Categories
Greinar

Kæru flokksmenn!

Deila grein

26/05/2018

Kæru flokksmenn!

Kæru flokksmenn!

Í dag eru sveitarstjórnarkosningar haldnar í 23. sinn. Framsóknarflokkurinn myndar kjölfestu í íslenskum stjórnmálum. Hann er jafnframt elsti starfandi flokkur landsins með 102 ára sögu innan Alþingis og sveitarstjórna. Sveitarstjórnarkosningar eru ólíkar örðum kosningum til þings og forseta. Þær eru ávallt á fjögurra ára fresti, þó svo að meirihluti í sveitarfélaginu sé ekki starfhæfur þá er ekki möguleiki á að rjúfa sveitarstjórn og kjósa að nýju. Mikilvægt er að nýta kosningaréttinn því hann tryggir að hver og einn hafi áhrif á samfélagið.

Framsóknarflokkurinn hefur á að skipa öflugum frambjóðendum víðs vegar um land allt sem hafa metnað, löngun og ástríðu til að láta gott af sér leiða. Innan flokksins eru 24 framboð vítt og breitt um landið og 7 blönduð framboð. Í Reykjavík eru frambjóðendur 46 talsins, í suðvestur 79, í norðvestur 86, í norðaustur 118 og í suður 114. Alls eru frambjóðendur flokksins 443 og kynjahlutfallið er 46,5% kvk. og 53,5% kk. Á öllum stöðum er fólki annt um að landið sé í byggð, fjölbreytt atvinna þar sem tekið er tillit til ólíkra menntunarstiga og þjónustustig gott. Við höfum margsýnt og sannað að það er eftirspurn eftir skynsamlegum lausnum í samgöngumálum, metnaðarfullu skólakerfi og öflugri grunnþjónustu. Víðs vegar er skortur á íbúðum sem kallar á að bregðast þurfi við með því að endurskipuleggja eftir kosningar. Mikilvægt er að í nýjum meirihlutum sé gott fólk sem hefur framsýnar lausnir og setur fram skipulag í takt við breyttar þarfir. Við byggjum upp traust með því að vinna að málefnum af heilindum og alúð með metnað og frumkvæði að leiðarljósi. Nýtum kosningaréttinn og hvetjum aðra til að gera slíkt hið sama. Þannig tryggjum við að okkar öfluga fólk komist að og setji mikilvæg verkefni í framkvæmd sem gerir nærsamfélagið betra þar sem gott er að búa. Að lokum hvet ég alla til að heilsa upp á frambjóðendur og njóta þess að fara í gott og girnilegt kosningakaffi. Til hamingju með daginn.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Categories
Greinar

Frá B-lista. Áfram veginn!

Deila grein

25/05/2018

Frá B-lista. Áfram veginn!

Ef þú, kjósandi góður, mundir staldra við uppi á Hámundarstaðarhálsi, horfa til allra átta og ímynda þér að hér væri engin byggð. Engar blómlegar jarðir með lömb í haga, engir bleikir akrar eða slegin tún. Engar víkur með húsaþyrpingum og bátum í höfn. Eftir sem áður stæði landið fagurt og frítt, og fannhvítir jöklanna tindar. En ekkert skvaldur, engin hlátrasköll eða börn að leik, ekkert fólk.

Það sem gerir byggðarlagið okkar að samfélagi eru íbúarnir. Hér er iðandi mannlíf til sjávar og sveita. Hér er blómstrandi atvinnu-og menningarlíf. Í Dalvíkurbyggð er aftur að fjölga fólki og nýjar byggingar rísa. Hér ríkir bjartsýni og jákvæðni.

Okkar stærsta auðlind í Dalvíkurbyggð er fólkið. Hér gengur hver maður undir annars hönd til að láta vélina ganga smurt. Allir eru mikilvægir hlekkir í keðjunni. Já, mannauðurinn í Dalvíkurbyggð gerir okkur svo sannarlega rík.

Á fjögurra ára fresti göngum við til kosninga til sveitarstjórnar. Við kjósum fólk til að vinna að framfaramálum byggðarlagsins, móta stefnur til framtíðar og framfylgja samþykktum sveitarstjórnar. Við kjósum fólk til ábyrgðar fyrir sveitarfélagið, fyrir okkur.

Við á B-lista Framsóknar-og félagshyggjufólks höfum fundað víða og kynnt stefnumál okkar bæði í ræðu og riti. Við þökkum kærlega fyrir góðar undirtektir við okkar málflutningi. Við þökkum fyrir nytsamlegar ábendingar og líflegar umræður. Við viljum að samfélagið okkar blómstri og þróist sífellt til betri vegar okkur öllum til heilla. Við viljum hlusta á íbúana, unga sem aldna. Við viljum vinna fyrir ykkur.

Við óskum eftir víðtækum stuðningi í kosningunum laugardaginn 26.maí. Með því að setja X við B eru auknar líkur á því að B-listinn verði leiðandi afl eftir kosningar. Við teljum það afar brýnt og heitum því að vinna af heilindum og metnaði fyrir byggðarlaginu og íbúum þess. Setjum X við B á kjördag. Áfram veginn – XB

Katrín Sigurjónsdóttir, oddviti B-lista Framsóknarmanna og félagshyggjufólks í Dalvíkurbyggð.

Categories
Greinar

Fjölskyldan í fyrirrúmi

Deila grein

25/05/2018

Fjölskyldan í fyrirrúmi

Frjáls með Framsókn leggja áherslu á málefni fjölskyldunnar í komandi kosningum. Það er okkur mikilvægt að skapa hér enn betra samfélag fyrir fjölskylduna með áherslum á umhverfismál, öryggi, íþrótta- og tómstundastarf.

Umhverfið

  • Við eigum falleg græn svæði eins og t.d Lystigarðinn og aðstöðuna undir Hamrinum. Þessi svæði eiga mikið inni og getum við nýtt þau enn betur með lagfæringum og nýjum tækifærum til leikja og útiveru. Við viljum einnig leita leiða til að útbúa varanlega salernisaðstöðu á þessum svæðum.
  • Við teljum mikilvægt að ljúka við frágang á aðkomu og bílastæði við Hamarshöllina sem og að finna varanlega lausn á búningaaðstöðu en hún er óviðunandi.
  • Hveragerðisbær er eitt af fáum sveitarfélögum landsins sem flokkar í þriggja tunnu kerfi og þar á meðal lífrænt. Við viljum áfram vera leiðandi á þessu sviði og efla flokkun og endurvinnslu úrgangs og stuðla að plastpokalausu Hveragerði.
  • Við viljum útvíkka starf umhverfisnefndar yfir í umhverfis- og ferðamálanefnd sem hefur það markmið að fá ferðamanninn til að dvelja lengur í bænum.

Öryggi

  • Við viljum taka umferðaröryggismál í bænum til endurskoðunar með öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í huga. Einnig viljum við fjölga speglum þar sem skyggni er lítið fyrir ökumenn vélknúinna ökutækja.
  • Þrátt fyrir að gervigrasið á sparkvellinum við grunnskólann sé tiltölulega nýtt er það iðkendum varasamt. Við teljum nauðsynlegt að laga gervigrasið til að tryggja öryggi iðkenda.

Íþrótta- og tómstundastarf

  • Til að styðja enn betur við fjölskyldur og íþróttaiðkun barna í Hveragerði viljum við hækka frístundastyrkinn í a.m.k. 40.000 kr.  á kjörtímabilinu.
  • Við teljum nauðsynlegt að keyra yngstu iðkendurna á æfingar í Hamarshöllinni eins og verið hefur.  Við viljum útfæra aktsturinn enn frekar, bæði með fjölgun ferða og að aka stuttan hring um bæinn með ákveðnum stoppistöðvum.
  • Við styðjum að komið verði á fót íþróttaskóla í samstarfi við Hamar fyrir yngstu börnin, svo þau fái tækifæri til að kynnast sem flestum íþróttagreinum.

Byggjum upp enn fjölskylduvænna samfélag í Hveragerði!

Við hvetjum þig til að setja X við B í sveitarstjórnarkosningunum á laugardaginn!

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, skipar 2. sæti á framboðslista Frjálsra með Framsókn í Hveragerði.

Snorri Þorvaldsson, skipar 3. sæti á framboðslista Frjálsra með Framsókn í Hveragerði.

Categories
Greinar

Metaðsókn í sundlaug Akureyrar

Deila grein

24/05/2018

Metaðsókn í sundlaug Akureyrar

Metaðsókn var að Sundlaug Akureyrar á síðasta ári. Straumhvörf urðu þegar rennibrautirnar vinsælu voru teknar í notkun í júlí en frá þeim tíma og til ársloka fjölgaði heimsóknum í laugina um 40.000 gesti miðað við sama tíma árið áður. Heildarfjöldi gesta á árinu var um 389 þúsund, töluvert umfram eldra aðsóknarmet.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur aukningin haldið áfram á þessu ári og ef fram heldur sem horfir má gera ráð fyrir því að heimsóknir í laugina verði yfir 400 þúsund nú í ár.

Framkvæmdirnar við sundlaugina eru sannarlega að skila sér, ekki eingöngu í ánægju bæjarbúa og ferðafólks, heldur einnig með auknum tekjum sundlaugarinnar en á síðasta ári voru tekjur laugarinnar 21,5 milljónir umfram áætlun sem er sannarlega ánægjulegur ávinningur.

Heitur pottur og vaðlaug

Í dag voru vaðlaug og heitur pottur tekin í notkun við sundlaugina. Potturinn er með nuddstútum og er góð viðbót við potta laugarinnar. Í vaðlauginni er bæði hægt að busla og leika sér, auk þess sem þaðan er gott að fylgjast með börnunum bæði í rennibrautunum og lendingarlauginni.

Framkvæmdirnar við laugina hafa verið umfangmiklar. Nýtt og mikið notað kalt kar hefur leyst fiskikarið af hólmi. Nýtt yfirborðsefni var sett á barnavaðlaugina og nýjum leiktækjum komið þar fyrir auk þess sem steypt var ný lendingarlaug við rennibrautirnar.  Ráðist var í löngu tímabært viðhald á sundlaugarsvæðinu, skipt var um yfirborðsefni á bökkum laugarinnar auk annarra viðhaldaverkefna.

Gott aðgengi

Mikil áhersla var lögð á bætt aðgengi á sundlaugarsvæðinu. Nýr fjölnotaklefi var tekinn í notkun en þá aðstöðu hefur skort. Sérstaklega var hugað að góðu aðgengi fyrir fatlaða í nýja pottinum og vaðlauginni þannig að mun fleiri geta nú  nýtt sér aðstöðuna og notið þess sem laugin hefur upp á að bjóða.

Senn sér fyrir endann á þessum viðamiklu framkvæmdum við laugina en gert er ráð fyrir að  framkvæmdum við sundlaugalóðina ljúki í júní en þar verður útbúin sólbaðsaðstaða og leiksvæði fyrir börn.

Eins og heimsóknafjöldinn í sundlaugina gefur til kynna er hún afar vinsæl meðal bæjarbúa og hefur að auki heilmikið aðdráttarafl fyrir gesti okkar, jafnt sumar sem vetur. Laugin, pottarnir, rennibrautirnar og svæðið sem heild gegnir mikilvægu hlutverki sem vatnaparadís fyrir alla fjölskylduna og er einn vinsælasti áningarstaður innlendra sem erlendra gesta okkar milli þess sem þeir njóta alls þess sem Akureyri hefur upp á að bjóða í afþreyingu, listum og skemmtun.

Ingibjörg Ólöf Isaksen

Höfundur er framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi og skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á vikudagur.is 22. maí 2018.

 

Categories
Greinar

Heilsueflandi bær

Deila grein

24/05/2018

Heilsueflandi bær

Á líðandi kjörtímabili gerðist Akureyri Heilsueflandi samfélag, við hækkuðum upphæð frístundaávísana úr 10.000 kr. í 30.000 auk þess sem við hækkuðum aldur notenda úr 6-12 ára upp í 6-18 ára.

Margt hefur verið gert á sviði í heilsueflingar hér í bænum, Akureyri á iði er verkefni sem komst á koppinn þegar ég var formaður íþróttaráðs en verkefnið er hugsað fyrir alla íbúa bæjarins til að kynna þá fjölbreyttu flóru sem í boði er til hreyfingar fyrir unga jafnt sem aldna. Bæði hafa íþróttafélög, fyrirtæki og aðrir íbúar bæjarins lagt sitt að mörkum.

Að auki var töluvert unnið við íþróttamannvirki okkar, við kláruðum m.a. íþróttahús Naustaskóla, settum nýja plötu á skautasvellið, skiptum um gervigras í Boganum þar sem gúmmíkurlinu var skipt út auk þess sem nú liggur fyrir að skipta um gervigras á öllum sparkvöllum bæjarins.

Mikil uppbygging er í Hlíðarfjalli, ný lyfta er væntanleg en þar koma Vinir Hlíðarfjalls öflugir að verkefninu ásamt Akureyrarbæ. Þetta og margt annað gott hefur gerst í íþróttamálum í bænum síðastliðin fjögur ár.

Við hjá Framsókn höfum mikinn áhuga á lýðheilsu, fræðslu henni tengdri og forvörnum eins og endurspeglast í stefnuskrá okkar.

Við viljum gera enn betur og hækka frístundaávísanir í 50 þúsund krónur á kjörtímabilinu. Auka þátttöku fólks á öllum aldri í íþrótta- og tómstundastarfi og efla ráðgjöf og heilsueflingu til eldri borgara. Við viljum leggja áherslu á aukna hreyfingu og lýðheilsuhugsun í leik- og grunnskólum og fylgja eftir nýsamþykktri íþróttastefnu bæjarins.

Við viljum auka forvarnir gegn vímuefnum og setja á fót áfangaheimili fyrir ungt fólk sem er að koma úr áfengis- og fíkniefnameðferð. Bæta þarf sálfræði- og aðra sérfræðiþjónustu í skólum og stytta ferli frá ósk um aðstoð til aðgerða. Auk þess teljum við rétt að ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir gegn kvíða og þunglyndi hjá börnum.

Ég vil einnig nefna uppbyggingu hjóla- og göngustíga sem raunhæfan samgönguvalkost.Með því er hvatt til aukinnar hreyfingar og spornað við ofþyngd og öðrum lífstílstengdum sjúkdómum.

Margt hefur verið gert á sviði í heilsueflingar hér í bænum, Akureyri á iði er verkefni sem komst á koppinn þegar ég var formaður

Þetta ásamt öðru leggjum við áherslu á í komandi kosningum en umfram allt leggjum við fram áherslur sem við ætlum að standa við!

Ingibjörg Isaksen

Höfundur skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins á Akureyri

Greinin birtist fyrst á kaffid.is 18. maí 2018.

Categories
Greinar

Samráð um verri þjónustu og lakari laun

Deila grein

21/05/2018

Samráð um verri þjónustu og lakari laun

Sveit­ar­fé­lög lands­ins hafa með sér sam­ráð um marga mála­flokka. Sam­ráð sveit­ar­fé­laga er yfir­leitt gert undir yfir­skini „jafn­ræð­is“. Að það skuli vera jafn­ræði á milli fólks og að hvar sem það búi á land­inu skuli það eiga kost á sam­bæri­legri þjón­ustu og/eða laun­um.

Þetta er fal­leg hugsun en er þetta svona í raun?

Í fyrsta lagi má velta fyrir sér að ef sveit­ar­fé­lögin taka við verk­efnum en ætli svo að sam­ræma aðgerðir sínar þannig að þau komi fram sem einn aðili, væri þá ekki alveg eins gott að einn aðili, Rík­ið, myndi bara sjá um þessa þjón­ustu?

Nú er ég ekki að mæla með því að þjón­usta sveit­ar­fé­lag­anna sé færð til rík­is­ins heldur ein­vörð­ungu að benda á þver­sögn­ina sem í þessu flest.

Jafn­ræðið er lægsti sam­nefn­ar­inn

Sveit­ar­fé­lögin eru mis vel í stakk búin til að takast á við verk­efnin og í þessu svo­kall­aða sam­ráði hefur það því miður gerst að yfir­leitt er miðað við það sem verst stöddu sveit­ar­fé­lögin ráða við.

Jafn­ræðið felst þá ekki lengur í því að allir hafi það jafn gott, heldur því að allir hafi það jafn slæmt. Á þessu tvennu er grund­vall­ar­mun­ur.

Þetta veldur því að Reykja­vík gerir ekki eins vel við öryrkja og eldri borg­ara því í nafni jafn­ræðis mega þeir ekki „hafa það betra“ en í öðrum sveit­ar­fé­lög­um.

Við hjá Fram­sókn Reykja­vík bendum á að staða öryrkja eða eldri borg­ara utan Reykja­víkur versnar ekki við það að Reykja­vík geri eins vel og hún get­ur. Reyndar má leiða líkum að því að staða þeirra sem þjón­ust­una þurfa í öðrum sveit­ar­fé­lögum myndi batna við það að við­miðin hækki.

Sam­ráð þetta heldur líka stórum (kvenna)­stéttum niðri í laun­um. Þetta sést einna skýr­ast í samn­ingum við kenn­ara­stéttir sveit­ar­fé­lag­anna, en laun þeirra og kjör eru allt önnur og verri en þeirra kenn­ara sem starfa hjá rík­inu.

Við hjá Fram­sókn Reykja­vík viljum að Reykja­vík segi sig úr þessu heft­andi sam­ráði sveit­ar­fé­laga. Við viljum að Reykja­vík taki for­ystu í því að gera eins vel og hægt er á öllum svið­um. Reykja­vík á að hækka við­miðin þannig að hið svo­kall­aða jafn­ræði snú­ist um að allir hafi það jafn gott í stað þess að allir hafi það jafn slæmt.

Reykja­vík til for­ystu – XB fyrir betri Reykja­vík.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir

Höf­undur er kenn­ari og skipar 3. sæti á lista Fram­sóknar í Reykja­vík.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 19. maí 2018.

Categories
Greinar

Það þarf þorp til að ala upp barn

Deila grein

21/05/2018

Það þarf þorp til að ala upp barn

Mikilvægt er fyrir æsku þessa lands að fá að stunda tómstundir eftir skóla sem tekur mið af áhugasviði hvers og eins. Við viljum að öll börn geti stundað tómstundir óháð fjárhag foreldra. Við höfum skilning á því að áhugasvið barna og ungmenna eru ólík og vitum að margir sækja tómstundir utan sveitarfélagsins.

Hvatastyrkur hefur verið í boði fyrir börn í Sandgerði og Garði í þó nokkurn tíma og hefur það reynst vel fyrir ákveðin hóp barna. Betur má ef duga skal því sú upphæð sem hvert barn fær til ráðstöfunar nægir ekki fyrir þeim tómstundum sem eru í boði. Nauðsynlegt er að hækka þessa upphæð umtalsvert þar sem ekki eru öll börn með sömu áhugamál og er mjög misjafnt hversu mikinn kostnað foreldrar þurfa að leggja út til að borga fyrir æfingar og kennslu. Ekki á að skipta máli hvar barnið kýs að stunda sínar tómstundir heldur á lögheimili barnsins að veita því rétt á endurgreiðslu.

Við hjá B-listanum viljum hækka hvatastyrkinn allverulega þannig að hann sé í takti við þau gjöld sem tekin eru fyrir viðkomandi tómstundanám eða þjálfun. Bæjarfélagið þarf að hlúa að æskunni og vera raunverulegur stuðningur á meðan börn og unglingar hafa áhuga á að efla andlegan og líkamlegan þroska.

Í æskunni er framtíð landsins fólgin. Okkar er ábyrgðin að sú framtíð verði björt.

Álfhildur Sigurjónsdóttir

Höfundur situr í 2. sæti B-lista Framsóknar og óháðra í Sandgerði og Garði.

Categories
Greinar

Gott má gera betra

Deila grein

21/05/2018

Gott má gera betra

Með sameiningu sveitarfélaga aukum við getu þeirra til að bæta þjónustu við íbúa. Samstarf á milli skólanna verður til þess að við lærum hvert af öðru og getum tileinkað okkur það sem vel er gert hjá hinum.

B-listinn leggur áherslu á að bæta umgjörð grunnskóla- og leikskóla enda teljum við alltaf vera rými til þess, því það má alltaf gera gott betra. Við viljum að skólarnir standi jafnfætis á öllum sviðum og munum beita okkur fyrir því að bæta skólastarf og tryggja nemendum bestu mögulegu menntun.

Í dag eru bæði Garður og Sandgerði að kaupa sér þjónustu frá Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar og greiða fyrir það háar upphæðir. Við viljum opna okkar eigin skrifstofu til þess að þjónusta íbúa okkar betur en gert er í dag. Öllum ætti að vera ljóst að þennan málaflokk þarf að bæta.

Í dag getur tekið allt að tveimur árum að fá greiningu fyrir barn. Það er bið sem við teljum óásættanlega. Með eigin fræðsluskrifstofu getum við bætt þjónustuna og stytt biðina.

Við hjá B-listanum viljum veita nemendum okkar þjónustu við hæfi og góðan grunn í menntun. Þeir þurfa að vera í stakk búnir að halda áfram í framhaldsnám við útskrift hvort sem það er verklegt eða bóklegt og tryggja þannig velferð sína til framtíðar.

Erla Jóhannsdóttir

Höfundur situr í 4. sæti B-lista Framsóknar og óháðra í Sandgerði og Garði.

Categories
Greinar

Íþróttir eru forvarnir

Deila grein

18/05/2018

Íþróttir eru forvarnir

Það þarf ekki að fara mörgum orðum yfir mikilvægi þess að hafa virkt íþrótta og tómstundastarf í sveitafélaginu. Það hefur ekki aðeins forvarnalegt gildi fyrir börnin okkar heldur litar það líka menningu og lífstíl allra íbúa sveitafélagsins. Við viljum leiða börnin okkar áfram af reglu- og heilsusömu líferni til að styrkja þau og móta til framtíðar. Brottfall unglinga úr íþróttum er mikið áhyggjuefni, sérstaklega á meðal stúlkna. Það er okkur í Framsókn mikið kappsmál að breyta þessari þróun og styðja við uppbyggingu á nýju fjölnota íþróttahúsi til að bæta aðbúnað við íþrótta og tómstundarstarf í Borgarbyggð.

Höldum unga fólkinu í Borgarbyggð

Á mínum yngri árum fékk ég tækifæri til að stunda mína íþrótt í Borgarbyggð enda mikill áhugi og umgjörð í kringum körfuboltann á þeim tíma en því miður var þó minni áhugi á meðal kvenkyns iðkenda. Þegar kom að því að fara í framhaldsskóla valdi ég skóla á höfuðborgarsvæðinu þar sem ég þurfti að flytja mig úr bæjarfélaginu til að halda áfram að sinna mínum áhugamálum. Það var ánægjulegt að fá tækifæri til að spila aftur með uppeldisfélagi mínu í Borgarnesi þegar liðið komst uppí úrvaldseild kvenna haustið 2016. Það eitt að spila með félaginu aftur eftir langa bið var frábær tilfinning. En það sem vakti þó enn meiri áhuga og ástríðu var sú umfjöllun og umgjörð utanum liðið sem vakti áhuga hjá yngri iðkendum sem líta upp til leikmanna liðsins sem fyrirmyndir. Af því sögðu sé ég hversu mikilvægt það er að hafa öfluga innviði til að styðja við íþrótta- og tómstundastörf sem laða að sér góðar fyrirmyndir og vekur upp eldmóð og áhuga barna og unglinga. Það er auðvelt að heltast úr lestinni eða þurfa að flytja úr sveitafélaginu til að halda áfram að stunda sína íþrótt ef stuðningurinn er ekki til staðar. Það verða ekki allir atvinnumenn en skemmtun og forvarnargildi er það sem skiptir höfuð máli, allir eiga að geta stundað sitt áhugamál og haft ánægju af.

Uppbygging á íþróttamannvirkjum

Okkar trú er að öflug menntun, menning, tómstundir og íþróttir sé lykill að farsælu samfélagi. Til þess vill Framsókn að komið sé upp íþróttaakademíu á mennta- og háskólastigi sem mun laða að öflugt íþróttafólk, bæði úr sveitarfélaginu okkar og nágrannasveitarfélögum. Slík uppbygging mun skila öflugu íþrótta- og menningastarfi sem er hvatning til barna og unglinga og mun móta skemmtilega félagsmenningu sem sameinar sveitarfélagið í blíðu og stríðu. Því vill Framsókn standa fyrir byggingu á nýju fjölnota íþróttahúsi, íþróttaakademíu og betra aðgengi allra íbúa sveitafélagsins með bættum samgöngum og styrkjum til íþrótta iðkunar með það markmið að auka forvarnir og minnka brottfall og brottflutnings ungs fólks úr sveitafélaginu.

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir

Höfundur skipar 4 sæti á lista Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.

Categories
Greinar

Framsækni í skólamálum

Deila grein

18/05/2018

Framsækni í skólamálum

Það er ekki sjálfgefið að vera valinn til þess að vera fulltrúi flokks til sveitastjórnarkosninga, ég þurfti að hugsa mig lengi um áður en ég ákvað að láta slag standa. Þegar málefnavinna flokksins hófst og boltinn fór að rúlla áttaði ég mig á því hversu skemmtilegt og gefandi þetta getur verið. Það að fá að taka þátt í að móta framtíðarsýn og hugmyndir sem ætlunin er að vinna eftir er mikill ábyrgðarhluti en við vonumst til þess að þær hugmyndir sem við höfum falli jafn vel í kramið hjá íbúum sveitarfélagsins og þær gera hjá okkur.

Við framsóknarfólk ætlum að sækja fram í skólamálum bæði á leikskóla og grunnskólastigi.

Nú er búið að samþykkja að byggja nýjan og glæsilegan leikskóla á Kleppjárnsreykjum auk þess að gera löngu tímabærar endurbætur og stækkun við grunnskólann í Borgarnesi þessu ber að fagna og munum við sjá til þess að framkvæmdirnar fari af stað.

Við ætlum ekki að staldra of lengi við heldur gera framsæknar áætlanir um aukningu á leikskólaplássi í Borgarnesi samhliða áætlunum um stórsókn í íbúðaframboði án þess þó að skerða það góða þjónustustig sem við höfum í leikskólum sveitarfélagsins, en það er ekki sjálfgefið í dag að geta boðið upp á leikskólapláss frá 12 mánaða aldri.

Við ætlum að tryggja nýliðun kennara með bættum kjörum og góðu starfsumhverfi, einnig viljum við stórefla sérfræðiþjónustu til þess að koma til móts við ólíkan hóp nemenda með fjölbreyttar þarfir. Framsókn vill stuðla að menntun leiðbeinenda í leik og grunnskólum og koma til móts við þá með því að laun verði ekki dregin af starfsmönnum í námslotum.

Í nútímasamfélagi er nauðsynlegt að vera framsýnn og tryggja verður að skólarnir séu þannig tækjum og tæknibúnaði búnir að þeir geti skilað af sér virkum þáttakendum inn í nútímasamfélag.

Við viljum nota kjörtímabilið í að vinna framtíðarstefnu í grunnskólamálum í samráði við íbúa sveitarfélagsins með það að markmiði að uppfylla ofangreind atriði.

Getum við ekki öll verið sammála um það að þjónustustig í skólamálum bæði á leik og grunnskólastigi er fyrir flesta grunnforsenda þegar valið er framtíðarheimili.

Davíð Sigurðsson.

Höfundur skipar annað sæti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.