Nýafstaðið 80 ára lýðveldisafmæli markar ákveðin tímamót í sögu þjóðarinnar sem veitir tilefni til að líta yfir farinn veg og horfa fram á við. Íslensk tunga er samofin þjóðarsálinni og lék lykilhlutverk í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Þá jafnt sem nú voru málefni tungumálsins fólki hugleikin. Á tímum sjálfstæðisbaráttunnar stóð íslenskan frammi fyrir áskorunum vegna aukinnar dönskunotkunar, sérstaklega í stjórnkerfinu og menntakerfinu. Þannig komu til að mynda lög Íslands út bæði á dönsku og íslensku, en danska útgáfan ein var undirrituð af konunginum og hafði þannig meira vægi í stjórnskipan landsins. Þessu var harðlega mótmælt af sjálfstæðissinnum landsins, þ.m.t. Jóni Sigurðssyni forseta. Með þessu fyrirkomulagi væri verið að taka af Íslendingum þeirra náttúrulega rétt, sem lifandi þjóðtunga eins og íslenskan hefði, og ættu lögin því eingöngu að vera á íslensku. Án íslenskunnar byggi um sig í landinu önnur þjóð og ókunnug eins og Jón forseti hélt fram.
Líkt og á tímum Jóns, þá stendur tungumálið okkar í dag frammi fyrir umfangsmiklum áskorunum af áður óþekktum toga. Í fyrsta lagi, þá er enskan mál tækninnar og hún er alls staðar. Börn eru komin í návígi við ensku strax við máltöku og sér málvísindafólkið okkar breytingar á máltöku barna vegna þessa. Í öðru lagi hefur Ísland breyst mikið sem samfélag á síðasta aldarfjórðungnum en innflytjendur voru um 1% fyrir 30 árum en eru í dag um 16%. Flestir hafa komið hingað í leit að betra lífi og jafnvel ýmsir sem hafa elt maka sinn hingað til lands og stofnað fjölskyldu. Meginþorri þessa fólks hefur eflt landið með nýrri þekkingu og straumum. Í þriðja lagi, þá reiðir ein stærsta útflutningsgreinin okkar sig á enska tungu í viðskiptum sínum en það á reyndar líka við um hluta sjávarútvegs og byggingastarfsemi.
Til að ná utan um þessar áskoranir þýðir ekkert annað en að sýna dugnað og metnað! Við getum sótt fram en á sama tíma varið tungumálið okkar, og náð árangri í þágu þess. Við höfum náð ákveðnum árangri, þannig hefur íslenskan sótt verulega í sig veðrið í heimi tækninnar. Stærstu tæknifyrirtæki heims hafa tekið máltæknilausnum Íslands opnum örmum og ákveðið að innleiða íslenskuna í viðmót sín. Frumkvæði okkar í þessum málum hefur vakið athygli víða. Þá samþykkti Alþingi í vor nýja aðgerðaáætlun í þágu íslenskunnar – þar eru tuttugu og tvær aðgerðir sem allar miða að því að styrkja tungumálið. Þá hefur umræða um tungumálið og þróun þess verið lifandi og almenn á undanförnum misserum, sem er vel og sýnir fram á að okkur sem þjóð er virkilega umhugað um stöðu Íslenskunnar – rétt eins og kannanir sýna. Við viljum að hér verði töluð íslenska um ókomna framtíð, og því skiptir máli að við vinnum heimavinnuna okkar vel og höldum áfram að hlúa að tungumálinu okkar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. júní 2024.