Categories
Fréttir Greinar

Opinská samtöl í átt að betri landbúnaði

Deila grein

01/12/2023

Opinská samtöl í átt að betri landbúnaði

Matarkista okkar Íslendinga er fjölbreytt og margþætt. Hér á landi eru framleiddar heilnæmar afurðir sem unnar eru af alúð. Íslensk matvælaframleiðsla göfgar okkar samfélag og menningu.

Við erum rík af náttúrutengingu okkar, en einn af hornsteinum landbúnaðarins er að tryggð sé rétt nýting lands og verndun þess. Með öflugum landbúnaði, sem hingað til hefur verið eitt einkenna okkar Íslendinga, er stuðlað að bæði fæðuöryggi landsmanna og afli til að viðhalda blómlegri byggð um landið. Framleiðslan hefst hjá bændum, sem hafa unnið hörðum höndum við að tryggja að íslensk matvæli eru heilnæm, örugg og í hæsta gæðaflokki. Þrátt fyrir þrotlausa vinnu á stéttin undir þungt högg að sækja.

Við í Framsókn höfum alltaf unnið við að styðja þessa mikilvægu stétt og þeirri vinnu mun aldrei ljúka. Við höfum talað fyrir þeim sjónarmiðum að áfram þurfi að leita leiða til að styrkja landbúnað sem atvinnugrein, stuðla að aukinni sjálfbærni og gæta að búsetuöryggi á landsbyggðinni.

Ein elsta starfsgrein landsins sinnir mjög mikilvægu hlutverki til framtíðar og við verðum að tryggja henni tækifærin til þess.

Grafalvarleg staða

Þó svo að bændur séu því vanir að staða starfsgreinarinnar sé sveiflukennd þá hefur útlitið sjaldan verið eins slæmt né óvissan jafnmikil og núna. Það hefur varla farið fram hjá landsmönnum að aðstæður bænda og rekstrargrundvöllur fara versnandi með hverjum mánuði.

Margar ástæður eru fyrir þessari stöðu, en hana má aðallega rekja til utanaðkomandi atburða og aðstæðna. Við í Framsókn horfum á núverandi stöðu innan stéttarinnar alvarlegum augum, en hún er í raunverulegri hættu sem við verðum að gera út af við.

Á undanförnum vikum buðum við bændum á opna fundi á Norður- og Austurlandi, enda er það allra mikilvægasta að heyra áhyggjur þeirra beint. Andrúmsloftið á fundunum var skiljanlega þungt á köflum, en þeir voru góðir, gagnlegir og vel sóttir þar sem farið var yfir stöðuna og ekki síður horfur innan greinarinnar á opinskáan máta.

Af umfjöllun síðustu mánaða og framangreindum fundum með bændum er ljóst að fjöldi verkefna hefur beðið úrlausnar í of langan tíma þegar kemur að málefni landbúnaðarins og styrkingu á öflugri byggð á dreifðari svæðum. Allir eru sammála um að einfalda þurfi regluverkið í kringum atvinnugreinina, bæta aðgengi og efla rekstrarumhverfi innan landbúnaðarins.

Langur verkefnalisti

Bændur hafa lengi bent á að bú sé langtímastarfsemi, en bændur hafa farið í nauðsynlegar fjárfestingar sem hafa leitt til talsverðrar skuldsetningar.

Takmarkaðir fjármögnunarmöguleikar hafa, í samspili við hátt vaxtaumhverfi, leitt til þess að þungbærar horfur blasa nú við.

Á fundum okkar með bændum kom m.a. fram að rík þörf er fyrir endurfjármögnunarmöguleikum þar sem horft er til lengri tíma lánveitingu. Við viljum skoða möguleika á opinberu fyrirkomulagi sem getur styrkt greinina í heild og miðar að eðli starfseminnar.

Á sama tíma er mikilvægt að einfalda rekstrarumhverfi svo að unnt sé að skapa aukin tækifæri í landbúnaði með sjálfbærni að leiðarljósi. Þau sjónarmið eru í samræmi við það sem ungir bændur og nýliðar í greininni hafa lagt mikla áherslu á. Þau úrræði sem komið hafa fram að undanförnu, svo sem hlutdeildarlán, hafa ekki nýst ungum fjölskyldum í búrekstri sem skyldi. Þessar leiðir eru áhugaverðar og jákvæðar en þarfnast frekari útfærslu svo þær gefi góða raun, enda teljum við brýnt að nýliðun í landbúnaði verði útfærð þannig að hún hjálpi til við að lækka þröskuldinn fyrir þá aðila sem hyggjast hefja búrekstur.

Við í Framsókn tökum undir með bændum um að endurskoða þurfi fyrirkomulag tolla hér á landi og innflutning á afurðum erlendis frá. Tollavernd er innlendri matvælaframleiðslu afar mikilvæg og á að stuðla að því að hún geti stundað eðlilega samkeppni við sívaxandi innflutning á réttum og sanngjörnum forsendum. Á fundum okkar með bændum voru ræddar þær kröfur  sem við eigum að gera til innfluttra matvæla. Þær verða að vera í samræmi við þær kröfur sem við gerum hér heima. Þá eiga að vera gerðar kröfur m.t.t. sýklalyfjanotkunar, aðbúnað dýra og túlkun á gildandi löggjöf.

Tekjur og málefni afurðastöðva voru einnig rædd. Ekki síst í tengslum við verðmið við innflutning, sem er krónutölubundinn að hluta en fylgir ekki verðlagi. Það eru fjölmörg skýr dæmi um hversu brýnt er að huga sérstaklega að tekjum afurðastöðva innan landbúnaðarins.

Augljóst er að verkefnin eru fjölmörg og geta ekki beðið úrlausnar í langan tíma. Sjaldan hefur verið jafn nauðsynlegt að bretta upp ermar í þessum málaflokki. Bændur eiga það skilið að ríkið vinni með þeim á erfiðum tímum og aðstoði þá við að bæta stöðu þeirra og rekstrargrundvöll áður en að stór hluti greinarinnar heyri sögunni til í stað þess að spila sitt hlutverk til framtíðar.

Ingibjörg Isaksen og Þórarinn Ingi Pétursson, þingmenn Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 30. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Fullveldissagan og framtíð hennar á íslensku

Deila grein

01/12/2023

Fullveldissagan og framtíð hennar á íslensku

Sér­hverj­um full­veld­is­degi þjóðar­inn­ar ber að fagna. Í dag eru liðin 105 ár frá því að sam­bands­lög­in milli Íslands og Dan­merk­ur tóku gildi og þannig viður­kennt að Ísland væri frjálst og full­valda ríki. Sá áfangi markaði upp­hafið að fram­fara­sögu full­valda þjóðar sem í dag skip­ar sér í röð meðal fremstu ríkja ver­ald­ar á fjöl­mörg­um sviðum. Í amstri hvers­dags­ins vill það stund­um gleym­ast að við get­um ekki tekið grund­vall­ar­hlut­um í sam­fé­lags­gerð okk­ar sem sjálf­sögðum. Frelsi og full­veldi, lýðræði og mann­rétt­indi eru því miður fjar­læg­ir og jafn­vel fram­andi hlut­ir fyr­ir mörg­um jarðarbú­um. Í okk­ar eig­in heims­álfu geis­ar til dæm­is enn ólög­legt inn­rás­ar­stríð þar sem sótt er að þess­um gild­um.

Íslensk­an, þjóðtunga Íslend­inga og op­in­bert mál á Íslandi, er eitt af ein­kenn­um þjóðar okk­ar. Íslensk­una telja senni­lega marg­ir vera hið eðli­leg­asta og sjálf­sagðasta mál sem fylgt hef­ur íbú­um þessa lands í meira en 1.100 ár. Þannig var tungu­málið til dæm­is samofið bar­áttu þjóðar­inn­ar fyr­ir full­veldi sínu þar sem hún þjónaði sem okk­ar helsta vopn, en hún var í senn álit­in sam­ein­ing­ar­tákn og rétt­læt­ing ís­lensku þjóðar­inn­ar fyr­ir sér­stöðu sinni; sér­stök þjóðtunga, sér­stök menn­ing.

Það er eng­um blöðum um það að fletta í mín­um huga að ís­lensk­an stend­ur á ákveðnum kross­göt­um. Hraðar og um­fangs­mikl­ar þjóðfé­lags­breyt­ing­ar und­an­far­inna ára hafa fram­kallað áskor­an­ir af áður óþekkt­um stærðargráðum fyr­ir tungu­málið okk­ar. Örar tækni­breyt­ing­ar hafa gjör­bylt því mál­um­hverfi sem börn al­ast upp í og ensk­an er nú alltumlykj­andi hvert sem litið er.

Við sem þjóðfé­lag get­um ekki horft á tungu­málið okk­ar þynn­ast út og drabbast niður. Í vik­unni kynntu stjórn­völd 19 aðgerðir í þágu ís­lensk­unn­ar. Aðgerðirn­ar snerta flest svið sam­fé­lags­ins en í þeim er meðal ann­ars lögð áhersla á mál­efni ís­lensku­kennslu fyr­ir full­orðna inn­flytj­end­ur, aukið sam­starf við at­vinnu­lífið og þriðja geir­ann. Sum­ar aðgerðanna fela í sér um­fangs­mikl­ar kerf­is­breyt­ing­ar til hins betra en ís­lensk­an er úti um allt í sam­fé­lagi okk­ar og því tek­ur það sinn tíma að stilla sam­an strengi í jafn fjöl­breyttu verk­efni og raun ber vitni.

Við get­um öll gert okk­ar til þess að efla og þróa tungu­málið okk­ar til framtíðar. Og það þurfa all­ir að gera – það er verk­efni sam­fé­lags­ins að tryggja framtíð ís­lensk­unn­ar og þar er ekki í boði að skila auðu. Ég finn skiln­ing á þessu mik­il­væga viðfangs­efni vaxa með viku hverri og við ætl­um að tryggja að full­veld­is­saga þjóðar­inn­ar verði áfram skrifuð á ís­lensku um ókomna framtíð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Fúsi er kominn til að vera

Deila grein

28/11/2023

Fúsi er kominn til að vera

Ein markverðasta og hug­ljúf­asta leik­sýn­ing sem ég hef séð er „Fúsi: Ald­ur og fyrri störf“ sem nú er til sýn­ing­ar á Litla sviði Borg­ar­leik­húss­ins. Sýn­ing­in fjall­ar um Sig­fús Svein­björn Svan­bergs­son, Fúsa, og ævi­skeið hans með frænda sín­um, Agn­ari Jóni Eg­ils­syni leik­ara. Fúsi er reynd­ur leik­ari, þar sem hann hef­ur starfað með leik­hópn­um Perlunni í rúm fjöru­tíu ár.

Fúsi er fatlaður ein­stak­ling­ur og er saga hans saga þjóðar og hvernig um­gjörð sam­fé­lags­ins var í tengsl­um við fatlað fólk. Sýn­ing­in rifjar upp at­vik úr ævi Fúsa og er tvinnað inn í frá­sögn­ina tónlist frá systkin­un­um Ellý og Vil­hjálmi Vil­hjálms­börn­um. Hinar frá­bæru leik­kon­ur Hall­dóra Geir­h­arðsdótt­ir og Vala Krist­ín Ei­ríks­dótt­ir leika atriði tengd ævi Fúsa og svo er fimmti maður­inn á sviðinu Eg­ill Andra­son sem spil­ar á hljóm­borð.

Sýn­ing­in er, að því er ég best veit, ein sú fyrsta hjá at­vinnu­leik­húsi þar sem fatlaður ein­stak­ling­ur er í burðar­hlut­verki. Leik­ritið er afar áhrifa­ríkt og til­komu­mikið, þar sem sag­an er ein­læg og átak­an­leg en á sama tíma skemmti­leg.

Þetta stór­merki­lega verk sýn­ir fram á að fatlaðir ein­stak­ling­ar þurfa stærra hlut­verk í skap­andi grein­um. Ráðuneyti mitt hef­ur verið að styðja bet­ur við þenn­an mála­flokk, meðal ann­ars í gegn­um hátíðina List án landa­mæra. List án landa­mæra dreg­ur þetta meðal ann­ars fram, en all­ar göt­ur frá stofn­un henn­ar árið 2003 hef­ur hátíðin lagt áherslu á list fatlaðs fólks og sem slík skapað sér sér­stöðu inn­an menn­ing­ar­lífs­ins á Íslandi. Hef­ur hátíðin meðal ann­ars ýtt und­ir og stuðlað að sam­starfi ólíkra hópa í góðu sam­starfi við lista­söfn, leik­hópa og tón­list­ar­líf – og þannig skapað vett­vang og ný tæki­færi í menn­ing­ar­lífi þjóðar­inn­ar. Ásamt því vinn­ur Lista­safn Íslands öt­ul­lega að því að kynna list fatlaðs fólks á mark­viss­ari hátt en áður hef­ur þekkst. Margt annað áhuga­vert er á dag­skrá hjá ráðuneyti menn­ing­ar.

Hvernig sam­fé­lagið kem­ur fram við fatlaða ein­stak­linga er hinn sanni mæli­kv­arði á siðferði þjóða, það er hver um­gjörð þeirra er sem og tæki­færi. List­ir eru ein besta leiðin til þess að varpa ljósi á fjöl­breyti­leika sam­fé­lags­ins þar sem sköp­un­ar­kraft­ur fólks fær notið sín óháð bak­grunni og stöðu viðkom­andi. Það er brýnt að halda áfram að tryggja jöfn tæki­færi til list­sköp­un­ar með þeim hætti, því all­ir hafa sögu að segja. Það næmi og ein­lægni sem kem­ur fram í leik­sýn­ing­unni Fúsa á er­indi við okk­ur öll. Þetta er ein af þess­um sýn­ing­um sem fylgja manni í marga daga og láta mann ekki vera fyrr en maður tek­ur af­stöðu. Hjart­ans þakk­ir fyr­ir mig.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Staðið við bakið á Grindvíkingum

Deila grein

27/11/2023

Staðið við bakið á Grindvíkingum

Föstu­dags­kvöldið 10. nóv­em­ber 2023 mun aldrei líða Grind­vík­ing­um úr minni. Aldrei áður hafa all­ir íbú­ar heils bæj­ar­fé­lags á Íslandi fengið þau fyr­ir­mæli frá al­manna­varna­yf­ir­völd­um að þeir verði að yf­ir­gefa heim­ili sín inn­an þriggja klukku­stunda vegna yf­ir­vof­andi ógn­ar. Á þessu augna­bliki og öll­um síðan hafa all­ir Íslend­ing­ar fundið til sam­kennd­ar með Grind­vík­ing­um. Viðbrögð þjóðar­inn­ar hafa verið sterk og all­ir lagst á ár­arn­ar við að létta und­ir með Grind­vík­ing­um og eyða eft­ir megni þeirri óvissu sem rík­ir.

Grind­vík­ing­ar eru ekki heima hjá sér þessa dag­ana. Sam­fé­lag þeirra er dreift um landið en ég finn í sam­töl­um mín­um við Grind­vík­inga að hug­ur­inn er heima. Auðvitað.

Frá því að Grind­vík­ing­ar þurftu að yf­ir­gefa bæ­inn sinn hef­ur rík­is­stjórn­in lagt alla áherslu á að styðja við bæj­ar­yf­ir­völd í þeim flóknu verk­efn­um sem við blasa. Það er mik­il­vægt að for­svars­fólk sveit­ar­fé­lags­ins stjórni ferðinni þegar um bæj­ar­fé­lagið þess er að ræða. Rík­is­stjórn­in og öll stjórn­sýsla rík­is­ins er þeim til stuðnings. Það hef­ur verið aðdá­un­ar­vert að fylgj­ast með bæj­ar­stjóra og öðrum þeim sem standa í stafni sveit­ar­fé­lags­ins. Og þakk­arvert að sjá þá miklu vinnu sem viðbragðsaðilar hafa lagt af mörk­um síðustu vik­ur.

Rík­is­stjórn­in hef­ur verið í góðu sam­bandi við bæj­ar­stjóra Grinda­vík­ur um þau verk­efni sem snúa að stjórn­völd­um. Við höf­um stutt við bor­an­ir eft­ir neyslu­vatni vegna hætt­unn­ar af því að vatns­ból Suður­nesja­manna spill­ist. Við höf­um veitt all­ar þær und­anþágur sem þarf til að sveit­ar­stjórn Grinda­vík­ur starfi utan ráðhúss Grinda­vík­ur. Stærsta verk­efnið er þó ann­ars veg­ar að tryggja ör­yggi og fram­færslu og hús­næði. Að öllu þessu hef­ur verið unnið hörðum hönd­um í sam­vinnu við Grinda­vík­ur­bæ þá sól­ar­hringa sem liðnir eru frá rým­ingu.

Fyrsti þátt­ur hús­næðismál­anna var að koma öll­um Grind­vík­ing­um í ör­uggt skjól. Al­manna­varn­ir í sam­starfi við Rauða kross­inn unnu þann þátt hratt og vel. Nú hafa þau rétt keflið til rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem hef­ur lagt nótt við dag að vinna að lausn­um til næstu mánaða. Auðvitað í sam­starfi við Grind­vík­inga. Ann­ars veg­ar er unnið að því að HMS með leigu­fé­lag­inu Bríeti og íbúðafé­lag­inu Bjargi kaupi hús­næði sem get­ur hýst allt að 200 grind­vísk­ar fjöl­skyld­ur á allra næstu vik­um. Hins veg­ar er ann­ar hóp­ur sem hef­ur það hlut­verk að finna ein­inga­hús sem henta Grind­vík­ing­um og finna staðsetn­ingu þar sem slík­um hús­um er hægt að koma niður hratt og ör­ugg­lega. Von­ir standa til að slíkt ferli geti skilað því að á fyrstu mánuðum nýs árs geti Grind­vík­ing­ar flutt tíma­bundið inn í þau hús.

Af­koma fólks­ins í Grinda­vík hef­ur ásamt hús­næðismál­un­um verið í al­gjör­um for­gangi hjá rík­is­stjórn­inni. Sér­stakt frum­varp um tíma­bund­inn stuðning til greiðslu launa var lagt fyr­ir Alþingi fyrr í vik­unni og verður von­andi af­greitt sem lög í upp­hafi næstu viku. Þá var einnig samþykkt í rík­is­stjórn í gær frum­varp um sér­tæk­an hús­næðisstuðning við Grind­vík­inga.

Sam­fé­lag er meira en póst­núm­er. Það er allt skóla­starfið, fé­lags­lífið, vinnustaðirn­ir. Nú er þetta sam­fé­lag tvístrað um stund. En ekki sam­kennd­in. Það fann ég sterkt þegar ég heim­sótti miðstöð Grind­vík­inga í Toll­hús­inu fyrr í vik­unni. Þar ríkti sam­hug­ur og von um að geta snúið aft­ur heim. Heim í Grinda­vík.

Ég get ekki lofað því að næstu vik­ur og mánuðir verði auðveld­ur tími fyr­ir Grind­vík­inga. En ég get lofað því að rík­is­stjórn­in mun gera allt sem í henn­ar valdi stend­ur til að draga úr óvissu og standa vörð um Grind­vík­inga þar til þeir snúa heim.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar og innviðaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Ögurstund í verðbólguglímunni

Deila grein

27/11/2023

Ögurstund í verðbólguglímunni

Stærsta hags­muna­mál ís­lenskra heim­ila og fyr­ir­tækja í dag er að ná verðbólgu niður. Það er göm­ul saga og ný að há verðbólga bitn­ar einna helst á þeim sem síst skyldi, það er þeim efnam­inni. Fólk jafnt sem fyr­ir­tæki finna vel fyr­ir háu vaxta­stigi með til­heyr­andi áhrif­um á kaup- og fjár­fest­inga­getu sína. Það er í mín­um huga ljóst að glím­an við verðbólgu verður ekki unn­in af ein­um aðila held­ur þurfa ríki og sveit­ar­fé­lög, Seðlabanki Íslands og aðilar vinnu­markaðar­ins að leggj­ast sam­an á ár­arn­ar til þess að ná henni niður.

Verðbólguþró­un­in vara­söm en ljós við enda gang­anna

Því miður hef­ur verðbólg­an verið yfir 2,5% verðbólgu­mark­miði Seðlabanka Íslands í meira en þrjú ár. Verðbólg­an var 7,9% í októ­ber og und­ir­liggj­andi 6,3%. Um­fang hækk­ana er enn út­breitt og í októ­ber höfðu rúm­lega 40% neyslukörf­unn­ar hækkað um meira en 10% frá því á sama tíma í fyrra. Sam­kvæmt Seðlabanka Íslands hafa aðeins um 20% af neyslukörf­unni hækkað um minna en 5% frá fyrra ári. Enn er mik­il þensla á vinnu­markaði og at­vinnu­leysi minni­hátt­ar, því eru áhrif kostnaðar­hækk­ana enn sjá­an­leg. Verð inn­lendr­ar vöru hef­ur hækkað um tæp 11%. Á sama tíma hef­ur verðbólga á heimsvísu verið að drag­ast sam­an og er skýr­inga einkum að leita í lægra hrávöru- og orku­verði. Þá var ánægju­legt að sjá í grein­ingu Seðlabank­ans í síðustu Pen­inga­mál­um að auk­in verðbólga virðist ekki til­kom­in vegna hækk­andi álagn­ing­ar­hlut­falls fyr­ir­tækja.

Of háar verðbólgu- vænt­ing­ar á Ísland

Verðbólgu­vænt­ing­ar markaðsaðila til eins og tveggja ára eru 5,5% eft­ir ár en 4,2% eft­ir tvö ár. Markaðsaðilar telja að til lengri tíma verði verðbólga 4% að meðaltali næstu fimm ár og 3,5% að meðaltali. Talið er að kjöl­festa verðbólgu­vænt­inga sé veik­ari á Íslandi, sem get­ur valdið því að óvænt­ar verðhækk­an­ir hafi meiri og dýpri áhrif á verðbólgu en í ríkj­um þar sem kjöl­fest­an er meiri. Sögu­lega hef­ur verðbólga verð þrálát og veikt kjöl­fest­una.

Verðbólgu­vænt­ing­ar eru afar mik­il­væg mælistærð, þar sem þær gefa vís­bend­ingu um stig verðbólgu sem ein­stak­ling­ar, fyr­ir­tæki og fjár­fest­ar bú­ast við að sjá í næstu framtíð. Þess­ar vænt­ing­ar hafa áhrif á efna­hags­leg­ar ákv­arðanir, þ.e. eyðslu, sparnað og fjár­fest­ing­ar, og geta þannig haft af­ger­andi áhrif á raun­veru­lega verðbólgu. Inn­an hag­fræðinn­ar á þátt­ur verðbólgu­vænt­inga sér í raun ekki langa sögu, en það var ekki fyrr en á átt­unda ára­tugn­um að hag­fræðing­arn­ir Milt­on Friedm­an og Ed­mund Phelps hófu hvor í sínu lagi að vekja at­hygli á mik­il­vægi þeirra til að skilja verðbólguþróun, en fram að því hafði at­hygl­in beinst að svo­kallaðri „Phillips-kúrfu“ sem er í sinni ein­föld­ustu mynd sam­band verðbólgu og at­vinnu­leys­is. Áttundi ára­tug­ur­inn ein­kennd­ist ein­mitt af mik­illi verðbólgu og var það und­ir for­ystu Volkers seðlabanka­stjóra Banda­ríkj­anna að seðlabank­ar fóru að taka mið af verðbólgu­vænt­ing­um með það að mark­miði að ná tök­um á vænt­ing­um. Á þess­um tíma voru stýri­vext­ir í hæstu hæðum og með tím­an­um leiddi sú pen­inga­stefna ásamt kerf­is­um­bót­um á fram­boðshliðinni í hag­kerf­inu til viðvar­andi lækk­un­ar verðbólgu í flest­um þróuðum hag­kerf­um. Íslend­ing­ar voru seinni til og náðist ekki ár­ang­ur í glím­unni við verðbólgu fyrr en með þjóðarsátt­inni og í kjöl­farið kerf­is­um­bót­um í hag­kerf­inu um ára­tug síðar.

Verðbólgu­vænt­ing­ar og pen­inga­stefna

Seðlabank­ar nota verðbólgu­mark­mið, stý­ritæki bank­ans og sam­skipti við al­menn­ing til að stýra vænt­ing­um. Ef al­menn­ing­ur á von á hærri verðbólgu í framtíðinni get­ur hann brugðist við með aðgerðum sem auka á verðbólg­una, til dæm­is með því að krefjast hærri launa. Ef ein­stak­ling­ar bú­ast við að verðlag hækki er jafn­framt lík­legra að þeir eyði frek­ar nú en seinna. Á sama hátt aðlaga fyr­ir­tæki verðlags- og fjár­fest­ing­ar­ákv­arðanir sín­ar út frá vænt­ing­um um verðbólgu í framtíðinni. Verðbólgu­vænt­ing­ar hafa þannig áhrif á ákv­arðanir neyt­enda og fyr­ir­tækja. Þetta er hegðun sem eldri Íslend­ing­ar kann­ast við og má að sumu leyti líkja þeirri kaup­hegðun við viðvar­andi „svart­an föstu­dag“. Verðbólgu­vænt­ing­ar skipta því afar miklu máli við ákvörðun vaxta. Seðlabank­ar geta aðlagað vexti eft­ir því hvort þeir vilja örva efna­hags­starf­semi eða draga úr verðbólgu. Vænt­ing­ar um meiri verðbólgu í framtíðinni geta leitt til hærri nafn­vaxta, en vænt­ing­ar um lægri verðbólgu geta hins veg­ar leitt til þess að vext­ir lækki fyrr en ella.

Mark­viss hag­stjórn get­ur minnkað verðbólgu­vænt­ing­ar

Óvissa um verðbólgu­horf­ur til skamms tíma hef­ur auk­ist vegna veik­ing­ar krón­unn­ar og jarðhrær­inga á Reykja­nesi. Seðlabank­inn hef­ur áhyggj­ur af því að áhrif ný­legra kostnaðar­hækk­ana séu van­met­in, þar sem kjöl­festa verðbólgu­vænt­inga er veik.

Kjara­samn­ing­ar losna í byrj­un næsta árs og það er afar mik­il­vægt að öll hag­stjórn­in rói á sömu mið. Laun æðstu emb­ætt­is­manna hækkuðu í sum­ar um 2,5% og fyr­ir­hugaðar gjald­skrár­hækk­an­ir rík­is­valds­ins eru 3,5%. Ákveðið var að fara þessa leið til að vinna að því að minnka verðbólgu­vænt­ing­ar. Því er brýnt að fyr­ir­hugaðar gjald­skrár­hækk­an­ir sveit­ar­fé­lag­anna séu afar hóf­leg­ar til að hægt sé að vinna að lang­tíma­kjara­samn­ing­um. Ef sveit­ar­fé­lög­in fara í mikl­ar hækk­an­ir, þá fest­ast kostnaðar­hækk­an­ir í sessi og afar erfitt verður að ná niður verðbólg­unni.

Sam­stillt hag­stjórn er lyk­il­atriði fyr­ir þjóðarbúið. Sterk­ar vís­bend­ing­ar eru um að inn­lend um­svif hag­kerf­is­ins séu að kólna hratt. Einka­neysla hef­ur minnkað ásamt fjár­fest­ing­um. Jafn­vægi er einnig að nást í ut­an­rík­is­viðskipt­um á ný. Ég er sann­færð um tak­ist að sporna gegn frek­ari hækk­un­um muni nást ár­ang­ur í glím­unni við verðbólgu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Categories
Fréttir Greinar

Aðdáunarverð samstaða

Deila grein

19/11/2023

Aðdáunarverð samstaða

Við á Íslandi höf­um alltaf verið samof­in nátt­úru­öfl­un­um og upp á náð og mis­kunn móður nátt­úru. Þessa dag­ana erum við hressi­lega minnt á þá staðreynd. Á mánu­dags­kvöld voru sett lög á Alþingi um vernd mik­il­vægra innviða. Með þeim er ráðherra veitt skýr laga­heim­ild til að taka ákvörðun um nauðsyn­leg­ar fram­kvæmd­ir í þágu al­manna­varna sem miða að því að koma í veg fyr­ir að mik­il­væg­ir innviðir og aðrir al­manna­hags­mun­ir verði fyr­ir tjóni af völd­um nátt­úru­ham­fara sem tengj­ast elds­um­brot­um á Reykja­nesskaga. Um þess­ar mund­ir eru uppi afar sér­stak­ar aðstæður sem nauðsyn­legt er að bregðast hratt og ör­ugg­lega við. Gert er ráð fyr­ir að ráðherra verði heim­ilt að taka ákvörðun um til­greind­ar fram­kvæmd­ir og hrinda þeim af stað án þess að önn­ur lög tor­veldi slíka ákv­arðana­töku.

Aðgát skal höfð í nær­veru sál­ar

Við aðstæður eins og þær sem upp eru komn­ar þurfa ákv­arðanir að vera fum­laus­ar og upp­lýs­ing­ar til sam­fé­lags­ins á Reykja­nesi skýr­ar og aðgengi­leg­ar. Við þurf­um að hafa í huga í allri umræðu, hvort sem um er að ræða stjórn­völd, fjöl­miðla eða sam­skipti á öðrum op­in­ber­um vett­vangi, að aðgát skal höfð í nær­veru sál­ar. Íbúar í Grinda­vík hafa þurft að upp­lifa það að lifa í stöðugum ótta við harða jarðskjálfta með til­heyr­andi álagi á and­lega líðan og í ofanálag þurft að yf­ir­gefa heim­ili sín á inn­an við 30 mín­út­um í al­gjörri óvissu um hvað framtíðin ber í skauti sér. Viðbragðsaðilar á svæðinu eru líka marg­ir hverj­ir íbú­ar í Grinda­vík og álagið mjög mikið á þá á þess­um tím­um. Að vera fyrst­ur með frétt­irn­ar jafn­gild­ir ekki sigri í öll­um til­vik­um.

Það er afar mik­il­vægt að næstu skref sem stig­in eru séu réttu skref­in. Við þurf­um að grípa vel utan um aðstæðurn­ar sem hafa skap­ast á Reykja­nesskaga og við þurf­um að taka vel utan um fólkið. Á sama tíma þurf­um við að passa upp á gagn­sæi og að all­ar upp­lýs­ing­ar sem hlutaðeig­andi aðilar fá séu skýr­ar, því það er eng­um greiði gerður með því að hylma yfir raun­veru­lega stöðu.

Op­inn faðmur sam­fé­lags­ins

Við þetta tæki­færi er hins veg­ar ekki annað hægt en að hrósa því aðdá­un­ar­verða starfi sem átt hef­ur sér stað und­an­farna daga og vik­ur hjá viðbragðsaðilum okk­ar. Við eig­um flott fag­fólk á öll­um sviðum og höf­um ít­rekað orðið vitni að þeim standa vakt­ina við mjög krefj­andi aðstæður. Við höf­um séð það í verki hversu mik­il­vægt það er að all­ar neyðar- og viðbragðsáætlan­ir séu skýr­ar og öll vinna eft­ir þeim hef­ur verið til fyr­ir­mynd­ar.

Það hef­ur einnig verið aðdá­un­ar­vert að fylgj­ast með sam­fé­lög­um víða um land opna faðminn fyr­ir íbú­um Grinda­vík­ur, þar sem all­ir virðast vilja leggja sitt af mörk­um þegar aðstoðar er þörf. Sam­taka­mátt­ur­inn í sam­fé­lag­inu er sterk­ur þegar hætta steðjar að og þegar áföll dynja yfir. Fyr­ir það get­um við ekki verið annað en þakk­lát.

Hug­ur minn er hjá Grind­vík­ing­um og verður þar áfram. Um þess­ar mund­ir erum við öll Grind­vík­ing­ar og við mun­um halda áfram að virkja hina einu sönnu ís­lensku sam­stöðu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

40 ára garðveisla íslenskrar tónlistar á erlendri grundu

Deila grein

19/11/2023

40 ára garðveisla íslenskrar tónlistar á erlendri grundu

Á þessu ári eru liðin 40 ár frá því að fyrsta ís­lenska dæg­ur­tón­list­in náði inn á alþjóðlega vin­sældal­ista þegar Mezzof­orte náði hæst 17. sæti á breska vin­sældal­ist­an­um. Fram að þeim tíma höfðu verið gerðar marg­vís­leg­ar til­raun­ir til að afla vin­sælda á er­lendri grundu. Á lýðveld­is­tím­an­um hef­ur orðið mik­il þróun á ís­lenskri dæg­ur­tónlist. Gunn­ar Hjálm­ars­son hef­ur gert þess­ari sögu ágæt skil í bók­um sín­um og sjón­varpsþátt­um þeim tengd­um. Ein­hverj­ir ís­lensk­ir tón­list­ar­menn náðu að ferðast um og flytja tónlist sína á Norður­lönd­un­um og Norður-Evr­ópu á sjötta og sjö­unda ára­tugn­um, þ. á m. Ragn­ar Bjarna­son, Hauk­ur Mort­hens og KK-sex­t­ett­inn. Þessi út­rás var ekki ein­ung­is karllæg, þar sem upp úr miðjum sjötta ára­tugn­um fór laga­smiður­inn og söng­kon­an Ingi­björg Þor­bergs til Banda­ríkj­anna með lög sín. Aðrar til­raun­ir til út­rás­ar voru gerðar á sjötta og sjö­unda ára­tugn­um og þekkt­ustu dæmi þess lík­lega Thor’s Hammers og Change í Bretlandi. Það var þó ekki fyrr en með djass­blend­inni tónlist Mezzof­orte árið 1983 að ís­lensk tónlist náði eyr­um er­lenda hlust­enda og sautjánda sæt­inu á breska vin­sældal­ist­an­um. Það leið síðan ekki á löngu þar til Syk­ur­mol­arn­ir fylgdu þessu eft­ir árið 1987 og náðu mikl­um vin­sæld­um beggja vegna Atlantsála og hin ein­staka Björk kom þar síðan í beinu fram­haldi.

Við eig­um frá­bæra tón­list­ar­menn á Íslandi og tónlist þeirra stend­ur fyr­ir sínu, en það gleym­ist stund­um að horfa til vinn­unn­ar baksviðs við að koma tón­list­inni á fram­færi og hafa marg­ir í gegn­um tíðina unnið öt­ul­lega að því með ágæt­um ár­angri. Hið op­in­bera hef­ur stutt við út­rás ís­lenskr­ar tón­list­ar með marg­vís­leg­um hætti frá ár­inu 1995. Í ný­stofnaðri Tón­list­armiðstöð hef­ur öll­um öng­um tón­list­ar verið safnað sam­an und­ir einn hatt og er þar meðal ann­ars að finna Útón, sem stutt hef­ur við kynn­ingu ís­lenskr­ar tón­list­ar á er­lendri grund frá ár­inu 2006.

Frá þeim tíma að Mezzof­orte náði inn á vin­sældal­ista er­lend­is hef­ur fjöldi ís­lenskra dæg­ur­tón­list­ar­manna náð fót­festu er­lend­is og má þar meðal ann­ars nefna Syk­ur­mola, Björk, Em­ilíönu Torr­ini, Sig­ur­rós, Gusgus, Jó­hann Jó­hanns­son, OMAM, Kal­eo, Hildi Guðna­dótt­ur, ADHD, Vík­ing Heiðar, Ásgeir Trausta, Ólaf Arn­alds, Ásdísi, Daða Frey og nú síðast Lauf­eyju. Það sem vek­ur at­hygli er fjöl­breytn­in í þess­um hópi lista­manna og seg­ir það til um þá miklu gerj­un sem er að finna í tón­list­ar­líf­inu á Íslandi. Í þeim efn­um ber sér­stak­lega að minn­ast á fram­lag þeirra tón­list­ar­manna sem kosið hafa að starfa ein­ung­is inn­an­lands. Ef litið er til þessa hóps vek­ur styrk­ur kvenna jafn­framt at­hygli.

Við til­nefn­ingu til Grammy-verðlauna fyrr í þess­um mánuði kom fram að tveir ís­lensk­ir lista­menn auk Sin­fón­íu Nord á Ak­ur­eyri voru til­nefnd­ir til verðlauna, sem eru auðvitað frá­bær­ar frétt­ir, en þykir í raun ekki leng­ur mikið til­töku­mál þar sem nokk­ur hóp­ur ís­lenskra lista­manna hef­ur áður fengið til­nefn­ing­ar og jafn­vel hreppt verðlaun. Það seg­ir jafn­framt ým­is­legt að ef ein­ung­is er horft til streym­isveit­unn­ar Spotify nálg­ast fimm efstu ís­lensku lista­menn­irn­ir nærri 40 millj­ón­ir mánaðarlegra hlust­enda. Það er ekki slæm­ur ár­ang­ur á 40 árum fyr­ir þjóð sem nú tel­ur 400 þúsund manns.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Er þetta málið?

Deila grein

16/11/2023

Er þetta málið?

Nú er vika íslenskunnar. Markmið með henni er að auka umræðu um málefni íslenskrar tungu og fagna því sem vel er gert í þágu tungumálsins. Við fögnum degi íslenskrar tungu í 28. skipti og munu hátíðarhöldin að þessu sinni fara fram í nýju húsi íslenskunnar – Eddu. Mörgu er að fagna en að þessu sinni er vika íslenskunnar einnig nýtt til þess að vekja máls á þróun tungumálsins og sýni- og heyranleika þess og höfum við þegar fengið frekar hressileg viðbrögð við þeirri vitundarvakningu. Markmið hennar er að spyrja hvar við viljum draga mörkin varðandi áhrif enskunnar í okkar daglega umhverfi. Ætlar Jón Johnsson að halda concert á Eagle Hill á næstu Culture Night?

Hið sjálfsagða mál

Þeim fjölgar ört sem benda á fáránleika þess að auglýsingum og markaðsefni á ensku sé beint að íslenskumælandi neytendum, að þjónusta sé ekki í boði á íslensku og að almannarými séu uppfull af skilaboðum á ensku og íslenskan þar í öðru sæti eða hreint ekki sýnileg. Ég hef sagt að við þurfum alvöru viðhorfsbreytingu gagnvart tungumálinu okkar – það er stórt samfélagslegt verkefni að vinda ofan af þeirri misskildu þjónustulund sem hefur orðið til þess að enska er álitin sjálfsagt mál svo víða í samfélaginu. Ég fagna öllum sem vilja leggjast á sveif með okkur í því verkefni að auka sýni- og heyranleika tungumálsins, þar á meðal fulltrúum Samtaka ferðaþjónustunnar sem á dögunum stigu fram og lýstu yfir vilja til að stíga inn af krafti í það verkefni að vinna gegn þýðingu íslenskra örnefna yfir á ensku. Íslenska á alls staðarað vera sýni­legá opinberum vettvangiog upplýsingar alltaf aðgengilegar á íslensku. Þótt enska og önnur mál geti víða þurft að vera áberandi á það ekki að vera á kostnað íslensku.

Aðgerða er þörf

Við vitum að það er langtímaverkefni að tryggja verndun og þróun íslenskrar tungu. Það er samfélagslegt verkefni sem við náum árangri í með fjölþættum aðgerðum og breiðri samvinnu. Að vinna að framgangi íslenskunnar og tryggja stöðu hennar í heimi örra tæknibreytinga og fólksflutninga er samvinnuverkefni sem kallar ótal hendur til góðra verka. Unnið hefur verið að mótun aðgerða í þágu tungumálsins á vettvangi þeirra fimm ráðuneyta sem aðkomu eiga að ráðherranefnd um málefni íslenskrar tungu. Nefndin var sett á laggirnar að frumkvæði forsætisráðherra í nóvember í fyrra og á næstu dögum mun ég leggja fram þingsályktunartillögu um sameiginlega aðgerðaáætlun sem telur alls 19 aðgerðir. Aðgerðirnar snerta flest svið samfélagsins og eru misumfangsmiklar en í þeim er meðal annars lögð áhersla á málefni íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur og aukið samstarf við atvinnulífið og þriðja geirann. Sumar aðgerðanna fela í sér umfangsmiklar kerfisbreytingar en áætlunin hefur tengsl við mörg önnur áhersluverkefni stjórnvalda sem unnið er að í samstarfi ráðuneyta og stofnana, þar á meðal stefnumótun í málefnum innflytjenda og flóttafólks, menntastefnu 2030, heildarendurskoðun framhaldsfræðslukerfisins og aðgerðaáætlun ferðaþjónustu til 2030.

„Sorry með allar þessar slettur“

Við getum öll gert betur. Ég viðurkenni fúslega að ég er ekki barnanna best þegar kemur að enskuskotnu málfari. Þetta er mjög lúmsk þróun. Slettur hafa vitanlega verið hluti af tungumálinu og sögulega höfum við aðlagað heilmikið af slettum og gert þær að hluta af okkar orðaforða, en þegar fólk – og þá er ég ekki síst að hugsa um börnin – fer að hugsa, skapa og leika sér á öðru tungumáli en sínu eigin móðurmáli verðum við að staldra við.

Tungumál eru mikilvægustu verkfæri hvers samfélags – án þess eru engin samskipti. Við eigum íslenskuna – notum hana, hún er málið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Um vernd mikil­vægra inn­viða

Deila grein

16/11/2023

Um vernd mikil­vægra inn­viða

Þeirri spurningu hefur verið velt upp að undanförnu hvort einkafyrirtækin HS Orka og Bláa lónið eigi að greiða fyrir varnargarða vegna mögulegrar náttúruvár. Því miður hefur í gegnum tíðina heyrst svipuð umræða varðandi uppbyggingu snjóflóðavarnargarða en sem betur fer hefur mér að vitandi ekki verið lagt til að einstaka fyrirtæki greiði þann kostnað ef þau njóta verndar þeirra mannvirkja.

Varnargarðar á Reykjanesi eru hugsaðir til varnar mikilvægum innviðum og almannahagsmunum. Leiðargarður fyrir Orkuverið í Svartsengi er hannaður á hæsta punkt í landslagi. Svo vill til að Bláa lónið fellur þar innan. Önnur fyrirtæki sem hafa starfsemi í Orkugarðinum eru til dæmis ekki innan varnargarðs. Tilgangur garðsins er að verja þá strauma sem koma frá orkuverinu og eru íbúum nauðsynlegir.

Alvarleiki aðstæðna

Nú er komin upp sú staða að eitt öflugasta sveitarfélag landsins er óstarfhæft um óákveðinn tíma. Sú staða að 3.700 íbúar eru á flótta í eigin landi og náttúruvá ógnar lífsviðurværi íbúa á Suðurnesjum sem telur nú um 30.000 manns er staðreynd.

Ef starfsemi í orkuverinu í Svartsengi lamast, er ekkert kalt vatn, ekkert heitt vatn og mjög takmarkað rafmagn á Suðurnesjum. Margt er undir í þeim grafalvarlega atburði og má þar sem dæmi nefna skóla, heilbrigðisstofnanir, varnarmannvirki, alþjóðaflugvöll, hafnir og aðrar stofnanir, þó einhver starfsemi verði með varaafl til skemmri tíma. Án þessara nauðsynja kæmi upp mjög alvarlegt almannavarnarástand á svæðinu í heild, ofan í það alvarlega ástand sem nú þegar er komið upp hjá íbúum í Grindavík.

Veitufyrirtækið HS veitur, sem er í meirihlutaeigu sveitarfélaga, veitir heitu vatni, köldu vatni og rafmagni til Suðurnesjamanna. Eins og gefur að skilja verður sú þjónusta mjög takmörkuð ef eitt stærsta orkuver landsins er úti.

Öxlum ábyrgð

Til samanburðar má nefna að Ofanflóðasjóður fjármagnar fyrst og fremst forvarnaraðgerðir gegn ofanflóðum og er talsverð reynsla komin á þá vinnu í gegnum tíðina. Þó er enn verið að vinna að ákveðnum breytingum á sjóðnum. Í lok ágúst samþykkti ríkisstjórnin að vinna frumvarp um að útvíkka hlutverk Ofanflóðasjóðs þannig að hann kosti einnig varnir gegn ofanflóðum á atvinnusvæðum.

Þá var samþykkt tillaga um að flýta upphafi framkvæmda við ofanflóðavarnir í Neskaupstað og hraða vinnu sem nú er í gangi við ofanflóðavarnir á Seyðisfirði. Aldrei hef ég heyrt neinar mótbárur gegn þessum hugmyndum enda grunar mig að allir séu sammála um að þær séu samfélaginu öllu gríðarlega mikilvægar.

Ég hef nefnt þá skoðun mína að nauðsynlegt sé að stofna hér á landi Náttúruvársjóð sem sameinar hlutverk Ofanflóðasjóðs og Náttúruhamfaratrygginga og tæki til varna gegn ofanflóðum (skriðum og snjóflóðum), jarðhræringum (jarðskjálftum og eldgosum) og flóðavörnum (sjávarflóðum og flóðum í ám og vötnum). Sú hugmynd að einstaka fyrirtæki falli ekki undir varnir eða væri gert að sinna þeim á eigin kostnað er í besta falli fjarstæðukennd. Þess má geta að lífeyrissjóðir landsins eiga stóra hluti bæði í Bláa lóninu og HS Orku en það er í mínum huga aukaatriði. Í umræðu um frumvarp um Vernd mikilvægra innviða á Alþingi kom hvergi fram að einstaka fyrirtæki ættu að vera undanskilin þeirri vernd þó svo ekki hafi verið einhugur um útfærslu forvarnargjalds í frumvarpinu. Það var því táknrænt og gleðilegt þegar þingmenn samþykktu frumvarpið einróma. Saman verðum við að axla ábyrgð og reyna eftir fremsta megni að lágmarka tjón af völdum náttúruhamfara, sé þess einhver kostur.

Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Nýtum hagkvæma kosti

Deila grein

11/11/2023

Nýtum hagkvæma kosti

Í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar seg­ir að Ísland eigi að vera í far­ar­broddi í um­hverf­is­mál­um á alþjóðavísu. Stjórn­valda bíður verðugt verk­efni við að sjá til þess að orkuþörf sam­fé­lags­ins sé upp­fyllt á sama tíma og við ætl­um okk­ur að draga úr gróður­húsaloft­teg­und­um. Stefna stjórn­valda er að hætta al­farið notk­un jarðefna­eldsneyt­is og nýta þess í stað græna orku. Orku­skipti eru rík­ur þátt­ur í fram­lagi Íslands til að ná ár­angri í bar­átt­unni við lofts­lags­vá. En svo þeim mark­miðum sé náð verðum við að tryggja aðgang að grænni orku með sjálf­bæra þróun að leiðarljósi.

Stækk­un smá­virkj­ana

Af þessu til­efni hef­ur und­ir­rituð lagt fram skýrslu­beiðni þar sem um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra er falið að greina hvaða smá­virkj­an­ir á Íslandi á þegar röskuðum svæðum þoli stækk­un. Und­ir­rituð tel­ur þetta vera skyn­sam­lega leið til þess að greina hvar sé mögu­legt með ein­föld­um hætti að ná í orku án þess að fjölga virkj­un­um. Það ligg­ur fyr­ir að auka þarf fram­boð á inn­lendri, end­ur­nýj­an­legri orku svo hægt sé að leysa af hólmi aðflutta orku­gjafa líkt og olíu. Staðreynd­in er sú að um þess­ar mund­ir er orku­vinnslu­kerfi lands­ins full­nýtt og skort­ur á orku er far­inn að valda vanda. Sam­kvæmt raf­orku­spá Landsnets munu orku­skipt­in kalla á aukna eft­ir­spurn eft­ir raf­orku í takt við að þau munu raun­ger­ast ásamt því að raf­orku­notk­un heim­ila og þjón­ustuaðila mun halda áfram að aukast í takt við auk­inn fólks­fjölda. Þá er einnig gert ráð fyr­ir að þörf at­vinnu­lífs­ins fyr­ir aukna raf­orku muni halda áfram að þró­ast í svipuðum takt og verið hef­ur. Sam­kvæmt spánni er því fyr­ir­sjá­an­legt að aflskort­ur verði viðvar­andi og því þörf á að bregðast hratt við og mæta vax­andi þörf fyr­ir raf­orku.

Skyn­sam­leg nýt­ing

Smá­virkj­an­ir eru mik­il­væg­ar til þess að styrkja dreifi­kerfi raf­orku um landið en allt að fimmt­ung­ur allr­ar raf­orku sem RARIK dreif­ir til viðskipta­vina kem­ur frá smá­virkj­un­um um landið. Smá­virkj­an­ir stuðla ekki bara að auknu orku­ör­yggi lands­ins held­ur geta þær einnig verið mik­il­væg­ur þátt­ur í að tryggja vaxt­ar­mögu­leika lands­byggðar­inn­ar. Sam­kvæmt grein­ing­ar­vinnu Orku­stofn­un­ar á smá­virkj­un­ar­kost­um eru fjöl­marg­ir virkj­un­ar­kost­ir til staðar með sam­an­lagða afl­getu yfir 2.500 MW. Ein­hverj­ar af þess­um smá­virkj­un­um búa þó yfir tæki­fær­um til að auka fram­leiðslu­getu sína enn frek­ar og því mik­il­vægt að skoða þann mögu­leika með þeim fyr­ir­vara að það hafi ekki um­framá­hrif á um­hverfið.

Í ljósi þeirr­ar al­var­legu stöðu sem upp er kom­in í orku­mál­um þjóðar­inn­ar tel­ur und­ir­rituð mik­il­vægt að end­ur­skoða lög um vernd­ar- og ork­u­nýt­ingaráætl­un nr. 48/​2011 og legg­ur því til að um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra, í kjöl­farið á grein­ing­ar­vinnu um mögu­leg­ar stækk­an­ir smá­virkj­ana, leggi fram frum­varp með það að mark­miði að nýta bet­ur þá orku sem hægt er að afla með virkj­un­um á þegar röskuðum svæðum og þola stækk­un um­fram 10 MW. Þannig má tryggja skyn­sam­lega nýt­ingu á sama tíma og vernd er tryggð á öðrum svæðum. Sú sem hér skrif­ar tel­ur þó jafn­framt afar mik­il­vægt að smá­virkj­an­ir sem færu yfir 10 MW lytu lög­um um um­hverf­is­mat fram­kvæmda nr. 111/​2021 og öðrum lög­um sem gilda um slík­ar fram­kvæmd­ir. Staðreynd­in er sú að lang­an tíma tek­ur að virkja nýja orku­kosti, lang­tíma­áætlan­ir þurfa því að gera ráð fyr­ir orku­kost­um til að mæta framtíðarþörf­um og auka þannig fyr­ir­sjá­an­leika og stöðug­leika. Með því að fjár­festa í grænni orku og til­einka okk­ur nýja tækni get­um við hjálpað til við að tryggja orku­framtíð okk­ar og tryggja að við leggj­um okk­ar af mörk­um til að vernda jörðina fyr­ir kom­andi kyn­slóðir.

Inigbjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. nóvember 2023.