Categories
Fréttir

„Það skiptir mjög miklu máli að vera í góðu sambandi“

Deila grein

11/03/2024

„Það skiptir mjög miklu máli að vera í góðu sambandi“

„Það er okkur flestum eðlislægt að hringja eða svara símanum. Hér á landi eru aftur og aftur á móti margir sem geta það ekki heima hjá sér eða á svæðinu í kringum heimili sitt sökum lélegs símasambands,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

Benti hún á að fólk nái ekki að virkja rafræn skilríki, enda þurfi símasamband til. Fólk hafi því þann einn kost að ferðast frá heimili sínu til að reka erindi sem felstum örðum þykir sjálfsagt að gera heima hjá sér.

„Það að vera í góðu símasambandi snýst ekki einungis um hentugleika heldur er þetta fyrst og fremst öryggismál, bæði innan sem utan heimilis. Það er ekki einungis mikilvægt að huga að góðu símasambandi á heimili fólks því á vegum landsins eru líka margir staðir þar sem er lítið eða ekkert símasamband og það hefur margoft skapað mjög erfiðar aðstæður vegna slysa eða annarra vandræða sem koma upp,“ sagði Lilja Rannveig.

„Það var því mjög gott að sjá fréttir vikunnar þar sem samið var um að byggja upp 24 fjarskiptasenda við stofnvegi á Vestfjörðum. Sú aðgerð skiptir miklu máli fyrir öryggi fólks á vegum landsins sem og þeirra sem búa í nágrenni við sendana. Meðan við fögnum því höldum við samt áfram að þrýsta á frekari uppbyggingu við stofnvegi um allt land sem og tengivegi og heimili fólks. Sjálf hefði ég viljað að áherslan hefði fyrst verið lögð á að byggja upp símasamband við heimili fólks en ég fagna þó öllum þeim framförum sem eiga sér stað í fjarskiptamálum á Íslandi því að það skiptir mjög miklu máli að vera í góðu sambandi,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:

„Hæstv. forseti. Það er okkur flestum eðlislægt að hringja eða svara símanum. Hér á landi eru aftur og aftur á móti margir sem geta það ekki heima hjá sér eða á svæðinu í kringum heimili sitt sökum lélegs símasambands. Þau lenda t.d. í vandræðum með að virkja rafræn skilríki því það krefst þess að viðkomandi sé í símasambandi og því þurfa þau að ferðast frá heimili sínu til að vinna að ýmsu sem mörg okkar telja sjálfsagt. Það að vera í góðu símasambandi snýst ekki einungis um hentugleika heldur er þetta fyrst og fremst öryggismál, bæði innan sem utan heimilis. Það er ekki einungis mikilvægt að huga að góðu símasambandi á heimili fólks því á vegum landsins eru líka margir staðir þar sem er lítið eða ekkert símasamband og það hefur margoft skapað mjög erfiðar aðstæður vegna slysa eða annarra vandræða sem koma upp. Það var því mjög gott að sjá fréttir vikunnar þar sem samið var um að byggja upp 24 fjarskiptasenda við stofnvegi á Vestfjörðum. Sú aðgerð skiptir miklu máli fyrir öryggi fólks á vegum landsins sem og þeirra sem búa í nágrenni við sendana. Meðan við fögnum því höldum við samt áfram að þrýsta á frekari uppbyggingu við stofnvegi um allt land sem og tengivegi og heimili fólks. Sjálf hefði ég viljað að áherslan hefði fyrst verið lögð á að byggja upp símasamband við heimili fólks en ég fagna þó öllum þeim framförum sem eiga sér stað í fjarskiptamálum á Íslandi því að það skiptir mjög miklu máli að vera í góðu sambandi.“

Categories
Fréttir Greinar

Kjarasamningar fyrir börn og barnafjölskyldur

Deila grein

11/03/2024

Kjarasamningar fyrir börn og barnafjölskyldur

Í sam­fé­lagi nú­tím­ans hef­ur mik­il­vægi þess að skapa styðjandi vinnu­um­hverfi fyr­ir fjöl­skyld­ur aldrei verið meira. Sem mennta- og barna­málaráðherra er ég stolt­ur stuðnings­maður þeirr­ar mik­il­vægu vinnu sem áunn­ist hef­ur með ný­und­ir­rituðum kjara­samn­ing­um breiðfylk­ing­ar­inn­ar og sam­taka at­vinnu­lífs­ins, með öfl­ugri aðkomu rík­is og sveit­ar­fé­laga. Þeir samn­ing­ar sem hér um ræðir eru ekki aðeins lög­fræðileg skjöl; þeir eru vitn­is­b­urður um skuld­bind­ingu of­an­greindra aðila við að byggja sam­fé­lag sem met­ur vel­ferð hverr­ar fjöl­skyldu og hvers barns.

Fram­ganga sveit­ar­stjórn­ar­fólks Fram­sókn­ar á þess­ari veg­ferð hef­ur fyllt mig stolti. Enn frem­ur er full ástæða til að hrósa aðilum vinnu­markaðar og þá sér­stak­lega breiðfylk­ing­unni og verka­lýðshreyf­ing­unni í heild fyr­ir að taka skýra af­stöðu með börn­um og fjöl­skyld­um þeirra, en ekki síður að hafa tekið af full­um þunga þátt í því að skapa grund­völl fyr­ir vel­sæld og stöðug­leika í land­inu.

Ég er full­viss um að af­drátt­ar­laus aðkoma rík­is og sveit­ar­fé­laga að samn­ing­un­um hafa í för með sér fram­fara­skref fyr­ir þjóðina og er það á ábyrgð okk­ar allra nú að leggj­ast á eitt til að ná þeim mark­miðum sam­an. Um­fram allt er það mikið fagnaðarefni að í aðgerðapakka stjórn­valda sé skýr áhersla á að fjár­festa í börn­um og barna­fjöl­skyld­um. Það hef­ur aldrei verið brýnna að for­gangsraða í þágu jafnra tæki­færa og lífs­gæða þess hóps, sam­hliða því sem við sjá­um auk­in merki þess að efn­is­leg­ur skort­ur og ójöfnuður meðal barna sé að aukast.

Aðgerðapakki stjórn­valda mun stuðla að aukn­um lífs­gæðum og jöfnuði meðal barna- og fjöl­skyldna. Ein af stærri áhersl­um aðgerðapakk­ans er breyt­ing­ar á barna­bóta­kerf­inu. Barna­bæt­ur verða hækkaðar, sam­hliða því sem dregið verður úr tekju­skerðingu þeirra. Um 10.000 fleiri for­eldr­ar og for­sjáraðilar munu fá greidd­ar barna­bæt­ur.

Öllum börn­um á grunn­skóla­aldri verða tryggðar gjald­frjáls­ar skóla­máltíðir. Reynsla ná­granna­ríkja á borð við Finn­land hef­ur sýnt að hér er um að ræða risa­stórt skref í átt að aukn­um jöfnuði fyr­ir öll börn. Skóla­kerfið er lang­öflug­asta jöfn­un­ar­tækið okk­ar og með því að fjár­festa í gjald­frjáls­um skóla­máltíðum efl­um við það enn frek­ar. Það er gam­an að geta þess að þessi aðgerð er einnig í sam­ræmi við eitt af áherslu­atriðum Barnaþings. Barnaþings­menn síðustu ára hafa lagt ríka áherslu á að komið verði á gjald­frjáls­um skóla­máltíðum, með jöfnuð að leiðarljósi.

Þá verða fæðing­ar­or­lofs­greiðslur hækkaðar í þrem­ur áföng­um yfir samn­ings­tím­ann, til að treysta mark­miðið um sam­vist­ir barna við báða for­eldra. Þá er samstaða allra samn­ingsaðila um að vinna sam­an að mót­un aðgerða til að brúa bilið milli fæðing­ar­or­lofs og leik­skóla á samn­ings­tím­an­um. Það er okk­ur sem sam­fé­lagi lífs­nauðsyn­legt og þar ber sér­stak­lega að hrósa sveit­ar­fé­lög­un­um fyr­ir vilja þeirra til að ráðast í það verk­efni.

Kjara­samn­ing­ar eru að mörgu leyti horn­steinn þess að hægt sé að skapa sam­fé­lag á Íslandi sem gef­ur svig­rúm fyr­ir jafn­vægi í lífi vinn­andi for­eldra og for­sjáraðila. Þeir eru rammi utan um þá þætti sem stuðla að aukn­um lífs­gæðum, sveigj­an­leika vinnu­tíma og sam­vist­um for­eldra og barna. Slík­ar ráðstaf­an­ir gera for­eldr­um kleift að taka virk­ari þátt í lífi barna sinna, allt frá því að mæta á skóla­at­b­urði og að geta verið viðstödd þau augna­blik sem mestu máli skipta.

Kjara­samn­ing­ar eru að mörgu leyti upp­skrift að því hvernig sam­fé­lag varðveit­ir gildi sín um það sem skipt­ir mestu máli fyr­ir lífs­gæði og vel­sæld. Það þarf ekki að fara mörg­um orðum hversu stóru hlut­verki slík­ur sam­fé­lags­sátt­máli gegn­ir í lífi barna og fjöl­skyldna. Þegar við horf­um fram á veg­inn skul­um við halda áfram að vinna sam­an – ríkið, sveit­ar­fé­lög­in, at­vinnu­lífið og verka­lýðsfé­lög – til að móta sam­fé­lag sem end­ur­spegl­ar sam­eig­in­leg gildi og von­ir okk­ar. Með þann hugs­un­ar­hátt að leiðarljósi erum við ekki aðeins að auka lífs­gæði nú­ver­andi kyn­slóða, held­ur einnig að ryðja veg­inn fyr­ir framtíð þar sem hvert barn á Íslandi get­ur dafnað.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Stöðugleikakjarasamningar í þágu þjóðar

Deila grein

11/03/2024

Stöðugleikakjarasamningar í þágu þjóðar

Hag­sæld þjóða bygg­ist á sam­spili fjöl­margra þátta sem huga þarf að og stilla sam­an. Þar spila kjara­samn­ing­ar meðal ann­ars veiga­mikið hlut­verk. Íslenska hag­kerfið er þrótt­mikið og sag­an kenn­ir okk­ur að það á til að bregðast hratt við þegar áföll ríða yfir. Viðspyrna hag­kerf­is­ins í fram­haldi af heims­far­aldr­in­um er eng­inn und­an­tekn­ing. Hag­vöxt­ur hef­ur verið meiri en víða í ná­granna­ríkj­un­um frá því að draga tók úr áhrif­um heims­far­ald­urs­ins á ár­inu 2022.

Sam­kvæmt end­ur­skoðuðum töl­um Hag­stof­unn­ar mæld­ist hag­vöxt­ur 8,9% árið 2022 og 4,1% 2023. Þess­ar töl­ur voru tals­vert hærri en jafn­vel nýj­ustu spár gerðu ráð fyr­ir og hef­ur hag­vöxt­ur hér á landi verið með hæsta móti hjá OECD-ríkj­um.

Ísland var fljótt að jafna sig eft­ir heims­far­ald­ur­inn vegna þess þrótt­ar sem er í ís­lensku efna­hags­lífi. Að sama skapi virkuðu stuðningsaðgerðir stjórn­valda vel, eða eins og efna­hags­leg loft­brú. Ný­leg­ar leiðrétt­ing­ar Hag­stof­unn­ar á mann­fjölda­töl­um sýna jafn­framt að hag­vöxt­ur á mann hef­ur verið mik­ill og meiri en fyrstu töl­ur gerðu ráð fyr­ir, eða um 5,9% á ár­inu 2022 og 2,1% á ár­inu 2023, þannig að þær umræður sem urðu um að hag­vöxt­ur á mann væri lít­ill áttu sér ekki stoð í raun. Hag­kerfið hef­ur því í raun verið mun heit­ara en bú­ist var við.

Ný­leg­ar hag­töl­ur benda hins veg­ar til þess að jafn­vægi sé að nást, en sam­kvæmt nýj­ustu töl­um Seðlabanka Íslands var af­gang­ur á viðskipta­jöfnuði við út­lönd eft­ir nokk­urra ára hlé og hag­kerfið virðist vera að kólna hratt ef horft er til einka­neyslu. Auk­inn þjón­ustu­út­flutn­ing­ur, sem skýrist aðallega af fram­lagi ferðaþjón­ustu, hélt uppi hag­vexti á síðasta ári. Á síðustu vik­um og mánuðum hafa verið teikn uppi um að mögu­lega sé að hægja á starf­semi ferðaþjón­ustu og má einkum rekja það til áhrifa af elds­um­brot­un­um a Reykja­nesi. Þrátt fyr­ir þetta eru verðbólga og verðbólgu­vænt­ing­ar áfram þrálát­ar. Það er ljóst að það mun hægj­ast á hag­vexti á kom­andi miss­er­um eins og víða í ná­granna­lönd­un­um. Til að byggja und­ir al­menna hag­sæld er nauðsyn­legt að fara í aðgerðir sem snúa að hag­vexti til framtíðar og orku­skipt­un­um. Hag­kerfið býr yfir mun meiri fjöl­breytni en á árum áður og þarf ekki að vera áhyggju­efni þótt dragi tíma­bundið sam­an í hag­vexti. Hins veg­ar til að byggja und­ir al­menna hag­sæld fer að verða tíma­bært að hefja sam­tal um að huga að aðgerðum sem snúa að hag­vexti til framtíðar.

Lang­tíma kjara- samn­ing­ar í höfn

Nýir kjara­samn­ing­ar á al­menn­um vinnu­markaði sem und­ir­ritaðir voru til fjög­urra ára skipta hag­kerfið miklu máli. Með þeim er leiðin fram á við mörkuð í átt að bætt­um lífs­kjör­um, en stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar er að ná niður verðbólgu og þar með vöxt­um, sem mun skila sér í aukn­um kaup­mætti fólks. Eina raun­hæfa leiðin til þess að ná því mark­miði er sam­stillt átak hins op­in­bera, vinnu­markaðar­ins og pen­inga­stefn­unn­ar í land­inu. Það er já­kvætt að sam­komu­lag hafi náðst til fjög­urra ára en tíma­lengd samn­ing­anna stuðlar að aukn­um fyr­ir­sjá­an­leika á vinnu­markaði. Aðgerðir sem stjórn­völd kynntu til að greiða fyr­ir gerð kjara­samn­ing­anna eru margþætt­ar og er mark­mið þeirra að stuðla að vax­andi vel­sæld í land­inu. Um er að ræða um­fangs­mikl­ar aðgerðir sem nema allt að 80 millj­örðum króna á samn­ings­tím­an­um. Þannig hafa stjórn­völd tekið ákvörðun um að for­gangsraða fjár­mun­um rík­is­ins með skýr­um hætti í þágu stöðug­leika á vinnu­markaði næstu árin. Á sama tíma er mik­il­vægt að ríkið rýni í eig­in rekst­ur, til dæm­is með því að nýta fjár­muni bet­ur, stuðla að auk­inni hag­kvæmni hjá hinu op­in­bera og tryggja sam­keppn­is­hæfa um­gjörð um at­vinnu­lífið til þess að standa und­ir verðmæta­sköp­un fyr­ir sam­fé­lagið.

Veru­leg­ur stuðning­ur á hús­næðismarkaði

Aðgerðir stjórn­valda snerta lífs­kjör fólks með bein­um hætti. Þannig er aðgerðunum ætlað að auka ráðstöf­un­ar­tekj­ur fjöl­skyldna um að allt 500 þúsund krón­ur á ári. Þannig verður sjö millj­örðum varið í ár í sér­stak­an vaxt­astuðning til heim­ila með íbúðalán til að koma til móts við auk­inn vaxta­kostnað, en stuðning­ur­inn kem­ur til viðbót­ar al­menn­um vaxta­bót­um. Gert er ráð fyr­ir að sér­stak­ur vaxt­astuðning­ur greiðist beint inn á höfuðstól hús­næðisláns en heim­ilt verði að óska eft­ir að nýta hann til lækk­un­ar á af­borg­un­um í til­tek­inn tíma. Að sama skapi verður dregið úr íþyngj­andi hús­næðis­kostnaði leigj­enda með hærri hús­næðis­bót­um en grunn­fjár­hæðir hús­næðis­bóta til leigj­enda hækka um 25% þann 1. júní næst­kom­andi og aukið til­lit verður tekið til fjöl­skyldu­stærðar þannig að greidd­ar verða hús­næðis­bæt­ur fyr­ir allt að 6 heim­il­is­menn í stað 4 áður. Kostnaður vegna þessa er um 2,5 millj­arðar króna á árs­grund­velli. Að sama skapi verður hús­næðis­ör­yggi leigj­enda aukið og skýr­ari rammi sett­ur um ákvörðun og fyr­ir­sjá­an­leika leigu­fjár­hæðar með breyt­ing­um á húsa­leigu­lög­um auk bættr­ar ráðgjaf­ar og upp­lýs­inga til leigj­enda. Að sama skapi verður sett­ur enn meiri kraft­ur í upp­bygg­ingu íbúðar­hús­næðis á samn­ings­tím­an­um með stofn­fram­lög­um og hlut­deild­ar­lán­um til upp­bygg­ingu 1.000 íbúða á ári. Sveit­ar­fé­lög­in munu leggja til bygg­ing­ar­hæf­ar lóðir og stofn­fram­lög til að mæta upp­bygg­ing­arþörf og líf­eyr­is­sjóðum verða veitt­ar rýmri heim­ild­ir til fjár­fest­inga í íbúðar­hús­næði.

Stutt við barna­fjöl­skyld­ur

Ráðist verður í um­fangs­mikl­ar aðgerðir til þess að styðja bet­ur við barna­fjöl­skyld­ur á samn­ings­tím­an­um. Þannig verða barna­bæt­ur hækkaðar og dregið verður úr tekju­skerðing­um, sem mun fjölga þeim for­eldr­um sem fá stuðning um 10.000. Fram­lög til barna­bóta verða auk­in um 18 millj­arða króna á samn­ings­tím­an­um. Þá verða há­marks­greiðslur úr Fæðing­ar­or­lofs­sjóði hækkaðar í þrem­ur áföng­um á næstu tveim­ur árum, þann 1. apríl 2024 úr 600.000 þúsund krón­um á mánuði í 700.000 kr., frá og með 1. janú­ar 2025 í 800.000 kr. og frá og með 1. janú­ar 2026 í 900.000 kr. Það er um tíma­bæra breyt­ingu að ræða sem mun ýta und­ir aukn­ar sam­vist­ir barna með báðum for­eldr­um. Ráðist verður í sam­hent átak til að brúa bilið milli fæðing­ar­or­lofs og leik­skóla með það að mark­miði að tryggja öll­um börn­um pláss á leik­skól­um. Þá verða skóla­máltíðir grunn­skóla­barna gerðar gjald­frjáls­ar frá og með ág­úst 2024 til loka samn­ings­tím­ans.

Sam­fé­lag er sam­vinnu­verk­efni

Heim­sókn nó­bels­verðlauna­haf­ans Jós­efs Stig­litz í síðustu viku minnti okk­ur á hvað sú efna­hags­skip­an sem við búum við á Íslandi hef­ur reynst gæfu­rík. Þó að okk­ur greini á um ýmis mál varðandi stjórn efna­hags­mála og skipt­ingu gæða höf­um við sem þjóðfé­lag náð sam­stöðu um fjár­fest­ingu í al­manna­gæðum, mennt­un, sjúkra­trygg­ing­um og fé­lags­lega kerf­inu og með sam­vinnu náð að skapa grund­völl fyr­ir fram­sækið markaðshag­kerfi þar sem frelsi ein­stak­lings­ins er í for­grunni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2024.

Categories
Fréttir

Stórátak á húsnæðismarkaði, lægri verðbólga og umbætur fyrir launafólk

Deila grein

07/03/2024

Stórátak á húsnæðismarkaði, lægri verðbólga og umbætur fyrir launafólk

Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa sameiginlega lagt fram aðgerðir til að greiða fyrir kjarasamningum á vinnumarkaði til næstu fjögurra ára. Fram kemur í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar að:

Aðgerðirnar styðja við sameiginlegt markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að vaxandi velsæld, með auknum kaupmætti og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta.

Heildarumfang aðgerðanna er allt að 80 milljarðar króna á samningstímanum. Í þeim er lögð sérstök áhersla á að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og fjölskylduvænna samfélagi samhliða því að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Aðgerðirnar munu auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna verulega á samningstímanum, eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Heilbrigðari húsnæðismarkaður

Alls nema aðgerðir er lúta að húsnæðismarkaðnum um 50 milljörðum króna á samningstímanum, en meðal aðgerða má nefna uppbyggingu 1.000 íbúða með stofnframlögum og hlutdeildarlánum, sérstakan vaxtastuðning ásamt auknum stuðningi við leigjendur.

Fjölskylduvænt Ísland

Fram kemur að sérstök áhersla er lögð á fjölskylduvænna samfélag með aðgerðum sem miða að velsæld barnafjölskyldna. Meðal aðgerða má nefna hækkun barnabóta, gjaldfrjálsar skólamáltíðir, hærri greiðslur í fæðingarorlofi og samstöðu allra um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Einnig er lögð áhersla á aðgerðir gegn kynbundnum launamun, bætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og umbætur á menntasjóði námsmanna. Þá verður hámarksábyrgð úr Ábyrgðarsjóði launa hækkuð í þremur skrefum og tækifæri til starfsþjálfunar aukin.

Lægri verðbólga

Til að stuðla að verðstöðugleika munu ríki og sveitarfélög halda aftur af gjaldskrárhækkunum og munu gjaldskrár ríkis almennt ekki hækka umfram 2,5% á árinu 2025. Einnig lýsa sveitarfélögin yfir vilja til að hækka ekki gjaldskrár fyrir árið 2024 umfram 3,5% og að endurskoða gjaldskrár ársins hafi þær hækkað meira með sérstakri áherslu á barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu.

Lesa má ítarlega um tillögurnar í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar:

Categories
Fréttir Greinar

Hér rís önnur heilsugæslustöð

Deila grein

07/03/2024

Hér rís önnur heilsugæslustöð

Það er ekkert launungamál að margir Akureyringar hafa lengi verið án heimilislæknis og má rekja þá staðreynd mörg ár aftur í tímann. Bið eftir tíma hjá heimilislæknum er í dag yfirleitt mjög löng og í sumum tilfellum nær fólk ekki að fá tíma sem verður til þess að álag eykst á öðrum stöðum í heilbrigðiskerfinu. Tel ég það eitt af okkar forgangsmálum að ráða bót þar á. Rannsóknir hafa sýnt hversu mikilvægt það er að allir hafi fastan heimilislækni um lengri tíma auk þess sem sýnt hefur verið fram á að það minnki einnig marktækt vinnuálag á heimilislæknum og í heilbrigðiskerfinu öllu.

Þegar sagan er skoðuð er athyglisvert að sjá að á Akureyri hefur aldrei verið byggð heilsugæsla frá grunni heldur hefur heilsugæslu verið komið fyrir í eldra húsnæði, sbr. í gamla Amarohúsinu og nú í Sunnuhlíð. En það er ekki þar með sagt að ekki geti vel tekist til eins og ný og glæsileg heilsugæslustöð sem var opnuð á þriðjudaginn sl. ber gott vitni um og er mikið fagnaðarefni fyrir íbúa svæðisins.

Á Akureyri þarf tvær heilsugæslustöðvar

Fyrir fimm árum var gerð ítarleg úttekt á svæðinu sem leiddi í ljós að bærinn þyrfti tvær heilsugæslustöðvar. Þörfin í dag er brýnni ef eitthvað er þar sem íbúum svæðisins hefur farið fjölgandi á síðustu árum. Yfir 20.000 manns eru skráðir á heilsugæslustöðina í Sunnuhlíð sem er töluvert meiri fjöldi en gengur og gerist í höfuðborginni. Heilbrigðisráðherra hefur sjálfur sagt að rýna þurfi hvernig stöðin í Sunnuhlíð muni nýtast og hvar þurfi svo að bæta í. En fyrirætlanir um aðra heilsugæslustöð hafi ekkert breyst á þessum tímapunkti.

Ríkiskaup fh. Framkvæmdasýslu – Ríkiseigna og Heilbrigðisráðuneytið hafa auglýst eftir aðilum til að hanna og byggja nýja heilsugæslu, í tvígang.  Því miður skiluðu tilraunirnar ekki tilætluðum árangri þar sem enginn aðili sá sér fært um að taka þátt.

Vangaveltur um hvort hin heilsugæslustöðin verður ríkis- eða einkarekin er síðan framtíðarmúsík sem verður að koma í ljós með tíð og tíma. Þar þarf áfram að horfa til þarfa samfélagsins, fyrst og fremst snýst þetta um að þjónusta íbúana sem hér eru. Það má aldrei gleymast að heilbrigðisþjónusta þarf fyrst og fremst að snúast um fólkið okkar sem þangað leitar.

Að lokum get ég svo ekki annað gert en að benda á að góðir stjórnmálamenn kynna sér málin vandlega áður en þeir fara að básúna illa ígrundaðar ályktanir. Það er að mínu mati algjört lágmark að vera með allar staðreyndir á hreinu áður en maður setur fram fullyrðingar sem eiga ekki við rök að styðjast.

Við munum byggja aðra heilsugæslustöð, þau áform hafa ekki breyst!

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 7. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Gjald­frjálsar skóla­mál­tíðir

Deila grein

07/03/2024

Gjald­frjálsar skóla­mál­tíðir

Ég er sammála ályktun sveitarstjórnarráðs Framsóknar sem kemur inn á að sveitarfélög tryggi gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum eins og ríkisstjórnin hafi samþykkt, enda er það í anda Framsóknar að setja fjölskyldufólk í forgang. Kjarasamningar eru í vinnslu og þessi aðgerð myndi greiða fyrir gerð þeirra. Það er mikilvægt að þjóðarsátt náist um jafn mikilvæg mál, öllum til heilla. Það væri liður í átt að markmiðum okkar um að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu, enda myndu með því allir vinna, bæði heimili og sveitarfélög. Mörg sveitarfélög í landinu eru skuldug og finna því áþreifanlega fyrir hærri verðbólgu og því vaxtastigi sem nú ríkir í landinu.

Tækifæri til að draga úr ójöfnuði

Mikilvægi skólamáltíða fyrir skólastarfið sjálft er mikið. Góð næring er nauðsynleg fyrir skóladaginn og mikilvægur liður í að jafna kjör og aðstæður barna er að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Það er ekki aðeins brýnt til þess að draga úr ójöfnuði heldur einnig heilsufarslegt og uppeldislegt atriði. Næring er þýðingarmikil fyrir þroska nemenda og starfsorku og rétt næring er liður í forvörnum og lýðheilsu. Börnin búa við misjöfn kjör og koma úr misjöfnum aðstæðum, en þegar þau setjast við morgunhressinguna í skólanum eru þau öll að koma að sama borði.

Munar oft um minna

Börn hér í Reykjavík greiða að jafnaði 12.836 krónur á mánuði fyrir skólamáltíð og er það um 115 þúsund yfir veturinn fyrir barnið. Foreldrar greiða þó ekki nema fyrir tvö börn og þá frítt fyrir þriðja. Þótt þetta sé ekki há upphæð þá getur munað um 230 þúsund yfir veturinn.

Mörg sveitarfélög bjóða nú þegar gjaldfrjálsar skólamáltíðir t.d. Fjarðabyggð og Vogar og enn fleiri sveitarfélög hafa lagt mikið kapp á það á undanförnum árum að niðurgreiða skólamáltíðir í grunnskólum. Nú er hins vegar tímabært að taka af skarið og stíga skrefið til fulls.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. mars 2024.

Categories
Fréttir

Tryggir leigjendum lágmarksréttindi

Deila grein

07/03/2024

Tryggir leigjendum lágmarksréttindi

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi um breytingar á húsaleigulögum. Markmiðið er að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Frumvarpið byggir á tillögum starfshóps um endurskoðun laganna sem ráðherra skipaði og kynntar voru í fyrrasumar.

Helstu breytingar í frumvarpinu eru í fyrsta lagi að stuðlað verði að aukinni langtímaleigu og fyrirsjáanleika um þróun leiguverðs, í öðru lagi að kveða á um að skrá skuli alla leigusamninga um íbúðarhúsnæði í leiguskrá HMS verði rýmkuð, í þriðja lagi að styrkja forgangsrétt leigjenda um áframhaldandi leigu og loks að kærunefnd húsamála verði efld.

„Húsaleigulög tryggja leigjendum lágmarksréttindi við leigu íbúðarhúsnæðis en skortur á framboði leiguhúsnæðis og lök samningsstaða sem af honum leiðir gerir leigjendum oft erfitt um vik að standa á rétti sínum. Verði frumvarpið að lögum mun það skýra verulega rétt leigjenda. Samhliða þessum breytingum er mikilvægt að einnig verði horft til aðgerða til þess að auka framboð á leiguhúsnæði í samræmi við húsnæðisstefnu og aðgerðaáætlun á grundvelli hennar sem mælt var fyrir á síðasta ári,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Langtímaleiga og aukinn fyrirsjáanleiki

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar með það að markmiði að stuðla að aukinni langtímaleigu og fyrirsjáanleika um breytingar á leigufjárhæð, bæði á meðan samningur er í gildi og þegar samningur er farmlengdur eða endurnýjaður. Vísitölubinding leigusamninga, óháð tímalengd þeirra, hefur leitt til þess að erfitt er fyrir leigjendur að sjá fyrir hvernig leiga muni þróast milli mánaða og tíðar hækkanir, m.a. vegna verðbólgu, gera það að verkum að húsnæðiskostnaður leigjenda hækkar oft mikið á samningstímanum. Frumvarpinu er ætlað að setja skýrari ramma utan um í hvaða tilvikum er heimilt að hækka leigu á samningstíma.

Lagt er til að ekki verði heimilt að semja um reglubundnar breytingar á leigufjárhæð í samningum til 12 mánaða eða skemur. Með því megi stuðla að auknum fyrirsjáanleika um leigufjárhæð í styttri samningum og fjölga leigusamningum til lengri tíma.

Þá er lagt til að í samningum til lengri tíma verði heimilt að fara fram á breytingu á leigufjárhæð vegna breyttra forsendna. Það geti verið vegna verulegrar hækkunar rekstrarkostnaðar, aðlögunar leigu að markaðsleigu og hækkun leigu hjá óhagnaðardrifnu leigufélagi til samræmis við sambærilegar eignir í eigu félagsins. Þetta geti einnig stuðlað að því að samningsaðilar velji í auknum mæli að gera ótímabundna samninga eða lengri tímabundna samninga. Gert er ráð fyrir að tólf mánuðir líði að lágmarki frá gildistöku leigusamnings þar til að hægt er að óska eftir breytingu á leigufjárhæð. Þá eru lagðar til breytingar til að skýra betur reglur um hvernig leiga skuli ákvörðuð við endurnýjun eða framlengingu leigusamnings.

Almenn skráningarskylda leigusamninga

Í frumvarpinu er lagt til að skráningarskylda í leiguskrá HMS taki til allra leigusamninga um húsnæði sem ætlað er til íbúðar. Einnig skuli skrá allar breytingar á leigufjárhæð á gildistíma samnings. Skráningarskylda var fyrst lögfest árið 2022 og tók gildi 1. janúar 2023 en náði þá einungis til leigusala sem hafa atvinnu af útleigu íbúðarhúsnæðis. Markmiðið með skráningu leigusamninga í leiguskrá HMS er að tryggja áreiðanlegar og heildstæðar upplýsingar um leigumarkaðinn, ekki síst um markaðsleigu húsnæðis sem er meginviðmið sanngjarnrar og eðlilegrar leigufjárhæðar samkvæmt húsaleigulögum

„Skráning leigusamninga í leiguskrána hefur heilt yfir gefist vel, þó að hún taki aðeins til hluta leigusamninga. Góðar upplýsingar um leigumarkaðinn og samsetningu hans, fjölda leigusamninga, þróun leiguverðs og tímalengd samninga eru gríðarlegar mikilvægar fyrir stjórnvöld til þess að geta með upplýstum hætti brugðist við þeim áskorunum sem leigjendur og leigusalar standa frammi fyrir og til þess að átta sig á hvernig best er hægt að styðja við virkan leigumarkað til hagsbóta fyrir alla aðila,“ sagði ráðherra á Alþingi.

Forgangsréttur leigjenda aukinn

Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði um um forgangsrétt leigjenda til áframhaldandi leigu húsnæðis verði styrkt og að leigusala verði gert að kanna hvort leigjandi hyggist nýta sér forgangsrétt sinn. Í gildandi lögum þarf leigjandi að tilkynna leigusala að hann hyggist nýta forgangsrétt sinn eigi síðar en þremur mánuðum fyrir lok leigutíma til þess að forgangsréttur virkjist. Þá er lagt til að í lögunum verði taldar upp ástæður sem heimila uppsagögn ótímabundins leigusamnings. Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða að ræða.

Kærunefnd húsamála efld

Loks er  lagt til að kærunefnd húsamála verði efld til að tryggja öflugt og skilvirkt réttarúrræði við úrlausn á ágreiningi milli samningsaðila. Í frumvarpinu er kveðið á um flýtimeðferð mála sem varða ágreining um leigufjárhæð þannig að úrskurður um leiguverð liggi fyrir innan tveggja mánaða. Einnig er lagt til að ráðast í fræðsluátak um réttindi á leigumarkaði og aðilum leigusamninga tryggð áframhaldandi lögfræðiráðgjöf um réttindi sín og skyldur þeim að kostnaðarlausu.

Þá er lagt til að kærunefndin taki framvegis við kærum á ensku þar sem stórir hópar leigjenda hafa ekki íslensku að móðurmáli. „Leigumarkaðurinn er oftast fyrsta stopp einstaklinga og fjölskyldna sem setjast hér að. Þessi hópur stendur oft höllum fæti í samskiptum við leigusala og á erfiðara um vik að leita réttar síns vegna skorts á kunnáttu í íslensku,“ sagði ráðherra í framsöguræðu sinni á Alþingi.

Mælti fyrir frumvarpi sem á að taka á tíðum leiguverðhækkunum og óskýrum reglum um hvernig og hvernær megi hækka…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Fimmtudagur, 7. mars 2024

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

„Gefum íslenskunni séns“

Deila grein

06/03/2024

„Gefum íslenskunni séns“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins aðlögun innflytjenda inn í samfélagið og hvernig við getum sem best boðið fólki að starfa og lifa í okkar samfélagi. Hafandi í huga að merkilegasti menningararfurinn sé tungumálið okkar íslenska þá er það á okkar ábyrgð að þjálfa íslenskuna og ekki skipta sjálfkrafa yfir í ensku í samskiptum við innflytendur.

„Það er því á ábyrgð samfélagsins og okkar að hjálpa til við aðlögun innflytjenda inn í samfélagið; innflytjenda sem við höfum verið svo heppin að fá hingað til landsins og má finna um allt land í öllum byggðarkjörnum; fólk sem er tilbúið að leggja okkur lið við að viðhalda góðu samfélagi og viðhalda hagkerfinu til framtíðarkynslóða. Það er staðreynd að stór hluti, eða 87%, innflytjenda er á vinnumarkaði hér á landi og er það vel,“ sagði Halla Signý.

„Háskólasetrið á Vestfjörðum hýsir verkefnið „Gefum íslenskunni séns“ sem er m.a. stofnað af Fræðslumiðstöð Vestfjarða með Ólafi Guðsteini Kristjánssyni í fararbroddi. Síðan verkefnið var stofnað hafa sveitarfélög og fleiri aðilar komið að því. Þetta sprettur upp af átaki sem var á Ísafirði með það að markmiði að auka vitund fólks gagnvart íslensku og tileinkun málsins.“

„Þegar við tökum á móti ferðamönnum leggjum við áherslu á að sýna menningararf okkar og áhugaverða staði um allt land, söguna og náttúruna. Merkilegasti menningararfurinn er þó tungumálið okkar íslenska. Við þurfum að lyfta því upp. Það hefur þróast líkt og náttúran í okkar fallega landi en fyrir okkur er tungumálið festan í þjóðinni og samnefnari.“

„Við verðum því að vera opin fyrir því hvernig við getum boðið þeim sem flytja hingað og dvelja hér um lengri eða skemmri tíma að starfa og lifa í okkar samfélagi. Það er á okkar ábyrgð að þjálfa íslenskuna og ekki skipta sjálfkrafa yfir í ensku í samskiptum og leyfa fólki — það eru allir af vilja gerðir — að byggja undir þá kunnáttu sem það býr yfir. Að sjálfsögðu verðum við að bera virðingu fyrir því að okkar ylhýra er ekki auðlært og setjast ekki í dómarasæti heldur vera fyrirmynd,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Samfélag okkar er sem betur fer ekki einsleitt heldur fjölbreytt. Það er því á ábyrgð samfélagsins og okkar að hjálpa til við aðlögun innflytjenda inn í samfélagið; innflytjenda sem við höfum verið svo heppin að fá hingað til landsins og má finna um allt land í öllum byggðarkjörnum; fólk sem er tilbúið að leggja okkur lið við að viðhalda góðu samfélagi og viðhalda hagkerfinu til framtíðarkynslóða. Það er staðreynd að stór hluti, eða 87%, innflytjenda er á vinnumarkaði hér á landi og er það vel.

Háskólasetrið á Vestfjörðum hýsir verkefnið Gefum íslenskunni séns sem er m.a. stofnað af Fræðslumiðstöð Vestfjarða með Ólafi Guðsteini Kristjánssyni í fararbroddi. Síðan verkefnið var stofnað hafa sveitarfélög og fleiri aðilar komið að því. Þetta sprettur upp af átaki sem var á Ísafirði með það að markmiði að auka vitund fólks gagnvart íslensku og tileinkun málsins. Það hafa verið haldin námskeið og málþing sem hafa vakið athygli og nú er verkefnið að færast á fleiri svæði. Þátttakendur eru íbúar á svæðinu, bæði íslenskir að uppruna og innflytjendur. Það er mikilvægt að allir taki þátt.

Þegar við tökum á móti ferðamönnum leggjum við áherslu á að sýna menningararf okkar og áhugaverða staði um allt land, söguna og náttúruna. Merkilegasti menningararfurinn er þó tungumálið okkar íslenska. Við þurfum að lyfta því upp. Það hefur þróast líkt og náttúran í okkar fallega landi en fyrir okkur er tungumálið festan í þjóðinni og samnefnari. Við verðum því að vera opin fyrir því hvernig við getum boðið þeim sem flytja hingað og dvelja hér um lengri eða skemmri tíma að starfa og lifa í okkar samfélagi. Það er á okkar ábyrgð að þjálfa íslenskuna og ekki skipta sjálfkrafa yfir í ensku í samskiptum og leyfa fólki — það eru allir af vilja gerðir — að byggja undir þá kunnáttu sem það býr yfir. Að sjálfsögðu verðum við að bera virðingu fyrir því að okkar ylhýra er ekki auðlært og setjast ekki í dómarasæti heldur vera fyrirmynd.“

Categories
Fréttir

Tryggjum öruggari knattspyrnu- og fjölnotaíþróttahús

Deila grein

06/03/2024

Tryggjum öruggari knattspyrnu- og fjölnotaíþróttahús

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins hættulegar slysagildrur í knattspyrnu- og fjölnotaíþróttahúsum, svo sem „óvarðar járnstoðir aftan við endalínur knattspyrnuvallanna en mögulega er fleira í þessum húsum sem þarfnast skoðunar með tilliti til öryggis notenda“. Sagði hún stoðirnar verið varðar í sumum húsum og þá þurft alvarlegt slys til.

„Iðkendur, börn sem fullorðnir, sem lenda á þessum stoðum á fullri ferð geta slasast illa. Kostnaður við öruggari frágang er óverulegur í samhengi við byggingarkostnað, rekstrarkostnað eða hættuna á alvarlegu slysi.

Ég hef í nokkur ár vakið máls á þessu í tveggja manna tali við fólk sem mér hefur fundist líklegt til að beita sér fyrir úrbótum. Það hefur ekki skilað miklu þó að margir telji úrbóta þörf en líklega vantar viðmið fyrir mat á öryggi og fyrirmæli til þess að gripið sé til markvissra aðgerða,“ sagði Líneik Anna.

Öryggisreglur ekki ná utan um þennan þátt, a.m.k. sé „ekki hægt að sjá af reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga, reglugerð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis um öryggi leikvalla og leiksvæða eða eftirlit með þeim eða í reglum menntamálaráðherra um öryggi í íþróttahúsum né byggingarreglugerð.“

Þarna er viðfangsefni sem fellur á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og íþróttahreyfingarinnar.

„Ég skora því á stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, í samvinnu við íþróttafélögin að grípa til ráðstafana og jafnframt að móta reglur til framtíðar um frágang í kringum vellina. Jafnframt mun ég leggja fram fyrirspurn til hæstv. mennta- og barnamálaráðherra varðandi málið,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Knattspyrnu- og fjölnotaíþróttahús hafa valdið byltingu í möguleikum til ýmiss konar íþróttaiðkunar innan húss yfir veturinn hér á landi en í sumum þessara húsa eru því miður hættulegar slysagildrur. Þá hef ég sérstaklega í huga óvarðar járnstoðir aftan við endalínur knattspyrnuvallanna en mögulega er fleira í þessum húsum sem þarfnast skoðunar með tilliti til öryggis notenda. Í sumum húsunum hafa stoðirnar verið varðar en því miður hefur stundum þurft alvarlegt slys til. Iðkendur, börn sem fullorðnir, sem lenda á þessum stoðum á fullri ferð geta slasast illa. Kostnaður við öruggari frágang er óverulegur í samhengi við byggingarkostnað, rekstrarkostnað eða hættuna á alvarlegu slysi. Ég hef í nokkur ár vakið máls á þessu í tveggja manna tali við fólk sem mér hefur fundist líklegt til að beita sér fyrir úrbótum. Það hefur ekki skilað miklu þó að margir telji úrbóta þörf en líklega vantar viðmið fyrir mat á öryggi og fyrirmæli til þess að gripið sé til markvissra aðgerða. Í fljótu bragði sýnist mér öryggisreglur ekki ná utan um þennan þátt. Það er alla vega ekki hægt að sjá af reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga, reglugerð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis um öryggi leikvalla og leiksvæða eða eftirlit með þeim eða í reglum menntamálaráðherra um öryggi í íþróttahúsum né byggingarreglugerð. Þarna er viðfangsefni sem fellur á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og íþróttahreyfingarinnar. Ég skora því á stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, í samvinnu við íþróttafélögin að grípa til ráðstafana og jafnframt að móta reglur til framtíðar um frágang í kringum vellina. Jafnframt mun ég leggja fram fyrirspurn til hæstv. mennta- og barnamálaráðherra varðandi málið.“

Categories
Fréttir

Ályktun sveitarstjórnarráðs Framsóknar vegna kjaraviðræðna

Deila grein

05/03/2024

Ályktun sveitarstjórnarráðs Framsóknar vegna kjaraviðræðna

Sveitarstjórnarráð Framsóknar hvetur sveitarstjórnarfólk um land allt til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á vinnumarkaði, sem hafa það að markmiði að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu. Lækkun vaxta eykur kaupmátt allra heimila. Sveitarstjórnarráð Framsóknar styður að ríki og sveitarfélög tryggi gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum eins og ríkisstjórn hefur samþykkt enda setur Framsókn barnafjölskyldur í forgang. Jafnframt styður ráðið að dregið verði úr gjaldskrárhækkunum sem snúa að barnafjölskyldum.

Sveitarstjórnarráð Framsóknar 5. mars 2024.