Categories
Fréttir

Ingvar Mar nýr formaður FR

Deila grein

15/05/2015

Ingvar Mar nýr formaður FR

Nýr formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur, Ingvar Mar Jónsson 41 árs gamall flugstjóri hjá Icelandair, var kjörinn á aðalfundi félagsins á miðvikudaginn. Ingvar Mar hefur verið flugmaður og síðar flugstjóri hjá Icelandair frá árinu 1996. Ingvar er menntaður atvinnuflugmaður og flugkennari frá Flugskóla Íslands.
Ingvar Mar hefur verið fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í Menningar- og ferðamálaráði borgarinnar frá 2014 og er stjórnarformaður tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga. Ingvar Mar er kvæntur Sigríði Nönnu Jónsdóttur flugfreyju og eiga þau fjögur börn.
ingvarMyndatexti: Ingvar Mar Jónsson, nýr formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur.
Talsverð endurnýjun varð í stjórninni en auk Ingvars sitja þau Ásgerður Jóna Flosadóttir, varaformaður, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Dorata Zaorska, Kristinn Jónsson, Stefán Þór Björnsson, Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, Trausti Harðarsson og Hólmfríður Þórisdóttir í nýrri stjórn félagsins.

Categories
Fréttir

Biðlistar allt að 18 mánuðir á BUGL

Deila grein

13/05/2015

Biðlistar allt að 18 mánuðir á BUGL

Elsa-Lara-mynd01-vefurElsa Lára Arnardóttir, alþingismaður, gerði að umtalsefni í störfum þingsins á Alþingi í gær nýja úttekt á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) er landlæknisembættið framkvæmdi.
„Markmið úttektarinnar var að skoða öryggi og gæði valinna þjónustuþátta í þeim tilgangi að koma með leiðir til úrbóta,“ sagði Elsa Lára.
Og hún hélt áfram, „í úttektinni kom fram að biðlistar eftir greiningu séu allt að 18 mánuðir. Þetta er ekki nýtt vandamál og þetta er ekki eitthvað sem er að gerast fyrst núna.“
Elsa Lára vill að við þessu verði að brugðist en ánægjulegt var að ríkisstjórnin gaf í er varðar heilbrigðismálin í síðustu fjárlögum og hefur landlæknir staðfest það í ýmsum þáttum.
„Við sjáum það að ef við komum fram og hjálpum þeim einstaklingum sem eiga í vanda fyrr en síðar þá skilar það sér í auknum lífsgæðum fyrir viðkomandi einstaklinga,“ sagði Elsa Lára.
Ræða Elsu Láru Arnardóttur:

Categories
Fréttir

ÖBÍ á flokksþingi framsóknarmanna

Deila grein

13/05/2015

ÖBÍ á flokksþingi framsóknarmanna

Öryrkjabandalag Íslands var með kynningu á starfsemi sinni á flokksþingi framsóknarmanna í apríl.
Var skrifstofu flokksins gefin vegleg gjöf af ÖBÍ, „Eitt samfélag fyrir alla“ hálfrar aldar saga Öryrkjabandalags Íslands sem stofnað var 5. maí 1961. Friðrik G. Olgeirsson, sagnfræðingur, er höfundur bókarinnar og greinir hann frá þrotlausri baráttu fatlaðs fólks, starfsfólks bandalagsins og annarra velunnarar fatlaðra fyrir bættum kjörum þeirra og auknum möguleikum til þátttöku í samfélaginu. Jafnframt var skrifstofu afhent heimildamynd um 50 ára saga bandalagsins.
ÖBÍ leggur núna mesta áherslu á að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) verði fullgiltur sem allra fyrst. SRFF er leiðarvísir að því hvernig tryggja skal fötluðu fólki mannréttindi og tækifæri til jafns við aðra í lífinu og gera því þannig kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Samningurinn markar tímamót í allri mannréttinda- og frelsisbaráttu fatlaðs fólks. Samkvæmt framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks átti að leggja fram frumvarp á vorþingi Alþingis 2013 til fullgildingar samningsins en það hefur ekki enn verið gert.
obiaflokksthingi2015
Hér á myndinni má sjá þau Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur og Sigurjón Unnar Sveinsson frá ÖBÍ.

Categories
Greinar

Svartfjallaland: Evra og hærri vextir en á Íslandi

Deila grein

11/05/2015

Svartfjallaland: Evra og hærri vextir en á Íslandi

frosti_SRGBFyrir viku síðan heimsótti varaforseti þjóðþings Svartfjallalands, Hr. Branko Radulovic, Alþingi. Við áttum stuttan fund um efnahagsmálin. Hr.Branko hafði mikinn áhuga á að vita hvernig Íslandi hefði tekist að komast svona hratt á réttan kjöl eftir hrun bankakerfisins og spurði: „Hver er íslenska formúlan?” Ég sagðist ekki vita um neina formúlu en reyndi samt að tína fram einhverjar skýringar.

Það var jú töluverð landkynning að hér varð eitt stærsta bankahrun sögunnar og ekki síður þegar Eyjafjallajökull stöðvaði alla flugumferð í Evrópu. Krónan féll og þá varð ódýrt að heimsækja fréttnæma landið sem áður var svo dýrt. Ferðaþjónusta blómstraði í kjölfarið og var orðin ein mikilvægasta atvinnugrein landsins. Aflabrögð í sjávarútvegi höfðu verið með allra besta móti og við bættist að makríllinn fór að ganga inn í íslenska lögsögu. Það mátti vissulega þakka batann hagfelldum aðstæðum.

Auk þess hafði fólk og fyrirtæki verið fljót að aðlagast, nýsköpun af ýmsu tagi hafði blómstrað eftir hrun. Svo mátti bæta við að dómstólar lækkuðu ólögmæt gengislán auk þess sem stjórnvöld réðust í aðgerðir til að lækka skuldir heimila. Lækkunin hafi verið fjármögnuð með skatti á banka og slitabú gömlu bankanna. Þjóðin hafi í þjóðaratkvæðagreiðslu ákveðið að láta reyna á það fyrir dómi hvort henni bæri að ábyrgjast skuldir fallinna einkabanka og unnið málið. Skuldir heimila, fyrirtækja á Íslandi hafi farið lækkandi undanfarin ár og kaupmáttur vaxandi. Hagvöxtur hafi verið ágætur og atvinnuleysi sem varð hæst 9% árið 2010 væri nú að nálgast 4% og útlit væri fyrir áframhaldandi góðan hagvöxt.

Hvernig gengur þar?
Ég vildi forvitnast um hvernig efnahagurinn væri í Svartfjallalandi. Hr. Branko hafði því miður ekki jafn góðar fréttir. Nefndi meðal annars að atvinnuleysi væri þar ríflega þrefalt meira en hér á landi, halli af viðskiptum við útlönd og erlendar skuldir vaxandi. Tilefni heimsóknar hans til Íslands væri einmitt að finna leiðir til að bæta efnahagsástandið heima fyrir. Hr. Branko hafði frétt af skýrslu minni um umbætur í peningamálum Íslands og hafði ýmsar spurningar um innihaldið. Eftir að hafa rætt það málefni kvöddumst við með óskum um bættan hag beggja landa.

Ekki með sjálfstæðan gjaldmiðil
Svartfjallaland, sem er rómað fyrir einstaka náttúrufegurð, gott veður og ýmsar auðlindir en hefur ekki haft eigin gjaldmiðil. Frá árinu 2002 hefur landið notast við evruna og þar á undan þýska markið. Það kemur á óvart að þrátt fyrir evru eru vextir hærri í Svartfjallalandi en hér á Íslandi. Lán til íbúðakaupa bera um 10% vexti. Hr. Branko nefndi að margir Svartfellingar hafi freistast til að taka íbúðalán í svissneskum frönkum á mun lægri vöxtum, þrátt fyrir að vera með laun í evrum. Þeir urðu fyrir miklu tjóni 15. janúar síðastliðinn þegar frankinn hækkaði skyndilega um 23% gagnvart evru.

Hér á landi hafa menn haft væntingar um að upptaka evru eða dollars á Íslandi myndi tryggja lægri vexti. Reynslan frá Svartfjallalandi sýnir að það er alls ekki öruggt. Sumir hafa haldið því fram að vextir myndu lækka ef erlendir bankar myndu hefja hér starfsemi. Í Svartfjallalandi starfa margir erlendir bankar en samt eru vextirnir þar hærri en hér.

Gengi evru tekur aðallega mið af efnahagsaðstæðum í Þýskalandi sem eru gerólíkar aðstæðum í Svartfjallalandi. Afleiðingar þess að vera með of sterkan gjaldmiðil eru vel þekktar: viðskiptahalli, skuldasöfnun við útlönd og mikið atvinnuleysi. Þetta þýðir að verðmætasköpun verður ekki eins mikil og lífskjör ekki eins góð. Svartfjallaland býr vissulega við stöðugan gjaldmiðil en vandinn er að hann er of sterkur.

Evruaðild dregur úr sjálfstæði
Sé litið til Grikklands má sjá hvernig aðild að myntbandalagi dregur úr sjálfstæði aðildarríkja. Grikkland tók upp evru 2001 og bjó næsta áratuginn við of lága vexti sem leiddu til ofþenslu og skuldasöfnunar. Þegar kreppan kom var eina leiðin sú að fara í handvirkar lækkanir á launum. Seðlabanki myntbandalagsins, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og Framkvæmdastjórn ESB (þríeykið) hafa fyrirskipað stjórnvöldum í Grikklandi að skera niður, lækka laun og selja ríkiseignir. Verði það ekki gert fái Grikkir engin neyðarlán, þá myndu bankarnir fljótt lokast og öngþveiti taka við.

Atvinnuleysi í Grikklandi er um 26% og helmingur ungs fólks er atvinnulaus. Landsframleiðsla er fjórðungi minni en hún var fyrir hrun og lítill hagvöxtur fram undan. Aðildin að evrunni átti stóran þátt í að skapa þennan vanda og hún gerir batann torsóttari. Reynsla Grikkja sýnir að sjálfstæður gjaldmiðill er forsenda þess að þjóðir geti varðveitt fullveldi sitt. Lýðræðið sjálft veikist ef erlend stjórnvöld sem enginn kaus fá vald til að skipa lýðræðislega kjörnum fulltrúum fyrir verkum.

Dæmin sýna að upptaka evru er ekki trygging fyrir lægri vöxtum og þjóðir sem taka upp erlenda mynt geta hæglega tapað efnahagslegu sjálfstæði sínu í leiðinni. Það er betra að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil sem getur brugðist við þegar áföll dynja á hagkerfinu og þannig stuðlað að auknum hagvexti, betra atvinnustigi og bættum lífskjörum í landinu.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í DV 5. maí 2015.

Categories
Greinar

Undirskriftir fyrir útgerðina

Deila grein

10/05/2015

Undirskriftir fyrir útgerðina

haraldur_SRGBÁ fáum sviðum hafa Íslendingar náð jafnmikilum árangri og í sjávarútvegi. Þrátt fyrir það, og ef til vill vegna þess, er umræðan um íslenskan sjávarútveg oft á tíðum neikvæð og jafnvel fjarstæðukennd. Íslenskur sjávarútvegur skilar nú meiri tekjum til samfélagsins en nokkurn tíma í sögu landsins. Fiskur í sjó telst þó ekki alls staðar verðmæt auðlind. Í flestum löndum er sjávarútvegur ekki arðbær grein. Ríki sem stunda sjávarútveg, og hafa efni á, veita iðulega miklu af fjármagni skattgreiðenda í ríkisstuðning við greinina á sama tíma og þau stunda rányrkju á fiskstofnum. Hér á landi hefur hins vegar skynsamleg stjórn fiskveiða leitt til þess að saman fara hagkvæmar og sjálfbærar veiðar. Sjávarútvegur þar sem náttúran er vernduð en samfélagið, allur almenningur, hagnast á greininni í stað þess að hún sé byrði á skattgreiðendum.

Viðhorf til atvinnu- og verðmætasköpunar
Þessa dagana ber talsvert á fólki sem þykir hvorki við hæfi að þeir sem reka fyrirtæki hagnist né að þeir tapi peningum og má vart á milli sjá hvort telst meiri synd.

Þessum hópi, sem tortryggir alla sem búa til störf og skila tekjum til samfélagsins, virðist vera alveg sérstaklega í nöp við þá sem ná árangri á sviði sjávarútvegs og skila með því sköttum í ríkiskassann. Það er kaldhæðnislegt að þeir hinir sömu tala iðulega fyrir breytingum sem eru til þess fallnar að tryggja hámarkssamþjöppun í greininni þar sem fá fyrirtæki á fáum stöðum með hámarkshagkvæmni, þar með talið ódýru vinnuafli, hafa forskot á að kaupa aflaheimildir.

Óneitanlega þarf að bæta kjör fiskverkafólks í landi og styrkja tengsl útgerðarinnar við byggðirnar en það er ekki gert með því að selja aflaheimildir til erlendra verksmiðjuskipa eins og þeir sem vilja »bjóða upp kvótann« boða.

»Makrílfrumvarpið«
Einhver mesta pólitíska kaldhæðni sem birst hefur á Íslandi í seinni tíð hlýtur þó að vera undirskriftasöfnun sem nú stendur yfir gegn svokölluðu makrílfrumvarpi.

Aðdragandinn var þessi: Umboðsmaður Alþingis skilaði í fyrrasumar niðurstöðu um að það bæri að skipta upp veiðiheimildum á makríl (hlutdeildarsetja). Sjávarútvegsráðherra hafði tvo kosti í stöðunni. Hann gat valið einföldu leiðina, þá sem lá beinast við, og gefið út reglugerð um að sömu reglur giltu um makrílinn og aðrar tegundir. Semsagt, engin aðkoma Alþingis, engin umræða, málið afgreitt.

En ráðherrann, sem að vanda var að huga að því að tryggja samfélaginu hámarksávinning af auðlindinni, ákvað þess í stað að fara erfiðu leiðina og setja sérstök lög um makrílinn. Það var ekki vinsælt hjá mörgum útgerðum enda var ráðherrann með því að setja nýjar hömlur, skerða heimildir og treysta yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindinni.

Andstaða úr óvæntri átt
Þá gerðist hið óvænta: Stjórnarandstaðan og bandamenn hennar, uppfullir af fordómum í garð stjórnarflokkanna og alls þess sem viðkemur stjórn fiskveiða, taldi að frumvarp ráðherrans hlyti að fela það í sér að verið væri að
gefa einhverjum eitthvað.

Ræður í anda millistríðsáranna um sérhagsmuni og gjafir til útvalinna létu ekki á sér standa. Sumir töldu sér meira að segja sæmandi að ráðast persónulega á þingmann fyrir að maki hans ætti bát sem félli undir ný lög um makrílveiðar. Ráðherrann hlyti að vera að hygla samflokksmanni sínum.

Enginn hafði þó fyrir því að kanna málið og komast að því að nýju lögin munu skerða afla »maka-bátsins« um meira en helming frá árinu áður. En um það snýst einmitt frumvarpið; að setja takmarkanir og skerða heimildir frekar en hitt og í stað þess að ráðstafa kvóta ótímabundið gildir hann aðeins í sex ár. Það var ekki verið að gefa heldur taka. Keppinautar okkar við makrílveiðar, Danir, höfðu þó komist að því að sex ár væri of skammur tími til að fyrirtækin gætu gert ráðstafanir og ákváðu að lengja tímann.

Undirskriftir fyrir útgerðina
Svo var ráðist í undirskriftasöfnun til að andmæla frumvarpinu af ótta við að með því væri verið að gefa einhverjum útvöldum það sem þjóðin ætti. Til að undirstrika tilfinningalegan grunn söfnunarinnar var birt mynd af barni sem heldur á þorski eins og andvana gæludýri.

Líklega ætti það ekki að koma fólki sem fylgist með vendingum stjórnmálanna á óvart að þeir sem hafa verið duglegastir við að vekja athygli á undirskriftasöfnuninni eru þeir sömu og lögðu fyrir skömmu allt kapp á að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. En eins og flestum ætti að vera kunnugt hefði það falið í sér að makríllinn væri ekki fyrir íslensk fiskiskip, hvað þá íslensk þjóðareign. Hann væri eign ESB til ráðstöfunar frá Brussel.

Hin einstæða kaldhæðni liggur þó í því að undirskriftasöfnunin er umfram allt stuðningur við stóru útgerðarfyrirtækin og afstöðu þeirra. Þeir sem nú safna undirskriftum af kappi eru að gera það í þágu þeirra sem þeir hafa sérstaka andúð á og uppnefna »sægreifana« eða sérhagsmunaöfl.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. maí 2015.

Categories
Greinar

Hafið bláa hafið

Deila grein

07/05/2015

Hafið bláa hafið

HÞÞ1„Hafið bláa, hafið hugann dregur, hvað er bak við ystu sjónarrönd?“ Þetta eru ljóðlínur sem Íslendingar kannast vel við. En hafið okkar bláa er ekki bara efni í fallegar ljóðlínur. Það er okkar stærsta náttúruauðlind sem þarf að nálgast af virðingu og hún þarf að vera til staðar fyrir komandi kynslóðir. Það vita Íslendingar. Til þess að svo megi verða þarf að huga að lífríkinu og umhverfi hennar með markvissum hætti.

Mengun sjávar er alþjóðlegt vandamál ekki síður en mengun lofthjúps jarðar þar sem umferð skipa er óháð landamærum og losun mengandi efna á einum stað hefur oftar en ekki áhrif fjarri losunarstaðnum. Fjölmargir mengunarvaldar, af mannavöldum, ógna hreinleika og heilbrigði hafsins og eru afleiðingar margs konar mengunar sem sífellt fer vaxandi. Óhugnanlegt magn af úrgangi og spilliefnum berast í hafið dag hvern og því miður eru að koma í ljós ýmsar óæskilegar breytingar á vistkerfi sjávar af völdum manna.

Ísland fer með forsæti í Norðurlandaráði á árinu 2015. Í formennskuáætluninni, þar sem markmið íslensku formennskuáætlunarinnar koma fram, er lögð sérstök áhersla á norðurslóðir með áherslu á hafið sem umlykur Ísland. Á níunda áratug síðustu aldar beindist athyglin að siglingum og mengun sjávar og á tíunda áratugnum að umhverfis- og öryggismálum. Markmið íslensku formennskuáætlunarinnar er að halda áfram því starfi sem unnið hefur verið varðandi umhverfismál, loftslagsbreytingar, efnahagsmál, samfélagsmál og öryggismál en allt eru þetta þættir sem snúa að hafinu okkar.

Stefna íslenskra stjórnvalda í málefnum hafsins felur m.a. í sér að tryggja sjálfbærni þess og vinna gegn mengun sjávar. Ísland hefur verið þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði og leiðandi í málefnum hafsins. Íslensk stjórnvöld hafa staðfest þó nokkra alþjóðlega samninga um varnir gegn mengun sjávar frá skipum. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á og hefur eftirlit með framfylgd flestra þeirra. Þá gegnir umhverfis- og auðlindaráðuneyti stefnumótunar- og eftirlitshlutverki á þessu sviði. Það ákveður t.d. hvaða alþjóðasamningar eru staðfestir og setur reglugerðir vegna þeirra. Að auki gegna stofnanir innanríkisráðuneytis, Samgöngustofa og Landhelgisgæsla Íslands, afmörkuðum hlutverkum á þessu sviði.

Skýr stefnumörkun stjórnvalda
Þó að stefnumörkun stjórnvalda sé skýr varðandi verndun sjávar gegn mengun er nauðsynlegt að gera aðgerðaráætlanir. Áætlanir um það hvernig skuli framfylgja settum markmiðum og auka fjármagn til að hrinda þeim í framkvæmd. Það eru ekki bara óþrjótandi möguleikar sem felast í því að vera staðsett á norðurhluta Atlandshafsins. Í því felast einnig miklar skyldur. Sjálfbær veiði, góð umgengni og ítarlegar rannsóknir eru góð markmið en þeim þarf að fylgja eftir.

Höskuldur Þórhallsson

Greinin birtist í Öldunni, fréttablaði um sjávarútveg 6. maí 2015.

Categories
Greinar

Makrílfrumvarpið, kjarni málsins?

Deila grein

06/05/2015

Makrílfrumvarpið, kjarni málsins?

haraldur_SRGBÍ gildi eru lög um stjórn fiskveiða frá 2006 og lög frá 1996 um stjórn veiða á deilistofnum eins og makríl. Þeim verður að fylgja þar sem ekki hefur náðst samstaða um breytingar, hvorki við stjórnarandstöðu né við samstarfsflokkinn. Í þeim lögum kemur skýrt fram að útgerðir sem stunda veiðar á nýjum tegundum eignast rétt til veiða í samræmi við veiðireynslu.

-Áðurnefnd lög kveða á um að þegar veiðar eru takmarkaðar þá skuli úthluta veiðirétti til þeirra sem hafa stundað veiðar.

-Árið 2011 voru komin 3 ár og hefði þá átt að kvótasetja makrílinn samkvæmt áðurnefndum lögum og áliti umboðsmanns Alþingis.

-Í stað þess að setja makrílinn í kvóta með reglugerð, sem hefði fært stærstu útgerðaraðilunum megnið af kvótanum, er honum úthlutað til skemmri tíma með auka gjaldi upp á 1,5 milljarð á ári umfram hefðbundin veiðigjöld, auk þess að dreifingin á veiðiréttinum er meiri, t.d. til smábátaútgerða sem geta nú aukið veiðar á markíl á grunnslóð.

-Áfram gildir 1. ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða þar sem skýrt er tekið fram sameign íslensku þjóðarinnar á nytjastofnum á Íslandsmiðum. Ágreiningur hefur verið uppi um hvort ríkið geti tekið veiðiheimildir af núverandi kvótahöfum nema að það yrði gert yfir mjög langan tíma. Það er því ljóst að úthlutun á makríl til 6 ára er í því samhengi verulega stuttur tími.

-Framsókn hefur talað fyrir því að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

-Í frumvarpi ráðherra er gert ráð fyrir sérstöku veiðigjaldi á makríl sem er um 10 krónur á hvert kíló. Heyrst hafa gagnrýnisraddir um að gjaldið sé of lagt og of hátt. Sumir hafa gengið svo langt að telja að veiðigjald á makríl geti verið allt að fimm sinnum hærra. Horfa skal til þess að meðalverð á makríl til útgerða er um 60 krónur á kíló. Augljóst á að vera að útgerð sem á að greiða 90 krónur fyrir veitt kíló á makríl þarf að greiða með veiðunum 30 krónur á hvert og eitt kíló. Það er einfaldlega dæmi sem gengur aldrei upp.

-Líkt og áður segir eru lög í gildi um stjórn fiskveiða. Í þeim lögum er ekki að sjá að ríkið hafi heimild til að setja veiðiheimildir á markað sem útgerðir hafa stundað veiðar á í áratug. Myndu menn kjósa að breyta lögum um stjórn fiskveiða með þeim hætti að ríkinu væri heimilt að setja veiðirétt á uppboð, er ljóst að afleiðingarnar yrðu helst þær að enginn hvati væri til að taka fyrstu skref við veiðar á nýjum tegundum og að þeir sem fyrir eru sterkir í greininni munu hafa yfirgnæfandi forskot. Slíkt myndi leiða til óhemju mikillar samþjöppunnar í greininni og á landsbyggðinni allri.

-Fyrri ríkisstjórn hafði tækifæri til að breyta lögum með þeim hætti að löglegt væri úthluta veiðiheimildum á nýjum tegundum, eins og makríl, með öðrum hætti en núverandi lög kveða á um. Þegar litið er til fyrirliggjandi frumvarps og umræðu um að hlutdeildarsetja makríl í gamla kerfið til eins árs í senn og með því færa stærstu uppsjávarfyrirtækjunum nær allar veiðiheimildir á makríl, þá væri fundarheitið hjá Samfylkingunni í kvöld um „Markríll fyrir millana“ fyrst viðeigandi.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist á www.visir.is 7. maí 2015.

Categories
Fréttir

Matarsóun

Deila grein

06/05/2015

Matarsóun

ÞórunnÞórunn Egilsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins á Alþingi í gær, sóun á ýmsum verðmætum og minnti á að allsnægtirnar gefi okkur ekki leyfi til að fara illa með.
„Samkvæmt upplýsingum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna er áætlað að árlega fari 1,3 milljarðar tonna matvæla til spillis. Þetta er álíka mikill matur og framleiddur er árlega í Afríku sunnan Sahara-eyðimerkurinnar. Á sama tíma fer ein af hverjum sjö manneskjum í heiminum svöng að sofa og yfir 20 þús. börn deyja daglega úr næringarskorti,“ sagði Þórunn.
„Þessar staðreyndir endurspegla verulegt ójafnvægi þegar kemur að lífsstíl fólks sem aftur hefur stórfelld áhrif á umhverfið, meðal annars vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, land- og vatnsnotkunar og ýmissar mengunar sem hlýst af matarframleiðslu. Þetta virðist allt vera langt í burtu frá okkur en auðvitað er það ekki svo. Sem betur fer höfum við Íslendingar nú tekið þessi mál á dagskrá og reynt að spyrna fótum við matarsóun hér á landi. Haldnar hafa verið ráðstefnur og fundir á vegum ýmissa félagasamtaka eins og Kvenfélagasambands Íslands þar sem málefnið hefur verið tekið fyrir. Eins og fram hefur komið er umfang matarsóunar hér á landi því miður ansi mikið,“ sagði Þórunn.
Ræða Þórunnar Egilsdóttur:

Categories
Fréttir

„Svo virðist sem nokkur siðferðisbrestur þjaki stjórnendur fyrirtækisins“

Deila grein

06/05/2015

„Svo virðist sem nokkur siðferðisbrestur þjaki stjórnendur fyrirtækisins“

Þorsteinn-sæmundssonÞorsteinn Sæmundsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismenn, hafa lagt fram beiðni um að Ríkisendurskoðun annist úttekt á rekstri Isavia. Þetta kom fram í umræðum um störf þingsins á Alþingi í gær.
Beiðnin var lögð fram fyrir nokkrum vikum og verður rædd í dag á fundi forsætisnefndar þingsins.
„Svo virðist sem nokkur siðferðisbrestur þjaki stjórnendur fyrirtækisins. Þeir hafa gengið fram af fruntaskap í starfsmannamálum þannig að eftir hefur verið tekið. Þeir hafa notað skattfé almennings til að greiða niður árshátíð starfsmanna og stjórnenda í áður óþekktum mæli. Og nú síðast hafa þeir lagt sérstakan skatt á eina stétt sem stundar þjónustu við Leifsstöð, leigubílstjóra. Sá skattur nemur 120 þús. kr. á ári eða 15 þús. kr. á mánuði eða að menn borga tæpar 500 kr. í hvert einasta skipti sem farþegi er sóttur í Leifsstöð,“ sagði Þorsteinn.
„Það segir sig sjálft að það liggur ekki fyrir hvort þessi ráðstöfun stenst lög eða reglur. Það segir sig líka sjálft að það er ekki gæfulegt að leggjast á eina stétt þjónustuaðila þar syðra og láta hana greiða niður kostnað við rekstur þessa fyrirtækis. Í rekstri af þessari stærð hljóta að vera aðrar leiðir til að leita hagræðingar en sú að skattleggja þessa þjónustu. Þessi þjónusta mun þá væntanlega hækka líka fyrir þá sem nota hana, þ.e. farþega,“ sagði Þorsteinn ennfremur.
Ræða Þorsteins Sæmundssonar:

Categories
Greinar

Að kasta steini úr glerhúsi

Deila grein

05/05/2015

Að kasta steini úr glerhúsi

Elsa-Lara-mynd01-vefurÁGÚSTHún var um margt athyglisverð grein bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar í síðasta tölublaði Fjarðarpóstsins. „Jöfnum leikinn“ var yfirskrift greinarinnar sem skrifuð var í tilefni af baráttudegi verkafólks, 1. maí.

Um margt erum við sammála en farið er ansi frjálslega eða beinlínis ranglega með staðreyndir í umfjöllun um frumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra. Í greinni segir orðrétt: „Ekkert bólar á húsnæðisfrumvarpi velferðaráðherra á þeim tveimur árum sem hún hefur unnið að málinu.” Hér er ekki um einstakt frumvarp að ræða, heldur nokkur frumvörp. Það ættu allir þeir, sem hafa áhuga á að fara rétt með, að vita. Förum aðeins yfir málið.

Að hafa raunhæft val um búsetuform, er okkur öllum mikilvægt. Það er svo að sumir kjósa að eiga húsnæði, aðrir vilja leigja og enn aðrir kjósa að fara milliveginn, og búa í húsnæðissamvinnufélögum. Ef þetta raunverulega val, á að vera til staðar er nauðsynlegt að bregðast við og koma fram með frumvörp sem stuðla að úrbótum í þessum mikilvæga málaflokki. Þessi mál skipta stóran hóp einstaklinga í landinu miklu máli.

Gengið í málið
Í september 2013 skipaði Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Verkefnisstjórninni var falið að koma fram með tillögur um framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Þá var henni falið að koma með tillögur að nýju húsnæðislánakerfi, m.a. með það í huga að tryggja virkan leigumarkað og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem slíkt þurfa.

Verkefnastjórnin skilaði viðamiklum tillögum til félags- og húsnæðismálaráðherra í maí 2014 og núna tæpu ári síðar, hafa fjögur frumvörp komið fram sem byggja á tillögum verkefnisstjórnarinnar. Tvö þeirra hafa farið í gegnum 1. umræðu í þinginu og hefur nú verið vísað til afgreiðslu velferðarnefndar.

Þau fjalla um húsaleigulög og húsnæðissamvinnufélög. Tvö frumvörp eru enn í kostnaðarmati hjá fjármálaráðuneytinu og mikilvægt er að þau komist þaðan sem fyrst. Þau frumvörp fjalla um stofnstyrki vegna uppbyggingar á leiguhúsnæði og auknar húsnæðisbætur til leigjenda.

Ekki byggt á sandi
Þegar félags- og húsnæðismálaráðherra mælti fyrir frumvörpunum um húsaleigulög og húsnæðissamvinnufélög, þá kom gagnrýni frá þingmanni Samfylkingarinnar, Kristjáni L. Möller. Hann gagnrýndi hversu langur tími hefur farið í að skrifa frumvörpin, sem hér um ræðir.

Auðvitað er það svo að frumvörpin hefðu gjarnan mátt koma fyrr inn í þingið. En til að gæta allrar sanngirni, þá verður það að koma fram að mikið samráð var innan velferðarráðuneytisins við vinnslu frumvarpanna. Ástæðan er jafnframt sú að við höfum lært af reynslunni og hversu miklu máli skiptir að vanda sig í þessum stóru málum. Við vonum jafnfram að þingmaðurinn hafi lært af reynslunni og hversu mikilvægt það sé að byggja ekki upp óraunhæfar tillögur, sem eru byggðar upp á sandi.

Staðreyndir upp á borðið
Vegna gagnrýninnar þá er rétt að rifja upp nokkrar staðreyndir, svona til að hafa hlutina uppi á borðinu. Þingmenn Samfylkingarinnar voru ráðherrar í félagsmálaráðuneytinu, síðar velferðarráðuneytinu árin 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012 og fram að kosningum árið 2013. Á þessu tímabili voru skipaðar þrjár nefndir sem vinna áttu tillögur að bættu húsnæðiskerfi.

Engin frumvörp komu  fram sem byggð voru á vinnu þessara nefnda, það voru ekki einu sinni til drög að frumvörpum er vörðuðu efnið.  Að þingmaður Samfylkingarinnar gagnrýni núverandi ríkisstjórn fyrir seinagang í þessum málum, kemur úr hörðustu átt. Samfylkingin hafði hátt í 7 ár til að bregðast við þessum málum, en ekkert gerðist. Gunnar Axel, er einn af höfundum greinarinnar ,,Jöfnum leikinn“ og oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.

Jafnframt var hann um tíma aðstoðarmaður Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra, á síðasta kjörtímabili. Honum ætti því að vera fullkunnugt um þessi mál og ætti að hafa getu til að ræða um þau af heilindum og fagmennsku en ekki vera með ómerkilegar tilraunir til að slá ryki í augu fólks. Samfylkingin er því að kasta steinum úr glerhúsi í þessu máli. Á það nokkuð við um fleiri mál?

Elsa Lára Arnardóttir og Ágúst Bjarni Garðarsson

Greinin birtist í www.visir.is 5. maí 2015.