Categories
Fréttir Greinar

Staðið við bakið á Grindvíkingum

Deila grein

27/11/2023

Staðið við bakið á Grindvíkingum

Föstu­dags­kvöldið 10. nóv­em­ber 2023 mun aldrei líða Grind­vík­ing­um úr minni. Aldrei áður hafa all­ir íbú­ar heils bæj­ar­fé­lags á Íslandi fengið þau fyr­ir­mæli frá al­manna­varna­yf­ir­völd­um að þeir verði að yf­ir­gefa heim­ili sín inn­an þriggja klukku­stunda vegna yf­ir­vof­andi ógn­ar. Á þessu augna­bliki og öll­um síðan hafa all­ir Íslend­ing­ar fundið til sam­kennd­ar með Grind­vík­ing­um. Viðbrögð þjóðar­inn­ar hafa verið sterk og all­ir lagst á ár­arn­ar við að létta und­ir með Grind­vík­ing­um og eyða eft­ir megni þeirri óvissu sem rík­ir.

Grind­vík­ing­ar eru ekki heima hjá sér þessa dag­ana. Sam­fé­lag þeirra er dreift um landið en ég finn í sam­töl­um mín­um við Grind­vík­inga að hug­ur­inn er heima. Auðvitað.

Frá því að Grind­vík­ing­ar þurftu að yf­ir­gefa bæ­inn sinn hef­ur rík­is­stjórn­in lagt alla áherslu á að styðja við bæj­ar­yf­ir­völd í þeim flóknu verk­efn­um sem við blasa. Það er mik­il­vægt að for­svars­fólk sveit­ar­fé­lags­ins stjórni ferðinni þegar um bæj­ar­fé­lagið þess er að ræða. Rík­is­stjórn­in og öll stjórn­sýsla rík­is­ins er þeim til stuðnings. Það hef­ur verið aðdá­un­ar­vert að fylgj­ast með bæj­ar­stjóra og öðrum þeim sem standa í stafni sveit­ar­fé­lags­ins. Og þakk­arvert að sjá þá miklu vinnu sem viðbragðsaðilar hafa lagt af mörk­um síðustu vik­ur.

Rík­is­stjórn­in hef­ur verið í góðu sam­bandi við bæj­ar­stjóra Grinda­vík­ur um þau verk­efni sem snúa að stjórn­völd­um. Við höf­um stutt við bor­an­ir eft­ir neyslu­vatni vegna hætt­unn­ar af því að vatns­ból Suður­nesja­manna spill­ist. Við höf­um veitt all­ar þær und­anþágur sem þarf til að sveit­ar­stjórn Grinda­vík­ur starfi utan ráðhúss Grinda­vík­ur. Stærsta verk­efnið er þó ann­ars veg­ar að tryggja ör­yggi og fram­færslu og hús­næði. Að öllu þessu hef­ur verið unnið hörðum hönd­um í sam­vinnu við Grinda­vík­ur­bæ þá sól­ar­hringa sem liðnir eru frá rým­ingu.

Fyrsti þátt­ur hús­næðismál­anna var að koma öll­um Grind­vík­ing­um í ör­uggt skjól. Al­manna­varn­ir í sam­starfi við Rauða kross­inn unnu þann þátt hratt og vel. Nú hafa þau rétt keflið til rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem hef­ur lagt nótt við dag að vinna að lausn­um til næstu mánaða. Auðvitað í sam­starfi við Grind­vík­inga. Ann­ars veg­ar er unnið að því að HMS með leigu­fé­lag­inu Bríeti og íbúðafé­lag­inu Bjargi kaupi hús­næði sem get­ur hýst allt að 200 grind­vísk­ar fjöl­skyld­ur á allra næstu vik­um. Hins veg­ar er ann­ar hóp­ur sem hef­ur það hlut­verk að finna ein­inga­hús sem henta Grind­vík­ing­um og finna staðsetn­ingu þar sem slík­um hús­um er hægt að koma niður hratt og ör­ugg­lega. Von­ir standa til að slíkt ferli geti skilað því að á fyrstu mánuðum nýs árs geti Grind­vík­ing­ar flutt tíma­bundið inn í þau hús.

Af­koma fólks­ins í Grinda­vík hef­ur ásamt hús­næðismál­un­um verið í al­gjör­um for­gangi hjá rík­is­stjórn­inni. Sér­stakt frum­varp um tíma­bund­inn stuðning til greiðslu launa var lagt fyr­ir Alþingi fyrr í vik­unni og verður von­andi af­greitt sem lög í upp­hafi næstu viku. Þá var einnig samþykkt í rík­is­stjórn í gær frum­varp um sér­tæk­an hús­næðisstuðning við Grind­vík­inga.

Sam­fé­lag er meira en póst­núm­er. Það er allt skóla­starfið, fé­lags­lífið, vinnustaðirn­ir. Nú er þetta sam­fé­lag tvístrað um stund. En ekki sam­kennd­in. Það fann ég sterkt þegar ég heim­sótti miðstöð Grind­vík­inga í Toll­hús­inu fyrr í vik­unni. Þar ríkti sam­hug­ur og von um að geta snúið aft­ur heim. Heim í Grinda­vík.

Ég get ekki lofað því að næstu vik­ur og mánuðir verði auðveld­ur tími fyr­ir Grind­vík­inga. En ég get lofað því að rík­is­stjórn­in mun gera allt sem í henn­ar valdi stend­ur til að draga úr óvissu og standa vörð um Grind­vík­inga þar til þeir snúa heim.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar og innviðaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. nóvember 2023.