Categories
Greinar

Þakklæti á fullveldisafmæli og áskoranir framtíðar

Deila grein

18/07/2018

Þakklæti á fullveldisafmæli og áskoranir framtíðar

Haldið er upp á það í dag að 100 ár eru frá því að samn­ingn­um um full­veldi Íslands var lokið með und­ir­rit­un sam­bands­lag­anna sem tóku gildi 1. des­em­ber 1918. Sjálf­stæðis­bar­átt­an ein­kenndi 19. öld­ina og markaði end­ur­reisn Alþing­is Íslend­inga. Frels­isþráin var mik­il og sner­ist stjórn­má­laum­ræðan einkum um það hvernig Íslend­ing­ar myndu ráða sín­um mál­um sjálf­ir.

Sjálf­stæðis­bar­átt­an færði okk­ur betri lífs­kjör
Full­veld­is­árið 1918 var krefj­andi og stóð ís­lenska þjóðin frammi fyr­ir áskor­un­um af nátt­úr­unn­ar hendi sem settu svip á þjóðlífið. Þá var frosta­vet­ur­inn mikli og haf­ís tor­veldaði sigl­ing­ar víða um landið. Spánska veik­in tók sinn toll af þjóðinni og Katla hóf upp raust sína. Full­veld­inu var fagnað hóf­lega í ljósi þess sem á und­an hafði gengið en árið 1918 færði ís­lensku þjóðinni auk­inn rétt og varðaði mik­il­væg­an áfanga á leið okk­ar til sjálf­stæðis. Á þeim hundrað árum sem liðin eru höf­um við sem frjálst og full­valda ríki náð að bylta lífs­kjör­um í land­inu. Við höf­um borið gæfu til að nýta auðlind­ir lands­ins á sjálf­bær­an hátt og styðja við öfl­ugt vel­ferðarsam­fé­lag, þar sem all­ir eiga að fá tæki­færi til að lifa gæfu­ríku lífi óháð efna­hag. Hins veg­ar er það svo að þrátt fyr­ir að ís­lensku sam­fé­lagi hafi vegnað vel á full­veld­is­tím­an­um er ekki sjálf­gefið að svo verði næstu 100 árin. Því verðum við að vera meðvituð um þær áskor­an­ir sem við stönd­um frammi fyr­ir og tak­ast á við þær af festu. Mig lang­ar til að fjalla um þrjú grund­vall­ar­atriði sem oft eru nefnd sem for­send­ur full­veld­is, en þau eru fólk, land og lög­bundið skipu­lag. Öll þessi atriði skipta máli í fortíð, nútíð og framtíð.

Fólkið og tungu­málið
Ein af þeim áskor­un­um sem ég vil sér­stak­lega nefna er staða ís­lensk­unn­ar. Tung­an hef­ur átt und­ir högg að sækja í kjöl­far örra sam­fé­lags- og tækni­breyt­inga sem hafa breytt dag­legu lífi okk­ar. Til að mynda hef­ur snjall­tækja­bylt­ing­in aukið aðgang að er­lendu afþrey­ing­ar­efni. Þá get­ur fólk talað við tæk­in sín á ensku. Við vilj­um bregðast við þessu og liður í því er fram­kvæmd á mál­tækni­áætl­un fyr­ir ís­lensku 2018-2022. Mark­mið henn­ar er að tryggja að hægt sé að nota ís­lensku í sam­skipt­um við tæki og í allri upp­lýs­inga­vinnslu og gera tungu­málið okk­ar gild­andi í sta­f­ræn­um heimi til framtíðar. Það er hins veg­ar ekki nóg að snara öll­um snjall­tækj­um yfir á ís­lenska tungu. Við verðum sjálf að vera meðvituð um mik­il­vægi þess að leggja rækt við málið okk­ar og nota það. Það eru for­rétt­indi fyr­ir litla þjóð að tala eigið tungu­mál. Því vil ég brýna alla til þess að leggja sitt af mörk­um við að rækta það.

Landið okk­ar og eign­ar­hald
Önnur áskor­un sem ég vil nefna snýr að landi og eign­ar­haldi á því. Lög um eign­ar­rétt og af­nota­rétt fast­eigna kveða á um að eng­inn megi öðlast eign­ar­rétt eða af­nota­rétt yfir fast­eign­um á Íslandi nema viðkom­andi aðili sé ís­lensk­ur rík­is­borg­ari eða með lög­heim­ili á Íslandi. Hins veg­ar get­ur ráðherra vikið frá þessu skil­yrði sam­kvæmt um­sókn frá áhuga­söm­um aðilum, sem ger­ir nú­ver­andi lög­gjöf frem­ur ógagn­sæja. Heim­ild­ir og tak­mark­an­ir er­lendra aðila utan EES-svæðis­ins er lúta að fast­eign­um hér á landi eru einnig óskýr­ar. Það verður að koma í veg fyr­ir að landið hverfi smám sam­an úr eigu þjóðar­inn­ar og að nátt­úru­auðlind­ir glat­ist. Staðreynd­in er sú að land­fræðileg lega Íslands er afar dýr­mæt og mik­il­vægi henn­ar mun aukast í framtíðinni. Í rík­is­stjórn­arsátt­mál­an­um er kveðið á um að skoðaðar verði leiðir til að setja skil­yrði við kaup á landi sem taka mið af stefnu stjórn­valda um þróun byggða, land­nýt­ingu og um­gengni um auðlind­ir. Það er nauðsyn­legt að marka skýr­ari stefnu í þessu máli.

Mik­il­væg þrískipt­ing valds­ins
Í þriðja lagi lang­ar mig að nefna lög­bundið skipu­lag. Það sem felst í því að verða frjálst og full­valda ríki er einka­rétt­ur þjóðar­inn­ar til þess að fara með æðstu stjórn dómsvalds, lög­gjaf­ar- og fram­kvæmd­ar­valds. Það stjórn­ar­far sem reynst hef­ur far­sæl­ast er lýðræðið. Þess vegna er brýnt að efla Alþingi til að styðja við stjórn­skip­an lands­ins. Umboðið sem kjörn­ir full­trú­ar hljóta í kosn­ing­um er afar þýðing­ar­mikið og mik­il­vægt að styðja við það. Alþing­is­mönn­um ber að varðveita þetta umboð af mik­illi kost­gæfni og það er okk­ar hlut­verk að tryggja að op­in­ber stefnu­mót­un taki ávallt mið af því. Alþing­is­menn eru kjörn­ir til að fram­fylgja mál­um sem þeir fá umboð til í kosn­ing­um. Póli­tískt eign­ar­hald á stefnu­mót­un er lyk­il­atriði í því að hún sé far­sæl og sjálf­bær. Ef kjörn­ir full­trú­ar fram­kvæmda­valds­ins missa sjón­ar á umboði sínu og hlut­verki gagn­vart kjós­end­um er lýðræðið sjálft í hættu.

Full­veldið og sá rétt­ur sem því fylg­ir hef­ur gert okk­ur kleift að stýra mál­um okk­ar ásamt því að vera virk­ir þátt­tak­end­ur í alþjóðasam­fé­lag­inu. Á dög­um sem þess­um, þegar við horf­um 100 ár aft­ur í tím­ann, fyll­umst við flest þakk­læti fyr­ir þær ákv­arðanir sem tryggðu okk­ur þessi rétt­indi. Hug­ur­inn leit­ar síðan óneit­an­lega til framtíðar og þeirra verk­efna sem bíða okk­ar, það er okk­ar að tryggja þá far­sæld.

Lilja Dögg Alfreðsdóttirmennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. júlí 2018.

Categories
Fréttir

Sumarlokun flokksskrifstofu

Deila grein

14/07/2018

Sumarlokun flokksskrifstofu

Skrifstofa Framsóknar verður lokuð vegna sumarleyfa starfsmanna frá og með 16. júlí til og með 8. ágúst.
Opnum aftur fimmtudaginn 9. ágúst.
Hægt er að senda erindi og fyrirspurnir á netfangið, framsokn@framsokn.is.
Framsóknarflokkurinn

Categories
Greinar

Íþróttaveisla á Landsmóti UMFÍ

Deila grein

13/07/2018

Íþróttaveisla á Landsmóti UMFÍ

Mikil íþróttaveisla hefst í dag norður á Sauðárkróki, þar sem fram fer Landsmót Ungmennafélags Íslands. Samhliða því verður Landsmót UMFÍ fyrir 50 ára og eldri haldið en Unglingalandsmótið fer síðan fram í Þorlákshöfn í ágúst. Þessi mót eru mikilvægur vettvangur fyrir íþróttafólk á öllum aldri og öllum getustigum og til vitnis um hversu líflegt og fjölbreytt íþróttalíf er í landinu. Landsmótið er með nýju sniði þetta árið, þar sem einstaklingar 18 ára og eldri geta nú skráð sig til leiks, hvort sem þeir eru í íþrótta- og ungmennafélagi eða ekki. Það verður keppt í ríflega 30 greinum en auk þess geta gestir prófað ýmsar íþróttagreinar og hreyfingu á mótinu því boðið verður upp á kennslu, opna tíma og kynningar fyrir áhugasama.

Ungmennafélögin lögðu grunninn að íþróttamenningu hér á landi og þau gegna enn í dag mikilsverðu hlutverki með því að stuðla að fjölbreyttri íþróttaiðkun almennings. Innan Landssambands ungmennafélaganna eru nú 340 félög og félagsmenn rúmlega 160 þúsund, eða um 47% landsmanna. Það var mikil framsýni af stofnendum ungmennafélaganna fyrir daga fullveldisins að leggja ríka áherslu á heilsueflingu í gegnum hreyfingu og félagsstarf. Rannsóknir hafa í seinni tíð sýnt fram á veigamikið samspil hreyfingar, sjálfstrausts og almennrar vellíðanar. Félagslíf ungs fólks á Íslandi var líka fremur fábrotið í árdaga ungmennafélaganna og segja má með sanni að þau hafi einnig lyft grettistaki þar.

Ungmennafélagshreyfingin kemur að ótal verkefnum sem tengjast forvarnarstarfi, menningarmálum og útivist. Einna dýrmætasta starf hennar að mínu mati felst í því að auka virkni fólks, hvort heldur í félagsstörfum eða á íþróttasviðinu. Þessi virkni verður okkur sífellt þýðingarmeiri, ekki síst á tímum þar sem vísbendingar eru um að félagsleg einangrun sé að aukast í samfélaginu.

Það er aðall ungmennafélaganna að allir séu velkomnir og geti tekið þátt í íþrótta- og félagsstarfi og fundið sér hreyfingu við hæfi. Mikilvægi hreyfingar allt lífið er óumdeilt en okkur sem stöndum að íþrótta- og æskulýðsmálum hér á landi er einnig félagslegt og menningarlegt gildi íþrótta afar hugleikið. Þetta nýja fyrirkomulag sem prófað verður á landsmótinu 2018 mun vonandi hvetja fleiri til þess að stíga fram á völlinn – hvort sem þau vilja keppa í fótbolta, frisbígolfi eða stígvélakasti, eða einfaldlega prófa eitthvað alveg nýtt. Það er aldrei of seint að byrja.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. júlí 2018.

Categories
Greinar

Lesum í allt sumar

Deila grein

09/07/2018

Lesum í allt sumar

Mikilvægi lesturs og lesskilnings er ótvírætt. Við höfum lagt á það ríka áherslu síðustu ár að bæta læsi, ekki síst hjá börnunum okkar. Sumarið er tími samverunnar, útivistar og leikja en það er mikilvægt að minna á lesturinn líka. Það er staðreynd að ef barn les ekkert yfir sumartímann getur orðið allt að þriggja mánaða afturför á lestrarfærni þess í sumarfríinu. Góðu fréttirnar eru þó að það þarf ekki mikið til að börn viðhaldi færninni eða taki jafnvel framförum. Rannsóknir sýna að til þess að koma í veg fyrir þessa afturför dugar að lesa aðeins 4-5 bækur yfir sumarið eða lesa að jafnaði tvisvar til þrisvar í viku í um það bil 15 mínútur í senn.

Foreldrarnir besta fyrirmyndin

Sem hvatningu fyrir lesendur á grunnskólaaldri höfum við skipulagt sumarlestrarleik með góðri hjálp, meðal annars frá íslenska karlalandsliðinu í fótbolta og Menntamálastofnun. Það er framhald Söguboltans, samstarfsverkefnis mennta- og menningarmálaráðuneytis, barnabókahöfunda og RÚV sem skipulagt var í tengslum við þátttöku landsliðsins í heimsmeistaramótinu í júní en þar tvinnum við saman tvær ástríður landsmanna, fótbolta og bókmenntir. Söguboltaþættina má finna á vef KrakkaRÚV og lestrarleikurinn fór í loftið um helgina. Hann er einfaldur og til þess gerður að hvetja krakka til þess að lesa, á alla vegu og í allt sumar.

Gleymum því ekki að bestu fyrirmyndir barnanna þegar kemur að lestri eru foreldarnir. Það er vænlegra til árangurs ef fleiri taka sér bók í hönd á heimilinu en börnin. Sem fyrr læra þau það sem fyrir þeim er haft og þess vegna þurfum við öll að muna eftir því að lesa líka. Setjum lesturinn á dagskrá í sumar, leggjum frá okkur snjalltækin og finnum okkur tíma í sól eða regni til þess að njóta góðra bóka. Það eru kannski ekki verðlaun í boði fyrir okkur fullorðna fólkið önnur en lestraránægjan – en hún er líka heilmikils virði.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. júlí 2018.

Categories
Greinar

Jákvæð teikn á lofti í menntamálum

Deila grein

03/07/2018

Jákvæð teikn á lofti í menntamálum

Í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar er lögð sér­stök áhersla á mennta­mál og upp­bygg­ingu á því sviði. Þar hef­ur margt áunn­ist og við erum þegar far­in að sjá vís­bend­ing­ar um ár­ang­ur ým­issa verk­efna sem hrundið var af stað í vet­ur.

Iðn- og verk­nám
Fyrst má nefna það mark­mið okk­ar að efla iðn-, starfs- og verk­nám. Þar er stefna okk­ar að styrkja ut­an­um­hald með verk- og starfsþjálf­un nem­enda og ein­falda aðgengi þeirra að nám­inu. Niður­fell­ing efn­is­gjalda var skref í þá átt. Mik­il­vægt er einnig að kynna bet­ur þá náms- og starfs­kosti sem eru í boði. Sú vinna fer einkar vel af stað og sem dæmi hef­ur inn­rituðum nem­end­um á verk- og starfs­náms­braut­um fram­halds­skóla fjölgað um 33% frá fyrra ári. Kost­ir verk- og starfs­mennt­un­ar eru ótví­ræðir og mik­il eft­ir­spurn er eft­ir fólki með slíka mennt­un á ýms­um sviðum at­vinnu­lífs­ins. Þessi þróun er því mjög ánægju­leg.

Kenn­ara­starfið
Annað brýnt verk­efni okk­ar er styrkja alla um­gjörð í kring­um kenn­ara og auka nýliðun í stétt­inni. Við tók­um í vor við til­lög­um um aðgerðir þar að lút­andi. Verið er að kostnaðarmeta þær þessa dag­ana og ráðgert að í haust muni liggja fyr­ir tíma­sett aðgerðaáætl­un um nýliðun kenn­ara á öll­um skóla­stig­um. Í því sam­hengi er gleðilegt að fá frétt­ir um aukna aðsókn í kenn­ara­nám, bæði í Há­skól­an­um á Ak­ur­eyri, þar sem aukn­ing­in er 53% í grunn­nám í kenn­ara­deild, og við Há­skóla Íslands, þar sem um­sókn­um um grunn­skóla­kenn­ara­nám fjölgaði um 6% og leik­skóla­kenn­ara­nám um 60%. Við höf­um unnið öt­ul­lega í góðu sam­starfi við hagaðila að því að kynna kenn­ara­námið og það er að skila ár­angri.

Brott­hvarf
Aðgerðir gegn brott­hvarfi nem­enda úr fram­halds­skól­um er þriðja stóra verk­efnið sem ég vil tæpa á hér. Mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytið vinn­ur að stöðuskýrslu í sér­stöku brott­hvarfs­verk­efni þar sem verið er að greina gögn og koma með til­lög­ur að áhersl­um sem nýta má til frek­ari stefnu­mót­un­ar. Reiknað er með að hún verði til­bú­in um miðjan júlí. Niður­stöður út­reikn­inga á ár­legu ný­nem­a­brott­hvarfi sýna að það hef­ur minnkað miðað við gögn síðustu þriggja ára og er það vel. Fjöl­marg­ar aðgerðir hafa þegar verið sett­ar af stað til að sporna við brott­hvarfi, m.a. auk­in fram­lög til fram­halds­skóla­stigs­ins, betri kort­lagn­ing á brott­hvarfs­vand­an­um og verk­efni er teng­ist efl­ingu geðheil­brigðisþjón­ustu.

Það eru því ýmis já­kvæð teikn á lofti þegar við skoðum stöðuna í ís­lensk­um mennta­mál­um. Eitt það mik­il­væg­asta tel ég þann áhuga og sam­vinnu­vilja sem ég skynja á ferðum mín­um og fund­um – ég hef eng­an hitt enn sem ekki hef­ur skoðun á skóla- og mennta­mál­um. Enda snerta mennta­mál okk­ur öll og ekki síst þegar horft er til þess sam­fé­lags sem við vilj­um skapa okk­ur til framtíðar.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir

Höf­und­ur er mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. júlí 2018.

Categories
Greinar

Jákvæð þróun í íþróttamálum

Deila grein

24/06/2018

Jákvæð þróun í íþróttamálum

Nú fylgist þjóðin með heimsmeistaramótinu í Rússlandi og fylkir sér á bak við landsliðið sitt. Á sama tíma eru þúsundir fjölskyldna að undirbúa sig fyrir fótboltamót barna sinna í sumar og hjá mörgum ríkir sérstök eftirvænting. Það fer mikil vinna og alúð í að skipuleggja mót sem þessi, og oft er sú vinna unnin í sjálfboðastarfi. Öllum þeim frábæru sjálfboðaliðum og mótshöldurum verður seint fullþakkað fyrir að gera upplifun þátttakenda sem besta.

Gott aðgengi og jafnrétti eru að mínu mati lykilbreytur þegar kemur að árangri í íþróttum. Með tilkomu frístundakorta og fjölgun iðkenda hafa fleiri börn tækifæri til þess að spreyta sig í mismunandi íþróttagreinum. Stúlkum sem stunda íþróttir hefur fjölgað verulega að undanförnu og er það mjög jákvæð þróun. Ég tel að sú fjölgun hafi einnig aukið til muna virkni foreldra í íþróttastarfi, sem hefur afar jákvæð áhrif á árangur og stemningu í kringum íþróttaþátttökuna.

Í grein í ritinu „Stjórnmál og stjórnsýsla“ er fjallað um niðurstöður rannsóknar á kynjajafnrétti í íþróttum. Þar kemur fram að stjórnvöld hafi mikilvægu hlutverki að gegna við að tryggja kynjajafnrétti en ekki hafi verið horft til kynjasjónarmiða við undirbúning gildandi íþróttalaga. Ennfremur að stefnumótun í málaflokknum hafi ekki tekið mið af þeim og stjórnvöld ekki lagt þau til grundvallar í fjárveitingum sínum til íþróttahreyfingarinnar.

Rannsóknir sem þessar eru mikilvægar opinberri stefnumótun. Ég fagna þeim og tel brýnt að gera grein fyrir þeirri vinnu sem þegar er hafin til umbóta á þessu sviði. Aðgerðum kynjaðrar fjárlagagerðar er beitt við úthlutun fjármagns til íþróttamála. Í fjármálaáætlun 2019-2023 eru kyngreindir mælikvarðar með markmiðum um að auka gæði í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi, ásamt markmiði um að efla stuðning við afreksíþróttafólk. Íþróttastefnan er í endurskoðun og þar er lögð áhersla á að jafna tækifæri og þátttöku kynjanna. Þá er unnið að því að fjölga konum í stjórnum íþróttafélaga en hlutfall þeirra nú er 36%. Jafnréttisstofu hefur einnig verið falið að kalla eftir jafnréttisáætlunum íþróttafélaga og aðstoða við gerð þeirra. Verið er að gera úttekt á íþróttakennslu í skólum með það að markmiði að skoða áhrif hennar á jafnrétti og einnig verður að nefna að KSÍ steig mjög mikilvægt skref í byrjun árs þegar árangurstengdar greiðslur A-landsliða karla og kvenna voru jafnaðar.

Þessi skref sem stjórnvöld og íþróttahreyfingin stíga skipta miklu. Við vitum að það má gera betur á sumum sviðum þegar rætt er um jafnrétti og íþróttir en stefna okkar er skýr og við erum á réttri vegferð. Árangur Íslands í íþróttamálum vekur athygli út fyrir landsteinana og við höfum þar mörgu að miðla.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Categories
Greinar

Ísland er land tækifæranna

Deila grein

21/06/2018

Ísland er land tækifæranna

Þingveturinn hefur verið skemmtilegur og stór mál verið afgreidd í þinginu, eins og lög velferðarráðherra um notendastýrða persónulega þjónustu fyrir fatlað fólk, NPA og samhliða breytingar á lögum um félagsþjónustu. Mjög mikilvæg mál sem afgreidd voru í sátt eftir margra ára undirbúningsvinnu. Fjármálaáætlun til næstu fimm ára var afgreidd í þinglok en þar er áhersla á uppbygginu samgöngu-, mennta- og velferðar- og heilbrigðismála.

Gott samfélag fyrir alla

Verkefni stjórnvalda hverju sinni er að skapa sterkt samfélag og auka samkeppnishæfni landsins þannig að Ísland verði land tækifæranna fyrir alla landsmenn. Menntakerfi gegna lykilhlutverki í samkeppnishæfni þjóða. Ísland er þar engin undantekning. Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að menntakerfið sé í stakk búið til takast á við áskoranir framtíðar. Í því ljósi hefur menntamálaráðherra hrint af stað undirbúningsvinnu við gerð menntastefnu Íslands til ársins 2030.

Bætt umgjörð kennarastarfsins

Menntakerfið þarf að vera sveigjanlegt og mætt þörfum ólíkra einstaklinga. Unnið er að því að bæta umgjörð kennarastarfsins og auka nýliðun stéttinni. Ánægjuleg tíðindi bárust á dögunum um að umsóknartölur í kennaranámið lágu fyrir, en um talsverða fjölgun er að ræða. Einnig er verið að efla verk-, iðn- og starfsnám ásamt því að styrkja fullorðinsfræðslu. Staðreyndin er sú að mun færri eru í starfsnámi á Íslandi eða um 32 prósent meðan þetta hlutfall er um 50 prósent í Noregi og  öðrum ríkjum í Evrópu. Íslenskt starfsmenntakerfi er öflugt en það hefur skort hvatningu til að sækja námið, þrátt fyrir góðar atvinnuhorfur og tekjumöguleika. Unnið er að því að einfalda aðgengi að náminu, auka skilvirkni þess og lækka kostnað nemenda við að sækja námið. Atvinnulífið er fullt af tækifærum fyrir einstaklinga með þessa menntun.

Auknir fjármunir til menntamála

Það sem af er kjörtímabili hafa þegar verið stigin mikilvæg skref til þess að efla menntakerfið. Framlög til háskólastigsins voru aukin um tæpa 2,9 milljarða eða 6,9% í ár miðað við fjárlög 2017. Hækkun er ætlunin að efla bæði kennslu og rannsóknir svo bæta megi þjónustu við nemendur og styrkja alþjóðlegt samstarf. Framlög til framhaldsskólanna hækkuðu um 1.290 milljónir króna í ár miðað við fjárlög 2017, eða 4,4%. Unnið er að eflingu verk-,iðn-, og starfsnáms með ýmsum hætti og voru efnisgjöld á nemendur í skylduáföngum til að mynda afnumin. Framfærslugrunnur LÍN var hækkaður úr 92% af reiknaðri framfærslu í 96%. Breytingar upp á 340 milljónir. Við ætlum að halda áfram á sömu braut.

Viðhald og umferðaröryggi

Ríkisstjórnin vill hraða uppbyggingu í vegamálum til að tryggja umferðaröryggi vegfarenda og treysta fjölbreytt atvinnulíf um land allt. Fjórum milljörðum króna var varið aukalega til brýnna vegaframkvæmda. Fjármagnið fer í viðhaldsverkefni vítt og breitt um landið með sérstaka áherslu á vegi á Suðurlandi sem fóru illa í vetur og búa við mikinn umferðarþunga. Þá er gert ráð fyrir 16,5 milljörða viðbótarfjármagni til næstu þriggja ára til samgöngumála. Samgönguráðherra hefur lagt ríka áherslu á að fjármagn verði sett í til að bæta öryggi í umferðinni. Til marks um það þá var vetrarþjónusta á þjóðvegakerfinu aukin í byrjun árs og mokstursdögum fjölgað á ákveðnum leiðum á Suðurlandi. Góðar hálkuvarnir auka öryggi og þörfin var brýn víða þar sem umferð hefur aukist með tilkomu aukinna ferðalaga yfir veturinn.

Ríkisstjórn Framsóknar, VG og Sjálfstæðisflokks hefur afkastað miklu á stuttum tíma. Starfsandinn er góður og verkefnin næg. Uppbygging til sjávar og sveita er hafin.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Suðra 21. júní 2018.

Categories
Greinar

Ævintýrið í Rússlandi að hefjast

Deila grein

15/06/2018

Ævintýrið í Rússlandi að hefjast

Velgengni íslensku landsliðanna í knattspyrnu hefur fyllt okkur stolti, gleði og tilhlökkun. Árangurinn blæs líka baráttuanda og krafti í fjölda barna og unglinga sem fylgjast spennt með sínum fyrirmyndum. Vegna þessa er hlaupið hraðar, sparkað fastar og stefnt hærra. Íþróttafólkið okkar býr yfir metnaði, dugnaði og vinnusemi. Það hefur sett sér markmið, keppt að þeim sama hvað dynur á og haldið í gleðina yfir stórum sem smáum sigrum.

Að baki góðum árangri íslensks íþróttafólks er þrotlaus vinna þess og samfélagsins í gegnum áratugina. Í þessu samhengi langar mig að nefna þrennt sem skiptir máli til að styrkja umgjörðina í kringum við íþróttirnar. Í fyrsta lagi fjárfesting í innviðum en það er sú aðstaða sem við búum íþróttafólkinu okkar. Í öðru lagi baklandið, en það er fólkið sem leggur sitt af mörkum með stuðningi sínum, elju og ástríðu. Þetta eru fjölskyldurnar, starfsfólkið í íþróttahúsunum, sjálfboðaliðarnir og aðrir velunnarar. Þau eru að uppskera ríkulega þessa dagana. Í þriðja lagi jafn aðgangur að íþróttastarfi, óháð aðstæðum og efnahag. Það skiptir sköpum að öll börn njóti jafnra tækifæra til þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi, en rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif þess að taka þátt í slíku starfi.

Framundan eru spennandi og skemmtilegir tímar. Ævintýrið í Rússlandi er rétt að byrja. Við fylgjumst spennt með framgangi karlalandsliðsins sem brátt spilar sinn fyrsta heimsmeistaramótsleik gegn Argentínu. Ísland er fámennasta ríki veraldar til að vinna sér inn þátttökurétt á heimsmeistaramótinu og vegna þessa beinast augu margra hingað í undrun og forvitni yfir þessum árangri. Í tengslum við fyrsta leikinn í Moskvu er skipulögð menningarkynning á vegum íslenskra stjórnvalda þar í borg. Sérstök áhersla er lögð á barnabókmenntir og tónlist. Með því viljum við tengja saman íþróttir og menningu og kynna þá miklu grósku sem á sér stað á báðum þessum sviðum.

Íþróttir eru samofnar þjóðarsálinni. Það er því engin tilviljun að sameiningarmáttur íþróttanna er mikill. Íþróttafólkið okkar veitir innblástur og tækifæri til þess að efna til mannamóta og gleðjast. Sem ráðherra íþróttamála sendi ég baráttukveðjur og bestu óskir til Rússlands og óska öllum landsmönnum gleðilegrar fótboltahátíðar næstu vikurnar þar sem slagorðið verður tvímælalaust: Áfram Ísland!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Categories
Greinar

Ný byggðaáætlun

Deila grein

15/06/2018

Ný byggðaáætlun

Alþingi samþykkti þann 11. júní síðastliðinn þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun til sjö ára. Í mínum huga er hér um tímamóta­skjal að ræða sem vert er að fagna.

Áætlunin er afurð af víðtæku samráði um allt land. Ég ýtti verkefninu formlega úr vör sem byggðamálaráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í mars 2016. Drög að áætlun voru kynnt í ríkisstjórn í janúar 2017 en nauðsynlegt reyndist að þróa hana áfram og var það gert í nánu samstarfi við ýmsa aðila, m.a. Samband íslenskra sveitarfélaga. Sú góða vinna hefur nú leitt til þeirrar farsælu niðurstöðu sem byggðaáætlun 2018 til 2024 er.

Byggðaáætlun er í fyrsta skipti lögð fram með skýrum og mælanlegum markmiðum. Markmið stjórnvalda í byggðamálum eru að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Meðal mælikvarða sem stuðst verður við eru hlutfall heimila og fyrirtækja í dreifbýli með aðgang að ljósleiðaratengingu og hlutfall íbúa sem eru í innan við 30 kílómetra fjarlægð frá heilsugæslustöð, grunnskóla og dagvöruverslun. Við sem vinnum að framkvæmd og eftirfylgni áætlunarinnar sem og aðrir hafa því skýra mælistiku fyrir því hvernig okkur miðar áfram í að þróa byggð og búsetu hér á landi á jákvæðan og sjálfbæran hátt.

Aðgerðir áætlunarinnar eru 54 og bera einstök ráðuneyti og stofnanir ábyrgð á framkvæmd þeirra. Meðal aðgerða sem unnið verður að á tímabilinu er gerð þjónustukorts sem sýni með myndrænum hætti aðgengi landsmanna að þjónustu hins opinbera og einkaaðila. Við lok verkefnis liggi fyrir gagnagrunnur sem hægt verði að nýta til frekari stefnumörkunar og mótunar aðgerðaáætlunar í byggðamálum. Þá verður með fjarheilbrigðisþjónustu leitast við að jafna aðgengi almennings að almennri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu, svo sem læknum, hjúkrunarfræðingum, ljósmæðrum, sálfræðingum og talmeinafræðingum.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóg við mótun nýrrar byggðaáætlunar.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Höfundur er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. júní 2018.

Byggðaáætlun 2018-2024 samþykkt á Alþingi

Categories
Fréttir

Þinglok

Deila grein

13/06/2018

Þinglok

Eitt að okkar kosningaloforðum fyrir Alþingiskosningarnar sl. haust var að húsnæðisliðurinn yrði tekinn út úr vísitölunni. Jafnframt að samstarf yrði aukið á milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um hvernig hægt er að stuðla að lækkun vaxta til að mynda við kjarasamningsgerð.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnnar segir að fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og mikil hækkun þess á undanförnum árum hefur af þeim sökum leitt til þess að höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað meira en ella. Ríkisstjórnin mun hefja skoðun á því hvernig megi fjarlægja fasteignaverð úr mælingu neysluvístölunnar.
Þingmenn Framsóknarflokksins lögðu fram þingsályktunartillögu í lok janúar um upptöku samræmdar vísitölu neysluverðs. Einkar ánægjulegt var að sjá að allur þingheimur samþykkti tillöguna okkar. Flutningsmenn voru Willum Þór Þórsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir.
Þá kom í síðustu viku út skýrsla peningastefnunefndar þar sem lagt er til að fjarlægja húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs því hann hafi alvarleg áhrif á húsnæðismarkaðinn. Gott er að finna faglegan rökstuðning sérfræðinga með þeirri tillögu.
Verðbólga hér á landi hefur verið há. Verðbólgumæling, þar sem stuðst er við vísitölu neysluverðs, sýnir jafnan hærri verðbólgu en ef stuðst er við samræmda vísitölu neysluverðs.
Framsóknarflokkurinn hefur barist fyrir þessu máli í mörg ár og því er ánægjulegt að sjá að  hagfræðingar og verkalýðshreyfingin séu komin á vagninn með okkur. Við höfðum undirbúið þetta mál, talað um fyrir því, unnið að því og þess vegna fengum við þingsályktunartillöguna afgreidda í 8.maí sl. Enginn greiddi atkvæði á móti.
Við erum að vinna samkvæmt stefnu Framsóknar, við erum að vinna samkvæmt stjórnarsáttmálanum og við erum að vinna samkvæmt þeirri þingályktun sem við lögðum fram með Willum Þór Þórsson í broddi fylkingar og þingheimur samþykkti.
Af öðrum málum sem bar hæst á Alþingi má nefna að ein metnaðarfyllsta Byggðaáætlun fyrir næstu árin var samþykkt, sem felur í sér raunhæfar aðgerðir til styrkingar byggða. Byggðaáætlunin hafði verið í undirbúningi sl. tvö ár þar sem stefna og kosningaloforð Framsóknarflokksins komu skýrt fram.
Í stjórnarsáttmálanum má sjá fjöldamörg mál sem endurspegla markmið, stefnu og gildi Framsóknarflokksins. Á næsta þingvetri munum við sjá mikilvæg mál koma fram sem unnið er af fullum krafti. Uppbyggingin grunnstoða samfélagsins er hafin eins og við lofuðum fyrir kosningar.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.