Categories
Fréttir Greinar

Fram­tíðin er í húfi

Deila grein

28/11/2024

Fram­tíðin er í húfi

Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum stigið stór skref í átt að því að bæta lífsskilyrði barna og fjölskyldna. Í þessu verkefni hefur Framsókn verið í leiðtogahlutverki. Við höfum gripið til markvissra aðgerða til að styrkja grunnstoðir mennta- og velferðarkerfisins og haft þar skýra áherslu á fyrirbyggjandi stuðning, aukinn jöfnuð og betra aðgengi að þjónustu.

Fjárfest í börnum og unglingum

Við hjá Framsókn höfum lagt áherslu á umfangsmikla fjárfestingu í börnum og fjölskyldum. Meðal lykilverkefna sem hafa verið sett í farveg eru:

  1. Farsældarlög: Ný löggjöf sem tryggir þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Öll börn eiga nú rétt á tengilið sem starfar í nærumhverfi barnsins, ef þörf er á stuðningi eða þjónustu.
  2. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir: Öllum börnum á grunnskólaaldri er nú tryggð næringarrík máltíð óháð efnahag fjölskyldunnar.
  3. Tvöföldun fjármagns til íþrótta- og frístundastarfs: Stórt átak í því skyni að auka þátttöku barna í íþrótta- og frístundastarfi. Í þessu verkefni hefur til dæmis gjaldfrjáls þátttaka í unglingalandsliðum verið tryggð og auknu fjármagni verið veitt til íþróttastarfs fatlaðra barna.
  4. Samræmd skólaþjónusta og stuðningur við kennara: Fjárfest hefur verið í starfsþróun kennara og framlög til námsgagna verið tvöfölduð.
  5. Innleiðing samþætts námsmats: Nýtt námsmat tekur nú við af úreltum samræmdum prófum og tryggir betri yfirsýn yfir námsárangur og færni. Innleiðingin er löngu hafin og gengur vel.

Raunverulegur árangur

Stefna Framsóknar og þær aðgerðir sem hafa verið innleiddar á undanförnum árum eru þegar að skila mælanlegum árangri í lífi barna og fjölskyldna þeirra. Lítum á nokkra mælikvarða.

  • Andleg heilsa barna hefur batnað: Tíðni kvíða meðal yngri barna hefur minnkað um 15%.
  • Einelti hefur minnkað: Aðeins 4% nemenda í 10. bekk upplifa nú einelti – lægsta mæling sem hefur sést.
  • Meiri samfella í þjónustu: Fjölskyldur upplifa betri samfellu sem auðveldar þeim að fá nauðsynlegan stuðning á réttum tíma. Níu af hverjum 10 ungmennum telja mikilvægt að leggja sig fram í námi.

Þessar niðurstöður eru ekki aðeins tölur; þær endurspegla raunveruleg lífsgæði fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Hér eru skýrar vísbendingar um að markviss stefnumótun og fjárfesting í börnunum okkar skilar sér í betra samfélagi.

Megináherslur næstu fjögur árin

Þrátt fyrir að miklu hafi verið áorkað eru áskoranir enn til staðar. Við í Framsókn höfum skýra framtíðarsýn og leggjum áherslu á eftirfarandi verkefni á næstu fjórum árum:

  • Innleiðing þjónustutryggingar: Við ætlum að útrýma biðlistum eftir greiningu og þjónustu. Þjónustutrygging mun tryggja að hámarksbiðtími barns verði skilgreindur. Ef opinberir aðilar uppfylla ekki tímamörkin verður fjölskyldum boðin þjónusta hjá einkaaðilum. Með þessu tryggjum við að ekkert barn þurfi að bíða óhóflega lengi .
  • Námsárangur í fremstu röð: Með innleiðingu nýs námsmats í grunnskólum munum við fá öflugri tæki í hendurnar til að styðja með markvissum hætti við námsárungur barna á Íslandi.
  • Gjaldfrjáls námsgögn fyrir öll skólastig: Við munum tryggja að börn hafi jafnan aðgang að námsgögnum á öllum skólastigum. Gjaldfrjálst nám eru mannréttindi.
  • Frístundalög: Með nýjum lögum verður réttur barna til þátttöku í frístundastarfi tryggður, óháð búsetu eða efnahag fjölskyldunnar.
  • Aukin áhersla á snemmtækan stuðning: Við munum halda áfram að styrkja innleiðingu farsældarlaganna til að tryggja að hver fjölskylda fái þjónustu sem miðast við þarfir þeirra á hverjum tíma.
  • Lengjum fæðingarorlof í 18 mánuði og hækka lágmarksgreiðslur: Undirritaður var félagsmálaráðherra þegar fæðingarorlofið var lengt í 12 mánuði úr 9 og næsta skref er að lengja það í 18 til að tryggja foreldrum tíma með börnunum sínum. Þá verður að hækka lágmarksgreiðslur til foreldra.

Hverjum treystið þið?

Á undanförnum árum höfum við í Framsókn lagt grunn að samfélagi þar sem börn og fjölskyldur þeirra njóta forgangs. Verkin tala sínu máli.

En verkefninu er langt frá því að vera lokið. Við erum í miðri á í risavöxnum breytingum á öllu því er snýr að börnunum okkar. Markmiðið er skýrt: Að skapa samfélag þar sem öll börn fá sömu tækifæri til þátttöku í samfélaginu, öryggis og farsældar.

Verkefnið er ekki bundið við eitt kjörtímabil. Það krefst staðfestu og framtíðarsýnar. Við í Framsókn erum staðráðin í að halda áfram á þessari vegferð.

Ég treysti á ykkur!

Kæru kjósendur! Á þessu kjörtímabili höfum við gert ýmis mikilvæg verkefni að veruleika. En það sem skiptir enn meira máli núna er allt það sem við eigum enn eftir að hrinda í framkvæmd. Til að þær hugmyndir og áherslur verði að veruleika þarf ég á ykkar stuðningi að halda. Ég er í pólitík af hugsjón og hef unnið af heilindum að því að ná árangri í störfum mínum sem ráðherra. Nú legg ég mín verk í ykkar dóm og treysti á stuðning ykkar á kjördag.

Höfundur er mennta- og barnamálaráðherra. Hann skipar 1. sæti á framboðslista Framsóknar í Reykjavík norður.

Categories
Fréttir Greinar

Pólitískan kjark fyrir Ísland: Verndum íslenska framleiðslu og framtíðina

Deila grein

27/11/2024

Pólitískan kjark fyrir Ísland: Verndum íslenska framleiðslu og framtíðina

Undanfarin þrjú ár hafa verið gefin út leyfi fyrir fleiri megavöttum en áratuginn á undan.

Þetta sýnir gríðarlega uppbyggingu í orkumálum en dregur jafnframt fram alvarlegan vanda: ný raforka fer oftar en ekki til stórnotenda eins og gagnavera og stóriðju, í stað þess að styrkja innviði sem styðja við almenning, minni fyrirtæki og sjálfbæra framleiðslu. Þessi þróun krefst þess að stjórnmálamenn setji skýrar reglur og hafi pólitískan kjark til að tryggja jafnvægi í nýtingu auðlinda okkar.

Ógn við innlenda framleiðslu

Núverandi kerfi styður við að raforka sé seld hæstbjóðanda á markaði, án þess að veita heimilum og minni fyrirtækjum vernd. Þetta veldur því að mikilvægar greinar eins og matvælaframleiðsla – landbúnaður og garðyrkja, sem eru ekki í nokkurri samkeppnisstöðu gagnvart stórnotendum, verða út undan. Áhrifin eru alvarleg – mikilvægir samfélagsþættir eins og fæðuöryggi, lýðheilsa og sjálfbærni eru í hættu.

Að glata fæðuöryggi og fjölbreytni atvinnulífsins

Garðyrkjubændur og önnur matvælafyrirtæki geta ekki keppt við stórnotendur á orkumarkaði. Hækkun raforkuverðs um 15 til 25%, eins og við höfum verið að sjá undanfarið, grefur undan samkeppnishæfni þeirra og leiðir til hærra matvælaverðs fyrir neytendur og þyngri álaga á framleiðendur sem ógna framtíð þeirra. Í ofanálag tala sumir flokkar um að lækka tolla á innfluttri matvöru, sem gæti gjörbreytt landslagi íslenskrar matvælaframleiðslu.

Erum við tilbúin að fórna heilnæmri innlendri framleiðslu, sem er gjaldeyrissparandi, vistvæn og styður við sjálfbærni, markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum, fæðuöryggi þjóðarinnar og byggðir landsins?

Nýjar virkjanir leysa ekki vandann einar og sér

Ný og ný virkjun leysir ekki grunnvandann því engin trygging er fyrir því að raforkan rati í samfélagslega mikilvæg verkefni. Eins og staðan er í dag fer orkan þangað sem best er boðið – til stórnotenda með langvarandi samninga og sterka stöðu. Hér er ekki verið að tala gegn fjölbreyttum hópi stórnotenda heldur því að gætt sé að minni aðilum sem ekki eru í sömu samningsstöðu á okkar einangraða raforkumarkaði.

Framkvæmdir sem bæta raforkuöryggi

Við þurfum að sjá til þess að orkan okkar rati til þeirra verkefna sem talað er fyrir. Sem orkumálastjóri samþykkti ég eina metnaðarfyllstu kerfisáætlun í langan tíma. Framkvæmd hennar mun bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum og auka nýtingu orkuauðlinda um allt land – sem er lykilatriði fyrir atvinnulíf landsins. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut jafnframt því að skapa hvata til þess að orkan rati til samfélagslega mikilvægra verkefna.

Við höfum gengið of langt í að treysta á markaðslögmál án þess að innleiða varnir fyrir almenning og venjuleg fyrirtæki. Núverandi löggjöf gefur löndum skýrar heimildir til að vernda minni aðila. Fjöldi landa hefur nú þegar innleitt slíkar heimildir í sitt regluverk til að tryggja jafnvægi í notkun auðlinda sinna – Ísland ætti ekki að vera undantekning.

Tilgangur stóriðjustefnunnar var aldrei að skapa markað þar sem almenningur og minni framleiðendur væru skildir eftir á hliðarlínunni eða þyrftu að keppa við stórnotendur á samkeppnismarkaði um orkuna. Hún var hönnuð til að tryggja ódýra og örugga orku fyrir samfélagið allt, byggja upp fjölbreytt atvinnulíf og efla efnahagslega sjálfbærni. Því verðum við að endurskoða núverandi regluverk og tryggja að það styðji við þessa grunnþætti.

Tími fyrir pólitískan kjark

Núverandi kerfi setur almannahagsmuni í hættu og grefur undan sjálfbærni Íslands ef ekki er gripið inn í. Við verðum að horfast í augu við þann veruleika að íslenskur almenningur vill hvorki borga evrópskt raforkuverð né missa innlenda matvælaframleiðslu.

Stjórnvöld verða að axla ábyrgð og hætta að treysta á blind markaðslögmál. Þau þurfa að innleiða reglur sem tryggja forgang heimila, minni fyrirtækja og matvælaframleiðslu að raforku. Það er ekki nóg að byggja upp fleiri virkjanir ef ekki er tryggt að sú orka nýtist í þágu þeirra verkefna sem talað er fyrir og samfélagið kallar eftir.

Ég ætla að vera stjórnmálamaður sem vinnur í þágu almannahagsmuna, fjölbreytts atvinnulífs og innlendrar framleiðslu. Ég ætla að tryggja að íslenskur almenningur og venjuleg fyrirtæki hafi aðgang að raforku á sanngjörnum kjörum, svo við missum hvorki matvælaframleiðslu né sjálfbærni úr höndum okkar.

Við eigum ekki að láta tækifærin sem náttúran hefur gefið okkur fara forgörðum. Það er okkar ábyrgð að nýta þau skynsamlega – fyrir Íslendinga, atvinnulífið og komandi kynslóðir.

Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi og fyrrverandi orkumálastjóri.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 25. nóvember 2024.

Categories
Greinar

108 ár – hverjum treystir þú?

Deila grein

27/11/2024

108 ár – hverjum treystir þú?

Íslensk stjórnmál hafa gengið í gegnum ótal umbreytingar síðustu áratugi. Flokkar hafa komið og farið, öfgar hafa verið reiddar fram og óstöðugleiki hefur oft sett mark sitt á landslagið. En eitt stendur upp úr sem stoð í íslenskri samfélagsgerð: Framsóknarflokkurinn. Með 108 ára sögu er Framsókn meira en bara stjórnmálaflokkur – hann er hluti af íslenskri sjálfsmynd og byggir á grunni trausts, stöðugleika og framtíðarsýnar.

Arfleifð byggð á trausti

Frá upphafi hefur Framsókn haft að leiðarljósi að vinna fyrir fólkið í landinu. Með sterkum rótum í sveitum og sjávarbyggðum hefur flokkurinn staðið vörð um hagsmuni alþýðunnar, jafnað réttindi lands og borgar og skapað grundvöll fyrir hagvöxt og velferð. Hvað sem á hefur gengið, hefur Framsókn sýnt og sannað að flokkurinn stendur fyrir lausnum sem virka í raunheimum, ekki bara í orðum.

Við sjáum þetta í stórkostlegum umbótum á sviði húsnæðismála, í aukinni áherslu á stuðning við fjölskyldur og í þrautseigju flokksins að tryggja stöðugleika í efnahagslífi. Þegar aðrir hafa tapað áttum hefur Framsókn staðið vörð um almannahagsmuni – af ábyrgð og yfirvegun.

Forysta framtíðarinnar

Þrátt fyrir sögulega arfleifð snýst Framsókn ekki um að horfa aðeins til baka. Það er vilji flokksins til að nýta reynsluna og samtvinna hana við nýsköpun sem gerir hann einstakan. Framsókn vinnur ekki aðeins fyrir nútímann heldur einnig fyrir komandi kynslóðir. Stefna flokksins í loftslagsmálum, stafrænu Íslandi og uppbyggingu heilbrigðiskerfisins endurspeglar þessa sýn.

Ungt fólk er að vakna til vitundar um að Framsókn sé ekki bara flokkur fortíðarinnar heldur líka flokkur framtíðarinnar. Með framsæknum leiðtogum sem setja hagsmuni fólks ofar pólitísku leikriti er Framsókn leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum.

Hverjum treystir þú?

Treystir þú þeim sem koma og fara með háværan skarkala? Eða þeim sem standa fastir fyrir, jafnvel í mótlæti? Treystir þú flokki sem hefur 108 ára reynslu af því að byggja upp samfélag?

Veldu stöðugleika. Veldu lausnir sem virka. Veldu Framsókn.

Þetta er spurning um traust – og svarið hefur verið augljóst í 108 ár.

Kjartan Helgi Ólafsson skipar 10. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Engin miðja án Framsóknar

Deila grein

26/11/2024

Engin miðja án Framsóknar

Sam­talið við kjós­end­ur er það skemmti­leg­asta við stjórn­mál­in. Kom­andi kosn­ing­ar skipta miklu máli fyr­ir næstu fjög­ur ár. Kann­an­ir helgar­inn­ar sýna að Fram­sókn á á bratt­ann að sækja. Við fram­bjóðend­ur flokks­ins finn­um hins veg­ar fyr­ir mjög hlýj­um straum­um og trú­um því að okk­ar fjöl­mörgu verk í þágu sam­fé­lags­ins nái í gegn fyr­ir kosn­ing­arn­ar hinn 30. nóv­em­ber.

Við finn­um að fólk kann ein­mitt að meta að Fram­sókn hafi frek­ar ein­beitt sér að því að klára verk­efn­in í stað þess að taka þátt í reglu­leg­um deil­um Sjálf­stæðis­flokks og Vinstri grænna. Því fylg­ir ábyrgð að stjórna landi.

Við heyr­um líka að mörg­um hrýs hug­ur við að upp úr kjör­köss­un­um komi hrein hægri­stjórn Sjálf­stæðis­flokks, Viðreisn­ar og Miðflokks með til­heyr­andi svelti­stefnu, niður­skurði og van­hugsaðri einka­væðingu rík­is­eigna.

Nú eða hrein ESB-stjórn Pírata, Viðreisn­ar og Sam­fylk­ing­ar, sem mun hækka skatta og leggja gjörv­allt stjórn­kerfið und­ir aðlög­un­ar­ferli að Evr­ópu­sam­band­inu næstu árin með til­heyr­andi átök­um í þjóðfé­lag­inu.

Aðild að ESB mun leiða af sér minni hag­vöxt og framsal á full­veldi Íslands, þar með talið í auðlinda­mál­um. Það eru staðreynd­ir.

Við þurf­um ekki fleira til þess að ala á ósætti og óvissu í sam­fé­lag­inu. Eini val­kost­ur­inn til þess að koma í veg fyr­ir fyrr­nefnd stjórn­ar­mynst­ur er að kjósa Fram­sókn, flokk­inn á miðjunni, sem hef­ur einn stjórn­mála­flokka fylgt þjóðinni sam­fellt í meira en heila öld. Það er eng­in miðja án Fram­sókn­ar, og eng­in fram­sókn án miðju.

Mik­il­væg­asta verk­efnið fram und­an er áfram­hald­andi lækk­un vaxta og verðbólgu.

Því er ekki að neita að verðbólga í kjöl­far for­dæma­lauss heims­far­ald­urs og stríðsins í Evr­ópu hef­ur tekið á. Þá missti 1% þjóðar­inn­ar hús­næði sitt vegna jarðhrær­ing­anna í Grinda­vík. Stjórn­völd tóku þá ákvörðun að gera meira en minna til þess að styðja við sam­fé­lagið í kjöl­far heims­far­ald­urs­ins, þegar 20.000 störf hurfu og margs kon­ar starf­semi lagðist í dvala. Það kostaði, en skilaði sér í sam­fé­lagi sem lenti á báðum fót­um.

Það er hins veg­ar ánægju­legt að mark­viss­ar og samþætt­ar aðgerðir op­in­berra aðila og aðila vinnu­markaðar­ins séu farn­ar að skila sér í lækk­un stýri­vaxta, sem hafa lækkað um 75 punkta síðan í októ­ber. Árang­ur í þessa veru ger­ist ekki af sjálfu sér og verður ekki til í tóma­rúmi kosn­ingalof­orða. Þetta er staðfest­ing á að stefna okk­ar virk­ar sem miðar að því að ná niður vöxt­um og verðbólgu. Við erum með ábyrga efna­hags­stefnu og með nægj­an­legt aðhald og skýra for­gangs­röðun í rík­is­fjár­mál­um. Við í Fram­sókn vilj­um halda áfram á þeirri braut og ósk­um eft­ir stuðningi í þau verk.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Willum Þór – fyrir konur

Deila grein

26/11/2024

Willum Þór – fyrir konur

Í tíð Willums Þórs Þórssonar sem heilbrigðisráðherra hefur hann unnið markvisst að kvenheilsumálum, sem hafa oft verið vanrækt í heilbrigðisumræðunni. Þrátt fyrir að kvenheilsa sé grundvallaratriði í lýðheilsu hafa þessi mál ekki fengið þá athygli sem þau eiga skilið. Willum hefur því lagt sig fram um að lyfta þessum málaflokki upp samhliða öðrum mikilvægum verkefnum. Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið meðal kvenna og rannsóknir sýna að regluleg skimun getur lækkað dánartíðni vegna sjúkdómsins um 20%. Til að styðja betur við forvarnir lækkaði heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, gjald fyrir brjóstaskimun úr rúmlega 6.000 krónum í 500 krónur, sem er sami kostnaður og fyrir leghálsskimun hjá heilsugæslunni. Þessi breyting á að hvetja fleiri konur til þátttöku, en það er áhyggjuefni að þátttaka í skimunum hefur dregist saman, sérstaklega meðal yngri kvenna og innflytjenda.

Nýtt samkomulag um aðgerðir vegna endómetríósu

Willum Þór Þórsson stóð einnig fyrir því að Sjúkratryggingar Íslands sömdu við Klíníkina um aðgerðir vegna endómetríósu. Hér er um að ræða mikilvægt skref sem hefur bætt líf fjölda kvenna og staðfestir á sama tíma alvarleika sjúkdómsins sem alltof lengi fékk litla sem enga athygli. Endómetríósa, oft kölluð endó, er krónískur og sársaukafullur sjúkdómur sem hrjáir konur og einstaklinga sem fæðast í kvenlíkama. Sjúkdómurinn veldur meðal annars bólgum og innvortis blæðingum og hefur margvísleg áhrif á daglegt líf. Samningurinn veitir þeim sem glíma við þennan þungbæra sjúkdóm aukið aðgengi að nauðsynlegri meðferð. Með þessu er staðfest að endómetríósa er ekki lengur bara „túrverkir“ sem hægt er að harka af sér, heldur alvarlegur sjúkdómur sem þarf að taka alvarlega.

Aukin greiðsluþátttaka í tæknifrjóvgun

Þá hefur Willum lagt til aukna greiðsluþátttöku vegna tæknifrjóvgunar. Drög að nýrri reglugerð hafa verið birt í samráðsgátt þar sem gert er ráð fyrir föstum styrkjum í stað hlutfallsbundinnar greiðsluþátttöku. Samkvæmt nýju reglugerðinni munu einstaklingar fá 150.000 kr. í styrk fyrir fyrstu tæknifrjóvgunarmeðferð og 400.000 kr. fyrir hverja meðferð frá annarri til fjórðu. Þetta er mikil breyting frá núverandi kerfi þar sem greiðsluþátttaka var 5% fyrir fyrstu meðferð og 65% fyrir meðferðir 2-4. Með þessu aukast styrkir fyrir fyrstu meðferð sexfalt og fyrir meðferðir 2-4 um tæpar 90.000 kr. fyrir hverja meðferð. Þessar breytingar gera kostnað við tæknifrjóvgun fyrirsjáanlegri og létta verulega á þeim einstaklingum sem þurfa þessa dýru meðferð. Stefnt er að því að breytingarnar taki gildi 1. janúar 2025. Willum Þór Þórsson hefur sýnt og sannað að hann gengur í verkin og klárar þau. Við treystum honum til þess að leiða okkur áfram.

Tryggjum Willum á þing!

Heiðdís Geirsdóttir, Halla Karen Kristjánsdóttir og Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, frambjóðendur Framsóknar í Kraganum.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn í for­ystu fyrir meira og hag­kvæmara hús­næði

Deila grein

25/11/2024

Fram­sókn í for­ystu fyrir meira og hag­kvæmara hús­næði

Framsókn hefur á síðustu árum verið í forystu um stórtækar umbætur í húsnæðismálum sem hafa haft víðtæk áhrif á íslenskan húsnæðismarkað. Séreignarstefnan blómstrar með Framsókn en aldrei fleiri hafa átt eigið húsnæði – nú um 80% Íslendinga og aldrei fleira ungt fólk hefur eignast sitt eigið húsnæði. Samhliða hefur verið byggt upp kerfi sem tryggir öryggi fyrir þá sem ekki hafa tök á að eignast húsnæði.

Stuðningur við fyrstu kaupendur

  • Hlutdeildarlánin, sem Framsókn setti í forgang, hafa gert 1200 fyrstu kaupendum kleift að eignast sína fyrstu fasteign.
  • Aldrei fleira ungt fólk hefur eignast sitt eigið húsnæði – í öllum tekjuhópum.

Norrænt húsnæðiskerfi fyrir tekjulægri

  • Með stofnframlögum og hlutdeildarlánum hefur Framsókn byggt upp kerfi sem tryggir að tekju- og eignalægri einstaklingar og fjölskyldur hafi aðgang að öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði.
  • 5000 íbúðir hafa þegar verið byggðar fyrir tekjulægri og fyrstu kaupendur, og fjármunir eru tryggðir fyrir aðrar 5000 íbúðir næstu fimm árin um land allt.

Öruggt leiguumhverfi

  • Réttindi leigjenda hafa verið styrkt til að skapa öruggari leigumarkað þar sem leiguverð er í samræmi við greiðslugetu.
  • Sérstök áhersla hefur verið lögð á að styðja tekju- og eignalægri fjölskyldur með húsnæðisstuðningi.

Húsnæðisstefna að norrænni fyrirmynd

  • Fyrsta húsnæðisstefna Íslands var samþykkt á síðasta vorþingi, með yfir 40 aðgerðum sem miða að stöðugleika á húsnæðismarkaði, auknu aðgengi að húsnæði og bættri stöðu heimila.
  • Stefnan byggir á því að tryggja grundvallarréttindi allra til að hafa öruggt þak yfir höfuðið.

Framsókn hefur náð að samþætta séreignarstefnu og norrænt húsnæðiskerfi, með áherslu á stöðugleika, réttlæti og sanngirni fyrir alla. Þetta eru aðgerðir sem skipta máli og hafa raunveruleg áhrif á líf fjölskyldna.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og fjármála- og efnahagsráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. nóvember 2024.

Categories
Fréttir

Kosning utan kjörfundar í Norðausturkjördæmi

Deila grein

24/11/2024

Kosning utan kjörfundar í Norðausturkjördæmi

Utankjörfundarskrifstofa Framsóknar veitir nánari upplýsingar í síma 540 4300 eða á netfanginu framsokn@framsokn.is.

Hvert atkvæði skiptir okkur máli!

B er listabókstafur Framsóknar

Nauðsynlegt er að hafa meðferðis skilríki með ljósmynd og framvísa á kjörstað.

Ef kosið er utan kjördæmis kjósanda, innanlands eða erlendis skulu kjósendur sjálfir annast og kosta sendingu atkvæðisbréfs síns. Atkvæði má koma með eða senda til:

Framsóknarflokkurinn
Bæjarlind 14-16
201 Kópavogi
ICELAND 

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra

  • Akureyri, Strandgötu 16, (þjónustuhús vestan við Eimskip),
    alla virka daga kl. 10:00 – 18:00. Um helgar kl. 11:00 – 15:00. Á kjördag kl. 10:00 – 17:00.
  • Húsavík, Útgarði 1, mán. til fim. kl. 9:00 – 15:00, föstud. kl. 9:00 – 14:00 og um helgar kl. 10:00 -13:00.
    Frá 18. nóvember nk. er opið mán. til fös. kl. 9:00 – 17:00 og um helgar kl. 10:00 – 13:00. Á kjördag er opið kl. 10:00 – 12:00.
  • Siglufjörður, Gránugötu 6, mán. til fim. kl. 9:00 – 15:00, föstud. kl. 9:00 – 14:00 og um helgar kl. 10:00 -13:00.
    Frá 18. nóvember nk. er opið mán. til fös. kl. 9:00 – 17:00 og um helgar kl. 10:00 – 13:00. Á kjördag er opið kl. 10:00 – 12:00.
  • Þórshöfn, Langanesvegi 2, virka daga frá kl.10:00 til 14:00.
    Frá 18. nóvember nk. er opið mán. – fös. kl. 10:00 -17.00 og um helgar er opið kl. 10:00 til 13.00.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer einnig fram í samstarfi við sveitarfélögin:

  • Dalvíkurbyggð: Ráðhúsinu, 2. hæð, virka daga kl. 10:00 – 12:00.
  • Grýtubakkahreppur: Túngötu 3, Grenivík, þriðjudaga til fimmtudaga kl. 10:00 – 15:00.
  • Þingeyjarsveit: Stjórnsýsluhús Litlu-Laugum, miðvikudaga og föstudaga kl. 11:00 – 14:00.
  • Mývatnssveit: Íþróttamiðstöðinni í Reykjahlíð, fimmtudaga kl. 11-14.
  • Raufarhöfn: Skrifstofu Norðurþings, Aðalbraut 23, virka daga kl. 10:00 – 12:00, eða skv. samkomulagi.
  • Kópasker: Skrifstofu Norðurþings, Bakkagötu 10, dagana 15., 27. og 29. nóvember kl. 10:00 – 16:00.
  • Hrísey: Skrifstofu Akureyrarbæjar, Hlein, virka daga kl. 10:00 – 12:00.
  • Grímsey: Skrifstofu kjörstjóra, Önnu Maríu Sigvaldadóttur, skv. samkomulagi.

Atkvæðagreiðsla á heilbrigðis- og öldrunarstofnunum:

  • Akureyri og nágrenni: Sjúkrahúsið á Akureyri, miðvikudaginn 27. nóvember, frá kl. 11:00.

Hafi sjúklingi á Sjúkrahúsinu á Akureyri verið ómögulegt að greiða atkvæði á ofangreindum tíma, gefst honum kostur á að greiða atkvæði á stofnuninni á kjördag, 30. nóvember, frá klukkan 12:00 til 12:30.

  • Húsavík: Dvalarheimilið Hvammur, fimmtudaginn 21. nóvember kl. 10:30 – 12:00.
  • Heilbrigðisstofnun Norðurlands, miðvikudaginn 20. nóvember kl. 10:30.
  • Þórshöfn: Dvalarheimilið Naust, þriðjudaginn 19. nóvember, frá kl. 14:00.
  • Siglufjörður: Heilbrigðisstofnun Norðurlands, fimmtudaginn 28. nóvember frá kl. 13:00
  • Ólafsfjörður:
  • Hornbrekka heimili aldraðra, miðvikudaginn 27. nóvember, frá kl. 13:00
  • Dalvík: Dvalarheimilið Dalbær, miðvikudaginn 20. nóvember frá kl. 12:30

Sýslumaðurinn á Austurlandi

Hægt verður að greiða atkvæði utan kjörfundar á skrifstofum embættisins frá og með 15. nóvember 2024 sem hér segir:

  • Egilsstaðir, Lyngás 15, virka daga frá kl. 9:00-17:00. Um helgar frá 10:00-13:00.
    Á kjördag frá kl. 10:00-14:00.
  • Eskifjörður, Strandgata 52, virka daga frá kl. 9:00-17:00. Um helgar frá 10:00-13:00.
  • Seyðisfjörður, Bjólfsgata 7, mánudaga til fimmtudaga kl. 9:00-15:00 en föstudaga kl. 9:00-14.00. Á kjördag frá kl. 14:00-16:00.
  • Vopnafjörður, Lónabraut 2, mánudaga til fimmtudaga kl. 9:00-15:00 en föstudaga kl. 9:00-14:00. Um helgar frá 10:00-13:00. Á kjördag frá kl. 11:00 – 14:00.
  • Hægt verður að kjósa á skrifstofu sveitarfélagsins Múlaþings á Djúpavogi og á Borgarfirði eystri frá og með mánudeginum 18. nóvember 2024 til og með 29. nóvember 2024 sem hér segir:
  • Djúpivogur, Bakka 1, mánudaga til fimmtudaga kl. 10:00-14:00 en föstudaga kl. 10:00-12:00.
  • Borgarfjörður eystri – Hreppstofa, mánudaga til fimmtudaga kl. 10:00-14:00 en föstudaga kl. 10:00-12:00.

Kjósendur skulu hafa meðferðis gild persónuskilríki (ökuskírteini, vegabréf eða nafnskírteini). Unnt er að framvísa rafrænu ökuskírteini.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla í umdæmi sýslumannsins á Austurlandi á sjúkrastofnunum innan umdæmisins fer fram sem hér segir:

  • Miðvikudaginn 27. nóvember 2024, Hjúkrunarheimilið Dyngja, Egilsstöðum frá kl. 10:30-11:30.

Kjósanda, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi ef kjósandi getur ekki sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun skv. 3. tl., 2. mgr. 69. gr. kosningalaga nr.112/2021. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans og hafa borist hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en kl. 10 tveimur dögum fyrir kjördag, sbr. 4.tl. 2. mgr. 69. gr. kosningalaga nr.121/2021.

Umsókn um atkvæðagreiðslu í heimahúsi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, skal berast eigi síðar en fimmtudaginn 28. nóvember kl. 10:00.

Categories
Fréttir Greinar

Teppa­leggjum ekki ís­lenska náttúru með vindorku

Deila grein

24/11/2024

Teppa­leggjum ekki ís­lenska náttúru með vindorku

Ímyndaðu þér íslenska náttúru, óspillta og einstaka, teppalagða með hundruðum háreistra vindmylla. Þær gnæfa yfir dali og fjallshlíðar en skila þjóðinni takmörkuðum arði og valda miklum deilum. Þetta er ekki framtíðarsýn sem við viljum – og stjórnmálamenn þurfa að gera betur.

Núverandi regluverk um vindorku tryggir ekki samfélagslegan ávinning og er ávísun á átök. Vindorka getur skapað verðmæti og útflutningstekjur en án skýrra leikreglna er hætta á að fórna verðmætum náttúruperlum fyrir illa ígrunduð verkefni. Við þurfum stefnu sem tryggir jafnvægi milli umhverfis, efnahags og samfélags. Sú er ekki raunin í dag.

Staðan í dag

Auðlindin vindur gerir íslenska náttúru berskjaldaða vegna sinnar sérstöðu sem felst í því að vera ekki bundinn ákveðnum stöðum, svo sem árfarvegi eða jarðhitasvæðum. Því er hægt að staðsetja vindorkuver mjög víða, og hefur skortur á framtíðarsýn leitt til þess að sprottið hafa upp tugir verkefna til skoðunar. Samþykki landeigenda þarf ekki að liggja fyrir til að virkjunarkostir séu teknir til skoðunar í rammaáætlun eða í ferli umhverfismats sem þýðir að hægt er að setja af stað matsferli án samráðs við landeiganda.

Ferðaþjónustuaðilar hafa oft haft samband við mig sem orkumálastjóra til að lýsa áhyggjum af áhrifum vindorkuvera í sínu nærumhverfi. Á sama tíma hafa bændur kvartað yfir háum kostnaði við umsagnir í flóknum matsferlum við verkefni sem geta haft áhrif á verðmæti og nyt þeirra jarða og ég sá samfélög trosna í deilum um slík verkefni.

Ábyrgð hverrar þjóðar að marka stefnu um staðsetningu vindorkuvera – ekki ESB

Evrópskt regluverk og löggjöf um raforku, sem Ísland hefur innleitt, leggur áherslu á græna orku og samkeppni í orkumálum en kveður ekki á um hvar vindorka skuli staðsett. Það er á ábyrgð hverrar þjóðar að taka afstöðu til slíkrar nýtingar og marka stefnu um staðsetningu. Stjórnmálamenn geta ekki skýlt sér á bak við „frjálsa samkeppni“ sem réttlætingu fyrir því að leyfa vindorkuverum að rísa hvar sem er. Ábyrgð stjórnmálanna er óumdeilanleg.

Meira en allt uppsett afl íslenska raforkukerfisins

Samanlagt afl vindorkuverkefna í ferli er nú meira en allt uppsett afl íslenska raforkukerfisins, sem hefur byggst upp á mörgum áratugum. Vindmyllur, allt að 250 metrar á hæð, hafa veruleg áhrif á landslag, hljóðvist og fuglalíf.Því þarf vönduð skref fram á við.

Hagkvæm nýting

Við þurfum að forðast að óraunhæf verkefni tefji raunhæf áform innan stjórnsýslunnar sem gæti tekið áratugi að vinda ofan af. Til að tryggja ábyrga nýtingu þarf að skilgreina svæði þar sem vindorka er leyfð, í stað þess að einblína aðeins á að útiloka einstök svæði. Byggja þarf upp í skrefum en sú nálgun nýtir lærdóm fyrri verkefna. Hagkvæmni þarf einnig að vera tryggð frá upphafi með ítarlegum rannsóknum á vindgæðum, mati á fýsilegri stærð verkefna, tengikostnaði við flutningskerfi og þörf fyrir jöfnunarorku. Allir þessir þættir hafa áhrif á orkuverðið sem kemur úr framleiðslunni og þarf að vera samkeppnishæft fyrir heimili og atvinnulíf.

Vernd íslenskrar náttúru

Við megum ekki fórna íslenskri náttúru fyrir hraðsoðna vindorkugarða – verkefni sem hvorki hafa verið hugsuð til enda né mótuð um þau skýr stefna hvernig þau þjóna þjóðinni. Betra er að vinna verkefni í skrefum, hafa þau á ólíkum stöðum á landinu því að vindurinn blæs ekki alltaf á sama stað, til að jafna orkuna.

Lærdómur frá Noregi: Mistök sem við verðum að forðast

Vindorkan getur gefið möguleika á að styðja við orkuskipti og bæta orkuöryggi en ef svo á að vera þarf að marka leiðina almennilega. Nýlegt dæmi frá Noregi sýnir hvernig vanhugsaðar ákvarðanir geta valdið sundrung í samfélaginu. Til að gera langa sögu stutta þá hafði norskum almenningi verið talið trú um að uppbygging vindorkuvera gæti bætt orkuöryggi heimila og nýst til orkuskipta. En þegar vindorkuverin höfðu risið hækkaði orkuverð til almennings upp úr öllu valdi í kjölfar orkukrísunnar í Evrópu. Jafnframt kom á daginn að stærstur hluti vindorkunnar fór í að stækka samninga orkufreks iðnaðar í stað þess að nýtast heimilum. Norska þjóðin upplifði sig svikinn af loforðum um bætt orkuöryggi, snérist gegn frekari uppbyggingu vindorku, og traust á stjórnvöldum beið hnekki.

Norska vatna- og orkumálastofnunin (NVE) hefur gefið út upplýsingar um áhrif vindorkuvera á landnotkun. Samkvæmt NVE hafa vindorkuver í Noregi valdið því að um 385 ferkílómetrar teljast ekki lengur ósnortin náttúra. Það samsvarar um 54.000 fótboltavöllum en áhrifasvæðið sjálft er mun stærra.

Mistök Norðmanna eru dýrmæt lexía sem við verðum að nýta. Strax eftir kosningar þarf að tryggja að verkefnin þjónusti samfélagið. Öryggisventlar, sem veita almenningi forgang að orku, eru grundvallaratriði til að vindorkan stuðli að sátt og skapi raunverulegan ávinning fyrir þjóðina.

Samtímis má nýta hvata til að efla orkuskiptin sérstaklega, með uppbyggingu orkugjafans, eða til að styðja við önnur samfélagslega mikilvæg verkefni.

Ætlum við að gefa hafsvæði?

Einnig er tími til að ljúka við regluverk vindorku á hafi, en erlend orkufyrirtæki sækjast þegar eftir nýtingu hér við land og mikilvægt að við gefum ekki hafsvæði frá okkur ókeypis, heldur leigjum gegn gjaldi og í ákveðinn tíma líkt og aðrar þjóðir.

Hver græðir á vindorku?

Hvort vindorka verður raunveruleg auðlind fyrir samfélagið veltur alfarið á því hvernig nýting hennar er skipulögð. Hingað til hefur nýting orkuauðlinda á Íslandi skilað samfélaginu beinum arði, meðal annars í gegnum fyrirtæki sem eru í eigu þjóðarinnar eða sveitarfélaga. Með vindorkunni birtist hins vegar ný mynd, þar sem flest verkefni eru í höndum einkaaðila. Þessi breytta mynd á grundvallarinnviðum þjóðarinnar hefur birst án þess að nokkur umræða hafi farið fram um hana. Það þýðir einnig að beinn arður af auðlindinni fer síður til samfélagsins, nema sérstakar reglur séu settar. Þegar um auðlindanýtingu er lágmark að útfæra löggjöf þannig að auður streymi áfram til þjóðarinnar og ekki síst nærsamfélaga. Það hefur ekki enn verið gert.

Vindorka sem viðbót við orkukerfið

Við þurfum að fara rétt að hlutunum í upphafi. Við Íslendingar eigum fjölda dæma þar sem farið hefur verið í uppbyggingu verkefna án þess að rammi hafi verið settur um þau. Við vitum hve erfitt er að breyta slíku eftir á og að lagaleg óvissa er skaðleg bæði fyrir þá sem eru með og á móti verkefnum. Í slíku ástandi hafa skapast átök sem rista djúpt í hjörtum samfélaga og stundum í allri þjóðarsálinni. Við þurfum ekki að endurtaka slíkt. Ef almennilega er staðið að málum getur vindorka orðið mikilvæg viðbót við vatnsafl og jarðhita, sérstaklega yfir vetrartímann þegar lón eru undir álagi. Með ábyrgri nýtingu á völdum stöðum getum við styrkt raforkukerfið og minnkað þörf fyrir innflutning jarðefnaeldsneytis. Vindorkuver eins og Búrfellslundur, sem líklega verður fyrsta stóra vindorkuverið hérlendis, gefur okkur tækifæri til að læra og móta framtíðina.

Með skýrri stefnu getum við nýtt vindinn sem auðlind sem tryggir jafnvægi milli náttúru og samfélags. Til að svo megi verða þarf pólitískan kjark og fyrirhyggju í útfærslu og skipulagi.

Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi og fyrrverandi orkumálastjóri.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Kvik­mynda­gerð á Ís­landi: Næstu skref

Deila grein

24/11/2024

Kvik­mynda­gerð á Ís­landi: Næstu skref

Kvikmyndagerð á Íslandi hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum. Markviss skref hafa verið stigin til þess að styrkja umgjörð greinarinnar á grundvelli Kvikmyndastefnu til ársins 2030 en þar á meðal hefur aðgerðum verið hrint í framkvæmd sem snúa að:

  • hækkun endurgreiðsluhlutfalls í kvikmyndagerð úr 25% í 35% fyrir stærri verkefni,
  • 1,3 milljarða kr. viðbótarframlögum í Kvikmyndasjóð,
  • kvikmyndanámi á háskólastigi sem sett var á laggirnar við Listaháskóla Íslands,
  • hækkun framlaga til kennslu í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi,
  • nýjum starfslaunasjóði kvikmyndahöfunda sem tekur til starfa 2025, samkvæmt breytingum á lögum um starfslaun listamanna,
  • lögfestingu nýs fjárfestingasjóðs fyrir sjónvarpsefni.

Þá munu 1. desember nk. taka gildi breyttar reglur, sem unnið hefur verið að, sem heimila framleiðendum að fá helming endurgreiðslu sinnar þegar verk er hálfnað til að draga megi úr fjármögnunarkostnaði þeirra.

Kvikmyndagerð allt árið

Stefnumótun í kvikmyndagerð, sem unnin var í náinni samvinnu við geirann sjálfan, er þegar farin að skila okkur eftirtektarverðum árangri, m.a. í þeirri táknrænu staðreynd að kvikmyndagerð hér á landi er orðin heilsársatvinnugrein. Verkefnum, stórum sem smáum, hefur fjölgað og dýrmæt sérþekking aukist á öllum sviðum kvikmyndagerðar. Þá hefur umsóknum í Kvikmyndasjóð fjölgað verulega.

4.200 störf í kvikmyndagerð á Íslandi

Í nýlegri úttekt breska ráðgjafafyrirtækisins Olsberg SPI kom fram að um 4.200 bein, óbein og afleidd störf hefðu orðið til vegna kvikmyndagerðar hér á landi árið 2022 og að heildaratvinnutekjur þeirra sem störfuðu við kvikmyndaverkefni hér á landi hafi numið 48,9 milljörðum kr. á árunum 2019-2022. Þá er gríðarlega ánægjulegt að sjá stór verkefni í kvikmyndagerð raungerast á landsbyggðinni, það styrkir stoðir greinarinnar og eflir smærri byggðir á landinu.

Sameinar listgreinar

Við í Framsókn höfum einlæga trú á kvikmyndagerð sem atvinnu- og listgrein og ekki síður okkar frábæra kvikmyndagerðarfólki, sem rutt hefur brautina gegnum áratugina og lagt grunn að þeim mikla árangri sem náðst hefur í greininni. Kvikmyndagerð er sérstök atvinnugrein að því leyti að hún þverar og sameinar mikinn fjölda listgreina. Þannig samanstendur kvikmynd gjarnan af skrifuðu handriti eða bók, leikurum, tónlist og hljóði, myndlist í einhverju formi, myndatöku, hönnun, leikmynda- og líkanasmíði og jafnvel hreyfimyndagerð, auk þess sem hún krefst stuðnings frá miklum fjölda margvíslegra iðngreina.

Kvikmyndagerð er arðbær, umhverfisvæn og hugvitsdrifin atvinnugrein sem fellur einkar vel að þeim áherslum sem við höfum lagt á uppbyggingu atvinnulífs til framtíðar á Íslandi. Úttektir á efnahagslegum umsvifum greinarinnar staðfesta að framlag hennar til hagkerfisins er verulegt og þar verða til fjölbreytt og eftirsóknarverð störf. Kvikmyndaverkefni hafa átt stóran þátt í að koma Íslandi á kortið sem spennandi áfangastað fyrir erlenda gesti, en mikilvægast af öllu er að íslensk kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð nærir og miðlar menningu sem sameinar þjóðina og styður við samtíð og framtíð íslenskrar tungu.

Megináherslur næstu fjögur árin

Ef við í Framsókn hljótum til þess brautargengi í komandi Alþingiskosningum, þá viljum við meðal annars koma eftirfarandi aðgerðum til framkvæmda til að efla enn frekar kvikmyndagerð á Íslandi:

1) Efla Kvikmyndasjóð, sem komið var á laggirnar af Framsóknarflokknum árið 1978, með því að festa hækkun framlaga hans í sessi og tryggja jafnframt aukinn fyrirsjáanleika í vaxandi fjármögnun fyrir sjóðinn með fjögurra ára samkomulagi fyrir árin 2026-2030. Þá yrði nýr styrkjaflokkur, fjárfestingasjóður sjónvarpsefnis sem unnið hefur verið að á síðasta kjörtímabili, virkjaður. Hann mun efla sjóðinn enn fremur þar sem hann opnar möguleikann á að fjármagn skili sér aftur til sjóðsins þegar slík sjónvarpsverkefni skila ákveðnum hagnaði samkvæmt settum viðmiðum styrkjanna. Öflugur Kvikmyndasjóður mun geta veitt fleiri vilyrði til íslenskra verkefna sem aftur auðveldar þeim að sækja sér fjármögnun utan landssteinanna.

2) Klára löggjöf um menningarframlag streymisveitna sem skyldar erlendar streymisveitur sem starfa hér á landi til að veita fé í innlenda kvikmyndagerð í gegnum Kvikmyndasjóð, eða fjárfesta beint í innlendum kvikmyndaverkefnum. Málið var langt komið innan menningar- og viðskiptaráðuneytisins en náði ekki að klárast í ljósi aðstæðna.

3) Sterkara endurgreiðslukerfi fyrir innlend verkefni með þremur breytingum.35% endurgreiðsluþrepið yrði eina endurgreiðsluþrepið. Sú breyting mun sérstaklega gagnast innlendum sjónvarps- og kvikmyndaverkefnum á sama tíma og samkeppnishæfni Íslands fyrir stór alþjóðleg verkefni er viðhaldið. Þá yrði afnumið að styrkir Kvikmyndasjóðs dragist frá stofni endurgreiðslunnar, líkt og tíðkast í öðrum ríkjum í Evrópu ásamt því stuttmyndir yrðu felldar undir endurgreiðslukerfið, meðal annars til að styðja við upprennandi kvikmyndagerðafólk.

Frá því að endurgreiðslukerfinu var komið á af Framsóknarflokknum árið 1999 hefur það stutt verulega við kvikmyndagerð og hvatt til aukinnar verðmætasköpunar hérlendis með endurgreiðslu á kostnaði sem fellur til innanlands. Endurgreiðslukerfið er góður mælikvarði á umsvif í greininni; séu umsvifin mikil, endurgreiðir ríkið eðlilega hærri krónutölu og öfugt. Kerfið þykir skilvirkt og fyrirsjáanlegt í alþjóðlegum samanburði. Við viljum standa vörð um það eins og kemur fram í kosningavita Viðskiptaráðs og sést á meðfylgjandi mynd sem sýnir afstöðu stjórnmálaflokka til fyrirkomulagsins.

Kosningaviti Viðskiptaráðs: Afstaða stjórnmálaflokka til þess hvort draga eigi úr kostnaði ríkissjóðs vegna endurgreiðslna til kvikmyndagerðar.

4) Árið 2028 hefjist undirbúningur við mótun nýrrar kvikmyndastefnu fyrir Ísland fyrir árin 2030-2040. Við teljum brýnt að horfa til langrar framtíðar þegar kemur að því byggja upp kvikmyndagerð hér á landi sem enn öflugri atvinnuveg í góðri samvinnu við haghafa í greininni.

Hverjum treystir þú?

Á þessum fyrstu fjórum árum sem kvikmyndastefna hefur verið í gildi höfum við unnið ötullega að því með kvikmyndageiranum að efla þessa mögnuðu list- og atvinnugrein. Verkin tala. Nú eru sex ár eftir af gildistíma stefnunnar og við viljum halda áfram. Við höfum skýra framtíðarsýn fyrir greinina; viljum auka verðmætasköpun í henni og skapa fleiri störf, en síðast en ekki síst efla íslenska menningu og tungu.

Það er viðvarandi verkefni að sækja fram í þágu menningarmála og ég er stolt af þeim árangri sem náðst hefur á undanförnum árum. Afstaða mín og okkar í Framsókn er skýr; við stöndum með menningu og skapandi greinum. Því viljum við koma ofangreindum aðgerðum til framkvæmda í þágu íslenskrar kvikmyndagerðar á Íslandi, verðum við í aðstöðu til þess.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og skipar 1. sæti á framboðslista Framsóknar í Reykjavík suður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. nóvember 2024.

Categories
Greinar

Samgönguáætlun með Vestfirði í forgrunni

Deila grein

23/11/2024

Samgönguáætlun með Vestfirði í forgrunni

Samgönguáætlun sem rennur úr gildi 31. desember nk. var samþykkt í júní 2020 og var hún fullfjármögnuð til fimm ára. Í samgönguáætlun er stefnt að því að byggja upp og styrkja grunnnet allra samgangna. Í skilgreindu grunnneti er um 5.000 km vegakerfi, 38 hafnir, 13 flugvellir og nokkrar ferju-, skipa- og flugleiðir.

Já! , samgönguáætlun tekur á fleiru en vegum landsins, til að mynda höfnum. Í samgönguáætlun 2020 var samþykkt að fara í endurbætur, lengingu og dýpkun á Sundahöfn á Ísafirði. Því er lokið og skiptir það miklu máli fyrir aðkomu skemmtiferðaskipa auk þess sem fylling á tanganum nýtist nýju iðnaðarhverfi í Skutulsfirðinum. Einnig voru framkvæmdir við Bíldudalshöfn sem nýtist vel í auknum umsvifum þar, stálþil við Langeyri í Súðavík auk framkvæmda við höfnina þar. Framkvæmdir við höfnina á Hólmavík og þá má líka nefnda sjóvarnir í Árneshreppi.

Vegleysur verða að samgöngumannvirkjum

Það hefur sannarlega verið staðið við samgönguáætlun hér á Vestfjörðum það þótt áfangar séu eftir. Frá árinu 2017 hafa nær 30 m.a. kr. verið lagðir í vegagerð hér.  Allt frá vinnu við Dýrafjarðargöng, Dynjandisheiðina til uppbyggingu vega í Gufudalssveitinni. Þá má telja endurbætur á brúm, í Álftafirði, Önundarfirði og Tálknafirði. Endurbætur voru gerðar í 7. km kafla í Ísafjarðardjúpi á árinu 2019. Þessar framkvæmdir síðustu 7 ár eru meiri en við á Vestfjörðum höfðum séð í áratugi.

Áfram – ekkert stopp

Það hafa nokkrir birt greinar hér á BB og staðhæft að það sé STOPP í uppbyggingu vega á Vestfjörðum. Það stenst enga skoðun. Í framkvæmd núna eru fyllingar yfir Gufu- og Djúpafjörð og tvær brýr sitthvoru megin við Klettsháls. Þarna eru um 2 ma. krónur í framkvæmd.  Það er rétt að framkvæmdum er ekki lokið en það er líka svo margt eftir. Það er sérstakt að lesa greinar eftir sjálfstæðismenn sem gráta stöðnun og sleifagang.  Þeir eiga að vita betur en nota gamalkunnug ráð að kasta ryki í augu fólks.  Fjármunir hafi runnið annað og ekkert sé staðið við gefin loforð.

Hornafjarðarfjótið má finna víða

Þegar samgönguáætlun var samþykkt árið 2020 var hún fullfjármögnuð og rétt að Dynjandisheiði milli Flókalundar og Dynjandisvogs átti að vera lokið á næsta ári ásamt samgöngubótum í Gufudalssveit.

En frá árinu 2020 hefur ýmislegt gerst sem sett hefur strik í reikninginn.

Eitt stríð í Evrópu og eldgos á Reykjanesskaga hefur haft gríðleg áhrif á ríkiskassann auk þess sem verðhækkanir hafa valdið 40% hækkun á vegaframkvæmdum.  Það er rétt að haldið var áfram við nokkur verk þótt þau hafi farið fram úr áætlun, þar má telja Hornafjarðarfljót, Reykjanesbraut og Dynjandisheiði. Það er sérstakt að sjálfstæðismenn séu í þessari afneitun eða sváfu þeir á verðinum inn í fjármálaráðuneytinu? Nei þeir ættu að vera stoltir af þeim vegaframkvæmdum sem hafa verið unnar hér á vakt síðustu ríkistjórnar á Vestfjörðum. Í þeim málum stöndum við í Framsókn í báðar fætur og með beint bak.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar í NV og í framboði til Alþingis 2024.

Greinin birtist fyrst á bb.is 22. nóvember 2024.