Categories
Fréttir Greinar

Fúsi er kominn til að vera

Deila grein

28/11/2023

Fúsi er kominn til að vera

Ein markverðasta og hug­ljúf­asta leik­sýn­ing sem ég hef séð er „Fúsi: Ald­ur og fyrri störf“ sem nú er til sýn­ing­ar á Litla sviði Borg­ar­leik­húss­ins. Sýn­ing­in fjall­ar um Sig­fús Svein­björn Svan­bergs­son, Fúsa, og ævi­skeið hans með frænda sín­um, Agn­ari Jóni Eg­ils­syni leik­ara. Fúsi er reynd­ur leik­ari, þar sem hann hef­ur starfað með leik­hópn­um Perlunni í rúm fjöru­tíu ár.

Fúsi er fatlaður ein­stak­ling­ur og er saga hans saga þjóðar og hvernig um­gjörð sam­fé­lags­ins var í tengsl­um við fatlað fólk. Sýn­ing­in rifjar upp at­vik úr ævi Fúsa og er tvinnað inn í frá­sögn­ina tónlist frá systkin­un­um Ellý og Vil­hjálmi Vil­hjálms­börn­um. Hinar frá­bæru leik­kon­ur Hall­dóra Geir­h­arðsdótt­ir og Vala Krist­ín Ei­ríks­dótt­ir leika atriði tengd ævi Fúsa og svo er fimmti maður­inn á sviðinu Eg­ill Andra­son sem spil­ar á hljóm­borð.

Sýn­ing­in er, að því er ég best veit, ein sú fyrsta hjá at­vinnu­leik­húsi þar sem fatlaður ein­stak­ling­ur er í burðar­hlut­verki. Leik­ritið er afar áhrifa­ríkt og til­komu­mikið, þar sem sag­an er ein­læg og átak­an­leg en á sama tíma skemmti­leg.

Þetta stór­merki­lega verk sýn­ir fram á að fatlaðir ein­stak­ling­ar þurfa stærra hlut­verk í skap­andi grein­um. Ráðuneyti mitt hef­ur verið að styðja bet­ur við þenn­an mála­flokk, meðal ann­ars í gegn­um hátíðina List án landa­mæra. List án landa­mæra dreg­ur þetta meðal ann­ars fram, en all­ar göt­ur frá stofn­un henn­ar árið 2003 hef­ur hátíðin lagt áherslu á list fatlaðs fólks og sem slík skapað sér sér­stöðu inn­an menn­ing­ar­lífs­ins á Íslandi. Hef­ur hátíðin meðal ann­ars ýtt und­ir og stuðlað að sam­starfi ólíkra hópa í góðu sam­starfi við lista­söfn, leik­hópa og tón­list­ar­líf – og þannig skapað vett­vang og ný tæki­færi í menn­ing­ar­lífi þjóðar­inn­ar. Ásamt því vinn­ur Lista­safn Íslands öt­ul­lega að því að kynna list fatlaðs fólks á mark­viss­ari hátt en áður hef­ur þekkst. Margt annað áhuga­vert er á dag­skrá hjá ráðuneyti menn­ing­ar.

Hvernig sam­fé­lagið kem­ur fram við fatlaða ein­stak­linga er hinn sanni mæli­kv­arði á siðferði þjóða, það er hver um­gjörð þeirra er sem og tæki­færi. List­ir eru ein besta leiðin til þess að varpa ljósi á fjöl­breyti­leika sam­fé­lags­ins þar sem sköp­un­ar­kraft­ur fólks fær notið sín óháð bak­grunni og stöðu viðkom­andi. Það er brýnt að halda áfram að tryggja jöfn tæki­færi til list­sköp­un­ar með þeim hætti, því all­ir hafa sögu að segja. Það næmi og ein­lægni sem kem­ur fram í leik­sýn­ing­unni Fúsa á er­indi við okk­ur öll. Þetta er ein af þess­um sýn­ing­um sem fylgja manni í marga daga og láta mann ekki vera fyrr en maður tek­ur af­stöðu. Hjart­ans þakk­ir fyr­ir mig.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. nóvember 2023.