Categories
Fréttir

Mikilvægt að samræma ólíkar kröfur og sjónarmið

Deila grein

08/11/2013

Mikilvægt að samræma ólíkar kröfur og sjónarmið

Sigurður Ingi JóhannssonMeginumræðuefni VIII. Umhverfisþings var skipulag lands og hafs, sjálfbær þróun og samþætting verndar og nýtingar.
Þingið hófst með ávarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, sem fjallaði m.a. um skipulag sem mikilvægt stjórntæki til að samræma ólíkar kröfur og sjónarmið, meðal annars um auðlindanýtingu, atvinnuþróun og umhverfisvernd. Ríkulegar auðlindir landsins þurfi að nýta af skynsemi ef takast eigi að tryggja velferð og hagsæld í landinu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Benti ráðherra á að brýnt sé orðið að hefjast handa við að ná á heildstæðan hátt yfir einstaka þætti landnotkunar, s.s. landgræðslu, ferðaþjónustu og afþreyingu, friðlýst svæði og náttúruvernd, orlofshúsabyggð, sauðfjár- og hrossabeit, túnrækt, kornrækt, repjurækt, skógrækt og endurheimt votlendis. Því sé stefnt að því að gerði verði landnýtingaráætlun sem verði hluti Landsskipulagsstefnu 2015-2026. Ráðherra kom einnig inn á skipulagsmál hafsins, vernd og nýtingu sem einnig eru til umfjöllunar á þinginu.
Aðalræðumaður Umhverfisþings var Ásdís Hlökk Theódórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, sem fjallaði um skipulag í víðu samhengi og sjálfbærar lausnir í því sambandi. Unnið var í tveimur málstofum, þar sem annars vegar verður rætt um sjálfbæra landnýtingu og hins vegar skipulag haf- og strandsvæða.
OSystkynin Birta María og Ágúst Jónsbörn úr Grenivíkurskóla kynntu starf barnanna í Grænfánaverkefninu en Grenivíkurskóli hefur nú hlotið Grænfánann fjórum sinnum. Umhverfissáttmálinn sem börnin í Grenivíkurskóla sömdu fólu í sér samtal við sveitarfélagið og íbúa þess sem skilað hefur miklum árangri.
Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands flutti framsögu um framtíðarsýn og skipulag varðandi vernd og nýtingu lands og Hafdís Hafliðadóttir, sviðsstjóri á Skipulagsstofnun, fór með framsögu um ný tækifæri í skipulagi hafs og stranda. Þessi tvö málefni voru svo meginþemu málstofa eftir hádegi þar sem fjölmörg sjónarmið komu fram í stuttum erindum og umræðum þinggesta.
Erindi og innlegg þinggesta verður mikilvægt veganesti fyrir áframhaldandi vinnu og stefnumótun í þessum málaflokkum.
Vel á fjórða hundrað manns sátu þingið.
Tenglar:
https://www.umhverfisraduneyti.is/umhverfisthing-2013/

Categories
Fréttir

Skuldavandi íslenskra heimila – skýrsla

Deila grein

07/11/2013

Skuldavandi íslenskra heimila – skýrsla

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flutti í dag á Alþingi skýrslu um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna. Fram kom að þegar væri hafin vinna í forsætisráðuneytinu við nýtt frumvarp um höfuðstólslækkun. Jafnfram kom fram að viðskiptabankarnir þrír myndu ljúka endurútreikningi sínum á gengistryggðum lánum um áramót. Meiri óvissa væri um áætlanir Dróma og Lýsingar. Sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar myndi skila af sér tillögum í desember. Sigmundur Davíð sagði þingsályktun er var samþykkt á sumarþingi Alþingis ganga samkvæmt áætlun.
Hér að neðan má lesa skýrsluna.
***
Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson:
Virðulegur forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það í sal Alþingis hvaða áhrif hin ófyrirsjáanlega höfuðstólshækkun verðtryggðra húsnæðislána hafði á heimilin í landinu. Alþingi bar gæfu til þess í júní síðastliðnum að samþykkja aðgerðir vegna þessa skuldavanda íslenskra heimila, vanda sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Í þingsályktuninni kemur fram að forsætisráðherra muni flytja Alþingi skýrslu um stöðu mála á haustþingi 2013 og á vorþingi 2014.
Það er gleðilegt að geta sagt Alþingi frá því nú að framgangur þingsályktunarinnar er með ágætum og samkvæmt áætlun. Sumum liðum þingsályktunarinnar er lokið og vinna við aðra liði í fullum gangi í mörgum ráðuneytum í samræmi við ákvæði ályktunarinnar. Þingsályktunin er í tíu liðum. Ég mun hér á eftir fara í gegnum stöðu mála við einstaka liði ályktunarinnar.

1. liður er að settur verði á fót sérfræðingahópur sem útfæri mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og geri tillögur þar að lútandi.

Sérfræðingahópur var skipaður í sumar undir formennsku Sigurðar Hannessonar og hefur hópurinn unnið að tillögum að útfærslu á höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána. Hópurinn byggir vinnu sína á þeim forsendum sem fram komu í þingsályktuninni, þ.e. að leiðrétta eigi þann forsendubrest sem heimili urðu fyrir vegna verðbólguskots áranna 2007–2010. Leiðréttingin skal vera almenn en meta á hvort setja skuli þak á þá fjárhæð sem hvert heimili getur fengið. Einnig verður metinn fýsileiki þess að ná fram lækkun höfuðstóls með skattafslætti. Hópurinn hefur fengið til sín gesti úr ýmsum áttum, m.a. frá lánveitendum, Seðlabanka, Fjármálaeftirlitinu, Hagsmunasamtökum heimilanna og umboðsmanni skuldara. Skipaðir hafa verið fjórir undirhópar sérfræðingahópsins. Einn hópurinn undirbýr tillögur um framkvæmd leiðréttingarinnar, annar um stofnun leiðréttingarsjóðs, þriðji um notkun skattkerfisins til að ná fram skuldalækkun og sá fjórði um hvata til að skuldbreyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð.
Einnig hafa utanaðkomandi sérfræðingar verið fengnir til að vinna afmarkaða hluta, t.d. mat á efnahagslegum áhrifum. Gerður var samningur við Analyticu ehf. um greiningu á áhrifum leiðréttingarinnar og fleiri þáttum er snerta hagræna þætti verkefnisins. Þá er rétt að upplýsa Alþingi um að í forsætisráðuneytinu er að hefjast vinna við gerð frumvarps um höfuðstólsleiðréttingar. Eins og kunnugt er mun hópurinn skila tillögum sínum fyrir lok þessa mánaðar.

2. liður er að gerð verði úttekt á kostum og göllum þess að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð vegna húsnæðislána.

Undirhópur sérfræðingahópsins um höfuðstólslækkun vinnur að því að meta kosti og galla þess að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð í tengslum við þetta verkefni. Markmið slíks sjóðs er að flýta fyrir framkvæmd leiðréttingar en sem kunnugt er stendur til að nýta í leiðréttinguna hluta þess svigrúms sem myndast við skuldaskil fallinna fjármálafyrirtækja.

3. liður er að kannað verði hvernig gera megi yfirskuldsettum íbúðareigendum kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stendur ekki undir.

Um er að ræða tímabundna aðgerð sem miðar að því að leysa vanda tengdan afleiðingum efnahagshrunsins. Vinnuhópur skipaður sérfræðingum innanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytis hefur farið yfir verkefnið og tekið til skoðunar þau úrræði sem nú eru til staðar til lausnar á vanda skuldsettra heimila og jafnframt til hvaða viðbótarúrræða væri unnt að grípa til að takast á við vandamálið. Hópurinn hefur sett fram tillögur að úrræðum sem eru til nánari skoðunar. Meðal þeirra aðgerða sem hafa verið teknar til nánari skoðunar eru breytingar á lögum um samningsveð, stofnun félags sem leysir til sín yfirveðsettar eignir, samningar við kröfuhafa um niðurfellingu skulda og sérstakan fyrningartíma á kröfum sem eftir standa við nauðungarsölu.

4. liður er að skipuð verði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála.

Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur skipað sjö manna verkefnisstjórn sem hefur það hlutverk að leggja fram tillögur að framtíðarstefnu í húsnæðismálum en Samband íslenskra sveitarfélaga á áheyrnarfulltrúa sem situr fundi verkefnisstjórnarinnar. Verkefnisstjórnin mun hafa forustu í verkefninu, safna gögnum og greina þau í samvinnu við óháða sérfræðinga, framkvæma stöðumat og móta stefnu um framtíðarskipan húsnæðismála. Verkefnisstjórnin hélt fyrsta fund sinn í september 2013 og hefur fundað reglulega síðan.
Jafnframt hefur ráðherra skipað 32 manna samvinnuhóp um framtíðarskipan húsnæðismála sem hefur það hlutverk að starfa náið með verkefnisstjórninni að mótun framtíðarskipulags húsnæðismála á Íslandi.
Í þessu viðamikla verkefni verður kannað hvaða fyrirkomulag og fjármögnun almennra húsnæðislána sé hagkvæmast hér á landi og hvernig slíku fyrirkomulagi verði komið á. Jafnframt verður skoðað hvernig unnt sé að tryggja virkan leigumarkað sem og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem á slíku þurfa að halda. Í því sambandi verður kannað með hvaða hætti stjórnvöld geti sinnt afmörkuðu hlutverki sem felst í veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðismarkaði. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að sem breiðust sátt og samstaða náist um framtíðarskipan húsnæðismála hér á landi og því mikilvægt að sem flestir sem láta sig málið varða fái tækifæri til að hafa áhrif á vinnuna.
Á vefsíðu verkefnisins gefst almenningi því kostur á að fylgjast með þróun og mótun tillagna hvers teymis og koma á framfæri frekari hugmyndum og athugasemdum um framtíðarskipan húsnæðismála.
Verkefnisstjórnin mun taka tillögurnar til frekari úrvinnslu í nánu samstarfi við Íbúðalánasjóð, Samtök fjármálafyrirtækja og Samband íslenskra sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að verkefnisstjórnin skili að verkefninu loknu skýrslu með ítarlega útfærðum tillögum að framtíðarstefnu í húsnæðismálum til félags- og húsnæðismálaráðherra.

5. liður er að lögfest verði flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldavanda heimilanna og varða ágreining um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu.

Um þennan lið er það að segja að frumvarp hefur þegar verið lagt fram á Alþingi og samþykkt.

6. liður er að settur verði á fót sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum.

Í samræmi við þennan lið var skipaður sérfræðingahópur í ágúst undir formennsku Ingibjargar Ingvadóttur. Hópurinn hefur kynnt sér helstu gögn og fundað með hagsmunaaðilum og sérfræðingum, svo sem Seðlabanka Íslands, umboðsmanni skuldara, Fjármálaeftirlitinu, Íbúðalánasjóði, Hagsmunasamtökum heimilanna, Samtökum fjármálafyrirtækja, Landssamtökum lífeyrissjóða, Félagi fasteignasala, bönkum og ýmsum hagfræðingum.
Efnisyfirlit, verkáætlun og verkaskipting liggur fyrir. Skoðuð verða áhrif afnáms verðtryggingar á neytendur, lánveitendur, fasteignamarkað og efnahagslíf og lagðar fram tillögur að útfærslu og tímasettri áætlun ásamt mótvægisaðgerðum. Áætluð skil eru upp úr miðjum desember.

Í 7. lið segir að kannað verði hvernig eignalausum einstaklingum verði gert kleift að greiða kostnað vegna gjaldþrotaskipta á búi sínu.

Unnið er að frumvarpi til laga um veitingu fjárhagsaðstoðar til greiðslu tryggingar á kostnaði vegna gjaldþrotaskipta til þeirra sem eiga engan kost annan en að fara fram á gjaldþrotaskipti á eignum sínum. Áætlað er að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi í lok nóvember 2013.

8. liður fjallar um að sérfræðingahópur meti möguleika á því að leggja gjald á fjármálafyrirtæki vegna umtalsverðra tafa á endurútreikningi lána.

Þessari gjaldtöku er ætlað að styrkja stöðu skuldara gagnvart fjármálafyrirtækjum sem sjá um endurútreikning lána þeirra.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur unnið greinargerð um málið og hefur hún fengið umfjöllun í starfshópi sem falið hefur verið það verkefni að endurskoða bann við gengistryggingu fjárskuldbindinga í lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Ályktanir starfshópsins koma fram í niðurlagi greinargerðarinnar, en þar er meðal annars vísað til afstöðu réttarfarsnefndar sem telur umrædda gjaldtöku ekki framkvæmanlega að teknu tilliti til ákvæða stjórnarskrár vegna vandkvæða við að afmarka skilyrði gjaldtökunnar nægilega skýrt.
Fjármálaeftirlitið sem er sjálfstætt stjórnvald getur í skjóli valdheimilda sinna aflað upplýsinga um eðli vandans og umfang. Í ályktun starfshópsins kemur fram að til greina komi að beita viðurlaga- og úrbótaheimildum stofnunarinnar ef tafir á endurútreikningi eru að hennar mati umtalsverðar og óréttlætanlegar. Svör viðskiptabankanna þriggja benda til þess að endurútreikningi gengistryggðra lána eigi að verða lokið fyrir næstu áramót en áætlanir Dróma og Lýsingar virðast vera meiri óvissu háðar.
Það er einnig mat starfshópsins að úrlausn ágreinings um gengistryggð lán gefi ásamt öðru tilefni til að endurskoða starfshætti úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki í því skyni að tryggja betri eftirfylgni með úrskurðum hennar. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur hafið vinnu við endurskoðun á samþykktum nefndarinnar.

9. liður fjallar um að stimpilgjöld af lánsskjölum verði endurskoðuð og stefnt að afnámi stimpilgjalda vegna kaupa einstaklinga á húsnæði til eigin nota.

Um þennan lið er það að segja að frumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi um afnám stimpilgjalda af lánsskjölum í samræmi við þingsályktunina. Með frumvarpinu er lagt til að stimpilgjald af lánsskjölum verði afnumið en stimpilgjald vegna eignayfirfærslna fasteigna hækkað um 0,4% í tilviki einstaklinga. Einnig er með frumvarpinu lögð til mikil einföldun á framkvæmd og innheimtu gjaldsins. Með afnámi stimpilgjalda af lánsskjölum dregur úr kostnaði við lántöku og einnig mun sú aðgerð auka hreyfanleika viðskiptavina milli banka og stuðla þannig að aukinni samkeppni á fjármálamarkaði.

Í 10. lið segir að Hagstofa Íslands fái skýrar heimildir til að afla upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja.

Frumvarp um þetta efni var samþykkt á Alþingi í september. Undirbúningur Hagstofunnar eftir samþykkt laga nr. 104/2013 hefur falist í tvenns konar aðgerðum. Í fyrsta lagi er tæknilegur undirbúningur, einkum um þætti sem varða gagnasendingar og gagnaöryggi. Má þar nefna tæknilega útfærslu á afnámi persónuauðkenna í gagnasendingum og aðferðum við að skipta út kennitölum í þeim gögnum sem unnið verður með. Samið hefur verið við utanaðkomandi sérfræðing um yfirferð öryggismála og gerð tillagna um aðgerðir vegna öryggisvottunar hjá Hagstofunni. Í öðru lagi er undirbúningur að afhendingu gagna. Hefur verið rætt við Íbúðalánasjóð vegna málsins og á næstu dögum verða fundir haldnir með stærstu fjármálafyrirtækjunum.
Herra forseti. Eins og sést á þessari upptalningu gengur framkvæmd þingsályktunarinnar samkvæmt áætlun. Það er mjög gleðilegt enda hafa skuldsett heimili marga fjöruna sopið á undanförnum árum. Það er von mín að góð samstaða myndist á Alþingi um þau mál sem enn eiga eftir að koma til kasta þingsins vegna þessarar þingsályktunar. Íslensk heimili eiga það skilið.
Tenglarhttps://www.althingi.is/altext/143/11/l07111222.sgml

Categories
Fréttir

Jafnrétti á vinnumarkaði – jafnréttisþing 2013

Deila grein

06/11/2013

Jafnrétti á vinnumarkaði – jafnréttisþing 2013

Eygló HarðardóttirFélags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir, og jafnréttisráð buðu til jafnréttisþings síðastliðinn föstudag. Jafnréttisþingið var jafnframt lokaviðburður jafnréttisviku sem hófst á kvennafrídaginn, 24. október sl.

Hlutverk jafnréttisþingsins var að að efna til samræðu milli stjórnvalda og þjóðar um málefni kynjajafnréttis og gefa öllum áhugasömum kost á að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda í jafnréttismálum. Fjallað var um fjölmargar hliðar jafnréttismála en megináhersla þingsins var að þessu sinni á jafnrétti á vinnumarkaði.

Fanný Gunnarsdóttir, formaður jafnréttisráðs, setti þingið og hófst dagskráin með ávarpi Eyglóar Harðardóttur sem fylgdi úr hlaði skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála árin 2011-2013.

Tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals ÍST 85:2012 var einnig kynnt á þinginu af Önnu Kolbrúnu Árnadóttur formanns aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti. Verkefnið hefur verið lengi í undirbúningi og komu fyrst hugmyndir fram um jafnlaunavottun árið 2005 í tíð Árna Magnússonar félagsmálaráðherra.

Fjölmargar málstofur voru haldnar á þinginu ásamt fyrirlestrum og pallborðsumræðum og endurspeglaðist efnisval framsögumanna í áherslum þingsins um á jafnrétti á vinnumarkaði.

Ísland skipar nú fimmta árið í röð efsta sæti lista Alþjóðaefnahagsráðsins á sviði kynjajafnréttis sem staðfestir þann góða árangur sem náðst hefur á sviði jafnréttismála á síðustu árum. Þótt enn sé nokkuð í land svo jafnri stöðu og jöfnum áhrifum kvenna og karla verði að fullu náð ber að halda því til haga sem vel er gert og hefur borið góðan árangur. Í skýrslu ráðherra er til að mynda fjallað um áhrif laga um fæðingar- og foreldraorlof frá því þau tóku gildi í ársbyrjun 2001. Þrátt fyrir að breytingar hafi orðið á töku fæðingarorlofs í kjölfar efnhagsþrenginganna er ljóst er að enn tekur mikill meirihluti nýbakaðra mæðra og feðra á innlendum vinnumarkaði fæðingarorlof. Ennfremur sýna nýjar rannsóknir að hlutdeild feðra í umönnun barna hefur aukist verulega frá því að lögin tóku gildi en sú staðreynd verður að teljast til jákvæðra áhrifa laganna.

Eftir tvö ár verða 100 ár liðin frá því að íslenskar konur, 40 ára eldri, fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Þessi tímamót verða nýtt til að beina sjónum að þeim verkefnum sem miða að því að auka kynjajafnrétti á sviðum þar sem enn hallar á annað kynið. Alþjóðlega fjármálakreppan, íslenska bankahrunið og efnahagsþrengingar sem fylgdu í kjölfarið hafa haft margræð áhrif á stöðu kvenna og karla og þróun jafnréttismála. Færa má rök fyrir því að jafnari þátttaka kynja í stjórnmálum, opinberri stjórnsýslu og í nefndum, stjórnum og ráðum hafi að einhverju leyti verið afleiðing þess að kallað var eftir breytingum í kjölfar efnahagsþrenginganna.  Konur eru nú um 40% kjörinna fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu og á Alþingi. Hlutfall kvenna er nú sambærilegt því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Þá hefur hlutur kvenna í stjórn atvinnulífsins aukist eftir að ákvæði um hlutfall kynja í stjórnun hlutafélaga var sett í í lög og áhrifa þeirra fór að gæta.

Í lok þingsins kom fram í  máli Kristínar Ástgeirsdóttur, framkvæmdastýru jafnréttisstofu, að brýnast væri að fræða ungt fólk og börn um jafnréttismál og að skólarnir gengdu þar lykilhlutverki. Það væri áhyggjuefni að íhaldssamasta viðhorfið væri að finna hjá ungu fólki sem hugsanlega endurspeglast í  því stöðuga áreiti sem það verður fyrir í formi efnis sem hamri mjög á íhaldssömum og hefðbundnum kynímyndum. Svo virðist sem meira sjáist af ákveðinni andstöðu við jafnrétti kynjanna og mikilvægt að stöðva þá óheillavænlegu þróun.

Jafnréttisþingið var vel sótt, rúmlega 300 þátttakendur sátu þingið.

Tenglar:

Skýrsla jafnréttisráðherra: https://www.velferdarraduneyti.is/media/Rit_2013/Jafnrettisskyrsla_2013.pdf

Jafnréttisþing 2013https://www.velferdarraduneyti.is/jafnrettisthing2013

 

Categories
Fréttir

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins

Deila grein

05/11/2013

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins

framsóknLandsstjórn Framsóknarflokksins boðar til haustfundar miðstjórnar 22.-23. nóvember á Hótel Selfossi í Árborg. Samkvæmt lögum flokksins skal á haustfundi taka félagsstarf flokksins á komandi starfsári sérstaklega til umræðu.

Drög að dagskrá:

Föstudagur 22. nóvember 2013

17.00  Setning

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,  forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins

17.05  Kosning embættismanna fundarins.

2 fundarstjórar og  2 fundarritarar

17.10  Skýrsla landsstjórnar, Eygló Harðardóttir félags og húsnæðisráðherra og ritari Framsóknarflokksins

17.30  Skýrsla málefnanefndar

17.40  Umræður um skýrslur

18.10  Reglur um framboðsleiðir til sveitarstjórna og sveitarstjórnarkosningarnar almennt

18.30  Skýrsla fræðslu- og kynningarnefndar

18.40  Hópastarf:

  • framboðsreglur

  • sveitarstjórnarmál

20.00  Kvöldverður

 

Laugardagur 23. nóvember 2013

08.30-09.30  Morgunverður

09.30  Hópastarf

11.30  Hópastarfi lokið

11.45  Hádegisverður

13.15  Ræða formanns Framsóknarflokksins. Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar forsætisráðherra

14.00  Almennar umræður

15.30  Kaffihlé

16.00  Niðurstöður hópastarfs

16.30  Kosið í fastanefndir miðstjórnar skv. lögum flokksins

  • Fjóra fulltrúa í fræðslu- og kynningarnefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara

  • Fjóra fulltrúa í málefnanefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara

17.00  Önnur mál og fundarslit
***
Fastanefndir miðstjórnar munu flytja skýrslu um störf sín og jafnframt skulu miðstjórnarmenn kjósa úr sínum hópi til eins árs í senn a) fjóra fulltrúa í fræðslu- og kynningarnefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara og b) fjóra fulltrúa í málefnanefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara.
Miðstjórnarmenn eru hvattir til að gefa kost á sér í þessar nefndir og senda framboð á netfangið framsokn@framsokn.is.
Stefnt er að því að halda skemmtikvöld, föstudagskvöldið 22. nóvember, í samvinnu við framsóknarmenn í Árborg.
Aðalmenn í miðstjórn eru vinsamlegast beðnir um að staðfesta komu eða forföll til skrifstofu Framsóknar í síma 540-4300 eða á netfangið framsokn@framsokn.is. Mikilvægt er að vita um forföll í tíma til að geta boðað varamenn á fundinn.
Nánari tilhögun verður kynnt síðar en miðstjórnarfulltrúar eru beðnir að taka dagana frá og gera ráðstafanir með gistingu sbr. tilkynningu þar að lútandi sem send var með tölvupósti.
 
 

Categories
Fréttir

Stjórnmálaskóli SUF

Deila grein

01/11/2013

Stjórnmálaskóli SUF

suf-logoEins og það getur verið misjafnlega gaman að setjast á skólabekk, þá hefur það aldrei verið eins gaman og að setjast á skólabekk í stjórnmálaskóla SUF.
Kennararnir eru hressir, námsefnið skemmtilegt og félagsskapurinn til mikillar fyrirmyndar.

  • 13:00 – Setning stjórnmálaskólans
  • 13:15 – Saga og hugmyndafræði Framsóknarflokksins
    • Einar Gunnar Einarsson, skrifstofustjóri Framsóknarflokksins
  • 14:30 – Kaffihlé
  • 14:45 – Fjölmiðlar og skrif
    • Karl Garðarsson, þingmaður og fyrrverandi fréttastjóri
  • 15:10 – Kynning á málefnum verkalýðsfélaga
    • Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness
  • 15:45 – Kaffihlé
  • 16:00 – Ræðumennska og framkoma
    • Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra
  • 17:00 – Heimsókn á Alþingi
    • Jóhanna María Sigmundsdóttir, yngsti þingmaður landsins

Og rétt eins og á öllum góðum dögum, verður endað á partý.
Þetta er einfaldlega skemmtun sem enginn ungur Framsóknarmaður (núverandi sem tilvonandi) má láta framhjá sér fara.
Stjórnmálaskólinn verður laugardaginn 2. nóvember frá kl. 13:00-17:00 í Framsóknarhúsinu við Hverfisgötu 33 í Reykjavík.
Skráningar sendis á netfögin brekkubraut5@gmail.com eða bjarkiadal@nordural.is.
Samband ungra framsóknarmanna er 75 ára á þessu ári og er mikilvægt að ungir framsóknarmenn viðhaldi pólitísk styrk sambandsins og fjölmenni í stjórnmálaskólann.

Categories
Fréttir

Sigmundur Davíð kynnir formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni

Deila grein

30/10/2013

Sigmundur Davíð kynnir formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sat í dag þing Norðurlandaráðs og tók þátt í umræðu um ungt fólk og samkeppnishæfni á Norðurlöndunum. Þá kynnti forsætisráðherra formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2014 sem ber yfirskriftina „Gróska og lífskraftur“.
Í ræðu sinni fjallaði Sigmundur Davíð um þau verkefni sem Ísland hyggst setja á oddinn í formennskutíð sinni, líkt og norræna lífhagkerfið, norræna spilunarlistann og norrænu velferðarvaktina, auk þess að leggja aukna rækt við vestnorrænt samstarf. Þá mun á formennskuárinu fara fram endurskoðun á norðurskautsáætlun Norrænu Ráðherranefndarinnar og starfrækt verður sérstakt norrænt landamæraráð sem ætlað er að vinna áfram að afnámi stjórnsýsluhindrana á Norðurlöndunum.

Categories
Fréttir

Samband eldri framsóknarmanna stofnað

Deila grein

29/10/2013

Samband eldri framsóknarmanna stofnað

sef-stjornSamband eldri framsóknarmanna, SEF, var stofnað í dag í Framsóknarhúsinu við Hverfisgötu. Tilgangur SEF verður m.a. að efla og samræma starf félagsmanna sinna, 60 ára og eldri, og vinna að málefnum eldri borgara með virku starfi að stefnumótun og samþykktum á flokksþingum. Jafnframt er því ætlað að vera stofnunum Framsóknarflokksins til ráðgjafar í öllum málum sem varða eldra fólk og hagsmuni þess.
Fyrsti formaður SEF er Hörður Gunnarsson og með honum í aðalstjórn voru kjörin, Hákon Sigurgrímsson, Ragnhildur Jónasdóttir, Einar G. Harðarson og Ólafía Ingólfsdóttir.
Einnig var kosið í trúnaðarráð með fulltrúum úr hverju kjördæmi og er því ætlað að vera stjórn til ráðgjafar og liðssinnis, eftir því sem þurfa þykir, um málefni, er snerta einstök kjördæmi eða landið í heild.
Var það rómur manna að sambandið gæti orðið Framsóknarflokknum til farsældar og eðlilegt að fylgja eftir góðum árangri flokksins í kosningunum í vor því baráttumál hans snertu ekki síst þann hóp borgara, sem studdu Framsóknarflokkinn frekar en áður.
Á myndinni er nýkjörin stjórn SEF ásamt formanni þingflokks Framsóknarmanna, Sigrúnu Magnúsdóttur.

Categories
Fréttir

Sigmundur Davíð á Sprengisandi

Deila grein

28/10/2013

Sigmundur Davíð á Sprengisandi

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson var á Sprengisandi á Bylgjunni í gær, sunnudag. Hann ræddi þar um stjórnmálaviðhorfið, þær aðgerðir sem framundan eru í skuldamálum heimilanna og sagði mjög ofsagt að deilur væru millum stjórnarflokkanna í þeim efnum. Þeir sem helst hefðu áhyggjur af því að ekki yrði staðið við gefin fyrirheit, væru mestu andstæðingar hugmyndanna um aðstoð við skuldsett heimili.
Enginn ágreiningur er um aðgerðir vegna skuldugra heimila innan ríkisstjórnarinnar sagði Sigmundur Davíð, hann sagði jafnframt að sá kostnaður sem talað væri um vegna leiðréttingar til handa heimilum væri undir þeim tölum sem hafa verið í umræðunni og svigrúmið sem myndast samhliða afnámi hafta rúmaði þá upphæð og vel það.
Sigmundur Davíð var spurður út í fjölmargar kjaftasögur sem hafa grasserað um hann í þjóðfélaginu upp á síðkastið. Hann kvaðst orðinn ýmsu vanur í þeim efnum, þetta hafi verið töluvert áberandi fyrst í stað, svo hafi það lagast, en undanfarið hafi rógurinn og kjaftasögurnar aftur komist í hæstu hæðir. „Þetta á ekkert bara við um mig, heldur stjórnmálamenn almennt. Ég get bara talað út frá eigin reynslu og sé að menn nýta sér þetta sem tæki í pólitískri baráttu. Þannig er ekki langt síðan skipulega var hringt inn á fréttastofur til að reyna að koma því á kreik að ég ætti von á barni með einhverri annarri konu en konunni minni.“ Umsjónarmaður Sprengisands greip þá inn í og staðfesti þetta og sagðist meðal annars að hringt hefði verið í sig með slíkar sögur.
Hér er hægt að nálgast upptökur af viðtalinu við Sigmund Davíð:
Sprengisandur: SDG 1. hluti. Sigmundur ætlar að standa við allt
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir ekki vafa um að staðið verði við gefin loforð.
https://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=21945
Sprengisandur: SDG 2. hluti. Sigmundur og kjaftasögurnar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að um sig gangi vondar kjaftasögur og umræðunnar vegna sé erfitt að fá fólk til að taka þátt í stjórnmálum.
https://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=21946
Sprengisandur: SDG 3. hluti. Ráðherrar ráða niðurskurði
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að hagræðingarnefndin skili tillögum til ráðherranefndar sem ákveði síðan hvað verði skorið og hvað ekki.
https://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=21947

Categories
Greinar

Njóta stóru bankarnir þrír ríkisábyrgðar í reynd?

Deila grein

28/10/2013

Njóta stóru bankarnir þrír ríkisábyrgðar í reynd?

Frosti SigurjónssonLandsbankinn, Arionbanki og Íslandsbanki eru taldir of stórir til að falla. Það þýðir að ef einhver þessara þriggja banka yrði gjaldþrota, þá myndi ríkissjóður koma til bjargar og lýsa yfir ríkisábyrgð á innstæðum.

Það má segja að á innstæðum í þessum þrem stærstu bönkum verði ekki komist hjá ríkisábyrgð. Eðlilegt væri því að þessir bankar greiddu ríkisábyrgðargjald í ríkissjóð í samræmi við lög um ríkisábyrgðir. Slíkt gjald myndi skila nokkrum milljörðum í ríkissjóð og jafna aðstöðu á bankamarkaði.

Njóti banki ríkisábyrgðar í reynd, án þess að greiða ríkisábyrgðargjald, þá má jafna ábyrgðinni við ríkisstyrk. Það er vafamál hvort tilefni sé til að ríkið styrki stærstu bankana sérstaklega og spurning hvort smærri bankar, sem ekki njóta sömu fyrirgreiðslu, eigi að sætta sig við slíka mismunun á markaði.

Í hruninu lýsti þáverandi ríkisstjórnin því yfir á ögurstundu að ríkisábyrgð væri á öllum innstæðum í innlendum bönkum. Yfirlýsingin dugði til þess að stöðva peningaflótta úr bönkunum. Hún bindur þó vart ríkissjóð, þar sem hún var aldrei samþykkt sem lög frá Alþingi. Ekki veit ég til þess að bankar hafi greitt ríkisábyrgðargjald vegna yfirlýsingarinnar. Yfirlýsinguna mætti afturkalla til að taka af allan vafa í hugum fólks.

Innstæðutryggingasjóði er ætlað að koma innstæðuhöfum til bjargar ef banki fellur. Sjóðurinn er fjármagnaður með iðgjöldum sem bankar greiða og á honum er ekki bakábyrgð ríkisins. Í hruninu voru um 20 milljarðar í sjóðnum, sem hefði kannski dugað til að bjarga litlum banka eða sparisjóði, en ekki neinum af stóru bönkunum.

Ríkissjóður mun því þurfa að hlaupa undir bagga ef stór banki fellur, jafnvel þótt bankinn hafi greitt samviskusamlega í tryggingasjóð innstæðna.

Ríkisábyrgð á innstæðum í stóru bönkunum virðist því miður óumflýjanleg hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Best væri því að horfast í augu við þá staðreynd, skilgreina ríkisábyrgðina nánar og sjá til þess að stóru bankarnir greiði vegna hennar sanngjarnt gjald í ríkissjóð.

Innstæður í stóru bönkunum 30.6.2013 

Arion banki        467 milljarðar
Íslandsbanki      476 milljarðar
Landsbanki       449 milljarðar
Samtals:       1.392 milljarðar

Ríkið þyrfti ekki að ábyrgjast allar þessar innstæður. Líklega gæti meiri hluti þessara innstæðna beðið á meðan fallinn banki væri settur í gjaldþrotameðferð. Takmarka þyrfti ábyrgðina við þær innstæður sem brýnast væri að tryggja. Til dæmis mætti hugsa sér að hámarkstrygging á hvern einstakling væri 3 milljónir kr. og hjá lögaðilum mætti tryggja innstæður að hámarki 3 milljónir á hvert stöðugildi hjá fyrirtækinu. Þannig gæti stór hluti einstaklinga og fyrirtæki þraukað, kannski í 3-6 mánuði, á meðan greitt væri úr mesta vanda bankans, eða eignir hans seldar upp í forgangskröfur.

Mjög gróft áætlað, mætti líklega takmarka ríkisábyrgð á innstæðum stóru bankanna við 4-500 milljarða í heild. Með því mætti afstýra mesta tjóninu af falli stórs banka. Væri ríkisábyrgðargjaldið 1% af þeirri fjárhæð myndi það skila 4-5 milljörðum árlega í ríkissjóð.

 

Frosti Sigurjónsson

 

 

Categories
Fréttir

Flugvöllurinn áfram í Vatnsmýrinni

Deila grein

25/10/2013

Flugvöllurinn áfram í Vatnsmýrinni

photo-2Forsætisráðherra, innanríkisráðherra, borgarstjóri, formaður borgarráðs og forstjóri Icelandair Group undirrituðu samkomulag um að norður-suðurflugbraut Reykjavíkurflugvallar verður ekki lokað árið 2016, eins og ráðgert hafði verið.
Þetta er þáttur í nýju samkomulagi ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group um framtíð innanlandsflugs. Samkvæmt því fær norður-suður-brautin að halda sér allt til 2022 en jafnframt verður farið í úttekt á framtíðarstaðsetningu innanlandsflugs, með áherslu á að miðstöð þess verði á höfuðborgarsvæðinu. Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, mun nú stýra starfshóp sem mun reyna að finna nýjan stað fyrir flugvöllinn.
Á flokksþingi framsóknarmanna í febrúar var ályktað mjög skýrt um að flugvöllurinn í Reykjavík verði áfram í Vatnsmýrinni sem hornsteinn fyrir samgöngur landsmanna, vegna almennings- og öryggishagsmuna.