Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, ræddi aðgerðir stjórnvalda vegna læknisþjónustu á landsbyggðinni í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi. Sagði hún áhyggjur sínar snúa að mönnun og ekki síst í Suðurkjördæmi. „Við erum ekki bara að tala um íbúana á svæðinu heldur erum við að tala um að um 80% af ferðamönnum sem koma til Íslands fara um það kjördæmi. Við vitum öll að læknisþjónusta er forsenda góðra búsetuskilyrða. Hún er lykilþáttur í því hvort við ákveðum að flytja út á land. Hún er lykilþáttur í því að atvinnulíf geti blómstrað á ólíkum sviðum.“
„Ef við hugsum bara öll sem erum hér í þessum þingsal þá áttum við okkur á því að staðan var ekki alltaf svona. Förum aðeins og skoðum hvernig þetta var þegar héraðsskyldan var. Skoðum aðeins þegar læknabústaðirnir voru og hétu, þessir hvatar og skyldur sem voru til áður fyrr, og gerðu það að verkum að staðan var allt önnur en núna.
Ég beini því þessum spurningum til hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvaða aðgerðapakka, hvaða hvata ætlið þið að fara í strax? Hvert er planið í þessum málum?“
Sjá nánar: Aðgerðir stjórnvalda vegna læknisþjónustu á landsbyggðinni.
Ræða Höllur Hrundar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Mig langar að fara yfir mál sem ég veit að hvílir á mörgum en það er læknisþjónusta á landsbyggðinni. Ég hef verulegar áhyggjur af því máli, ekki síst í Suðurkjördæmi þar sem við sjáum að það vantar upp á mönnun. Og ekki bara það. Við erum ekki bara að tala um íbúana á svæðinu heldur erum við að tala um að um 80% af ferðamönnum sem koma til Íslands fara um það kjördæmi. Við vitum öll að læknisþjónusta er forsenda góðra búsetuskilyrða. Hún er lykilþáttur í því hvort við ákveðum að flytja út á land. Hún er lykilþáttur í því að atvinnulíf geti blómstrað á ólíkum sviðum. Ég veit til þess að nýverið hafa komið til hæstv. heilbrigðisráðherra áskoranir frá ýmsum varðandi læknisþjónustu í Rangárvallasýslu. Við vitum að það er einn læknir á Höfn, það eru verktakar í Vík, það er enginn læknir á Kirkjubæjarklaustri, þannig að ástandið er alvarlegt. Það þarf ekkert að fara svo langt aftur í tímann. Ef við hugsum bara öll sem erum hér í þessum þingsal þá áttum við okkur á því að staðan var ekki alltaf svona. Förum aðeins og skoðum hvernig þetta var þegar héraðsskyldan var. Skoðum aðeins þegar læknabústaðirnir voru og hétu, þessir hvatar og skyldur sem voru til áður fyrr, og gerðu það að verkum að staðan var allt önnur en núna.
Ég beini því þessum spurningum til hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvaða aðgerðapakka, hvaða hvata ætlið þið að fara í strax? Hvert er planið í þessum málum?“

17/02/2025
Ósanngjörn byrði á landsbyggðarfólkAðgengi að heilbrigðisþjónustu er einn af hornsteinum íslensks velferðarkerfis og á að vera réttur allra landsmanna, óháð búsetu og efnahag. Þrátt fyrir að Ísland státi af öflugu heilbrigðiskerfi, standa íbúar landsbyggðarinnar enn frammi fyrir hindrunum sem borgarbúar þurfa ekki að takast á við. Ein af þessum hindrunum er ferðakostnaður við að sækja sér sérhæfða heilbrigðisþjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð. Sú staðreynd að ferðum einstaklinga hefur verið fjölgað úr tveimur í fjórar á síðasta kjörtímabili er mikið fagnaðarskref, en enn er verk að vinna til að tryggja raunverulegt jafnrétti í aðgengi að heilbrigðisþjónustu.
Ófullnægjandi fyrirkomulag
Einstaklingar á landsbyggðinni sem þurfa að ferðast til Reykjavíkur til að sækja sér heilbrigðisþjónustu eiga rétt á endurgreiðslu ferðakostnaðar gegn framvísun staðfestingar á læknisheimsókn. Þrátt fyrir að þetta úrræði sé mikilvægt, hefur komið í ljós að það er ekki alltaf sanngjarnt eða réttlátt. Tilvik hafa komið upp þar sem einstaklingar hafa ferðast langar vegalengdir í góðri trú, en læknistímar þeirra hafa verið afbókaðir með skömmum fyrirvara af hálfu heilbrigðisstofnana. Í slíkum tilfellum eru sjúklingar ekki einungis sviptir nauðsynlegri læknisþjónustu, heldur einnig réttinum til endurgreiðslu á ferðakostnaði.
Kostnaður vegna þjónustu sem ekki er veitt
Slíkt fyrirkomulag er ekki aðeins ósanngjarnt heldur veldur það fjárhagslegum kostnaði fyrir viðkomandi einstaklinga. Ferðakostnaður, gisting og annar tilfallandi kostnaður getur verið umtalsverður, sérstaklega fyrir þá sem eru tekjulágir eða búa á afskekktum svæðum. Þegar einstaklingur hefur þegar lagt í för og læknistíminn fellur niður af ástæðum sem hann sjálfur ræður ekki við, er ekki réttlátt að hann beri kostnaðinn.
Til að tryggja sanngjarnara og réttlátara kerfi er nauðsynlegt að sjúklingar fái ferðakostnað endurgreiddan jafnvel þótt læknistími þeirra falli niður af hálfu heilbrigðisstofnana. Með því væri dregið úr fjárhagslegum áhyggjum sjúklinga og tryggt að landsbyggðarfólk hafi raunverulegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu á sömu eða amk. svipuðum forsendum og íbúar höfuðborgarsvæðisins. Það er réttlætismál að sjúklingar sem þurfa að ferðast langar vegalengdir til að fá nauðsynlega meðferð njóti sanngjarnari meðferðar í endurgreiðslukerfinu.
Undirrituð vinnur að málinu
Undirrituð vinnur nú að framlagningu máls á Alþingi þar sem lagðar verða til breytingar á núverandi reglum um ferðakostnað sjúklinga. Markmiðið er að tryggja að þeir sem lenda í þeirri stöðu að læknistímar þeirra falli niður af ástæðum sem þeir ráða ekki við, eigi samt rétt á endurgreiðslu ferðakostnaðar.
Þessi breyting yrði mikilvægt skref í átt að raunverulegu jafnrétti innan heilbrigðiskerfisins og myndi stuðla að því að allir landsmenn njóti sama aðgengis að nauðsynlegri læknisþjónustu, óháð búsetu þeirra. Jafnrétti til heilbrigðisþjónustu má ekki einungis vera markmið á pappír – það verður að endurspeglast í framkvæmd kerfisins.
Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst á visir.is 17. febrúar 2025.

16/02/2025
Skattahækkanir, miðstýring og ESB-þráhyggjaEitt helsta einkenni núverandi ríkisstjórnar undir forystu Kristrúnar Frostadóttur er sterk tilhneiging til miðstýringar. Það er áhyggjuefni hvernig ríkisafskipti eru að aukast á mörgum sviðum án þess að nægur sveigjanleiki sé til staðar fyrir frumkvæði í atvinnulífinu og einkarekstri. Sósíaldemókratísk stefna leggur of oft áherslu á lausnir þar sem ríkið á að sjá um allt, frekar en að skapa skilyrði fyrir heilbrigða samkeppni og sjálfbærar lausnir.
Framsókn hefur alla tíð talað fyrir jafnvægi milli ríkis og einkageirans – ríkið á ekki að kæfa frumkvæði með of miklum höftum og reglugerðum heldur styðja við fólk og fyrirtæki með skynsamlegum hætti. Þegar horft er til efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar virðist skorta þessa skynsemi og sveigjanleika.
Landsbyggðin gleymd
Eins og svo oft áður virðist áhersla ríkisstjórnarinnar fyrst og fremst liggja á Höfuðborgarsvæðinu, en hvað með landsbyggðina? Það er lítið sem ekkert sem bendir til þess að stjórnin hafi metnað fyrir raunverulegum aðgerðum til að styrkja byggðir utan höfuðborgarsvæðisins.
Það er grundvallaratriði að tryggja sterkar byggðir um allt land með öflugri atvinnustefnu, góðri innviðaþróun og hagstæðum skattaívilnunum fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Í staðinn virðist stefna ríkisstjórnarinnar fara í öfuga átt – áframhaldandi höfuðborgarmiðaðar aðgerðir sem gera lítið fyrir lífsskilyrði og framtíð fólks á landsbyggðinni.
Við í Framsókn teljum að byggðastefna verði að vera öflug og markviss, ekki eitthvað sem ríkisstjórnin tekur upp í orði en ekki á borði. Það þarf að tryggja atvinnutækifæri, byggja upp samgöngur og huga að framtíðarsýn sem felur ekki bara í sér borg og miðstýrt kerfi, heldur einnig samfélög um allt land.
Alþjóðastefna sem hættir að vinna gegn íslenskum hagsmunum
Kristrún Frostadóttir hefur talað um nauðsyn þess að treysta alþjóðasamstarf og efla samskipti við Evrópusambandið. Þó samstarf við önnur ríki sé mikilvægt, má það ekki ganga gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar.
Það virðist þó vera stefna ríkisstjórnarinnar að færa okkur nær Evrópusambandinu með skrefum sem veita erlendum stofnunum meira vald yfir okkar innlendum málefnum. Sérstaklega eru áhyggjur varðandi sjávarútveg og landbúnað, þar sem Íslendingar þurfa að hafa full yfirráð yfir eigin auðlindum. Framsókn hefur ávallt verið skýr í því að sjálfstæði Íslands í þessum málum er ósveigjanlegt grundvallaratriði.
Við verðum að gæta þess að stefna í alþjóðamálum sé í þágu okkar eigin fólks og atvinnuvega, en ekki hluti af óraunhæfri hugmyndafræði sem setur hagsmuni Íslendinga í annað sæti.
Sjálfbærar efnahagsaðgerðir – ekki skattahækkanir
Ein stærsta gagnrýni sem hægt er að færa á ríkisstjórn Kristrúnar er skortur á sjálfbærni í efnahagsmálum. Í stað þess að beita markvissum lausnum til að örva hagvöxt og auka framleiðni, virðist stjórnin líta til skattahækkana sem aðalúrræðisins til að fjármagna loforð sín.
Sósíaldemókratísk stefna gengur of oft út á að hækka álögur á fyrirtæki og einstaklinga, án þess að huga nægilega að langtímaafleiðingum þess fyrir hagkerfið. Ef við viljum tryggja velferðarkerfi sem stendur undir sér til framtíðar, þarf skynsamlega fjármálastjórn og stuðning við atvinnulíf, ekki stefnulausa skattahækkanastefnu sem dregur úr hvata til fjárfestinga og nýsköpunar.
Tími til að stjórna af raunsæi – ekki hugmyndafræðilegum kreddum
Að lokum má segja að stærsta vandamálið við ríkisstjórn Kristrúnar sé skortur á raunverulegri pragmatískri nálgun. Þegar stjórnmál eru drifin áfram af hugmyndafræðilegum forsendum sem kallast í þessi tilfelli plan Samfylkingarinnar verður stjórnin óraunsæ og lausnamiðuð nálgun víkur fyrir flokkspólitískum markmiðum.
Framsókn hefur alltaf verið flokkur sem leggur áherslu á skynsamlegar, hagnýtar lausnir, fyrir ísland allt. Við þurfum ríkisstjórn sem hugsar um heildarhagsmuni landsins, ekki einungis um hvernig hægt sé að framkvæma sósíaldemókratíska stefnu án þess að horfa til raunveruleikans.
Það er sú nálgun sem Framsókn stendur fyrir, og það er sú nálgun sem Ísland þarf.
Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.
Greinin birtist fyrst á visir.is 15. febrúar 2025.

15/02/2025
Ríkisstjórn sem sameinar eða sundrar?Við upphaf nýs kjörtímabils standa vonir margra til þess að stjórnmálin verði afl sameiningar frekar en sundrungar. Þjóðin þarf á samstöðu að halda, ekki síst á tímum efnahagslegra áskorana og aukinnar óvissu í alþjóðamálum. Hins vegar vekur það áhyggjur að ný ríkisstjórn sýnir engan skýran vilja til slíkrar sameiningar, ef marka má stefnuræðu forsætisráðherra.
Húsnæðismál í forgangi
Forgangsmál Framsóknar nú við upphaf þings er þingmál um 25 ára óverðtryggð lán á föstum vöxtum. Sú leið sem við höfum lagt til, og byggir á vinnu sem sett var af stað í minni tíð í fjármálaráðuneytinu, hefur vakið athygli enda um mikla kjarabót að ræða fyrir íslensk heimili. Það er mjög mikilvægt fyrir lántakendur að hafa öryggi og fyrirsjáanleika við afborganir húsnæðislána og nái þessi áform fram að ganga mun það tryggja betri lánakjör með bættum hag fyrir heimilin.
Uppbygging leiguhúsnæðis
Við í Framsókn munum líka styðja við aukna uppbyggingu leiguhúsnæðis í samstarfi við óhagnaðardrifin leigufélög. Það er fagnaðarefni að ný ríkisstjórn ætli að halda áfram á þeirri braut sem við í Framsókn höfum markað og nú hefur verið veittur stuðningur til byggingar 4.000 íbúða í samstarfi við óhagnaðardrifin leigufélög. Við þurfum með þessum hætti að stuðla að fjölbreyttari og hagkvæmari valkostum á leigumarkaði. Um 1.000 fjölskyldur hafa eignast sitt eigið húsnæði með tilkomu hlutdeildarlána en áfram þarf að efla þetta úrræði og tryggja að það gagnist sem flestum. Með þessum aðgerðum í húsnæðismálum getum við stuðlað að auknu húsnæðisöryggi og aukið lífsgæði fólks.
Forgangur heimila og smærri fyrirtækja að raforku
Annað forgangsmál Framsóknar er tillaga um forgang heimila og lítilla og meðalstórra fyrirtækja að raforku. Um leið er mikilvægt að innleiða verðvernd og stuðla þannig að hagkvæmu orkuverði til handa heimilum og atvinnulífi. Reynsla annarra þjóða, t.d. Norðmanna, þar sem raforkukostnaður rauk upp er víti til varnaðar.
Atvinna og verðmætasköpun
Sterkt atvinnulíf er undirstaða góðra lífskjara. Atvinnuleysi á Íslandi er lágt í samanburði við önnur lönd en ný ríkisstjórn sýnir litla framtíðarsýn í atvinnumálum, sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins. Það vekur einnig áhyggjur að fyrirhugaðar skattahækkanir á sjávarútveginn muni bitna sérstaklega á minni og meðalstórum fjölskyldufyrirtækjum, sem getur leitt til enn frekari samþjöppunar í greininni.
Hvað verður um íslenskan landbúnað?
Óljós stefna ríkisstjórnarinnar í landbúnaðarmálum veldur einnig áhyggjum. Á að svipta bændur rétti sínum til að reka eigin fyrirtæki á sama tíma og erlendir bændur njóta slíks réttar? Er verið að hygla stórum innflutningsaðilum á kostnað íslenskrar matvælaframleiðslu? Í heimi þar sem fæðuöryggi verður sífellt mikilvægara ætti ríkisstjórnin að leggja áherslu á að styrkja íslenskan landbúnað í stað þess að veikja hann.
Ómarkviss stefna í ferðaþjónustu
Ferðaþjónustan er mikilvæg atvinnugrein fyrir Ísland og hefur skapað fjölmörg störf og mikil verðmæti. Samkeppnishæfni greinarinnar er hins vegar viðkvæm og því vekur það furðu að ríkisstjórnin sé að hringla með óljósar skattheimtuhugmyndir sem geta skaðað greinina. Stöðugleiki og skýr stefna eru lykilatriði til að tryggja áframhaldandi vöxt ferðaþjónustunnar, en af umræðunni að dæma virðist ríkisstjórnin ekki hafa neina skýra sýn um framtíð hennar.
Þögnin um þjóðaratkvæði
Eitt það athyglisverðasta við stefnuræðu forsætisráðherra var hvað ósagt var látið. Engin umræða fór fram um mögulega þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu, þrátt fyrir að Samfylkingin og Viðreisn hafi lagt mikla áherslu á málið. Enn meira kemur á óvart að Flokkur fólksins hafi skipt um stefnu í málinu og veiti nú slíkum hugmyndum stuðning. Raunar virðast fá stefnumál flokksins, sem kynnt voru svo myndarlega í aðdraganda kosninga, hafa hlotið brautargengi.
Ábyrgð ríkisstjórnarinnar
Það eru vissulega tækifæri til staðar í íslensku samfélagi. En til að nýta þau þarf ríkisstjórn sem sameinar þjóðina í stað þess að sundra henni. Við í Framsókn erum tilbúin að vinna að uppbyggingu samfélagsins og vinna saman að góðum málum. En við munum einnig veita ríkisstjórninni nauðsynlegt aðhald þar sem þess gerist þörf. Það er ekki nóg að tala um framtíðarsýn – það þarf að framkvæma. Við þurfum stefnu sem tekur tillit til alls landsins, ekki stefnu sem veikir landsbyggðina, skaðar atvinnulífið og vanrækir mikilvæg mál á borð við atvinnu, innviði og fæðuöryggi.
Sigurur Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. febrúar 2025.

14/02/2025
Tek hatt minn ofan fyrir Einari borgarstjóraEinar Þorsteinsson borgarstjóri hefur nú sýnt að hann er flestum stjórnmálamönnum fremri, sannfæring ræður för. Hann hikar ekki við að fórna starfi og stundarframa þegar ekkert miðar í þeim áformum sem hann og flokkur hans hétu Reykvíkingum og þjóðinni í málefnum höfuðborgarinnar. Stærst vegur þar sú ábyrgð að standa með lífinu, frammi fyrir þeirri lífshættu sem flugáhöfnum og farþegum er búinn á Reykjavíkurflugvelli. Þar vegur þyngst sjúkraflug með fólk í lífsáhættu þar sem ekki mínútur heldur sekúndur skipta máli. Takið eftir, oft er eins og flugvöllurinn í Vatnsmýrinni sé bara sjúkraflugvöllur landsbyggðarfólks. Reykvíkingarnir og höfuðborgarbúarnir skipta þúsundum sem eiga flugvellinum líf sitt eða ástvinar síns að launa.
Það er mikil sorgarsaga hvernig stjórnmálamenn hafa látið leiða sig út í hvert óhæfuverkið eftir annað til að slátra Reykjavíkurflugvelli með heimskulegum aðgerðum. Þrengja miskunnarlaust að flugvellinum eins og annar flugvöllur sé innan seilingar, sem loksins er viðurkennt eftir ákvörðun Einars og umræðu hans og fleiri um flugvöllinn að er ekki til staðar og ekki í sjónmáli.
Nú liggur fyrir að í Hvassahrauni eru glórulaus áform um vara- og neyðarflugvöll, sem samt er haldið áfram með. Íþróttafélagið Valur hefur með miskunnarlausum ásetningi haldið áfram að sækja leyfi til að byggja blokkir til að eyðileggja flugvöllinn, og byggingarnar eru farnar að ögra með sviptivindum flugi á flugbrautinni þeirri einu sem opin er. Svo stendur til að þrengja svo um munar að flugvellinum með risablokkum í Skerjafirði, borgin með ráðherraleyfi sem ber að afturkalla.
Loksins tókst þér Einar Þorsteinsson, á neyðarstundu þegar aðflugi að flugvellinum, neyðarbrautinni, er lokað, að fá liðið í borgarstjórninni til að skipta um skoðun, já eða þora ekki annað en að taka sjúklinga fram yfir tré. Skógarhöggið er hafið og öll þessi tré eiga að fara og byggja útivistarsvæði með göngubrautum, birkitrjám og blómum.
Forsætis-, umhverfis- og orkumálaráðherra eru gengin í lið með Einari og krefjast aðgerða. Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra hefur talað skýrast allra ráðherra fyrr og síðar, burt með trén. Margir eru sökudólgar í máli flugvallarins en einn mann ber þar hæst, hann ætti að spyrja í dagsbirtu hvaða skoðun hann hafi á hinni miklu neyðaraðgerð að höggva skóginn við þær aðstæður sem nú blasa við, eða lokun neyðarbrautarinnar? Og annarri enn mikilvægari neyðarbraut var áður fórnað og lokað.
Til hamingju Einar Þorsteinsson borgarstjóri, það er stálvilji og virðingarvert að hverfa frá völdum og neita að bera ábyrgð þar sem harmleikur getur átt sér stað á hverri stundu á skertum öryggisflugvelli Íslands í Reykjavík. Ég vildi ekki bera ábyrgð á þeirri stöðu. En þú lesandi minn? Lesið svo söguna á Vísi af Birni Sigurði Jónssyni sauðfjárbónda þar sem læknir hans sagði að tvær mínútur hefðu skilið á milli lífs og dauða. Hjartanu í Vatnsmýrinni blæðir nú.
Guðni Ágústsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra.
Grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. febrúar 2025.

13/02/2025
Ólafur Reynir nýr starfsmaður þingflokks FramsóknarÓlafur Reynir Guðmundsson hefur verið ráðinn nýr starfsmaður þingflokks Framsóknar.
Ólafur Reynir er með embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands, MPA gráðu frá Harvard og MBA gráðu frá IE Business School. Hann er jafnframt menntaður píanóleikari og hef stundað tónlistarnám og haldið tónleika bæði hérlendis og erlendis.
Ólafur Reynir starfaði sem lögfræðingur hjá Ferðamálastofu frá árinu 2018 og þar áður hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá árinu 2011. Ólafur kom þar m.a. að gerð núgildandi laga um opinber fjármál. Auk starfa hjá stofnunum á borð við Skipulagsstofnun, hefur Ólafur starfað hjá Accenture, (Noregi) og Citibank (Hollandi).
Ólafur Reynir er kvæntur Auði Hrefnu Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra UN Global Compact á Íslandi og á tvö börn, Ásgeir (10 ára) og Hrefnu (5 ára).
Við bjóðum Ólaf velkominn til starfa.

13/02/2025
Saga Íslands og Grænlands samofinÁhugi á Grænlandi hefur stóraukist eftir að forseti Bandaríkjanna lýsti yfir vilja sínum til að eignast landið. Mikilvægi Grænlands hefur aukist verulega í breyttri heimsmynd. Auðlindir Grænlands eru afar miklar á sviði málma og steinefna, olíu og gass, vatns, orku, fiskveiða og ferðaþjónustu. Vegna loftslagsbreytinga aukast líkurnar á því að hægt sé að nýta auðlindir Grænlands í meira mæli en síðustu árhundruðin.
Samskipti og saga Íslands og Grænlands er stórmerkileg og er vel skrásett í tengslum við landnám og siglingar milli Íslands, Noregs og Norður-Ameríku.
Nefna má í þessu samhengi; Eiríks sögu rauða, Grænlendingasögu, fornmannasögur og fleiri rit eins og Flateyjarbók.
Í þessum ritum má finna atvinnusögu ríkjanna og hvernig siglingar skipuðu veigamikinn sess í viðskiptum og velsæld þeirra.
Sögunar gefa einstaka innsýn í fyrstu skrásettu viðskiptasamskipti Evrópubúa við frumbyggja Norður-Ameríku og hver ávinningur og áhættan voru í þessum efnum.
Saga ríkjanna er samofin frá landnámsöld fram á 15. öld, en síðustu ritaðar heimildir um norrænt samfélag á Grænlandi eru frá árinu 1408, þegar íslensk hjónavígsla átti sér stað í Hvalseyjarkirkju í Eystribyggð.
Ein stærsta ráðgáta sögu norðurslóða er hvarf þessarar byggðar norræns fólks af Grænlandi. Ýmsar tilgátur hafa verið nefndar og eru þessari sögu, til dæmis, gerð góð skil í bókinni: „Hrun samfélaga – hvers vegna lifa sum meðan önnur deyja“ eftir Jared Diamond prófessor.
Meginástæðurnar fyrir þessari þróun á Grænlandi eru loftslagsbreytingar, það er að kólnandi loftslag hafi gert allan landbúnað erfiðari.
Dregið hafi úr siglingum vegna minna framboðs af rekaviði og öðrum efniviði í skipagerð og því hafi samgöngur minnkað verulega.
Einnig er nefnt að eftirspurn eftir einni aðalútflutningsafurð Grænlands, rostungstönnum, hafi hrunið vegna aukinnar samkeppni frá fílabeinstönnum í Afríku og Asíu ásamt því að svartidauðinn hafi leitt til mikillar fólksfækkunar á Norðurlöndum, sem hafi minnkað Grænlandsviðskiptin verulega.
Grænland er í brennidepli alþjóðastjórnmálanna vegna vaxandi tækifæra til frekari auðlindanýtingar og landfræðilegrar legu, ekki ósvipuð staða og var fyrir um 1000 árum.
Lykilatriði fyrir Ísland er að tryggja greið alþjóðaviðskipti og farsæl samskipti við okkar helstu bandamenn, þar sem lýðræði er helsta grunngildi þjóðarinnar.
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. febrúar 2025.

12/02/2025
Jómfrúarræða Höllu Hrundar á Alþingi: Setjum orkuöryggi almennings í forgangHalla Hrund Logadóttir, alþingismaður, flutti í dag jómfrúarræðu sína í störfum þingsins á Alþingi. Sagði hún að í umræðu um orkumál verði að hafa í huga að staða mála geti breyst hratt. Fyrir áratug hafi álverið í Helguvík verið blásið af. Það hafi verið nægt „framboð af raforku á lágu verði og heimsfaraldurinn hjálpaði þar til því að hagkerfi heimsins drógust saman. Þetta gjörbreyttist hins vegar, eins og við þekkjum, á stuttum tíma eftir Covid. Bitcoin hækkaði í verði, álverð hækkaði í verði, landeldi kom inn á markaðinn og eftirspurn jókst hratt,“ sagði Halla Hrund.
„Hvað mun það þýða fyrir okkur hér á Íslandi, fyrir eftirspurn hér? Það er eitthvað sem við þingmenn þurfum að þekkja. Mig langar þó að brýna sérstaklega nýja ríkisstjórn til að setja orkuöryggi almennings í forgang og beini því sérstaklega til nýs ráðherra að hafa stórt samfélagshjarta í þessum málaflokki, setja áherslu á jarðhitaleit, fæðuöryggi og það að tengja saman dreifðari byggðir sem sannarlega þurfa á því að halda.“
Ræða Höllu Hrundar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Kæri þingheimur og kæra þjóð. Ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í störfum sínum og ekki síst í orkumálunum sem þegar hafa orðið bitbein í þessum sal. Megi traust ríkja í nýtingu okkar fjölbreyttu og verðmætu auðlinda og ekki síður í náttúruvernd, orði sem ég hef saknað að sé nefnt með skýrum hætti hér í þingsal. Í áframhaldandi umræðu um orkumál þarf að hafa í huga að staða mála getur breyst hratt. Horfum áratug aftur í tímann. Þá var álverið í Helguvík blásið af, það var nægt framboð af raforku á lágu verði og heimsfaraldurinn hjálpaði þar til því að hagkerfi heimsins drógust saman. Þetta gjörbreyttist hins vegar, eins og við þekkjum, á stuttum tíma eftir Covid. Bitcoin hækkaði í verði, álverð hækkaði í verði, landeldi kom inn á markaðinn og eftirspurn jókst hratt. Við sáum líka eftirspurn aukast hratt vegna áskorana í Evrópu, orkukrísunnar og í ofanálag var fólksfjölgun hér á landi að aukast mikið. Samtímis var minna af orku í boði því að lón Landsvirkjunar voru sögulega lág, sem hefur reyndar breyst undanfarið með slagveðrinu sem hefur gengið yfir.
Ég segi þetta því að það hafa orðið miklar sviptingar bara á síðustu fimm árum og síðustu fimm ár eru eins og eitt kjörtímabil rúmlega í lengd. Þetta er því góð áminning um að ytri þættir geta breyst hratt sem hafa mikil áhrif á okkar orkumál. Bandaríkin og Evrópa tilkynntu t.d. nýlega um umfangsmiklar fjárfestingar í orkuinnviðum og gervigreind. Og ég spyr: Hvað mun það þýða fyrir okkur hér á Íslandi, fyrir eftirspurn hér? Það er eitthvað sem við þingmenn þurfum að þekkja. Mig langar þó að brýna sérstaklega nýja ríkisstjórn til að setja orkuöryggi almennings í forgang og beini því sérstaklega til nýs ráðherra að hafa stórt samfélagshjarta í þessum málaflokki, setja áherslu á jarðhitaleit, fæðuöryggi og það að tengja saman dreifðari byggðir sem sannarlega þurfa á því að halda. Um leið þarf að gæta að nýtni, nýsköpun og náttúruvernd sem mun reyna á með tilkomu vindorku. Sláum samvinnutón í orkumálum, vinnum þau faglega án upphrópana og ásakana því það er það sem Ísland á skilið.“

12/02/2025
Ég er karl með vesen„Konurnar verða að koma og taka til þegar karlarnir eru með vesen og skella öllu í uppnám” – Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata um meirihlutaslitin og nýjar viðræður.
Þessir karlar
Þeir eru ótrúlegir þessir karlar sem skella öllu í uppnám. Karlar sem með fjölbreyttum leiðum vilja fækka börnum á biðlistum eftir leikskólaplássi og karlar sem vilja koma á heimgreiðslum til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og létta þannig undir með fjárhagslegum birgðum foreldra á meðan þeir bíða eftir dagvistun. Karlar sem vilja byggja meira, bæði þétta byggð en líka ryðja nýtt land því það þarf að byggja meira og hraðar. Karlar sem vilja nýtt hverfi í Úlfarsárdal og á Kjalarnesi og kanna fýsileika þess að ráðast í að skipuleggja byggð á Geldinganesi. Karlar sem vilja bæta þjónustu og samskipti við borgarbúa. Karlar sem telja rekstaröryggi Reykjavíkurflugvallar ekki vera ,,átyllu.” Karlar sem vilja taka til í rekstri borgarinnar vegna þess að þeir vita að það er grundvöllur þess að hægt sé að þjónusta borgarana með þeim hætti sem þeir eiga skilið. Karlar sem vilja fara betur með skattfé borgarbúa. Karlar sem vilja að fólk hafi raunverulegt val um ferðamáta hvort sem hann er gangandi, hjólandi, í almenningssamgöngum eða á fjölskyldubílnum. Karlar sem vilja bíða með bílastæðastefnuna þar til borgarlína hefur hafið akstur.
Karlar sem slíta meirihluta því að þeir átta sig á því að þessi mál falla fyrir daufum eyrum samstarfsflokka. Karlar sem átta sig á því að þolinmæli almennings eftir breytingum er á þrotum. Þessir karlar. Óttalegt vesen.
Að slíta meirihluta er ekki léttvæg ákvörðun og svo sannarlega ekki ákvörðun sem einn einstaklingur tekur. Jafnvel þótt að hann sé karlmaður. Þú slítur ekki meirihluta án þess að vera með liðið þitt með þér. En ef það eru karlarnir sem eru með vesen þá hlýt ég að vera ein af þeim.
Að taka þátt í meirihlutasamstarfi snerist ekki um að halda í titla eða stóla heldur trúnað við fólkið í borginni og þau verkefni sem okkur eru falin.
Orð sem fela í sér smættun á konum í stjórnmálum
Þetta snýst heldur ekki um kyn einstaklinganna sem hér um ræðir. Með þessu er ég ekki að segja að ég viti ekki að konur í stjórnmálum hafa lengi átt erfitt uppdráttar á þeim vettvangi og ég þekki vel það mótlæti sem konur upplifa í stjórnmálastarfi. Við í Framsókn viljum ekkert meira en jafnrétti allra kynja – en það að segja að karlarnir séu ,,með vesen og skelli öllu í uppnám” smættir aðra borgarfulltrúa Framsóknar sem eru kvenkyns. Borgarfulltrúa sem vilja taka stærri ákvarðanir en þessi meirihluti var tilbúinn að gera.
Borgarbúar eiga einmitt betra skilið.
Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 12. febrúar 2025.
Forgangsmál þingflokks Framsóknar

12/02/2025
Forgangsmál þingflokks FramsóknarÞingflokkur Framsóknar hefur sett fram þrjú sérstök forgangsmál á þessum þingvetri. Þetta eru tillögur um óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma, um jarðakaup erlendra aðila og um orkuöryggi almennings.

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, leggur fram tillögu um „að fela fjármála- og efnahagsráðherra að vinna að aðgerðaáætlun sem miði að því að óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma standi einstaklingum til boða. Ráðherra kynni Alþingi aðgerðaáætlunina eigi síðar en haustið 2025.“ Markmið tillögunnar er að tryggja að bankar geti boðið fasteignakaupendum hér á landi upp á óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma enda er það réttlætismál fyrir neytendur á Íslandi. Slíkt fyrirkomulag þekkist á Norðurlöndum og víðar og treystir fyrirsjáanleika við fjármögnun húsnæðis.
„Íslenskir bankar eru of smáir til að eiga þess kost að bjóða fram slíka fjármálaþjónustu, þar sem þeir eru að hluta bundnir af eigin fjármögnunarkjörum. Íslenska ríkið og lífeyrissjóðir eru að vissu leyti í yfirburðastöðu á íslenskum fjármálamarkaði og geta með einfaldari hætti og á hagstæðari kjörum haft aðgang að langtímafjármögnun.
Viðfangsefnið gengur út á að bankar geti fjármagnað húsnæðislán á óverðtryggðum vöxtum til lengri tíma en þeir bjóða upp á í dag. Með breyttum reglum og þróaðri fjármálamarkaði, til að mynda í gegnum vaxtaskiptasamninga, en það eru samningar þar sem aðilar skiptast á föstum og breytilegum vaxtagreiðslum af tilteknum höfuðstól yfir ákveðið tímabil, er hægt að auðvelda bönkum að bjóða upp á slík lán,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, leggur fram tillögu um að skipaður verði sérfræðihópur „sem útfæri frekari breytingar á lögum með það að markmiði að takmarka jarðakaup erlendra aðila hér á landi. Starfshópurinn skili drögum að frumvarpi sem lagt verði fram af atvinnuvegaráðherra eigi síðar en á haustþingi 2025.“
„Fram hefur komið að kaup erlendra aðila á jörðum til útflutnings á jarðefnum eru í undirbúningi á Mýrdalssandi. Upphaflega hugsunin á bak við lög um nýtingu jarðefna var m.a. að bændur og Vegagerðin hefðu auðvelt aðgengi að möl og sandi til að byggja fjárhús og leggja vegi. Lögunum var ekki ætlað að stuðla að útflutningi jarðefna. Þá hafa jarðir verið seldar með vatnsréttindum til félaga í erlendri eigu. Vatnalögum, nr. 15/1923, var m.a. ætlað að tryggja sveitarfélögum aðgengi að vatni. Þau gerðu ekki ráð fyrir að vatn væri mikilvæg verðmæti í hlýnandi heimi sem flest önnur ríki hafa kortlagt út í ystu æsar. Áhugi á jarðakaupum í tilgangi orkunýtingar og innviða fer vaxandi en dæmi um slíkt má finna í vatnsafli, vindi og jarðhita. Græna orkan er olía framtíðarinnar og eignarhald á slíkum auðlindum þarf að hugsa til langs tíma. Erlendir aðilar hafa einnig verið að kaupa jarðir sem hafa að geyma mikilvægt ræktarland sem getur sett takmarkanir á nyt þess í landbúnaði og matvælaframleiðslu í framtíðinni.
Þróunin vekur upp margs konar spurningar um nauðsyn þess að styrkja lagaramma og stjórnsýslu þessara málaflokka,“ segir í greinargerð tillögunnar.

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, leggur einnig fram tillögu um að stjórnvöld leggji „fram frumvarp sem tryggi orkuöryggi almennings og stuðli um leið að hagkvæmu og stöðugu verðlagi raforku til þessa hóps, eigi síðar en á vorþingi 2025.“
„Miklar breytingar hafa orðið á orkuumhverfi Íslands undanfarin ár og eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku er sífellt að aukast. Í dag er ekkert því til fyrirstöðu að almenningur í landinu verði hreinlega undir í samkeppninni um raforku bjóði stærri kaupandi betur. Engin lagaleg úrræði eru fyrir hendi til að koma í veg fyrir slíkt ástand. Almenningur er þannig á ystu nöf í ölduróti orkumarkaðarins á meðan stórir raforkunotendur búa við langtímasamninga sem tryggja raforkuþörf þeirra.“
„Áður fyrr bar Landsvirkjun skýra lagalega ábyrgð á því að tryggja orkuöryggi almennings, þ.e. fyrir heimilin og venjuleg fyrirtæki. Þegar orkulöggjöf Evrópusambandsins var fyrst tekin upp í íslenskan rétt var þessi ábyrgð Landsvirkjunar felld úr gildi án þess að nýjar lausnir væru innleiddar. Þó eru margar leiðir færar innan Evrópulöggjafarinnar, ekki síst í kjölfar orkukrísu álfunnar, en þær hafa ekki verið innleiddar í lög hér á landi. Vernd fyrir heimilin í landinu og aðra minni orkunotendur er því ekki séríslensk krafa enda raforka íbúa nauðsynjavara og grunnþjónusta við borgara, sem ekki er hægt að skipta út með hraði.
Færa má sterk rök fyrir því að það sé nauðsynlegt að tryggja bæði heimilum og minni orkunotendum aðgengi að raforku óháð orkuframleiðslu hverju sinni, en þó reynir sérstaklega á þegar umframeftirspurn er til staðar. Þetta er sérlega mikilvægt að útfæra á Íslandi þar sem hér er um að ræða einstakt einangrað raforkukerfi sem fylgir sveiflum í skilyrðum náttúrunnar sjálfrar, orku úr vatnsafli og jarðvarma sameiginlegra auðlinda, og hér er ekki hægt að stóla á varabirgðir annars staðar frá,“ segir í greinargerð tillögunnar.