Categories
Fréttir Greinar

Raunhagkerfið, landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið

Deila grein

28/02/2023

Raunhagkerfið, landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið

Við þingmenn Framsóknar nýttum nýliðna kjördæmaviku vel og fórum í góða fundarferð um landið þar sem við héldum fjölda opinna funda ásamt því að heimsækja fólk og fyrirtæki um allt land. Ég hef ávallt lagt mikið upp úr því, hvort sem það er sem kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn líkt og ég var árin 2018-2022 eða sem kjörinn fulltrúi á Alþingi Íslendinga, að vera í góðu sambandi við kjósendur og nýta þann tíma sem ég hef til að hitta fólk og heimsækja fyrirtæki. Þetta finnst mér alveg sérstaklega mikilvægt, þó ekki sé nema að sjá og kynnast í raun hvað það er sem brennur á fólki og hvar það er sem gera þarf betur. Í byrjun janúar héldum við Willum Þór, heilbrigðisráðherra, opna fundi í okkar kjördæmi, suðvestur, sem voru góðir og vel sóttir. Þar kom ýmislegt gagnlegt fram og margt sem við gátum og getum tekið með inn í okkar störf. Nú var það hins vegar landsbyggðin sem var heimsótt var 14.-17. febrúar síðastliðinn.

Ólíkir hagsmunir landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis?

Ég hef alltaf sagt að það er mikilvægt fyrir okkur þingmenn á höfuðborgarsvæðinu að heimsækja landsbyggðina. Það er ekki bara mikilvægt, því það er líka hollt að sækja íbúa annarra kjördæma heim og heyra hvernig hjartað slær í samfélögum víða um land og hvað það er sem skiptir fólki raunverulegu máli á hverju svæði fyrir sig. Dagskráin var þétt alla þessa daga og var vel skipulögð af okkar góða starfsfólki í samvinnu við fólk í heimabyggð. Það sem hefði kannski ekki átt að koma mér neitt sérstaklega á óvart, en gerði það þó að nokkur leyti, er hversu samofnir hagsmunir íbúa um land allt raunverulega eru. Mér hefur oft fundist af umræðunni að dæma að þessum hópum, það er að segja íbúa landsbyggðar og höfuðborgar sé oft stillt upp sem einhvers konar andstæðingum þegar kemur að stórum málum, líkt og þegar kemur til dæmis að uppbyggingu samgöngumannvirkja. Í lok dags, er staðan einfaldlega þannig að hagsmunirnir eru um margt mjög líkir og ég varð sérstaklega var við það þegar kemur að umræðum um stór mál líkt og orkumál, samgöngur, málefni eldra fólks, uppbyggingu hjúkrunarheimila, vexti og verðbólgu og svo mætti áfram telja. Þetta eru mál sem snerta okkur öll, sama hvar á landinu við búum, bæði í nútíð og til framtíðar.

Það eru verðmæti í því að halda landinu í blómlegri byggð

Þá var það sérstaklega gaman að sjá þá allt það kröftuga atvinnulíf sem býr á landsbyggðinni og það má með sanni segja að raunhagkerfið búi á landsbyggðinni en þar spilar sjávarútvegurinn auðvitað stórt hlutverk. Enda kemur lang stærsti hluti atvinnutekna í sjávarútvegi, það er veiðum og vinnslu, í hlut einstaklinga á landsbyggðinni. Sjávarútvegurinn er ein mikilvægasta atvinnugrein landsins og honum fylgja mörg afleidd störf, hvort sem það eru hefðbundinn störf í hliðargreinum sjávarútvegs eða í nýsköpun tengdum sjávarútvegi. Þá liggja ótal tækifæri fyrir ungt fólk í nýsköpuninni tengdri greininni, þar sem hefðbundnum störfum hefur fækkað í sjávarútvegi en í þeirra stað hafa skapast eftirsóknarverð hátæknistörf. Þá skiptir laxeldi einnig verulegu máli fyrir þjóðarbúið, mikilvægi þess fer einungis vaxandi á komandi árum enda lax einn besti próteingjafinn fyrir ört fjölgandi mannkyn. Fjöldi starfa fylgir laxeldinu, bæði tengdri greininni sjálfri en þá verða einnig verða til mörg afleidd störf með tilheyrandi tækifærum fyrir sveitarfélög sem mörg hver hafa átt undir höggi að sækja. Allt helst þetta í hendur og styður við uppbyggingu fleiri starfa á hverju svæði fyrir sig. Ungt fólk snýr aftur í byggðirnar og aldurspýramídinn hefur tekið jákvæðum breytingum. Mikil gróska er í atvinnu, ferðaþjónustu og menningarstarfsemi á landsbyggðinni en þar er býr einnig landbúnaðurinn sem er undirstöðu atvinnugrein sem styður við fjölda annarra atvinnugreina eins og t.d. ferðaþjónustu. Við sem búum á höfuðborgarsvæðinu gerum okkur ef til vill ekki alltaf nægilega vel grein fyrir mikilvægi allra þeirra starfa sem eru á landsbyggðinni og skapa raunveruleg verðmæti fyrir land og þjóð.

Ég vil þakka kærlega fyrir góða kjördæmaviku og þeim fjölmörgu sem mættu á opna fundi okkar og þeim fyrirtækjum sem tóku vel á móti okkur.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Categories
Fréttir Greinar

Nokkrar vangaveltur um tryggingar

Deila grein

11/02/2023

Nokkrar vangaveltur um tryggingar

Enn og aftur sting ég niður penna og fjalla um hækkun trygginga. Það er ekki að ástæðulausu, því í nýlegum Þjóðarpúlsi Gallup kemur fram að hlutfall þeirra sem ekki ná endum saman fjárhagslega hafi ekki verið jafn hátt í sjö ár og sögðust átta af hundrað safna skuldum. 

Ég velti því enn og aftur fyrir mér „samfélagslegum skyldum“ tryggingarfélaga, banka og annarra aðila sem geta borið þyngri byrðar eða tekið höggið á tímum sem þessum. Líkt og ég kom að í upphafi hef ég áður fjallað um hækkun trygginga og þau svör sem ég fékk við fyrirspurn minni á sínum tíma. Þær greinar og þau svör má lesa hér.

Ég hef nú sent fjármála- og efnahagsráðherra frekari fyrirspurnir er varða vátryggingamál hér á landi. Fyrirspurnirnar eru tvær. Annars vegar varðandi þróun tjóna í gegnum covid faraldurinn og hins vegar um þróun iðgjalda eftir að tryggingaskylda ökumannatækja á borð við snjósleða, fjórhjóla og torfærumótorhjóla var afnumin á sínum tíma.

Vátryggingaskuld, hvað er það?

En í hvað fara iðgjöldin? Vátryggingaskuld, (eða svokallaður bótasjóður, sem reyndar er hugtak sem ekki er notað lengur í lögum) er myndaður með greiðslu iðgjalda sem tjónaskuld vegna ógreiddra tjóna fyrri ára, það er til að tryggja greiðslugetu bóta í náinni framtíð. Það má vel spyrja sig hvort ekki eigi að nota hagnað af þessari tjónaskuld til lækkunar á iðgjöldum næsta árs eða hvort hann sé reiknaður inn í iðgjaldaþörfina þar sem þetta er arður af skuldinni, alltsvo bótasjóði.

Ég velti því fyrir mér hvort arður af fjárfestingartekjum vátryggingaskuldar sé talinn vera hluti af vátryggingarekstrinum sjálfum. Sé svarið „nei“ við þeirri spurningu mætti spyrja sig af hverju arður af fjárfestingartekjum vátryggingaskuldar (bótasjóði) sé ekki talinn vera hluti af vátryggingarekstrinum þar sem hann er myndaður af iðgjöldum vátryggingataka?

Sé niðurstaðan sú að þessu tvennu sé algjörlega haldið aðgreindu, það er vátryggingarekstrum og fjárfestingum félaganna, má halda áfram að spyrja sig hvort eðlilegt sé að halda þessu aðgreindu þar sem um er að ræða tekjur af áður greiddum iðgjöldum vátryggingataka. Já, ég ætla ekki að halda því fram að það sé auðvelt að átta sig á fjárfestingaumhverfi tryggingarfélaga, en það má og verður að spyrja spurninga.

Hvar liggur ákvörðunin um lækkun iðgjalda?

Væntanlega er það einungis og einvörðungu ákvörðun stjórna félaganna hvort hagnaður af fjárfestingastarfsemi sé notaður í þágu viðskiptavina eða ekki. Það sama á svo við um hagnað af vátryggingastarfsemi. Í frétt Fjármálaeftirlitsins sem bar heitið „Til glöggvunar varðandi vátryggingafélög og svokallaða „bótasjóði“” kom fram að það sé á ábyrgð stjórna vátryggingafélaganna „að tryggja orðspor félaganna haldist gott, en það gera þau best með því að huga bæði að hagsmunum viðskiptavina og fjárfesta. Þær þurfa að ákvarða með hvaða hætti vátryggingafélögin láta viðskiptavini sína njóta góðs af hagnaði sínum. Þetta á við hvort sem um er að ræða hagnað af vátryggingastarfsemi eða fjárfestingarstarfsemi“ Sé þetta raunin, þá geta stjórnir félaganna ef þær kjósa svo látið viðskiptavini njóta góðs af hagnaði sínum, hvort sem um er að ræða hagnað af vátryggingastarfsemi eða fjárfestingarstarfsemi. Með öðrum orðum þá geta stjórnir félaganna tekið ákvörðun um að standa með almenningi í landinu.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Gott sam­fé­lag

Deila grein

27/01/2023

Gott sam­fé­lag

Hvað er samfélag og hvað einkennir gott samfélag? Ég held að við flest teljum að við tilheyrum og séum hluti af góðu samfélagi.

Ég sjálfur er alinn upp í Hafnarfirði og bý þar ásamt fjölskyldu minni. Þar var gott að alast upp, þar er gott vera og þar er gott að ala upp börnin sín.

Vaxtarverkir

Hafnarfjörður hefur stækkað gríðarlega frá því að ég sleit barnsskónum, en í þeirri miklu stækkun og öllum þeim vaxtarverkjum sem slíku fylgir tel ég að vel hafi tekist til við að halda utan um fólkið.

Hafnarfjörður er bær í sveit ef svo má segja og ég tel almennt að íbúar upplifi sig sem hluta af heild, þátttakendur í góðu samfélagi. Það er mikilvægt.

Góð umgjörð

Ég veit að þegar á reynir er samhugurinn mikill í samfélaginu. Það þekki ég úr mínum heimabæ. Fólk stendur saman þegar á bjátar, það er tilbúið að koma og rétta fram hjálparhönd eða sýna samkennd með öðrum hætti.

Við erum gott samfélag með góða umgjörð, en það er eins og annað í lífinu að víða má gera betur og laga til eða fínstilla ákveðna þætti eins og það er stundum orðað.

Samstaða og samfélagsleg ábyrgð

Íbúar um allt land finna nú fyrir þeim miklu hækkunum sem eru að verða hvar sem litið er. Við sjáum það á lánum okkar, leigugreiðslum, matarkörfunni, tryggingum og svo mætti lengi telja.

Fólk tekur eftir og finnur fyrir því á eigin skinni að þetta hefur áhrif á fjármálin. Það reynir því víða á um þessar mundir og mikilvægt að sýna samstöðu og samfélagslega ábyrgð í því verkefni að ná niður verðbólgu.

Breiðu bökin

Nú reynir einnig á hin svokölluðu breiðu bök og að þau sýni að ekki þurfi að velta öllum hækkunum beint út í samfélagið með tilheyrandi áhrifum á fjármál heimila. Þau geta, en það er víst annað en að vilja.

Ágúst Bjarni Garðsson, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. janúar 2023.

Categories
Greinar

Venjulega fólkið

Deila grein

28/11/2022

Venjulega fólkið

Ég vil hér í þessum greinarstúf fjalla um hið venjulega fólk, hina venjulegu fjölskyldu sama hvernig hún er samansett. Um er að ræða hóp sem fær ekki alltaf mikla athygli, hver sem ástæðan er fyrir því, hvort sem það er vegna þess að sá hópur telst ekki vera í viðkvæmri stöðu eða til minnihlutahóps. Hann hefur ekki hátt og er í raun nokkuð ósýnilegur ef svo má segja. Hann mætir til vinnu, sér um börnin sín séu þau til staðar, eldar matinn og borgar reikninga. Svona gengur lífið fyrir sig dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Líkt og hamstur í hjóli. Ég leyfi mér að segja að þetta sé hópurinn sem telur sig ekki vera í þeirri stöðu að geta kvartað, eða eiga yfir höfuð rétt á því að kvarta. Þau sem þessum hópi tilheyra eru ekki meðal þeirra tekjulægstu, en eru ólík og bera oft mikið álag. Þetta er hópurinn sem heldur samfélaginu á floti.

Að koma undir sig fótunum

Hér er ég meðal annars að tala um ungt fólk, fólk á aldrinum 25-40 ára, sem er að koma undir sig fótunum í lífinu á sama tíma og það er að ljúka námi, mögulega eignast börn, fara í fæðingarorlof, koma sér þaki yfir höfuðið eða jafnvel stækka við sig. Allt þetta á sama tíma og verið er að byggja upp atvinnuferil með tilheyrandi kröfum um að standa sig vel. Þetta tímabil í lífi fólks getur verið allt í senn hið ánægjulegasta og hið kvíðvænlegasta.

Það er mikil gleði og blessun sem fylgir því að eignast barn. Það hef ég verið svo lánsamur að fá að upplifa. Á sama tíma getur það verið verulega flókið, sérstaklega þegar um er að ræða barn tvö, þrjú eða jafnvel fjögur. Með hverju barni bætist við auka kostnaður vegna leikskóla, fæðiskostnaðar, íþróttaiðkunar og áfram mætti telja. Ofan á þetta bætast síðan við aðrar greiðslur svo sem vegna húsnæðis, trygginga, bifreiða, námslána og svo framvegis. Allt sem fylgir því að reka heimili og fjölskyldu. Það á sama tíma og laun skerðast vegna fæðingarorlofs. Oft og tíðum er þessi hópur of tekjuhár til þess að fá greiddar barnabætur, en hjá hjónum og sambúðarfólki reiknast skerðing á barnabótum vegna tekna af samanlögðum tekjustofni sé hann umfram 9.098.000 kr. Vissulega hafa verið gerðar breytingar á barnabótakerfinu síðustu misseri en betur má ef duga skal, sérstaklega í þeim aðstæðum sem uppi eru í dag.

Hækkanir á hækkanir ofan

Þær hækkanir sem orðið hafa í samfélaginu síðustu mánuði hafa ekki farið framhjá neinum. Þær eru nú þegar farnar að bíta verulega fast í hinn venjulega borgara. Við finnum fyrir þessu, ég fæ sendingar frá fólki; vinum og kunningjum, jafnvel frá fólki sem gefur sér tíma til að setjast niður og skrifa mér og lýsa stöðu sinni. Það kann ég að meta. Þetta er hið duglegasta fólk sem er að keyra sig út í vinnu og jafnvel vinnum til þess eins að ná endum saman milli mánaða. Og það er oft bara fjári erfitt.

Það þarf því ekki að koma neinum neitt sérstaklega á óvart – og það kemur ekki eins og þruma úr heiðskýru – að kallað sé eftir launahækkunum. Við verðum þó að hafa í huga, og horfa um leið á stóru myndina, að hækkun launa ein og sér getur virkað eins og olía á verðbólgubálið á þessum tímapunkti. Því er mikilvægt að leita einnig annarra leiða og þar þurfa ríki, sveitarfélög og atvinnulífið í heild með banka- og fjármálakerfið fremst í flokki að snúa bökum saman.

Þó svo að öllum sé það ljóst að hlutverk Seðlabanka Íslands sé að halda aftur af verðbólgu geta ákvarðanir hans einnig haft veruleg áhrif á líf fólks. Vaxtahækkun Seðlabankans nú á viðkvæmum tíma í kjaraviðræðum geta haft víðtæk áhrif á samfélagið allt ef marka má orð verkalýðsforystunnar. Það virðist því miður vera að raungerast. Hækkun vaxta á þessum tímapunkti er eins og að kasta sprengju inn í kjaraviðræður. Endurteknar yfirlýsingar um Tene-fólkið eru yfirlætisfullar og ekki til þess fallnar að skapa sátt og einingu um baráttuna gegn verðbólgu. Eins og sagt er; af litlum neista verður oft mikið bál. Álögur á heimilin í landinu eru þegar komin að þolmörkum!

Það er lýðheilsumál að taka betur utan um barnafjölskyldur

Það er svo sannarlega rétt að það er ákveðinn hópur fólks hefur það gott, jafnvel mjög gott og það sýnir neyslan. Ég er fullviss um að það eru ekki barnafjölskyldur þessa lands sem halda henni uppi. Hjá þeim er ástandið viðkvæmt og ég tel að það þurfi að ná betur utan um þennan hóp og greina stöðuna. Því tel ég nauðsynlegt að rýna í stöðu barnafjölskyldna á Íslandi með það að markmið að skoða með hvaða hætti og hvaða aðgerðum er hægt að beita til að koma enn betur til móts við þann þunga róður sem margar fjölskyldur í landinu standa frammi fyrir þessa stundina. Það er staðreynd að við þurfum að einbeita okkur betur að barnafjölskyldum. Það er hreinlega lýðheilsumál, því ekki viljum við sjá þennan aldurshóp brenna upp í báða enda fyrir fimmtugt. Það yrði samfélagslega mjög dýrt.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Að dansa í kringum gullkálfinn

Deila grein

10/11/2022

Að dansa í kringum gullkálfinn

Íbúar þessa lands hafa á síðustu misserum og árum tekist á við fordæmalausa tíma og aðstæður. Alheimsfaraldur skall á með harkalegum afleiðingum fyrir ríki heims þar sem fjölskyldur, heimili og fyrirtæki kljást enn við afleiðingarnar.

 Í kjölfarið kom svo stríð í Evrópu, eitthvað sem flest okkar töldu heyra sögunni til og nær óhugsandi að slíkur atburður gæti endurtekið sig. Ég tel því rétt, í ljósi þess, að höfða hér til samvisku banka og tryggingafélaga sem með aðgerðum sínum og stefnu geta haft mikil áhrif á lífskjör fólks í landinu.

Kjaraviðræður

Fram undan eru kjaraviðræður og allar líkur eru á að þær verði nokkuð þungar. Samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ hefur hækkun útgjalda hjá fjögurra manna fjölskyldu í eigin húsnæði numið allt að 128.607 krónum á mánuði ef miðað er við útgjöld hennar frá fyrra ári. Þetta eru verulega, verulega háar tölur, og til það sé hægt að fleyta íslenskum fjölskyldum í gegnum núverandi ástand þarf meira til en að ríkið komi inn með aðgerðir. Hér þurfa allir að líta í sinn eigin barm og hugsa með sér hvað hægt sé að gera til að koma samfélaginu öllu á þann stað sem við viljum vera. Þá tel ég rétt að horfa sérstaklega til þeirra sem oft eru kölluð breiðu bökin í daglegu tali.

Iðgjöld hafa hækkað…

Iðgjöld tryggingafélaga hafa hækkað mikið á síðastliðnum árum á sama tíma og tryggingafélög sitja á milljarða bótasjóði. Ábyrgð tryggingarfélaga á heimils bókhald íslenskra heimila er mikil. Í samtölum mínum við fólk hef ég heyrt að ekki sé óeðlilegt að fjölskyldur séu að greiða á bilinu 40-55 þúsund krónur á mánuði fyrir líf-, bíla og heimilistryggingar. Það sjá allir sem sjá vilja að hér er um að ræða verulegar upphæðir þegar þær eru settar í samhengi við önnur útgjöld sem meðaltalsfjölskyldan þarf að greiða. Þá tek ég sérstaklega út barnafjölskyldur sem fyrir utan að greiða af húsnæðislánum eða leigu þurfa einnig að greiða leikskólagjöld, fæðiskostnað í skólum, íþróttaæfingar o.s.frv. Það getur ekki verið að við ætlum okkur að stefna þangað sem samfélag að tryggingar séu aðeins á færi þeirra efnameiri.

…Og bankarnir skila miklum hagnaði

Þá birtu Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki uppgjör sitt í október vegna fyrstu níu mánaða ársins. Þar kemur fram að samanlagður hagnaður þeirra á tímabilinu var 50,2 milljarðar króna. Það má segja það með kaldhæðni að það sé vissulega minni hagnaður en árið á undan en arðsemin er yfir markmiði hjá öllum nema Landsbankanum sem stendur þó alveg ágætlega.

Í þessu samhengi er þó ánægjulegt að segja frá því að menningar- og viðskiptaráðherra hefur skipað vinnuhóp til að greina gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna. Tilgangur þessarar vinnu er að kanna hlut þjónustu- og vaxtagjalda, vaxtamun og hvers konar aðra gjaldtöku af viðskiptavinum í arðsemi bankanna. Markmiðið er að sjá svart og hvítu hvort íslensk heimili greiði meira fyrir almenna viðskiptabankaþjónustu en önnur heimili á Norðurlöndunum. Ég bind miklar vonir við þessa vinnu, því ef auka á samkeppnishæfni landsins þá þarf rekstur heimilanna í landinu að vera samkeppnishæfur.

Að lokum, fer ekki betur á því að þessi stöndugu fyrirtæki myndu stíga ölduna með almenningi í landinu í stað þess að dansa í kringum gullkálfinn.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Römpum upp umræðuna

Deila grein

04/11/2022

Römpum upp umræðuna

Í nýlegri kjördæmaviku hittu þingmenn sveitarstjórnarfólk og fólk víða að úr samfélaginu. Ég hef ávallt haft það sem vinnureglu, hvort sem það var á tíma mínum sem sveitarstjórnarfulltrúi í Hafnarfirði eða nú sem þingmaður fyrir Suðvesturkjördæmi, að heimsækja fólk og fyrirtæki á þeirra heimavelli. Fara út á örkina og heyra hvað fólki býr í brjósti. Það er ýmislegt sem liggur fólki á hjarta og það er mikilvægt að vera meðvitaður um að allar ákvarðanir sem teknar eru hjá ríki og sveitarfélögum séu fyrir samfélagið. Ákvarðanir sem slíkar koma ekki með kalda vatninu heldur eru þær teknar með pólitískum áherslum. Uppspretta hugmynda sem síðar verða að ákvörðunum byrja í samtölum við fólk. Því stjórnmálaákvarðanir móta samfélagið og snerta flesta þætti lífs okkar á einn eða annan hátt.

Sveitarfélög sinni nærþjónustu

Umræða um vanfjármögnun málaflokks fatlaðs fólks hefur farið hátt síðustu vikur. Þjónusta við fatlað fólk er nærþjónusta sem á að vera á höndum sveitarfélaga, það þekki ég á eigin skinni. Það er vissulega staðreynd að kostnaður við málaflokkinn hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum og ofan á ýmislegt annað, gert rekstur sveitarfélaga þyngri. Staðreyndin er sú að sveitarfélög eru misvel rekin og í sumum tilfella hafa þau einfaldlega verið rekin mjög illa á undanförnum árum og mega því við litlu. Það gleymist oft í umræðunni um fjármál sveitarfélaga að þau eiga að leggja áherslu á að sinna lögbundinni skyldu en ekki gælu verkefnum, lögbundin skylda á ávallt að standa framar öðrum verkefnum. Vissulega hefur þjónusta í málaflokki fatlaðs fólks aukist við flutning hans yfir til sveitarfélaga og kostnaður þar með. Það gerist með meiri nánd og einungis hægt að líta á aukna þjónustu sem framfaraskref. Við sem samfélag hljótum öll að vera sammála um það að veita fötluðu fólki betri þjónustu en gert var hér á árum áður.

Við þurfum að bera virðingu fyrir fólki

Hins vegar ber okkur skylda til þess að fjármagna þessa þjónustu svo vel sé og koma í veg fyrir að kostnaðurinn sligi sveitarfélögin í landinu. Nokkur sveitarfélög hafa haldið þeirri umræðu uppi að skila eigi þjónustu við fatlað fólk aftur til ríkisins. Um slíkan málflutning hef ég þetta að segja; mikilvægt er að í allri umræðu um málaflokk fatlaðs fólks að umræða sé vönduð og af virðingu við það fólk sem þarf á þjónustunni að halda. Á bak við málaflokkinn er fólk, fólk sem á rétt á að njóta sömu lífsgæða og geta gert sömu hluti og okkur flestum þykir svo sjálfsagðir. Það er ekki boðlegt að nota fatlað fólk í pólitískum tilgangi og sem vopn í deilum milli ríkis og sveitarfélaga um meira fjármagn. Þar þurfum við að rísa upp og bera ábyrgð, þau sem raunverulega það gera; sveitarstjórnarfólk og þingmenn.

Höldum umræðunni þar sem hún á heima, það er ótækt að fatlað fólk búi við áhyggjur og upplifunin sé að þau séu baggi á sveitarfélögum. Höldum áfram samtalinu en vöndum til verksins.

Ágúst Bjarni Garðarsson, Alþingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Fram­sóknar­leiðin við stjórnar­skrár­breytingar

Deila grein

20/10/2022

Fram­sóknar­leiðin við stjórnar­skrár­breytingar

Síðustu ár hefur mikið verið deilt um breytingar á stjórnarskránni, sitt sýnist hverjum í þeim málum og engin hefur verið niðurstaðan. Við höfum aðila hér í samfélaginu sem vilja engar breytingar gera og þá höfum við háværan hóp sem talar um hina „nýju stjórnarskrá“ og sættir sig við ekkert minna. Á meðan heldur hinn þögli hópur á miðjunni sig til hlés vegna ótta um að dragast inn í öfgafullar umræður sem hann nennir ekki að standa í. Ekkert hefur rekið eða gengið í umræðum um stjórnarskrárbreytingar jafnvel þó að heiðarlegar tilraunir hafi verið gerðar til þess að bæta við mikilvægum ákvæðum.

Það þarf að höggva á hnútinn

Tíu ár eru liðin frá því að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla að nýrri stjórnarskrá fór fram, og staðreyndin er sú að ekki var tekin afstaða um þá atkvæðagreiðslu á Alþingi á þeim tíma. Um hvers vegna það var ekki gert er hægt að deila um til eilífðar. En í staðinn fyrir að halda áfram að deila fram og til baka um „hina nýju stjórnarskrá“ næstu tíu ár án þess að nokkuð þokist áfram þurfum við að finna leið til þess að halda áfram. Staðreyndin er sú að hin „nýja stjórnarskrá“ nýtur ekki vinsælda, það hafa niðurstöður kosninga til Alþingis borið með sér. Fyrir einhverja er þetta erfiður biti að kyngja en eina leiðin áfram er að stíga út úr bergmálshellinum og tala saman.

Framsóknarleiðin hefur gefist vel í íslenskum stjórnmálum, það er að mætast á miðjunni og ná samtali um þau atriði sem við erum sammála um. Framsóknarleiðin grundvallast á samvinnuhugsjóninni; að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman og aukið styrk sinn. En samvinna byggist ekki aðeins á trausti milli aðila heldur einnig á góðum og málefnalegum umræðum sem leiðar til farsælla niðurstaðna.

Við erum sammála um auðlindaákvæði

Samkvæmt niðurstöðum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslunnar fyrir tíu árum vildu fleiri aðilar fá inn auðlindaákvæði í stjórnarskránna heldur en að leggja tillögur stjórnlagaráðs sem grundvöll að nýrri stjórnarskrá. Staðan hefur lítið breyst með það, staðreyndin er sú að mikill meirihluti Íslendinga vill auðlindaákvæði í stjórnarskránna. Íslenska þjóðin vill að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni. Hér erum við með atriðið sem flest allir eru sammála um og með samvinnuhugsjónina að vopni ættum við að geta leitað leiða til þess að koma þessu mikilvæga ákvæði inn í stjórnarskrá lýðveldisins í stað þess að grafa skotgrafir á sitthvorum endanum. Við getum byrjað á þessu mikilvæga ákvæði og síðan haldið áfram með samtalið, því við vitum að með stöðnun leysast engin mál.

Framtíðin ræðst á miðjunni

Við í Framsókn skorumst ekki undan þegar kemur að mikilvægum breytingum á stjórnarskránni, en við höfnum öllum öfgum hvort sem þeir eru til hægri eða vinstri. Framtíðin er á miðjunni og þar getum við sameinast um að koma mikilvægum málum áfram. Þjóðinni allri til heilla.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birist á visir.is 20. október 2022.

Categories
Greinar

Þjónustu- og þekkingar­mið­stöð fyrir ein­hverfa

Deila grein

19/10/2022

Þjónustu- og þekkingar­mið­stöð fyrir ein­hverfa

Hér á landi greinast árlega einstaklingar með einhverfu eða raskanir á einhverfurófi. Einhverfa er röskun í taugaþroska sem kemur jafnan fram snemma í barnæsku. Einhverfa er yfirleitt meðfædd og til staðar alla ævi en kemur fram með ólíkum hætti allt eftir aldri, þroska og færni og sökum þess hve einhverfa er margbreytileg er oft talað um einhverfuróf. Hægt er að hafa áhrif á framvindu einhverfu með markvissum aðgerðum, sérstaklega snemma á lífsleiðinni.

Nokkuð er um að einstaklingar greinist á fullorðinsárum með einhverfu og þá oft í framhaldi af kulnun eða í kjölfarið á geðrænum vanda. Þegar einstaklingur hefur fengið greiningu á einhverfurófi er mikilvægt að einstaklingurinn og fjölskyldan fái fræðslu um einhverfurófið og aðferðir sem gætu hentað þeim vel. Auk þess er mikilvægt ef um leik- eða grunnskólabarn er að ræða að samvinna milli heimilis og skóla sé góð. Nokkar stofnanir koma að málefnum einhverfra en þær eru Barna og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Sjúkratryggingar Íslands, Tryggingastofnun og Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þess utan hafa Einhverfusamtökin stuðlað að upplýsingagjöf og aðstoð til þeirra sem greinast með einhverfu og aðstandenda þeirra. Nauðsynlegt er að einstaklingar með einhverfugreiningu séu teknir með þegar unnið er eftir samn­ingum Sam­ein­uðu þjóð­anna um rétt­indi fatl­aðs fólks og öðrum mann­rétt­inda­sátt­mál­um. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa getur verið liður í þeirri vinnu.

Ég hef nú lagt fram þingsályktun ásamt fleiri þingmönnum um að komið verði á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa þar sem öll sú þekking sem til er um einhverfu verði dregin saman á einn stað og börn jafnt sem fullorðnir geti fengið þjónustu með þeirra þarfir í huga. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa hefði það verkefni að veita þjónustu á sviði ráðgjafar, hæfingar og endurhæfingar ásamt því að afla og miðla þekkingu á aðstæðum einhverfra í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum. Þá væri verkefni hennar einnig að hafa yfirsýn yfir aðstæður þeirra sem eru einhverfir og gegna samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum sem veita umræddum notendum þjónustu. Auk þess væri hlutverk þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar að sinna fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við aðstandendur, skóla og aðrar þjónustustofnanir.

Ávinningurinn af þjónustu- og þekkingarmiðstöð sem þessari væri að einhverfir, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna og aðstandendur þeirra, sem og skólar og vinnustaðir geti sótt upplýsingar um alla þá aðstoð sem stendur þeim til boða ásamt því að fá leiðbeiningar og fræðslu. Þá skiptir einnig máli að bæta almenna fræðslu til samfélagsins til þess að auka skilning og bæta viðmót gagnvart einhverfum. Þannig má bæta lífsgæði þeirra sem greinast með einhverfu ásamt því að rjúfa mögulega einangrun.

Ágúst Bjarni Garðarsson, er þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist á visir.is 19. október 2022.

Categories
Greinar

Keppnis- og af­reks­í­þrótta­fólk lifir ekki á loftinu

Deila grein

14/09/2022

Keppnis- og af­reks­í­þrótta­fólk lifir ekki á loftinu

Keppnis- og afreksíþróttafólk á oft og tíðum erfitt með að fá vinnu við hæfi samhliða íþróttaiðkun vegna þess að fyrirtæki veigra sér við að ráða starfsmenn sem þurfa að vera frá vegna tíðra æfinga eða keppnisferða. Afleiðingarnar eru að keppnis- og afreksíþróttafólk stendur frammi fyrir því erfiða vali hvort það vilji halda áfram að æfa og keppa í sinni íþrótt með tilheyrandi óvissu um framfærslu.

Skattalegir hvatar til launagreiðenda

Til þess að reyna að bregðast við þessum vanda hefur undirritaður ásamt öðrum þingmönnum Framsóknar lagt fram þingsályktunartillögu sem hefur það að markmiði að skapa hvata með skattkerfinu fyrir fyrirtæki til þess að ráða til starfa hjá sér keppnis- og afreksíþróttafólk. Þessi tillaga kemur ekki í staðinn fyrir hugmyndir um laun og styrki frá ríkinu til afreksíþróttafólk, heldur frekar til stuðnings við þær hugmyndir. Mikilvægt er að finna leiðir sem nýtast bæði þeim sem eru í keppnisíþróttum innanlands sem og afreksíþróttum. Í tillögunni er mennta- og barnamálaráðherra í samvinnu við fjármála og efnahagsráðherra falið að skipa starfshóp sem fái það verkefni að útfæra skattalega hvata til launagreiðanda hvort sem er á opinberum eða almennum markaði vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Markmiðið er að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og launagreiðandi fái skatta ívilnun á móti greiddum launum.

Það skiptir máli að fá laun

Með takmörkuðum tekjum nær íþróttafólk ekki að ávinna sér full lífeyrisréttindi, atvinnuleysisbætur eða rétt til fæðingarorlofs. Það að bæta við fjárhagsáhyggjum ofan á að byggja upp feril í íþróttum er ekki hvetjandi og síst til þess fallið að fjölga efnilegu íþróttafólki hérlendis. Á þetta bæði við um einstaklinga sem eru í innlendum keppnisíþróttum, upprennandi afreksíþróttafólk og sem og núverandi afreksíþróttafólk.

Íslenskt íþróttafólk, þá sér lagi afreksíþróttafólk hefur um árabil kallað eftir því að geta helgað sig sinni íþróttagrein til þess að standast betur alþjóðlega keppni, upprennandi afreksíþróttafólk sem og annað keppnisíþróttafólk þarf að fá betri stuðning annars getur verið erfitt fyrir þau að ná tilætluðum árangri.

Íþróttafólk eru fyrirmyndir

Með hvata sem þessum hafa fyrirtæki bæði aukin sveigjanleika til þess að koma til móts við mismunandi þarfir og aðstæður íþróttamanna sem og aukin hvata til þess. Með því að styðja við keppnis- og afreksíþróttafólk með þessum hætti er jafnframt verið að styðja við lýðheilsu í landinu. Ekki þarf að fjölyrða um hversu mikilvægt það er fyrir okkur sem þjóð að geta státað okkur af fjölbreyttu og efnilegu keppnis- og afreksíþróttafólki. Forvarnargildi íþrótta er ótvírætt og mikilvægt er að börn og ungmenni eigi sér öflugar fyrirmyndir en rannsóknir hafa sýnt fram á að þátttaka í íþróttum hefur m.a. jákvæð áhrif á námsárangur, sjálfsmynd, sjálfsvirðingu, líkamsmynd, heilsu og almenna líðan. Með því að styðja við keppnis- og afreksíþróttafólk eignumst við fleiri fyrirmyndir og stærri hóp af öflugu íþróttafólki.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Categories
Greinar

Staða Íslands sterk í orkumálum

Deila grein

08/09/2022

Staða Íslands sterk í orkumálum

Við bæði sjáum og finnum á eigin skinni að hagkerfi heimsins eiga nú við ramman reip að draga í baráttunni við háa verðbólgu. Orkuverð í Evrópu hefur sjaldan verið hærra og ógnar það fjármálastöðugleika í álfunni. Verðbólguspár í Evrópu fara hækkandi og er því eins farið á Íslandi þar sem hátt húsnæðisverð og einkaneysla hafa drifið verðbólguna áfram. Þrátt fyrir að hafa séð örlitla verðbólgulækkun hér á landi í lok ágústmánaðar, er full snemmt að lýsa yfir sigri.

Orkumál í Evrópu í afar erfiðri stöðu

Staðan í orkumálum á Íslandi er góð, sérstaklega ef tekið er mið af stöðu þessara mála í Evrópu. Þar eru þó nokkur ríki að grípa til neyðaraðgerða til að bregðast við hækkandi gas- og orkuverði og aukinni sveiflu.Neyðaraðgerðirnar snúa meðal annars að fjárstuðningi til raforkuframleiðenda og fjármálafyrirtækja í kjölfar ákvörðunar Rússa um að stöðva gasafgreiðslur til Evrópu. Sú ákvörðun getur valdið gífurlegu álagi á fjármálakerfi ríkjanna. Þessar aðgerðir undirstrika alvarleika ástandsins í Evrópu þar sem ríkin keppast við að reyna að tryggja næga orku fyrir komandi vetur og forðast útbreiðslu neyðar meðal raforkuframleiðenda. Aðrar aðgerðir fela í sér mögulegt verðþak á annaðhvort raforku eða gas og leiðir til að aftengja gas- og raforkumarkaðinn við hagkerfið. Verð hefur hækkað langt umfram kostnað við vinnslu, framleiðslu og afhendingu.

Orka okkar allra

Á Íslandi lýtur orka fyrir heimilin ekki sömu reglum verðlagningar og hún gerir víða annars staðar í Evrópu. Við erum ekki bundin því að fá orku frá Rússum eins og nokkur af stærri löndum álfunnar. Hagkerfið okkar stendur feti framar þegar kemur að því að vinna bug á verðbólguógninni. Við erum rík af auðlindum og hinir ýmsu atvinnuvegir bjóða upp á ýmsa möguleika. Velsæld og samfélagsleg samstaða ætti að vera okkur öllum hugleikin og því er mikilvægt að skoða öll þau áhrif sem verðbólgan kann að hafa. Sérstaklega þarf að taka til athugunar hvaða hópum hún kemur verst niður á og grípa til nauðsynlegra úrræða þar sem við á. Þetta er verkefni okkar og því þurfum við að sinna. Það er hagur okkar allra.

Ágúst Bjarni Garðarsson: þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. september 2022.