Í janúar sá ég viðtal við tannlækni frá Úkraínu sem kom til Íslands sem flóttamaður vorið 2022 og hefur nú fengið leyfi landlæknis til að starfa sem tannlæknir hér á landi. Þetta eru virkilega jákvæðar fréttir. En því miður heyri ég samhliða of margar sögur um að innflytjendur fái fyrra nám eða starfsréttindi ekki metin á Íslandi. Hingað til hefur oft verið óljóst hvert eigi að snúa sér til að fá fyrra nám metið. Það er því mikið fagnaðarefni að í byrjun febrúar var opnuð þjónustugátt fyrir mat á námi og starfsréttindum á Island.is.
Atvinnuþátttaka innflytjenda er mikil
Innflytjendur eru nú um 18 prósent af heildarfjölda landsmanna en hlutfallið er mjög breytilegt á milli byggðarlaga. Hæst er hlutfall innflytjenda yfir 60% í Mýrdalshreppi, í allmörgum sveitarfélögum er það yfir 30% en þar sem hlutfall innflytjenda er lægst fer það niður fyrir fimm prósent. Sveitarfélög með hæst hlutfall innflytjenda eru öll á landsbyggðinni en ekkert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu fer yfir 20% nema Reykjavík. Seinni hluta síðasta árs voru innflytjendur um 23% af heildarfjölda starfandi á Íslandi. Almenn atvinnuþátttaka á Íslandi er 82% en atvinnuþátttaka innflytjenda er enn meiri, eða tæplega 87%, og er það mun hærra hlutfall en í öðrum norrænum ríkjum. Ekki hefði verið mögulegt að manna mikilvæg störf síðustu ár án aðkomu innflytjenda, t.d. í fiskvinnslu, iðnaði, ferðaþjónustu og í vaxandi mæli í heilbrigðis- og velferðarþjónustu.
Menntunarstig innflytjenda er áþekkt menntunarstigi innlendra
Margir innflytjendur sinna störfum þar sem ekki er gerð rík krafa um menntun og það oft þrátt fyrir að vera jafnvel með sérhæfða menntun sem mikil þörf er fyrir á íslenskum vinnumarkaði. Það þarf að nýta þennan mannauð betur. Staðreyndin er sú að um 42% innflytjenda hér á landi vinna störf sem ekki krefjast sérstakrar menntunar þrátt fyrir að hlutfall þeirra innflytjenda sem hér búa og ekki hafa lokið sértækri menntun sé 17%. Þá vekur það athygli að menntunarstig innlendra og innflytjenda á Íslandi er áþekkt. Þá er ekki marktækur munur á menntunarstigi þeirra sem koma hingað frá svæðum utan EES og innan EES.
Bylting við mat á menntun og færni
Eins og áður sagði var þjónustugátt fyrir mat á námi og starfsréttindum opnuð í byrjun febrúar. Með þjónustugáttinni er verið að tengja umsækjendur í gegnum miðlæga síðu við alla þá sem koma að mati og viðurkenningu á námi hér á landi. Þannig batnar aðgengi fólks sem vill fá menntun frá útlöndum metna, óháð því hvort um er að ræða innflytjendur eða innfædda. Hér er um að ræða mjög mikilvægt skref til einföldunar og loks verður hægt að sjá á einum stað allar upplýsingar um kröfur sem gerðar eru til viðurkenningar á menntun eða færni. Ég fagna þessu skrefi sem hér hefur verið tekið en legg áherslu á að frekari umbóta er þörf. Matið heyrir undir þrjú ráðuneyti, heilbrigðisráðuneytið varðandi starfsleyfi heilbrigðisstétta; háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti varðandi starfsréttindi iðngreina; og mennta- og barnamálaráðuneytið varðandi starfsleyfi fyrir leik-, grunn- og framhaldsskólakennara. Verkefnið dreifist víða og þess vegna er brýnt að skilgreina vel hlutverk skóla við mat á námi, leiðbeiningar og þjónustu. Ég er sannfærð um að hér eru frekari tækifæri til úrbóta og aukinnar skilvirkni án þess að slaka á kröfum til þekkingar og færni.
Við þurfum á þekkingu allra íbúa að halda
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið ber ábyrgð á móttöku innflytjenda, og þar hefur nú verið unnin grænbók um stöðuna í málefnum innflytjenda og unnið er að stefnumótun í nánu samstarfi við ráðherranefnd í málaflokknum. Á kjörtímabilinu hafa nú þegar verið samþykktar lagabreytingar á grunni þeirrar vinnu til að auðvelda ráðningu sérfræðinga frá útlöndum, þjónustugáttin er komin og unnið að eflingu raunfærnimats og skilvirkara mati á námi og starfsréttindum. Þessi vinna er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar segir: „Tryggja þarf að innflytjendur sem hér vilja búa og starfa fái tækifæri til aðlögunar og geti nýtt hæfileika sína, þekkingu og reynslu.“ Það er mikilvægt að fjárfesta í fólki eins og við í Framsókn leggjum áherslu á. Við þurfum á þekkingu allra að halda þar sem við á og kannski leynist þekking sem hefur skort í sum byggðarlög nú þegar meðal íbúa.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. febrúar 2024.