Íslenskt menningarlíf hefur átt góðu gengi að fagna og fer hróður þess um víða veröld. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér. Hér á landi hefur verið almennt breið sátt um það að hlúa að menningarlífinu með því að fjárfesta í listnámi, tryggja aðgang að slíku námi, styðja við grasrótarsamtök í menningarlífinu og skapa vettvang fyrir listamenn til þess að hlúa að frumsköpun. Þar hafa starfslaun listamanna þjónað sem mikilvægt verkfæri til að efla menningarstarf í landinu. Listamannalaun í einhverju formi eru rótgrónari en margan grunar, en saga þeirra nær allt aftur til 1891 þegar Alþingi samþykkti að veita skáldalaun. Umgjörð þeirra var fyrst formgerð með lagasetningu árið 1967 þegar lög um listamannalaun voru samþykkt og síðar voru uppfærð árin 1991 og 2009.
Árlegur kostnaður við listamannalaun er 978 milljónir króna. Til að setja þá tölu í samhengi er um að ræða 1,5% af útgjöldum til háskólastigsins og 0,06% af fjárlögum ársins 2024.
Nýverið voru kynntar tillögur til breytinga á listamannalaunum þar sem lagt var upp með að fjölga þeim í skrefum til ársins 2028, en engar breytingar hafa átt sér stað á kerfinu í 15 ár. Eru boðaðar breytingar gerðar í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar sem fram kemur í stjórnarsáttmála, að unnið skuli að því að styrkja faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna. Þær eru því eðlilegt skref og forgangsraðað verður í þágu þeirra á málefnasviði menningarmála innan menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Í breytingunum felst meðal annars að komið verði á fót tveimur nýjum þverfaglegum sjóðum; Vexti sem er sjóður sem ætlaður er fyrir listamenn undir 35 ára aldri, og Vegsemd, sjóði fyrir listamenn yfir 67 ára aldri. Vexti er ætlað að styðja sérstaklega við unga listamenn sem hafa ekki enn skapað sér styrka stöðu innan sinnar listgreinar og er m.a. ætlað að mæta þeirri gagnrýni sem heyrst hefur, að lítil nýliðun sé innan kerfisins. Að sama skapi er Vegsemd sérstakur, þverfaglegur sjóður fyrir eldri listamenn sem hafa varið sinni starfsævi til listsköpunar.
Ég tel eðlilegt að við stöndum með listafólkinu okkar í blíðu jafnt sem stríðu, enda er menning eitthvað sem sameinar okkar – sérstaklega þegar vel gengur. Öll fyllumst við til að mynda stolti þegar íslenskum listamönnum gengur vel á erlendri grundu og kastljós umheimsins beinist að landinu vegna þess. Dæmi er um listamenn sem hlotið hafa eftirsóttustu verðlaun heims á sínu sviði sem á einhverjum tímapunkti þáðu listamannalaun á ferli sínum til þess að vinna að frumsköpun sinni. Ísland er auðugra og eftirsóttara land fyrir vikið, fyrir okkur sjálf sem hér búum og alla þá gesti sem hingað koma.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. apríl 2024.