Það að ná mjög háum aldri er ekki sjálfgefið, sérstaklega fyrir stjórnmálaflokka. Í dag fögnum við í Framsókn því að 107 ár eru liðin frá stofnun flokksins, en flokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur fylgt íslensku þjóðinni samfleytt í meira en heila öld – og vel það. Þessi vel rúmlega aldarlanga saga Framsóknar er samtvinnuð framförum á Íslandi. Heimurinn hefur gengið í gegnum miklar breytingar frá stofnun flokksins fyrir 107 árum. Þannig hefur staða Íslands umturnast til hins betra en á tímabilinu fór Ísland úr því að vera fátækt samfélag undir erlendri stjórn yfir í því að vera sjálfstætt og fullvalda ríki þar sem lífskjör eru með því besta sem þekkist á byggðu bóli.
Lengstan part af sögu sinni hefur Framsókn verið treyst fyrir stjórn Íslands. Frjálsar kosningar eru hornsteinn þess lýðræðissamfélags sem við búum í en það að búa í frjálsu og opnu lýðræðisþjóðfélagi er ekki sjálfgefinn hlutur eins og fjölmörg dæmi í heiminum sanna. Það er mikill heiður að vera treyst fyrir stjórn landsins, en því fylgir einnig mikil ábyrgð.
Grasrót flokksins hefur í gegnum tíðina samanstaðið af öflugum hópi fólks sem á það sameiginlegt að vilja vinna samvinnuhugsjóninni brautargengi og stuðla að uppbyggilegum stjórnmálum út frá miðjunni. Sem miðjuflokkur leggur Framsókn áherslu á skynsamlegar og raunsæjar lausnir sem eru til þess fallnar að bæta líf fólks ásamt því að geta unnið með ólíkum stjórnmálaflokkum til að bæta samfélagið. Hið síðastnefnda er mikilvægur eiginleiki í heimi þar sem við sjáum skautun í stjórnmálum aukast til muna.
Það dylst ekki neinum að það hefur gengið á ýmsu í samstarfi núverandi stjórnarflokka. Það vill hins vegar oft gleymast í umræðunni að mikill árangur hefur náðst í fjölmörgum málaflokkum. Þannig hafa fjölmörg mál fengið framgang í þeim málaflokkum sem Framsókn ber ábyrgð á. Ný húsnæðisstefna og aukin framlög til málaflokksins munu marka leiðina fram á við. Kröftug uppbygging samgönguinnviða, hvort sem um ræðir vegi, flugvelli eða hafnir, hefur bætt búsetuskilyrði og samkeppnishæfni landsins alls. Róttækar umbætur í menntakerfinu hafa nú þegar og munu til lengri tíma skila ávinningi. Þannig er kennaranemum strax tekið að fjölga verulega eftir fyrirsjáanlegan skort, sem og nemum í verkiðn og starfsnámi og unnið er eftir menntastefnu til ársins 2023. Umgjörð menningarmála hefur verið efld verulega með fjölmörgum aðgerðum. Róttækar breytingar hafa verið gerðar á málefnum barna sem auka lífsgæði þeirra og góður árangur hefur náðst í að efla heilbrigðiskerfið, til að mynda með samvinnu hins opinbera og einkageirans með samningum við sérgreinalækna sem aukið hafa aðgengi sjúklinga að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag svo örfá dæmi séu tekin.
Það er gaman og gefandi að taka þátt í stjórnmálum og vinna fyrir landið sitt á þeim vettvangi. Hvort sem er í sveitarstjórnum eða í landsmálunum mun flokkurinn halda áfram að vinna að því að gera samfélagið betra en það var í gær, með vinnusemi og samvinnuhugsjónina að leiðarljósi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. desember 2023.