Categories
Fréttir Greinar

Nýsköpunarátak fyrir fram­tíð Ís­lands

Deila grein

08/12/2025

Nýsköpunarátak fyrir fram­tíð Ís­lands

Íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir vaxandi áskorunum. Hagvöxtur er að minnka og óvissa eykst á meðan álögur á atvinnulífið aukast stöðugt í formi hærri vörugjalda, veiðigjalds og annarra íþyngjandi þátta. Þó slíkar álögur kunni að vera réttlætanlegar út frá tilteknum sjónarhornum, skapa þær skilyrði sem hamlar verðmætasköpun og dregur úr samkeppnishæfni.

Hvað getum við gert?

Leiðin út úr efnahagslegum áskorunum felst í vexti sem byggir á nýsköpun, aukinni framleiðni og tæknilausnum. Við getum ekki lengur treyst á gamlar leiðir eða heppni. Við verðum að byggja upp nýjar tekjuöflunarleiðir og styrkja undirstöður hagkerfisins, samhliða því að styrkja innviði samfélagsins.

Nýsköpun sem grunnur velgengni

Málefni nýsköpunar og þekkingargreina standa nú frammi fyrir byltingu gervigreindar og stafrænna lausna. Ísland þarf því nauðsynlega heildstæðari stefnu um áherslur í nýsköpun þvert á atvinnugreinar svo við stöndum jafnfætis fremstu nýsköpunarríkjum heims. Þetta er undirstaða samkeppnishæfni okkar, lífskjara og byggðaþróunar til framtíðar.

Vistkerfi nýsköpunar

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er nú til umræðu á Alþingi. Í því samhengi höfum við í Framsókn lagt til ýmsar hugmyndir til að styrkja innviði samfélagsins, ekki síst á sviði nýsköpunar.

Þannig leggur Framsókn til að þróað verði vistkerfi nýsköpunar. Slíkt vistkerfi felst í lifandi neti og samspili háskóla, fyrirtækja, fjárfesta, hins opinbera, innviða og hvata (með lögum) sem vinnur saman að því að breyta hugmyndum í verðmæti fyrir atvinnulíf, samfélag og byggðir um allt land. Slíkt net kallar á heildarhugsun og samvinnu þvert á fyrirtæki og stofnanir.

Stóra málið

Eins og flestir þekkja til er gervigreind að gjörbreyta öllum framleiðsluháttum, samskiptum og innviðum samfélaga. Tryggja þarf að ný tækni styðji við aukna velmegun og samfélagslegan ábata á öllum sviðum með lausnum á sviði orkuskipta, loftslagsmála, matvælaframleiðslu, heilbrigðisþjónustu og náttúruverndar, svo dæmi séu nefnd.

Í því ljósi þarf Ísland einnig að vera virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi á borð við Horizon Europe og norræn gervigreindarnet.

Nýsköpun um allt land

Nýsköpun má ekki vera bundin við höfuðborgarsvæðið. Byggja þarf upp innviði, tækni og ráðgjöf í öllum landshlutum þannig að hugmyndir, störf og verðmæti geti orðið til hvar sem er á landinu.

Tvíþætt hvatastefna

Nauðsynlegt er að efla frumstig hugmyndavinnu en þar kviknar nýsköpunin. Framsókn leggur því til stofnun sérstaks nýsköpunarsjóðs landsbyggðarinnar, með 500.000–1.500.000 kr. styrkjum fyrir einstaklinga og litlar teymishugmyndir. Þessi sjóður fyllir tómarúm sem hefðbundin styrkjakerfi ná ekki að dekka, sérstaklega í dreifðum byggðum.

Samhliða þessu hefur Framsókn mótað áherslur fyrir stærri fjárfestingar með hraðari afskriftum (svo dæmi sé tekið) þegar fyrirtæki fjárfesta í sjálfbærum, skilvirkum og grænum tækjum. Markmiðið er að örva fjárfestingar í tækni sem eykur framleiðni, dregur úr kostnaði og skapar samkeppnisforskot á alþjóðamarkaði.

Þannig fáum við tvíþætta nálgun: smáir hvatar fyrir hugmyndafasa og einstaklinga, en stórir hvatar fyrir fyrirtæki sem ráðast í tækni- og framleiðniaukandi fjárfestingar.

Hvatar skipta öllu máli

Skattalegir hvatar eru það sem kveikir og styður við fyrstu skref frumkvöðla bæði einstaklinga og innan stórra fyrirtækja. Þeir draga úr áhættu, flýta fjárfestingum og tryggja að hugmyndir þróist í raunveruleg verkefni. Án hvata hægir á ferli við sköpun nýrra hugmynda, en með réttum hvötum hleypur kraftur í nýsköpun og atvinnulíf.

Breytingartillaga

Í ofangreindu ljósi leggur Framsókn til að fjármagn verði aukið um 500 milljónir króna í málefnasvið 7 um nýsköpun í fjárlagafrumvarpi 2026. Þessi aukning mun styrkja uppbyggingu heildræns vistkerfis nýsköpunar, fjármagna nýjan landsbyggðarsjóð fyrir frumstigs hugmyndir, efla alþjóðlegt samstarf á sviði nýsköpunar og gervigreindar, tryggja að nýsköpunartækifæri séu til staðar um allt land og styðja við skattahvatakerfi fyrir fjárfestingar í tækni og framleiðniaukningu. Allt slíkt þarf þó að undirbúa af kostgæfni og á grunni samráðs.

Ef Ísland ætlar sér að vaxa út úr efnahagslegum áskorunum er þetta eina leiðin: heildstætt vistkerfi nýsköpunar, sterkir innviðir, alþjóðleg tenging og hvatar á öllum stigum nýsköpunar.

Slíkt er fjárfesting í framtíð Íslands.

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ríkis­stjórnin bregst fólkinu í landinu

Deila grein

04/12/2025

Ríkis­stjórnin bregst fólkinu í landinu

Áróðursdeild ríkisstjórnarinnar situr ekki auðum höndum. Á liðnum dögum og vikum hefur birst nokkur fjöldi greina forvígismanna ríkisstjórnarinnar þar sem gerð er tilraun til að draga upp glansmynd af þessu fyrsta ári nýrrar ríkisstjórnar. Þeim til hróss verður að nefna að þau eru nokkuð lunkin í að draga upp myndir. Myndir sem eru ekki endilega í samræmi við viðurkennd gögn eða raunveruleikann, en þessi mikilvæga færni tryggði þeim glæsilega kosningu, sæti í ríkisstjórn og völd.

Óhóf og skattahækkanir

Þegar horft er yfir verkin á þessu fyrsta ári kemur í ljós óþægileg staðreynd. Stjórnin hefur brugðist loforðum sínum um hófsemi í skattheimtu og ráðdeild í ríkisrekstri. Í stað aðhalds og trúverðugrar stefnu í fjármálum eru útgjöld aukin með fordæmalausum hætti, eða um 143 milljarða króna á milli ára. Þá hlýtur það að teljast sérstakt metnaðarleysi að sitja í ríkisstjórn sem lofaði að hækka ekki skatta á venjulegt eða vinnandi fólk en boðar nú yfir 25 milljarða króna skattahækkun á næsta ári, en sú tala gæti jafnvel orðið hærri. Til að reyna að breiða yfir loforðasvikin er gripið til útúrsnúninga, nýyrða og orðaleikja. Talað um „tiltekt“ og „leiðréttingar“ í stað þess að viðurkenna berum orðum að verið sé að leggja á nýja skatta. Venjulegt fólk sér í gegnum slíkt orðagjálfur þegar upp verður staðið. Róðurinn þyngist.

Sleggjan sem hrökk af skaftinu

Eitt veigamesta verkefni nýrrar ríkisstjórnar var, og er, að hemja verðbólgu og skapa forsendur fyrir vaxtalækkun með trúverðugri ríkisfjármálastefnu. Þar voru stóru orðin ekki spöruð í aðdraganda kosninga. Í því verkefni hefur ríkisstjórnin gjörsamlega brugðist. Hagkerfið er vissulega að kólna, en það er ekki vegna trúverðugrar eða traustrar efnahagsstefnu heldur vegna þess að samdráttur og vandamál blasa víða við í atvinnulífinu. Ekki síst í útflutningsatvinnuvegum landsins sem eru grunnstoð farsældar landsmanna. Varnaðarorð eru hundsuð og eftir situr venjulegt fólk og fyrirtæki landsins með sárt ennið, með allt of háum vöxtum og vaxandi atvinnuleysi.

Verklaus verkstjórn

Eitt megin stefið hjá áróðursmeisturum ríkisstjórnarinnar var að nú væri loks tekin við stjórn sem ætlaði að láta verkin tala. Verkin hafa sannarlega talað síðustu mánuði og í þeim birtist ýmislegt áhugavert. Rauði þráðurinn er grímulaus andstyggð gagnvart atvinnulífi landsins og ekki síst landsbyggðinni og íbúum í dreifðum byggðum landsins.

Í upphafi fyrsta þings stjórnarinnar var málum dælt út eins og það væri hinn sanni mælikvarði á afköst, verkstjórn. Ítrekað kom í ljós að málin voru illa undirbúin, samráð var af skornum skammti og í mörgum veigamiklum málum var undirbúningur lagasetningar algerlega óviðunandi. Niðurstaðan á vorþingi var enda sú að ríkisstjórnin kastaði til hliðar á fimmta tug mála með undarlegri forgangsröðun í dagskrá þingsins.

Á yfirstandandi þingi hefur stefið verið annað. Útlit er fyrir að fá mál hljóti afgreiðslu fyrir áramót og svo virðist sem sí vaxandi núningur milli ríkisstjórnarflokkanna setji sand í tannhjólin. Þar dugar lítt að brosa á blaðamannafundum og vísa ítrekað í hvað allt sé nú æðislegt á stjórnarheimilinu. Minnir svolítið á óhamingjusöm hjón sem birta ítrekað færslur á samfélagsmiðlum til að sannfæra alla nema sjálfa sig um að allt sé í himnalagi.

Stóra núllið – vantar spýtu og sög

Tíðir blaðamannafundir ríkisstjórnarinnar hafa vakið nokkra athygli. Mantra þeirra funda hefur jafnan verið að kynna með glæsibrag og bros á vör innihaldslítil loforð um eitthvað sem koma muni síðar. Eftirminnilegur er fundurinn um fullkomlega innihaldslausan húsnæðispakka, aðgerðir sem engu máli skipta fyrir fólk í nútímanum. Fundurinn var enda svo innihaldslaus að þau hafa sjálf boðað framhaldsfund um sama málefni. Það vantaði víst spýtu og sög. Á blaðamannafundinum 3. desember þar sem kynnt var fyrsta samgönguáætlun nýrrar ríkisstjórnar, sem beðið hafði verið eftir með nokkurri eftirvæntingu, varð hið sama uppi á teningnum. Hið kunnuglega stef um umbúðir umfram innihald. Við áhorfið á fundinn fylltist venjulegt fólk ef til vill nokkurri bjartsýni, enda farið ansi fögrum orðum og frjálslega um ýmislegt. Þegar betur var að gáð kemur í ljós að megin þungi þeirra verkefna sem þar voru kynnt eru ýmist nú þegar í farvegi eða bíða síðari hluta áætlunarinnar þ.e. frá 2031-2040.

Þó var eitt sem vakti sérstaka athygli. Á síðustu árum var leiðtogum núverandi ríkisstjórnar tíðrætt um ,,stóra núllið í jarðgangnagerð“. Þau orð eru hjákátleg nú þegar við blasir með nýrri og illa rökstuddri forgangsröðun jarðgangna að ekkert minna en kraftaverk þarf til að borinn verði ræstur á þessu kjörtímabili. Fljótagöng sem nú eru fyrst í forgangsröðinni og eru vissulega mikilvæg eins og önnur, eiga eftir að fara í gegnum undirbúnings- og útboðsferli sem tekið getur 3-4 ár.

Fullkomin uppgjöf

Þegar litið er á liðið ár blasir við uppgjöf í verki. Ríkisstjórn sem bregst fólkinu í landinu.

Helgi Héðinsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fjarðarheiðargöng: Lífshætta, loforð og lokaðar dyr

Deila grein

04/12/2025

Fjarðarheiðargöng: Lífshætta, loforð og lokaðar dyr

Umræðan um jarðgangaáætlun hefur tekið nýja stefnu. Innviðaráðherra hefur lýst því yfir að náttúruvá sé forsenda nýrrar forgangsröðunar á samgönguáætlun. Þessi orð marka tímamót. Ef stjórnvöld ætla að standa við þessi orð, þá getur aðeins eitt verkefni verið efst á blaði: Fjarðarheiðargöng.

Varnarleysi á fjallvegi

Fyrir mér er þetta ekki bara spurning um malbik og steypu, heldur persónulegt öryggismál. Í nóvember 2017 lenti ég, ásamt eiginmanni mínum, í bílslysi á Fjarðarheiði þegar stjórnlaus bíll kom á móti okkur og lenti harkalega á bílnum okkar.

Sú upplifun sýndi mér svart á hvítu hversu varnarlaus við erum á þessum vegi. Það skiptir engu máli hversu varlega þú ekur sjálfur eða hversu vel búinn bíllinn þinn er; þegar aðstæður eru jafn varasamar og þær gerast á Fjarðarheiði er slysið alltaf handan við hornið. Við sluppum, en það gera ekki allir. Það er óásættanlegt að íbúar þurfi daglega að leggja líf sitt og limi að veði til að komast til vinnu, sækja þjónustu eða einfaldlega komast heim.

Náttúruváin kallar á undankomuleið

Seyðisfjörður býr við eina mestu náttúruvá á byggðu bóli á Íslandi. Við munum öll eftir aurskriðunum í desember 2020. Snjóflóðahætta er einnig viðvarandi ógn. Þegar vá ber að dyrum er lífsnauðsynlegt að íbúar hafi trygga undankomuleið. Fjarðarheiði er hins vegar veðravíti sem lokast oft á veturna – einmitt þegar hættan á ofanflóðum er mest. Að eina leiðin frá bænum sé fjallvegur, sem er oft ófær eða stórhættulegur þegar neyðarástand skapast, er öryggisleysi sem enginn ætti að búa við.

Falskar lausnir og Fannardalur

Í umræðunni hefur stundum verið ýjað að öðrum leiðum til að tengja firðina, til dæmis um Fannardal. En hvað á það að leysa, þegar Fjarðarheiðin er ófær, að beina fólki um annan fjallveg sem býr við sömu hættur?

Í Fannardal er veruleg snjóflóðahætta. Við sáum það skýrt þegar snjóflóðin féllu í Neskaupstað árið 2023; þá var hættuástand víða á svæðinu. Að ætla að leysa samgönguvanda Seyðisfjarðar með því að treysta á vegi sem lokast vegna sömu náttúruvár er engin lausn. Það er bara tilfærsla á vandanum. Örugg heilsársgöng undir Fjarðarheiði eru eina leiðin sem tryggir öryggi.

Atvinnulífið blæðir út

Óvissan í samgöngum hefur ekki bara áhrif á fólk, hún drepur niður atvinnulíf. Á síðustu árum höfum við horft upp á fyrirtæki loka eða flytja starfsemi sína. Skýrasta dæmið er brotthvarf Síldarvinnslunnar á síðustu tveimur árum. Fyrirtæki geta ekki treyst á flutningaleið sem er lokuð dögum saman.

Það má heldur ekki gleyma að Fjarðarheiði er hluti af Evrópuvegi nr. 1. Vegna Norrænu er Seyðisfjörður gátt Íslands til Evrópu. Lokanir á heiðinni stöðva vöruflutninga og skaða ferðaþjónustu, sem hefur áhrif á allt þjóðarbúið.

Forsendubrestur sameiningar

Það má heldur ekki gleyma grundvellinum sem sveitarfélagið okkar hvílir á. Þegar íbúar samþykktu sameiningu í Múlaþing árið 2020 var það gert með skýrum fyrirvara: Bættar samgöngur voru forsenda sameiningarinnar.

Við vorum að búa til stórt og öflugt samfélag, en það samfélag virkar ekki ef einn hluti þess er reglulega einangraður frá hinum og þjónustukjarnanum á Egilsstöðum. Án jarðganga er sameiningin í raun ófullkomnuð og íbúar upplifa nú forsendubrest á þeim samningi sem gerður var við þá.

Pólitísk loforð verða að standa

Fyrir kosningarnar á síðasta ári var tónninn skýr. Allir frambjóðendur í kjördæminu, að undanskildum Flokki fólksins, lýstu yfir stuðningi við Fjarðarheiðargöng. Kjósendur treystu þessum loforðum. Nú, þegar ráðherra setur náttúruvá á oddinn, er tækifærið til að sýna að orðum fylgi athafnir.

Stjórnmálamenn verða að horfast í augu við þann veruleika sem við búum við: Samfélag undir stöðugri ógn, tengt umheiminum með hættulegum fjallvegi sem bregst þegar mest á reynir. Göng undir Fjarðarheiði eru eina rökrétta svarið við nýrri forgangsröðun stjórnvalda.

Eygló Björg Jóhannsdóttir, íbúi á Seyðisfirði og formaður Framsóknarfélags Múlaþings.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 4. desember 2025. 

Categories
Fréttir Greinar

Leikskólagjöld hækka um 2.900 kr.

Deila grein

02/12/2025

Leikskólagjöld hækka um 2.900 kr.

Hækkun leikskólagjalda á næsta ári verður rúmlega 2.900 krónur á mánuði fyrir 8 tíma vistun með fæði, eða sem samsvarar um 9,5%.

Þrátt fyrir þessa hækkun verður Mosfellsbær áfram með lægstu leikskólagjöldin á höfuðborgarsvæðinu. Engar breytingar verða gerðar á reglum um afslætti.

Að hækka leikskólagjöld er aldrei létt ákvörðun. En hækkunin er nauðsynleg til að mæta auknum rekstrarkostnaði og til að tryggja áframhaldandi vandaða þjónustu fyrir börn og foreldra. Þróunin frá árinu 2013 hefur verið þannig að hlutdeild foreldra í kostnaði hefur sífellt orðið lægri, farið úr 32% árið 2013 í 8% í dag.

Fyrsta skólastigið og lykilþáttur í lífi barna og fjölskyldna

Leikskólar eru þó miklu meira en tölur í fjárhagsáætlun. Þeir eru fyrsta skólastigið og grundvöllur þess að fjölskyldur geti náð jafnvægi milli vinnu, heimilis og uppeldis. Þar skapast umgjörð sem tryggir börnum öryggi, þroska og nám og foreldrum tækifæri til að vera þátttakendur á vinnumarkaði á eigin forsendum.

Það þarf einnig að hafa hugfast að leikskólar eru ekki lögbundið verkefni sveitarfélaga. Samt sem áður myndi íslenskt samfélag einfaldlega ekki virka án þeirra. Mosfellsbær hefur árum saman tekið þá skýru stefnu að standa vörð um þessa þjónustu og byggja upp leikskólakerfi sem styður við börn, fjölskyldur og atvinnulíf.

Jafnrétti og leikskólar

Leikskólar hafa verið ein af mikilvægustu stoðunum í jafnréttisbaráttunni. Það var ekki sjálfsagt mál að konur gætu tekið þátt í atvinnulífinu – það var baráttumál. Aðgengi að leikskólum hefur því verið gríðarlega mikilvægt í því að tryggja konum jafna stöðu á vinnumarkaði. Sterkt leikskólakerfi er ekki aðeins menntamál, heldur einnig jafnréttis- og velferðarmál.

Starfsfólkið – grunnur að gæðum og stöðugleika

Það er áskorun að ná jafnvægi í leikskólarekstri sem þjónar bæði börnum, foreldrum og starfsfólki. Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því að bæta starfsaðstæður í leikskólunum. Þannig var ákveðið að taka upp skráningu barna eftir klukkan 14 á föstudögum ásamt því að skráningardagar voru teknir upp milli jóla og nýárs og í dymbilviku fyrir páska. Þessi breyting gerði okkur kleift að innleiða að fullu styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki leikskólanna auk þess að uppfylla 30 daga orlofsrétt. Rétt er að taka fram að foreldrar þeirra barna sem þurfa að nýta leikskólaplássið á skráningartíma eða skráningardegi greiða ekki viðbótargjald vegna þess. Þeir foreldrar sem geta nýtt styttinguna fá afslátt af leikskólagjöldum sem nemur tímafjölda.

Framtíðarsýn

Við viljum halda áfram að geta tryggt öllum börnum sem eru orðin 12 mánaða 1. ágúst ár hvert leikskólapláss. Eins viljum við halda áfram að niðurgreiða vistun hjá dagforeldrum frá 12 mánaða aldri og tryggja þannig að allir foreldrar sitji við sama borð hvað varðar kostnað fyrir vistun barna þeirra.

Með þessum breytingum öllum vonumst við til að halda öflugu og faglegu starfsfólki, laða að nýtt starfsfólk og halda áfram að byggja allt leikskólastarf á gæðum, fagmennsku og góðum starfsskilyrðum fyrir starfsfólk – sem er grunnurinn að metnaðarfullu og öflugu leikskólastarfi og kærleiksríkri umönnun barna.

Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 27. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fjárfestum áfram í lýðheilsu og barnvænu samfélagi

Deila grein

02/12/2025

Fjárfestum áfram í lýðheilsu og barnvænu samfélagi

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar var lögð fram til fyrri umræðu 12. nóvember sl. og endurspeglar hún áherslur meirihlutans um heilbrigt og fjölskylduvænt samfélag þar sem lýðheilsan er sett í forgang.

Rekstur bæjarins stendur traustum fótum, heildartekjur áætlaðar um 24,7 milljarðar og rekstrarafgangur tryggður. Á sama tíma horfum við til áframhaldandi íbúafjölgunar og þar með aukinna krafna um þjónustu – sérstaklega fyrir börn og barnafjölskyldur.

Mikil áhersla er lögð á leik- og grunnskóla, sem eru hjarta samfélagsins. Á næsta ári verður rúmlega 11 milljörðum króna ráðstafað til reksturs fræðslu- og frístundastarfs, til að tryggja áframhaldandi öflugt og faglegt starf fyrir nærri 900 leikskólabörn og rúmlega 1800 grunnskólanema bæjarins. Þrátt fyrir hækkun leikskólagjalda helst hlutdeild foreldra í rekstri leikskóla lág og við höldum áfram að tryggja að þjónustan sé aðgengileg öllum fjölskyldum, óháð efnahag.

Lýðheilsa er rauður þráður fjárhagsáætlunarinnar. Í fyrsta sinn í langan tíma eru íþrótta- og tómstundamannvirki stærsti einstaki liðurinn í fjárfestingum bæjarins, eða 37% af heildarfjárfestingum. Frístunda- og íþróttastarf er einn af burðarásum lýðheilsu og félagslegra tengsla barna og unglinga. Forvarnargildi slíks starfs er óumdeilt og skilar sér í sterkari félagsfærni og bættri heilsu. Félagsmiðstöðvar verða áfram forgangsverkefni, enda skipta þær sköpum fyrir andlega heilsu og félagslega þátttöku ungs fólks. Auk þess munum við halda áfram að byggja upp og hlúa að útivistartengdum innviðum. Með því hvetjum við fjölskyldur til hreyfingar og sköpum umhverfi sem styður vellíðan barna jafnt sem fullorðinna.

Ég hvet íbúa Mosfellsbæjar til að kynna sér fjárhagsáætlunina fyrir komandi ár og þá sérstaklega greinargerðina sem henni fylgir. Þar er helstu upplýsingum miðlað á einstaklega skýran og aðgengilegan hátt. Seinni umræður um fjárhagsáætlun fara svo fram 3. desember þegar áætlunin verður afgreidd í bæjarstjórn.

Fjárhagsáætlun 2026 er ekki aðeins fjárfestinga– og rekstraráætlun — hún er yfirlýsing um forgangsröðun: Að fjárfesta í börnum, fjölskyldum og lýðheilsu samfélagsins alls. Með ábyrgri fjármálastjórn, skýrri stefnu og markvissri forgangsröðun tryggum við að Mosfellsbær verði áfram eitt fjölskylduvænsta og heilsusamlegasta sveitarfélag landsins.

Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ.

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 27. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fyrirmyndar forvarnarstefna í Mosfellsbæ

Deila grein

02/12/2025

Fyrirmyndar forvarnarstefna í Mosfellsbæ

Það er ánægjulegt að sjá þegar sveitarfélag tekur forvarnarstarf alvarlega. Ákvörðun Mosfellsbæjar um að verja aukalega 100 milljónum króna í forvarnir er skýrt dæmi um slíka hugsun.
Átakið hefur fengið nafnið „börnin okkar“ og felur í sér aukafjárveitingu uppá 100 milljónir sem verða notaðar í 27 viðbótaraðgerðir. Þær skiptast í þrjá þætti: Almennar forvarnir, snemmtækur stuðningur og styrking Barnaverndar. Þetta er stefna sem byggir á raunverulegri sýn á velferð og heilsu íbúa, og endurspeglar ábyrgð og framsýni bæjarstjórnar.

Aðgerðirnar felast meðal annars í að:
• Auka aðgengi unglinga að sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf.
• Efla stuðningsúrræði í formi ráðgjafar, stuðnings og námskeiða.
• Hækka frístundastyrki.
• Styrkja starf félagsmiðstöðva.
• Auka samstarf, fræðslu og námskeið fyrir foreldra.
• Koma á samskiptasáttmála á milli foreldra og skóla.
• Huga að lýðheilsu barna og ungmenna meðal annars með aukinni opnun íþróttamiðstöðva um helgar.
• Tryggja aðgengi allra hópa að námskeiðum og íþróttum.

Með þessari fjárfestingu er verið að efla stuðning við börn og ungmenni, bæta aðgengi að sálfræði- og félagsráðgjöf, styrkja frístundastarf og bjóða foreldrum námskeið sem styrkja tengslin milli heimilis og skóla.
Þetta eru metnaðarfullar aðgerðir sem hafa bein áhrif á líðan, öryggi og framtíð barnanna okkar.
Mikilvægi íþrótta og tómstunda í forvarnarstarfi er óumdeilt. Þar hefur Mosfellsbær verið til fyrirmyndar. Bærinn hefur lagt ríka áherslu á að börn og ungmenni hafi fjölbreytt tækifæri til þátttöku, hvort sem það er í íþróttum, tónlist, listgreinum eða félagsstarfi. Slíkt starf byggir upp sjálfstraust, tengsl og jákvæð samskipti, sem eru sterkustu forvarnirnar sem til eru.
Með öflugum frístundastyrkjum, samstarfi við íþróttafélög og góðum aðgengismálum fyrir öll börn, hefur Mosfellsbær skapað umhverfi þar sem enginn þarf að standa utan við.
Það er auðvelt að tala um forvarnir, en erfiðara að gera eitthvað í þeim málum. Þess vegna er þessi ákvörðun svo mikilvæg. Hún sýnir að bæjarstjórnin í Mosfellsbæ leggur áherslu á verk frekar en orð.
Með því að setja raunverulegt fjármagn í málaflokk sem oft hefur setið á hakanum, er verið að senda skýr skilaboð: Að heilsa, öryggi og velferð barna og ungmenna skipti mestu máli.
Þessi nálgun fellur vel að stefnumálum Framsóknar í Mosfellsbæ, sem hafa lengi lagt áherslu á forvarnir, fjölskylduvæn samfélög og jafnt aðgengi að þjónustu.
Framsókn hefur talað fyrir því að sveitarfélög séu ekki bara þjónustuaðilar, heldur samfélög sem byggja upp manneskjulegt og heilbrigt umhverfi. Þegar fjárfest er í forvörnum, er verið að vinna nákvæmlega eftir þeirri hugsun.
Í þessum aðgerðum birtist líka ákveðinn metnaður: Að Mosfellsbær vilji vera leiðandi sveitarfélag í forvörnum. Með fjárfestingu í börnum og ungmennum er verið að styrkja grunninn að betra samfélagi til framtíðar, þar sem fleiri fá tækifæri, færri detta út og allir finna að þeir skipta máli.
Þetta er góð stjórn. Þetta er ábyrg stjórnsýsla. Meirihlutinn í Mosfellsbæ á skilið stórt hrós fyrir þessa framkvæmd.

Kjartan Helgi Ólafsson, Mosfellingur og ritari Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á mosfellsingur.is 27. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fullveldið á tímum gervigreindarinnar

Deila grein

02/12/2025

Fullveldið á tímum gervigreindarinnar

107 ár eru liðin frá því að deilum um fullveldi Íslands lauk með undirritun sambandslagasamningsins, sem tók gildi 1. desember 1918. Frelsisþráin var drifkrafturinn, að Íslendingar réðu sínum málum sjálfir og mótuðu framtíð barna sinna. Saga fullveldisins er saga framfara. Á rúmri öld hefur okkur tekist að byggja upp afar öflugt velferðarsamfélag, nýta auðlindir landsins af ábyrgð og skapa list sem dáðst er að um heim allan. Allir Íslendingar hafa lagt sig fram við að móta samfélagið okkar með þessum hætti.

Ein af mikilvægustu stoðunum í samheldni þjóðarinnar og framgangi hennar er tungumálið okkar, íslenskan. Þjóðin hefur ætíð verið stolt af tungumálinu sínu og hverju það hefur áorkað. Jónas Hallgrímsson skáld var fremstur í flokki að lyfta okkar ástkæra og ylhýra máli. Allt bendir til þess að þær þjóðfélagsbreytingar sem fram undan eru vegna innreiðar gervigreindar séu ámóta miklar og íslenskt samfélag upplifði á 20. öld, ef ekki umfangsmeiri. Í mínum huga skiptir öllu að íslenskan sjálf, tungumálið okkar, haldi áfram að vera framsækin í heimi gervigreindar með tilkomu öflugrar máltækni. Íslensk máltækni er ekki munaður heldur nauðsyn. Við verðum að tryggja að hægt sé að tala við símann, tölvuna og bílinn á íslensku. Þetta krefst áframhaldandi skýrrar stefnu, fjárfestinga og samstöðu fræðasamfélags, atvinnulífs og stjórnvalda.

Um leið og við erum í sókn fyrir íslenskuna, þá verðum við að horfa til þeirra tækifæra sem felast í gervigreindinni sjálfri. Sé gervigreindin innleidd af ábyrgð og sanngirni, þá getur hún aðstoðað okkur við ýmsar meiriháttar framfarir í atvinnulífinu. Til þess verðum við þó að tryggja að ávinningurinn nái til allra, óháð aldri, búsetu eða bakgrunni. Gervigreind má hvorki verða tæki til að auka misskiptingu né grafa undan trausti á lýðræði. Hún á að vera þjónn samfélagsins, ekki húsbóndi þess. Þess vegna þarf að byggja upp stafræna hæfni og gagnalæsi frá grunnskóla og upp í háskóla ásamt símennt.

En tæknin leysir okkur ekki undan ábyrgð þess að tryggja bjarta framtíð íslenskunnar. Hvert og eitt okkar ber ábyrgð með því hvaða mál við veljum í snjalltækjum, í merkingum í verslunum, í tungumáli vinnustaða, í því hvaða efni við búum til og deilum. Við getum aldrei sætt okkur við að framtíðarsaga fullveldis Íslands verði ekki sögð á íslensku.

Markmiðið hlýtur að vera að næstu hundrað ár fullveldis verði ekki síður farsæl en þau sem að baki eru. Að sama skapi skal sagan áfram verða skrifuð á íslensku. Fullveldið á tímum gervigreindarinnar felst í því að við ráðum sjálf ferðinni, nýtum tæknina í okkar þágu og tryggjum að hún styrki íslenska tungu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. menningarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Austurland: Sterk stoð íslensks hagkerfis

Deila grein

01/12/2025

Austurland: Sterk stoð íslensks hagkerfis

Árið 2022 fékk Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) ráðgjafafyrirtækið Analytica til að gera skýrslu og greiningu á efnahagsumsvifum Austurlands. Síðan þá hefur skýrslan verið þungavigtarplagg á fundum okkar við ráðamenn þjóðarinnar, enda sýnir hún án nokkurs vafa að Austurland skapar gríðarleg verðmæti og skilar inn umtalsverðum tekjum í ríkiskassann.

Sú uppfærða skýrsla sem lögð var fram á dögunum tekur til áranna 2022–2024 og þrátt fyrir loðnubrest skilar Austurland tæpum fjórðungi allra vöruútflutningstekna Íslands, þó að hér búi aðeins 2,9% landsmanna.

Árið 2024 nam virði útflutningsvara frá Austurlandi um 219 milljörðum króna, sem jafngildir 23% af heildarvöruútflutningi Íslands. Ef vöruútflutningi er deilt á íbúafjölda má sjá að hver Austfirðingur framleiddi að meðaltali 19,6 milljónir króna til vöruútflutnings, en íbúar annarra landshluta framleiddu tífalt minna, eða um 1,97 milljónir króna.

Hlutdeild Fjarðaáls af útfluttu áli árið 2024 var 42,6%, eða 133 milljarðar króna. Auk þess sýna niðurstöður Analytica að að minnsta kosti fjórðung tekna Landsvirkjunar síðustu þrjú ár megi rekja til raforkusölu til Alcoa á Austurlandi.

Á Austurlandi starfa einnig gríðarlega öflug útgerðarfyrirtæki ásamt laxeldisfyrirtæki, en útfluttar sjávarafurðir héðan árið 2024 voru að verðmæti 85,8 milljarða, sem er 21,4% af heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða.

Þrátt fyrir þessa miklu verðmætasköpun fáum við ekki það pláss sem við eigum skilið. Hér er mikil innviðaskuld, sérstaklega þegar horft er til samgangna. Víða erum við skilgreind sem svæði utan vaxtarsvæða eða jaðarsvæði; því hafna ég og krefst þess að við fáum að vera með og taka þátt — við erum löngu búin að vinna okkur inn fyrir því.

Austurland getur verið í lykilhlutverki þegar horft er til verðmætasköpunar, nýsköpunar og framtíðar. Hér er mikil atvinna, húsnæðisuppbygging og drifkraftur í fyrirtækjum og íbúum, en til þess að Austurland geti haldið áfram að vaxa þarf að fjárfesta í nauðsynlegum innviðum. Það mun borga sig að fjárfesta í Austurlandi.

Þuríður Lillý Sigurðardóttir, varaformaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og bæjarfulltrúi Framsóknar í Fjarðabyggð.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 1. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Kennum þeim ís­lensku

Deila grein

28/11/2025

Kennum þeim ís­lensku

Börnum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli hefur fjölgað verulega síðustu ár. Í fjórum skólum í borginni eru yfir 55% nemenda með annað móðurmál en íslensku og í níu þeirra eru yfir þriðjungur nemenda með erlent móðurmál. Þetta kallar á markvissar aðgerðir til að tryggja að öll börn fái þann stuðning sem þau þurfa til að ná góðum árangri og finna sig í skólasamfélaginu.

Ein af þeim leiðum sem hafa reynst áhrifaríkar við að kenna börnum nýtt tungumál eru móttökudeildir í skólum sem einblína á tungumálakennslu barna áður en að þau hefja nám í almennum bekk. Góð grunnfærni í íslensku byggir upp traustan grunn fyrir framtíðar námsframvindu og samfélagsleg tengsl. Því leggjum við í Framsókn til að móttökudeildir verði opnaðar í öllum grunnskólum Reykjavíkurborgar.

Mjúk lending í íslenskt skólakerfi

Móttökudeildir eru hugsaðar sem fyrsti viðkomustaður nemenda sem nýlega hafa flutt til Íslands. Þar er lögð áhersla á að skapa öruggt og stuðningsríkt umhverfi þar sem börn fá tíma og rými til að kynnast nýju skólakerfi, nýju tungumáli og nýju samfélagi. Markmiðið er lendingin sé eins mjúk og farsæl og hægt er.

Markviss kennsla í íslensku

Það er mjög krefjandi fyrir börn sem eru ný flutt til landsins að hefja nám í almennum bekk þar sem öll kennsla fer fram á íslensku samhliða því að fóta sig í nýrri menningu. Þetta getur ýtt undir óöryggi og gert þeim erfitt fyrir að taka virkan þátt í náminu. Kennarar hafa bent á þá miklu áskorun sem felst í því að kenna bekk þar sem hluti nemenda skilur ekki tungumálið. Með því að gefa börnum tíma til að byggja upp grunnfærni í íslensku áður en þau hefja nám í bekk, má draga úr álagi barna og kennara og skapa betra vinnuumhverfi fyrir bæði nemendur og starfsfólk. Samhliða þarf þó að að styrkja starfsumhverfi grunnskólanna með auknum stuðningi og verkfærum til að mæta þörfum fjölbreyttra nemendahópa.

Í móttökudeildum er megináhersla lögð á markvissa íslenskukennslu. Nemendur fá kennslu sem tekur mið af færni þeirra, fyrri menntun og einstaklingsbundnum þörfum. Með því að byggja upp sterkari tungumálafærni fyrstu mánuðina á Íslandi aukast líkur á því að börnin geti síðar tekið virkari þátt í almennri kennslu, en að jafnaði er gert ráð fyrir því að barn sé ekki lengur í móttökudeild en í 3-6 mánuði. Ákvörðun um það byggir þó alltaf á einstaklingsbundnu mati.

Fræðsla fyrir börn og foreldra

Til þess að tilheyra samfélagi er ekki nóg að kunna tungumálið. Það þarf líka að skilja menningu og siði samfélagsins. Móttökudeildum er því ætlað að leggja áherslu á að kynna íslenska menningu og samfélag fyrir börnum og foreldra þeirra. Foreldrar gegna lykilhlutverki í skólagöngu barna og inngildingu þeirra í nýtt samfélag. Móttökudeildum er því jafnframt ætlað að stuðla að betra samstarfi heimilis og skóla og fyrirbyggja menningarárekstra.

Margir foreldrar af erlendum uppruna telja að takmörkuð íslenskukunnátta sé hindrun í þátttöku þeirra í skólastarfi barna sinna. Því leggur Framsókn einnig til að foreldrum sem ekki tala íslensku verði boðin gjaldfrjáls íslenskukennsla með sérstakri áherslu á orðaforða sem tengist skóla- og námsumhverfi barna þeirra. Markmið tillögunnar er að auðvelda foreldrum að læra íslensku og draga úr þörf fyrir túlkaþjónustu til lengri tíma.

Innleiðing í skrefum

Með því að hafa móttökudeildir í öllum skólum er tryggt að öll börn fá tækifæri til þess að kynnast sínum hverfisskóla og taka þátt í öðru skólastarfi með jafnöldrum sínum. Móttökudeildir eiga því ekki að einangra börn sem tala ekki íslensku eins og sérstakir móttökuskólar gera heldur efla og flýta fyrir raunverulegri þátttöku þeirra í skólastarfi þannig að þau geti tekið virkan þátt í íslensku samfélagi til framtíðar.

Tillaga Framsóknar gerir ráð fyrir því að móttökudeildir verði innleiddar í skrefum í grunnskóla Reykjavíkurborgar. Þörfin fyrir móttökudeildir er ólík eftir skólum og tekur umfang þeirra mið af því. Gert er ráð fyrir að starfsfólk geti færst á milli móttökudeilda innan skólahverfa til að mæta þörfum skólanna hverju sinni.

Lengi býr að fyrstu gerð

Okkar hlutverk er að tryggja öllum börnum góð tækifæri til að þroska hæfileika sína og færni, og um leið skapa jákvæð náms- og vinnuskilyrði fyrir nemendur og kennara.

Lengi býr að fyrstu gerð og þar verða áherslur okkar að liggja.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Réttindi allra að tala ís­lensku

Deila grein

27/11/2025

Réttindi allra að tala ís­lensku

Í ræðu sinni í Bandaríkjaþinginu árið 1965 fjallaði þáverandi Bandaríkjaforseti Lyndon B. Johnson um tímann sinn sem grunnskólakennari. Johnson kenndi í Cotulla í Texas þar sem margir nemendur töluðu litla sem enga ensku. Hann sá hversu mikið tungumálahindranir héldu þeim aftur, bæði í námi og lífi. Hann taldi að enskukunnátta væri lykillinn að því að börn gætu tekið fullan þátt í samfélaginu, átt fleiri tækifæri og forðast jaðarsetningu.

Punktur Johnsons er í raun að aðilar sem tala ekki tungumálið í landinu geta aldrei orðið fullgildir þátttakendur í samfélaginu.

Við á Íslandi megum huga að orðum Johnsons, enda stöndum við frammi fyrir sambærilegu vandamáli. Það er orðinn stór hluti af íslenska samfélaginu sem talar ekki íslensku. Suma má afsaka því að þeir eru nýir innflytjendur, eru í tímabundnu námi eða vinnu, eða ætla almennt ekki að dvelja lengi á Íslandi. Aðrir hafa ekki jafn góða ástæðu; þeir eru komnir til að vera, mögulega byrjaðir að setja upp fjölskyldu og eru á öðrum nótum þátttakendur í íslenska samfélaginu.

Það er mér undrun að ekki sé meira gert til að hvetja þessa aðila til að læra málið. Hví er íslenskunám ekki aðgengilegra og af hverju eru ekki fleiri hvatar til að aðstoða þessa aðila við að læra íslensku?

Aftur á móti þarf líka að vera íþyngjandi fyrir fólk að ekki læra málið. Ef þú hefur verið lengur en þrjú ár á Íslandi ætti íslenska ríkið ekki að niðurgreiða túlkunarþjónustu. Á sama hátt ætti að taka tillit til íslenskukunnáttu þegar kemur að framlengingu dvalarleyfa. Með því á ég ekki við að aðilar eigi að vera reiprennandi í íslensku og framleiða meistaraverk á borð við Mosfellinginn Halldór Laxness, heldur að sýna fram á framför.

Ríkið á að hafa skýr markmið fyrir einstaklinga um hvað þeir eiga að læra af íslensku miðað við tímann sem þeir hafa verið hér. Það er réttur innflytjenda að verða hluti af sínu nýja samfélagi, réttur þeirra að læra íslensku og verða fullgildir þátttakendur í samfélaginu.

Það er líka réttur Íslendinga að tala sitt tungumál í sínu heimalandi. Það er afleitt að ekki sé hægt að búast við að geta klárað kaup í íslenskum verslunum án þess að tala íslensku. Fyrirtæki standa frammi fyrir vanda við að ráða nógu marga íslenskumælandi starfsmenn. þess vegna þurfum við að setja meiri kröfur til fólks sem ætlar að vinna hér að tala tungumál landsins, sem eru ekkert ólíkt kröfum sem aðrar evrópuþjóðir gera.

Það er allt í góðu fyrir okkur Íslendinga að vera stoltir af okkar máli. Við erum með fallegt tungumál, erum sögu- og menningar þjóð og það er okkar að passa upp á að íslenska hverfi ekki.

Það er tímabært að ríkið geri meira til að styðja við aðlögun innflytjenda og jafnframt varðveita okkar menningu og tungumál.

Hrafn Splidt, formaður Sambands Ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. nóvember 2025.