Categories
Greinar

Að dansa í kringum gullkálfinn

Deila grein

10/11/2022

Að dansa í kringum gullkálfinn

Íbúar þessa lands hafa á síðustu misserum og árum tekist á við fordæmalausa tíma og aðstæður. Alheimsfaraldur skall á með harkalegum afleiðingum fyrir ríki heims þar sem fjölskyldur, heimili og fyrirtæki kljást enn við afleiðingarnar.

 Í kjölfarið kom svo stríð í Evrópu, eitthvað sem flest okkar töldu heyra sögunni til og nær óhugsandi að slíkur atburður gæti endurtekið sig. Ég tel því rétt, í ljósi þess, að höfða hér til samvisku banka og tryggingafélaga sem með aðgerðum sínum og stefnu geta haft mikil áhrif á lífskjör fólks í landinu.

Kjaraviðræður

Fram undan eru kjaraviðræður og allar líkur eru á að þær verði nokkuð þungar. Samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ hefur hækkun útgjalda hjá fjögurra manna fjölskyldu í eigin húsnæði numið allt að 128.607 krónum á mánuði ef miðað er við útgjöld hennar frá fyrra ári. Þetta eru verulega, verulega háar tölur, og til það sé hægt að fleyta íslenskum fjölskyldum í gegnum núverandi ástand þarf meira til en að ríkið komi inn með aðgerðir. Hér þurfa allir að líta í sinn eigin barm og hugsa með sér hvað hægt sé að gera til að koma samfélaginu öllu á þann stað sem við viljum vera. Þá tel ég rétt að horfa sérstaklega til þeirra sem oft eru kölluð breiðu bökin í daglegu tali.

Iðgjöld hafa hækkað…

Iðgjöld tryggingafélaga hafa hækkað mikið á síðastliðnum árum á sama tíma og tryggingafélög sitja á milljarða bótasjóði. Ábyrgð tryggingarfélaga á heimils bókhald íslenskra heimila er mikil. Í samtölum mínum við fólk hef ég heyrt að ekki sé óeðlilegt að fjölskyldur séu að greiða á bilinu 40-55 þúsund krónur á mánuði fyrir líf-, bíla og heimilistryggingar. Það sjá allir sem sjá vilja að hér er um að ræða verulegar upphæðir þegar þær eru settar í samhengi við önnur útgjöld sem meðaltalsfjölskyldan þarf að greiða. Þá tek ég sérstaklega út barnafjölskyldur sem fyrir utan að greiða af húsnæðislánum eða leigu þurfa einnig að greiða leikskólagjöld, fæðiskostnað í skólum, íþróttaæfingar o.s.frv. Það getur ekki verið að við ætlum okkur að stefna þangað sem samfélag að tryggingar séu aðeins á færi þeirra efnameiri.

…Og bankarnir skila miklum hagnaði

Þá birtu Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki uppgjör sitt í október vegna fyrstu níu mánaða ársins. Þar kemur fram að samanlagður hagnaður þeirra á tímabilinu var 50,2 milljarðar króna. Það má segja það með kaldhæðni að það sé vissulega minni hagnaður en árið á undan en arðsemin er yfir markmiði hjá öllum nema Landsbankanum sem stendur þó alveg ágætlega.

Í þessu samhengi er þó ánægjulegt að segja frá því að menningar- og viðskiptaráðherra hefur skipað vinnuhóp til að greina gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna. Tilgangur þessarar vinnu er að kanna hlut þjónustu- og vaxtagjalda, vaxtamun og hvers konar aðra gjaldtöku af viðskiptavinum í arðsemi bankanna. Markmiðið er að sjá svart og hvítu hvort íslensk heimili greiði meira fyrir almenna viðskiptabankaþjónustu en önnur heimili á Norðurlöndunum. Ég bind miklar vonir við þessa vinnu, því ef auka á samkeppnishæfni landsins þá þarf rekstur heimilanna í landinu að vera samkeppnishæfur.

Að lokum, fer ekki betur á því að þessi stöndugu fyrirtæki myndu stíga ölduna með almenningi í landinu í stað þess að dansa í kringum gullkálfinn.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Römpum upp umræðuna

Deila grein

04/11/2022

Römpum upp umræðuna

Í nýlegri kjördæmaviku hittu þingmenn sveitarstjórnarfólk og fólk víða að úr samfélaginu. Ég hef ávallt haft það sem vinnureglu, hvort sem það var á tíma mínum sem sveitarstjórnarfulltrúi í Hafnarfirði eða nú sem þingmaður fyrir Suðvesturkjördæmi, að heimsækja fólk og fyrirtæki á þeirra heimavelli. Fara út á örkina og heyra hvað fólki býr í brjósti. Það er ýmislegt sem liggur fólki á hjarta og það er mikilvægt að vera meðvitaður um að allar ákvarðanir sem teknar eru hjá ríki og sveitarfélögum séu fyrir samfélagið. Ákvarðanir sem slíkar koma ekki með kalda vatninu heldur eru þær teknar með pólitískum áherslum. Uppspretta hugmynda sem síðar verða að ákvörðunum byrja í samtölum við fólk. Því stjórnmálaákvarðanir móta samfélagið og snerta flesta þætti lífs okkar á einn eða annan hátt.

Sveitarfélög sinni nærþjónustu

Umræða um vanfjármögnun málaflokks fatlaðs fólks hefur farið hátt síðustu vikur. Þjónusta við fatlað fólk er nærþjónusta sem á að vera á höndum sveitarfélaga, það þekki ég á eigin skinni. Það er vissulega staðreynd að kostnaður við málaflokkinn hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum og ofan á ýmislegt annað, gert rekstur sveitarfélaga þyngri. Staðreyndin er sú að sveitarfélög eru misvel rekin og í sumum tilfella hafa þau einfaldlega verið rekin mjög illa á undanförnum árum og mega því við litlu. Það gleymist oft í umræðunni um fjármál sveitarfélaga að þau eiga að leggja áherslu á að sinna lögbundinni skyldu en ekki gælu verkefnum, lögbundin skylda á ávallt að standa framar öðrum verkefnum. Vissulega hefur þjónusta í málaflokki fatlaðs fólks aukist við flutning hans yfir til sveitarfélaga og kostnaður þar með. Það gerist með meiri nánd og einungis hægt að líta á aukna þjónustu sem framfaraskref. Við sem samfélag hljótum öll að vera sammála um það að veita fötluðu fólki betri þjónustu en gert var hér á árum áður.

Við þurfum að bera virðingu fyrir fólki

Hins vegar ber okkur skylda til þess að fjármagna þessa þjónustu svo vel sé og koma í veg fyrir að kostnaðurinn sligi sveitarfélögin í landinu. Nokkur sveitarfélög hafa haldið þeirri umræðu uppi að skila eigi þjónustu við fatlað fólk aftur til ríkisins. Um slíkan málflutning hef ég þetta að segja; mikilvægt er að í allri umræðu um málaflokk fatlaðs fólks að umræða sé vönduð og af virðingu við það fólk sem þarf á þjónustunni að halda. Á bak við málaflokkinn er fólk, fólk sem á rétt á að njóta sömu lífsgæða og geta gert sömu hluti og okkur flestum þykir svo sjálfsagðir. Það er ekki boðlegt að nota fatlað fólk í pólitískum tilgangi og sem vopn í deilum milli ríkis og sveitarfélaga um meira fjármagn. Þar þurfum við að rísa upp og bera ábyrgð, þau sem raunverulega það gera; sveitarstjórnarfólk og þingmenn.

Höldum umræðunni þar sem hún á heima, það er ótækt að fatlað fólk búi við áhyggjur og upplifunin sé að þau séu baggi á sveitarfélögum. Höldum áfram samtalinu en vöndum til verksins.

Ágúst Bjarni Garðarsson, Alþingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Fram­sóknar­leiðin við stjórnar­skrár­breytingar

Deila grein

20/10/2022

Fram­sóknar­leiðin við stjórnar­skrár­breytingar

Síðustu ár hefur mikið verið deilt um breytingar á stjórnarskránni, sitt sýnist hverjum í þeim málum og engin hefur verið niðurstaðan. Við höfum aðila hér í samfélaginu sem vilja engar breytingar gera og þá höfum við háværan hóp sem talar um hina „nýju stjórnarskrá“ og sættir sig við ekkert minna. Á meðan heldur hinn þögli hópur á miðjunni sig til hlés vegna ótta um að dragast inn í öfgafullar umræður sem hann nennir ekki að standa í. Ekkert hefur rekið eða gengið í umræðum um stjórnarskrárbreytingar jafnvel þó að heiðarlegar tilraunir hafi verið gerðar til þess að bæta við mikilvægum ákvæðum.

Það þarf að höggva á hnútinn

Tíu ár eru liðin frá því að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla að nýrri stjórnarskrá fór fram, og staðreyndin er sú að ekki var tekin afstaða um þá atkvæðagreiðslu á Alþingi á þeim tíma. Um hvers vegna það var ekki gert er hægt að deila um til eilífðar. En í staðinn fyrir að halda áfram að deila fram og til baka um „hina nýju stjórnarskrá“ næstu tíu ár án þess að nokkuð þokist áfram þurfum við að finna leið til þess að halda áfram. Staðreyndin er sú að hin „nýja stjórnarskrá“ nýtur ekki vinsælda, það hafa niðurstöður kosninga til Alþingis borið með sér. Fyrir einhverja er þetta erfiður biti að kyngja en eina leiðin áfram er að stíga út úr bergmálshellinum og tala saman.

Framsóknarleiðin hefur gefist vel í íslenskum stjórnmálum, það er að mætast á miðjunni og ná samtali um þau atriði sem við erum sammála um. Framsóknarleiðin grundvallast á samvinnuhugsjóninni; að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman og aukið styrk sinn. En samvinna byggist ekki aðeins á trausti milli aðila heldur einnig á góðum og málefnalegum umræðum sem leiðar til farsælla niðurstaðna.

Við erum sammála um auðlindaákvæði

Samkvæmt niðurstöðum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslunnar fyrir tíu árum vildu fleiri aðilar fá inn auðlindaákvæði í stjórnarskránna heldur en að leggja tillögur stjórnlagaráðs sem grundvöll að nýrri stjórnarskrá. Staðan hefur lítið breyst með það, staðreyndin er sú að mikill meirihluti Íslendinga vill auðlindaákvæði í stjórnarskránna. Íslenska þjóðin vill að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni. Hér erum við með atriðið sem flest allir eru sammála um og með samvinnuhugsjónina að vopni ættum við að geta leitað leiða til þess að koma þessu mikilvæga ákvæði inn í stjórnarskrá lýðveldisins í stað þess að grafa skotgrafir á sitthvorum endanum. Við getum byrjað á þessu mikilvæga ákvæði og síðan haldið áfram með samtalið, því við vitum að með stöðnun leysast engin mál.

Framtíðin ræðst á miðjunni

Við í Framsókn skorumst ekki undan þegar kemur að mikilvægum breytingum á stjórnarskránni, en við höfnum öllum öfgum hvort sem þeir eru til hægri eða vinstri. Framtíðin er á miðjunni og þar getum við sameinast um að koma mikilvægum málum áfram. Þjóðinni allri til heilla.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birist á visir.is 20. október 2022.

Categories
Greinar

Þjónustu- og þekkingar­mið­stöð fyrir ein­hverfa

Deila grein

19/10/2022

Þjónustu- og þekkingar­mið­stöð fyrir ein­hverfa

Hér á landi greinast árlega einstaklingar með einhverfu eða raskanir á einhverfurófi. Einhverfa er röskun í taugaþroska sem kemur jafnan fram snemma í barnæsku. Einhverfa er yfirleitt meðfædd og til staðar alla ævi en kemur fram með ólíkum hætti allt eftir aldri, þroska og færni og sökum þess hve einhverfa er margbreytileg er oft talað um einhverfuróf. Hægt er að hafa áhrif á framvindu einhverfu með markvissum aðgerðum, sérstaklega snemma á lífsleiðinni.

Nokkuð er um að einstaklingar greinist á fullorðinsárum með einhverfu og þá oft í framhaldi af kulnun eða í kjölfarið á geðrænum vanda. Þegar einstaklingur hefur fengið greiningu á einhverfurófi er mikilvægt að einstaklingurinn og fjölskyldan fái fræðslu um einhverfurófið og aðferðir sem gætu hentað þeim vel. Auk þess er mikilvægt ef um leik- eða grunnskólabarn er að ræða að samvinna milli heimilis og skóla sé góð. Nokkar stofnanir koma að málefnum einhverfra en þær eru Barna og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Sjúkratryggingar Íslands, Tryggingastofnun og Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þess utan hafa Einhverfusamtökin stuðlað að upplýsingagjöf og aðstoð til þeirra sem greinast með einhverfu og aðstandenda þeirra. Nauðsynlegt er að einstaklingar með einhverfugreiningu séu teknir með þegar unnið er eftir samn­ingum Sam­ein­uðu þjóð­anna um rétt­indi fatl­aðs fólks og öðrum mann­rétt­inda­sátt­mál­um. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa getur verið liður í þeirri vinnu.

Ég hef nú lagt fram þingsályktun ásamt fleiri þingmönnum um að komið verði á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa þar sem öll sú þekking sem til er um einhverfu verði dregin saman á einn stað og börn jafnt sem fullorðnir geti fengið þjónustu með þeirra þarfir í huga. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa hefði það verkefni að veita þjónustu á sviði ráðgjafar, hæfingar og endurhæfingar ásamt því að afla og miðla þekkingu á aðstæðum einhverfra í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum. Þá væri verkefni hennar einnig að hafa yfirsýn yfir aðstæður þeirra sem eru einhverfir og gegna samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum sem veita umræddum notendum þjónustu. Auk þess væri hlutverk þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar að sinna fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við aðstandendur, skóla og aðrar þjónustustofnanir.

Ávinningurinn af þjónustu- og þekkingarmiðstöð sem þessari væri að einhverfir, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna og aðstandendur þeirra, sem og skólar og vinnustaðir geti sótt upplýsingar um alla þá aðstoð sem stendur þeim til boða ásamt því að fá leiðbeiningar og fræðslu. Þá skiptir einnig máli að bæta almenna fræðslu til samfélagsins til þess að auka skilning og bæta viðmót gagnvart einhverfum. Þannig má bæta lífsgæði þeirra sem greinast með einhverfu ásamt því að rjúfa mögulega einangrun.

Ágúst Bjarni Garðarsson, er þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist á visir.is 19. október 2022.

Categories
Greinar

Keppnis- og af­reks­í­þrótta­fólk lifir ekki á loftinu

Deila grein

14/09/2022

Keppnis- og af­reks­í­þrótta­fólk lifir ekki á loftinu

Keppnis- og afreksíþróttafólk á oft og tíðum erfitt með að fá vinnu við hæfi samhliða íþróttaiðkun vegna þess að fyrirtæki veigra sér við að ráða starfsmenn sem þurfa að vera frá vegna tíðra æfinga eða keppnisferða. Afleiðingarnar eru að keppnis- og afreksíþróttafólk stendur frammi fyrir því erfiða vali hvort það vilji halda áfram að æfa og keppa í sinni íþrótt með tilheyrandi óvissu um framfærslu.

Skattalegir hvatar til launagreiðenda

Til þess að reyna að bregðast við þessum vanda hefur undirritaður ásamt öðrum þingmönnum Framsóknar lagt fram þingsályktunartillögu sem hefur það að markmiði að skapa hvata með skattkerfinu fyrir fyrirtæki til þess að ráða til starfa hjá sér keppnis- og afreksíþróttafólk. Þessi tillaga kemur ekki í staðinn fyrir hugmyndir um laun og styrki frá ríkinu til afreksíþróttafólk, heldur frekar til stuðnings við þær hugmyndir. Mikilvægt er að finna leiðir sem nýtast bæði þeim sem eru í keppnisíþróttum innanlands sem og afreksíþróttum. Í tillögunni er mennta- og barnamálaráðherra í samvinnu við fjármála og efnahagsráðherra falið að skipa starfshóp sem fái það verkefni að útfæra skattalega hvata til launagreiðanda hvort sem er á opinberum eða almennum markaði vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Markmiðið er að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og launagreiðandi fái skatta ívilnun á móti greiddum launum.

Það skiptir máli að fá laun

Með takmörkuðum tekjum nær íþróttafólk ekki að ávinna sér full lífeyrisréttindi, atvinnuleysisbætur eða rétt til fæðingarorlofs. Það að bæta við fjárhagsáhyggjum ofan á að byggja upp feril í íþróttum er ekki hvetjandi og síst til þess fallið að fjölga efnilegu íþróttafólki hérlendis. Á þetta bæði við um einstaklinga sem eru í innlendum keppnisíþróttum, upprennandi afreksíþróttafólk og sem og núverandi afreksíþróttafólk.

Íslenskt íþróttafólk, þá sér lagi afreksíþróttafólk hefur um árabil kallað eftir því að geta helgað sig sinni íþróttagrein til þess að standast betur alþjóðlega keppni, upprennandi afreksíþróttafólk sem og annað keppnisíþróttafólk þarf að fá betri stuðning annars getur verið erfitt fyrir þau að ná tilætluðum árangri.

Íþróttafólk eru fyrirmyndir

Með hvata sem þessum hafa fyrirtæki bæði aukin sveigjanleika til þess að koma til móts við mismunandi þarfir og aðstæður íþróttamanna sem og aukin hvata til þess. Með því að styðja við keppnis- og afreksíþróttafólk með þessum hætti er jafnframt verið að styðja við lýðheilsu í landinu. Ekki þarf að fjölyrða um hversu mikilvægt það er fyrir okkur sem þjóð að geta státað okkur af fjölbreyttu og efnilegu keppnis- og afreksíþróttafólki. Forvarnargildi íþrótta er ótvírætt og mikilvægt er að börn og ungmenni eigi sér öflugar fyrirmyndir en rannsóknir hafa sýnt fram á að þátttaka í íþróttum hefur m.a. jákvæð áhrif á námsárangur, sjálfsmynd, sjálfsvirðingu, líkamsmynd, heilsu og almenna líðan. Með því að styðja við keppnis- og afreksíþróttafólk eignumst við fleiri fyrirmyndir og stærri hóp af öflugu íþróttafólki.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Categories
Greinar

Staða Íslands sterk í orkumálum

Deila grein

08/09/2022

Staða Íslands sterk í orkumálum

Við bæði sjáum og finnum á eigin skinni að hagkerfi heimsins eiga nú við ramman reip að draga í baráttunni við háa verðbólgu. Orkuverð í Evrópu hefur sjaldan verið hærra og ógnar það fjármálastöðugleika í álfunni. Verðbólguspár í Evrópu fara hækkandi og er því eins farið á Íslandi þar sem hátt húsnæðisverð og einkaneysla hafa drifið verðbólguna áfram. Þrátt fyrir að hafa séð örlitla verðbólgulækkun hér á landi í lok ágústmánaðar, er full snemmt að lýsa yfir sigri.

Orkumál í Evrópu í afar erfiðri stöðu

Staðan í orkumálum á Íslandi er góð, sérstaklega ef tekið er mið af stöðu þessara mála í Evrópu. Þar eru þó nokkur ríki að grípa til neyðaraðgerða til að bregðast við hækkandi gas- og orkuverði og aukinni sveiflu.Neyðaraðgerðirnar snúa meðal annars að fjárstuðningi til raforkuframleiðenda og fjármálafyrirtækja í kjölfar ákvörðunar Rússa um að stöðva gasafgreiðslur til Evrópu. Sú ákvörðun getur valdið gífurlegu álagi á fjármálakerfi ríkjanna. Þessar aðgerðir undirstrika alvarleika ástandsins í Evrópu þar sem ríkin keppast við að reyna að tryggja næga orku fyrir komandi vetur og forðast útbreiðslu neyðar meðal raforkuframleiðenda. Aðrar aðgerðir fela í sér mögulegt verðþak á annaðhvort raforku eða gas og leiðir til að aftengja gas- og raforkumarkaðinn við hagkerfið. Verð hefur hækkað langt umfram kostnað við vinnslu, framleiðslu og afhendingu.

Orka okkar allra

Á Íslandi lýtur orka fyrir heimilin ekki sömu reglum verðlagningar og hún gerir víða annars staðar í Evrópu. Við erum ekki bundin því að fá orku frá Rússum eins og nokkur af stærri löndum álfunnar. Hagkerfið okkar stendur feti framar þegar kemur að því að vinna bug á verðbólguógninni. Við erum rík af auðlindum og hinir ýmsu atvinnuvegir bjóða upp á ýmsa möguleika. Velsæld og samfélagsleg samstaða ætti að vera okkur öllum hugleikin og því er mikilvægt að skoða öll þau áhrif sem verðbólgan kann að hafa. Sérstaklega þarf að taka til athugunar hvaða hópum hún kemur verst niður á og grípa til nauðsynlegra úrræða þar sem við á. Þetta er verkefni okkar og því þurfum við að sinna. Það er hagur okkar allra.

Ágúst Bjarni Garðarsson: þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. september 2022.

Categories
Greinar

Sjálfstæði á óvissutímum

Deila grein

22/08/2022

Sjálfstæði á óvissutímum

Orku­mál og sjálf­bærni þeirra hafa verið í brenni­depli vegna hlýn­un­ar jarðar um nokkra hríð. Í kjöl­farið á inn­rás Rússa í Úkraínu og deil­um þeirra við Evr­ópu­sam­bandið vegna refsiaðgerða er kom­in upp óviss­ustaða í orku­mál­um í álf­unni. Ekk­ert ríki í heim­in­um flyt­ur út jafn mikið gas og Rúss­land, en um helm­ing­ur alls gass sem notað er inn­an ESB kem­ur frá Rússlandi. Staðan er nú þannig að ekki er víst að Evr­ópa muni eiga nóg af gasi fyr­ir kom­andi vet­ur. Skort­ur á gasi í Evr­ópu leiðir til sam­drátt­ar með til­heyr­andi af­leiðing­um fyr­ir fyr­ir­tæki og fjöl­skyld­ur. Sam­kvæmt spám gæti verg lands­fram­leiðsla í ESB-ríkj­um lækkað um allt að 1,5% ef vet­ur­inn verður harður með al­var­leg­um trufl­un­um á gasbirgðum. Talað er um að þýsk­ur iðnaður gæti staðið frammi fyr­ir al­var­legri ógn vegna skorts á orku. Orku­verð á heimsvísu hef­ur hækkað veru­lega og hækkað fram­færslu­kostnað Evr­ópu­búa. Frá því snemma á síðasta ári hef­ur heims­markaðsverð á olíu tvö­fald­ast, verð á kol­um nærri fjór­fald­ast og verð á evr­ópsku jarðgasi nán­ast sjö­fald­ast. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn ger­ir ráð fyr­ir að fram­færslu­kostnaður heim­ila hækki að meðaltali um 7% miðað við það sem gert var ráð fyr­ir snemma árs 2021. Sum ríki skera sig þó úr en talið er að fram­færslu­kostnaður heim­ila í Eistlandi geti hækkað um allt að 20%.

Reyn­ir á sam­stöðu inn­an ESB

Í síðasta mánuði lagði fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins fram til­lögu til að sporna við gasskorti á þá leið að aðild­ar­rík­in drægju úr gasnotk­un um 15% næsta vet­ur. Til­lag­an hef­ur sætt nokk­urri and­stöðu inn­an sam­bands­ins en Spán­verj­ar, Grikk­ir, Portú­gal­ar, Ítal­ir, Pól­verj­ar og Kýp­verj­ar eru meðal ann­ars and­víg­ir áætl­un­inni og halda því fram að eitt yf­ir­grips­mikið mark­mið sé ósann­gjarnt miðað við mis­mun­andi orku­sam­setn­ingu aðild­ar­ríkj­anna. Fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins met­ur ástandið það al­var­legt að huga þurfi að því hvort sam­drátt­ur­inn þurfi að vera lög­boðinn inn­an sam­bands­ins. Það er greini­legt að fram und­an eru erfiðar samn­ingaviðræður milli ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins þar sem reyna mun á sam­stöðu þeirra.

Ísland nýt­ur sér­stöðu í orku­mál­um

Ég vil í þessu sam­bandi vekja máls á því að það skipt­ir veru­legu máli að vera sjálf­bær á sem flest­um sviðum. Á meðan ná­grann­ar okk­ar í Evr­ópu sjá fram á harðan vet­ur í orku­mál­um stönd­um við mun bet­ur að vígi. Við Íslend­ing­ar höf­um gríðar­mik­il tæki­færi þegar kem­ur að því að búa til græna orku og þar get­um við gert enn bet­ur. Aðgerðir í lofts­lags­mál­um til að ná kol­efn­is­hlut­leysi hafa fram­kallað græna iðnbylt­ingu um all­an heim og við erum meðvituð um mik­il­vægi þess að hraða um­skipt­um yfir í græna end­ur­nýj­an­lega orku. Það er verðugt mark­mið og raun­hæft að Ísland verði fyrst ríkja óháð jarðefna­eldsneyti árið 2040 en ávinn­ing­ur­inn af því að venja okk­ur af jarðefna­eldsneyti er ekki aðeins fyr­ir lofts­lagið, held­ur skipt­ir það máli fyr­ir sjálf­stæði þjóðar­inn­ar til lengri tíma litið. Orku­ör­yggi er þjóðarör­ygg­is­mál, við Íslend­ing­ar erum óþægi­lega háð inn­flutt­um orku­gjöf­um á viss­um sviðum og mik­il­vægt að við drög­um úr inn­flutn­ingi á orku­gjöf­um. Orku­ör­yggi kall­ar á aukna raf­orku­fram­leiðslu og öfl­ugra flutn­ings- og dreifi­kerfi sem aft­ur kall­ar á heild­rænt skipu­lag orku­kerf­is­ins og samþætt­ingu verk­ferla. Þá þarf einnig að mæta orkuþörf­inni með bættri ork­u­nýt­ingu og aukn­um orku­sparnaði.

Til að ná þessu fram er mik­il­vægt að unnið sé í sem mestri sátt um vernd og nýt­ingu landsvæða og nátt­úru­auðlinda. Okk­ar verk­efni nú er að leita leiða í sam­ein­ingu og sátt um hvernig við ætl­um að fram­leiða okk­ar grænu orku, hvort sem það er með vatns­afli, vindorku eða öðrum aðferðum.

Ágúst Bjarni Garðars­son, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á mbl.is 20. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Úr ójafnvægi í jafnvægi á húsnæðismarkaði

Deila grein

14/07/2022

Úr ójafnvægi í jafnvægi á húsnæðismarkaði

Á þriðjudaginn kynnti ráðherra húsnæðismála, Sigurður Ingi Jóhannsson, sameiginlegt markmið og samkomulag milli beggja stjórnsýslustiga um aukið framboð af húsnæði næstu tíu árin. Hér er loks verið að stíga mikilvægt skref og í fyrsta sinn sem ríki og sveitarfélög gera með sér sérstakt samkomulag um stefnu og aðgerðir á húsnæðismarkaði svo tryggja megi nauðsynlega uppbyggingu íbúða fyrir alla hópa samfélagsins á samningstímanum. Það verði gert með því að 30% af heildaruppbyggingu næstu tíu ára skuli vera hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði og 5% félagsleg húsnæðisúrræði til að bæta stöðu viðkvæmra hópa á húsnæðismarkaði. Það munu því 35% uppbyggingarinnar njóta stuðnings hins opinbera í formi hlutdeildarlána, almenna húsnæðiskerfisins, stofnstyrkja og félagslegra íbúða sem HMS lánar til. Hér eru um að ræða metnaðarfullar aðgerðir inn í það verkefni að tryggja þá grunnþörf einstaklinga og fjölskyldna að búa við húsnæðisöryggi.

35 þúsund íbúðir um land allt á næstu tíu árum

Samkomulagið byggir meðal annars á niðurstöðum starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði, en hópurinn skilaði nýverið af sér 28 tillögum í sjö málaflokkum. Við þurfum að minnka þær sveiflur sem verið hafa á markaði og ná fram stöðugleika. Til þess að nálgast stöðugleika á húsnæðismarkaði þarf framboð íbúða og uppbygging að vera í takt við þörf. Niðurstaða þarfagreiningar sveitarfélaga í húsnæðisáætlunum sem er nauðsynlegt verkfæri til að meta þörfina, bæði til skemmri og lengri tíma, er að byggja þurfi 35.000 íbúðir á næstu tíu árum til að mæta fólksfjölgun, tryggja nauðsynlegan stöðugleika og jafnvægi á húsnæðismarkaði.

Nauðsynlegt að tryggja lóðir til uppbyggingar

Nú þarf að láta verkin tala og tryggja nægt lóðaframboð um land allt svo hægt sé að byggja fjölbreytt húsnæði og svara þeirri þörf sem við sjáum að verður til staðar á næstu árum. Ég hef sagt það áður og segi það enn að hér þarf að fara saman skynsamleg þétting byggðar samhliða því að sveitarfélög hafi svigrúm til þess að brjóta nýtt land til uppbyggingar. Þétting byggðar er nauðsynleg og mikilvæg svo nýta megi betur alla innviði sem til staðar eru, svo sem götur og skóla. Jafnframt treystir þétting byggðar rekstrargrundvöll almenningssamgangna og samgöngukerfisins í heild. Þétting byggðar er hins vegar oft flókin í framkvæmd, hún er kostnaðarsöm og tekur tíma. Sú innviðauppbygging sem fylgir því að brjóta nýtt land og byggja ný hverfi er sveitarfélögum kostnaðarsöm, en slíkt er nú nauðsynlegt svo byggja megi hratt og vel ásamt því að ná settum markmiðum um fjölda hagkvæmra íbúða. Það er því gott að sjá að sveitarfélögin sjálf munu gera samninga við ríkið á grunni samkomulagsins þar sem fjárstuðningur kemur frá ríkinu til að tryggja lóðir og meðfylgjandi innviðauppbyggingu sem slíku fylgir. Það mun ásamt öðrum aðgerðum samkomulagsins tryggja að markmið uppbyggingar raungerist á samningstímanum.

Brýnt að einfalda ferla

Settar eru fram 24 skilgreindar aðgerðir í samkomulaginu og þær eru bæði góðar og metnaðarfullar. Það mikilvægasta þykir mér þó að ríki og sveitarfélög hafi nú sammælst um að endurskilgreina lögbundna ferla og verklag í skipulags og byggingarmálum er varða uppbyggingu á íbúðahúsnæði. Það verði einn ferill um húsnæðisuppbyggingu. Þetta hefur hingað til verið of flókið og tekið of langan tíma. Að lokum vil ég hvetja alla til að kynna sér þær aðgerðir sem finna má í samkomulaginu og jafnframt sveitarfélög um land allt til að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni sem við stöndum frammi fyrir.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. júlí 2022.

Categories
Greinar

Á­fram­haldandi stuðningur við ný­sköpun

Deila grein

21/06/2022

Á­fram­haldandi stuðningur við ný­sköpun

Hlutverk stjórnvalda er að finna leiðir til að byggja traustan grunn fyrir nýsköpun hér á landi. Stuðningur við nýsköpun hefur sjaldan verið mikilvægari en einmitt nú og ljóst er að hugvit og nýsköpun eru að verða að styrkri stoð í hagkerfi Íslands. Í dag starfa um 12.000 manns í þessum iðnaði eða um 6% vinnandi fólks í landinu. Hugverka- og nýsköpunariðnaðurinn er vaxandi útflutningsstoð sem treystir á fjárfestingu í rannsóknum og þróun. Treystir á traust og fyrirsjáanlegt umhverfi. Þetta vita stjórnvöld á Íslandi sem hafa sett sér metnaðarfull markmið sem endurspeglast í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar með það að markmiði að fjölga störfum og gera hugviti hærra undir höfði innan íslensks efnahagslífs.

Framlenging bráðabirgðaákvæða

Þær ívilnanir sem settar voru með bráðabirgðaákvæðum til þess að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldur kórónuveru hafa skipt sköpum fyrir nýsköpunarfyrirtæki hér á landi. Ívilnanirnar hafa stuðlað að frekari uppbyggingu öflugrar nýsköpunar í atvinnu og efnahagslífi þjóðarinnar. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði til, í samræmi við tillögur umsagnaraðila, breytingar á frumvarpinu eins og það lá fyrir að frádráttarhlutfall myndi haldist óbreytt frá því bráðabirgðaákvæði sem hefur verið í gildi en að hámarkskostnaður verði sá sami og lagður var til í frumvarpinu, eða 1.000 milljónir króna í stað 1.100 milljónir króna. Frádráttarhlutfall nýsköpunarfyrirtækja verður því áfram 35 hundraðshlutar frá álögðum tekjuskatti þeirra árin 2021 og 2022 vegna útlagðs kostnaðar á rannsóknar- og þróunarverkefnum. Markmið skattfrádráttar vegna rannsókna- og þróunarverkefna er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja. Þær ívilnanir sem felast í bráðabirgðaákvæðum laganna hafa skipt sköpum fyrir nýsköpunarfyrirtæki í þeirri efnahagslegu óvissu sem fylgt hefur heimsfaraldri kórónuveirunnar. Breytingarnar eru því til þess fallnar að koma til móts við:

a) annars vegar við þau sjónarmið sem höfð voru uppi fyrir nefndinni í umræðum um frumvarpið.

b) hins vegar við þá auknu kröfu um ábyrga stjórn ríkisfjármála í ljósi óvissu um efnahagsþætti, svo sem verðbólgu og vaxtahækkanir.

Fyrirsjáanleiki er nauðsynlegur

Meiri hlutinn telur mikilvægt að samkeppnishæfni íslenskra nýsköpunarfyrirtækja sé áfram tryggð eftir því sem dregur úr efnahagslegum áhrifum faraldursins hér á landi og á heimsvísu, en jafnframt að samhliða þessum ívilnunum sé mikilvægt að það fari fram heildarúttekt á árangri þessa verkefnis. Aðeins þannig er hægt að fá nauðsynlegar upplýsingar þannig hægt sé að stýra enn frekar með hvaða hætti fjármunir ríkisins nýtist til þess að efla þróun og rannsóknir á Íslandi. Fyrirsjáanleiki skipti miklu máli þegar komi að fjárfestingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og að breytingar á hlutfalli styrkja, þó ekki séu nema að litlu leyti, geti skipt sköpum þegar kemur að því að laða erlenda sem innlenda aðila að fjárfestingu í íslensku hugviti. OECD vinnur nú að greiningu á stöðu nýsköpunariðnaðarins hér á landi og í framhaldi hennar er nauðsynlegt að móta heildstæða stefnu um greinina og starfsumhverfi hennar til framtíðar. Við fögnum þessum áfanga og áframhaldandi stuðningi við nýsköpun á Íslandi. Grundvöllur efnahagslegrar velgengni ásamt lausnum við áskorunum framtíðarinnar má finna í nýsköpun, rannsóknum og þróun.

Ágúst Bjarni Garðarsson þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi og situr í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. júní 2022.

Categories
Greinar

Mörg þúsund heimili í farvatninu

Deila grein

27/05/2022

Mörg þúsund heimili í farvatninu

Síðustu misseri hefur orðið tíðrætt í samfélaginu um þá grafalvarlegu stöðu sem ríkt hefur á húsnæðismarkaðnum hér á landi og kallað hefur verið eftir tafarlausum aðgerðum. Í febrúar síðastliðinn skipaði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra starfshóp um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði. Í síðustu viku skilað hópurinn af sér 28 tillögum í sjö málaflokkum. Á grundvelli þessara tillagna munu stjórnvöld nú þegar leggja áherslu á aukna uppbyggingu íbúða, endurbættan húsnæðisstuðning og bætta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda.

Langþráð yfirsýn

Með tilkomu skýrslunnar höfum við loks bæði góð og rétt verkfæri í höndunum. Nú í fyrsta sinn er til staðar yfirsýn yfir húsnæðismarkaðinn með betri upplýsingum. Með þeim er hægt að vinna raunhæfa aðgerðaáætlun til fimm ára og húsnæðisstefnu til fimmtán ára. Gerð er tillaga um húsnæðisáætlun um fyrir allt landið og sérstök áhersla lögð á áframhaldandi uppbyggingu almenna íbúðakerfisins og endurskoðun opinbers húsnæðisstuðnings. Húsnæðisöryggi og jafnt aðgengi allra að hagkvæmu húsnæði á viðráðanlegu verði verður sérstakt forgangsmál. Til þess að ná þeim markmiðum á að setja á fót starfshóp ríkis og sveitarfélaga með aðild aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun á húsnæðisstuðningskerfum í samræmi við markmið og greiningar í skýrslu starfshópsins en þar kemur meðal annars fram að taka þurfi opinberan húsnæðisstuðning til heildstæðrar endurskoðunar og tryggja að hann nýtist fyrst og fremst þeim sem á þurfa að halda.

Aukin uppbygging íbúða

Niðurstaða þarfagreiningar sveitarfélaga í húsnæðisáætlunum er að byggja þarf um 35.000 íbúðir á næstu tíu árum til að mæta fólksfjölgun en þess ber að geta að í þeirri greiningu er ekki gert ráð fyrir uppbyggingu til að mæta uppsafnaðri þörf sem í maí 2021 var metin um 4.500 íbúðir. Til þess að nálgast stöðugleika á húsnæðismarkaði þarf framboð íbúða og uppbygging að vera í takt við þörf. Til þess að hægt sé að ná þessum markmiðum þarf húsnæðisáætlun fyrir landið allt. En ein meginforsenda þess að stuðla að stöðugleika í húsnæðismálum og tryggja nauðsynlega uppbyggingu er að ríki og sveitarfélög sameinist um sýn og stefnu í húsnæðismálum til lengri tíma.

Því er ánægjulegt að segja frá því að ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga munu nú þegar hefja viðræður um rammasamning um byggingu 4.000 íbúða árlega á landsvísu næstu fimm árin og 3.500 íbúða árlega næstu fimm ár þar á eftir. Í þeirri vinnu verður sértaklega horft til þeirra markmiða sem sett eru fram í tillögum starfshópsins en þær er meðal annars að félagslegt húsnæði nemi að jafnaði 5% nýrra íbúða og hagkvæmt húsnæði sé sem næst 30% með sérstakri áherslu á almenna íbúðarkerfið. Sé horft til höfuðborgarsvæðisins er nauðsynlegt að taka upp svæðisskipulagið sem gildir til ársins 2040 svo gera megi öllum sveitarfélögum á svæðinu kleift að taka þátt í því mikla verkefni sem fram undan er í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á landinu öllu. Samhliða þéttingu byggðar þarf að vera svigrúm til að brjóta nýtt land svo byggja megi hratt og vel fyrir alla hópa samfélagsins.

Virkur og heilbrigður leigumarkaður

Þá er mikilvægt að tryggja réttindi og húsnæðisöryggi leigjenda. Opinber gögn sýna að staða leigjenda er lakari en staða þeirra sem búa í eigin húsnæði og almennt telja leigjendur sig búa við minna húsnæðisöryggi en fólk í eigið húsnæði. Leigjendur búa við þyngri fjárhagslegri byrði húsnæðiskostnaðar og töluvert hærra hlutfall leigjenda en eigenda býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Inn á þessi atriði er komið í skýrslu starfshópsins og lagðar fram tillögur um virkan og heilbrigðan leigumarkað sem raunverulegan valkost. Meðal annars með því að endurskoða ákvæði húsaleigulaga með það að markmiði að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda.

Jafnvægi er lykillinn

Á sama tíma og ég fagna vinnu starfshópsins og þeirri mikilvægu greiningarvinnu sem þar er hvet ég innviðaráðherra áfram til góðra verka, en mörg þau verkefni sem nú liggja fyrir eru á verksviði hans. Þetta er gott skref þar sem við erum nú í fyrsta sinn er verið að horfa til framtíðar í húsnæðismálum. Í fyrsta sinn er verið að styðjast við mannfjöldaspár og bera saman við húsnæðisáætlanir sveitarfélaga. Í fyrsta sinn er verið að setja fram aðgerðaáætlun líkt og í samgönguáætlun og stefnu til 15 ára. Allt undir forystu Framsóknar og í ráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra. Það er mín einlæga von að við förum að sjá til lands í húsnæðismálum hér á landi, því jafnvægi á húsnæðismarkaði er samfélaginu öllu mikilvægt.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður

Greinin birtist fyrst á mbl.is 26. maí 2022