Categories
Fréttir Greinar

Aldrei aftur

Deila grein

10/05/2025

Aldrei aftur

Ég man svo vel eftir ritgerð sem ég skrifaði sem nemandi í háskólanum um þjóðarmorðin í Rwanda.

Þegar ég fór yfir söguna greiptist hún fast í huga mér. Þar féllu þúsundir Tútsa fyrir framan augu heimsins og enginn svaraði kallinu. Slátrun Tútsa var síðar staðfest sem þjóðarmorð. Í kjölfar þess stigu fjöldi ríkja fram og leiðtogar heimsins kepptust við að segja; aldrei aftur. Aldrei aftur munum við láta söguna þróast með þessum hætti.

Í dag virðist sagan þó endurtaka sig á Gaza. Og aftur horfir heimurinn þögull á hryllingsmynd í beinni.

Í aðdraganda þeirra kosninga sem haldnar á Íslandi á síðasta ári kepptust leiðtogaefni um að fara yfir hvernig þau myndu leggja hönd á plóg kæmust þau til valda. Hvernig þau ætluðum að nýta rödd sína og áhrif sem boðberar friðar, beita sér í samvinnu við Norðurlöndin og svo lengi mætti telja.

Síðan þá hefur afar lítið gerst þó svo að staðan hafi hríðversnað – en frá því í janúar hafa yfir 30 þúsund látið lífið, mest konur og börn.

Það er ekki boðlegt að leiðtogaefni keppist um að stíga fram sem friðardúfur í aðdraganda kosninga og þegi svo þunnu hljóði úr valdastóli. Afboði sig á mikilvægan friðarviðburð í Auschwitz, gefist strax upp á að ná saman með Norðurlöndum um aðgerðir, og tjái sig takmarkað fyrr en allt í einu um Eurovision þegar þátttaka þjóða í keppninni liggur þegar fyrir.

Sameiginleg yfirlýsing ráðherra í vikunni var þó jákvæð ljóstíra úr dimmum dal deyfðar á málinu miðað við yfirlýsingar. Vert er að undirstrika að allir gera sér grein fyrir að staðan er afar flókin og krefst mikillar vandvirkni.

Kæru ráðamenn þjóðar vor; verið sannar í orðum ykkar og gjörðum. Þið eruð fyrirmyndir, ekki síst fyrir unga fólkið okkar um hvað loforð og yfirlýsingar í raun þýða. Þeim fylgir ábyrgð. Nú þarf að rísa undir þeirri ábyrgð.

Hvar standið þið og þjóðin öll þegar nemendur framtíðarinnar rýna í söguna?

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Samvinnuhreyfingin á Íslandi

Deila grein

10/05/2025

Samvinnuhreyfingin á Íslandi

Sam­einuðu þjóðirn­ar hafa helgað þetta ár sam­vinnu­hreyf­ing­um um all­an heim und­ir yf­ir­skrift­inni „Sam­vinna um betri heim“. Þar er horft til já­kvæðra sam­fé­lags­legra áhrifa sam­vinnu­fé­laga og hvernig þau hafa leyst marg­ar áskor­an­ir sam­tím­ans, einkum á sviði efna­hags- og fé­lags­mála.

Sam­vinnu­hreyf­ing­in á Íslandi á ræt­ur að rekja til árs­ins 1882, þegar Kaup­fé­lag Þing­ey­inga var stofnað. Á þess­um tíma höfðu kjör bænda versnað veru­lega, einkum vegna hás vöru­verðs og ein­ok­un­ar kaup­manna. Bænd­ur vildu tryggja sér betri viðskipta­kjör með því að sam­ein­ast um vöru­kaup og sam­eig­in­lega sölu afurða. Stofn­un fé­lags­ins markaði upp­haf nýrr­ar fjölda­hreyf­ing­ar meðal Íslend­inga og inn­an fárra ára­tuga spruttu kaup­fé­lög upp víða um land.

Fyrstu kaup­fé­lög­in voru hluti af þjóðern­is­vakn­ingu og sjálf­stæðis­bar­áttu 19. ald­ar. Fjöldi sam­vinnu­fé­laga var stofnaður, einkum á Norður­landi og Aust­ur­landi. Þar má nefna Kaup­fé­lag Eyf­irðinga (KEA), stofnað 1886, og Kaup­fé­lag Skag­f­irðinga (KS), stofnað 1889, auk fjöl­margra smærri fé­laga um land allt. Áhrif hreyf­ing­ar­inn­ar voru víðtæk og um tíma var þriðjung­ur þjóðar­inn­ar fé­lag­ar í sam­vinnu­fé­lög­um.

Fram­gang­ur sam­vinnu­hreyf­ing­ar­inn­ar skipti sköp­um fyr­ir efna­hags­lega þróun Íslands á 20. öld. Efna­hags­leg framþróun Íslands varð hraðskreiðari og bjó til meiri jöfnuð vegna sam­vinnu­hug­sjón­ar­inn­ar. Sam­vinnu­hreyf­ing­in kom að mörg­um mik­il­væg­um fé­lags­leg­um verk­efn­um, til dæm­is í hús­næðismál­um, þar sem bygg­ing­ar­sam­vinnu­fé­lög reistu fjöl­býl­is­hús víða um þétt­býli. Þannig ruddi hreyf­ing­in braut­ina fyr­ir at­vinnuþróun og innviðaupp­bygg­ingu í fjöl­mörg­um byggðarlög­um, oft í sam­starfi við bænda- og verka­lýðshreyf­ing­ar.

Sam­vinnu­fé­lög eru stofnuð af ein­stak­ling­um til að vinna að sam­eig­in­leg­um hags­mun­um og eru jafn­an rek­in á lýðræðis­leg­um grunni. Hagnaði þeirra er ráðstafað til sam­eig­in­legra sjóða og upp­bygg­ing­ar frem­ur en að vera greidd­ur út sem arður. Meg­in­mark­miðið er að byggja upp nærsam­fé­lagið og veita fé­lags­mönn­um hag­kvæma þjón­ustu. Níu kaup­fé­lög eru starf­andi í dag og eru öll að efla nærsam­fé­lag sitt.

Sam­vinnu­formið á enn fullt er­indi í nú­tíma­legt ís­lenskt rekstr­ar­um­hverfi. Með samþykkt nýrr­ar lög­gjaf­ar á síðasta þingi hef­ur stofn­un sam­vinnu­fé­laga verið ein­földuð; lág­marks­fjöldi stofn­enda var lækkaður úr 15 í 3 aðila. Á sama tíma og gervi­greind mun hafa djúp­stæð áhrif á vinnu­markaðinn gef­ast ný tæki­færi til ný­sköp­un­ar og at­vinnu­upp­bygg­ing­ar með aðstoð sam­vinnu­fé­laga.

Stærstu breyt­ing­ar á vinnu­markaði í ára­tugi eru fram und­an. Ísland býr yfir öll­um for­send­um til að nýta gervi­greind­ina til að auka hag­vöxt og vel­sæld. Til þess þarf sam­vinnu­hug­sjón­ina – nú meira en nokkru sinni fyrr.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. maí 2025.

Categories
Greinar

Tími kominn til að endurmeta þéttingarstefnuna

Deila grein

09/05/2025

Tími kominn til að endurmeta þéttingarstefnuna

Fyr­ir­sögn­in kann að valda óánægju hjá Sam­fylk­ing­ar­fólki en staðreynd­irn­ar tala sínu máli. Þétt­ing byggðar í Reykja­vík gagn­ast borg­ar­bú­um ekki. Síðastliðin 15 ár hef­ur stefna borg­ar­yf­ir­valda verið að þétta byggð til að nýta bet­ur innviði í grón­um hverf­um og til að gera borg­ar­línu mögu­lega. Þetta hef­ur leitt til fjölda vanda­mála sem ekki verður leng­ur horft fram hjá.

Mark­miðið með þétt­ing­unni var að nýta bet­ur þau mann­virki sem þegar eru fyr­ir hendi, allt frá skol­p­lögn­um til skóla og sam­göngu­kerfa, en marg­ir þess­ara innviða eru fyr­ir löngu orðnir úr­elt­ir og sprungn­ir. Dæmi um þetta eru leik- og grunn­skól­ar með myglu­vanda sem þarf að end­ur­byggja frá grunni. Vax­andi um­ferðarteppa á helstu stof­næðum borg­ar­inn­ar á há­anna­tíma er annað aug­ljóst merki um innviðakerfi sem ræður ekki við álagið.

Hús­næðis­kostnaður úr bönd­un­um

Eitt helsta lof­orð þétt­ing­ar­stefn­unn­ar var að hægt yrði að byggja ódýr­ari íbúðir þar sem innviðir væru þegar fyr­ir hendi. Það lof­orð hef­ur ekki staðist. Þvert á móti hef­ur lóðaverð í grón­um hverf­um rokið upp, sem og bygg­ing­ar­kostnaður. Í stærstu þétt­ing­ar­verk­efn­un­um, á borð við Lauga­veg/​Suður­lands­braut og í Voga­hverfi, hef­ur borg­in sjálf keypt lóðir fyr­ir háar fjár­hæðir sem end­ur­spegl­ast í íbúðaverði þar sem fer­metra­verð fer nú yfir eina millj­ón króna.

Þessi þróun kem­ur sér­stak­lega illa niður á ungu fólki sem vill kaupa sitt fyrsta hús­næði og stofna fjöl­skyldu. Leigu­verð hef­ur einnig hækkað mikið og ekki er ósenni­legt að þessi þróun hafi áhrif á fæðing­artíðni í land­inu með al­var­leg­um lang­tíma­af­leiðing­um fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag.

Eins­leit byggð og vannýtt rými

Meiri­hluti nýrra íbúða í þétt­ing­ar­verk­efn­um er í fjöl­býl­is­hús­um, sem leiðir til eins­leitr­ar byggðar. Íbúar kvarta yfir skugga­varpi, skertu út­sýni og tak­mörkuðu aðgengi að græn­um svæðum. Þá standa þjón­ustu- og versl­un­ar­rými oft tóm þar sem ekki er næg­ur fjöldi viðskipta­vina í hverf­un­um né bíla­stæði fyr­ir þá sem búa ekki á staðnum. Hlíðar­enda­hverfið og Snorra­braut­in eru góð dæmi um að hug­mynd­in um „15 mín­útna hverfi“ geng­ur illa upp í raun­veru­leik­an­um.

Tóm versl­un­ar­rými á jarðhæð fjöl­býl­is­húsa eru ekki aðeins sjón­meng­un, held­ur sóun á dýr­mætu rými. Verk­tak­ar neyðast svo til að velta kostnaði þeirra yfir á aðrar íbúðir í hús­inu, sem hækk­ar enn frek­ar fast­eigna­verð.

Sam­göngu­vandi og bíla­stæðaskort­ur

Bíla­stæðum hef­ur verið vís­vit­andi fækkað, þrátt fyr­ir að 70% borg­ar­búa noti einka­bíl til dag­legra ferða. Nýj­ar íbúðir eru hannaðar með færri en einu bíla­stæði á íbúð sem kem­ur illa við fjöl­skyld­ur og eldri borg­ara sem geta ekki nýtt strætó. Hér er lík­lega kom­in ein af ástæðunum fyr­ir því hvers vegna nýj­ar íbúðir á þétt­ing­ar­reit­um selj­ast illa, eins og komið hef­ur fram í fjöl­miðlum. Á sama tíma hafa stór sam­göngu­verk­efni taf­ist um ár­araðir. Sunda­braut, Miklu­braut­ar­stokk­ur og aðrir nauðsyn­leg­ir innviðir sitja á hak­an­um á meðan fjár­mun­um er varið í dýr­ar hug­mynd­ir eins og borg­ar­línu og göngu­brýr sem eru ólík­lega að fara að leysa um­ferðar­vand­ann. Al­menn­ings­sam­göng­ur eru mik­il­væg­ar til að tryggja val­frelsi fólks til að velja þann sam­göngu­máta sem það kýs og létta á um­ferð en það má ekki setja fókus­inn á upp­bygg­ingu al­menn­ings­sam­gangna á kostnað þess að leysa um­ferðar­vanda borg­ar­inn­ar. Reykja­vík er strjál­býl borg á alþjóðavísu en hér er verið að reyna að inn­leiða dýr­ar sam­göngu­lausn­ir eins og gert er í er­lend­um stór­borg­um sem eru byggðar þétt vegna nauðsynj­ar en ekki vegna mis­ráðinn­ar stefnu.

Óánægja íbúa og val­frelsi

Þétt­ing­ar­stefn­an er núna byrjuð að teygja sig aust­ar í borg­ina á svæði þar sem borg­ar­bú­ar leituðu í til að fá að vera nær nátt­úr­unni og fá meira rými. Verið er að reyna að inn­leiða þétt­ing­ar­stefn­una í Grafar­vogi í óþökk íbúa auk þess sem uppi eru þétt­ingaráform í Breiðholti sem eru byrjuð að valda ugg hjá íbú­um. Fólkið sem býr þarna flutt­ist í út­hverfi til að fá rými og frið. Það á því ekki að koma á óvart að óánægja íbúa skuli fyr­ir­finn­ast. Þetta sýn­ir hversu mik­il­vægt það er að hlusta á íbúa og við í Fram­sókn ber­um einnig ábyrgð á að það hef­ur ekki alltaf tek­ist nógu vel.

Tími til að staldra við

Of­uráhersla á að þétta byggð hef­ur leitt til ósjálf­bærs hús­næðis­kostnaðar, slakr­ar nýt­ing­ar á rými, van­fjár­magnaðra innviða, meiri um­ferðar­vanda og vax­andi óánægju borg­ar­búa. Það vilja ekki all­ir búa í blokk­um í þéttri byggð og það ber að virða það sjón­ar­mið.

Eft­ir tæp­lega þriggja ára setu í um­hverf­is- og skipu­lags­ráði sé ég æ bet­ur að stefna borg­ar­inn­ar varðandi þétt­ingu þarfn­ast end­ur­mats. Það þarf að draga úr þétt­ingaráform­um í grón­um hverf­um og hlusta bet­ur á ósk­ir borg­ar­búa. Við þurf­um að fjár­festa meira í sam­göngu­innviðum eins og Sunda­braut sem mun leiða til þess að hægt verður að brjóta nýtt bygg­ing­ar­land og reisa íbúðir sem fólk hef­ur efni á, í hverf­um þar sem fólk vill búa, með fjöl­breyti­leika og val­frelsi að leiðarljósi.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, borg­ar­full­trúi Fram­sókn­ar og sit­ur í um­hverf­is- og skipu­lags­ráði Reykja­vík­ur­borg­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. maí 2025.

Categories
Greinar

Stækkun og endurbætur á félagsaðstöðu eldri borgara í Víðilundi

Deila grein

08/05/2025

Stækkun og endurbætur á félagsaðstöðu eldri borgara í Víðilundi

„Aldur er bara tala“ – ætti sannarlega að vera viðhorf hverrar manneskju í dag, enda viljum við búa þannig um hnútana að allir geti verið virkir og hraustir í sínu lífi, eins og framast er unnt. Aftur á móti, þegar kemur að ýmsum lykilþáttum í uppbyggingu samfélagsins, þá á sama viðhorf kannski ekki alveg við. Jú, aldur er ekkert annað en tala (sem breytist einu sinni á ári, og ekkert við það að athuga), en hópur eldri borgara á Akureyri er hins vegar ört stækkandi og það er tölfræði sem má ekki hundsa!

Með fjölguninni fylgja bæði áskoranir og tækifæri til að skapa betri lífsgæði fyrir alla sem vilja njóta lífsins við góða heilsu fram á efri ár. Þess vegna lögðum við áherslu á það, fyrir síðustu kosningar, að efla félagsmiðstöðvar eldri borgara og stækka þjónustukjarnana. Til að fylgja þessum áherslum eftir þá lögðum við fram tillögu, við upphaf kjörtímabilsins, um stækkun á samkomusalnum í félagsmiðstöðinni Birtu. Tillögunni var því miður hafnað. Meirihluti bæjarstjórnar hefur í staðinn boðið eldri borgurum að nýta sal Naustaskóla. Þetta getur verið ágætis lausn í einhverjum tilvikum en samrýmist hins vegar illa því starfi sem er unnið þar á dagvinnutíma.

Löngu tímabærar endurbætur

Félag eldri borgara (EBAK) hefur verið ötult við að minna á sig og minna á þörfina fyrir bætta aðstöðu. Ef ekki gengur að stækka samkomusalinn í Birtu, þá er tími til kominn að skoða aðra möguleika í stöðunni og vinna slíkt hratt og örugglega. Annar kostur er að horfa til aðstöðunnar í félagsmiðstöðinni Sölku í Víðilundi. Þar hefur lengi verið ákall um að bæta vinnurýmin í kjöllurum húsanna og um leið bæta aðgengis- og öryggismál. Til að bregðast við þessu ákalli, þá munum við leggja það til á næsta bæjarstjórnarfundi að stofnaður verði vinnuhópur, með öllum hlutaðeigendum, um bætta félagsaðstöðu í Víðilundi.

Eitt af meginverkefnum hópsins verður að framkvæma forathugun á aðstöðunni, eins og hún er í dag, og skoða lausnir sem tengja saman í einni framkvæmd; stækkun á matsal, endurbætur á félags- og vinnuaðstöðu í kjöllurum, og betri útiaðstöðu með öruggu aðgengi. Í þessari vinnu mætti t.d. meta hversu hagkvæmt það sé að reisa nýja viðbyggingu út frá matsalnum, sem tengir þá um leið kjallara húsanna (en þeir eru aðskildir í dag). Í slíkri framkvæmd mætti koma fyrir sameiginlegri lyftu, og hugsanlega grafa kjallarana upp að hluta og tengja þannig félagsaðstöðuna við útisvæðið.

Allt eru þetta auðvitað útfærsluatriði sem þyrfti að vinna í nánu samstarfi við húsfélögin í Víðilundi og EBAK.

Maður er manns gaman

Ljóst er að þörfin fyrir öfluga og aðgengilega félagsaðstöðu fyrir eldri borgara á Akureyri mun bara halda áfram að aukast. Félögum í EBAK hefur fjölgað um 40% á síðustu þremur árum (eru nú um 2800 talsins) og samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar mun fólki 60 ára og eldri fjölga um 37% á næstu 20 árum á Akureyri.

Þessi þróun kallar sannarlega á framsýna og markvissa stefnumótun af hálfu sveitarfélagsins þegar kemur að uppbyggingu félagsaðstöðu – og að orðum fylgi gjörðir.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 8. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Laxeldi og auðlindir – tryggjum íslensk yfirráð

Deila grein

08/05/2025

Laxeldi og auðlindir – tryggjum íslensk yfirráð

Lax­eldi í sjó hef­ur á und­an­förn­um árum vaxið hraðar en flest­ar aðrar at­vinnu­grein­ar á Íslandi. Þessi ört stækk­andi at­vinnu­grein nýt­ir stór­brotn­ar auðlind­ir okk­ar; hafsvæðið, hreina orku, vatnið og landið sjálft. Í ljósi þess að áður­nefnd­ar auðlind­ir eru tak­markaðar er mik­il­vægt að horfa til framtíðar með lang­tíma­hags­muni þjóðar­inn­ar að leiðarljósi þegar kem­ur að eign­ar­haldi og stjórn þessa geira.

Í dag er staðan sú að stór hluti fyr­ir­tækja í sjókvía­eldi við Íslands­strend­ur er í eigu er­lendra aðila, einkum frá Nor­egi. Er­lend fjár­fest­ing er mik­il­væg ís­lensku sam­fé­lagi, en það má ekki gleym­ast að yf­ir­ráð yfir auðlind­um og lyk­il­innviðum eiga að vera í hönd­um þjóðar­inn­ar sjálfr­ar.

Því er skrefið sem lagt er til í þings­álykt­un­ar­til­lögu, sem ég hef lagt fram á Alþingi ásamt þing­flokki Fram­sókn­ar, um að tak­marka eign­ar­hald er­lendra aðila í sjókvía­eldi við 25% afar mik­il­vægt. Ég vona að aðrir flokk­ar muni styðja við fram­gang þessa mik­il­væga máls á þingi. Þetta mál er í sam­ræmi við aðrar áhersl­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins um að tryggja inn­lent eign­ar­hald á bújörðum og for­gang al­menn­ings að raf­orku, og eru þetta þing­mál sem Fram­sókn hef­ur lagt fram á þessu lög­gjaf­arþingi. Mark­miðið er að tryggja yf­ir­ráð þjóðar­inn­ar yfir lyk­i­lauðlind­um sín­um. Með því styrkj­um við sjálfs­for­ræði Íslend­inga yfir at­vinnu­starf­semi sem bygg­ir á þjóðarauði, rétt eins og gert hef­ur verið í sjáv­ar­út­vegi um ára­bil. Við tryggj­um að ábat­inn verði nýtt­ur inn­an­lands til að efla byggðir, stuðla að ný­sköp­un, standa und­ir vax­andi kröf­um um sjálf­bærni og verja nátt­úru lands­ins.

Lög­gjöf í anda þess­ar­ar til­lögu er ekk­ert eins­dæmi. Í Fær­eyj­um hafa sam­bæri­leg­ar regl­ur tryggt að arður­inn af lax­eldi nýt­ist fær­eysku sam­fé­lagi, og reynsl­an þaðan sýn­ir að sjálf­stæð eign­arstaða styrk­ir bæði at­vinnu­grein­ina og sam­fé­lagið sem styður við hana.

Með skýr­um regl­um um eign­ar­hald í lax­eldi tryggj­um við að auðlind­ir okk­ar verði áfram und­ir okk­ar stjórn, að ís­lenskt sam­fé­lag njóti ávinn­ings­ins og að við byggj­um und­ir framtíðar­vel­ferð í sátt við nátt­úr­una. Það er lyk­il­atriði fyr­ir sjálf­stæði okk­ar sem þjóðar og fyr­ir heill næstu kyn­slóða.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Eigum afganginn

Deila grein

08/05/2025

Eigum afganginn

Það eru góðar frétt­ir fyr­ir borg­ar­búa að á síðasta ári hafi tek­ist að snúa við halla­rekstri borg­ar­inn­ar. Við í Fram­sókn erum ánægð með að áhersl­ur okk­ar um ráðdeild í rekstri hafi skilað þess­um ár­angri.

Árs­reikn­ing­ur árs­ins 2024, sem birt­ur var í borg­ar­stjórn á þriðju­dag, sýn­ir að með kröft­ugu aðhaldi og út­sjón­ar­semi í rekstri tókst að snúa um 5 millj­arða halla frá ár­inu 2023 í tæp­lega 5 millj­arða af­gang á A-hluta. Sam­stæðan, þar sem fyr­ir­tæki borg­ar­inn­ar eru meðtal­in, skil­ar 10,7 millj­örðum í af­gang og er það 14,2 millj­örðum betri niðurstaða en árið áður. Skuldaviðmið lækk­ar og veltu­fé frá rekstri eykst.

Þegar kjör­tíma­bilið hófst var halli borg­ar­sjóðs 16,3 millj­arðar. Það hef­ur því verið stór áskor­un þessa kjör­tíma­bils að hagræða í rekstr­in­um en um leið að bæta og efla mik­il­væga þjón­ustu við borg­ar­búa. Við í Fram­sókn lít­um svo á að for­senda þess að geta bætt þjón­ustu við íbúa sé að reka borg­ina með ábyrg­um hætti.

Við tók­um í taum­ana

Í valdatíð Sam­fylk­ing­ar, VG, Pírata og Viðreisn­ar á síðasta kjör­tíma­bili fjölgaði stöðugild­um hjá borg­inni mjög mikið. Það hef­ur eðli máls sam­kvæmt af­drifa­rík áhrif á rekst­ur borg­ar­inn­ar enda er stærst­ur hluti út­gjalda borg­ar­inn­ar laun til starfs­manna. Þessi vöxt­ur í fjölda stöðugilda var stöðvaður á síðasta ári með beit­ingu ráðning­ar­reglna og betri yf­ir­sýn yfir mönn­un. Í fyrra bætt­ist aðeins við 31 stöðugildi á þess­um stærsta vinnustað lands­ins þar sem fyr­ir eru um 8.600 stöðugildi.

Fyr­ir síðustu kosn­ing­ar lofuðum við í Fram­sókn borg­ar­bú­um að við mynd­um taka í horn­in á ósjálf­bær­um rekstri borg­ar­inn­ar. Það er gott að hafa getað staðið við lof­orðið og leyft töl­un­um að tala sínu máli. Á sama tíma og við höf­um verið í því að hagræða höf­um við for­gangsraðað fjár­fest­ing­um í þágu leik- og grunn­skóla­mála og innviðum fyr­ir hús­næðis­upp­bygg­ingu.

Nú er ár til kosn­inga og tek­inn er við nýr meiri­hluti Sam­fylk­ing­ar og Sósí­al­ista, Pírata, VG og Flokks fólks­ins. Þessi meiri­hluti er skipaður flokk­um sem fá fleiri út­gjalda­hug­mynd­ir en hug­mynd­ir að hagræðingu. Ég hef því mikl­ar áhyggj­ur af því hvað verður um af­gang­inn frá síðasta ári.

Eyðum ekki um efni fram

Það verður að halda áfram á sömu braut. Ekk­ert stjórn­kerfi er meitlað í stein og við verðum ávallt að vera til­bú­in að gera breyt­ing­ar. Við í Fram­sókn vild­um gera nokkuð rót­tæk­ar skipu­lags­breyt­ing­ar sem leitt hefðu til bæði bættr­ar þjón­ustu og hag­kvæm­ari rekstr­ar. Nú­ver­andi borg­ar­stjóri Sam­fylk­ing­ar­inn­ar lagðist gegn þeim hug­mynd­um og því náði málið ekki lengra inn­an síðasta meiri­hluta.

Það var rétt af Fram­sókn að sprengja meiri­hlut­ann og freista þess að mynda nýtt sam­starf með flokk­um sem voru til­bún­ir til að taka nauðsyn­leg­ar ákv­arðanir í rekstr­ar­mál­um, skipu­lags- og hús­næðismál­um og horfa til lengri framtíðar í borg­ar­mál­um. Við í Fram­sókn höf­um efnt lof­orð okk­ar til borg­ar­búa um breyt­ing­ar í fjár­mál­um borg­ar­inn­ar en verk­efn­inu er ekki lokið. Trúnaður okk­ar við kjós­end­ur skipt­ir öllu máli og við erum til­bú­in að leggja allt und­ir til þess að efna orð okk­ar gagn­vart þeim.

Enn eru mik­il­væg verk­efni sem verður að leysa og það ger­um við ekki án fjár­hags­legs svig­rúms. Það þarf að fjár­festa í skóla­kerf­inu svo börn­in okk­ar fái betri mennt­un og kenn­ar­ar búi við betri starfsaðstæður til að sinna starfi sínu.

Við þurf­um að eiga fyr­ir fjár­fest­ing­um í innviðum fyr­ir ný íbúðahverfi og brýnt er að létta und­ir með heim­il­um og fyr­ir­tækj­um með því að lækka fast­eigna­gjöld. Við þurf­um að halda áfram að bæta rekst­ur­inn til þess að geta búið þannig um sam­fé­lag eldra fólks að það lifi ham­ingju­sömu og heil­brigðu lífi og til að geta stutt við fé­lags­starf sem dreg­ur úr ein­mana­leika.

Það er skylda okk­ar að mæta bet­ur vænt­ing­um fólks um borg þar sem ein­falt og gott er að búa. Við í Fram­sókn höf­um sýnt að við kunn­um að taka á mál­um, snúa tapi í hagnað, án þess að skerða mik­il­væga þjón­ustu. Nú þjón­um við borg­ar­bú­um úr stöðu stjórn­ar­and­stöðu og hlökk­um til næstu kosn­inga.

Einar Þorsteinsson, odd­viti Fram­sókn­ar­manna í borg­ar­stjórn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Líflínan

Deila grein

07/05/2025

Líflínan

Í þessari viku legg ég fram þingsályktunartillögu sem snýr að því að tryggja áframhaldandi starfsemi Janusar endurhæfingar eða tryggja sambærilega geðendurhæfingu fyrir ungmenni með fjölþættan vanda.

Markmið tillögunnar er skýrt: Að tryggja að einn viðkvæmasti hópur samfélagsins — ungt jaðarsett fólk með fjölþætt geðræn vandamál og félagslegan vanda — fái áfram þá þjónustu sem reynst hefur vel, meðan unnið er að heildstæðri framtíðarsýn um fyrirkomulag þjónustu við þennan viðkvæma hóp.

Janus endurhæfing hefur starfað í rúm 26 ár og veitt samþætta, einstaklingsmiðaða þjónustu sem sameinar heilbrigðis-, mennta- og velferðarsvið í þágu einstaklingsins. Þeir sem þekkja starfsemina best — fagfólk, notendur og aðstandendur — hafa lýst þeirri miklu óvissu og ógn sem steðjar að nú þegar ekki liggja fyrir neinar skýrar tillögur eða hugmyndir um hvað taki við. Yfir 3.000 manns hafa lýst yfir stuðningi við áframhaldandi starfsemi, sem og fjölmörg fagfélög og sérfræðingar. Leitun er að þeim sem geta útskýrt hvers vegna leggja eigi starfsemina niður.

Að standa við gefin loforð

Ríkisstjórnin hefur ítrekað lagt áherslu á að efla geðheilbrigðisþjónustu og tryggja jafnt aðgengi að úrræðum — sérstaklega fyrir ungt fólk í viðkvæmri stöðu. Þessi þingsályktun er í fullu samræmi við þær áherslur og býður upp á raunhæfar aðgerðir sem hægt er að hrinda í framkvæmd án tafar: bráðabirgðasamning við Janus endurhæfingu, virkt samráð við fag- og notendahópa, og að unnið sé markvisst að heildstæðri framtíðarsýn.

Það er ósk mín að tillagan verði grunnur fyrir ríkisstjórnina til að sýna pólitískan vilja, hugrekki og ábyrgð. Það verður því áhugavert að sjá hversu margir þingmenn stjórnarflokkanna standa með tillögunni — en þegar þessi grein er rituð hef ég fengið fjölmarga tölvupósta með staðfestingu um stuðning þingmanna stjórnarandstöðuflokka. Á sama tíma hafa engin viðbrögð borist frá stjórnarþingmönnum. Ekki einum.

Þetta mikilvæga málefni á ekki að snúast um pólitík eða hvort við styðjum einkarekstur í heilbrigðiskerfinu eður ei. Þetta snýst um viðkvæma einstaklinga sem þurfa á þjónustu á borð við Janus endurhæfingu að halda. Þetta er líflínan þeirra!

Við getum valið að grípa inn í

Aðgerðarleysi í þessu máli er aðgerð í sjálfu sér — og slík aðgerð bitnar á fólki sem getur engan veginn brugðist við. Með þessari tillögu vil ég leggja mitt af mörkum til að skapa brú yfir það óhuggulega bil sem nú blasir við og hefja vinnu að nýrri lausn sem nýtur trausts notenda, fagfólks og samfélagsins alls.

Ungt fólk með fjölþættan vanda á ekki að falla á milli kerfa. Það er okkar að grípa það og útvega þjónustuúrræði við hæfi.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Betri nýting á tíma og fjár­munum Reykja­víkur­borgar 3/3

Deila grein

06/05/2025

Betri nýting á tíma og fjár­munum Reykja­víkur­borgar 3/3

Ábyrgur og sjálfbær rekstur Reykjavíkurborgar er grundvöllur þess að hægt sé að þjónusta borgarbúa með þeim hætti sem þeir eiga skilið. Borgarfulltrúar Framsóknar hafa beitt sér fyrir aukinni hagræðingu og umbótum í rekstri borgarinnar, forgangsröðun verkefna og betri þjónustu í þágu borgarbúa. Á þeim tíma sem við í Framsókn stýrðum borginni náðist, með samstilltum og skýrum aðgerðum, að snúa rekstri A-hluta borgarsjóðs úr 15,6 milljarða halla í 4,7 milljarða afgang árið 2024.

Það er mikið fagnaðarefni að sjá árangur í rekstri borgarinnar en ljóst er að meira þarf að koma til svo hægt sé mæta auknum útgjöldum og greiða niður skuldir borgarinnar. Áætlaðar skuldir og skuldbindingar samstæðu borgarinnar árið 2025 nema um 558 milljarða króna. Það er upphæð sem flestir myndu telja óásættanlega háa. Áætlanir gera ráð fyrir að skuldahlutfall borgarinnar fari lækkandi og brýnt er að það gangi eftir.

Ég hef því tekið saman 27 tillögur, stórar sem smáar, sem miða að betri nýtingu tíma og fjármuna í rekstri Reykjavíkurborgar. Tillögunum er skipt í 3 þemu; samvinnu og skipulag, aukið aðhald og forgangsröðun verkefna og að lokum umbætur í þjónustu. Þær snúa meðal annars að skipulagsbreytingum, endurskoðun á verkefnum, auknu samstarfi milli eininga, fækkun stöðugilda, frestun og fækkun verkefna, hagkvæmari innkaupum og útvistun verkefna, bættu skipulagi og eftirliti með framkvæmdum og viðhaldi, auknu aðhaldi í rekstri og skilvirkari verkferlum. Tillögunum var skilað inn á samráðsvef borgarinnar 30. apríl s.l.

Hér birtist þriðji og síðastihluti tillögupakkans sem snýr að umbótum í þjónustu Reykjavíkurborgar. Tillögunum er ekki raðað eftir mikilvægi, enda er markmiðið að skoða allar leiðir sem geta leitt til hagræðingar í rekstri borgarinnar – í því samhengi skiptir máli að velta hverjum steini við.

ÞEMA 3: UMBÆTUR Í ÞJÓNUSTU

Tillaga 21 – Endurnýta og deila efni í leik- og grunnskólum og frístundastarfi

Mikill tími starfsfólks fer í það að búa til efni til kennslu og frístundaiðkunar. Með því að búa til gagnagrunn í skýinu fyrir efni frá öllum skólum og frístundamiðstöðvum borgarinnar er hægt að nýta efnið þvert á borgina og draga úr undirbúningstíma sem fer í það að búa til efni til kennslu og frístundaiðkunnar. Með þessu skapast einnig tækifæri til að nýta betur góðar hugmyndir í skóla og frístundastarfi og þar með auka gæði skóla- og frístundastarfs.

Tillaga 22 – Stafvæða og einfalda ferla

Með því að einfalda og stafvæða fleiri umsóknar- og þjónustuferla innan borgarkerfisins má fækka handtökum starfsfólks, bæta þjónustu og auka skilvirkni. Sem og að auka hraða og gagnsæi í afgreiðslu umsókna, draga úr pappírsnotkun og einfalda innri verkferla, minnka álag og bæta nýtingu á tíma starfsfólks og þjónustuupplifun íbúa.

Tillaga 23 – Setja aukinn kraft í innleiðingu á velferðartækni

Setja aukinn kraft í innleiðingu á velferðartækni, þ.e. tækni sem er notuð til þess að viðhalda eða auka öryggi, virkni eða sjálfstæði fólks í daglegu lífi. Með markvissri innleiðingu má auka skilvirkni, eftirlit og gæði þjónustu, stuðla að betri nýtingu á tíma starfsfólks og fjölga þeim sem fá þjónustu velferðarsviðs.

Tillaga 24 – Sveigjanleg mönnun í leikskólum

Ráða starfsfólk sem er ekki bundið einum leikskóla heldur starfar þvert á skólahverfi og róterar eftir mönnunarþörf hverju sinni. Með því má hugsanlega spara tíma starfsfólks á afleysingarstofu, auka sveigjanleika, draga úr tímabundnum lokunum vegna manneklu og bæta fyrirsjáanleika í rekstri leikskóla.

Tillaga 25 – Hlutirnir hugsaðir til enda – uppbygging og endurbætur

Við uppbyggingu og endurbætur á húsnæði verði hlutirnir hugsaðir til enda frá upphafi t.a.m. þegar kemur að algildri hönnun, lýsingu, loftræstingu og hljóðvist. Með því sparast að tvítaka þurfi vinnu og þannig er dregið úr kostnaði. Áður en útboð á sér stað fylgi greining frá aðgengisfulltrúa borgarinnar til að tryggja að horft sé til aðgengis áður en verkið hefst.

Tillaga 26 – Markviss innleiðing gervigreindar

Innleiða gervigreindarlausnir í starfsemi Reykjavíkurborgar með það að markmiði að auka skilvirkni, bæta þjónustuupplifun og styðja við hraðari og nákvæmari gagnavinnslu og greiningar. Með slíkri innleiðingu má einnig draga úr álagi á starfsfólk og skapa ný tækifæri til nýsköpunar í opinberri þjónustu.

Tillaga 27 – Nýta mannauð borgarinnar betur

Nýta menntun og reynslu starfsfólks betur í starfi borgarinnar í stað þess að ráða inn nýtt starfsfólk eða kaupa aðkeypta þjónustu til að sinna einstökum verkefnum. Aðstoða starfsfólk við að fá viðurkennt nám erlendis frá.

Hluti 1/3 má lesa hér

Hluti 2/3 má lesa hér

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Samvinnuhreyfingin á alþjóðavísu

Deila grein

05/05/2025

Samvinnuhreyfingin á alþjóðavísu

Árið 2025 hjá Sam­einuðu þjóðunum er til­einkað sam­vinnu­hreyf­ing­um um heim all­an und­ir yf­ir­skrift­inni: „Sam­vinna um betri heim“. Lögð er áhersla á já­kvæð áhrif sam­vinnu­fé­laga og hvernig þeim hef­ur tek­ist að koma lausn­ir á mörg­um áskor­un­um sam­tím­ans.

Sam­vinnu­hreyf­ing­in á ræt­ur sín­ar að rekja til þess upp­róts sem kom í kjöl­far iðnbylt­ing­ar­inn­ar. Mestu efna­hags­legu fram­far­ir hag­sög­unn­ar eiga upp­runa sinn að rekja til iðnbylt­ing­ar­inn­ar en þar fer hag­vöxt­ur sam­fé­laga fyrst af stað. Hins veg­ar voru vinnuaðstæður og kjör verka­fólks­ins oft afar bág­bor­in og sem svar við þessu ástandi tók fólk sig sam­an og stofnaði sam­vinnu­fé­lög, þ.e. fyr­ir­tæki í eigu og und­ir stjórn fé­lag­anna, sem tóku ákv­arðanir og deildu jafnt arði fé­lags­ins. Fæðing­arstaður sam­vinnu­hreyf­ing­ar­inn­ar er í Rochdale á Eng­land en árið 1844 stofnaði hóp­ur 28 vefara og hand­verks­manna versl­un sem seldi gæðavör­ur á sann­gjörnu verði. Í Frakklandi boðaði Char­les Fourier sam­fé­lags­lega sam­hjálp og sam­vinnu. Í Þýskalandi störfuðu Friedrich Raif­feisen og Her­mann Schulze-Delitzsch að stofn­un lána­sam­vinnu­fé­laga til stuðnings bænd­um og hand­verks­mönn­um. Í Banda­ríkj­un­um voru sett á lagg­irn­ar sam­vinnu­fé­lög í tengsl­um við land­búnað, þar sem bænd­ur tóku sig sam­an til að fá betra verð á vör­um sín­um og samn­inga um inn­kaup og dreif­ingu. Sam­vinnu­hreyf­ing­in á Íslandi á ræt­ur sín­ar að rekja til árs­ins 1882, þegar stofnað var Kaup­fé­lag Þing­ey­inga. Kjör bænda höfðu farið versn­andi, og ein­kennd­ust af háu vöru­verði og ein­ok­un kaup­manna. Sam­vinnu­hreyf­ing­in á Íslandi hef­ur verið veiga­mik­ill þátt­ur í at­vinnu- og fé­lags­mál­um þjóðar­inn­ar í yfir eina og hálfa öld. Níu kaup­fé­lög eru starf­rækt á Íslandi í dag.

Um 3 millj­ón­ir sam­vinnu­fé­laga eru starf­andi í heim­in­um í dag. Allt frá stór­fyr­ir­tækj­um í vel­ferðarsam­fé­lög­um til sam­yrkju­fé­laga í fá­tæk­um lönd­um. Fé­lags­menn eru um 1,2 millj­arðar og starfs­fólk er um 280 millj­ón­ir. Til hins fé­lags­lega hag­kerf­is telj­ast svo marg­vís­leg önn­ur fé­lags­drif­in fyr­ir­tæki og óhagnaðardrif­in fé­lög sem sam­an­lagt eru veru­leg­ur hluti af efna­hags­um­svif­um heims­ins.

Sam­vinnu­formið má nýta mun bet­ur. Á síðasta þing­vetri var samþykkt lög­gjöf um sam­vinnu­fé­lög. Þetta er fyrsta heild­ar­end­ur­skoðunin á lög­un­um í ára­tugi. Ein veiga­mesta breyt­ing­in var að auðvelda stofn­un sam­vinnu­fé­lags. Lág­marks­fjöldi stofn­enda var lækkaður í þrjá úr 15. Þessi breyt­ing end­ur­spegl­ar að sum verk­efni nú­tím­ans geta haf­ist með fá­menn­um hópi sem þó hef­ur þörf fyr­ir sam­vinnu­formið. Ég hvet lands­menn til að kynna sér sam­vinnu­hreyf­ing­una bet­ur á ári henn­ar hjá Sam­einuðu þjóðunum og hvaða tæki­færi fel­ast í henni. Sam­einuðu þjóðirn­ar leggja mikið upp úr getu sam­vinnu­fé­laga til að stuðla að vel­sæld sem flestra í sam­fé­lag­inu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Nýjar rætur – framtíð íslenskrar matvælaframleiðslu byrjar hér

Deila grein

03/05/2025

Nýjar rætur – framtíð íslenskrar matvælaframleiðslu byrjar hér

Ísland geymir ríkulegar náttúruauðlindir og landið er stórt. Umfram allt eigum við kraftmikla og unga, skapandi kynslóð sem vill leggja sitt af mörkum.

En sú spurning vaknar æ oftar: hverjir fá raunverulega tækifæri til að nýta landið okkar og byggja upp verðmæti fyrir framtíðina? Þingsályktunartillagan „Nýjar rætur“ leggur fram nýja sýn – og nýtt tæki – til að gefa ungu fólki á landsbyggðinni raunhæfan möguleika til að hefja sjálfbæra matvælaframleiðslu, fóðurframleiðslu eða skógrækt.

Kaupréttur sem opnar dyr

„Nýjar rætur“ snýst um að styðja við ungt fólk – yngra en 45 ára – sem hefur hug og metnað til að kaupa jörð og hefja starfsemi og framleiðslu. Hugmyndin er þessi: Ef ungt athafnafólk fær samþykkt kauptilboð í tiltekna jörð, getur ríkissjóður í gegnum Byggðastofnun gengið inn í kaupin, orðið tímabundinn eigandi jarðarinnar, og jafnframt gert leigusamning við nýliðann með kauprétti að fimm árum liðnum. Á þeim tíma fær viðkomandi tækifæri til að þróa rekstur, afla sér reynslu og fjárhagslegs bolmagns til að nýta kaupréttinn.

Viðbragð við markaðsbresti

Fyrirkomulagið er svarið við augljósum markaðsbresti – of fáir ungir einstaklingar hafa ráð á að kaupa land eða jörð í rekstri, þrátt fyrir að þar sé forsenda matvælaframleiðslu, skógræktar og sjálfbærrar byggðarþróunar. Tillagan snýst ekki um niðurgreiðslur heldur raunverulegt svigrúm til að hefja starfsemi með ábyrgum hætti.

Verndun lands og auðlinda

Tillagan fellur að stefnu Framsóknarflokksins um skýrt eignarhald og ábyrga nýtingu náttúruauðlinda. Íslenskar jarðir geyma vatnsréttindi, jarðhita og aðgang að verðmætum vistkerfum. Með „Nýjum rótum“ er stigið mikilvægt skref til að tryggja að þessi verðmæti sem jarðir eru nýtist samfélaginu en þróist ekki í eyðijarðir, eyðidali eða verði að sumarleyfissvæðum fyrir erlenda auðmenn.

Samstaða

Hugmyndin hefur vakið jákvæð viðbrögð úr breiðum hópi þvert á flokka. Hún snýst ekki einungis um landbúnað, heldur sameinar skógrækt, landgræðslu, nýsköpun og ábyrga samfélagslega uppbyggingu. „Nýjar rætur“ gætu orðið lykilþáttur í heildstæðri sýn fyrir vistvæna uppbyggingu í dreifðum byggðum.

Ræktum saman framtíðina

Það sem skiptir mestu máli er að fólk með vilja og hæfileika fái raunverulegt tækifæri til þátttöku í verðmætasköpun og þróun byggða. Þetta verkefni getur verið leiðarljós nýrrar nálgunar á nýliðun og sjálfbærni. Við getum – með ábyrgri stefnu og markvissri framkvæmd – ræktað nýjar rætur sem verða til hagsbóta fyrir samfélagið allt.

Hóflegt umfang, en mikil áhrif

Að lokum er rétt að hafa í huga að hér er einungis um eitt skref að ræða í átt að aukinni verðmætasköpun. Gert er ráð fyrir að ekki fleiri en 5–20 jarðir verði teknar inn í verkefnið árlega. Það sýnir að þetta er hófstillt í umfangi, en metnaðarfullt í tilgangi – og getur reynst dýrmæt tilraun sem leiðir af sér frekari lausnir til framtíðar.

Fleiri hugmyndir Framsóknar verða kynntar á komandi mánuðum.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 1. maí 2025.