Það er þroskaferli að eldast, ferli þar sem margir upplifa aukinn tíma til að sinna áhugamálum og því sem skiptir hvern og einn mestu máli í lífinu. Á síðustu áratugum hefur þetta ferli og æviskeið eldra fólks lengst svo um munar og aldurssamsetning þjóðarinnar tekið miklum breytingum. Þessi þróun felur í sér stórar áskoranir fyrir íslenskt samfélag, áskoranir sem nauðsynlegt að bregðast við.
Bandaríski rithöfundurinn Betty Friedan sagði eitt sinn að það að eldast ætti að vera ævintýri, ekki vandamál. Því miður er allt of algengt að litið sé á hækkandi aldur þjóðarinnar og aukna þörf eftir þjónustuúrræðum fyrir eldra fólk sem vandamál. Birtist þetta ekki síst því að málaflokknum hefur ekki verið forgangsraðað hingað til og að framtíðarsýn og heildarstefnu í málefnum eldra fólk hefur skort. Afleiðing þessa er lífsgæðaskerðing eldra fólks, aukið álag á aðstandendur, minni starfsgeta en tilefni er til og svo framvegis. Þörf er fyrir aukna fjölbreytni og öflugri þjónustu sem gerir eldra fólki kleift að búa sem lengst á eigin heimili með reisn og veitir því möguleika á að upplifa þau ævintýri sem það kýs.
Staðan í málaflokki eldra fólks kallar á stórtækar breytingar. Nauðsynlegt er að skoða þau þjónustukerfi og úrræði sem standa til boða, samspil þeirra og samþættingu og ábyrgð ólíkra aðila. Hér duga engin vettlingatök, þörf er fyrir aðgerðir og kerfisbreytingar byggðar á sama grunni og unnar voru í málefnum barna á líðandi kjörtímabili af Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra. Ásmundi Einari hef ég kynnst í gegnum störf mín hjá Landssambandi eldri borgara og hef séð hvernig hann tæklar verkefnin af krafti og af heilindum. Ég treysti honum því fullkomlega til að leiða þessa vinnu og hlakka til að taka slaginn með honum.
Brjótum upp kerfi – fjárfestum í fólki!
Á komandi kjörtímabili leggur Framsóknarflokkurinn áherslu á að ráðist verði í endurskipulagningu á málaflokknum út frá grunngildum aldursvæns samfélags, samþættingu og persónumiðaðri þjónustu. Við leggjum áherslu á að útrýma „gráum svæðum“ í þjónustu við eldra fólk og að öll þjónusta byggist á faglegu mati á einstaklingsbundinni þörf. Við ætlum okkur að samþætta þjónustu í heimahús, þátttöku og virkni aldraðra samhliða þess sem við ætlum okkur að efla lýðheilsu og forvarnir. Við ætlum okkur að tryggja heildstæðari endurhæfingu og aukinn sveigjanleika í þjónustu, má þar til dæmis nefna dagþjálfun.
Við ætlum að gera stórátak í uppbyggingu heimilishjálpar, heimahjúkrunar og dagþjálfunarrýma. Þörf er fyrir að bæta og fjölga endurhæfingarúrræðum og skapa fjölbreyttari þjónustu sem styður eldra fólk til að búa heima hjá sér sem lengst, en með því móti að það haldi sjálfstæði sínu, reisn og virðingu. Samhliða þessu er mikilvægt að skoða þeim tækifærum sem felast í betri nýtingu fjölbreyttrar velferðartækni.
Á næsta kjörtímabili ætlum við enn fremur að samræma upplýsingakerfi og byggja upp öfluga upplýsingagátt. Með henni verður miðlæg gátt fyrir umsóknir um þjónustu hins opinbera innleidd. Notendur munu þannig ekki þurfa að sækja um þjónustu á mörgum stöðum heldur gegnum eina þjónustugátt og gegnum hana fengi viðkomandi viðeigandi þjónustu á hverjum tíma.
Lífskjör eldra fólks
Á næsta kjörtímabili ætlum við í Framsókn að beita okkur fyrir að hækka almenna frítekjumarkið í skrefum. Við viljum mæta þeim verst stöddu og horfum þar sérstaklega til húsnæðismála en flestir þeir sem búa við bág kjör búa í mjög skuldsettu húsnæði eða greiða háa leigu.
Við viljum samræma umsóknagátt almennra og sérstakra húsnæðisbóta. Framsókn vill að farið verði í heildarendurskoðun á húsnæðismálum með það að leiðarljósi að finna leiðir til að hjálpa þeim verst stöddu, ásamt því að afnema frítekjumark atvinnutekna og endurskoða lög um starfslok ríkisstarfsmanna. Ásmundur Einar hefur sýnt að hann getur og vill koma í gegn stórum kerfisbreytingum. Saman ætlum við að umbylta málefnum eldra fólks og fjárfesta í fólki. Við erum nefnilega rétt að byrja.
Ásmundur Einar Daðason og Þórunn Sveinbjörnsdóttir.
Höfundar skipa fyrsta og þriðja sæti á lista Framsóknar í Reykjavík norður.