Categories
Fréttir Greinar

Lægri vextir eru stærsta kjarabótin

Deila grein

09/01/2024

Lægri vextir eru stærsta kjarabótin

Það hef­ur ekki dulist nein­um að há verðbólga og vext­ir hafa komið illa við fólk og fyr­ir­tæki á síðustu miss­er­um. Það er því til mik­ils að vinna að ná verðbólg­unni niður og skapa þannig skil­yrði fyr­ir lækk­un vaxta. Há verðbólga gerði vart við sig í kjöl­far heims­far­ald­urs­ins í fjöl­mörg­um ríkj­um með til­heyr­andi áskor­un­um fyr­ir hag­stjórn. Ísland fór ekki var­hluta af þeirri þróun í heims­bú­skapn­um þar sem hnökr­ar í aðfanga­keðjum, aukn­ar höml­ur og viðskipta­hindr­an­ir í alþjóðaviðskipt­um ásamt stríðsátök­um hafa fram­kallað mikl­ar áskor­an­ir fyr­ir stjórn efna­hags­mála og enn sér ekki fyr­ir end­ann á þeim.

Hér hef­ur há verðbólga hins veg­ar reynst þrálát­ari en í lönd­un­um í kring­um okk­ur, þó svo að hún hafi fram­an af mælst sú næst­lægsta í Evr­ópu.

Það er göm­ul saga en ekki ný að há verðbólga bitn­ar verst á þeim sem síst skyldi; þeim efnam­inni. Helsta keppikefli efna­hags­stjórn­ar­inn­ar hér­lend­is er að ná tök­um á verðbólg­unni. Hún hef­ur vissu­lega lækkað frá því að hún mæld­ist hæst 10,2% í fe­brú­ar­mánuði 2023, en í dag mæl­ist hún 7,7%. Sterk­ar vís­bend­ing­ar eru um að háir stýri­vext­ir Seðlabank­ans séu farn­ir að bíta en á ár­inu 2023 slógu þeir á inn­lenda eft­ir­spurn á sama tíma og mik­ill kraft­ur var í þjón­ustu­út­flutn­ingi, sem skýrðist aðallega af um­svif­um í ferðaþjón­ustu. Þá var sam­drátt­ur í einka­neyslu á þriðja árs­fjórðungi eft­ir nokkuð kröft­ug­an vöxt árs­fjórðung­ana þar á und­an. Hag­kerfið kom af mikl­um krafti út úr far­aldr­in­um og mæld­ist hag­vöxt­ur ríf­lega 7% á ár­inu 2022 og fór viðskipta­jöfnuður úr skorðum. Á þessu ári er spáð meira jafn­vægi í þess­um efn­um með tæp­lega 3% hag­vexti og já­kvæðum viðskipta­jöfnuði.

Næstu vik­ur skipta höfuðmáli í glím­unni við verðbólg­una en ör­lög verðbólguþró­un­ar­inn­ar eru nú að stór­um hluta í okk­ar eig­in hönd­um. Þar er stóra breyt­an kom­andi kjara­samn­ing­ar sem nú er unnið að. Þar mun ábyrgð, raun­sæi og góð sam­vinna rík­is og sveit­ar­fé­laga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnu­markaðar­ins ráða úr­slit­um. Rík­is­stjórn­in stóð fyr­ir aðhalds­söm­um fjár­lög­um, þar sem Stjórn­ar­ráðið tek­ur á sig hvað mest aðhald. Það sama má segja um launa­hækk­un æðstu emb­ætt­is­manna rík­is­ins sem lækkuð var niður í 2,5%, sem kall­ast á við verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans og gjald­skrár­hækk­an­ir taka­markaðar við 3,5%. Með þessu vilja stjórn­völd leiða með góðu for­dæmi. Það hef­ur einnig verið já­kvætt að sjá fleiri sveit­ar­fé­lög draga úr boðuðum gjald­skrár­hækk­un­um, nú síðast Hvera­gerðis­bær sem mun hækka gjald­skrár um 2,5% í stað 8% eins og boðað hafði verið.

Í þessu verk­efni verða all­ir að leggja sitt af mörk­um enda mikið í húfi. Það er samt sem áður til­efni til bjart­sýni í ljósi þess já­kvæða tóns sem kveður við í samn­ingaviðræðum aðila vinnu­markaðar­ins. Það er mik­il­vægt að vinna áfram í þeim anda og stuðla að því að skrifað verði und­ir lang­tíma­kjara­samn­inga sem skapa hag­felld skil­yrði fyr­ir lækk­un verðbólgu og vaxta, en í því felst stærsta kjara­bót­in fyr­ir okk­ur öll.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. janúar 2024.