Categories
Greinar

Dramb er falli næst í pólitík, Þorsteinn Víglundsson

Deila grein

07/06/2018

Dramb er falli næst í pólitík, Þorsteinn Víglundsson

»Hér er á ferðinni ríkisstjórn sérhagsmuna, íhaldsstjórn, ríkisstjórn þriggja Framsóknarflokka.« Bein tilvitnun í ræðu Þorsteins Víglundssonar í Eldhúsdagsumræðum frá Alþingi. Síðan ræðir Þorsteinn mjög um átökin milli alþjóðahyggju og þjóðernishyggju, frjálslyndis eða íhaldsmennsku og hann eignar Viðreisn Jón Sigurðsson, frelsishetju okkar Íslendinga.

Þegar maður hefur horft á pólitíska umræðu, ég vil segja í veröldinni allri í áratugi, sér maður að versti ókostur stjórnmálamanna er hrokinn og fyrirlitning öðrum sýnd og sjálfsvissa um eigið ágæti. Hjá hinum fornu Grikkjum var hroki og dramb (húbris) talinn versti eiginleiki mannsins. Þegar einhver upphóf sjálfan sig umfram það sem hann átti inni fyrir, gerði meira úr sjálfum sér en efni stóðu til.

Ég horfði eins og oft áður á Eldhúsdagsumræður frá Alþingi, þar var eins og jafnan áður margt vel sagt og annað að mínu viti verra. Mér fannst t.d. að myndarlegur þingmaður, Þorsteinn Víglundsson í Viðreisn, örugglega vel gefinn maður, sýna fádæma hroka. Ræða hans var að hluta tilvitnanir og úrklippur úr ræðum og skrifum Jóns Sigurðssonar forseta, mannsins sem varð frelsishetja Íslands, hann talaði eins og Jón væri flokksmaður Viðreisnar, væri hann enn á meðal vor.

En Viðreisn er flokkur stofnaður um eitt málefni, að ganga í ESB og taka upp evru. Jón Sigurðsson er okkar afreksmaður fyrir að hafa með rökum frelsað okkur undan danska kónginum og úr því ESB sem þá var uppi. Merkilegt, hér verða til nýir flokkar eins og Viðreisn og Björt framtíð sem staglast á eigin ágæti. Þeir eru flokkar alþjóðahyggju og frjálslyndis meðan einhver vondur »fjórflokkur,« haldinn »framsóknarmennsku«, sem er nýtt slagorð eða áróðursbragð um menn af verri endanum. Menn sem stjórna öllum »Fjórflokknum,« svona vondur andi. Þetta eru svona orðaleppar eins og Ólafur á Hrísbrú hafði um alla prestana á Mosfelli í Innansveitarkróniku Laxness, en hann nefndi þá gjarnan sem hóp: »Þessir andskotar«.

Þekktu sjálfan þig, Þorsteinn, og flokkinn þinn. Hvað hefur svo gerst? Báðir þessir flokkar komust í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, sem að mínu viti er ágætismaður. Björt framtíð hélt miðilsfund um miðja nótt og taldi sig eiga þjóðina að baki sér og réðst ódrengilega að forsætisráðherranum fyrrverandi. Þjóðin svaraði, flokkurinn dó í kosningunum. Viðreisn fylgdi Bjartri framtíð með svigurmælum um Sjálfstæðisflokkinn og Bjarna Benediktsson. Hvað gerðist? Þeir voru við dauðans mörk þegar að kosningum kom. En þá gripu þeir til mannfórna, stofnanda og formanni flokksins, Benedikt Jóhannessyni, var steypt fyrir björg, sennilega vond lykt af honum, of skyldur hinum framsæknu og duglegu Engeyingum. Kratinn úr landbúnaðarráðuneytinu, vinkona mín Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, tók við af því hversu »alþjóðleg og frjálslynd«, hún er og hafði verið, eins og fíll í glervörubúð atvinnuvegaráðuneytisins og bar þar litla virðingu fyrir elstu atvinnugreinum landsins, landbúnaði og sjávarútvegi. Enda var hún í girðingunni með heildsölum og Högum en ekki bændum, vildi færa fórnir fyrir innflytjendur sérstaklega, eða þannig virkaði hún í starfi sínu sem ráðherra. Og þessi stórmerki flokkur rétt marði það að fá fjóra þingmenn kjörna.

Ætli þjóðin sé svona illa að sér eða bara »vitlaus«. Eða voru þetta makleg málagjöld þessara nýju flokka vegna drambsins?

En kinnroðalaust þorum við framsóknarmenn í mannjöfnuð við alla aðra flokka með þá afburðaforystumenn sem Framsóknarflokkurinn hefur haft á að skipa í hundrað ára sögu sinni. Það er ekki sagt öðrum flokkum til niðrunar því þeir áttu líka sína afburðamenn. Þess vegna eiga menn ekki að hlusta á svona dramb og hroka sem henti Þorstein Víglundsson. Grikkirnir sögðu líka »þekktu sjálfan þig«. Og frelsarinn benti á bjálkann í auga hrokagikksins.

Guðni Ágústsson.

Höfundur er fyrrv. alþingismaður og ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. júní 2018.

Categories
Fréttir

Eldhúsdagur – almennar stjórnmálaumræður á Alþingi

Deila grein

06/06/2018

Eldhúsdagur – almennar stjórnmálaumræður á Alþingi

Umræðurnar skiptust í þrjár umferðir og hafði hver þingflokkur átta mínútur í fyrstu umferð, fimm mínútur í annarri og fimm mínútur síðustu umferð.
Ræðumenn Framsóknarflokksins voru Willum Þór Þórsson, 9. þm. Suðvesturkjördæmis í fyrstu umferð, Þórunn Egilsdóttir, 4. þm. Norðausturkjördæmis, í annarri og í þriðju Ásgerður K. Gylfadóttir, 7. þm. Suðurkjördæmis.
Willum Þór Þórsson, 9. þm. Suðvesturkjördæmis

Þórunn Egilsdóttir, 4. þm. Norðausturkjördæmis

Ásgerður K. Gylfadóttir, 7. þm. Suðurkjördæmis

Categories
Greinar

Til hamingju útskriftarnemar!

Deila grein

05/06/2018

Til hamingju útskriftarnemar!

Undanfarið hafa framhaldsskólar víða um land útskrifað nemendur af hinum ýmsu námsbrautum. Útskriftardagurinn er gleðidagur sem staðfestir farsæl verklok á námi sem unnið hefur verið að með þrautseigju og dugnaði. Það er fátt eins gefandi og það að hafa lagt á sig við nám og uppskorið eftir því. Sú þekking og reynsla sem nemendur hafa viðað að sér á skólagöngunni verður ekki tekin af þeim. Þetta er fjárfesting sem hver og einn mun búa að alla ævi.

Tímamót sem þessi opna líka nýja og spennandi kafla, blása okkur byr í seglin til þess að setja ný markmið og ná enn lengra á lífsins leið. Foreldrar fyllast stolti og kennararnir líka, þeir eiga sitt í árangri og sigrum nemendanna.

Á dögum sem þessum verður mér hugsað til baka. Sem barn hafði ég mikið dálæti á bíómyndinni um ofurhetjuna Súperman. Leikarinn Christopher Reeve fór með aðalhlutverkið og sveif skikkjuklæddur yfir New York borg, tilbúinn að bjarga deginum. Það væri ekki frásögu færandi nema að árum síðar útskrifaðist ég úr meistaranámi frá Columbia-háskóla í New York og hátíðarræðuna þá hélt sjálfur Christopher Reeve. Hann mætti á sviðið í hjólastól, þar sem hann hafði lamast í hestaslysi nokkrum árum áður. Ræða hans var mjög áhrifamikil og ég man hana enn því boðskapurinn er mér dýrmætur.

Í fyrsta lagi, fjallaði hann um mikilvægi þess að nýta þau tækifæri sem lífið býður upp á og gera alltaf það besta úr þeirri stöðu sem við erum í. Í öðru lagi, lagði hann áherslu á að sýna þakklæti og samkennd gagnvart ástvinum okkar, kennurum og þeim sem við hittum á lífsins leið. Í þriðja lagi talaði hann um þrautseigjuna og hvernig hún er oft forsenda þess að við getum náð árangri.

Ég hugsa oft til þessara orða hans. Eftir slysið varð Reeve ötull talsmaður fólks með mænuskaða og hafði mikil áhrif sem slíkur. Mér finnst hugvekja hans alltaf eiga við.  Hún er hvatning til allra, og sér í lagi þeirra glæsilegu útskriftarnema sem munu takast á við nýjar áskoranir að afloknu námi í framhaldsskóla. Þeir hefja næstu vegferð vel nestaðir af þekkingu, reynslu og vináttu sem hefur áunnist í framhaldsskólum landsins.

Ég óska öllum útskriftarnemum hjartanlega til hamingju með þennan áfanga. Megi framhaldið verða gæfuríkt hvert sem ferðinni kann að vera er heitið. Framtíðin er full af tækifærum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. júní 2018.

 

Categories
Fréttir

Um Vatnajökulsþjóðgarð

Deila grein

31/05/2018

Um Vatnajökulsþjóðgarð

Virðulegur forseti. Ég vil gera hér að umtalsefni málefni Vatnajökulsþjóðgarðs. Hann er einn af mikilvægustu seglum ferðaþjónustunnar á Íslandi og sækir stór hluti þeirra ferðamanna sem koma til landsins þjóðgarðinn heim. Stjórnunar- og verndaráætlun garðsins hafa verið í endurskoðun og atvinnustefna í mótun frá árinu 2013. Ný drög stjórnunar- og verndaráætlunar ná hins vegar ekki til Breiðamerkursands sem tekinn var inn í þjóðgarðinn með jörðinni Felli árið 2017. Því er engin áætlun í gangi á því svæði og enn síður atvinnustefna, sem þó er ekki vanþörf á.

Ég vil því benda á að atvinnustarfsemi og verndun svæðisins sem flestir gestir heimsækja er í ólestri og er nauðsynlegt að ríkið bregðist við með afgerandi hætti með því að vinna að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand og móta atvinnustefnu hið fyrsta með meginmarkmið Vatnajökulsþjóðgarðs að leiðarljósi.
Þriðja meginmarkmiðið hljóðar svona, með leyfi forseta:
„Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs leitast við, með stefnu sinni, ákvörðunum og í framkvæmd, að ýta undir að gæði og sérstaða þjóðgarðsins séu nýtt til frekari eflingar atvinnu og búsetu á svæðinu, til nýsköpunar í atvinnulífi, til listsköpunar og miðlunar á menningu svæðisins.“
En það er mikilvægt að undirstrika að væntingar til garðsins hafa verið og eru enn þá miklar. Fjölmargar fjölskyldur hafa á undanförnum árum lagt út í miklar fjárfestingar við að byggja upp fyrirtæki í afþreyingu fyrir ferðamenn, auk þeirra sem byggt hafa upp gisti- og veitingaþjónustu. Þessi litlu og viðkvæmu fyrirtæki gera út á jöklagöngur við Breiðamerkursand yfir veturinn þar sem stórbrotnir íshellar myndast. Nú skiptir máli að standa við þau orð að atvinnulíf geti þrifist á grunni náttúruverndar og efla þannig byggð á nærsvæðinu. Ef það mistekst í Vatnajökulsþjóðgarði má spá því að erfiðara verði fyrir ríkisvaldið að eiga í samstarfi við sveitarfélög um verndun annarra svæða.
Ásgerður Gylfadóttir, í störfum þingsins 29. maí 2018.

Categories
Greinar

Hin norræna plastáætlun

Deila grein

31/05/2018

Hin norræna plastáætlun

Umhverfismál eru einn af þeim málaflokkum sem Norðurlandaráð leggur mikla áherslu á. Þar eigum við ríkra sameiginlegra hagsmuna að gæta. Á fundi sínum 2. maí 2017 samþykktu umhverfisráðherrar Norðurlanda norræna áætlun um að draga úr umhverfisáhrifum plasts. Framtíðarsýn áætlunarinnar er að framvegis beri að framleiða, nýta og endurvinna plast í hringrásarkerfi sem skaði hvorki heilsu manna né umhverfið. Áætlunin, sem er stefnumarkandi, byggist á fyrri samnorrænum aðgerðum í plastmálum og er sett fram til að auka þekkingu á málefninu, leggja drög að aðgerðum og stuðla að samlegðaráhrifum, auknu samstarfi og vitundarvakningu á Norðurlöndum.

Aðgerðir

Undir „plastáætlunina“ heyra sex stefnumótandi áherslusvið fyrir norrænt samstarf um sjálfbæra plastnotkun sem eru:

  1. Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn myndun plastúrgangs og stuðningur við hönnun sem stuðlar að endurnýtingu, lengri líftíma og endurnotkun.
  2. Árangursrík kerfi fyrir meðhöndlun úrgangs og aukin endurvinnsla plastúrgangs.
  3. Samstarf um að stöðva plastmengun í hafinu og finna hagkvæmar lausnir til hreinsunar.
  4. Að efla þekkingu á örplasti og greina aðgerðir til að draga úr losun þess út í umhverfið.
  5. Að efla þekkingu á umhverfisáhrifum lífplasts, þ.e. plasts unnu úr lífmassa, og lífbrjótanlegs plasts í samanburði við hefðbundið plast.
  6. Að efla þekkingu á efnum sem valda vandræðum í tengslum við endurvinnslu plasts.

Norræna embættismannanefndin um umhverfis- og loftslagsmál ber meginábyrgð á áætluninni og hafa vinnuhópar á vegum nefndarinnar umsjón með framkvæmd áætlunarinnar. Utanaðkomandi samstarfsaðilar, svo sem stjórnvöld, rannsóknarstofnanir, atvinnulífið og félagasamtök, geta einnig komið að framkvæmd áætlunarinnar.

Auk þess að marka stefnu í aðgerðum sem draga úr plastmengun á Norðurlöndum er áætlunin einnig framlag Norðurlanda til framkvæmdar á alþjóðasamningum, þar á meðal heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna nr. 12 og 14 og átaki Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna gegn úrgangi í hafi sem ber yfirskriftina CleanSeas og er ætlað að hvetja stjórnvöld, fyrirtæki og almenning til aðgerða sem stuðla að hreinni höfum. Þá sýnir áætlunin einnig skuldbindingu Norðurlandanna til að innleiða ályktanir umhverfisþings Sameinuðu þjóðanna um úrgang og örplast í hafi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. maí 2018.

Categories
Greinar

Framsókn lætur verkin tala

Deila grein

29/05/2018

Framsókn lætur verkin tala

Liðinn vetur hefur verið afar viðburðarríkur, svo ekki sé meira sagt. Kosningar í haust, þar sem allir lögðust á eitt um að ná árangri sem skilaði okkur átta þingmönnum. Stemmingin var einstök og ég vil þakka öllum enn og aftur fyrir kröftuga og skemmtilega kosningabaráttu.

Afkastamiklir ráðherrar Framsóknar

Framsóknarflokkurinn fékk þrjú ráðuneyti og ráðherrarnir okkar hafa sýnt, á stuttum tíma, að þeir hafi gríðarlegan metnað fyrir þeim verkefnum sem fyrir liggja í ráðuneytunum. Félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hefur lagt áherslu á að bæta umgjörð barnaverndarmála og fjölga úrræðum fyrir börn í vanda. Nýlega samþykkti Alþingi lög frá um notendastýrða persónulega þjónustu. Um er að ræða langþráð markmið og lögin munu boða byltingu á lífsgæðum fatlaðs fólks. Menntamálaráðherrann okkar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir hefur talað fyrir eflingu iðn- og verknáms og mikilvægi þess að bæta umgjörð kennarastéttarinnar og hefur finnska leiðin verið nefnd í því samhengi. Ráðherra hefur einnig afnumið 25 ára regluna í framhaldsskóla og framlög til framhaldsskóla, háskólastarfs og rannsókna eru stóraukin. Ráðherra samgöngu- og sveitastjórnarmála, er með í smíðum byggðaáætlun og samgönguáætlun sem kynntar verða á næstu vikum. Nú þegar hefur ríkisstjórnin líst yfir umtalsverðri aukningu fjárframlaga til viðgerða og viðhalds á vegum vítt og breytt um landið með áherslu á bætt umferðaröryggi.

Mine kære nordiske venner

Sú sem þetta ritar hefur vasast í mörgu í vetur en ég sit bæði í utanríkismálanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd auk þess að vera formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Norrænt samstarf hefur lengi verið hornsteinn utanríkisstefnu Íslendinga. Norðurlandaráð er þingmannavettvangur og mörg þeirra réttinda sem eru sameiginleg á Norðurlöndunum eiga rætur að rekja til Norðurlandaráðs. Það var stofnað árið 1952 og er skipað 87 þingmönnum. Markmið Norðurlandaráðs er að auka samstarf norrænna ríkja með markvissri hugmyndavinnu og tilmælum sem beint er til Norrænu ráðherranefndarinnar eða ríkisstjórna Norðurlanda. Íslandsdeildin lagði til dæmis fram tillögu á vorþingi ráðsins í apríl sl. sem felst í að Norðurlandaráð beini þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar að hún hafi frumkvæði að norrænu rannsóknasamstarfi um súrnun sjávar, vistkerfi og mögulegar afleiðingar súrnunar sjávar á afkomu íbúa strandbyggða Norðurlanda og leggi til fjármagn til þessa verkefni á fjárlögum.

Átta þingmannamál

Mikið hefur verið sagt og skrifað um svokallað „umskurðarfrumvarp“ sem ég lagði fram í upphafi árs en þegar þetta er ritað þá er enn óvissa um hver afdrif þess verða á yfirstandandi þingi. Að auki hef ég lagt fram sjö önnur mál sem minna hefur borið á og þar af fengið eina þingsályktunartillögu samþykkta. Hún felur í sér að forsætisráðherra innleiði verklagsreglur um fjarfundi fyrir ráðuneytin, í því skyni að auðvelda stofnunum, sveitarstjórnum og öðrum aðilum um allt land samskipti við ráðuneytin. Frumvarp um breytingar á lögum um líffæragjöf er komið vel áleiðis í Velferðarnefnd og ég bind vonir við að það fáist samþykkt á vorþingi en mér sýnist að hin málin sem ég lagði fram fáist því miður ekki afgreidd, þau eru: Breytingar á lögum um fæðingarorlof, þ.e. að þeir foreldrar sem búa langt frá fæðingastað fá viðbót við sitt fæðingarorlof í samræmi við þann tíma sem fólk þarf að vera fjarri heimili sínu og bíða fæðingar. Frumvarp um breytingar á lögum um barnalífeyri hefur ekki verið afgreitt, ekki heldur frumvarp um réttindi barna til að vita uppruna sinn og frumvarp um atvinnuleysistryggingar sem fjallar um að fangar geti áunnið sér rétt til atvinnuleysisbóta, sinni þeir námi eða vinnu á meðan á afplánun stendur. Nýlega lagði ég fram nýtt frumvarp varðandi aukið eftirlit með hættulegum dæmdum barnaníðingum, eftir að afplánun lýkur en það hefur ekki komist á dagskrá.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars og góðu gengi í kosningunum framundan. Framsókn til framtíðar – XB!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist í Þjóðólfi maí 2018.

Categories
Greinar

Kæru flokksmenn!

Deila grein

26/05/2018

Kæru flokksmenn!

Kæru flokksmenn!

Í dag eru sveitarstjórnarkosningar haldnar í 23. sinn. Framsóknarflokkurinn myndar kjölfestu í íslenskum stjórnmálum. Hann er jafnframt elsti starfandi flokkur landsins með 102 ára sögu innan Alþingis og sveitarstjórna. Sveitarstjórnarkosningar eru ólíkar örðum kosningum til þings og forseta. Þær eru ávallt á fjögurra ára fresti, þó svo að meirihluti í sveitarfélaginu sé ekki starfhæfur þá er ekki möguleiki á að rjúfa sveitarstjórn og kjósa að nýju. Mikilvægt er að nýta kosningaréttinn því hann tryggir að hver og einn hafi áhrif á samfélagið.

Framsóknarflokkurinn hefur á að skipa öflugum frambjóðendum víðs vegar um land allt sem hafa metnað, löngun og ástríðu til að láta gott af sér leiða. Innan flokksins eru 24 framboð vítt og breitt um landið og 7 blönduð framboð. Í Reykjavík eru frambjóðendur 46 talsins, í suðvestur 79, í norðvestur 86, í norðaustur 118 og í suður 114. Alls eru frambjóðendur flokksins 443 og kynjahlutfallið er 46,5% kvk. og 53,5% kk. Á öllum stöðum er fólki annt um að landið sé í byggð, fjölbreytt atvinna þar sem tekið er tillit til ólíkra menntunarstiga og þjónustustig gott. Við höfum margsýnt og sannað að það er eftirspurn eftir skynsamlegum lausnum í samgöngumálum, metnaðarfullu skólakerfi og öflugri grunnþjónustu. Víðs vegar er skortur á íbúðum sem kallar á að bregðast þurfi við með því að endurskipuleggja eftir kosningar. Mikilvægt er að í nýjum meirihlutum sé gott fólk sem hefur framsýnar lausnir og setur fram skipulag í takt við breyttar þarfir. Við byggjum upp traust með því að vinna að málefnum af heilindum og alúð með metnað og frumkvæði að leiðarljósi. Nýtum kosningaréttinn og hvetjum aðra til að gera slíkt hið sama. Þannig tryggjum við að okkar öfluga fólk komist að og setji mikilvæg verkefni í framkvæmd sem gerir nærsamfélagið betra þar sem gott er að búa. Að lokum hvet ég alla til að heilsa upp á frambjóðendur og njóta þess að fara í gott og girnilegt kosningakaffi. Til hamingju með daginn.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Categories
Greinar

Frá B-lista. Áfram veginn!

Deila grein

25/05/2018

Frá B-lista. Áfram veginn!

Ef þú, kjósandi góður, mundir staldra við uppi á Hámundarstaðarhálsi, horfa til allra átta og ímynda þér að hér væri engin byggð. Engar blómlegar jarðir með lömb í haga, engir bleikir akrar eða slegin tún. Engar víkur með húsaþyrpingum og bátum í höfn. Eftir sem áður stæði landið fagurt og frítt, og fannhvítir jöklanna tindar. En ekkert skvaldur, engin hlátrasköll eða börn að leik, ekkert fólk.

Það sem gerir byggðarlagið okkar að samfélagi eru íbúarnir. Hér er iðandi mannlíf til sjávar og sveita. Hér er blómstrandi atvinnu-og menningarlíf. Í Dalvíkurbyggð er aftur að fjölga fólki og nýjar byggingar rísa. Hér ríkir bjartsýni og jákvæðni.

Okkar stærsta auðlind í Dalvíkurbyggð er fólkið. Hér gengur hver maður undir annars hönd til að láta vélina ganga smurt. Allir eru mikilvægir hlekkir í keðjunni. Já, mannauðurinn í Dalvíkurbyggð gerir okkur svo sannarlega rík.

Á fjögurra ára fresti göngum við til kosninga til sveitarstjórnar. Við kjósum fólk til að vinna að framfaramálum byggðarlagsins, móta stefnur til framtíðar og framfylgja samþykktum sveitarstjórnar. Við kjósum fólk til ábyrgðar fyrir sveitarfélagið, fyrir okkur.

Við á B-lista Framsóknar-og félagshyggjufólks höfum fundað víða og kynnt stefnumál okkar bæði í ræðu og riti. Við þökkum kærlega fyrir góðar undirtektir við okkar málflutningi. Við þökkum fyrir nytsamlegar ábendingar og líflegar umræður. Við viljum að samfélagið okkar blómstri og þróist sífellt til betri vegar okkur öllum til heilla. Við viljum hlusta á íbúana, unga sem aldna. Við viljum vinna fyrir ykkur.

Við óskum eftir víðtækum stuðningi í kosningunum laugardaginn 26.maí. Með því að setja X við B eru auknar líkur á því að B-listinn verði leiðandi afl eftir kosningar. Við teljum það afar brýnt og heitum því að vinna af heilindum og metnaði fyrir byggðarlaginu og íbúum þess. Setjum X við B á kjördag. Áfram veginn – XB

Katrín Sigurjónsdóttir, oddviti B-lista Framsóknarmanna og félagshyggjufólks í Dalvíkurbyggð.

Categories
Greinar

Fjölskyldan í fyrirrúmi

Deila grein

25/05/2018

Fjölskyldan í fyrirrúmi

Frjáls með Framsókn leggja áherslu á málefni fjölskyldunnar í komandi kosningum. Það er okkur mikilvægt að skapa hér enn betra samfélag fyrir fjölskylduna með áherslum á umhverfismál, öryggi, íþrótta- og tómstundastarf.

Umhverfið

  • Við eigum falleg græn svæði eins og t.d Lystigarðinn og aðstöðuna undir Hamrinum. Þessi svæði eiga mikið inni og getum við nýtt þau enn betur með lagfæringum og nýjum tækifærum til leikja og útiveru. Við viljum einnig leita leiða til að útbúa varanlega salernisaðstöðu á þessum svæðum.
  • Við teljum mikilvægt að ljúka við frágang á aðkomu og bílastæði við Hamarshöllina sem og að finna varanlega lausn á búningaaðstöðu en hún er óviðunandi.
  • Hveragerðisbær er eitt af fáum sveitarfélögum landsins sem flokkar í þriggja tunnu kerfi og þar á meðal lífrænt. Við viljum áfram vera leiðandi á þessu sviði og efla flokkun og endurvinnslu úrgangs og stuðla að plastpokalausu Hveragerði.
  • Við viljum útvíkka starf umhverfisnefndar yfir í umhverfis- og ferðamálanefnd sem hefur það markmið að fá ferðamanninn til að dvelja lengur í bænum.

Öryggi

  • Við viljum taka umferðaröryggismál í bænum til endurskoðunar með öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í huga. Einnig viljum við fjölga speglum þar sem skyggni er lítið fyrir ökumenn vélknúinna ökutækja.
  • Þrátt fyrir að gervigrasið á sparkvellinum við grunnskólann sé tiltölulega nýtt er það iðkendum varasamt. Við teljum nauðsynlegt að laga gervigrasið til að tryggja öryggi iðkenda.

Íþrótta- og tómstundastarf

  • Til að styðja enn betur við fjölskyldur og íþróttaiðkun barna í Hveragerði viljum við hækka frístundastyrkinn í a.m.k. 40.000 kr.  á kjörtímabilinu.
  • Við teljum nauðsynlegt að keyra yngstu iðkendurna á æfingar í Hamarshöllinni eins og verið hefur.  Við viljum útfæra aktsturinn enn frekar, bæði með fjölgun ferða og að aka stuttan hring um bæinn með ákveðnum stoppistöðvum.
  • Við styðjum að komið verði á fót íþróttaskóla í samstarfi við Hamar fyrir yngstu börnin, svo þau fái tækifæri til að kynnast sem flestum íþróttagreinum.

Byggjum upp enn fjölskylduvænna samfélag í Hveragerði!

Við hvetjum þig til að setja X við B í sveitarstjórnarkosningunum á laugardaginn!

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, skipar 2. sæti á framboðslista Frjálsra með Framsókn í Hveragerði.

Snorri Þorvaldsson, skipar 3. sæti á framboðslista Frjálsra með Framsókn í Hveragerði.

Categories
Greinar

Metaðsókn í sundlaug Akureyrar

Deila grein

24/05/2018

Metaðsókn í sundlaug Akureyrar

Metaðsókn var að Sundlaug Akureyrar á síðasta ári. Straumhvörf urðu þegar rennibrautirnar vinsælu voru teknar í notkun í júlí en frá þeim tíma og til ársloka fjölgaði heimsóknum í laugina um 40.000 gesti miðað við sama tíma árið áður. Heildarfjöldi gesta á árinu var um 389 þúsund, töluvert umfram eldra aðsóknarmet.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur aukningin haldið áfram á þessu ári og ef fram heldur sem horfir má gera ráð fyrir því að heimsóknir í laugina verði yfir 400 þúsund nú í ár.

Framkvæmdirnar við sundlaugina eru sannarlega að skila sér, ekki eingöngu í ánægju bæjarbúa og ferðafólks, heldur einnig með auknum tekjum sundlaugarinnar en á síðasta ári voru tekjur laugarinnar 21,5 milljónir umfram áætlun sem er sannarlega ánægjulegur ávinningur.

Heitur pottur og vaðlaug

Í dag voru vaðlaug og heitur pottur tekin í notkun við sundlaugina. Potturinn er með nuddstútum og er góð viðbót við potta laugarinnar. Í vaðlauginni er bæði hægt að busla og leika sér, auk þess sem þaðan er gott að fylgjast með börnunum bæði í rennibrautunum og lendingarlauginni.

Framkvæmdirnar við laugina hafa verið umfangmiklar. Nýtt og mikið notað kalt kar hefur leyst fiskikarið af hólmi. Nýtt yfirborðsefni var sett á barnavaðlaugina og nýjum leiktækjum komið þar fyrir auk þess sem steypt var ný lendingarlaug við rennibrautirnar.  Ráðist var í löngu tímabært viðhald á sundlaugarsvæðinu, skipt var um yfirborðsefni á bökkum laugarinnar auk annarra viðhaldaverkefna.

Gott aðgengi

Mikil áhersla var lögð á bætt aðgengi á sundlaugarsvæðinu. Nýr fjölnotaklefi var tekinn í notkun en þá aðstöðu hefur skort. Sérstaklega var hugað að góðu aðgengi fyrir fatlaða í nýja pottinum og vaðlauginni þannig að mun fleiri geta nú  nýtt sér aðstöðuna og notið þess sem laugin hefur upp á að bjóða.

Senn sér fyrir endann á þessum viðamiklu framkvæmdum við laugina en gert er ráð fyrir að  framkvæmdum við sundlaugalóðina ljúki í júní en þar verður útbúin sólbaðsaðstaða og leiksvæði fyrir börn.

Eins og heimsóknafjöldinn í sundlaugina gefur til kynna er hún afar vinsæl meðal bæjarbúa og hefur að auki heilmikið aðdráttarafl fyrir gesti okkar, jafnt sumar sem vetur. Laugin, pottarnir, rennibrautirnar og svæðið sem heild gegnir mikilvægu hlutverki sem vatnaparadís fyrir alla fjölskylduna og er einn vinsælasti áningarstaður innlendra sem erlendra gesta okkar milli þess sem þeir njóta alls þess sem Akureyri hefur upp á að bjóða í afþreyingu, listum og skemmtun.

Ingibjörg Ólöf Isaksen

Höfundur er framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi og skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á vikudagur.is 22. maí 2018.