Categories
Fréttir

Þingstörf á haustþingi

Deila grein

08/01/2024

Þingstörf á haustþingi

Þingfundum Alþingis, 154. löggjafarþings, var frestað 16. desember en það hóf störf 12. september sl.. Þingfundir voru samtals 55 og stóðu í rúmar 247 klst. og voru þingfundadagar alls 46.

Þinghaldi Alþingis er skipt í þrjú tímabil, haustþing, vetrarþing og vorþing. Haustþing er frá því að þing kemur saman aðra vikuna í september og stendur fram að jólum. Vetrarþing hefur verið frá miðjum janúar og fram að páskum. Vorþing hefst eftir páska og er fram í júní.

Hér að neðan er samantekt á þingstörfum þingmanna Framsóknar á þessu haustþingi.

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður,

á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd, framtíðarnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Hefur hann flutt alls 35 ræður á þessu þingi og talað í 3,5 klst.

Ágúst Bjarni hefur lagt fram þrjár tillögur til þingsályktunar, um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks, um að koma upp klasa opinberra fyrirtækja og stofnanna og um að kom á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa.

 • Skattalegir hvatar vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.
  Tillagan gengur út á að fela mennta- og barnamálaráðherra í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem fái það verkefni að útfæra skattalega hvata til launagreiðanda hvort sem er á opinberum eða almennum markaði vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Markmiðið er að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og launagreiðandi fái skattaívilnun á móti greiddum launum.
 • Uppbygging klasa opinberra fyrirtækja og stofnana.
  Tillagan gengur út á að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem geri tillögu að uppbyggingu klasa opinberra fyrirtækja og stofnana. Markmið starfshópsins verði að koma opinberum fyrirtækjum og stofnunum fyrir á sama stað til þess að ná fram rekstrarlegri hagræðingu og öðrum samlegðaráhrifum. Unnið verði að uppbyggingu slíks klasa í nánu samstarfi við einkaaðila og sveitarfélög.
 • Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa.
  Tillagan gengur út á að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra í samvinnu við mennta- og barnamálaráðherra að koma á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa. Markmiðið er að kom á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa þar sem öll sú þekking sem til er um einhverfu verði dregin saman á einn stað og börn jafnt sem fullorðnir geti fengið þjónustu með þarfir þeirra í huga.

Yfirlit yfir greinarskrif Ágústs Bjarna frá því í haust:


Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður,

á sæti í utanríkismálanefnd, allsherjar- og menntamálanefnd og Íslandsdeild Norðurlandaráðs 2021. Hefur hún flutt alls 14 ræður á þessu þingi og talað í 47,05 mínútur.

Hafdís Hrönn hefur lagt fram frumvarp, um breytingu á lögum um ættleiðingar (ættleiðendur) og þrjár tillögur til þingsályktunar, um bættar vegasamgöngur yfir Hellisheiði, um ókeypis fræðslu og þjálfun foreldra barna með ADHD og um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál.

 • Breyting á lögum um ættleiðingar (ættleiðendur).
  Í breytingunni felst að einstaklingur sem hefur verið í sambúð eða hjúskap við annað foreldrið en síðar slitið samvistum við það, geti óskað eftir að ættleiða barnið án þess að lagatengsl rofni við hitt foreldrið. Einnig er lögð til heimild til að ættleiða barn eða kjörbarn einstaklings sem hefur fallið frá. Hér er um að ræða að sá sem ættleiðir kemur í stað annars foreldris, þ.e. að barn hafi eftir ættleiðingu lagatengsl við tvo aðila.
 • Bættar vegasamgöngur yfir Hellisheiði.
  Tillagan gengur út á að fela innviðaráðherra að stofna starfshóp sem hafi það að markmiði að greina og koma með tillögur um hvernig bæta megi vegasamgöngur yfir Hellisheiði svo að ekki þurfi að koma til ítrekaðra lokana yfir vetrarmánuði.
 • Ókeypis fræðsla og þjálfun foreldra barna með ADHD.
  Tilllagan gengur út á að fela mennta- og barnamálaráðherra og heilbrigðisráðherra að koma á fót fræðslu og þjálfun foreldra barna, allt að 16 ára, með ADHD strax við greiningu. Fræðslan og námskeiðin standi til boða þeim að kostnaðarlausu.
 • Upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál.
  Tillagan gengur út á að fela dómsmálaráðherra að setja á fót starfshóp sem verði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda.

Yfirlit yfir greinarskrif Hafdísar Hrannar frá því í haust:


Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður,

á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og umhverfis- og samgöngunefnd. Hún hefur flutt alls 26 ræður á þessu þingi og talað í 2 klst.

Halla Signý hefur lagt fram sex tillögur til þingsályktunar, um aukin verðmætasköpun við nýtingu þörunga, um eignarhald í laxeldi, um endurskoðun á laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis, um endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir, um flutningur höfuðstöðva Rariks ohf. á landsbyggðina og um miðstöð íslenskrar þjóðtrúar á Ströndum.

 • Aukin verðmætasköpun við nýtingu þörunga.
  Tillagan gengur út á að fela matvælaráðherra í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að kanna möguleika á aukinni verðmætasköpun við nýtingu þörunga.
 • Eignarhald í laxeldi.
  Tillagan gengur út á að fela matvælaráðherra að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að: a. koma fram með tillögur um hvernig takmarka megi samþjöppun eignarhalds á laxeldisleyfum, b. skoða hvort takmarka eigi eignarhald erlendra aðila á laxeldisleyfum.
 • Endurskoðun á laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis.
  Tillagan gengur út á að fela innviðaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og matvælaráðherra að skipa starfshóp til þess að yfirfara laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi.
 • Endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.
  Tillagan gengur út á að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að endurskoða lög og reglugerðir sem gilda um leyfisveitingar til uppsetningar smávirkjana með það að markmiði að einfalda umsóknarferli í tengslum við þær.
 • Flutningur höfuðstöðva Rariks ohf. á landsbyggðina.
  Tillagan gengur út á að fela fjármála- og efnahagsráðherra að stefna að flutningi höfuðstöðva Rariks ohf. á landsbyggðina og að kanna á grundvelli hagsmuna félagsins hvar væri hentugast að byggja upp höfuðstöðvarnar og efla starfsstöðvar Rariks um landið.
 • Miðstöð íslenskrar þjóðtrúar á Ströndum.
  Tillagan gengur út á að fela menningar- og viðskiptaráðherra að beita sér fyrir því að stofnuð verði miðstöð íslenskrar þjóðtrúar í Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Ströndum. Stofnun miðstöðvar um íslenska þjóðtrú myndi efla vinnu við grunnrannsóknir í bland við markvissa miðlun með fjölbreyttum leiðum og jafnframt upplýsingaþjónustu á þessu sviði menningararfsins.

Yfirlit yfir greinarskrif Höllu Signýjar frá því í haust:


Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar,

á sæti í umhverfis- og samgöngunefnd, Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES (formaður) og þingmannanefnd Íslands og ESB. Hún hefur flutt alls 24 ræður á þessu þingi og talað í 1,5 klst.

Ingibjörg hefur lagt fram frumvarp, um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020 (vernd gegn uppsögn vegna tæknifrjóvgunar) og þrjár tillögur til þingsályktunar, um aðgerðaáætlun til að efla Sjúkrahúsið á Akureyri, um einföldun á ferli umsókna um sérstök útgjöld og um rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs.

 • Breyting á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020 (vernd gegn uppsögn vegna tæknifrjóvgunar).
  Í breytingunni felst að það sé skýrt í íslenskum lögum að óheimilt sé að segja starfsmanni upp á því tímabili sem hann undirgengst tæknifrjóvgun og meðferðir þeim tengdar þar sem oft getur verið um að ræða langt og erfitt ferli. Frjósemismeðferðir geta tekið á bæði andlega og líkamlega og starfsmenn sem þurfa að undirgangast slíkar meðferðir hafa ekki sömu möguleika og aðrir til þess að halda fyrir sig áformum sínum um að eignast barn og standa því höllum fæti gagnvart vinnuveitanda sínum á þeim tíma sem þeir freista þess að eignast barn og stofna til fjölskyldu.
 • Aðgerðaáætlun til að efla Sjúkrahúsið á Akureyri.
  Tillagan gengur út á að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem hafi það hlutverk að móta stefnu og aðgerðaáætlun til að efla Sjúkrahúsið á Akureyri með tilliti til vísinda og mennta. Samhliða því markmiði verði stuðlað að bættri heilbrigðisþjónustu á upptökusvæði sjúkrahússins ásamt því að laða að sérhæft heilbrigðisstarfsfólk.
 • Einföldun á ferli umsókna um sérstök útgjöld.
  Tillagan gengur út á að fela dómsmálaráðherra að flýta þróun rafrænna samskipta og einfalda ferli umsókna hjá sýslumanni um sérstök útgjöld. Áhersla verði lögð á að auðvelda aðgengi milli ríkisaðila að upplýsingum og gögnum vegna umsókna um sérstök útgjöld.
 • Rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs.
  Tilllagan gengur út á að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem rannsaki afturvirkt mögulegt orsakaferli, áföll, lýðfræðilegar breytur, komur/innlagnir á heilbrigðisstofnanir og breytingar í lífi einstaklinga í undanfara sjálfsvígs. Starfshópurinn skili skýrslu með tölfræði og tillögum að aðgerðum, bæði fyrirbyggjandi og í forvarnarstarfi til framtíðar. Tillagan er sett fram í kjölfar samtala við heilbrigðisstarfsfólk, m.a. við verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis.

Yfirlit yfir greinarskrif Ingibjargar frá því í haust:


Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður,

á sæti í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins og Íslandsdeild NATO-þingsins. Hann hefur flutt alls 42 ræður á þessu þingi og talað í 2 klst.

Jóhann Friðrik hefur lagt fram tvær tillögur til þingsályktunar, um heilsugæslusel í Suðurnesjabæ og um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf.

 • Heilsugæslusel í Suðurnesjabæ.
  Tillagan gengur út á að fela heilbrigðisráðherra að klára vinnu við að festa í sessi lýðheilsumat hér á landi. Sérfræðihópur verði skipaður með þátttöku fagráðuneyta, fræðasamfélags og Embættis landlæknis er leggi til leiðir sem tryggja rýni allra stjórnarfrumvarpa sem lögð eru fyrir Alþingi út frá áhrifum þeirra á heilsu þjóðarinnar.
 • Innleiðing lýðheilsumats í íslenska löggjöf.
  Tillagan gengur út á að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við að opna heilsugæslusel í Suðurnesjabæ í takt við stefnu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja 2020–2023. Fjárframlög til stofnunarinnar taki mið af því verkefni svo að þjónustan geti hafist sem fyrst.

Yfirlit yfir greinarskrif Jóhanns Friðriks frá því í haust:


Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður,

á sæti í framtíðarnefnd (formaður), velferðarnefnd, atvinnuveganefnd og í Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Hún hefur flutt alls 16 ræður á þessu þingi og talað í 43,34 mín.

Lilja Rannveig hefur lagt fram eina tillögu til þingsályktunar, um ókeypis getnaðarvarnir fyrir einstaklinga yngri en 25 ára.

 • Ókeypis getnaðarvarnir fyrir einstaklinga yngri en 25 ára.
  Tillagan gengur út á að fela heilbrigðisráðherra að gera getnaðarvarnir aðgengilegar einstaklingum undir 25 ára þeim að kostnaðarlausu. Markmiðið er að ungt fólk verði gripið með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á almennt kynheilbrigði og lýðheilsu þjóðarinnar.

Lilja Rannveig var málshefjandi í sérstakri umræðu um slysasleppingar í sjókvíaeldi og var matvælaráðherra til andsvara.

Yfirlit yfir greinarskrif Lilju Rannveigar frá því í haust:


Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður,

á sæti í allsherjar- og menntamálanefnd, velferðarnefnd og Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál (formaður). Hún hefur flutt alls 60 ræður á þessu þingi og talað í 3,9 klst.

Líneik Anna hefur lagt fram þrjár tillögur til þingsályktunar, um fjarnám á háskólastigi, um nýsköpunar-, rannsókna og þróunarsjóð ferðaþjónustunnar og um skráningu og bókhald kolefnisbindingar í landi.

 • Fjarnám á háskólastigi.
  Tillagan gengur út á að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að skipa starfshóp til að vinna aðgerðaáætlun um frekari eflingu fjarnáms með áherslu á þróun stafrænna kennsluhátta á háskólastigi.
  Markmið vinnunnar verði að greina hvernig íslenskir háskólar geti ávallt verið í fremstu röð í notkun stafrænna kennsluhátta og þannig aukið aðgengi að námi og gæði alls náms, hvort sem nemandi stundar námið innan veggja háskóla eða í fjarnámi.
 • Nýsköpunar-, rannsókna og þróunarsjóður ferðaþjónustunnar.
  Tillagan gengur út á að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að undirbúa stofnun nýsköpunar-, rannsókna- og þróunarsjóðs í þágu ferðaþjónustu í samvinnu við menningar- og viðskiptaráðherra.
  Markmið þingsályktunartillögunnar er að koma á fót nýsköpunar-, rannsókna- og þróunarsjóði til eflingar ferðaþjónustu. Tilgangur sjóðsins væri að efla íslenska ferðaþjónustu með því að tryggja fjármagn til rannsókna, og hagnýtingar rannsókna, með nýsköpun og þróun.
 • Skráning og bókhald vegna kolefnisbindingar í landi.
  Tillagan gengur út á að fela matvælaráðherra, í samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að taka saman upplýsingar og skýra verklag við skráningu og bókhald kolefnisbindingar í landi sem umráðamenn lands þurfa að taka tillit til þegar þeir selja kolefniseiningar eða nýta þær til kolefnisjöfnunar í eigin rekstri.

Yfirlit yfir greinarskrif Líneikar Önnu frá því í haust:


Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður,

á sæti í fjárlaganefnd (formaður). Hann hefur flutt alls 46 ræður á þessu þingi og talað í 3 klst.

Stefán Vagn hefur lagt fram tvær tillögur til þingsályktunar, um stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi og um Tröllaskagagöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar.

 • Stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi.
  Tillagan gengur út á að fela ríkisstjórninni að taka til frumathugunar stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi. Litið verði við þessa frumathugun til starfsemi Equinor í Noregi, fyrrum Statoil.

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður,

á sæti í atvinnuveganefnd (formaður) og Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Hann hefur flutt alls 32 ræður á þessu þingi og talað í 2,7 klst.

Þórarinn Ingi hefur lagt fram frumvarp, um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993 (afurðastöðvar í kjötiðnaði) og fimm tillögur til þingsályktunar, um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða, um heildarendurskoðun á þjónustu og vaktakerfi dýralækna, um leyfi til veiða á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitímabils, um sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega í dýralæknanámi og um þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt.

 • Búvörulög (afurðastöðvar í kjötiðnaði).
  Í breytingunni felst að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Leggja skal upplýsingar um slíka samninga og samstarf fyrir ráðherra til upplýsingar. Markmiðið með frumvarpinu er að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða og til að bregðast við ört vaxandi samkeppni að utan. Í alþjóðlegum samanburði eru innlendar afurðastöðvar í kjötiðnaði örsmáar og því ekki samkeppnishæfar við afurðastöðvar á erlendum mörkuðum sem eru mun stærri og hagkvæmari rekstrareiningar. Innlendur kjötiðnaður er engu síður í vaxandi samkeppni við afurðir af erlendum mörkuðum. Afurðastöðvum í kjötiðnaði er mjög óhægt um vik að sameinast þar sem það er í andstöðu við ákvæði samkeppnislaga. Það skilar sér í of háum rekstrarkostnaði, háu verði til neytenda og lágu afurðaverði til bænda. Miðar frumvarpið að því að breyta því þannig að unnt sé að hafa yfirsýn yfir birgðastöðu og afurðastöðvar geti hagað framleiðslu sinni í samræmi við þarfir markaðarins.
 • Fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.
  Tilllagan gengur út á að fela matvælaráðherra að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt er að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2023 þar sem markmiðið yrði að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarafurðum í landinu hverju sinni.
 • Heildarendurskoðun á vaktakerfi dýralækna.
  Tilllagan gengur út á að fela matvælaráðherra að setja af stað vinnu við heildarendurskoðun á þjónustu og vaktakerfi dýralækna.
 • Leyfi til að veiða álft o.fl. utan hefðbundins veiðitíma.
  Tilllagan gengur út á að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að útbúa tillögur um heimild til tímabundinna og skilyrtra veiða á eftirfarandi tegundum fugla utan hefðbundins veiðitíma þeirra.
  Leyfin verði veitt á þeim svæðum þar sem þörf er talin á aðgerðum vegna verulegs ágangs fugla á tún og kornakra.
  Ráðherra geri einnig stjórnunar- og verndaráætlun fyrir álftir og gæsastofna á Íslandi í samvinnu við Umhverfisstofnun og hagsmunaaðila.
 • Sérstök tímabundin ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega í dýralæknanámi.
  Tilllagan gengur út á að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í samráði við matvælaráðherra og innviðaráðherra, að vinna skýrslu með aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnunar um sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega í dýralæknanámi.
 • Þjóðarátak í landgræðslu.
  Tilllagan gengur út á að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í samráði við matvælaráðherra að koma fyrir lok árs 2023 á samstarfi stjórnvalda, bænda, Landgræðslunnar, atvinnulífs og almennings sem miði að því að auka þátttöku almennings í kolefnisbindingu með landgræðslu og hefja þar með þjóðarátak í landgræðslu.

Yfirlit yfir greinarskrif Þórarins Inga frá því í haust: