Categories
Fréttir Greinar

Stöðugleikakjarasamningar í þágu þjóðar

Deila grein

11/03/2024

Stöðugleikakjarasamningar í þágu þjóðar

Hag­sæld þjóða bygg­ist á sam­spili fjöl­margra þátta sem huga þarf að og stilla sam­an. Þar spila kjara­samn­ing­ar meðal ann­ars veiga­mikið hlut­verk. Íslenska hag­kerfið er þrótt­mikið og sag­an kenn­ir okk­ur að það á til að bregðast hratt við þegar áföll ríða yfir. Viðspyrna hag­kerf­is­ins í fram­haldi af heims­far­aldr­in­um er eng­inn und­an­tekn­ing. Hag­vöxt­ur hef­ur verið meiri en víða í ná­granna­ríkj­un­um frá því að draga tók úr áhrif­um heims­far­ald­urs­ins á ár­inu 2022.

Sam­kvæmt end­ur­skoðuðum töl­um Hag­stof­unn­ar mæld­ist hag­vöxt­ur 8,9% árið 2022 og 4,1% 2023. Þess­ar töl­ur voru tals­vert hærri en jafn­vel nýj­ustu spár gerðu ráð fyr­ir og hef­ur hag­vöxt­ur hér á landi verið með hæsta móti hjá OECD-ríkj­um.

Ísland var fljótt að jafna sig eft­ir heims­far­ald­ur­inn vegna þess þrótt­ar sem er í ís­lensku efna­hags­lífi. Að sama skapi virkuðu stuðningsaðgerðir stjórn­valda vel, eða eins og efna­hags­leg loft­brú. Ný­leg­ar leiðrétt­ing­ar Hag­stof­unn­ar á mann­fjölda­töl­um sýna jafn­framt að hag­vöxt­ur á mann hef­ur verið mik­ill og meiri en fyrstu töl­ur gerðu ráð fyr­ir, eða um 5,9% á ár­inu 2022 og 2,1% á ár­inu 2023, þannig að þær umræður sem urðu um að hag­vöxt­ur á mann væri lít­ill áttu sér ekki stoð í raun. Hag­kerfið hef­ur því í raun verið mun heit­ara en bú­ist var við.

Ný­leg­ar hag­töl­ur benda hins veg­ar til þess að jafn­vægi sé að nást, en sam­kvæmt nýj­ustu töl­um Seðlabanka Íslands var af­gang­ur á viðskipta­jöfnuði við út­lönd eft­ir nokk­urra ára hlé og hag­kerfið virðist vera að kólna hratt ef horft er til einka­neyslu. Auk­inn þjón­ustu­út­flutn­ing­ur, sem skýrist aðallega af fram­lagi ferðaþjón­ustu, hélt uppi hag­vexti á síðasta ári. Á síðustu vik­um og mánuðum hafa verið teikn uppi um að mögu­lega sé að hægja á starf­semi ferðaþjón­ustu og má einkum rekja það til áhrifa af elds­um­brot­un­um a Reykja­nesi. Þrátt fyr­ir þetta eru verðbólga og verðbólgu­vænt­ing­ar áfram þrálát­ar. Það er ljóst að það mun hægj­ast á hag­vexti á kom­andi miss­er­um eins og víða í ná­granna­lönd­un­um. Til að byggja und­ir al­menna hag­sæld er nauðsyn­legt að fara í aðgerðir sem snúa að hag­vexti til framtíðar og orku­skipt­un­um. Hag­kerfið býr yfir mun meiri fjöl­breytni en á árum áður og þarf ekki að vera áhyggju­efni þótt dragi tíma­bundið sam­an í hag­vexti. Hins veg­ar til að byggja und­ir al­menna hag­sæld fer að verða tíma­bært að hefja sam­tal um að huga að aðgerðum sem snúa að hag­vexti til framtíðar.

Lang­tíma kjara- samn­ing­ar í höfn

Nýir kjara­samn­ing­ar á al­menn­um vinnu­markaði sem und­ir­ritaðir voru til fjög­urra ára skipta hag­kerfið miklu máli. Með þeim er leiðin fram á við mörkuð í átt að bætt­um lífs­kjör­um, en stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar er að ná niður verðbólgu og þar með vöxt­um, sem mun skila sér í aukn­um kaup­mætti fólks. Eina raun­hæfa leiðin til þess að ná því mark­miði er sam­stillt átak hins op­in­bera, vinnu­markaðar­ins og pen­inga­stefn­unn­ar í land­inu. Það er já­kvætt að sam­komu­lag hafi náðst til fjög­urra ára en tíma­lengd samn­ing­anna stuðlar að aukn­um fyr­ir­sjá­an­leika á vinnu­markaði. Aðgerðir sem stjórn­völd kynntu til að greiða fyr­ir gerð kjara­samn­ing­anna eru margþætt­ar og er mark­mið þeirra að stuðla að vax­andi vel­sæld í land­inu. Um er að ræða um­fangs­mikl­ar aðgerðir sem nema allt að 80 millj­örðum króna á samn­ings­tím­an­um. Þannig hafa stjórn­völd tekið ákvörðun um að for­gangsraða fjár­mun­um rík­is­ins með skýr­um hætti í þágu stöðug­leika á vinnu­markaði næstu árin. Á sama tíma er mik­il­vægt að ríkið rýni í eig­in rekst­ur, til dæm­is með því að nýta fjár­muni bet­ur, stuðla að auk­inni hag­kvæmni hjá hinu op­in­bera og tryggja sam­keppn­is­hæfa um­gjörð um at­vinnu­lífið til þess að standa und­ir verðmæta­sköp­un fyr­ir sam­fé­lagið.

Veru­leg­ur stuðning­ur á hús­næðismarkaði

Aðgerðir stjórn­valda snerta lífs­kjör fólks með bein­um hætti. Þannig er aðgerðunum ætlað að auka ráðstöf­un­ar­tekj­ur fjöl­skyldna um að allt 500 þúsund krón­ur á ári. Þannig verður sjö millj­örðum varið í ár í sér­stak­an vaxt­astuðning til heim­ila með íbúðalán til að koma til móts við auk­inn vaxta­kostnað, en stuðning­ur­inn kem­ur til viðbót­ar al­menn­um vaxta­bót­um. Gert er ráð fyr­ir að sér­stak­ur vaxt­astuðning­ur greiðist beint inn á höfuðstól hús­næðisláns en heim­ilt verði að óska eft­ir að nýta hann til lækk­un­ar á af­borg­un­um í til­tek­inn tíma. Að sama skapi verður dregið úr íþyngj­andi hús­næðis­kostnaði leigj­enda með hærri hús­næðis­bót­um en grunn­fjár­hæðir hús­næðis­bóta til leigj­enda hækka um 25% þann 1. júní næst­kom­andi og aukið til­lit verður tekið til fjöl­skyldu­stærðar þannig að greidd­ar verða hús­næðis­bæt­ur fyr­ir allt að 6 heim­il­is­menn í stað 4 áður. Kostnaður vegna þessa er um 2,5 millj­arðar króna á árs­grund­velli. Að sama skapi verður hús­næðis­ör­yggi leigj­enda aukið og skýr­ari rammi sett­ur um ákvörðun og fyr­ir­sjá­an­leika leigu­fjár­hæðar með breyt­ing­um á húsa­leigu­lög­um auk bættr­ar ráðgjaf­ar og upp­lýs­inga til leigj­enda. Að sama skapi verður sett­ur enn meiri kraft­ur í upp­bygg­ingu íbúðar­hús­næðis á samn­ings­tím­an­um með stofn­fram­lög­um og hlut­deild­ar­lán­um til upp­bygg­ingu 1.000 íbúða á ári. Sveit­ar­fé­lög­in munu leggja til bygg­ing­ar­hæf­ar lóðir og stofn­fram­lög til að mæta upp­bygg­ing­arþörf og líf­eyr­is­sjóðum verða veitt­ar rýmri heim­ild­ir til fjár­fest­inga í íbúðar­hús­næði.

Stutt við barna­fjöl­skyld­ur

Ráðist verður í um­fangs­mikl­ar aðgerðir til þess að styðja bet­ur við barna­fjöl­skyld­ur á samn­ings­tím­an­um. Þannig verða barna­bæt­ur hækkaðar og dregið verður úr tekju­skerðing­um, sem mun fjölga þeim for­eldr­um sem fá stuðning um 10.000. Fram­lög til barna­bóta verða auk­in um 18 millj­arða króna á samn­ings­tím­an­um. Þá verða há­marks­greiðslur úr Fæðing­ar­or­lofs­sjóði hækkaðar í þrem­ur áföng­um á næstu tveim­ur árum, þann 1. apríl 2024 úr 600.000 þúsund krón­um á mánuði í 700.000 kr., frá og með 1. janú­ar 2025 í 800.000 kr. og frá og með 1. janú­ar 2026 í 900.000 kr. Það er um tíma­bæra breyt­ingu að ræða sem mun ýta und­ir aukn­ar sam­vist­ir barna með báðum for­eldr­um. Ráðist verður í sam­hent átak til að brúa bilið milli fæðing­ar­or­lofs og leik­skóla með það að mark­miði að tryggja öll­um börn­um pláss á leik­skól­um. Þá verða skóla­máltíðir grunn­skóla­barna gerðar gjald­frjáls­ar frá og með ág­úst 2024 til loka samn­ings­tím­ans.

Sam­fé­lag er sam­vinnu­verk­efni

Heim­sókn nó­bels­verðlauna­haf­ans Jós­efs Stig­litz í síðustu viku minnti okk­ur á hvað sú efna­hags­skip­an sem við búum við á Íslandi hef­ur reynst gæfu­rík. Þó að okk­ur greini á um ýmis mál varðandi stjórn efna­hags­mála og skipt­ingu gæða höf­um við sem þjóðfé­lag náð sam­stöðu um fjár­fest­ingu í al­manna­gæðum, mennt­un, sjúkra­trygg­ing­um og fé­lags­lega kerf­inu og með sam­vinnu náð að skapa grund­völl fyr­ir fram­sækið markaðshag­kerfi þar sem frelsi ein­stak­lings­ins er í for­grunni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2024.