Categories
Greinar

Loksins, loksins!

Tími innviðafjárfestinga er runninn upp og því eru spennandi tímar fram undan. Við blásum til stórsóknar! Nýr þjóðarleikvangur mun ekki einungis þjóna landsliðum okkar heldur einnig íslenskum félagsliðum og samfélaginu öllu. Við sjáum fyrir okkur nýjan og glæsilegan vettvang fyrir fótboltaleiki, sýningar, viðburði og tónleikahald. Áfram Ísland!

Deila grein

12/11/2020

Loksins, loksins!

Það er tákn­rænt að á­kvörðun um mikil­væg skref við upp­byggingu nýs þjóðar­leik­vangs skuli liggja fyrir á sama tíma og þjóðin heldur í sér andanum vegna stór­leiksins í Ung­verja­landi í kvöld. Hvort tveggja markar tíma­mót – vatna­skil sem í­þrótta­fólk og -unn­endur hafa beðið eftir.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að hefja formlegar viðræður við Reykjavíkurborg um næstu skref í undirbúningsferlinu. Meðal annars þarf að semja um fyrirkomulag útboðs á helstu verkþáttum, verkefnisstjórn, hönnun, eignarhald og fjármögnun. Ég er bjartsýn á góða lendingu og að leikvangur 21. aldarinnar rísi innan fárra ára.

Lengi hefur verið ljóst að reisa þyrfti keppnisaðstöðu sem stæðist alþjóðlegar kröfur. Undanfarin 63 ár hefur Laugardalsvöllur fært þjóðinni ógleymanleg augnablik og þar hafa landsliðin okkar náð undraverðum árangri. Um árabil hefur völlurinn hins vegar þurft undanþágur og sérstakan viðbúnað vegna keppnisleikja í alþjóðlegum mótum, með ærnum tilkostnaði. Völlurinn uppfyllir til dæmis ekki viðmið um aðgengi fatlaðs fólks, aðstöðu og öryggi vallargesta, leikmanna, dómara og fjölmiðla. Hann er barn síns tíma og það er tímabært að blása til sóknar.

Það er fagnaðarefni að málið sé loksins komið á hreyfingu og nú skuli hilla undir nýjan leikvang. Starfshópur hefur skilað greiningu á ólíkum sviðsmyndum, kostum, göllum, ávinningi og áhættu af ólíkum leiðum. Niðurstaðan er sú að 15.000 manna leikvangur án þaks sé hagkvæmasti kosturinn, ef eingöngu sé horft til beinna fjárhagslegra þátta. Hins vegar myndi slíkur leikvangur með opnanlegu þaki skila bestu heildarniðurstöðunni með tilliti til nýtingar og fleiri þátta. Nú þurfa stjórnvöld og Reykjavíkurborg að tækla verkefnið með ákveðni og af stórhug, spila sóknarleik og klára færið.

Tími innviðafjárfestinga er runninn upp og því eru spennandi tímar fram undan. Við blásum til stórsóknar! Nýr þjóðarleikvangur mun ekki einungis þjóna landsliðum okkar heldur einnig íslenskum félagsliðum og samfélaginu öllu. Við sjáum fyrir okkur nýjan og glæsilegan vettvang fyrir fótboltaleiki, sýningar, viðburði og tónleikahald. Áfram Ísland!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birist fyrst í Fréttablaðinu 12. nóvember 2020.