Categories
Fréttir Greinar

Endóvika

Deila grein

07/03/2023

Endóvika

Vikan er helguð endómetríósu.

Hvað er endóvika? Jú það er vika til vitundavakningar og fræðslu og vekur verðskuldaða athygli á endómetríósu, sem einnig kallast legslímuflakk. Sjúkdóminn sem mátti ekki og var ekki talað um í áranna raðir. Endómetríósa, eða endó til styttingar, hrjáir konur og einstaklinga sem fæðast í kvenlíkama. Sjúkdómurinn er þeim þungbær. Hann er krónískur, fjölkerfa sjúkdómur og afar sársaukafullur. Af þeim sem hafa sjúkdóminn eru um 60% með einkenni og um 20% með mjög sár einkenni. Endó leiðir til yfirborðsþekju endómetríósufruma á líffærum, sem bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum kvenlíkamans og valda bólgum eða jafnvel innvortis blæðingum. Þetta er ekki tæmandi talning einkenna, en þau hafa það öll sameiginlegt að reynast sársaukafull. Þetta er skæður sjúkdómur og það er löngu tímabært að við viðurkennum alvarleika hans og bregðumst við af fullri alvöru.

Heilbrigðiskerfið tekur við sér

Því er einstaklega ánægjulegt að sjá heilbrigðiskerfið taka meðhöndlun sjúkdómsins föstum tökum. Fræðsla hefur bæst til muna og ekki er lengur hvíslað um sjúkdóminn. Endometríósuteymi kvennadeildar Landspítalans vinnur með þverfaglegt teymi kvenlækningadeildar. Teymið sinnir sjúklingum með erfið einkenni sem eru í greiningarferli eða ef meðferð hefur ekki skilað árangri. Allt er þetta gert með það að markmiði að auka lífsgæði sjúklingsins.

Samningur um kaup á aðgerðum

Hæstvirtur heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, staðfest samning, sem Sjúkratryggingar Íslands hafa gert við Klíníkina um kaup á aðgerðum vegna endómetríósu.

Samningurinn er stórt skref sem kemur til með að bæta líf margra. Á sama tíma fá einstaklingar sem sjúkdómurinn hrjáir loksins viðurkenningu á því sem raunverulega er að hrjá þá. Sjúkdómurinn er ekki lengur „túrverkir“ sem á bara að harka af sér, heldur er þetta alvarlegur og sársaukafullur sjúkdómur sem hægt er að meðhöndla.

Ég vil hvetja fólk til að sækja sér upplýsinga og fræðast um þennan sjúkdóm sem hefur ásótt svo marga eins og draugur. Færa hann í ljósið og styðja við þau sem sjúkdómurinn hrjáir.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. mars 2023.