Categories
Greinar

Umferðaröryggi stóreflt!

Deila grein

25/05/2023

Umferðaröryggi stóreflt!

Þann 8. apríl 2020 skrifuðu fulltrúar Vegagerðarinnar og Íslenskra aðalverktaka undir samning um annan áfanga breikkunar Suðurlandsvegar á milli Selfoss og Hveragerðis. Verkinu átti skv. þeim samningi að ljúka haustið 2023.

Í dag er Suðurlandsvegur orðinn tvöfaldur að stórum hluta en hér er um að ræða nýbyggingu Hringvegarins að hluta og breikkun og endurgerð að hluta á alls 7,1 km kafla. Á þeim kafla sem um ræðir hafa fjölmörg og alvarleg slys átt sér stað í gegnum tíðina. Umferðarþungi mikill og fjölmargir leggja leið sína um hann á degi hverjum til dæmis til vinnu eða í frí austur fyrir Hellisheiði. Markmið framkvæmdarinnar var að bæta umferðaröryggi og tryggja greiðari samgöngur um Suðurlandsveg. Framkvæmdin hefur óneitanlega mikil og jákvæð áhrif á samfélagið í heild á Suðurlandi.

Slysatíðni á Suðurlandsvegi hefur verið mikil undanförnum árum og alvarleg umferðarslys verið fleiri en við kærum okkur um. Ferðamenn leggja leið sína á Suðurlandið og samfélagið austan Hellisheiðar er sívaxandi og tækifærin fjölmörg sem þar eru. Fólksfjölgun mikil og stór hluti þeirra sem hafa flutt þangað m.a. sækja störf á Höfuðborgarsvæðið. Það skiptir fólk máli að upplifa öryggi á vegunum okkar og það hefur verið talið grundvöllur að stækkandi vinnusóknarsvæði víða um land. Þar af leiðandi fagna ég því að þessi framkvæmd sé orðin að veruleika en ekki stóð til að hleypa umferð inn á nýja vegarkaflann fyrr en í haust. Nú er svo komið að vegurinn hefur verið formlega opnaður og er verkefnið því um það bil 3 mánuðum á undan áætlun.

Ölfusárbrúin

Þessu til viðbótar mun ný Ölfusárbrú verða að veruleika því þann 6. mars sl. óskaði Vegagerðin eftir þátttakendum í alútboð vegna byggingar nýrrar brúar á Ölfusá ásamt aðliggjandi vegum, vegamótum, brúm og undirgöngum en stefnt er að því að klára verksamning um verkefnið fyrir lok þessa árs. Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að framkvæmdirnar taki rúmlega tvö ár og því hægt að áætla að öllu óbreyttu að Sunnlendingar fái að keyra um nýja Ölfusárbrú árið 2026. Þar er annar áfangi sem beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu og því ánægjulegt að það verkefni sé komið af stað.

Umferðaröryggi er forgangsmál

Það er augljóst að frá því að Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra tók við samgöngumálunum hér á landi hefur umferðaröryggi aukist til muna en það hefur verið forgangsmál ráðherra og okkar í Framsókn. Við erum hvergi nærri hætt á þessari vegferð og haldið verður stöðugt áfram að bæta samgöngur hér á landi með umferðaröryggi í forgrunni í þeirri vinnu. Ég má til að senda þakkir til Sigurðar Inga, innviðaráðherra, fyrir hans ötulu baráttu í þágu umferðaröryggis og einnig vil ég hrósa öllum þeim sem að verkinu stóðu. Það hefur verið virkilega aðdáunarvert að keyra í gegnum framkvæmdasvæðið á hverjum degi og finna á eigin skinni þær umbætur sem hafa orðið á veginum. Þetta er verkefni sem markar tímamót í vinnu okkar að auknu umferðaröryggi í landinu við finnum öll fyrir umbótum sem þessum.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 25. maí 2023.