Garðyrkjuskólinn á Reykjum hefur í rúm 80 ár verið bakbeinið í íslensku garðyrkjunámi. Skólinn hefur menntað fólk til starfa í garðyrkjutengdum atvinnugreinum og skapað þekkingu sem hefur sjaldan verið mikilvægari en nú.
Þegar Landbúnaðarháskóli Íslands tók til starfa árið 2005 var starfsemi Garðyrkjuskólans færð undir hinn nýja skóla, að frumkvæði Garðyrkjuskóla ríkisins. Starfsemin hélt áfram á Reykjum, en yfirstjórn skólans færðist til Hvanneyrar. Ætluð samlegð af háskólastarfsemi LBHÍ og framhaldsskólastarfsemi Reykja hefur hins vegar ekki raungerst, enda hefur komið á daginn að þarfirnar eru ólíkar. Lykilfólk hefur talið að skólarnir eigi ekki lengur samleið og ætlaður ávinningur af nánu samstarfi hefur því ekki gengið eftir að öllu leyti.
Fulltrúar garðyrkjunnar hafa kallað eftir breytingum á núverandi fyrirkomulagi og því fól ég sérfræðingum ráðuneytisins að kanna málið vandlega og gera tillögur, ef slíkra reyndist þörf. Útgangspunkturinn var að tryggja sem best starfsemina á Reykjum, starfsöryggi þeirra sem þar starfa og hagsmuni nemenda. Að vel athuguðu máli var ákveðið að efla námið á Reykjum, skilja það frá LBHÍ og vinna með Fjölbrautaskóla Suðurlands – einum öflugasta starfsmenntaskóla landsins. Við þá breytingu þarf að huga vel að stjórnsýslureglum, faglegum kröfum til menntastofnana, fjárveitingum til starfseminnar og réttindum starfsfólks og nemenda.
Við undirbúning breytinganna þarf að huga að starfsöryggi og fjölda stöðugilda á Reykjum og vissa að skapast um fjármögnun garðyrkjunámsins. Tryggja þarf afnot af jarðnæði og eignum, bæta aðgengi nemenda að aðstöðu til verklegrar kennslu og fjárfesta til framtíðar. Þá felast óteljandi tækifæri í samstarfinu við aðrar deildir Fjölbrautaskólans, þar sem garðyrkjunemar geta stundað viðbótarnám í öðrum greinum og öfugt. Samband Fjölbrautaskólans við atvinnulíf á Suðurlandi er sterkt og við blasir að nemendur á Reykjum njóti góðs af frábæru starfi og nýsköpun einkarekinna gróðrarstöðva á Suðurlandi. Undirbúningur breytinga gengur vel og þarfagreiningar skólanna liggja fyrir, en þær hafa m.a. verið unnar með fulltrúum Garðyrkjuskólans og atvinnulífi garðyrkjunnar.
Nokkur umræða hefur skapast um Reyki á undanförnum misserum og m.a. hafa stjórnmálamenn kvatt sér hljóðs með greinaskrifum og fyrirspurnum. Ég fagna auknum áhuga á málinu, enda er það markmið allra málsaðila að tryggja viðveru og vöxt hins glæsilega menntastarfs sem fram fer á Reykjum. Ábendingar nemenda og kennara eru jafnframt gott innlegg í samvinnuna, sem er í fullum gangi, svo hinir sögufrægu Reykir muni blómstra um ókomna tíð.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. mars 2021.