Verðbólga hefur markað umræðu um efnahagsmál á Íslandi um árabil og glímdi Ísland lengi við verðbólgu sem mældist langt umfram það sem tíðkaðist í löndum í kringum okkur.
Undanfarin 30 ár eða svo náðist að tempra verðbólguna meðal annars með þjóðarsáttinni þegar allir lögðust á árarnar og meiri agi náðist í hagstjórn, ríkisfjármálum og peningamálum. Þótt verðbólgan væri stundum umfram það sem tíðkaðist í nágrannalöndunum var hún þó ekki langt umfram.
Á síðasta ári voru verðbólgumælingar hér þó ekki umfram nágrannalöndin og var Ísland á fyrri hluta ársins yfirleitt í lægri kantinum miðað við samanburðarlönd okkar. Á tímabili mældist samræmd vísitala neysluverðs í Evrópu næstlægst á Íslandi. Mældist vísitalan aðeins neðar í Sviss. Á síðasta ári urðu verulegar hækkanir á alþjóðamörkuðum sem stafar af bergmáli vegna framleiðsluhnökra frá þeim tíma að farsóttin stóð sem hæst og skelfilegu stríði sem ekki hefur þekkst í margar kynslóðir og skapað það sem kallað hefur verið lífskjarakreppa á Vesturlöndum. Þannig má segja að verðbólga hafi því miður orðið að innflutningsvöru, en á sama tíma hafa áfram orðið innlendar kostnaðarhækkanir og gengi krónunnar gefið eftir. Það er gamall sannleikur í hagfræðinni að verðbólga er af hinu illa og kemur verst niður á þeim sem viðkvæmastir eru, bæði þeim sem minnst hafa á milli handanna og þeim sem standa frammi fyrir fjárfestingu eins og ungt fólk og fjölskyldufólk að koma sér upp húsnæði.
Á undanförnum misserum hafa stjórnvöld kynnt ýmsar aðgerðir til þess að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins. Má þar nefna hækkun bóta almannatrygginga, hærri húsnæðisbætur, sérstakan barnabótaauka, aukinn slagkraft í húsnæðismál og fleira. Í mínu ráðuneyti á sér stað mikilvæg vinna er snýr að samkeppnis- og neytendamálum, en heilbrigð samkeppni er grundvallaratriði í verðmyndun. Í þeim málum er meðal annars unnið að endurskoðun stofnanaumgjarðar samkeppnis- og neytendamála með það að markmiði að efla slagkraft í þágu neytenda. Fjármunir hafa verið auknir til Neytendasamtakanna til að efla þeirra ágæta starf í þágu neytenda, og á næstu vikum mun ráðuneyti mitt kynna nýtt verkefni sem mun stuðla að betri upplýsingamiðlum um verðlagningu til neytenda. Þá skipaði ég vinnuhóp sem hefur það hlutverk að rýna hagnað bankanna til að kanna hvort neytendur hér á landi borgi meira fyrir fjármálaþjónustu en neytendur annars staðar á Norðurlöndunum.
Það er gríðarlega mikilvægt fyrir þjóðfélagið að halda verðbólgu í skefjum og það verkefni þarf að nálgast úr ýmsum áttum. Ég hef þá trú að árangur náist þegar við öll leggjumst saman á árarnar og róum í sömu átt. Það er til að mynda mikilvægt að neytendur séu á tánum gagnvart verðlagningu á vöru og þjónustu og fyrirtæki hækki ekki verð umfram það sem eðlilegt getur talist. Slíkt skiptir máli fyrir lífskjörin í okkar góða landi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. febrúar 2023.