Síðustu mánuði hafa margar jákvæðar fréttir borist frá heilbrigðisráðuneytinu. Markvisst er unnið eftir stefnunni jafnt aðgengi, óháð efnahag og búsetu, um það ríkir samstaða í samfélaginu. Það er því fagnaðarefni að nú er verið að fjölga ferðum sem fást endurgreiddar frá Sjúkratryggingum vegna nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu sem sótt er utan heimabyggðar. Um síðustu áramót fjölgaði endurgreiddum ferðum úr tveimur í þrjár og nú styttist í að fjórða ferðin bætist við.
Jafnt aðgengi
Í fjáraukalögum sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi er tillaga um sérstaka fjárveitingu til að mæta kostnaðinum við fjórðu ferðina og er það liður í aðgerðum stjórnvalda til að greiða fyrir kjarasamningum. Gert er ráð fyrir 50 m.kr. til þess að auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu með því að draga úr kostnaði einstaklinga við að sækja þjónustu fjarri heimabyggð. Það er og hefur verið stefna Framsóknar að lækka greiðsluþátttöku sjúkratryggðra. Fjölgun ferða innanlands sem fást endurgreiddar falla að þeim markmiðum og heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Um er að ræða aðgerð sem er í samræmi og samhengi við samninga við sérfræðilækna sem gengið var frá síðastliðið sumar eftir samningsleysi allt frá árinu 2019.
Samningar bæta stöðu almennings
Meðan ekki voru til staðar samningar við sérfræðilækna var ekki hægt að segja að allir hefðu sama aðgang að heilbrigðisþjónustu. Samningsleysið dró fram ójafnræði í aðgengi. Með nýjum samningum við sérgreinalækna lækkaði greiðsluþátttaka einstaklinga en þjónusta sérfræðilækna hafði hækkað jafnt og þétt í samningsleysinu. Frá gildistöku samningsins 1. september síðastliðinn til febrúarloka hafa um 102 þúsund einstaklingar nýtt sér þjónustu þeirra. Þessir einstaklingar spöruðu sér nærri 1,3 milljarð króna í komugjöld á grundvelli hins nýja samnings.
Þróun heilbrigðisþjónustu
Þá styður samningurinn við framþróun í þjónustu með sérstakri áherslu á nýsköpun, stafræna þróun og fjarheilbrigðisþjónustu. Nú er til umfjöllunar á Alþingi frumvarp sem ætlað er að skýra umgjörð og nýtingarmöguleika fjarheilbrigðisþjónustu auk nokkurra frumvarpa sem styðja við stafræna þróun í heilbrigðiskerfinu. Þannig styður ein aðgerð aðra til að ná fram umgjörð sem tryggir jafnara aðgengi. Þá er einnig mikilvægt að geta þess að í samningi við sérfræðilækna er sérstakt ákvæði um að leitað verði leiða til að auka viðveru sérfræðilækna á landsbyggðinni.
Þannig er stöðugt unnið að útfærslu stefnu stjórnvalda til að þjónustan nýtist fólkinu sem þarf á henni að halda.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 14. maí 2024.