„Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka“ segir í texta Valdimars Briem. Um áramót höfum við tilhneigingu til þess að horfa til baka yfir farinn veg og velta fyrir okkur hvernig við höfum staðið okkur í leik og starfi. Á sama tíma horfum við fram á við á þær áskoranir sem blasa við okkur. Lífið líður áfram og það verður aldrei þannig að öllum verkefnum sé lokið. Þessi misserin eru áskoranir í orkumálum þjóðarinnar eitt af þeim stóru verkefnum sem brýn þörf er á að leysa. Það er afar mikilvægt að við sem störfum á Alþingi náum gifturíkri niðurstöðu í þeim málum á komandi mánuðum.
Eftirspurn umfram framboð
Einn af helstu kostum þess að búa á Íslandi er gott aðgengi að orkuauðlindinni og höfum við borið gæfu til þess að vera framsýn í framleiðslu á endurnýjanlegri orku. Öll framtíðarhagkerfi eru háð góðu aðgengi að orku. Íslensk heimili og atvinnulíf hafa getað treyst á gott og hagkvæmt aðgengi orku og hefur það verið lykillinn að góðum lífskjörum á Íslandi.
Forstjóri Landsvirkjunar skrifaði grein í Morgunblaðið þann 27.12. 2023 með yfirskriftinni „Rándýr leki fyrir (næstum) alla“. Í greininni er farið vel yfir þær áskoranir sem blasa við orkuvinnslufyrirtækjum og neytendum stórum sem smáum, á markaði þar sem eftirspurn eftir grænni orku vex en því er ekki að heilsa hvað framboð varðar. Í greininni kemur m.a. fram að pantanir á orku fyrir heildsölumarkaðinn (þ.e. fyrir heimili og smærri fyrirtæki) á næsta ári séu 25% meiri en sem nemur almennum vexti í samfélaginu og vekur það spurningar um hvert orkan sé að fara.
Almenningur og smærri fyrirtæki á Íslandi hafa hingað til búið við þann munað að hafa haft óheftan aðgang að grænni orku á hóflegu verði. En nú eru blikur á lofti. Með vaxandi eftirspurn stærri notenda sem eru tilbúnir að greiða mun hærra verð fyrir raforku en gengur og gerist er hætta á að breytingar verði á raforkumarkaðnum til framtíðar, það er að segja ef ekkert verður að gert. Með óbreyttu ástandi skapast hætta á að heimili í landinu þurfi að fara að greiða mun hærra verð fyrir raforku en við höfum vanist hingað til. Ég hef litla trú á því að það sé pólitískur vilji í landinu að stefna á þá leið að hækka raforkuverð til almennings með þessum hætti, það er allavega ekki minn vilji né vilji okkar í Framsókn.
Frumvarp atvinnuveganefndar
Á nýliðnu haustþingi lagði atvinnuveganefnd Alþingis að beiðni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fram frumvarp til laga um breytingar á raforkulögum nr. 65/2003. Þetta frumvarp varð ekki til í einhverju tómarúmi heldur er markmiðið með því að tryggja raforkuöryggi heimila og minni fyrirtækja í landinu í samræmi við stefnu stjórnvalda. Nái frumvarpið fram að ganga mun það tryggja að heimili og minni fyrirtæki hafi ávallt aðgang að svokallaðri forgangsraforku í kerfinu. Málið fékk efnislega umfjöllun innan nefndarinnar og fór í gegnum aðra umræðu. Við þriðju umræðu var það einróma niðurstaða atvinnuveganefndar að fresta afgreiðslu málsins fram á nýtt ár 2024.
Ekki vilji til að hækka raforkuverð til almennings en úrbóta er þörf
Það er mikilvægt að lögfesta aðgang almennings og smærri notenda að forgangsraforku tímabundið, meðan leitað er allra leiða til frekari orkuöflunar, orkunýtingar og eflingar á flutnings- og dreifikerfi raforku. Annað er ekki í boðlegt. Verkefninu er hvergi nærri lokið.
Við í Framsókn leggjum ofuráherslu á fjölbreytta þróun á endurnýjanlegri orku en að sama skapi að horft verði til hagkvæmra kosta. Ljóst er að orkunýting hefur aukist til muna ár frá ári og því miður er staðan sem upp er komin fyrirsjáanleg. Stjórnvöld verða að vera meira afgerandi og framsýnni í raforkumálum og mun atvinnuveganefnd sannarlega leggja sitt af mörkum í þeirri vegferð. Við í atvinnuveganefnd höldum áfram þar sem frá var horfið fyrir jól og það er mín trú að við náum saman góðri og farsælli niðurstöðu.
Með von í hjarta óska ég þess að bjartir og orkumiklir tímar bíði okkar á nýju ári. Gleðilegt nýtt ár.
Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar og formaður atvinnuveganefndar Alþingis.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. desember 2023.