu á lofti.

Tölulegar staðreyndir um skuldaleiðréttinguna

Skuldaleiðréttingafrumvörp ríkisstjórnarinnar eru samtals 150 milljarðar króna  að umfangi og ná þau saman, til allra þeirra heimila sem eru með verðtryggð húsnæðislán.

25 % af heildarupphæð höfuðstólsleiðréttingarinnar fer til heimila með heildar árstekjur undir 4 milljónum. Tæplega helmingur leiðréttingarinnar fer til heimila með heildar árstekjur undir 6 milljónum og um 60 % leiðréttingarinnar fer til heimila með heildar árstekjur undir 8 milljónum.

Það er staðreynd að hlutfall fjárhæðar niðurfærslu og árstekna er hærra hjá tækjulægri heimilum en þeim tekjuhærri og meðalfjárhæð niðurfærslu hækkar eftir því sem börn á heimili eru fleiri.

Jafnframt er hlutdeild þeirra sem skulda 30 milljónir króna eða meira, rétt rúmlega 20 % af heildarumfangi leiðréttingarinnar. En flest heimili skulda á bilinu 10 – 30 milljónir króna, því  kemur stærstur hluti leiðréttingarinnar hjá þeim hópi eða 65 % upphæðarinnar.  Lægri skuld leiðir af sér lægri leiðréttingu.

Tölulegar staðreyndir um fyrri aðgerðir

Vegna þeirrar gagnrýni stjórnarandstöðunnar, að leiðrétting ríkisstjórnar Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins gagnist að mestu þeim eignameiri og tekjuhærri, þá er tilvalið að rýna í tölur úr skuldaaðgerðum ríkisstjórnarinnar sem kenndi sig við félagslegan jöfnuð og réttlæti.

Þar kemur í ljós að á síðasta kjörtímabili voru samtals 45 milljarðar af verðtryggðum húsnæðisskuldum færðar niður,  m.a. vegna 110 % leiðarinnar. Þær aðgerðir nýttust aðeins um 10% heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir, þ.e. um 7.300 heimilum. Um 1% heimilanna fékk um helming niðurfærslunnar, rúmlega 20 milljarða króna.  Þessi 1% heimila, það eru 775 heimili, fengu allt yfir 15 milljóna króna  niðurfærslu en meðaltal niðurfærslna var 26 milljónir króna. Meðaltekjur þessara heimila á mánuði árið 2009  voru 750 þúsund  krónur  en um tugur þessara heimila var með meðaltekjur yfir 2 milljónir króna á mánuði. Einnig fengu um 95% þessara 775 heimila sérstakar vaxtabætur frá ríkinu vegna húsnæðisskulda að fjárhæð tæplega 300 milljónir króna.

Á gagnrýnin rétt á sér?

Ef horft er á samanburðartölur milli aðgerða ríkisstjórnar Framsóknar – og Sjálfsstæðisflokksins og hins vegar aðgerða ríkisstjórnarinnar sem kenndi sig við réttlæti og jöfnuð, þá sýna fyrirliggjandi gögn að 30% af heildarfjárhæð 110% leiðarinnar fór til heimila með yfir 10 milljónir króna tekjur í árslaun en um 25% af núverandi aðgerðum fara til heimila með sömu tekjur.

Sérstakar vaxtabætur námu 10 milljörðum króna, á tveggja ára tímabili, í valdatíð síðustu ríkisstjórnar. Áhrif þeirra aðgerða á tekjuhópa eru að mestu leyti svipuð áhrifum skuldaleiðréttingarinnar á tekjuhópana. Þó er athyglisvert að heimili með tekjur undir 4 milljónum króna fengu 21% af sérstökum vaxtabótum en áætlað er að sami tekjuhópur fái 24% í aðgerðum ríkisstjórnarinnar nú.

Hægt er að halda því fram að gagnrýni stjórnarandstöðunnar sé ekki réttmæt og óhætt er að vísa henni aftur til föðurhúsanna.

Elsa Lára Arnardóttir

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

110% leið hálaunafólksins

Deila grein

13/05/2014

110% leið hálaunafólksins

thorsteinn-saemundssonelsa
Ásmundur Einar DaðasonÍ umræðum um skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar hefur kennt ýmissa grasa. Stjórnarandstaðan hefur ýmist haldið því fram að of lítið eða of mikið sé gert og að frumvörpin hefðu átt að koma fyrr eða alls ekki. Þá hefur því verið haldið fram að frumvörpin nýtist fyrst og fremst hinum tekjuhærri og séu því ósanngjörn. Samkvæmt opinberum gögnum má hins vegar komast að því hver áhrif hinna takmörkuðu aðgerða fyrri ríkisstjórnar voru á einstaka tekjuhópa.

Samtals voru um 45 milljarðar króna af verðtryggðum húsnæðisskuldum færðir niður vegna aðgerða fyrri ríkisstjórnar. Megnið af því fjármagni kom til vegna flaggskipsins, 110% leiðarinnar, en eins og kunnugt er fól sú leið í sér að bankar viðurkenndu að lán sem ekki væri hægt að standa skil á væru töpuð. Aðgerðir fyrri ríkisstjórnar nýttust aðeins um 10% heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir. Um 1% heimilanna fékk um helming niðurfærslunnar, eða rúmlega 20 milljarða króna. Þetta 1% heimilanna, eða 775 heimili, fékk yfir 15 milljóna króna niðurfærslu og var meðaltal niðurfærslunnar um 26 milljónir króna. Meðaltekjur þessara heimila á mánuði á árinu 2009 voru um 750 þúsund en um tugur þessara heimila var með meðaltekjur yfir tvær milljónir króna á mánuði. Til að fullkomna hið félagslega réttlæti norrænu velferðarstjórnarinnar þá fengu um 95% þessara 775 heimila sérstakar vaxtabætur frá ríkinu vegna húsnæðisskulda að fjárhæð tæplega 300 milljónir króna.

Handhöfum hins stóra sannleika um félagslegt réttlæti á Alþingi hefur verið tíðrætt um tekjuáhrif leiðréttingarfrumvarpa ríkisstjórnarinnar. Dreifing niðurfærslunnar eftir tekjuhópum í aðgerðum fyrri ríkisstjórnar var svo sannarlega hinum tekjuhærri í hag í samanburði við fyrirliggjandi frumvarp ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu húsnæðislána. Í 110% leiðinni fóru 30% heildarfjárhæðarinnar til heimila með yfir 10 milljón króna tekjur en 25% í Leiðréttingunni, sem þó nær til mun fleiri heimila.

Síðasta ríkisstjórn stakk örlítilli dúsu upp í landann með sérstökum vaxtabótum sem námu samtals rúmlega 10 milljörðum króna á tveimur árum. Áhrif þeirrar aðgerðar á tekjuhópa er að mestu leyti svipuð og áætluð áhrif Leiðréttingarinnar á tekjuhópa. Þó er athyglisvert að heimili með tekjur undir 4 milljónum króna fengu um 21% af sérstökum vaxtabótum en áætlað er að sami tekjuhópur fái um 24% af Leiðréttingunni.

Frumvörp ríkisstjórnarinnar gefa um 100 þúsund heimilum tækifæri til að lækka húsnæðisskuldir sínar eða spara til kaupa á húsnæði. Lækkun skulda getur orðið allt að 20% ef úrræðin eru nýtt að fullu. Leiðréttingin er sanngjörn og hefur jákvæð efnahagsleg áhrif. Skuldir fyrirtækja hafa verið færðar að því sem greiðslugeta þeirra segir til um og gengistryggð lán hafa verið endurreiknuð vegna dóma Hæstaréttar. Þá hafa fjármagnseigendur verið í sterkri stöðu þar sem skuldarar bera verðbólguáhættuna vegna verðtryggingar. Þeir sitja eftir sem skulduðu verðtryggð lán á meðan holskeflan reið yfir. Það er hvorki réttlátt né sanngjarnt.

Ríkisstjórnin setur fólkið í forgang með því að leiðrétta forsendubrestinn með jákvæðum hvötum og gefur öllum tækifæri á að horfa til framtíðar. Hátekjuheimili með tugmilljóna króna niðurfærslu fá að sjálfsögðu ekki leiðréttingu samkvæmt leið ríkisstjórnarinnar. En norræna velferðarstjórnin taldi ástæðu til að að veita þeim heimilum sérstakar vaxtabætur til viðbótar við niðurfærsluna.

Ásmundur Einar Daðason, Elsa Lára Arnardóttir og Þorsteinn Sæmundsson

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Orka, fiskur og jafnrétti

Deila grein

14/04/2014

Orka, fiskur og jafnrétti

Gunnar Bragi SveinssonAlþjóðleg þróunarsamvinna er ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu. Við leggjum áherslu á stuðning við fátækustu ríki heims og fátækt fólk í ríkjum þar sem gæðum er misskipt.

Alþjóðabankinn gegnir lykilhlutverki í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands, enda meðal stærstu og áhrifamestu alþjóðastofnana á sviði þróunarsamvinnu. Með virkri þátttöku Íslands á vettvangi bankans leggjum við okkar af mörkum til efnahagslegrar og félagslegrar uppbyggingar þróunarlanda. Þar lætur Ísland sérstaklega til sín taka á sviði orku- og fiskimála, auk sérstaks stuðnings við jafnréttismál.

Við höfum orðið vör við mikinn áhuga hjá þróunarríkjum á samstarfi á þessum sviðum enda gegna þau mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að stuðla að aukinni framþróun og hagvexti í þróunarríkjum. Árangurinn skilar sér til fólksins með aukinni atvinnusköpun og bættum lífskjörum. Sóknarfæri Íslendinga eru töluverð, enda getum við deilt þekkingu okkar og reynslu með fátækari ríkjum heims.

Samstarf Íslands, Alþjóðabankans og Norræna þróunarsjóðsins um aukna nýtingu jarðhita í Austur-Afríku er gott dæmi þar sem íslensk sérþekking gegnir lykilhlutverki. Samstarfið gerir ráð fyrir að Íslendingar aðstoði ríki við að meta bestu jarðhitasvæðin, gera nauðsynlegar grunnrannsóknir og veita liðsinni við gerð áætlana um jarðboranir til þess að meta stærð auðlindanna. Vonir eru bundnar við að samstarfið muni leiða til aukinnar raforkuframleiðslu sem geti skipt sköpum fyrir þetta fátæka svæði Afríku. Með samstarfinu erum við að bregðast við þeirri miklu orkufátækt sem ríkir á svæðinu, en aðgangur að orku er af mörgum talinn einn mikilvægasti liðurinn í að stuðla að aukinni hagsæld fátækra samfélaga.

Veigamikil vegferð
Í dag sit ég fund þróunarnefndar Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Á fundinum munu 25 ráðherrar og seðlabankastjórar koma saman til að leggja línurnar um framkvæmd nýrrar stefnu Alþjóðabankans og ræða hvernig bankinn geti betur brugðist við fyrirliggjandi áskorunum, styrkt hagvöxt og jöfnuð í þróunarríkjum, ekki síst í kjölfar efnahagserfiðleika undanfarinna sex ára.

Ég tel áherslusvið okkar innan bankans, jafnrétti, orku- og fiskimál, vera meðal sviða sem stuðlað geta að framþróun og hagsæld og að Alþjóðabankinn þurfi að huga sérstaklega að þessum atriðum til að ná tilsettum árangri.
Á Íslandi er til staðar hafsjór af þekkingu og reynslu sem getur reynst þróunarríkjum afar mikilvæg. Þannig getum við Íslendingar stutt við þessa veigamiklu vegferð.

Gunnar Bragi Sveinsson

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Ferðamannastaðir

Deila grein

09/04/2014

Ferðamannastaðir

haraldur_SRGB_fyrir_vefSigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur kynnt í ríkisstjórn útfærslu á uppbyggingu innviða og vernd náttúru á ferðamannastöðum. Um þessar mundir er unnið að frumvarpi um áætlunina í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu sem fer með forræði málsins.

Í fyrsta sinn hér á landi er unnið að heildstæðri áætlun sem nær yfir allt landið, en hingað til hefur skort á skýra stefnumörkun og yfirlit yfir vandann á ferðamannastöðum. Slík áætlun er mikilvæg forsenda þess að hægt sé að ráðast í verndaraðgerðir og takast á við uppbyggingu innviða með skipulögðum hætti.

Samkvæmt útfærslunni færi úthlutun á fjármagni til ferðamannastaða í gegnum stýrihóp sem hefði umsjón með gerð tólf ára stefnumarkandi áætlunar en innan hennar verði þriggja ára verkefnaáætlanir. Einnig verði settur á fót samráðshópur, þar sem hagsmunaaðilar eigi sæti, sem vinni með stýrihópnum. Stýrihópurinn leggi tillögur sínar að tólf ára áætluninni á þriggja ára fresti fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra sem legði þær fram á Alþingi í formi þingsályktunar í samráði við ráðherra ferðamála.

Stýrihópurinn hefði endanlegt vald um gerð þriggja ára verkefnaáætlunarinnar sem úthluti fjármagni sem yrði til við gjaldtöku, en ráðherra ferðamála útfærir leiðir til tekjuöflunar.

Áhyggjur fólks hafa að einhverju leyti snúist um hverjir fái aðkomu að sjóðnum þegar gjaldtakan hefst og úthlutun á fjármagninu. Samkvæmt útfærslunni er áhersla lögð á víðtækt samráð við gerð framkvæmdaáætlunar og verkefnaáætlana þar sem gert er ráð fyrir aðkomu sveitarfélaga, ferðaþjónustunnar, landeigenda, opinberra stofnana, háskóla, frjálsra félagasamtaka og hagsmunasamtaka auk ráðuneyta umhverfismála, ferðamála og fjármála.

Hér er um ákveðin tímamót að ræða. Meginmarkmiðin eru að náttúran sé vernduð, að komið sé í veg fyrir náttúruspjöll og þau lagfærð, dregið sé úr raski, álagi sé dreift og ný svæði metin, uppbygging falli vel að heildarsvipmóti lands og öryggi ferðamanna sé tryggt.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 9. apríl 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Horfum á heildarmyndina

Deila grein

08/04/2014

Horfum á heildarmyndina

Elsa lára_SRGB_fyrir_vefMikilvægt er að horfa á heildarmyndina þegar rætt er um skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar. Þau frumvörp sem eru til umræðu í þinginu þessa dagana og taka til verðtryggðra húsnæðisskulda heimilanna, eru eingöngu einn liður af tíu úr aðgerðaáætlun ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Umfang skuldaleiðréttinganna eru 150 milljarðar og nær til um 100 þúsund heimila. Ánægjulegt er að um sé að ræða almenna aðgerð en ekki sértæka. Vissulega hefði það verið mjög jákvætt ef hægt hefði verið að hafa þakið hærra, fyrir þann hóp, sem varð hvað einna mest fyrir forsendubrestinum vegna efnahagshrunsins. En í því samhengi er nauðsynlegt að horfa á heildarmyndina í þeirri vinnu er snýr að skuldavanda heimilanna.

Í verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála er unnið að mörgum mikilvægum þáttum er snerta íslensk heimili og framtíð þeirra. Þar má nefna vinnu að húsnæðislánakerfi til framtíðar og lyklafrumvarpið. Einnig er unnið með verðtrygginguna og þar eru bæði meirihlutaálit verðtryggingarhópsins og séráliti Vilhjálms Birgissonar höfð til hliðsjónar. Mikilvægt er að verðtryggingin verði afnumin um leið og skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga.

Einnig mun verkefnastjórnin skila af sér hugmyndum hvernig komið verði á öruggum leigumarkaði hér á landi. Þannig að þeir sem hér búa geti haft raunhæft val um séreign eða leiguhúsnæði. Jafnframt er horft til þess hvernig mögulegt verði að lækka leigukostnað og tillögur stjórnarinnar hljóma upp á allt að 20 % lækkun í þeim efnum. Auk þessa er unnið félagslegu húsnæðiskerfi með það að markmiði að allir geti haft öruggt þak yfir höfuðið.

Verkefnastjórnin mun skila af sér tillögum til félags- og húsnæðismálaráðherra í lok þessa mánaðar.

Í desember síðast liðnum, lagði innanríkisráðherra fram frumvarp, um að fresta nauðungasölum fram í september 2014. Nær frestunin til íbúðarhúsnæðis með verðtryggðar húsnæðisskuldir. Frumvarpið var samþykkt.

Í janúar síðast liðnum samþykktu þingmenn frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta. Nú þegar hefur verið opnað fyrir umsóknir á vef embættis umboðsmanns skuldara. Umsóknarferlið er skilvirkt og áætlað er að ferlið taki um tvær vikur frá því öll gögn berast vegna málsins.
Í lok mars lagði félags- og húsnæðismálaráðherra fram tvö frumvörp og þau eru heimilunum í hag. Annað þeirra varðar húsaleigubætur til þeirra sem misst hafa eignir sínar á uppboði og leigja þær nú til búsetu. Þessi hópur hefur, hingað til ekki átt rétt á húsaleigubótum og hefur það verið miður. Því ber að fagna að bæta skuli réttindi þeirra. Hitt varðar embætti umboðsmanns skuldara og heimild hans til að sekta fjármálastofnanir, ef þær draga eða neita að afhenda embætti hans þær upplýsingar, sem á þarf að halda til að vinna að málefnum þeirra sem til hans leita. Samkvæmt frumvarpinu getur sektargreiðsla numið allt frá 10 þúsund krónum – 1 milljón á dag, líkt og dagsektir samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Hér hefur verið skrifað um aðgerðir ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfsstæðisflokksins, í þágu heimilanna. Umræðan um að ekkert sé verið að gera fyrir heimilin er ósanngjörn. Við verðum að horfa á heildarmyndina.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 8. apríl 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Ættleiðingar og mannréttindi

Deila grein

07/04/2014

Ættleiðingar og mannréttindi

johannaÁ Íslandi gilda lög um að samkynhneigðir mega ættleiða. Staðan er sú að ekkert erlent land sem við erum í samskiptum við leyfir ættleiðingar milli landa til samkynhneigðra. Í þessu máli skarast reglur upprunaríkis og móttökuríkis svipað og gerist með lög um ættleiðingar einhleypra einstaklinga og fatlaðra. Þetta er ástæða þess að samkynhneigð pör geta aðeins ættleitt innanlands.

Misskilningurinn er sá að margir lesa út úr þessum tilmælum að það sé verið að banna samkynhneigðum hérlendis að ættleiða. En sú er ekki raunin og í rauninni er Ísland alveg undir það búið, ef önnur lönd fara að leyfa ættleiðingar milli landa til para af sama kyni, að taka þá þátt í því.

Þegar við skoðum hvaða lönd það eru helst sem Íslendingar eru að ættleiða frá, þá sjáum við að það eru lönd sem eru frekar aftarlega í röðinni þegar kemur að mannréttindum og réttindum samkynhneigðra sér í lagi, það eru Indland, Kína, Kólumbía, Tékkland og Tógó.

Ísland hefur í lengri tíma unnið að því að bæta stöðu sína hvað varðar ættleiðingar sem og uppfæra lög og reglur er að því snúa. Samkvæmt Haag-samningnum, sem Ísland er aðili að, skal tryggja við ættleiðingar á börnum milli landa að hagsmunir þeirra séu hafðir að leiðarljósi og þær ættleiðingar fari fram í samvinnu stjórnvalda í bæði uppruna- og móttökuríki, einnig setja reglur um hæfi væntanlegra kjörforeldra. Stjórnvöld geta þá sett reglur um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að ættleiða milli landa.

Innanríkisráðuneytið og baráttan

Í svari innanríkisráðuneytis við fyrirspurn minni kemur fram að: »Ráðuneytinu er kunnugt um að ekkert par af sama kyni, búsett á Íslandi, hafi ættleitt barn (saman) erlendis frá síðan lög um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra (sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvgun), nr. 65/2006, tóku gildi. Staðan á Íslandi hvað þetta varðar er sambærileg og þegar kemur að öðrum norrænum ríkjum, en samstarfsríki þeirra eru þó mun fleiri en samstarfsríki Íslands.«

Hér á landi fara löggilt ættleiðingarfélög með milligöngu fyrir millilandaættleiðingum. Þau hafa séð um að afla nýrra sambanda við ríki sem núna er og verður hægt að ættleiða frá. Innanríkisráðuneytið leggur til alla þá hjálp sem það getur í þessum málum.

Í dag er virkur samstarfshópur Íslenskrar ættleiðingar og Samtakanna ’78 sem hefur unnið að því að kanna möguleika á ættleiðingum til samkynhneigðra. Og á meðan önnur lönd vinna sig í áttina að því að leyfa ættleiðingar milli landa til samkynhneigðra þá ættum við að vinna áfram það góða starf sem við getum hérlendis til að vera undir það búin þegar stundin kemur.

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. apríl 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Norrænn þjóðfundur ungs fólks

Deila grein

05/04/2014

Norrænn þjóðfundur ungs fólks

Eygló HarðardóttirHvernig vil ég að framtíð mín verði? Þessari spennandi og áleitnu spurningu munu norræn ungmenni á aldrinum 18-25 ára svara á Þjóðfundi norrænna ungmenna sem fram fer í dag, 5. apríl, kl. 9-17 á Hilton Nordica hóteli. Yfirskrift fundarins er „demokrati og kreativitet“. Fundurinn er eitt af verkefnunum í formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014 og er á vegum NORDBUK, barna- og ungmennanefndar Norrænu ráðherranefndarinnar. Alls eru um eitt hundrað þátttakendur skráðir frá öllum Norðurlöndunum til fundarins.

Lýðræðisvitund og þátttaka
Ein af áskorunum í norrænum samfélögum er að auka lýðræðisvitund og þátttöku ungs fólks. Mikilvægt er að beita ólíkum leiðum til þess að fá sem flesta að borðinu og taka þátt. Á Þjóðfundi norrænna ungmenna gefst ungu fólki tækifæri til að koma saman og ræða um hvernig þau vilja sjá framtíð sína. Notast verður við fundaraðferð sem beitt var á Þjóðfundinum hér á Íslandi árið 2009. Allir fá að koma sínum sjónarmiðum og hugmyndum á framfæri og skipta skoðanir allra þátttakenda jafn miklu máli.

Framtíðarkynslóðin talar
Það verða hvorki langar ræður eða fyrirlestrar haldnir á fundinum heldur munu þátttakendur sjálfir vinna hver með öðrum til að kanna og tjá drauma sína um framtíðina, samfélagið, jörðina og náttúruna, vinnu og fjölskyldu, menningu og atvinnuvegi. Það er undir þátttakendum komið hvaða mál fá mesta áherslu og hvaða lausnum og hugmyndum unga fólkið vill koma á framfæri um betri framtíð. Hér er því um að ræða einstakt tækifæri fyrir kynslóðir framtíðarinnar að láta í sér heyra.

Hverjir hlusta?
Niðurstöðum fundarins verður komið á framfæri við Norrænu ráðherranefndina og norrænu ríkisstjórnirnar. Þær verða einnig sendar til samtaka ungs fólks og annarra sem vilja nýta þær til samfélagsrýni og umbóta. Ég hlakka til að sjá niðurstöður Þjóðfundar norrænna ungmenna og hef fulla trú á því að þær skili okkur betri framtíð.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. apríl 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Bregðumst við loftslagsvánni

Deila grein

04/04/2014

Bregðumst við loftslagsvánni

Sigurður Ingi JóhannssonVísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) birtir nú í áföngum fimmtu úttekt sína á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. Kaflar um líkleg áhrif loftslagsbreytinga hafa vakið mikla athygli að undanförnu. Það er ekki nýtt að IPCC dragi upp dökka mynd, en vísindin styrkjast með hverri úttekt og vægi niðurstöðunnar vex.

Ekki síst valda áhyggjum spár um fæðuöryggi. Til lengri tíma getur hlýnun lofthjúpsins leitt til minni uppskeru nytjajurta á borð við hveiti, maís og hrísgrjón. Áhrif á fiskistofna eru einnig illfyrirsjáanleg, þar sem þeir færa sig eftir breyttu hitastigi og straumum. Þetta er slæm tíðindi á sama tíma og mannkyn vex um tvo milljarða munna eða meira á næstu áratugum.

Allar þjóðir munu bera skaða af stórfelldum loftslagsbreytingum, líka við Íslendingar. Fyrir okkur er hin svokallaða súrnun sjávar eitt helsta beina áhyggjuefnið tengt loftslagsbreytingum. Aukinn styrkur CO2 breytir efnasamsetningu í sjó, sem getur haft alvarleg áhrif á vistkerfi hafsins. Röskun á náttúrufari og lífsskilyrðum á heimsvísu hefur einnig óbein áhrif á Ísland, vegna aukinnar hættu á upplausn, ófriði og flóttamannavanda.

Til skemmri tíma geta einstakir þættir orðið Íslendingum og öðrum norðlægum ríkjum hagfelldir. Þannig telja vísindamenn líklegt að hlýnun muni bæta ræktunarskilyrði á Íslandi. Þetta er staðreynd, sem breytir engu um að loftslagsvandinn er hnattræn vá, sem Ísland berst gegn ásamt öðrum. Það er líka rétt að benda á að í öllum vanda felst von um lausn. Hún felst að miklu leyti í loftslagsvænni tækni, sem dregur úr losun og bætir lífsgæði. Mörg íslensk fyrirtæki skara fram úr í slíkri tækni og á sviði endurnýjanlegrar orku. Ég fagna því ef nýsköpun á þessu sviði blómstrar og fyrirtækjum með loftslagslausnir gengur vel.

Skýrsla IPCC er ákall til ríkja heims að gera betur. Ísland stendur sig að mörgu leyti vel í loftslagsmálum. Auðvitað getum við þó gert enn betur. Það má efla hlut rafbíla. Það má nýta loftslagsvænar tæknilausnir íslenskra hugvitsfyrirtækja í skipum. Það má efla kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu. Tökum loftslagsspánum af alvöru og vinnum að lausnum með bjartsýni að vopni.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 4. apríl 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

»Þetta reddast«

Deila grein

30/03/2014

»Þetta reddast«

Jóhanna maría_SRGB_fyrir_vefÞegar talað er um fjármálalæsi er verið að tala um getuna til að fjalla um peninga og meðferð þeirra án vandræða, skilja helstu atriði eigin fjármála og hvernig er hægt að hafa áhrif á þau.

Reglulega kemur upp umræðan um það hve Íslendingar séu illa að sér í fjármálalæsi.

Mikið var unnið í þessum málum á árunum 2008-2009 en þá var meðal annars stofnuð nefnd af viðskiptaráðherra Íslands til að kanna stöðuna. Þá kom í ljós að aðeins um helmingur almennings væri almennilega fjármálalæs og að því væri sérstaklega ábótavant hjá tekjulægstu hópunum og þeim sem hafa litla menntun.

Niðurstaða nefndarinnar var að lokum sú, að orðatiltækið »þetta reddast« væri ríkjandi í hugsun Íslendinga. Því um leið og minnihluti sagðist ekki hafa áhyggjur af fjármálum sínum, þá var meirihlutinn á því að geta ekki greitt skuldir sínar á réttum tíma næsta hálfa árið.

Vandinn í kennslu fjármálalæsis liggur ekki í því að hana vanti inn í námsskrár, heldur er það frekar vilji og kunnátta kennara sem ákvarðar hvort þetta sé tekið fyrir. Námsefnið er til og kunnáttan er til staðar, það vantar bara nokkur verkfæri til að miðla henni.

Þegar við tölum um fjármálalæsi meinum við m.a. að einstaklingur eigi að hafa vit á helstu hugtökum sem koma fyrir á launaseðli hans og hvernig þeir liðir eru reiknaðir. Hvernig og hvers vegna skuli borga skatt, grunnur í gerð heimilisbókhalds, hvað kostar að borga með korti og hvernig er best að ávaxta laun eða lífeyrirssparnað eftir því hvernig kerfi eru í gangi hverju sinni.

Fjárhagsleg framtíð
Svona kennsla mun styrkja vitund þeirra einstaklinga sem neytenda og auka siðferði í fjármálum.

Íslendingar eru það heppnir að eiga Stofnun um fjármálalæsi, forstöðumaður hennar, Breki Karlsson, hefur verið duglegur að vekja athygli á vankunnáttu í fjármálalæsi og um leið mikilvægi þess.

»Með bættu fjármálalæsi hefur fólk tækifæri til að móta fjárhagslega framtíð sína út frá því efnahagsumhverfi sem það býr við. Það stuðlar einnig að gagnrýninni og upplýstri umræðu og ýtir undir fyrirhyggju í fjármálum. Þannig er ekki aðeins lagður grunnur að meiri lífsgæðum, heldur einnig stuðlað að ábyrgara og heilbrigðara samfélagi,« segja samtökin um eiginleika fjármálalæsis.

En um leið og við eigum þessa stofnun sem vinnur að þjóðarátaki í fjármálalæsi, gerum kannanir og skýrslur þá erum við ekki að taka almennilega á vandanum. Stýrihópur um eflingu fjármálalæsis í grunn- og framhaldsskólum var settur á laggirnar 2011 og á að ljúka vinnu í árslok 2014.

Við höfum þurft að taka á ýmsum kvillum þess að fjármálalæsi fólks er ekki meira en raun ber vitni og þar má til að mynda nefna SMS-lánin. Vonandi koma aðgerðir út úr vinnu stýrihópsins, hnitmiðuð niðurstaða þar sem Íslendingar eru teknir í fjármálakennslu á mannamáli áður en það verður að vandamáli hjá einstaklingum sem þurfa að treysta á að »þetta reddist«.

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. mars 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Baráttan skilar sér

Deila grein

30/03/2014

Baráttan skilar sér

elsaNú eru frumvörp ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um skuldaleiðréttingar fyrir heimilin, komin inn í þingið. Það er sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að undanfarin fimm ár hafa þingmenn Framsóknarflokksins barist fyrir því að komið yrði til móts við skuldsett heimili og loksins mun baráttan skila árangri. Vissulega hefði verið betra fyrir alla ef forsendubresturinn hefði verið leiðréttur strax árið 2009 en framsóknarmenn náðu ekki eyrum þáverandi stjórnarflokka í þeim efnum.

Nauðsynlegt er að þetta stóra og mikilvæga verkefni komist hratt í gegnum þingið. Á því eru miklar líkur þar sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa verið duglegir að kalla eftir frumvörpunum undanfarnar vikur, fjallað um mikilvægi þess að stjórnarflokkarnir standi við stóru orðin.

Ríkisstjórnin stendur við orð sín. Verið er að framkvæma leiðréttinguna sem boðuð var í lok nóvember.

Forsendubrestur leiðréttur
Í kynningunni í nóvember var gert ráð fyrir að verðtryggð húsnæðislán yrðu færð niður um fjárhæð sem samsvaraði  verðbótum umfram verðbólgu á tímabilinu desember 2007 – 2010. Við útreikning kom hins vegar í ljós að forsendubresturinn hafði eingöngu áhrif á lán á árunum 2008 og 2009 og því liggur staða verðtryggra lána yfir það tímabil til grundvallar leiðréttingunni.

Umfang skuldaleiðréttingarinnar
Skuldafrumvörpin sem nú eru komin fram eru almenn aðgerð í þágu heimilanna,  en ekki sértæk. Heildarumfang leiðréttingarinnar eru áætlað um 150 milljarðar króna og mun hún ná til um 100 þúsund heimila.

Einfalt
Framkvæmdin verður einföld fyrir almenning þó um stórt og flókið verkefni sé að ræða. Einstaklingar sækja um leiðréttingarnar rafrænt á vef ríkisskattstjóra og verður umsóknartímabilið frá 15. maí – 1. september 2014. Ástæða þess að miðað er við 15. maí er sú að þá á vorþingi að vera lokið og skuldamálin að fullu afgreidd í gegnum þingið.

Ferlið mun ganga hratt fyrir sig og í lang flestum tilvikum ætti að vera hægt að sjá áhrif aðgerðarinnar strax að loknu umsóknarferli í haust.

Höfuðstólslækkun og séreignasparnaður
Frumvörp ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna eru tvö, annars vegar frumvarp um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána og hins vegar frumvarp um séreignasparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

Umsóknarferlinu lýkur 1. september 2014. Eftir að ríkisskattstjóri hefur afgreitt umsóknirnar fara umsækjendur strax að sjá áhrifin. Niðurfelling lánsins í heild mun birtast í heimabanka og á greiðsluseðli þar sem fasteignaláni verður skipt niður í frumlán og leiðréttingarlán. Lántaki greiðir eingöngu af frumláni og leiðréttingarlán verður greitt af ríkissjóði, með bankaskattinum, næstu árin.

Hægt verður að byrja að nýta séreignasparnaðinn í júlí og tryggja sér um leið skattaafslátt ríkisstjórnarinnar. Ekki er um að ræða uppsafnaða inneign því stór hluti fólks nýtti hann eftir hrunið. Heldur er um að ræða séreignarsparnað næstu þriggja ára.

Hér er jafnframt um að ræða nýja hugsun í húsnæðismálum. Þeir sem eru ekki með fasteignalán geta nýtt sér séreignarsparnaðarúrræði til að spara fyrir kaup á íbúðarhúsnæði.

Að lokum
Eins og ég hef alltaf sagt þá er ég ánægð að um sé að ræða almenna aðgerð en ekki sértæka. Ég er ánægð að hún nái til um 100 þúsund heimila sem eru um 80 % heimila í landinu. Hins vegar fer ég ekki í felur með að ég hefði gjarnan viljað sjá þakið hærra til að koma betur til móts við þá sem eru í erfiðri stöðu. Jafnframt horfi ég til þess að þessi aðgerð er eingöngu einn liður af tíu í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna.

Nú þegar er unnið að verðtryggingarmálum inni í ráðuneytum, þar sem horft er bæði til meirihlutaálits og sérálitis. Mikilvægt er að þau mál komi til umræðu í þinginu sem allra fyrst. Að mínu mati er nauðsynlegt að verðtryggingin verði afnumin um leið og aðgerðir í skuldamálum ná fram að ganga.

Það er óhætt að halda því fram að ríkisstjórnin vinni að bættum hag heimila í landinu. Á næstu dögum mun verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála skila af sér vinnu þar sem tekið er á mörgum mikilvægum málum, eins og t.d. lyklafrumvarpinu og úrræðum á almennum og félagslegum leigumarkaði.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á visir.is 28. mars 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.