Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefur verið farsæl. Atvinnustig er hátt og kröftugur hagvöxtur. Það er eftirsóknarvert að búa á Íslandi og við sjáum það í vaxandi mannfjölda. Hins vegar mælist verðbólga 9,5% og er of há. Því er það verkefni hagstjórnarinnar númer 1, 2 og 3 að hún lækki. Trúverðugleiki efnahagsstefnunnar er undir því kominn að það takist.
Mikill þróttur hefur verið í íslenska hagkerfinu en vöxtur þess á síðasta ári mældist 6,4% og hefur ekki verið meiri en síðan 2007. Hagvöxturinn heldur áfram að vera knúinn áfram af miklum vexti innlendrar eftirspurnar en hún hefur vaxið um 8,6%. Líklegt er þó að það hægist á vexti einkaneyslu vegna þess að aðgengi heimila og fyrirtækja að lánsfé er að minnka og fjármálaleg skilyrði hafa þrengst vegna ítrekaðra stýrivaxtahækkana Seðlabanka Íslands. Við erum þegar farin að sjá teikn þess, þar sem einkaneysla jóskt á fyrsta ársfjórðungi um 2,5%. Að sama skapi hefur atvinnuvegafjárfesting dregist saman um 14% á þessum ársfjórðungi. Að lokum má nefna að kortavelta hefur dregist saman að raunvirði og er það í fyrsta sinn í langan tíma! Að auki er jákvætt að sjá að viðskiptakjör vöru og þjónustu hafa batnað á milli ára um 3%, sem hefur jákvæð áhrif á gengi krónunnar og ætti að hafa jákvæð áhrif á verðbólguþróun enda hefur gengið verið að styrkjast.
Verðbólga hefur verið þrálátari en væntingar stóðu. Innlend verðbólga hefur verið mikill en á móti hefur verðbólga á heimsvísu lækkað og gengi krónunnar sterkt sökum mikils gangs í ferðaþjónustunni. Væntingar markaðsaðila um verðbólguhorfur eru enn of háar og Seðlabanki Íslands spáir að verðbólga verði 8% út árið. Samkvæmt könnun Seðlabanka Íslands frá því í maí, þá búast markaðsaðilar við að stýrivextir verði 8,5% út þennan ársfjórðung og verði svo komnir niður í 6% eftir tvö ár.
Þetta er of há verðbólga og því hafa stjórnvöld brugðist við með afgerandi hætti til að stemma við verðbólguhorfum.
Fyrst ber að nefna að lögum verður breytt þannig að laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna ríkisins hækki um 2,5% í stað 6% hinn 1. júlí nk. Þannig verði tryggt að laun æðstu embættismanna skapi ekki aukinn verðbólguþrýsting. Hækkunin tekur mið að verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands en það er 2,5%. Þetta eru skýr skilaboð um að ríkisstjórnin er á skýrri vegferð um að náð verðbólgumarkmiðið náist.
Húsnæðisverð hækkaði um 25,5% á höfuðborgarsvæðinu í júlí í fyrra og er meginorsökin er framboðsskortur. Framboð íbúða hefur þó verið að aukast og farið er að draga úr hækkun verðs á húsnæði. Ríkisstjórnin er að taka enn frekari skref til að draga úr framboðsskorti og því verða stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins tvöfölduð og framlög til hlutdeildarlána verða aukin enn frekar þannig að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar árlega árin 2024 og 2025. Því verða íbúðirnar 1000 á ári. Auk þess verður 250 nýjum íbúðum bætt við fyrri áætlanir þessa árs og verða þá samtals tæplega 800. Þetta styður við aukið framboð á húsnæðismarkaði. Hér er ríkisstjórnin enn og aftur að stíga stór skref til að auka framboðið og nauðsynlegt að sveitarfélögin styðji við þessa uppbyggingu.
Í þeim stóru og mikilvægu verkefnum sem fram undan eru á næstu mánuðum, þá er stærsta að ná verðbólgunni niður. Það þarf breiðfylkingu og samstöðu til að það takist, því þó skilaboð ríkistjórnarinnar séu skýr í nýrri fjármálaáætlun um aukið aðhald á tímabili áætlunarinnar þá þurfa fleiri hagaðilar og almenningur að leggja sitt lóð á vogaskálarnar. Með samvinnu að leiðarljósi munum við ná þeim árangri sem við stefnum að.
Stefán Vagn Stefánsson, oddviti Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, formaður atvinnuveganefndar og nefndarmaður í fjárlaganefnd.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júní 2023.