Categories
Fréttir

Óvissu vegna íbúðarhúsnæðis eytt

Deila grein

22/01/2024

Óvissu vegna íbúðarhúsnæðis eytt

Ríkisstjórnin hefur í dag kynnt áform um aðgerðir sem miða að því að skapa forsendur fyrir öruggari framtíð fyrir Grindvíkinga og eyða þeirri óvissu sem hefur verið vegna fordæmalausra aðstæðna. Aðgerðirnar snúa að því að gera Grindvíkingum kleift að koma sér upp öruggu heimili, tryggja örugga afkomu og aðstoð við að bjarga verðmætum.

Brúa bil fyrir íbúa án þess að slá samfélagið af

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði að hingað til hefðu stjórnvöld verið í skammtímaúrræðum meðan vonir stóðu til að um skammtímavanda væri að ræða. Þær leiðir sem var farið í fyrr í vetur verða framlengdar. Einnig verður unnið að því að fjölga þeim íbúðum og húsum sem standa Grindvíkingum til boða.

Hann sagði að með því að ríkið eyddi óvissu Grindvíkinga gæfist þeim færi á að kaupa sér eigin húsnæði ef þeir vildu. Enn sé stór áskor­un fram und­an hvað varði greiðslu­skjól og húsa­skjól. 

„Ann­ars veg­ar eru við þess vegna að bæta í þær íbúðir sem leigu­fé­lagið Bríet er að kaupa og stækka þann hluta. Við erum að skoða aðrar leiðir sem geta komið til álita til meðallangs tíma eins og koma upp bráðabirgðahús­næði fyr­ir ein­stak­linga þar sem væri hægt að koma fyr­ir þó nokkuð mörg­um hús­ein­ing­um. Það er líka áfram til skoðunar að flytja hér inn hús­ein­ing­ar til að auka hér fram­boð á markaði.“

Sig­urður Ingi seg­ir að um leið og það sé hægt að eyða óviss­unni hjá íbú­um þá geti það fólk farið út á markaðinn og keypt sér hús með því eigið fé það sem það á. „Með þess­um hætti erum við að brúa bil fyr­ir fólkið án þess að slá af heilt sam­fé­lag. Og sam­fé­lagið sjálft þarf svo­lítið að taka þessa umræðu.“

Hann seg­ir að bæj­ar­full­trú­ar Grinda­vík­ur hafi verið já­kvæðir gagn­vart þess­ari nálg­un. 

„Við segj­um líka að það geti vel komið til álita, ef ham­far­arn­ar halda áfram eða stækka, þá hrein­lega þurfi hrein­lega að taka hina ákvörðun­ina seinna.“

Frá því að atburðarásin sem enn er í gangi í Grindavík hófst þann 10. nóvember sl. hefur ríkisstjórnin fylgst grannt með stöðu mála. Í ljósi umfangs verkefnisins og áhrifa þess á hagkerfið, hefur ríkisstjórnin fundað með fjölmörgum aðilum í aðdraganda ákvörðunar sinnar. Auk þess að funda með íbúum bæjarins og bæjarstjórn hefur ríkisstjórnin fundað með Veðurstofu Íslands, Náttúruhamfaratryggingu Íslands, Seðlabanka Íslands, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun auk fjölda jarðvísindafólks og sérfræðinga innan og utan Stjórnarráðsins. Fyrr í dag funduðu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra með bæjarstjórn Grindavíkur um þá ákvörðun sem nú er greint frá. Þá funduðu þau einnig með forystufólki allra flokka á Alþingi.

Liðin er rétt rúm vika frá því við sáum hraun flæða inn í byggðina í Grindavík. Það var hrikalegt að sjá. Sú leið sem…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Mánudagur, 22. janúar 2024

Markmið aðgerðanna eru eftirfarandi:

Örugg heimili

Ríkið mun skapa forsendur fyrir Grindvíkinga til að koma sér upp öruggu heimili á eigin forsendum. Ríkið mun gefa Grindvíkingum kost á að leysa út þá fjármuni sem bundnir eru í íbúðarhúsnæði þeirra auk þess að grípa til aðgerða til að tryggja framboð á íbúðarhúsnæði fyrir Grindvíkinga.

  • Óvissu vegna íbúðarhúsnæðis eytt: Í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi er í Grindavík og þeirrar óvissu sem ríkir um búsetu í bænum á næstunni hefur ríkisstjórnin ákveðið að bjóða upp á að einstaklingar geti nýtt fjármuni sem nú eru bundnir í húsnæði þar til fjármögnunar nýrra heimila, óski þeir eftir því.
  • Framboð á húsnæði: Unnið verður markvisst að því að tryggja framboð á varanlegu húsnæði fyrir Grindvíkinga. Í því felst meðal annars að ríkið mun ráðast í uppbyggingu á húsnæði á tilteknum svæðum auk þess að skapa forsendur sem tryggja Grindvíkingum forgang að húsnæði. Einnig er unnið að því að þrengja skilyrði varðandi skammtímaútleigu íbúða.
  • Skammtíma húsnæði: Áfram verður unnið að því að tryggja Grindvíkingum húsnæði þar til þeir geta komið sér fyrir í varanlegu húsnæði. Bríet mun kaupa 50 íbúðir til viðbótar við þær 80 sem keyptar voru í desember og þær 70 sem unnið er að kaupum að þessa dagana. Jafnframt vinnur Bjarg íbúðafélag að því að kaupa 60 íbúðir fyrir Grindvíkinga í samræmi við samstarfsyfirlýsingu frá 24. nóvember. Í heild hefur ríkið þannig keypt 260 íbúðir frá upphafi tímabilsins.
  • Húsnæðislán hjá lífeyrissjóðum: Ríkið mun taka á sig greiðslu vaxta og verðbóta af húsnæðislánum í Grindavík hjá þeim sem kjósa að selja ekki húsnæði sitt til samræmis við aðgerðir bankanna.
Örugg afkoma

Ríkið mun halda áfram að tryggja Grindvíkingum örugga afkomu með húsnæðisstuðningi.

  • Framfærsla: Afkoma þeirra sem ekki geta sótt atvinnu í Grindavík vegna aðstæðna verður áfram tryggð með framlengingu á stuðningi við greiðslu launa frá ríkinu auk framlags í lífeyrissjóð. Þetta fyrirkomulag verður í gildi til loka júní og verður endurskoðað og framlengt eftir því sem þörf krefur.
  • Húsnæðisstuðningur: Sértækur húsnæðisstuðningur við Grindvíkinga verður uppfærður og framlengdur til loka júní. Stuðningurinn mun nú miða við fjölda heimilisfólks og verður allt að 90% af kostnaði við leigu í stað 75% áður til að ná betur utan um allan kostnað sem fellur til vegna leigu á húsnæði.
Örugg verðmæti

Frá því í nóvember hafa viðbragðsaðilar nýtt öll tiltæk ráð við að bjarga eins miklum verðmætum og hægt er frá skemmdum. Unnið verður áfram að því að Grindvíkingar geti fengið aðgengi og aðstoð við að bjarga verðmætum og innbúi frá heimilum sínum og koma í örugga geymslu.

  • Aðgengi: Áfram verður unnið með almannavörnum, bæjaryfirvöldum og viðbragðsaðilum að gera Grindvíkingum kleift að nálgast heimili sín til þess að sækja innbú og verðmæti þegar aðstæður leyfa.
  • Flutningar: Stjórnvöld eru að undirbúa samstarf við fyrirtæki sem sérhæfa sig í flutningum sem geta veitt aðstoð til þeirra Grindvíkinga sem ekki hafa tök á að annast slíkt sjálf við sækja verðmæti.
  • Geymslur: Unnið er að því að veita Grindvíkingum aðstoð við að fá aðgang að öruggu geymsluhúsnæði þar sem hægt er að geyma verðmæti og innbú á meðan þörf krefur.
Framkvæmd aðgerða

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar miðast við að útfærsla aðgerða og nauðsynleg lagafrumvörp muni liggja fyrir eigi síðar en snemma í febrúar að afloknu samráði við Grindvíkinga og aðra hagaðila. Áfram verður unnið náið með bæjarstjórn Grindavíkur að öllum þessum viðfangsefnum og einnig stutt við starfsemi sveitarfélagsins við þessar erfiðu aðstæður. Undirbúningur, greiningarvinna og samtöl við hagaðila er þegar hafin.

Sett verður á laggirnar samráðsnefnd með fulltrúum allra flokka á Alþingi undir forystu fjármála- og efnahagsráðherra þar sem farið verður yfir ólíkar leiðir og útfærslur til að ná þessum markmiðum.

Categories
Greinar

Gjörbreytt staða í húsnæðismálum á Suðurnesjum sem kallar á nýja nálgun

Deila grein

22/01/2024

Gjörbreytt staða í húsnæðismálum á Suðurnesjum sem kallar á nýja nálgun

Það er erfitt fyrir alla Íslendinga að verða vitni að þeim miklu náttúruhamförum sem orðið hafa í og við Grindavík. Öflugt og samheldið samfélag í fyrirmyndar sveitarfélagi hefur orðið fyrir miklum áföllum sem setur íbúa Grindavíkur í erfiða stöðu. Íslendingar eru þekktir fyrir öfluga samstöðu þegar áföll hafa dunið yfir og nú mun reyna á samstöðuna og viðbrögðin sem aldrei fyrr. Samstaða og kærleikur er eitt af einkennum þessarar þjóðar, Við sem byggjum þetta land saman höfum hlotið þá gæfu að til heyra þessu samfélagi. Ég vill byrja á að þakka almannavörnum og öllum þeim viðbragðsaðilum fyrir þeirra ómetanlega framlag við krefjandi aðstæður og er þeim óskað velfarnaðar í þeirra störfum í þágu samfélagsins.



Staðan er hins vegar sú að þrýstingur hefur verið aukin til muna á fasteignamarkaðinn við þessar krefjandi aðstæður og var hann töluverður fyrir atburðina í Grindavík. Náttúruhamfarirnar hafa gefið okkur aukin verkefni á þessu sviði sem kallar á nýja sýn að mínu mati.



Suðurnesjabær, Reykjanesbær og Vogar er nú þegar í gríðarlegum kostnaðarsömum framkvæmdum á sviði gatnagerðar í hverfum og uppbyggingu innviða, t.d. í nýbyggingum leikskóla og grunnskóla til þess að bregðast við auknum íbúafjölda á Suðurnesjum. Íbúar Suðurnesja voru 32.583 talsins þann 1. Október 2023 Þeim hefur fjölgað um 1.621 frá 1. desember 2022. Í Reykjanesbæ hefur fjölgað um 1.278 íbúa á sama tímabili sem gerir 5,8% fjölgun íbúa. Hlutfallslega er þó mest fjölgun í Sveitarfélaginu Vogum eða 10,7%. Þetta kemur fram í gögnum frá Þjóðskrá.

Hlutfallslega hefur mest íbúafjölgun verið á Suðurnesjum eða um 5,2% sem er fjölgun um 1.621 íbúa. Samtals fjölgar íbúum á landinu öllu um 9.676 frá 1. desember 2022 til. 1. október 2023 sem er um 2,5%.

Í Reykjanesbæ búa 23.276 manns. Íbúar Suðurnesjabæjar eru orðnir 4.046 talsins. Fjölgunin þar er 137 talsins eða 3,5% á tímabilinu. Grindvíkingar eru 3.718. Grindavíkurbær er byggður á lifandi eldstöð og er mikil óvissa uppi hvenær þeim atburðum linnir Það er samfélagsleg skylda stjórnvalda og nágranna sveitarfélaga að grípa samfélagið í Grindavík. Sú staðreynd blasir við að stór hluti af fólki frá Grindavík mun vilja búa áfram á Suðurnesjum.


Ég tel að nú sem aldrei fyrr verði menn að setjast niður og móta markvissar aðgerðir til þess að komast á móts við íbúa og atvinnurekendur á svæðinu. Aukin gatnagerð er kostnaðarsöm, Sveitarfélögin hafa öll gert sínar fjárhagsáætlanir sem bera þess merki að sótt sé fram á öllum sviðum í innviða uppbyggingu en þörfin er meiri nú og hvernig ætlum við að bregðast við þeirri stöðu sem nú er kominn upp?



Hægt er að setja aukinn þunga og flýta en frekar fyrir uppbyggingu á gatnagerð, lóðaúthlutunum og innviðaruppbyggingu með því að Alþingi setji á dagskrá og ræði það efnislega að færa nágrannasveitarfélögum Grindavíkur aukna fjármuni tímabundið í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að bregðast við stöðunni á Suðurnesjum það gerir það að verkum að sveitarfélögin geta farið mun hraðar í skipulagða uppbyggingu á svæðinu en það sem er í gangi nú þegar. Einnig þurfum við að standa vörð um heilbrigðisþjónustu og tryggja viðunandi aðstöðu fyrir aldraða í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum en eins og sakir standa er staðan ekki þannig í dag.


Við munum komast í gegnum þessa erfiðu tíma saman með von um bjarta framtíð á Suðurnesjum.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist á vf.is 22.janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Tals­maður nýrra skatta, eða sann­girni?

Deila grein

20/01/2024

Tals­maður nýrra skatta, eða sann­girni?

Undanfarið hefur mér verið tíðrætt um svokallaðan hvalrekaskatt. Að setja á tímabundinn skatt, við þær óvenjulegar aðstæður sem nú eru uppi, á hagnað fjármálafyrirtækja sem sömuleiðis er tilkominn vegna óvenjulegra aðstæðna. Fyrir þetta hef ég fengið hvatningu, en líka gagnrýni þar sem ég er hluti af stjórnarmeirihluta og stjórnarþingmaður og þannig hafi ég þetta á mínu valdi. Ég hef líka verið kallaður popúlisti. Ég skil þetta allt saman, þrátt fyrir að vera einlægt ósammála því síðasta.

Ég ætla mér ekki að fara í vörn enda stend ég staðfastur með því sem ég segi. Hins vegar held ég að flestir þeir sem til mín þekkja viti vel að ég er ekki talsmaður óþarflega hárra skatta eða óþarfa skatta almennt. Aðrir hafa séð um það. Þetta geta allir séð sem skoða fyrri verk mín og okkar. Ég get sérstaklega bent á tíma minn sem formaður bæjarráðs í Hafnarfirði á síðasta kjörtímabili þar sem við vorum í góðu meirihlutasamstarfi. Það tímabil lækkuðum við til að mynda skatta á fyrirtæki umtalsvert og héldum sköttum á fólki hóflegum. Það sést vel þegar litið er til þess að lítil sem engin eftirspurn hafði verið eftir atvinnulóðum í bænum, en eftir 17 punkta lækkun á fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði, þar sem við fórum úr 1,57 í 1,40, sóttu í Hafnarfjörð öflug fyrirtæki með tilheyrandi auknum umsvifum í bæjarfélaginu. Ég hef gagnrýnt sveitarfélög fyrir of miklar gjaldskrárhækkanir um áramótin við núverandi aðstæður. Hafa þau efni á því að „afsala“ sér þeim tekjum? Nei, í rauninni ekki þar sem hér hafa verið gerðar auknar kröfur um þjónustu án þess að tekjustofnar sveitarfélaga hafi breikkað. Hafa þau efni á því að vera með háa vexti á sínum lánum? Nei, það hafa þau svo sannarlega ekki, þar sem sveitarfélög eru mörg hver þegar of skuldug og hver prósenta í hærri vöxtum hefur þar umtalsverð neikvæð áhrif á rekstur sveitarfélaga.

Það sem ég er hér að segja er þetta; það er verkefni allra að ná niður verðbólgu og vöxtum og styðja viðkvæma hópa. Geta bankar létt undir með fólki, já. Geta sveitarfélög og ríki lagt hönd á plóg, já. Geta önnur fyrirtæki tekið þátt með því að sleppa því að setja allar hækkanir beint út í verðlag – svarið hér er líka já og þar skiptir engu hvort um sé að ræða fyrirtæki á almennum eða opinberum markaði. Þetta gerum við einungis öll saman ef vel á að takast til og ná markmiðinu.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

1,7 milljarða tekjur ferðaþjónustunnar á dag

Deila grein

18/01/2024

1,7 milljarða tekjur ferðaþjónustunnar á dag

Ferðaþjón­ustu­vik­an stend­ur yfir þessa dag­ana en mark­mið henn­ar er að auka vit­und um mik­il­vægi ferðaþjón­ustu og efla sam­starf og fag­mennsku í grein­inni með fróðlegri og skemmti­legri dag­skrá. Íslenskri ferðaþjón­ustu hef­ur vaxið fisk­ur um hrygg frá upp­hafi síðasta ára­tug­ar. Þannig hef­ur fjöldi er­lendra ferðamanna vaxið úr tæp­um 460 þúsund árið 2010 í rúm­ar 2,2 millj­ón­ir á síðasta ári. Ferðaþjón­ust­an hef­ur verið að ná aft­ur styrk sín­um, eft­ir áföll síðustu ára. Síðasta ár var næst­stærsta árið í ferðaþjón­ustu hér á landi, en stærsta árið var 2018 þegar rúm­ar 2,3 millj­ón­ir heim­sóttu landið. Sam­hliða hef­ur ferðaþjón­ust­an orðið að þeim burðarási í ís­lensku efna­hags­lífi sem skap­ar mest­ar gjald­eyris­tekj­ur. Þannig skapaði grein­in 448 millj­arða í gjald­eyris­tekj­ur árið 2022 en heild­ar­neysla inn­lendra og er­lendra ferðamanna hér á landi sama ár nam 635 millj­örðum kr., sem ger­ir um 1,7 millj­arða í tekj­ur á dag, en hlut­ur beggja hópa hef­ur vaxið mikið.

Sá mikli gjald­eyr­is­straum­ur sem ferðaþjón­ust­an skap­ar skipt­ir lítið, opið hag­kerfi eins og okk­ar gríðarlegu máli. Hann styður við gengi krón­unn­ar og stuðlar þannig að lægri verðbólgu en ella ásamt því að þjóna sem ör­ygg­is­sjóður ef stór og óvænt áföll eiga sér stað sem haft geta nei­kvæð áhrif á gjald­eyrisöfl­un. Um­turn­un varð á viðskipta­jöfnuði þjóðarbús­ins með til­komu og vexti ferðaþjón­ust­unn­ar, sem skap­ar stöðugan straum gjald­eyristekna, vel á ann­an millj­arð króna á degi hverj­um. Það má meðal ann­ars greina í stöðu gjald­eyr­is­varðaforða Seðlabank­ans og vax­andi eign­um líf­eyr­is­sjóða á er­lendri grundu.

Ferðaþjón­ust­an hef­ur að sama skapi bætt bú­setu­skil­yrði í land­inu öllu, en um er að ræða stærstu sjálfsprottnu byggðaaðgerð Íslands­sög­unn­ar. Hærra at­vinnu­stig hring­inn um landið sem og stór­aukið fram­boð af þjón­ustu í afþrey­ingu, gist­ingu, mat og drykk eða aðgengi að nátt­úruperl­um er eitt­hvað sem íbú­ar lands­ins jafnt sem er­lend­ir gest­ir njóta góðs af. Vissu­lega hafa fylgt vaxt­ar­verk­ir þeim öra vexti sem var á fyrri árum í komu er­lendra ferðamanna til lands­ins. Hins veg­ar hef­ur mjög margt áunn­ist á síðustu árum í að byggja upp nauðsyn­lega innviði til að taka á móti þess­um aukna fjölda.

Fjöl­mörg sókn­ar­tæki­færi eru til staðar til þess að gera enn bet­ur í þess­um efn­um til að stuðla að sjálf­bær­um vexti. Í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu er unnið af full­um krafti að gerð nýrr­ar ferðaþjón­ustu­stefnu til árs­ins 2030 ásamt aðgerðaáætl­un. Meg­in­stefið í henni er að ís­lensk ferðaþjón­usta verði leiðandi í sjálf­bærri þróun á grunni efna­hags­legs og sam­fé­lags­legs jafn­væg­is. Í því felst að ferðaþjón­ust­an sé arðsöm og sam­keppn­is­hæf í sátt við land og þjóð. Við vilj­um styrkja um­gjörð ferðaþjón­ust­unn­ar og skapa henni betri skil­yrði til að vaxa og dafna í takt við fyrr­nefnda framtíðar­sýn. Ferðaþjón­ustu­vik­an er ein­mitt góður vitn­is­b­urður um þann ár­ang­ur, kraft og viðnámsþrótt sem ein­kenn­ir ís­lenska ferðaþjón­ustu. Ég óska grein­inni til ham­ingju með vik­una og hlakka til að kynna mér alla þá fjöl­breytni sem ferðaþjón­ust­an hef­ur að geyma á Manna­móti ferðaþjón­ust­unn­ar sem fram fer í Kórn­um í Kópa­vogi í dag.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. janúar 2024.

Categories
Fréttir

Einar Þorsteinsson nýr borgarstjóri Reykjavíkur

Deila grein

16/01/2024

Einar Þorsteinsson nýr borgarstjóri Reykjavíkur

16. janúar 2024 markar stór tímamót í sögu Framsóknar í Reykjavík. Í dag fóru fram stólaskipti í Ráðhúsinu þegar Einar Þorsteinsson tók við embætti borgarstjóra fyrstur Framsóknarmanna. Til gamans má geta að fyrir 100 árum var Framsóknarfélag Reykjavíkur stofnað, það er því vel við hæfi að Framsóknarfélag Reykjavíkur fagni stórafmælinu með þessum hætti.

Einar leiddi lista Framsóknar í Reykjavík í borgarstjórnarkosningunum 14. maí 2022. Þar vann Framsókn stóran kosningasigur með tæp 19% atkvæða og fóru úr engum í fjóra borgarfulltrúa. Framsókn myndaði meirihluta með Samfylkingu, Pírötum og Viðreisn eftir kosningarnar. Þá var einnig gert samkomulag að þáverandi borgarstjóri Dagur B. Eggertsson og Einar Þorsteinsson myndu skipta milli sín embætti borgarstjóra á kjörtímabilinu.

Björg Magnúsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður borgarstjóra. Hún starfaði áður hjá Ríkisútvarpinu og gerði garðinn frægan í þáttunum Kappsmál. Björg brennur fyrir fjölskyldumálum og borgarmálum. Hana langar að leggja sitt af mörkum til að styðja við blómlegt stjórnmálastarf Framsóknar í Reykjavík.

Þá hefur Unnur Þöll Benediktsdóttir verið ráðin framkvæmdastjóri borgarstjórnarhóps Framsóknar. Unnur Þöll var kosningastjóri í borgarstjórnarkosningum 2022 auk þess er hún varaborgarfulltrúi og fyrrum formaður Sambands ungra Framsóknarmanna. Hún starfaði einnig sem starfsmaður þingflokks Framsóknar um tíma. Unnur Þöll hefur lengi verið virk í starfi flokksins og því reynslumikil tenging inn í grasrótina.

Framsókn óskar Einari velgengni í nýju embætti og hvetur hans lið í Reykjavíkurborg til áframhaldandi góðra verka.

Hér að neðan má finna ræðu Einars sem hann flutti við borgarstjóraskiptin:

Forseti, ágæta borgarstjórn.

Ég vil byrja ræðu mína á því að þakka fráfarandi borgarstjóra fyrir vel unnin störf í þágu borgarbúa. Fáir hafa sýnt Reykjavík jafn mikla ræktarsemi og Dagur B Eggertsson sem setið hefur í borgarstjórn frá árinu 2002 og sem borgarstjóri í rúman áratug.

Ég vil þakka borgarstjórn fyrir traustið sem mér hefur verið sýnt með þessari atkvæðagreiðslu í dag. Ég finn sannarlega til þeirrar miklu ábyrgðar sem mér er falin með þessu starfi og ég hlakka til þess að þjóna borgarbúum úr stóli borgarstjóra Reykjavíkur.

Þegar ég tók þá ákvörðun í febrúar 2022 að bjóða mig fram til borgarstjórnar þá gerði ég mér kannski ekki alveg grein fyrir því út í hvað ég var að fara. Að stíga inn á vettvang stjórnmálanna er enda alltaf óvissuferð – en hún getur leitt mann á fallegar slóðir. Að fara í kosningabaráttu, ræða við íbúana, finna hvernig hjörtun slá og heyra hvað brennur á fólki er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert og ég er þakklátur fyrir þann stuðning sem kjósendur sýndu Framsókn í síðustu kosningum. Sá stuðningur við Framsókn birtist hér í dag.

Nú eru 18 mánuðir liðnir frá því að við hófum þetta kjörtímabil. Og ég ætla ekki að halda því fram að það hafi allt verið dans á rósum. Áskoranirnar eru margar og þannig verður það áfram. Við höfum verið í stanslausri hagræðingu frá því að þessi meirihluti tók við og við verðum í henni áfram enda er markmiðið að skila afgangi á næsta ári – en það gerist ekki nema við höldum áfram þétt um budduna.

En hagræðing er ekki bara hagræðingarinnar vegna. Við erum hér öll inni með það sameiginlega markmið að vilja bæta þjónustuna við íbúa. En við munum ekki ná almennilegum árangri í því að bæta þjónustuna nema að reksturinn sé sjálfbær.

Forseti – Ég vil nefna aðeins samstarfið hér í borginni. Ég held að á þessu kjörtímabili hafi verið meiri sátt og meiri samvinna þvert á flokka í ráðum og nefndum borgarinnar en á síðasta kjörtímabili og ég tel að borgarbúum þætti ánægjulegt að sjá þá breytingu endurspeglast með enn sterkari hætti hér í borgarstjórnarsalnum. 

Hér eru reynslumiklir borgarfulltrúar í bland við nýtt fólk, öll með ólíkan bakgrunn, þekkingu og reynslu og í þessum hópi býr mikill mannauður – og öll höfum við umboð frá kjósendum.  Ég held að borgarbúar vilji að við vinnum saman og ég mun sem borgarstjóri leitast við að ná sátt um mál.  

Ég ætla ekki að fara að rekja öll þau áherslumál sem ég vil setja á oddinn á þessum tveimur og hálfu ári sem eftir eru af þessu kjörtímabili enda er þessi fundur ekki til þess ætlaður. En mig langar að nefna nokkur mál sem ég held að við getum öll, þvert á flokka, unnið saman að.

Við getum hjálpast að við að greiða fyrir húsnæðisuppbyggingu – sem er eitt mikilvægasta hagsmunamál Reykvíkinga og reyndar þjóðarinnar allrar í dag. Þar þurfum við að stíga með ákveðnari hætti inn í málaflokkinn, leita nýrra leiða til þess að rjúfa kyrrstöðuna sem ríkt hefur undanfarin misseri aðallega vegna vaxtastigs og mikillar verðbólgu.

En svo vil ég minnast á börnin og framtíð þeirra. Leik- og grunnskólastarf borgarinnar er eitt okkar allra mikilvægasta verkefni. Við þurfum að styðja við skólastarfið með ákvörðunum okkar, en ég held að það skipti líka miklu máli að tala fallega um það metnaðarfulla starf sem er unnið á hverjum einasta degi.

Við getum verið sanngjörn við börnin og foreldrana í borginni þegar við ræðum um PISA, og við þurfum að sýna kennurum og skólafólki virðingu og þakklæti fyrir þeirra krefjandi starf – því ég held að kennarastarfið hafi aldrei verið meira krefjandi en nú um stundir þegar bakgrunnur nemenda verður sífellt fjölbreyttari.

Munum líka að Reykjavík er dásamleg borg. Hún er höfuðborg Íslands og við getum verið stolt af öllu því góða sem við eigum saman, Reykvíkingar. Okkar dásamlega menningar og íþróttastarfsemi, grænu svæðin, samfélag eldri borgara, lifandi næturlíf, öflug fyrirtæki, háskólasamfélag og blómlegt mannlíf í öllum hverfum.

Og vinnustaðurinn Reykjavík er afar mikilvægur – og þegar við ræðum um starfsmannafjölda og vinnandi hendur í samhengi við rekstur borgainnar, þá er rétt að hafa vakandi auga fyrir aðhaldi – en höfum þá í huga að langflestar eru þessar vinnandi hendur að veita þjónustu. Þær eru að leiða lítil börn á leikskólum, skrifa með tússpenna á töflu í kennslustofu, aðstoða fatlaðan einstakling við daglegt líf, moka snjó eða hirða sorp. Verum ánægð með það sem við erum að gera um leið og við erum metnaðarfull í að gera enn betur.

Beinum sjónum okkar að málefnum dagsins í dag. Það er vissulega afar mikilvægt að hafa skýra framtíðarsýn – en munum að framtíðin er ekki bara eftir 10-20 eða 30 ár. Framtíðin er líka á morgun.

Forseti, aftur. Ég þakka borgarstjórn fyrir traustið og hlakka til samstarfsins við borgarstjórn.

Ljósmynd: Róbert Reynisson

Categories
Greinar

Tíma­mót í Reykja­vík

Deila grein

16/01/2024

Tíma­mót í Reykja­vík

Það er með mikilli gleði og eftirvæntingu sem ég óska nýkjörnum borgarstjóra, Einari Þorsteinssyni velfarnaðar í starfi og til hamingju með nýjan starfstitil. Ég er fullviss um að hann muni hér eftir sem áður vinna af heilindum í þágu Reykvíkinga.

Breytingar og samvinna

Í aðdraganda borgarstjóraskiptanna hefur mikið verið rætt um hvaða breytingar þær munu hafa í för með sér. Slík umræða er eðlileg eftir langa valdatíð fráfarandi borgarstjóra. Niðurstaða kosninganna var ákall um breytingar og með nýjum borgarstjóra munu fylgja nýjar áherslur.

Það er þó ekki þannig að við höfum setið auðum höndum síðustu 18 mánuði heldur höfum við unnið að því að breyta til hins betra í Reykjavík frá fyrsta degi okkar í embætti. Má í því samhengi nefna að búið er að hækka frístundastyrkinn í 75 þúsund krónur, stuðningur við dagforeldra hefur aukist töluvert og foreldrar barna eldri en 18 mánaða greiða nú sama gjald hjá dagforeldrum og í leikskólum, næturstrætó fór aftur af stað í Reykjavík, farið var í umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir og á fjárhagsáætlun þessa árs er gert ráð fyrir hagnaði, unnið er að framgangi Sundabrautar og Samgöngusáttmáls, sett var af stað viðhaldsátak í skólahúsnæði, snjómokstur hefur verið stórbættur, uppbygging þjóðarhallar er í góðum farvegi og unnið er að fjölgun leikskólaplássa. Þetta er ekki tæmandi talning en gefur góða von um framfarir.

Áskoranirnar framundan eru fjölmargar. Einar hefur sýnt djúpstæðan skilning á þeim áskorunum sem samfélag okkar stendur frammi fyrir hvort sem þær tengjast þróun efnahagsmála, húsnæðisuppbyggingu, sorphirðu eða fjölgun leikskólaplássa. Ég er bjartsýn á að hægt sé að vinna úr þessum verkefnum á farsælan máta með samvinnu að leiðarljósi. Markmiðið er þó í bráð og lengd að hrinda framfaramálum í framkvæmd.

Þakklæti á þessum tímamótum

Borgarstjóraskiptin marka einnig tímamót fyrir Framsókn en þetta er í fyrsta skipti í 107 ára sögu flokksins sem Framsókn mun eiga borgarstjóra. Öflugur framboðslisti Framsóknar í síðustu kosningum undir forystu Einars leiddi til farsælustu niðurstöðu flokksins í borgarstjórnarkosningum frá upphafi. Við eigum baklandinu og grasrót Framsóknar í Reykjavík allt að þakka fyrir árangur Framsóknar í kosningunum. Kosningabarátta er stórt samvinnuverkefni ólíkra aðila á öllum aldri sem hafa öll það sameiginlegt að vilja láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins. Ég vil á þessum tímamótum þakka fyrir þeirra starf í þágu flokksins en líka þakka borgarbúum fyrir góð og gagnleg samtöl bæði í aðdraganda og eftir kosningar. Við erum hér til að hlusta og vinna í þágu Reykvíkinga. Ég hvet ykkur, borgarbúar, til að halda áfram að heyra í okkur og deila með okkur sýn ykkar. Þannig getum við betur þróað borgina okkar í sameiningu.

Ég þakka einnig fráfarandi borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni fyrir störf hans í þágu borgarbúa um árabil.

Enn og aftur, óska ég Einar Þorsteinssyni til hamingju með borgarstjóratitilinn! Megi starfstími þinn einkennast af velgengni, samvinnu og blómlegri Reykjavík!

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. janúar 2024.

Categories
Fréttir

„Það er ekki nóg að mæta út á Leifsstöð og rétta fram blómvönd“

Deila grein

15/01/2024

„Það er ekki nóg að mæta út á Leifsstöð og rétta fram blómvönd“

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.

Markmið tillögunnar er að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og launagreiðandi fái skattaívilnun á móti greiddum launum. Með því hafa fyrirtæki bæði aukinn sveigjanleika til þess að koma til móts við mismunandi þarfir og aðstæður íþróttamanna og aukinn hvata til þess. Tillagan er í samræmi við íþróttastefnu stjórnvalda sem var lögð fram árið 2019.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem fái það verkefni að útfæra skattalega hvata til launagreiðenda hvort sem er á opinberum eða almennum markaði vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.“

„Keppnis- og afreksíþróttafólk á oft og tíðum erfitt með að fá vinnu við hæfi samhliða sinni íþróttaþátttöku vegna þess — og það þekki ég ágætlega þrátt fyrir að hafa ekki verið afreksmaður sjálfur, en hafandi verið sveitarstjórnarfulltrúi og þurft að taka á málum sem þessum — að fyrirtæki veigra sér við því að ráða starfsmenn sem þurfa að vera mikið frá vinnu vegna tíðra æfinga og keppnisferða,“ sagði Ágúst Bjarni.

Keppnisíþróttafólk er þá í þeirri stöðu að velja hvort það eigi halda áfram æfingum og keppni, með óvissa framfærslu sína eða hreinlega að hætta keppni, enda þurfa einhverjir mögulega að sjá fyrir fjölskyldu.

„Með takmörkuðum tekjum nær íþróttafólk auk þess ekki að ávinna sér full lífeyrisréttindi, atvinnuleysisbætur, rétt til þess eða fæðingarorlofs,“ sagði Ágúst Bjarni

Mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hefur sett af stað ákveðna vinnu í gang til að styrkja alla umgjörð í kringum afreksíþróttastarf.

„En það breytir því ekki að við erum með aðra hlið á peningnum sem þessi tillagan gengur aðallega út á, að það sé hvati hjá fyrirtækjum, stofnunum, sveitarfélögum og öðrum að ráða til liðs við sig þessa einstaklinga. Það skiptir mjög miklu máli að mínu mati að þessi hvati sé til staðar,“ sagði Ágúst Bjarni.

„Ég myndi halda að það væri mjög jákvætt fyrir flest fyrirtæki að fá slíka einstaklinga til liðs við sig. Það er alveg sama hvert er litið, hvernig þessir einstaklingar borða, æfa og slíkt, það er ákveðin einbeiting og fókus sem kemur með slíku fólki sem ég myndi halda að væri til bóta eins og ég hef áður sagt,“ sagði Ágúst Bjarni.

„Það er nú þannig að ef einhvern tíma næst samstaða í samfélaginu okkar þá er það þegar okkar fólki gengur vel á alþjóðavettvangi og það er í raun sama í hvaða íþróttagrein það er, það myndast einhvern veginn alltaf ákveðið stolt, alveg sama hver á í hlut, af fólkinu okkar og við erum mjög glöð öll sem eitt að taka á móti fólki og fagna því og lyfta því upp þegar vel gengur. En það er ekki nóg að mæta út á Leifsstöð og rétta fram blómvönd. Það verður að tryggja þessu fólki nauðsynlega og góða umgjörð til að styrkja það í því verkefni sínu að ná árangri á alþjóðavettvangi og það hafi getu og burði til þess að standa til jafns við mótaðilann, ef svo má segja, fólk annars staðar í heiminum sem er að keppa í sömu greinum, það geti staðið þeim einstaklingum jafnfætis,“ sagði Ágúst Bjarni.


Categories
Greinar

Náttúrulega Hveragerði

Deila grein

15/01/2024

Náttúrulega Hveragerði

Í lok ársins 2023 samþykkti bæjarstjórn Hveragerðisbær fjárhagsáætlun 2024-2027. Áætlunin var unnin af bæjarfulltrúum meirihluta í góðu samstarfi við bæjarstjóra, skrifstofustjóra og aðra starfsmenn bæjarins. Áætlunin er metnaðarfull, hófstillt í gjaldskrárhækkunum en jafnframt áætlun um mikla uppbyggingu í stækkandi sveitarfélagi. Í áætluninni eru lagðar fram áherslur meirihlutasamnings Framsóknar og Okkar Hveragerðis.

Hvaða forsendur liggja að baki áætlunargerðinni?

Tekjur Hveragerðisbæjar eru útsvar, fasteignagjöld, þjónustugjöld og framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Útsvarsprósenta Hveragerðisbæjar er óbreytt í fjárhagsáætlun 2024 eða 14,52%. Fasteignamat fyrir árið 2024 hækkaði um rúm 8% í Hveragerði. Í áætluninni er gert ráð fyrir óbreyttri álagningarprósentu fasteignaskatts. Álagningarprósentur á vatnsgjaldi, holræsagjaldi og lóðarleigu á húsnæði í öllum flokkum breytast ekki milli ára. Aukavatnsgjald hækkar úr 15 kr. á rúmmetra í 16 kr. Gjalddagar fasteignagjalda verða áfram 11.

Hóflegar gjaldskrárhækkanir

Lögð var áhersla á að koma sem mest til móts við bæjarbúa vegna hækkana á gjaldskrám sveitarfélagsins. Hækkun gjaldskráa Hveragerðisbæjar miðast almennt við verðlagsþróun síðasta árs. Verðlagsþróun síðastliðna 12 mánuði var um 8% en bæjarstjórn ákvað að hækka gjaldskrár þjónustugjalda einungis um 2,5% og þar með sýna samfélagslega ábyrgð og stemma stigu við verðbólgu. Breytingar eru gerðar á gjaldskrá sorphirðu vegna breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs. Nú greiðir hvert heimili eftir tunnufyrirkomulagi hjá hverjum húseiganda.

Fjölskyldan

Meirihluti Framsóknar og Okkar Hveragerðis leggur ríka áherslu á velferð fjölskyldunnar. Sem liður í því markmiði verður haldið áfram að lækka gjöld fyrir leikskólavist. Gert er því ráð fyrir að alls þrjár klukkustundir verði fríar nú í haust 2024. Leikskólagjöld hafa jafnframt lækkað um 4% frá síðasta kjörtímabili en vísitala hefur hækkað um 12%. Frístundastyrkur verður hækkaður úr 32.000 kr. í 38.000 kr. Frístundastyrkur hefur hækkað um 46% frá fyrra kjörtímabili. Stefnt er að því að lækka leikskólagjöld og hækka frístundastyrk í enn frekari  skrefum á núverandi kjörtímabili.

Framkvæmt til framtíðar

Áfram verður haldið í innviðauppbyggingu. Gert er ráð fyrir að heildarfjárfesting á árinu 2024 verði tæpar 1.318 milljónir króna.

Stærstu framkvæmdir ársins verða eftirfarandi:

  • Áætlað er að framkvæmdir við þriðja áfanga Grunnskólans í Hveragerði klárist á árinu 2025 og er gert ráð fyrir fjárfestingum í það verkefni á árinu 2024 að fjárhæð 500 m.kr. en framlag Sveitarfélagsins Ölfuss er 70 m.kr. af því.
  • Viðhald í grunnskólanum að fjárhæð 15,5 m.kr. á árinu.
  • Gert er ráð fyrir að 100 m.kr. fari í viðbyggingu á Leikskólanum Óskalandi þar sem leikskólaplássum fjölgar og starfsmannaaðstaða verður bætt.
  • Á árinu 2024 er jafnframt gert ráð fyrir 500 m.kr. í íþróttamannvirki þar sem samþykkt hefur verið að byggja upphitaðan gervigrasvöll í Ölfusdal ásamt því að stækka núverandi íþróttahús við Skólamörk.
  • Áætlaðar fjárfestingar vegna gatnagerðar á árinu eru 242 m.kr. og gert er ráð fyrir tekjum af þeim framkvæmdum að fjárhæð 651 m.kr.
  • Utanhússklæðning á þjónustuíbúðir við Birkimörk 50 m.kr.
  • Kaup á félagslegu húsnæði 40 m.kr.
  • Fjárfestingu fyrir 100 m.kr. í fráveitu bæjarins og 10 m.kr í vatnsveitu.

Brugðist við í fráveitumálum

Meirihluti Framsóknar og Okkar Hveragerðis leggur af stað í metnaðarfullar aðgerðir vegna fráveitumála. Þessar aðgerðir eru verulega aðkallandi vegna andvaraleysis í þessum málaflokki síðustu árin. Gríðarleg íbúafjölgun sem og fjölgun ferðamanna hefur gert það að verkum að skólphreinsistöð bæjarins annar ekki eftirspurn. Andvaraleysi þetta hefur einnig gert það að verkum að loka hefur þurft Varmánni vegna mengunar.  Í fjárfestingaráætlun er gert ráð fyrir 100 milljónum í stækkun fráveitu á þessu ári. Á árinu 2025 er gert ráð fyrir 300 milljónum og 100 milljónum á árinu 2026. Á bæjarráðsfundi 4. janúar var einnig samþykkt að setja fjármagn í rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á lífríki Varmár sem  er afar aðkallandi er að fara í.  

Áætlun til þriggja ára

Áætlaðar fjárfestingar árið 2025 eru 1.404 m.kr., árið 2026 1.080 m.kr. og árið 2027 770 m.kr. Stærstu fjárfestingarnar er bygging þriðja og fjórða áfanga grunnskólans, leikskóli í Kambalandi, íþróttamannvirki, hjúkrunarheimili, fráveita og vatnsveita. Allt eru þetta framkvæmdir sem nauðsynlegt er að fara í vegna íbúafjölgunar undanfarinna ára og þeirri fjölgun sem áætlað er að verði á næstu árum.

Náttúrulega Hveragerði

Hveragerðisbær er í örum vexti og fram undan eru metnaðarfull verkefni. Mikilvægt er að huga að framtíðinni og hafa skýr markmið um að innviðauppbygging haldist í hendur við fjölgun íbúa. Meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar horfa björtum augum á framtíðina enda eru tækifærin fjölmörg. Það er kappsmál meirihlutans að þjónusta íbúa Hveragerðis sem best. Áhersla er lögð á fjölskylduna og ekki síst  barnafjölskyldur, hér séu öflugar menntastofnanir, fjölbreytt atvinnulíf, gott íþrótta- og frístundastarf, heilsuefling íbúa á öllum aldri í hávegum höfð og að ferðaþjónusta og menningin haldi áfram að blómstra í fallegri náttúrunni í Hveragerði.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknar í Hveragerði.

Greinin birtist á visir.is 12. janúar 2024.

Categories
Greinar

Fram­boð­stil­kynning til for­seta

Deila grein

13/01/2024

Fram­boð­stil­kynning til for­seta

Nú þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti lýðveldisins, hefur gefið út að hann muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs til forsetaembættisins, þá hef ég eftir samráð við mína nánustu og margar áskoranir tekið þá ákvörðun að bjóða mig fram til forseta.

Svona gæti tilkynning frá einhverjum stjórnarmanna okkar í Sambandi ungra Framsóknarmanna hljómað ef ekki væri fyrir það smáatriði að í stjórnarskrá Íslands er ungu fólki, undir 35 ára aldri, óheimilt að bjóða sig fram til forseta.

Auk 35 ára aldurs eru ekki margar kröfur gerðar til forsetaframbjóðanda. Íslenskur ríkisborgararéttur, kosningaréttur og 1500 meðmæli. Hvorki er gerð krafa um fasta búsetu á Íslandi né hreint sakavottorð. Væri ekki heldur ráð að viðhalda virðingu embættis þjóðhöfðingja með því að gera kröfu um meira en 1500 meðmæli frekar en að meina kosningabærum, löghlýðnum skattgreiðendum frá því að bjóða fram krafta sína?

Við í Ung Framsókn höfum ekki enn heyrt sannfærandi rök fyrir því að meina ungu fólki að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Það sama unga fólk getur verið kjörið í sveitarstjórnir, til Alþingis og jafnvel gegnt stöðu ráðherra. Yngri einstaklingur gæti því verið handhafi forsetavalds í fjarveru forseta, þar sem ekki er sett slík aldurstakmörkun á embætti forsætisráðherra eða forseta Alþingis.

Í stefnu Framsóknar í stjórnskipunar- og alþjóðamálum, sem var samþykkt á flokksþingi 2021 segir “Þá vill Framsókn að […] Öll réttindi sem tengjast fullorðinsaldri verði virk við 18 ára aldur“, einnig hefur Ung Framsókn ályktað “Ungt Framsóknarfólk vill að öll aldurstengd réttindi fullorðinna verði endurskoðuð eftir 18 ára aldur með það í huga að afnema aldurstakmarkanir”.

Krefjumst við í stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna að við allar framtíðarendurskoðanir á stjórnarskrá verði unnið að því að fella niður þessa reglu.

Það er óásættanlegt að í nútíma lýðræðisríki séu settar fram slíkar hindranir í veg fólks sem hyggur að forsetaframboði, sem virðast aðeins byggðar á aldursfordómum. Treystum íslensku þjóðinni til þess að meta hæfi frambjóðenda sjálf á kjörstað, hún hefur staðið sig vel í því verkefni til þessa.

F.h Sambands ungra Framsóknarmanna.

Gunnar Ásgírmsson, formaður Sambands ungra Framsóknarmanna. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. janúar 2024.

Categories
Fréttir

„Heilsa okkar er það dýrmætasta sem við eigum“

Deila grein

11/01/2024

„Heilsa okkar er það dýrmætasta sem við eigum“

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf.

Markmið tillögunnar er að eiga áhrifaríka aðferð svo að leggja megi mat á bein og óbein áhrif ákvarðana og lagasetningar af hálfu stjórnvalda í þágu lýðheilsu samfélagsins. Ákvarðanir löggjafarvaldsins eru þá teknar með aukinni þekkingu á mögulegum áhrifum löggjafar á lýðheilsu fólks. Tillagan er og í góðu samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, en í sáttmálanum er kveðið á um aukna áherslu á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál.

TILLÖGUGREININ HLJÓÐAR SVO:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að ljúka vinnu við að festa í sessi lýðheilsumat hér á landi. Sérfræðihópur verði skipaður með þátttöku fagráðuneyta, fræðasamfélags, sveitarfélaga og embættis landlæknis er leggi til leiðir sem tryggja rýni allra stjórnarfrumvarpa sem lögð eru fyrir Alþingi út frá áhrifum þeirra á heilsu þjóðarinnar. Hópurinn skal skila stöðuskýrslu sem kynnt verði Alþingi eigi síðar en 1. maí 2024.“

„Á síðustu áratugum hafa lífslíkur aukist verulega hér á landi og aldurssamsetning þjóðarinnar hefur tekið breytingum í kjölfarið. Þannig gerir mannfjöldaspá Hagstofunnar ráð fyrir því að 65 ára og eldri verði 20% mannfjöldans árið 2037 og yfir 25% árið 2064. Þetta þýðir að sífellt færri verða á vinnufærum aldri á bak við hverja 65 ára og eldri, byrði langvinnra sjúkdóma aukast ásamt því að ýmsar áskoranir munu herja á samfélagið m.a. vegna loftslagsbreytinga. Ef ekki er brugðist við þessari stöðu með markvissum hætti er ljóst að kostnaður og þjónustuþörf mun aukast umtalsvert innan heilbrigðiskerfisins sem og öðrum þáttum stjórnsýslunnar,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Skipta má áhrifum á heilsu niður í fimm meginþætti og greinast þeir frá víðum áhrifum niður í sértæk áhrif. Fyrst má nefna áhrif löggjafar af hálfu stjórnvalda, áhrif samfélagsins, áhrif stofnana, áhrif ýmissa hópa í samfélaginu og síðast en ekki síst persónulega þætti sem telja má til sértækra áhrifa. Ef horft er til arðsemissjónarmiða og sannreyndra fyrirbyggjandi aðgerða, skilar löggjöf mestum heilsufarslegum ábata fyrir heildina. Því er talið mikilvægt að stjórnvöld meti áhrif löggjafar út frá lýðheilsusjónarmiðum á sama hátt og mat er lagt á löggjöf út frá til að mynda jafnréttissjónarmiðum, umhverfisáhrifum, kostnaði og fleiri þáttum.“

„Lengi hafa ríki verið hvött til að innleiða lýðheilsumat í löggjöf í sínu landi. Hér á landi hefur embætti landlæknis kallað eftir slíkri innleiðingu. Hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ásamt Sameinuðu þjóðunum gert slíkt hið sama. Ef marka má umræðu og aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum má ætla að breið samstaða sé um að Ísland taki sér Finnland til fyrirmyndar og innleiði lýðheilsumat. Hæstv. heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson hefur lagt mikla áherslu á málaflokkinn og helgaði heilbrigðisþing í fyrra lýðheilsu, heilsueflingu, forvörnum og heilsulæsi. Í drögum að aðgerðaáætlun um lýðheilsustefnu sem kynnt var hér á Alþingi var innleiðing á lýðheilsumati ein af aðaláherslum.

Heilsa okkar er það dýrmætasta sem við eigum,“ sagði Jóhann Friðrik.