Categories
Fréttir Greinar

Gul við­vörun verður rauð ef ekkert er að gert

Deila grein

27/04/2023

Gul við­vörun verður rauð ef ekkert er að gert

Seðlabankastjóri hefur nú ítrekað komið upp, kynnt stýrivaxtahækkanir og hvatt almenning til að draga úr neyslu. Í tólfta skiptið var stigið það stóra skref að hækka stýrivexti um heila prósentu. Við erum öll orðin meðvituð um afleiðingarnar og hvað áhrif þessar hækkanir hafa á rekstur heimila í landinu. Það verða allir að ganga í takt og mikilvægt er að Seðlabankinn sjálfur gangi fram með góðu fordæmi svo hægt sé að segja að hljóð og mynd fari saman.

Miklar afleiðingar á húsnæðismarkaði

Húsnæðismarkaðurinn hefur fundið fyrir aðgerðum Seðlabankans með margvíslegum hætti. Kaupendum hefur verið gert erfiðara um vik með að komast inn á markaðinn og fjármögnun nýframkvæmda er orðin dýrari. Þetta hefur haft gríðarleg áhrif á þá sem eru að taka sín fyrstu skref hvað varðar húsnæðiskaup og hefur þar af leiðandi einnig áhrif á fólk sem þarf að stækka við sig. Með öðrum orðum hefur þetta áhrif á keðjuna. Ungt fólk á varla möguleika í núverandi aðstæðum. Það er kannski vægt til orða tekið og réttara væri að segja að það ætti hreinlega ekki möguleika nema hugsanlega með aðstoð efnaðra foreldra. Þetta er vond staða og ekki í takti við það samfélag sem við viljum byggja.

Við sjáum að hlutfall fyrstu kaupenda á fasteignamarkaðnum hefur dregist verulega saman og er það bein afleiðing aðgerða Seðlabankans sem ég hef margoft bent á. Það verður þó að segjast að Seðlabankanum hafi vissulega tekist ætlunarverk sitt sem var að kæla markaðinn, en við verðum þá jafnframt að spyrja okkur að því hvernig við ætlum að bregðast við í nútíð og til framtíðar. Á tímum sem þessum er ekki hægt að setja á pásu og stöðva lífið tímabundið hjá ákveðnum hópi fólks og setja svo af stað aftur þegar ástandinu slotar. Nei, lífið einfaldlega heldur áfram og við sjáum nú margt fólk, ungt fjölskyldufólk og aðra kaupendur í fullkominni pattstöðu.

Lausnirnar eru einfaldar

Lausnirnar eru oft einfaldar en við erum ekki alltaf sammála hvaða leið við viljum fara. Ég hef áður skrifað og rætt um ýmsar leiðir til að bregðast við stöðunni en það blasir við okkur að það verður að grípa fyrstu kaupendur og ráðast í tímabundnar sértækar aðgerðir til að leysa þann hnút sem við erum komin í. Því til viðbótar þarf að hafa skýra sýn á uppbyggingu húsnæðis til framtíðar. Því legg ég til eftirfarandi leiðir sem ég trúi á og vona að fái hljómgrunn:

  1. Breyta reglum er varða veðsetningu lána fyrstu kaupenda svo að auðveldara sé að festa kaup á húsnæði en samhliða horfa enn frekar á greiðslugetu.
  2. Ráðast í sértækar aðgerðir fyrir þá sem fyrirhuga byggingu hagkvæmra íbúða á næstu mánuðum og þar má horfa til sérstakra lánaskilmála hjá fjármálafyrirtækjum og/eða undanskilja þá aðila frá fyrirhugaðri lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 60% í 35% vegna framkvæmda við íbúðahúsnæði.
  3. Þá þurfa lífeyrissjóðirnir að axla ábyrgð og taka þátt í uppbyggingu heilbrigðs leigumarkaðar. Nauðsynlegar lagabreytingar eru að mínu mati engin fyrirstaða.
  4. Þessu til viðbótar þarf að tímasetja rýmkun á reglum og kröfum hvað varðar veitingu hlutdeildarlána til fyrstu kaupenda.

Aðgerð 2. væri þá sú sértæka aðgerð sem þyrfti til svo til tryggja mætti nauðsynlega uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til framtíðar og koma í veg fyrir fyrirsjáanlega stöðnun. Ég er full meðvitaður um þann línudans sem þetta er á tímum hárra vaxta og verðbólgu, en núverandi ástand mun einungis leiða til hærra leiguverðs og auka þrýsting á mjög hátt fasteignaverð þegar núverandi ástand líður undir lok. Við þá sem trúa því að svo verði ekki vil ég segja eftirfarandi og gera orð Páls postula úr fyrra Korintubréfi að mínum:

„Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn.“

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Djúpið í örum vexti!

Deila grein

23/04/2023

Djúpið í örum vexti!

Við verðum að tryggja fleiri stoðir undir atvinnulíf þjóðarinnar. Já, við vitum, að þú hefur heyrt þetta nokkrum sinnum áður. En við viljum segja þér frá atvinnugrein sem er að skapa störf og það mjög fjölbreytt störf í samfélagi sem hefur verið í varnarbaráttu allt of lengi.

Undirritaðir áttu mjög fróðlega og góða ferð um liðna helgi er við kynntum okkur eldissvæði Háafells við Skarðshlíð í Ísafjarðardjúpi. Þar hefur verið lax í sjó í hartnær eitt ár með lágum afföllum og góðum vexti. Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells, fór yfir áherslur og framtíðarsýn fyrirtækisins á framleiðslunni í viðkvæmri náttúru og um leið verðmætri auðlind. Fróðlegt var að hlýða á yfirlit yfir þær miklu umhverfisrannsóknir sem fram hafa farið og þann viðamikla undirbúning sem fór fram áður en eldið fór af stað. Eins var upplýsandi að heyra hvað fyrirtækið býr að mikilli þekkingu eftir 20 ár í eldi og síðan áratuga reynslu af rækjuveiðum í Djúpinu.

Háafell vinnur eftir ströngum kröfum og vinnur nú að innleiðingu Whole Foods staðalsins fyrir sínar vörur, sem eru afar kröfuharðar, er varðar efni, fóður og sýnatökur. Whole Foods eru hvað þekktust fyrir sölu á hágæða matvælum sem eins lítið hefur verið átt við í framleiðslu og mögulegt er. Rétt er að geta þess að sýklalyf eru ekki notuð hjá þeim í fyrirtækjum sem í dag stunda laxeldi í sjó á Vestfjörðum. Við erum sannfærð um að góðri umgjörð sé hægt að byggja upp greinina í sátt við náttúruna, en ekki á kostnað hennar.

Við höfum tækifæri til að skapa ný störf og er mikilvægt að farvegurinn sé þannig úr garði gerður að hægt sé að sækja hratt fram. Það er ekki ónýtt að geta tryggt betur og stuðlað að störfum er krefjast fjölbreytts bakgrunns. Gleymum heldur ekki afleiddum störfum, allt helst þetta í hendur að festa í sessi sterkara samfélag á Vestfjörðum.

Það þarf að vinna að sanngjarni skiptingu tekna á milli ríkis og sveitarfélaga og tryggja uppbyggingu innviða. Framsókn hefur talað skýrt í þeim efnum, að gjaldtaka standi undir verkefnum sveitarfélaga ásamt því að tryggð sé sjálfbærni þeirra hafna og samfélaga þar sem eldi er stundað. Það er allra hagur.

Óhætt er að segja að framtíðin sé björt með nýrri atvinnugrein sem laxeldið er og ekki síst á stöðum sem hafa verið í mikilli varnarbaráttu síðustu áratugi. En það þarf einnig að taka af skarið og vera með skýra sýn á ákvarðanir sem þarf að taka. Laxeldið mun verða ein stærsta útflutningsgreinin og um leið tryggjum við frekari stoðir undir fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi.

Ágúst Bjarni Garðarsson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist á visir.is 22. apríl 2023

Categories
Greinar

Tíma­móta­samningur um lið­skipta­að­gerðir og loksins jafnt að­gengi

Deila grein

03/04/2023

Tíma­móta­samningur um lið­skipta­að­gerðir og loksins jafnt að­gengi

Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu er kjarninn í stefnu Framsóknar í heilbrigðismálum. Þær áherslur birtast sömuleiðis í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að aðgengi að heilbrigðisþjónustu er réttlætismál.

Blandað rekstrarform

Við eigum öflugt heilbrigðiskerfi sem byggir á blönduðu rekstrarformi þar sem hið opinbera bæði veitir þjónustu og kaupir af öðrum aðilum. Þegar heilbrigðisþjónusta er fjármögnuð með opinberu fé er áhersla lögð á að þjónustan sé veitt tímanlega, af gæðum og á hagkvæman hátt. Í litlu þjóðfélagi þarf að gæta að jafnvægi og forgangsröðun þannig að opinberar heilbrigðisstofnanir geti sinnt sínu lögbundna hlutverki. Með samningum Sjúkratrygginga Íslands um kaup á heilbrigðisþjónustu er hægt að stuðla að betri nýtingu fjár og mannauðs. Forsenda þess að blandað heilbrigðiskerfi gangi upp er samvinna og samspil kerfisins í heild þannig að hægt sé að fullnýta afkastagetu þess í þágu fólksins í landinu.

700 liðskiptaaðgerðir á þessu ári

Við þekkjum vel umræðuna í tengslum við liðskipaaðgerðir sem hefur fylgt þjóðinni undanfarna áratugi. Ófá biðlistaátök hafa verið sett af stað með ágætis tímabundnum árangri en skömmu síðar höfum við ratað aftur í sama farið. Opinberar stofnanir þurfa að forgangsraða þjónustu sinni til að geta tekist á við lögbundið hlutverk sitt er varðar bráð veikindi, farsóttir og annað. Því sitja stundum á hakanum aðgerðir sem þessar. Fjöldi sjúkratryggða einstaklinga hefur einnig nýtt sér heimildir EES regla um heilbrigðisþjónustu erlendis vegna langrar biðar eftir aðgerð. Er það gert með fullri greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands, með tilheyrandi viðbótarkostnaði, óþægindum og óhagræði.

Frá árinu 2016 hefur Klínikin boðið upp á liðskiptaaðgerðir án greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands sem hefur vissulega hjálpað mörgum. En tvöfalt heilbrigðiskerfi, þar sem efnameiri einstaklingar hafa tækifæri til að borga sig fram fyrir röðina, er eitthvað sem okkur í Framsókn hugnast ekki. Það verður að gæta jafnræðis í nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þannig að allir geti gengið að góðri og tímanlegri þjónustu þegar á þarf að halda. Það er farsælast að allir þjónustuveitendur heilbrigðiskerfisins geti unnið saman að sameiginlegu markmiði á sömu forsendum. Þannig næst árangur til lengri tíma og tímabundinn á.

Það er því afar ánægjulegt að sjá áherslur Framsóknar setja mark sitt á heilbrigðismál undir öflugri forystu Willums Þórs, heilbrigðisráðherra. Í vikunni staðfesti hann samning Sjúkratrygginga Íslands um kaup á 700 liðskiptaaðgerðum á þessu ári. Samningurinn markar tímamót og stuðlar að auknu og umfram allt jöfnu aðgengi að liðskiptaaðgerðum. Sömuleiðis hefur heilbrigðisráðherra tryggt aðgengi kvenna að endómetríósuaðgerðum með samskonar samningi í upphafi árs.

Tryggjum gæði og förum vel með fé

Sérhæft heilbrigðisstarfsfólk er takmörkuð auðlind í fámennu samfélagi og skipulag þjónustunar þarf að taka mið af því. Höfum hagsmuni einstaklingsins sem þarf á þjónustunni að halda að leiðarljósi. Með kaupum Sjúkratryggingar Íslands á nauðsynlegri heilbirðgisþjónustu tryggjum við jafnt aðgengi, samvinnu, réttláta forgangsröðun, skynsama nýtingu á almanna fé og fullnýtum afkastagetuna í heilbrigðiskerfinu.

Ágúst Bjarni Garðsson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Gul viðvörun í húsnæðiskortinu

Deila grein

28/03/2023

Gul viðvörun í húsnæðiskortinu

Nýverið kynnti seðlabankastjóri tólftu stýrivaxtahækkunina í röð. Peningastefnunefnd ákvað að hækka stýrivexti um heila prósentu og flestir landsmenn, ef ekki allir, eru nú orðnir meðvitaðir um það hvaða afleiðingar þetta hefur á rekstur heimila. Stýrivaxtahækkanir og verðbólga hækka lánin, matarkarfan er orðin dýrari, tryggingar hafa hækkað og veski landsmanna léttist í takt. Þær jákvæðu fréttir bárust hins vegar í morgun að verðbólgan virðist vera að þokast niður.

Einn fyrir alla, allir fyrir einn

Afleiðingar af þessum hækkunum eru auðvitað margþættar. Þetta er þungt högg fyrir marga en hefur kannski hvað mest áhrif á einstaklinga og húsnæðismarkaðinn, sérstaklega þá sem eru að taka sín fyrstu skref hvað varðar húsnæðiskaup, starfsframa og stofnun fjölskyldu. Ungt fólk á varla möguleika í núverandi aðstæðum. Fjölmargir berjast í bökkum við að eiga fyrir afborgunum og sumir neyðast jafnvel til að selja eignir sem þó getur reynst erfitt líkt og markaðurinn er í dag. Þessi þróun mun að öllu óbreyttu halda áfram þegar fastir vextir óverðtryggðra lána renna sitt skeið.

Hlutfall fyrstu kaupenda á fasteignamarkaðnum hefur dregist verulega saman og er það bein afleiðing aðgerða Seðlabankans sem ég hef margoft bent á. Þetta er vond þróun og húsnæðismarkaðurinn sem hefur verið í mikilli grósku undanfarin ár er nú botnfrosinn. Seðlabankanum hefur tekist ætlunarverkið sem var að kæla markaðinn, en við verðum að spyrja okkur að því hvernig við ætlum að bregðast við í nútíð og til framtíðar. Á tímum hækkandi verðbólgu og vaxta stoppar lífið samt sem áður ekki og við sjáum margt fólk, ungt fjölskyldufólk og aðra fyrstu kaupendur í fullkominni pattstöðu. Fólk verður áfram að finna sér heimili en húsnæðisverð, lánakjör og aðrar aðstæður leyfa það ekki.

Hvað er til ráða?

Það gefur augaleið að grípa þurfi fyrstu kaupendur og gera sérstakar ráðstafanir til að leysa þann hnút sem við erum komin í. Til viðbótar þurfum við auðvitað að hafa skýra sýn á uppbyggingu húsnæðis til framtíðar. Ég hef áður skrifað og rætt um ýmsar leiðir til að bregðast við stöðunni og ég er farin að upplifi mig sem rispaða plötu. Við þurfum á einhverjum tímapunkti að horfa til rýmkunar á reglum og kröfum hvað varðar veitingu hlutdeildarlána til fyrstu kaupenda. Við þurfum núna að breyta reglum er varða veðsetningu lána fyrstu kaupenda svo að auðveldara sé að festa kaup á húsnæði. Við þurfum núna að greina umhverfi framkvæmdaðila og mér þykir líklegast að nauðsynlegt sé að ráðast í sértækar aðgerðir fyrir þá sem fyrirhuga byggingu hagkvæmra íbúða á næstu mánuðum og má þar horfa til sérstakra, og tímabundna, lánaskilmála hjá fjármálafyrirtækjum. Þetta væri þá sú sértæka aðgerð sem þyrfti til svo til tryggja megi nauðsynlega uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til framtíðar og koma í veg fyrir fyrirsjáanlega stöðnun. Þá ákalla ég lífeyrissjóðina um að koma inn með öflugri hætti og taka þátt í uppbyggingu heilbrigðs leigumarkaðar. Þurfi til þess lagabreytingu þá er það okkar þingmanna að bregðast þar við.

Ég er full meðvitaður um þann línudans sem þetta er á tímum hárra vaxta og verðbólgu, en núverandi ástand mun einungis leiða til hærra leiguverðs og auka þrýsting á mjög hátt fasteignaverð þegar núverandi ástandi slotar.

Það eru ýmis verkfæri til staðar og spurningin er að nýta þau. Ég er tilbúinn til þess að vinna að lausn mála og kalla á fleiri til að vera með mér í því liði.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. mars 2023.

Categories
Greinar

Mælt fyrir þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa

Deila grein

22/03/2023

Mælt fyrir þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa

Mannlegur fjölbreytileiki kemur fram með ýmsum hætti og umræðan um ólík taugakerfi er að verða mun opnari og auðveldari en áður var. Einhverfa er hluti af mannlegum fjölbreytileika og einstaklingar á einhverfurófi glíma oftar en ekki við miklar áskoranir í kerfinu. Við heyrum sögur frá einhverfu fólki og aðstandendum þeirra að kerfið sé oft flókið og erfitt sé að vita hvar rétta aðstoð sé að fá. Slíkt er ekki ásættanlegt og við þurfum að leita leiða sem snúið geta þessari þróun við og hjálpað okkur að bæta ferlið til að tryggja að fólk fái þá aðstoð sem það þarf og getur bætt lífsgæði og aðstæður þess.

Baráttumál Einhverfusamtakanna

Í byrjun mars mælti ég fyrir tillögu minni til þingsályktunar um að komið verði á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa. En rétt er að taka fram að stofnun slíkrar miðstöðvar hefur verið eitt helsta baráttumál Einhverfusamtakanna um árabil. Þar yrði öll sú þjónusta og þekking sem til staðar er um einhverfu dregin saman á einn stað og börn jafnt sem fullorðnir geti fengið þjónustu með þeirra þarfir þeirra að leiðarljósi. Það er mikilvægt að þegar einstaklingur fær greiningu á einhverfurófi að bæði einstaklingurinn og fjölskyldan fái fræðslu um greiningu og aðferðir sem gætu hentað. Samvinna milli heimilis og skóla er einnig sérstaklega mikilvæg. Verkefni miðstöðvarinnar yrði að veita þjónustu á sviði ráðgjafar, hæfingar og endurhæfingar auk þess að afla og miðla þekkingu á aðstæðum einhverfra einstaklinga í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum. Yfirsýn yfir aðstæður þeirra sem eru einhverfir yrði einnig á höndum miðstöðvarinnar ásamt því að gegna samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum sem veita umræddum notendum þjónustu. Auk framangreinds yrði fræðsla, ráðgjöf og stuðningur við aðstandendur, skóla og aðrar þjónustustofnanir einnig á herðum þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar.

Ávinningur með stofnun miðstöðvarinnar

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa þekkist víða erlendis og er ótvíræð nauðsyn fyrir stofnun hennar hérlendis. Miðstöðin mun styðja við það mikilvæga starf sem þegar er unnið hér á landi, þvert á kerfi og stofnanir. Ávinningurinn af stofnun hennar yrði að einhverfir, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna og aðstandendur þeirra, sem og skólar og vinnustaðir geti sótt upplýsingar um alla þá aðstoð sem stendur þeim til boða ásamt því að fá leiðbeiningar og fræðslu. Almenn fræðsla til að auka skilning og bæta viðmót samfélagsins er nauðsynleg. Þegar unnið er eftir samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum mannréttindasáttmálum er nauðsynlegt að einstaklingar með einhverfugreiningu séu hafðir með í ráðum. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa getur verið liður í þeirri vinnu. Slík miðstöð verður nefnilega ekki reist, án aðkomu einhverfra sjálfra, enda er henni ætlað að verða staður fyrir rödd og reynslu einhverfra.

Ágúst Bjarni Garðsson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. mars 2023.

Categories
Greinar

Tvö­földun Reykja­nes­brautar bætir um­ferðar­öryggi

Deila grein

14/03/2023

Tvö­földun Reykja­nes­brautar bætir um­ferðar­öryggi

Tvöföldun Reykjanesbrautar frá gatnamótunum við Krýsuvík að Hvassahrauni hefur verið boðin út. Það er mikið gleðiefni. Hér er um að ræða 5,6 kílómetra kafla, en þar undir eru einnig bygging brúarmannvirkja og undirganga fyrir akandi, gangandi og hjólandi. Þetta er brýn framkvæmd sem mun auka umferðaröryggi til muna og fækka slysum á þessum vegkafla. Álagið á Reykjanesbrautinni hefur aukist til muna með stærri byggð suður með sjó samhliða gríðarlegri fjölgun ferðamanna á síðustu árum.

Þær jákvæðu fréttir bárust síðan í liðinni viku að Ísland hafi bætt stöðu sína í umferðaröryggi samkvæmt nýjum bráðabirgðatölum Evrópusambandsins. Þær tölur byggja á fjölda látinna í umferðinni miðað við hverja 100.000 íbúa í ríkjum Evrópu.

Við sem þjóð erum þar í þriðja sæti á eftir Noregi og Sviðþjóð með fæst banaslys árið 2022. Hér er auðvitað ýmislegt sem hefur áhrif og má þar nefna að ökutækin eru orðin öruggari, vegir eru orðnir betri auk þess sem fræðsla og forvarnir eru að skila sér í bættri hegðun í umferðinni.

Fréttir sem þessar eru auðvitað gleðilegar; þær skipta máli og sýna það svart á hvítu að við erum á réttri leið. Það gerist ekki af sjálfu sér, heldur hefur ráðherra samgöngumála verið með sérstaka áherslu á umferðaröryggismál síðustu ár sem nú er að skila sér. Að því sögðu er nauðsynlegt að ítreka það, og taka sérstaklega fram, að hvert banaslys í umferðinni er einu banaslysi of mikið. Við þurfum því stöðugt að halda áfram og reyna með öllum tiltækum ráðum og aðgerðum að fyrirbyggja slík slys.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Ungt fólk í hús­næðis­vanda

Deila grein

07/03/2023

Ungt fólk í hús­næðis­vanda

Ég hef orðið verulegar áhyggjur af húsnæðismarkaðnum hér á landi. Þau tæki sem Seðlabanki Íslands hefur til þess að halda verðbólgu í skefjum og koma í veg fyrir óhóflegar lántökur eru stýrivaxtahækkanir. Stýrivaxtahækkanir hafa leitt til hærri vaxta hjá bönkunum með tilheyrandi gróða. Því hærri sem vextirnir eru, því meira fær bankinn til sín og því erfiðara verður fyrir almenning í landinu að borga lánin til baka. Háir vextir gera fólki ekki bara erfitt fyrir með að greiða af lánum, heldur hefur þau áhrif að fólk þarf að skera niður í öðrum heilbrigðum og nauðsynlegum heimilisútgjöldum. Þar getum við sem dæmi nefnt útgjöld á borð við tómstundaiðkun barna, matarinnkaup, tryggingar og jafnvel heilbrigðisþjónustu. Þessi staða skapar ákveðna togstreitu og reiði út í samfélaginu sem ég skil vel. Á sama tíma og fólk á erfitt með að ná endum saman sökum þess að afborganir af húsnæðislánum hafa hækkað verulega berast fréttir af milljarða hagnaði bankanna og annarra fjármálafyrirtækja.

Unga fólkið og markaðurinn

Þá hef ég verulegar áhyggjur af öllum þeim fjölda fólks sem bæði hefur þá ósk og þrá að koma sér og sínum þaki yfir höfuðið, en geta það ekki. Ástæðan: fólki hefur verið gert erfiðara um vik að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Seðlabankinn tók þá ákvörðun um að þyngja greiðslumatið og lækka hámarkslánsprósentuna til að kæla markaðinn og koma böndum á þær miklu hækkanir sem verið hafa undanfarna mánuði og ár. Þrátt fyrir að þessar aðgerðir Seðlabankans hafi að einhverju leyti skilað sínu, þá tel ég nauðsynlegt að fara með hámarkslánsprósentuna til baka en tryggja áfram vel að fólk geti staðið við greiðslur afborgana lána.

Meiri fyrirsjáanleiki

Við þekkjum öll þær miklu sveiflur sem einkennt hafa húsnæðismarkaðinn hér á landi í alltof langan tíma. Þær sveiflur og þann vanda má í raun rekja til fullkomins skorts á yfirsýn yfir þann fjölda íbúða sem byggður hefur verið og er í byggingu á landinu. Fólki fjölgar og eftirspurn eftir húsnæði er og verður áfram til staðar. Tímabundin kæling mun ganga til baka og við munum sjá húsnæðisverð taka að hækka á ný, að minnsta kosti eitthvað áfram. Það sem mun vonandi koma böndum á þessa þróun til framtíðar eru aðgerðir Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra, um meiri fyrirsjáanleika í uppbyggingu húsnæðis með gerð rammasamninga við sveitarfélög um slíka uppbyggingu og sérstakri áherslu á gerð húsnæðisáætlana. Þetta mun auka yfirsýn til framtíðar og stuðla að nauðsynlegu jafnvægi á markaði.

Það er þörf á aðgerðum

Líkt og ég hef áður sagt, þá er nú búið að taka í handbremsuna og það allharkalega af hálfu Seðlabankans. Þetta hefur auðvitað keðjuverkandi áhrif. Við sjáum það víða að samhliða því að fólki er gert erfiðara um vik við að koma sér inn á markaðinn, þá hækkar leiga og fólk hefur minna svigrúm til að leggja fyrir og spara. Sjáið til, það kemur ofan á allar aðrar hækkanir í samfélaginu. Fólk kemst ekki í þær eignir sem nú eru í byggingu – og hvar enda þær og hjá hverjum? Þeir ríku græða, en aðrir sitja eftir. Ég held að það þurfi ekki fleiri orð um það. Staðan núna er einfaldlega vond, í raun mjög vond og hér fyrir neðan eru þær nauðsynlegu aðgerðir sem grípa þarf til og eru tiltölulega einfaldar í framkvæmd:

  1. Sveitarfélög þurfa að taka hendur úr vösum, finna leiðir til að tryggja nægilegt framboð byggingarhæfra lóða og gera sérstakt samkomulag við ríkið og HMS um uppbyggingu til framtíðar, svokallað rammasamkomulag.
  2. Seðlabankinn þarf að endurskoða hámark veðsetningarhlutfalls og greiðslubyrðarhlutfalls þannig að ekki sé útilokað að ungt fólk geti komið sér þaki yfir höfuðið.
  3. Endurskoða þarf úrræði hlutdeildarlána þannig að það virki fyrir fyrstu kaupendur og skapi hvata fyrir byggingaraðila til að fjárfesta í nauðsynlegri íbúðauppbyggingu.

Ágúst Bjarni Garðsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Raunhagkerfið, landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið

Deila grein

28/02/2023

Raunhagkerfið, landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið

Við þingmenn Framsóknar nýttum nýliðna kjördæmaviku vel og fórum í góða fundarferð um landið þar sem við héldum fjölda opinna funda ásamt því að heimsækja fólk og fyrirtæki um allt land. Ég hef ávallt lagt mikið upp úr því, hvort sem það er sem kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn líkt og ég var árin 2018-2022 eða sem kjörinn fulltrúi á Alþingi Íslendinga, að vera í góðu sambandi við kjósendur og nýta þann tíma sem ég hef til að hitta fólk og heimsækja fyrirtæki. Þetta finnst mér alveg sérstaklega mikilvægt, þó ekki sé nema að sjá og kynnast í raun hvað það er sem brennur á fólki og hvar það er sem gera þarf betur. Í byrjun janúar héldum við Willum Þór, heilbrigðisráðherra, opna fundi í okkar kjördæmi, suðvestur, sem voru góðir og vel sóttir. Þar kom ýmislegt gagnlegt fram og margt sem við gátum og getum tekið með inn í okkar störf. Nú var það hins vegar landsbyggðin sem var heimsótt var 14.-17. febrúar síðastliðinn.

Ólíkir hagsmunir landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis?

Ég hef alltaf sagt að það er mikilvægt fyrir okkur þingmenn á höfuðborgarsvæðinu að heimsækja landsbyggðina. Það er ekki bara mikilvægt, því það er líka hollt að sækja íbúa annarra kjördæma heim og heyra hvernig hjartað slær í samfélögum víða um land og hvað það er sem skiptir fólki raunverulegu máli á hverju svæði fyrir sig. Dagskráin var þétt alla þessa daga og var vel skipulögð af okkar góða starfsfólki í samvinnu við fólk í heimabyggð. Það sem hefði kannski ekki átt að koma mér neitt sérstaklega á óvart, en gerði það þó að nokkur leyti, er hversu samofnir hagsmunir íbúa um land allt raunverulega eru. Mér hefur oft fundist af umræðunni að dæma að þessum hópum, það er að segja íbúa landsbyggðar og höfuðborgar sé oft stillt upp sem einhvers konar andstæðingum þegar kemur að stórum málum, líkt og þegar kemur til dæmis að uppbyggingu samgöngumannvirkja. Í lok dags, er staðan einfaldlega þannig að hagsmunirnir eru um margt mjög líkir og ég varð sérstaklega var við það þegar kemur að umræðum um stór mál líkt og orkumál, samgöngur, málefni eldra fólks, uppbyggingu hjúkrunarheimila, vexti og verðbólgu og svo mætti áfram telja. Þetta eru mál sem snerta okkur öll, sama hvar á landinu við búum, bæði í nútíð og til framtíðar.

Það eru verðmæti í því að halda landinu í blómlegri byggð

Þá var það sérstaklega gaman að sjá þá allt það kröftuga atvinnulíf sem býr á landsbyggðinni og það má með sanni segja að raunhagkerfið búi á landsbyggðinni en þar spilar sjávarútvegurinn auðvitað stórt hlutverk. Enda kemur lang stærsti hluti atvinnutekna í sjávarútvegi, það er veiðum og vinnslu, í hlut einstaklinga á landsbyggðinni. Sjávarútvegurinn er ein mikilvægasta atvinnugrein landsins og honum fylgja mörg afleidd störf, hvort sem það eru hefðbundinn störf í hliðargreinum sjávarútvegs eða í nýsköpun tengdum sjávarútvegi. Þá liggja ótal tækifæri fyrir ungt fólk í nýsköpuninni tengdri greininni, þar sem hefðbundnum störfum hefur fækkað í sjávarútvegi en í þeirra stað hafa skapast eftirsóknarverð hátæknistörf. Þá skiptir laxeldi einnig verulegu máli fyrir þjóðarbúið, mikilvægi þess fer einungis vaxandi á komandi árum enda lax einn besti próteingjafinn fyrir ört fjölgandi mannkyn. Fjöldi starfa fylgir laxeldinu, bæði tengdri greininni sjálfri en þá verða einnig verða til mörg afleidd störf með tilheyrandi tækifærum fyrir sveitarfélög sem mörg hver hafa átt undir höggi að sækja. Allt helst þetta í hendur og styður við uppbyggingu fleiri starfa á hverju svæði fyrir sig. Ungt fólk snýr aftur í byggðirnar og aldurspýramídinn hefur tekið jákvæðum breytingum. Mikil gróska er í atvinnu, ferðaþjónustu og menningarstarfsemi á landsbyggðinni en þar er býr einnig landbúnaðurinn sem er undirstöðu atvinnugrein sem styður við fjölda annarra atvinnugreina eins og t.d. ferðaþjónustu. Við sem búum á höfuðborgarsvæðinu gerum okkur ef til vill ekki alltaf nægilega vel grein fyrir mikilvægi allra þeirra starfa sem eru á landsbyggðinni og skapa raunveruleg verðmæti fyrir land og þjóð.

Ég vil þakka kærlega fyrir góða kjördæmaviku og þeim fjölmörgu sem mættu á opna fundi okkar og þeim fyrirtækjum sem tóku vel á móti okkur.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Categories
Fréttir Greinar

Nokkrar vangaveltur um tryggingar

Deila grein

11/02/2023

Nokkrar vangaveltur um tryggingar

Enn og aftur sting ég niður penna og fjalla um hækkun trygginga. Það er ekki að ástæðulausu, því í nýlegum Þjóðarpúlsi Gallup kemur fram að hlutfall þeirra sem ekki ná endum saman fjárhagslega hafi ekki verið jafn hátt í sjö ár og sögðust átta af hundrað safna skuldum. 

Ég velti því enn og aftur fyrir mér „samfélagslegum skyldum“ tryggingarfélaga, banka og annarra aðila sem geta borið þyngri byrðar eða tekið höggið á tímum sem þessum. Líkt og ég kom að í upphafi hef ég áður fjallað um hækkun trygginga og þau svör sem ég fékk við fyrirspurn minni á sínum tíma. Þær greinar og þau svör má lesa hér.

Ég hef nú sent fjármála- og efnahagsráðherra frekari fyrirspurnir er varða vátryggingamál hér á landi. Fyrirspurnirnar eru tvær. Annars vegar varðandi þróun tjóna í gegnum covid faraldurinn og hins vegar um þróun iðgjalda eftir að tryggingaskylda ökumannatækja á borð við snjósleða, fjórhjóla og torfærumótorhjóla var afnumin á sínum tíma.

Vátryggingaskuld, hvað er það?

En í hvað fara iðgjöldin? Vátryggingaskuld, (eða svokallaður bótasjóður, sem reyndar er hugtak sem ekki er notað lengur í lögum) er myndaður með greiðslu iðgjalda sem tjónaskuld vegna ógreiddra tjóna fyrri ára, það er til að tryggja greiðslugetu bóta í náinni framtíð. Það má vel spyrja sig hvort ekki eigi að nota hagnað af þessari tjónaskuld til lækkunar á iðgjöldum næsta árs eða hvort hann sé reiknaður inn í iðgjaldaþörfina þar sem þetta er arður af skuldinni, alltsvo bótasjóði.

Ég velti því fyrir mér hvort arður af fjárfestingartekjum vátryggingaskuldar sé talinn vera hluti af vátryggingarekstrinum sjálfum. Sé svarið „nei“ við þeirri spurningu mætti spyrja sig af hverju arður af fjárfestingartekjum vátryggingaskuldar (bótasjóði) sé ekki talinn vera hluti af vátryggingarekstrinum þar sem hann er myndaður af iðgjöldum vátryggingataka?

Sé niðurstaðan sú að þessu tvennu sé algjörlega haldið aðgreindu, það er vátryggingarekstrum og fjárfestingum félaganna, má halda áfram að spyrja sig hvort eðlilegt sé að halda þessu aðgreindu þar sem um er að ræða tekjur af áður greiddum iðgjöldum vátryggingataka. Já, ég ætla ekki að halda því fram að það sé auðvelt að átta sig á fjárfestingaumhverfi tryggingarfélaga, en það má og verður að spyrja spurninga.

Hvar liggur ákvörðunin um lækkun iðgjalda?

Væntanlega er það einungis og einvörðungu ákvörðun stjórna félaganna hvort hagnaður af fjárfestingastarfsemi sé notaður í þágu viðskiptavina eða ekki. Það sama á svo við um hagnað af vátryggingastarfsemi. Í frétt Fjármálaeftirlitsins sem bar heitið „Til glöggvunar varðandi vátryggingafélög og svokallaða „bótasjóði“” kom fram að það sé á ábyrgð stjórna vátryggingafélaganna „að tryggja orðspor félaganna haldist gott, en það gera þau best með því að huga bæði að hagsmunum viðskiptavina og fjárfesta. Þær þurfa að ákvarða með hvaða hætti vátryggingafélögin láta viðskiptavini sína njóta góðs af hagnaði sínum. Þetta á við hvort sem um er að ræða hagnað af vátryggingastarfsemi eða fjárfestingarstarfsemi“ Sé þetta raunin, þá geta stjórnir félaganna ef þær kjósa svo látið viðskiptavini njóta góðs af hagnaði sínum, hvort sem um er að ræða hagnað af vátryggingastarfsemi eða fjárfestingarstarfsemi. Með öðrum orðum þá geta stjórnir félaganna tekið ákvörðun um að standa með almenningi í landinu.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Gott sam­fé­lag

Deila grein

27/01/2023

Gott sam­fé­lag

Hvað er samfélag og hvað einkennir gott samfélag? Ég held að við flest teljum að við tilheyrum og séum hluti af góðu samfélagi.

Ég sjálfur er alinn upp í Hafnarfirði og bý þar ásamt fjölskyldu minni. Þar var gott að alast upp, þar er gott vera og þar er gott að ala upp börnin sín.

Vaxtarverkir

Hafnarfjörður hefur stækkað gríðarlega frá því að ég sleit barnsskónum, en í þeirri miklu stækkun og öllum þeim vaxtarverkjum sem slíku fylgir tel ég að vel hafi tekist til við að halda utan um fólkið.

Hafnarfjörður er bær í sveit ef svo má segja og ég tel almennt að íbúar upplifi sig sem hluta af heild, þátttakendur í góðu samfélagi. Það er mikilvægt.

Góð umgjörð

Ég veit að þegar á reynir er samhugurinn mikill í samfélaginu. Það þekki ég úr mínum heimabæ. Fólk stendur saman þegar á bjátar, það er tilbúið að koma og rétta fram hjálparhönd eða sýna samkennd með öðrum hætti.

Við erum gott samfélag með góða umgjörð, en það er eins og annað í lífinu að víða má gera betur og laga til eða fínstilla ákveðna þætti eins og það er stundum orðað.

Samstaða og samfélagsleg ábyrgð

Íbúar um allt land finna nú fyrir þeim miklu hækkunum sem eru að verða hvar sem litið er. Við sjáum það á lánum okkar, leigugreiðslum, matarkörfunni, tryggingum og svo mætti lengi telja.

Fólk tekur eftir og finnur fyrir því á eigin skinni að þetta hefur áhrif á fjármálin. Það reynir því víða á um þessar mundir og mikilvægt að sýna samstöðu og samfélagslega ábyrgð í því verkefni að ná niður verðbólgu.

Breiðu bökin

Nú reynir einnig á hin svokölluðu breiðu bök og að þau sýni að ekki þurfi að velta öllum hækkunum beint út í samfélagið með tilheyrandi áhrifum á fjármál heimila. Þau geta, en það er víst annað en að vilja.

Ágúst Bjarni Garðsson, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. janúar 2023.