Categories
Fréttir

Sameiginlegur laugardagsfundur Reykjavíkur og Suðvesturkjördæmis

Deila grein

15/03/2013

Sameiginlegur laugardagsfundur Reykjavíkur og Suðvesturkjördæmis

Laugardaginn 9. mars kl. 11.00 sameina Reykjavíkur- og Suðvesturkjördæmi laugardagsspjallið og verður fundurinn að Digranesvegi 12 í Kópavogi. Umræðuefni fundarins er húsnæðiskerfið á Íslandi og hvort hægt sé að innleiða kerfi hér á landi að danskri fyrirmynd.
9.3.13

Categories
Fréttir

Framsóknarmenn leggja fram málamiðlunartillögu um auðlindaákvæði í stjórnarskrá

Deila grein

15/03/2013

Framsóknarmenn leggja fram málamiðlunartillögu um auðlindaákvæði í stjórnarskrá

  • Ákvæði um auðlindir í þjóðareign verði bætt við núgildandi stjórnarskrá.
  • Formenn flokka undirriti sameiginlega yfirlýsingu um framhald stjórnarskrármálsins.

 
Þingflokkur framsóknarmanna telur að tími til heildarbreytinga á stjórnarskrá sé fyrir löngu útrunninn á yfirstandandi þingi. Þingflokkurinn leggur því til að lögð verði áhersla á að ná sátt um að mikilvægt ákvæði um auðlindir í þjóðareign verði bætt í núgildandi stjórnarskrá og að flokkarnir einbeiti sér eingöngu að því að klára það ákvæði á næstu dögum.
 
Ákvæði um auðlindir í þjóðareign verði bætt við núgildandi stjórnarskrá.
Þingflokkur framsóknarmanna leggur til að allir flokkar á Alþingi sameinist um að ákvæði um þjóðareign á auðlindum verði bætt við núgildandi stjórnarskrá.
Þar sem tími til afgreiðslu málsins er skammur leggur þingflokkurinn til, að ráði sérfræðinga, að auðlindaákvæðið byggi á niðurstöðu auðlindanefndar sem kosin var af Alþingi og skilaði áliti árið 2000. Lagt er til að við það verði bætt ákvæði um að óheimilt sé að framselja ríkisvald vegna auðlinda til alþjóðlegra stofnana. Með því að nýta ákvæði, sem þegar hefur náðst víðtæk samstaða um, má sætta sjónarmið og greiða fyrir skjótri afgreiðslu málsins.
 
Lagt er til að ákvæðið verði því svo hljóðandi:
Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar. Óheimilt er að framselja ríkisvald vegna slíkra auðlinda til alþjóðlegra stofnana.
       Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.
       Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.
 
Formenn flokka gefi út sameiginlega yfirlýsingu um framhald stjórnarskrármálsins.
Þingflokkur framsóknarmanna leggur til að formenn allra flokka á Alþingi gefi út sameiginlega yfirlýsingu sem kveði á um framhald vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar á næsta kjörtímabili. Af hálfu þingflokks framsóknarmanna er skýr vilji til að halda vinnunni áfram, sbr. ályktun nýliðins 32. flokksþings framsóknarmanna þar sem segir: „Framsóknarflokkurinn mun beita sér fyrir því að ljúka endurskoðun stjórnarskrárinnar á komandi kjörtímabili. Við þá vinnu verði höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum.“
 
Ákvæði um breytingar á stjórnarskrá verði óbreytt frá því sem nú er.
Þingflokkur framsóknarmanna styður ekki tillögur að breytingum á breytingaákvæði núgildandi stjórnarskrár.
Þingflokkurinn hefur lagt áherslu á að sátt ríki um þær breytingar sem gerðar eru á stjórnarskránni. Núgildandi breytingaákvæði hefur á liðnum árum verið mikilvægur liður í að skapa þrýsting á stjórnmálamenn um að ná samstöðu og sátt um breytingar á stjórnarskrá.
Sú vissa að tvö Alþingi þurfi til að samþykkja samhljóða breytingar á stjórnarskrá minnkar líkur á að breytingar á grundvallarlögum ríkisins séu keyrðar í gegn um Alþingi í ágreiningi milli fylkinga, þar sem alþingismenn og þingflokkar þurfa ætíð að taka tillit til mögulega skiptra skoðana á næsta þingi. Við núverandi aðstæður telur þingflokkur framsóknarmanna því eðlilegt að ákvæði um breytingar á stjórnarskrá sé aðeins breytt eftir að sátt hefur náðst um endurskoðun stjórnarskrárinnar að öðru leyti.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson 

formaður Framsóknarflokksins

Gunnar Bragi Sveinsson 

formaður þingflokks framsóknarmanna

Categories
Fréttir

Ólafsstofa við háskólann á Akureyri

Deila grein

15/03/2013

Ólafsstofa við háskólann á Akureyri

olafurjohannessonÞann 1. mars sl. hélt Framsókn málþing um líf og störf Ólafs Jóhannessonar fyrrverandi formann flokksins og forsætisráðherra, í tilefni af aldarafælisdegi hans.
Margt góðra gesta ávarpaði málþingið, bæði samferðamenn Ólafs, svo og fulltrúar frá háskólasamfélaginu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins flutti hátíðarávarp og minntist Ólafs. Páll Pétursson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins, var samþingmaður Ólafs og fór hann yfir samstarf þeirra. Leó E. Löve var heimagangur á heimili Ólafs og frú Dóru. Hann  rifjaði upp æskuminningar og hina hliðina á Ólafi, sem eiginmanns og heimilsfaðirs. Guðmundur G. Þórarinsson, samþingmaður Ólafs fór yfir viðbrögð hans við Vestmannaeyjagosinu og uppbyggingu í kjölfarið í eyjum. Helgi Ágústsson, fyrrverandi sendiherra var ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu þegar Ólafur var utanríkisráðherra og fór hann ítarlega yfir feril Ólafs. Hafsteinn Þór Hauksson, lektor í almennri lögfræði og réttarheimspeki við lagadeild Háskóla Íslands, þar sem Ólafur Jóhannesson var prófessor ávarpaði málþingið og bar fyrirlestur hans heitið „veðrabrigði eða nátttröll“ en það er tilvísun í inngang í bók Ólafs um stjórnskipun Íslands.
Þau ánægjulegu tíðindi áttu sér stað að Ágúst Þór Árnason, deildarformaður lagadeildar Háskólans á Akureyri, tilkynnti formlega á málþinginu að sett hafi verið á fót Ólafsstofa við Háskólann í tilefni af aldar afmælinu. Mun sú stofnun leggja áherslu á stjórnskipunarrétt sem fræðigrein. Með þessari ákvörðun er Háskólinn á Akureyri að marka tímamót og koma fræðigreininni á þann stall sem hún á skilið. Að lokum er Kristrúnu og Dóru Ólafsdætrum  þakkað fyrir að hafa gefið leyfi sitt fyrir málþinginu.

Categories
Fréttir

Þingmenn og frambjóðendur fara í sund

Deila grein

15/03/2013

Þingmenn og frambjóðendur fara í sund

sund

Categories
Greinar

Hvers eiga gamlir að gjalda?

Deila grein

15/03/2013

Hvers eiga gamlir að gjalda?

Skoðanafrelsi: Einn er sá hópur þegna í þjóðfélagi okkar sem með óréttmætum hætti er stundum settur hjá. Ekki er tekið sanngjarnt tillit til skoðana eldri borgara og þeim er ekki gefið tækifæri til að hafa áhrif á samfélagið með sama hætti og öðrum þjóðfélagshópum. Sum fyrirtæki, sem standa fyrir skoðanakönnunum meðal almennings, leggja ekki spurningar fyrir fólk eldra en 67 ára. Það er eins og viðhorf þess skipti engu máli. Með sterkum rökum má segja að tjáningarfrelsi aldraðra sé heft með þessu framferði, en klárlega er þetta virðingarleysi gagnvart galvösku fólki á góðum aldri.

 

Atvinnufrelsi: Annað tilvik af svipuðum toga er það þegar stór hópur aldraðra er sviptur atvinnufrelsi. Þeim sem unnið hafa hjá hinu opinbera og raunar mörgum einkafyrirtækjum er gert að hverfa úr störfum ekki seinna en sjötugir, alveg án tillits til heilsufars, vinnugetu, starfshæfni eða vilja viðkomandi. Sem betur fer býr þjóðin enn við góða heilsugæslu og margir halda góðri vinnufærni langt fram yfir sjötugt. Margt af þessu fólki er ekki ginnkeypt fyrir því að láta af störfum og setjast í sófann og einangrast frá þjóðlífinu. Mikill vinnukraftur fer þannig forgörðum að óþörfu.

 

Efnahagsstaða: Sem betur fer er staða margra aldraðra sæmileg eða góð. Margir hafa eignast íbúðir sínar að fullu en aðrir þurfa að berjast við að halda úti stökkbreyttum húsnæðislánum eins og þeir sem yngri eru. Sennilega hafa aldraðir tapað meiri fjármunum í hruninu en aðrir þjóðfélagshópar. Óreiðumennirnir sem settu þjóðina hérumbil á hausinn komu aðeins í undantekningartilfellum úr hópi eldra fólks. Það eru ekki margir í hópi 67 ára og eldri sem hafa fengið gefnar upp skuldasúpur og sennilega fáir úr þessum hópi sem eru eigendur að fúlgum í skattaskjólum erlendis.

 

Fjárhagslegt frelsi: Eignir aldraðra fyrir hrun voru fyrst og fremst húsnæði og réttindi í lífeyrissjóðum. Sumir áttu einnig innstæður í bönkum og einhver hlutabréf. Húsaverð hefur fallið, innstæður rýrnað vegna verðbólgu og halda hvergi nærri verðgildi sínu, hlutabréf eru í flestum tilfellum orðin verðlaus og lífeyrisgreiðslur stórlega skertar, bæði frá sjóðum og frá tryggingunum. Nú er það í sjálfu sér ástæðulaust að aldraðir skilji eftir sig verulegan arf. Hitt ætti að vera sanngjarnt að sem allra flestir þurfi ekki að líða skort og geti búið við sæmilegt efnahagslegt öryggi á efri árum. Því miður er alls ekki svo hjá öllum. Einnig ber á það að líta að eldra fólk sem hefur orðið fyrir efnahagslegum áföllum, hefur hvorki möguleika né tækifæri til að byggja á ný upp sjóði sér til öryggis á ævikvöldinu. Um 20% þjóðarinnar eru svokallaðir eldri borgarar. Það er sárt að tilheyra hálfgerðum utanveltuhópi í þjóðfélaginu og því verðum við að breyta. Ef við sýnum samstöðu og dug getum við haft veruleg áhrif á okkar sameiginlegu hagsmuni. Málefni aldraðra þurfa aukna athygli og þeir að njóta eðlilegs réttlætis.

Sigrún Magnúsdóttir

Categories
Fréttir

Formaður og varaformaður Neytendasamtakanna mæta á laugardagsspjall FR

Deila grein

27/02/2013

Formaður og varaformaður Neytendasamtakanna mæta á laugardagsspjall FR

3mars2013

Categories
Fréttir

Ályktanir af flokksþingi 2013

Deila grein

27/02/2013

Ályktanir af flokksþingi 2013

framsoknarmappa
Ályktanir af flokksþingi Framsóknar sem haldið var helgina 8. – 10. febrúar 2013 eru komnar inn.
Hér getið þið nálgast ályktanirnar í heild

Categories
Fréttir

Málþing um Ólaf Jóhannesson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins

Deila grein

27/02/2013

Málþing um Ólaf Jóhannesson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins

olafurjohannesson
Í tilefni af 100 ára fæðingardegi Ólafs Jóhannessonar ætlar Framsóknarflokkurinn að standa fyrir málþingi um líf hans og störf í þágu þjóðarinnar.
 

Málþing um Ólaf Jóhannesson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins og forsætisráðherra 

1. mars Suðurlandsbraut 24, 17:00 – 19:00

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins
Hátíðarávarp
Páll Pétursson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins
„Leiðtogi og landsfaðir“
Ágúst Þór Árnason, formaður lagadeildar Háskólans á Akureyri
„Stjórnarskrárhugmyndir Ólafs Jóhannessonar“
Sigrún Magnúsdóttir, frambjóðandi Framsóknarflokksins í Reykjavík og fyrrverandi borgarfulltrúi
„Varamaður Ólafs á þingi“
Hafsteinn Þór Hauksson, lektor  í almennri lögfræði og réttarheimspeki við lagadeild Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands
“Veðrabrigði og nátttröll”
Leó E. Löve, lögfræðingur og samferðamaður
„Kjölfesta, traust og heiðarleiki“
Guðmundur G Þórarinsson, verkfræðingur og fyrrum samþingmaður í Reykjavík
„Vestmannaeyjagosið og uppbygging“
Helgi Ágústsson, fyrrverandi sendiherra og ráðuneytisstjóri
„Í utanríkisráðuneytinu“
Málþingsstjóri verður Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður í Reykjavík
 
Ólafur Jóhannesson var fæddur í Stórholti í Fljótum 1. mars 1913, og lést 20. maí 1984. Hann var kvæntur Dóru Guðrúnu Magdalenu Ástu Guðbjartsdóttur, en hún lést 3. sept. 2004. Eignuðust þau þrjú börn, Kristrúnu (1942), Guðbjart (1947) látinn, og Dóru (1951).
Ólafur lauk stúdentsprófi frá MA 1935. Lögfræðiprófi við HÍ 1939. Hann varð hdl. 1942. Stundaði framhaldsnám í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn 1945—1946. Hann starfaði sem lögfræðingur og endurskoðandi og varð prófessor við laga- og viðskiptadeild, síðar lagadeild Háskóla Íslands 1947—1978. Hann gegndi oft varadómarastarfi í Hæstarétti 1949—1971. Skipaður forsætisráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra 14. júlí 1971. Skipaður dóms- og kirkjumála- og viðskiptaráðherra, 28. ágúst 1974. Skipaður forsætisráðherra, 1. sept. 1978. Skipaður utanríkisráðherra, 8. febr. 1980.
Ólafur var alþingismaður Skagafjarðar 1959, alþingismaður Norðurlands vestra 1959—1979 og alþingismaður Reykjavíkur 1979—1984.
Ólafur kom víða við á ferli sínum og voru honum faldar ábyrgðastöður innan Framsóknarflokksins og utan. Að auki samdi hann kennslubækur og fræðibækur um lögfræði og fjölda greina sama efnis birtra í íslenskum og erlendum tímaritum auk skrifa um þjóðfélagsmál. Ólafsbók, afmælisrit, kom út 1983.
 

Dagskrá á PDF

Categories
Greinar

Verðtryggingin ólögleg?

Deila grein

27/02/2013

Verðtryggingin ólögleg?

“Framsóknarflokkurinn vill að stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram ítarlegar tillögur til lausnar skuldavanda heimila. Afstaða Framsóknarflokksins er eindregið sú að ekkert geti réttlætt að lánþegar verðtryggðra húsnæðislána sitji einir uppi með afleiðingar þess að lánin stökkbreyttust af völdum efnahagshruns.“

Þetta var meðal þess sem var samþykkt á flokksþingi framsóknarmanna sem fram fór helgina 8.–9. febrúar.

Skilaboð fulltrúa á þinginu til þjóðarinnar eru ótvírætt þau að leita eigi áfram leiða til að leiðrétta verðtryggð húsnæðislán sem stökkbreyttust í efnahagshruninu.

Þingmenn Framsóknarflokksins hafa frá árinu 2009 lagt fram tillögur um leiðréttingar á lánum heimila og aðgerðir til afnáms verðtryggingar á neytendalánum. Því miður hafa tillögurnar ekki náð fram að ganga og því búum við enn við óbreytt ástand. Verðtrygging húsnæðislána hefur lengi sætt mikilli gagnrýni. Eðlilega finnst mörgum undarlegt að þegar kaffi hækkar eða ríkisvaldið eykur álögur á bensín hækki húsnæðislánin þeirra. Margoft hefur verið bent á að verðtrygging sé ekki lögmál.

Brot gegn neytendalögum
En hvað gerist ef verðtrygging húsnæðislána verður dæmd ólögleg? Elvíra Mendez Pinedo, dósent í Evrópurétti við Háskóla Íslands, hefur fært fyrir því sannfærandi rök að verðtrygging brjóti gegn neytendalögum með tvennum hætti. Í fyrsta lagi verði lántakandi að geta séð hvernig höfuðstóll lánsins muni þróast út lánstímann og í öðru lagi megi ekki breyta lánsupphæð eftir á. Þá hefur Verkalýðsfélag Akraness höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um það hvort verðtrygging standist lög um verðbréfaviðskipti og tilskipun Evrópuréttar.

Hafi Elvíra rétt fyrir sér og/eða ef Héraðsdómur dæmir Verkalýðsfélaginu í hag mun það að sjálfsögðu undirstrika réttlæti og mikilvægi þess að lán verði leiðrétt.

Hvað sem því líður munu þingmenn Framsóknar halda áfram baráttunni fyrir leiðréttingu og afnámi verðtryggingar á nýjum neytendalánum þar sem fátt er jafn mikilvægt og að gera íslenskum fjölskyldum kleift að komast úr fjötrum skulda eins fljótt og frekast er unnt. Það að gera ekki neitt fyrir skuldsettar fjölskyldur getur varla verið valkostur því heimilin eru undirstaða alls efnahagslífsins.

Gunnar Bragi Sveinsson

Categories
Greinar

Okkur ber að verja börn og unglinga gegn klámi

Deila grein

27/02/2013

Okkur ber að verja börn og unglinga gegn klámi

Strax og farið er að ræða um klám og klámvæðingu kemur upp spurningin hvað flokkist sem klám. Það má réttilega segja að í skilgreiningunni felist huglægt mat – gildismat, breytilegt frá kynslóð til kynslóðar og á milli menningarheima. Að mínu mati er klám orð eða efni sem sýnir kynlíf samofið misnotkun, valdbeitingu og niðurlægingu og líkist ekki samskiptum kynjanna sem tengjast virðingu, samþykki, ábyrgð og jákvæðri upplifun.

Ábyrgð allra
Í íslenskum lögum er klám refsivert, sbr. 210. grein í almennum hegningarlögum. Það er á ábyrgð opinberra aðila að setja mörk hvað varðar leyfi til birtingar eða sýningar. Eftirlitsaðilar eiga síðan að fylgja eftir lögum og reglum, foreldrar að ala upp börn og unglinga með dómgreind sem byggir á gildismati sem tekur afstöðu gegn ofbeldi, kúgun og misbeitingu valds. Síðan kemur til kasta skóla að skapa skólabrag og vinna með nemendum í anda námsskrár. Jafnrétti er ein af grunnstoðum í starfi leik-, grunn- og framhaldsskóla og gefur það vonir um að skólakerfið komi til með að leggja enn meiri áherslu á jafnréttisfræðslu, kynfræðslu og þar með fræðslu og umræðu um klám. Vinna í góðu samstarfi við foreldra og þá aðila sem bjóða skólum upp á vandaða fræðslu. Ekki má gleyma ábyrgð fjölmiðla og allra þeirra sem með einum eða öðrum hætti koma að því að móta lífsstíl og gildismat barnanna okkar.

Áherslur Framsóknar og Barnasáttmálinn
Framsóknarmenn styðja endurskoðun barnalaga og þá sérstaklega með tilliti til Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Í honum er lögð áhersla á velferð barna, en einstaklingur telst barn til 18 ára aldurs. Allar ákvarðanir yfirvalda eiga að tryggja börnum þá vernd sem velferð þeirra krefst. Vernd gegn óæskilegu efni, kynferðislegu ofbeldi og þátttöku í klámiðnaði. Ég hef unnið með unglingum í yfir 30 ár og allan þann tíma fléttað kynfræðslu inn í starf mitt. Einn þáttur fræðslunnar hefur alltaf verið umfjöllun um klám. Unglingar hafa á reiðum höndum skilgreiningu á klámi, eiga auðvelt með að koma með dæmi, sjá hvað klám sýnir óraunverulega mynd af jákvæðu kynlífi en neita því ekki að hafa horft á klám – sérstaklega strákar. Að þeirra sögn er klám alls staðar og auðvelt að nálgast það. Ég sé mikinn mun á túlkun og umfjöllun unglinga í dag og unglinga fyrir áratugum. Fyrir 30 árum byggði skilgreining þeirra og dæmi á allt öðrum veruleika en í dag. Nú eru dæmin allt önnur, mun grófara ofbeldi, nákvæmari og nærgöngulli lýsingar af athöfnum. Tilkoma tölvuleikja sem flokkast ekki undir neitt annað en klám og ofbeldi og netið með allt sitt aðgengi og magn af efni hefur bæst við flóruna. Ég er viss um að foreldrar og þeir sem vinna með börnum og unglingum hafa áhyggjur af þessari þróun. Ég fagna nýju átaki þriggja ráðuneyta sem í samstarfi við skóla vilja vekja unglinga til umhugsunar um klám og kynferðislegt ofbeldi. Það má fagna myndinni Fáðu já en hún tekur á samskiptum kynjanna sem tengjast virðingu, samþykki, ábyrgð og jákvæðri upplifun af kynlífi.

Klámvæðingin
Kynferðislegar og klámfengnar tilvísanir er mjög víða að finna í lífi unglinga og línan á milli kynlífs, kláms og ofbeldis er alltaf að verða óljósari. Nýleg rannsókn sýnir að strákar neyta kláms í stórum stíl og himinn og haf er á milli notkunar stráka og stelpna. Mismunandi hlutverk og staða kynjanna kemur berlega í ljós í heimi klámvæðingar. Ef þeir sem ekki vilja sjá að í heimi kláms eru konur þolendur og hafa ekki völdin ættu í huganum að skipta um kyn á persónum og leikendum og sjá hvort skoðun þeirra breyttist ekki. Rannsóknir hafa sýnt að stöðvar í heilanum sem lesa og túlka tilfinningar mynda þol og við getum horft á grófara ofbeldi og klám án þess að bregðast við – þolmörkin færast til.

En hvað á að gera?

Ég hef fyrst og fremst áhyggjur af börnum, unglingum og ungu fólki sem er að móta gildismat sitt og lífsstíl. Það má kalla þetta viðhorf mitt forræðishyggju og telja það neikvætt en ég læt mér það í léttu rúmi liggja. Ef það er gerlegt að stemma stigu við því flóði af klámefni sem stendur börnum okkar og unglingum til boða þá er ég því fylgjandi. Alveg á sama hátt og okkur sem samfélagi á að finnast það eðlilegt að hefta aðgengi að ákveðnum kvikmyndum og tölvuleikjum. Ég er ekki sérfræðingur í netheimum og get því ekki skorið úr um hvort til séu aðgengilegar leiðir. Vegir netsins eru það óútreiknanlegir að ég óttast að erfitt reynist að festa hönd á óæskilegu efni án þess að reglur og eftirlit verði allt of íþyngjandi fyrir almenna notendur netsins. Það þarf að fara fram almenn umræða um forvarnir, skilgreina betur hvað fellur undir klám og refsirammann. En fyrst og síðast er það gildismatið í þjóðfélaginu sem þarf að taka afstöðu gegn klámi. Allir þurfa að gefa skýr skilaboð á heimavelli, vinnustöðum og opinberlega. Skýr afstaða er það aðhald sem ég held að virki vel. Það er skylda okkar að standa vörð um velferð barnanna okkar.

Fanný Gunnarsdóttir