Categories
Greinar

Ísland er í einstakri stöðu

Deila grein

08/11/2021

Ísland er í einstakri stöðu

Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem hófst þann 31. október sl. og stendur nú yfir í Glasgow, í Skotlandi. Hún er eðlilegt, og um leið nauðsynlegt, framhald af loftslagsráðstefnunni COP21, sem var haldin í París árið 2015. Þar undirrituðu þau 197 ríki, sem eru aðilar að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, hið svokallaða Parísarsamkomulag. Í því koma fram fögur fyrirheit um kolefnishlutleysi og sett voru markmið um að takmarka hnattræna hlýnun við innan við 1,5°C fyrir 2050 og 2°C á þessari öld.

Ísland og Evrópusambandið stefna á 55% samdrátt í losun fyrir 2030

Með Parísarsamkomulaginu skuldbundu ríki sig einnig til að setja sér sín eigin landsmarkmið um samdrátt í losun. Gert er ráð fyrir að ríki uppfæri markmið sín á fimm ára fresti. Þannig var upphaflegt markmið Evrópusambandsins, sem Ísland tekur þátt í ásamt Noregi, 40% samdráttur í losun fyrir árið 2030, en núna stefnir sambandið á 55% samdrátt í losun.

Mörg ríki hafa þegar kynnt langtímasýn um hvernig þau ætla að ná kolefnishlutleysi og hafa uppfært losunarmarkmið sín. Helsta áhyggjuefnið er samt það að Kína og Indland eru ekki í þeim hópi en þau eru ásamt Bandaríkjunum stærstu losendur gróðurhúsalofttegunda í heiminum.

Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftlagsbreytingar (IPCC) sem kom út í ágúst var bent á að jafnvel þó að ríki skeri hratt niður losun á gróðurhúsalofttegundum gæti hnattræn hlýnun náð 1,5°C strax á næsta áratug en þar kom einnig afdráttarlaust fram að lausnir séu mögulegar og að hver gráða umframhlýnunar skipti verulegu máli um alvarleika afleiðinga loftslagsbreytinganna.

Kolin og farartæki knúin áfram af jarðefnaeldsneyti heyri sögunni til

Í umræðunni fyrir loftslagsráðstefnuna var ekki gert ráð fyrir stórum ákvörðunum á COP26 en þó eru bundnar vonir við að ríkin sem taka þátt í ráðstefnunni skrifi undir yfirlýsingu þar sem ítrekuð verði stefna um mikinn samdrátt í losun fyrir 2030 og mikilvægi markmiða um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 verði staðfest.

Mikilvægast fyrir okkur Íslendinga er að mikið er rætt um að mikilvægasta niðurstaða COP26 verði að ríkin einsetji sér að henda kolum og að farartæki sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði skipt út.

Vandamálið er þó það að allar ákvarðanir sem eru teknar á ráðstefnunni þurfa að vera samhljóða og það getur verið vatn á myllu þeirra sem eiga mikið undir framleiðslu á jarðefnaeldsneyti eins og Sádi-Arabía, Ástralía og Rússland. Enda hefur komið nýlega fram að þessi lönd hafa í gegnum tíðina þrýst á Sameinuðu þjóðirnar að draga úr áherslunni á að ríki heims hætti notkun jarðefnaeldsneytis.

Hreinir orkugjafar eru að taka yfir

Þó að margir séu ekki bjartsýnir á niðurstöðu loftslagsráðstefnunnar í Glasgow hljótum við Íslendingar að fagna því að hreinir orkugjafar eru að taka yfir. Enda fylgja breytingunum margvíslegur ávinningur fyrir land og þjóð. Mikill gjaldeyrissparnaður verður við að keyra allar innlendar samgöngur á grænni innlendri orku í stað innfluttra og mengandi orkugjafa. Einnig hjálpa breytingarnar okkur að standa við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og tryggja að við verðum í farabroddi í þessum málaflokki á meðal þjóða heims.

Ísland í einstakri stöðu

Ísland er í einstakri stöðu til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar þegar kemur að loftslagsvánni. Hér á landi er orkan okkar stærsta auðlind og við höfum sýnt að við höfum þekkingu og reynslu að virkja náttúruna á sama tíma og við umgöngumst landið okkar af virðing og varfærni.

Því er eitt brýnasta umhverfisverndarmál næstu ára að halda áfram að nýta græna orku og hraða orkuskiptum í samgöngum á landi, í lofti og á sjó með rafknúnum bifreiðum og orkuskiptum í sjávarútveginum og flugsamgöngum. Til þess þurfum við að hraða uppbyggingu innviða um allt land og ræða af fullri alvöru hvaðan við eigum að fá innlendu grænu orkuna sem á að koma í stað innflutts jarðefnaeldsneytis. Þar eru orkuauðlindirnar okkar, vatns-, jarðvarma- og vindorka augljóslega þeir möguleikar sem vænlegastir eru.

Við Íslendingar eigum því að hefjast strax handa að ákveða til framtíðar hvernig við viljum nýta orkuauðlindirnar okkar og hraða uppbyggingu innviða. Ef við Íslendingar getum sýnt fram á árangur þegar kemur að orkuskiptum munum við leggja enn meira af mörkum til loftslagsmála á alþjóðavísu en við gerum í dag. 

Ingibjörg Isaksen, 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. nóvember 2021.

Categories
Greinar

Það þarf að afla grænu orkunnar

Deila grein

21/09/2021

Það þarf að afla grænu orkunnar

Breytingum í átt til grænna at­vinnu­lífs og um­hverfis­vænna sam­gangna fylgir marg­vís­legur á­vinningur fyrir land og þjóð. Þótt mest sé horft á lofts­lags­málin þarf vart að tíunda hver gjald­eyris­sparnaðurinn verður af því að keyra allar inn­lendar sam­göngur á grænni inn­lendri orku í stað inn­fluttra og mengandi orku­gjafa. Fyrir­séð er að á næstu árum þurfum við að taka enn stærri skref en áður í átt til grænnar at­vinnu­starf­semi og grænna sam­fé­lags.

En ef allt þetta á að verða að veru­leika þarf að fram­leiða alla þessa grænu orku. Það er því for­gangs­mál að skoða hvaða mögu­leikar eru fýsi­legir til að út­vega aukna græna orku og mikil­vægt að greina og velja hag­kvæmustu kostina. Við megum ekki vera feimin við að ræða málin, spyrja erfiðra spurninga og taka fum­lausar á­kvarðanir til hags­bóta fyrir um­hverfið og komandi kyn­slóðir. Hér á Ís­landi eru vatns-, jarð­varma- og vindorka þeir mögu­leikar sem væn­legastir eru.

Orkan er ein stærsta auð­lind Ís­lendinga og hana þarf að nýta. En ef við ætlum að vera for­ystu­þjóð á sviði grænnar orku – þá þurfum við að afla hennar. Það liggur í augum uppi. Ís­lendingar hafa sýnt það í gegnum árin að við höfum þekkingu og reynslu í að virkja náttúruna og á sama tíma um­gangast landið okkar og jörðina af virðingu og var­færni. Nú þarf að ræða hvar, hvernig og hversu hratt.

Traustir orku­inn­viðir um land allt eru lykillinn að árangri í lofts­lags­málum og þeirri grænu um­breytingu í at­vinnu og sam­göngu­málum sem er í burðar­liðnum. Það er mikil­vægt að hugsa og nálgast málin af skyn­semi, vega og meta þá kosti sem eru í boði og taka á­kvarðanir sem koma sér vel fyrir fram­tíðar­kyn­slóðir í landinu til lengri tíma.

Ingibjörg Isaksen.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. september 2021.

Categories
Greinar

Grænn ávinningur fyrir land og þjóð

Deila grein

15/09/2021

Grænn ávinningur fyrir land og þjóð

Eitt brýnasta umhverfisverndarmál næstu ára er að nýta græna orku og hraða orkuskiptum í samgöngum á landi, í lofti og á sjó. Rafknúnar bifreiðar seljast vel, orkuskipti eru hafin í sjávarútveginum og það hillir undir að slíkt muni einnig eiga sér stað í flugsamgöngum áður en langt um líður. Þetta er jákvæð þróun og við hljótum öll að fagna því að hreinir orkugjafar eru að taka yfir.

Breytingunum fylgir margvíslegur ávinningur fyrir land og þjóð. Mikill gjaldeyrissparnaður verður við að keyra allar innlendar samgöngur á grænni innlendri orku í stað innfluttra og mengandi orkugjafa. Einnig hjálpa breytingarnar okkur að standa við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og tryggja að við verðum í farabroddi í þessum málaflokki á meðal þjóða heims.

Hálendisþjóðgarður – ekki gætt að heildarmyndinni

Í frumvarpi um stofnun Hálendisþjóðgarðs, sem var til umræðu á Alþingi á kjörtímabilinu, var alveg horft fram hjá því hvernig tryggja ætti endurnýjun flutningslína á rafmagni og lokað var á möguleika til nýtingar á endurnýjanlegum orkugjöfum á svæðinu til framtíðar. Þannig var ekki gætt að heildarmyndinni og í raun girt fyrir að Íslendingar uppfylli markmið sín um orkuskipti og geti staðið við skuldbindingar í loftslagsmálum.

Þannig virðist mikilvægasta atriðið oft gleymast í umræðunni. Ef allt þetta á að verða að veruleika, og ef það er markmið okkar að vera forystuþjóð á sviði grænnar orku – þarf að framleiða græna orku. Því er forgangsmál að skoða hvaða möguleikar eru fýsilegir til að veita okkur aukna orku og mikilvægt að greina og velja hagkvæmustu orkukostina.

Það þarf að framleiða græna orku

Eigi Ísland að verða forystuþjóð í nýtingu grænnar orku er nauðsynlegt að ræða af fullri alvöru hvaðan við eigum að fá innlendu grænu orkuna sem á að koma í stað innflutts jarðefnaeldsneytis. Hér á Íslandi eru vatns-, jarðvarma- og vindorka þeir möguleikar sem vænlegastir eru. Þessir valkostir eru ein stærsta auðlind Íslendinga og hana þarf að nýta. Við Íslendingar höfum sýnt það í gegnum árin að við búum yfir mikilli þekkingu og reynslu við að virkja náttúruna en það þarf að umgangast hana og landið okkar af virðingu og varfærni.

Traustir orkuinnviðir um allt land allt eru lykillinn að grænni umbreytingu í atvinnu og samgöngumálum. Á næstu árum þarf að taka enn stærri skref en áður í átt til grænnar atvinnustarfsemi og grænna samfélags. Við getum og eigum að vera í forystu á heimsvísu í þessum málaflokki en til þess að það geti orðið þarf að horfast í augu við þá staðreynd að græn orka, og orkuskipti í landinu, verða ekki að veruleika nema að við framleiðum græna orku.

Ingibjörg Isaksen skipar 1. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi við alþingiskosningar 25. september.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 13. september 2021.

Categories
Greinar

Ný tæki­færi í þjónustu eldra fólks

Deila grein

09/09/2021

Ný tæki­færi í þjónustu eldra fólks

Samsetning mannfjöldans á Íslandi er að þróast á þann veg að hlutfall eldra fólks hækkar frá því sem áður var. Brýnt er þess vegna að við horfum til mögulegra nýrra tækifæra og breytinga í málefnum eldra fólks. Frá því að lög um málefni aldraðra voru sett árið 1982 hefur legið fyrir það stefnumið að eftir því sem þarfir fólks til stuðnings og þjónustu aukast, því mikilvægara er að öll þjónusta og skipulag taki mið af samfellu og heildarsýn fyrir notandann í þjónustukeðjunni.

Flest viljum við geta búið heima hjá okkur eins lengi og kostur er án þess að þurfa að reiða okkur á aðra. Þó frekari þörf á aðstoð og öryggi fylgi almennt hækkandi aldri, þá hefur margt eldra fólk aðstæður til að búa með lágmarksþjónustu. Þjónustuþörfum eldra fólks þarf að mæta með því að þróa fjölbreytileg úrræði til að mæta mismunandi þörfum einstaklinga innan þessa sístækkandi hóps með þau markmið að bæta lífsgæði, valdefla einstaklingana. Ljóst er að þörf er á nýjum áherslum og nýju viðhorfum í þjónustu við aldraða þar sem aukin áhersla er lögð á aldursvænt og styðjandi samfélag.

Dagþjálfun

Eitt þeirra úrræða sem þarf að bæta og efla er dagþjálfun, en í dag er slík þjónusta í flestum stærri sveitarfélögum. Dagþjálfun er tímabundið stuðningsúrræði við eldra fólk sem býr í heimahúsum með það að markmiði að viðhalda færni og getu fólks til að búa áfram heima. Hún getur verið margskonar með mismunandi þjónustustigi eftir einstaklingsbundnum þörfum, en dagþjálfun þarf a.m.k. að bjóða upp á tómstundaiðkun, aðstöðu til léttra líkamsæfinga, máltíð, hvíldaraðstöðu og aðstoð við böðun.

Tækifæri finnast í dagþjálfun

Það er enginn vafi að tækifæri eru til að þróa ný úrræði og bæta það sem er til staðar. Og það verður að gera, sérstaklega þegar horft er til þróunar á hækkandi hlutfalli eldra fólks hér á landi. Dagþjálfun sem stuðningsúrræði hefur upp á ýmsa valmöguleika að bjóða og tækifæri til að bæta þjónustu því Með dagþjálfun er hægt að styðja aukinn fjölda eldra fólks með viðeigandi stigskiptingu þjónustunnar. Marka þarf skýra framtíðarsýn og heildarstefnu þar sem m.a. er lögð áhersla á að skipulag þjónustunnar sé með þeim hætti að eitt þjónustustig taki hnökralaust við af öðru. Okkar verkefni er að finna tækifærin og hámarka nýtingu og ávinning fyrir einstakling og samfélag. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur hvatt til alþjóðlegra viðbragða í að þróa nýjar leiðir og úrræði til samþættingar þjónustu við aldraða, með það að markmiðil að stuðla að samfellu í þjónustunni og ná þannig fram aukinni hagkvæmni fyrir samfélagið allt.

Ingibjörg Isakesn, oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi við næstu Alþingiskosningar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. september 2021.

Categories
Greinar

Hverjir erfa Ísland?

Deila grein

06/09/2021

Hverjir erfa Ísland?

Land er tak­mörkuð auðlind og óum­deilt að meðferð og notk­un lands skipt­ir íbúa jarðar­inn­ar miklu máli til langr­ar framtíðar. Það þarf því eng­an að undra að á síðustu árum hef­ur ásókn í jarðir auk­ist og ein­stak­ling­ar sem ráða yfir miklu fjár­magni sjá tæki­færi í að fjár­festa í jarðnæði hér á landi.

Skorður sett­ar á landa­kaup

Til að bregðast við var ráðist í breyt­ing­ar á jarðalög­um sem samþykkt­ar voru sum­arið 2020. Gerð var mik­il­væg breyt­ing á mark­miðskafla lag­anna að því leyti að mark­mið þeirra er nú fyrst og fremst að stuðla að nýt­ingu lands, í sam­ræmi við land­kosti, með hags­muni sam­fé­lags­ins og kom­andi kyn­slóða að leiðarljósi.

Í lög­un­um voru einnig sett­ar skorður á jarðakaup þannig að fast­eigna­kaup­andi get­ur ekki eign­ast land ef hann eða tengd­ir aðilar eiga fyr­ir land sem er sam­an­lagt 10 þúsund hekt­ar­ar að stærð nema með sér­stakri und­anþágu frá ráðherra. Einnig þurfa lögaðilar sem eign­ast jörð eða jarðir hér á landi, nú að upp­lýsa Skatt­inn um raun­veru­lega eig­end­ur fé­lags og þá stjórn­ar­menn sem í því sitja.

Með þess­um þörfu breyt­ing­un­um er reynt að sporna við að of marg­ar jarðir safn­ist á fárra hend­ur en Ísland er ekki eina landið sem hef­ur stigið þessi skref. Í mörg­um Evr­ópu­ríkj­um hef­ur verið lögð vax­andi áhersla á varðveislu land­búnaðar­lands og rækt­ar­lands til nota fyr­ir mat­væla­fram­leiðslu og til að tryggja fæðuör­yggi.

Bet­ur má ef duga skal

Sam­kvæmt nú­gild­andi lagaum­hverfi þá geta rúm­lega 500 millj­ón­ir manna keypt land og aðrar fast­eign­ir hér á landi með sömu skil­yrðum og Íslend­ing­ar. Illu heilli hef­ur borið á því, und­an­far­in ár, að jarðir hafi verið keypt­ar upp án þess að eig­end­ur setj­ist þar að eða nýti landið og eign­ir sem þar eru. Það er því nauðsyn­legt að skoða al­var­lega hvort setja eigi frek­ari skil­yrði fyr­ir kaup­um er­lendra aðila á jörðum hér á landi, s.s. að þeir eigi hér lög­heim­ili. Aðrar þjóðir geta verið okk­ur til fyr­ir­mynd­ar í þeim efn­um.

Einnig er brýnt að yf­ir­fara skör­un jarðalaga og annarra laga sem varða land­búnað og land­nýt­ingu, eins og laga um nátt­úru­vernd, land­græðslu og skóg­rækt. Ein­föld­un á reglu­verki get­ur til að mynda skapað fjöl­breytt­ari tæki­færi til ný­sköp­un­ar í strjál­býli og aukið verðmæta­sköp­un í sveit­ar­fé­lög­um hring­inn í kring­um landið. Al­mennt þekkja bænd­ur sitt land best, hvað er verðmæt­asta rækt­ar­landið, hvað væri ástæða til að vernda af öðrum ástæðum og hvað gæti hentað til annarr­ar land­nýt­ing­ar. Umráðamenn búj­arða eiga að hafa tæki­færi til að nýta jarðir til verðmæta­sköp­un­ar á upp­byggi­leg­an og sjálf­bær­an hátt.

Nýt­um landið

Lagaum­gjörð um jarðir og auðlind­ir á landi er grund­vall­ar mál sem þarf að vera sí­fellt á dag­skrá. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn vill vera leiðandi í þeirri umræðu. Mik­il ásókn er í auðlind­ir okk­ar og mik­il­vægt að við selj­um þær ekki frá okk­ur. Við vilj­um tryggja að kom­andi kyn­slóðir muni erfa land sem er vel búið til sjálf­bærr­ar nýt­ing­ar og verðmæta­sköp­un­ar.

Ingibjörg Isaksen, skipar 1. sæti B-lista Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi.

Líneik Anna Sævarsdóttir, skipar 2. sæti á B-lista Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Það sem enginn þorir að ræða!

Deila grein

20/08/2021

Það sem enginn þorir að ræða!

Grænir orkugjafar hafa verið grundvöllur lífsskilyrða í landinu og knúið efnahagslífið áfram. Við Íslendingar höfum náð eftirtektarverðum árangri við útskiptum jarðefnaeldsneytis fyrir hreina orkugjafa og nú liggur fyrir að taka þarf enn stærri skref. Stóra áskorunin sem við stöndum frammi fyrir felst í orkuskiptum í samgöngum á landi, lofti og sjó. Flestir virðast vera sammála því að ráðast þurfi í orkuskipti – hins vegar nálgast enginn umræðuna út frá því hvaðan sú græna orka eigi að koma.

Samkvæmt orkustefnu Íslands er markmiðið að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2050. Þetta er loftlagsvænt og efnahagslegt markmið. Við sem þjóð erum í einstakri stöðu á heimsvísu til að auka nýtingu innlendra, hagkvæmra og hreinna orkugjafa í samgöngum til að ná þessu markmiði.

Aukin eftirspurn eftir grænni orku

Ljóst er að orkuþörf heimsins muni aukast á komandi árum. Þjóðir allt í kringum okkur gera ráð fyrir umtalsvert aukinni orkuþörf og áskorunin sem er að tryggja að þessari þörf sé mætt með grænni orku. Því er viðbúið að verðmæti hennar muni vaxa á komandi árum.

Samkvæmt núverandi raforkuspá fyrir Ísland er gert ráð fyrir að orkuþörf hér á landi geti aukist um tæplega 60% til ársins 2050 í stærstu sviðsmyndinni. Stoðir samfélagsins, atvinnulífið sem og heimilin í landinu, munu áfram þurfa græna orku. Þar að auki þarf orku í orkuskiptin. Það er því forgangsmál að skoða hvaða möguleikar eru fýsilegir til að veita okkur aukna orku og mikilvægt að greina og velja hagkvæmustu orkukostina.

Græn orka – olía Íslands

Líkt og orkustefnan kemur inn á eykur það hagkvæmni og dregur úr áhættu að hafa fjölbreyttar lausnir í grænni orkuöflun. Vatnsorka, vindorka og jarðvarmi eru orkukostir sem horfa þarf til ef mæta á aukinni orkuþörf á komandi árum, en þessir valkostir eru ein stærsta auðlind Íslendinga. Því skýtur skökku við hvernig ýmsir ráðamenn, sem vilja ýta þessum óumflýjanlegu orkuskiptum hratt og vel í gegnum kerfið, skirrast við að ræða hvaðan hreina orkan á að koma. Vilja jafnvel þrengja að tækifærum þjóðarinnar til grænnar orkuframleiðslu eins og tillögur um Hálendisþjóðgarð sýna glöggt.

Það er ekki bæði haldið og sleppt í þessu samhengi, ef bæði fyrirsjáanleg aukning í orkunotkun Íslendinga og aukin orkuþörf í orkuskiptin eiga að geta átt sér stað er nauðsynlegt að ræða af fullri alvöru hvaðan við eigum að fá innlendu grænu orkuna sem á að koma í stað innflutts jarðefnaeldsneytis.

Lykillinn að árangri í loftlagsmálum

Íslendingar hafa sýnt það í gegnum árin að við höfum þekkingu og reynslu að virkja náttúruna og á sama tíma umgangast landið okkar af virðing og varfærni.

Ef þjóðin heldur rétt á spilunum eru mikil tækifæri á Íslandi falin í öflun á grænni orku. Fáir eru í betri færum til að taka orkuskipti alla leið, byrja á bílaflotanum, horfa svo til vinnuvéla og skipaflotans og loks til flugsamgangna í framtíðinni, eftir því sem grænni tækni fleygir fram. Traustir orkuinnviðir um land allt eru lykillinn að að þessari umbreytingu og þeim árangri í loftlagsmálum sem við gætum náð. Því er mikilvægt að hugsa og nálgast málin af skynsemi, vega og meta þá kosti sem eru í boði og taka ákvarðanir sem koma sér vel fyrir framtíðarkynslóðir í landinu til lengri tíma. Ef við ætlum að vera forystuþjóð á sviði grænnar orku – þá þurfum við að afla hennar. Það liggur í augum uppi. Skynsemin liggur á miðjunni.

Ingibjörg Isaksen, oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi við næstu Alþingiskosningar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Framsókn í flugi

Deila grein

05/08/2021

Framsókn í flugi

Mik­il áhersla hef­ur verið lögð á að styðja við upp­bygg­ingu inn­an­lands­flug­valla ásamt því að jafna aðstöðumun íbúa að grunnþjón­ustu lands­manna. Árið 2020 lagði Sig­urður Ingi Jó­hanns­son nýja flug­stefnu fyr­ir Íslands fram til samþykk­is á Alþingi. Mark­mið stefn­unn­ar er m.a. að efla inn­an­lands­flug, sem telst nú hluti af al­menn­ings­sam­göngu­kerf­inu á Íslandi. Með flug­stefn­unni á að tryggja ör­uggt og skil­virkt kerfi um allt land ásamt að því tryggja að ferðafólk dreif­ist jafnt um allt land. Fram­sókn hef­ur lengi talað fyr­ir því að efla fluggátt­ir inn í landið, enda mun það styðja við ferðaþjón­ustu um allt land.

Loft­brú

Einn mik­il­væg­asti hluti stefn­unn­ar er Loft­brú, en slíkt verk­efni hef­ur verið Fram­sókn­ar­mönn­um hug­leikið í langa tíð. Það fékk pláss í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar Fram­sókn­ar, VG og Sjálf­stæðis­flokks og varð að veru­leika með und­ir­skrift Sig­urðar Inga. Til að tryggja blóm­lega byggð í öll­um lands­hlut­um verður jafnt aðgengi að þjón­ustu að vera tryggt. Þegar Loft­brú­in hóf sig til flugs síðasta haust var stigið stórt skref til þess að jafna aðstöðumun þeirra sem búa fjarri höfuðborg­inni. Hér er um að ræða mik­il­vægt skref til þess að bæta aðgengi íbúa lands­byggðar­inn­ar að miðlægri þjón­ustu ásamt því að gera inn­an­lands­flug að hag­kvæm­ari sam­göngu­kosti. Loft­brú veit­ir 40% af­slátt af heild­arfar­gjöld­um fyr­ir all­ar áætl­un­ar­leiðir inn­an­lands til og frá höfuðborg­ar­svæðinu þris­var á ári. Um er að ræða mik­il­væga byggðaaðgerð sem skap­ar tæki­færi fyr­ir ein­stak­linga og sam­fé­lög. Einnig get­um við skapað auk­in tæki­færi með frek­ari efl­ingu á Loft­brú, enda er inn­an­lands­flug hluti af al­menn­ings­sam­göng­um lands­ins.

Ferðaþjón­ust­an tek­ur á loft

Ný sókn hófst í byrj­un sum­ars í ferðaþjón­ustu á Norður- og Aust­ur­landi þegar tek­in var fyrsta skóflu­stung­an að 1.100 fer­metra viðbygg­ingu við flug­stöðina á Ak­ur­eyr­arflug­velli sem og aðgerðir á flug­stöðinni á Eg­ils­stöðum Með efl­ingu flug­stöðvanna opn­ast fleiri tæki­færi fyr­ir ferðaþjón­ustu á svæðinu ásamt mögu­leik­um á fjölg­un starfa og sköp­un tæki­færa. Auk þessa er bein­lín­is um ör­ygg­is­mál að ræða sem huga þarf vel að. Með stærri og betri flug­stöð má taka á móti stærri vél­um og byggja und­ir það sem fyr­ir er. Með auk­inni flug­um­ferð á síðustu árum er mik­il­vægt að flug­vell­irn­ir á Ak­ur­eyri og Eg­ils­stöðum geti þjónað sem alþjóðaflug­vell­ir meðal ann­ars til að opna fleiri gátt­ir inn í landið og taka virk­an þátt þegar sókn­in hefst og allt fer aft­ur á flug. Stig­in hafa verið stór skref í flug­mál­um und­ir stjórn Sig­urðar Inga á kjör­tíma­bil­inu. Um er að ræða arðbær verk­efni sem hafa mikla þýðingu fyr­ir sam­fé­lög um allt land. Við erum kom­in á flug – höld­um stefn­unni.

Áfram veg­inn.

Ingi­björg Isak­sen, odd­viti Fram­sókn­ar í Norðaust­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Hvaðan á orka fram­tíðarinnar að koma?

Deila grein

08/04/2021

Hvaðan á orka fram­tíðarinnar að koma?

Stærsta framlag Íslands til loftlagsmála er nýting þjóðarinnar á grænni orku. Í dag státar engin önnur þjóð af jafn mikilli nýtingu á grænni orku líkt og við Íslendingar gerum. 85-90% af allri orku sem Íslendingar nota er græn orka og mikill meirihluti raforkunnar er framleidd innan fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs.

Samkvæmt orkustefnunni viljum við halda þessu og jafnvel stíga stærri skref en nú þegar hefur verið gert.

Orkustefna

Þverpólitísk nefnd skilaði orkustefnunni til ársins 2050 í mikilli sátt og horfa stjórnvöld á þá stefnu sem leiðarljós inn í framtíðina. Í orkustefnu segir meðal annars: „Til að skapa verðmæti og tryggja lífsgæði verður samfélagið að geta treyst því að orkuþörf sé mætt á hverjum tíma. Framboð og innviðir orkunnar teljast til þjóðaröryggishagsmuna þar sem öryggi borgaranna og samfélags og atvinnulífs er háð þessum mikilvægu grunnþáttum.“ Af þessari ástæðu er mikilvægt að gera ráð fyrir mögulegri framtíðaruppbyggingu á nauðsynlegum innviðum í flutningi og dreifingu raforku fyrir samfélagið.

Við erum flest kunnug umræðunni um orkuskipti og öll sammála um að það sé framtíðin þó svo mismunandi skoðanir séu hversu langan tíma við tökum í þau.

Í orkustefnunni eru sett metnaðarfull markmið þar sem lagt er áherslu á að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneti fyrir 2050. Í stað þess að kaupa olíu og bensín erlendis frá væri þjóðin sjálfbær hvað eldsneyti varðar.

Parísarsamkomulagið eitt og sér kallar á 300 MW af rafafli til að ná skuldbindingum okkar hvað varðar orkuskipti í samgöngum á landi, samkvæmt tölum sem Samorka birti nýlega. Til að skipta alveg út jarðefnaeldsneyti fyrir hreina, innlenda orkugjafa í samgöngum á landi þyrfti um 600 MW. Ef við ætlum að leysa málið í öllum samgöngum innan lands þurfum við 1200 MW. Til að hætta að flytja inn olíu á millilandaflugvélar og skip þá þyrfti rúmlega annað eins. Þetta þýðir að ef Ísland ætlar að vera alveg óháð jarðefnaeldsneyti gæti þurft samtals um 2500 MW, sem er jafn mikið og er notað á landinu í dag. Gengið er út frá því að hluti farartækjanna noti rafmagn beint en hluti þeirra gangi fyrir rafeldsneyti s.s. vetni. Þessar tölur miðast við núverandi tækni sem vonandi á eftir að taka framförum og þar með lækka þessar tölur eitthvað. Til viðbótar þarf svo rafmagn til almennra nota fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu, en nýjasta raforkuspá gerir ráð fyrir að til þess þurfi allt að 1500 MW fyrir árið 2060.

Forsætisráðherra tilkynnti efld markmið Íslands í loftlagsmálum á leiðtogafundi í desember síðastliðnum. Þar er markið fært úr 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2030, í 55% samdrátt. Þessum efldu aðgerðum fylgir fjármagn, sem er vel, en eftir því sem við aukum metnað okkar í loftlagsmálum þurfum við líka meiri græna orku. Hvaðan á hún að koma?

Hálendisfrumvarp er þvert á samþykkta orkustefnu – Ein höndin á móti annarri

Orkustefnan segir að orkuþörf samfélagsins verði mætt með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma. Jafn aðgangur verði á landsvísu að orku á samkeppnishæfu verði. Að við verðum alltaf með græna orku til heimila og fyrirtækja. Þessi markmið eru metnaðarfull og góð en spurningunni hvernig við ætlum að afla þessarar grænu orku er enn ósvarað. Fyrir liggur hálendisfrumvarp þar sem lokað er á orkuríkasta svæði landsins án þess að búið sé að svara því hvernig við ætlum að afla orku til framtíðar og hvaðan.

Svo virðist vera að við gerð hálendisfrumvarps hafi ekki verið horft á heildarmyndina með tilliti til nýrrar orkustefnu auk annarra þátta s.s. þjóðaröryggis og efnahags. Hvernig sjáum við fram á að uppfylla sett markmið í orkustefnunni ef frumvarpið verður að veruleika?

Með óbreyttu frumvarpi verður ekki hægt að endurnýja flutningslínur né Byggðalínuna sem komin er á tíma, auk þess sem lokað er á möguleika til nýtingar á endurnýjanlegum orkugjöfum á svæðinu til framtíðar.

Framtíðarsýn

Við erum sístækkandi þjóð og eru vísbendingar um að hagkerfið verði tvöfalt stærra 2050 og tvöföldun verður á útflutningsverðmætum. Við megum gera ráð fyrir fjölgun starfa og íbúa í framtíðinni sem kallar á meiri orkuþörf. Það sama blasir við öllum öðrum þjóðum sem eru að vaxa og dafna eins og við. Danir sem hafa verið í sviðsljósinu varðandi grænu endurreisnina sína gera ráð fyrir tvöföldun raforkuþarfar á næstu tíu árum. Því má búast má við að orkuþörf heimsins muni aukast hér eftir sem hingað til og ef horft er til hinna Norðurlandanna spá þau því að eftirspurn eftir raforku hjá þeim muni aukast um allt að helming á næstu áratugum frá því sem nú er. Má ekki búast við því að það sama eigi við um Ísland?

Hverjar eru þarfir samfélagsins, hver verður orkuþörf Íslands í framtíðinni? Það hefur ekki verið hluti af undirbúningnum að spyrja að því hversu mikið af orkulindum sé inn á svæðinu sem skilgreint er sem hálendisþjóðgarður og hvað við þurfum mikla orku til framtíðar?

Hver sem endanlega þörfin verður er augljóst að við þurfum meiri orku.

Það er mikilvægt að sýna framsýni þegar kemur að orkuþörf og þar með orkuöryggi þjóðarinnar til framtíðar. Slíku er ekki fyrir að fara í frumvarpi umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð, þvert á móti.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri og stjórnarformaður Norðurorku.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. apríl 2021.

Categories
Greinar

Ís­lenskan mat í skóla

Deila grein

25/01/2021

Ís­lenskan mat í skóla

Börnin okkar eru þau dýrmætustu verðmæti sem við eigum og viljum við þeim allt hið besta. Það á við um menntun, uppeldi og vöxt þeirra og viðgang. Eitt af því sem við erum meðvituð um er að maturinn sem börnin okkar borða sé hollur og næringarríkur. Fræðsluráði Akureyrarbæjar barst erindi fyrir skömmu síðan þar sem dregnar voru þær ályktanir að ekki væri farið eftir tilmælum Landlæknis þegar kemur að viðmiðum varðandi mat í grunn og leikskólum Akureyrar. Í kjölfar þessa er nauðsynlegt að árétta nokkur atriði. Teknir voru upp sjö vikna matseðlar fyrir alla leik og grunnskóla bæjarins, matseðlarnir voru yfirfarnir af næringafræðingi sem reiknaði þá út, út frá næringarþörf barnanna og manneldismarkmiðum. Síðan hafa matseðlarnir verið yfirfarnir og uppskriftum bætt við. Eitt af meginmarkmiðum með sameiginlegum matseðlum er að tryggja að öllum skólabörnum standi til boða hollur og næringaríkur hádegisverður.Það var mikil bragabót þegar þessir matseðlar voru teknir upp en Akureyrarbær gerir þá kröfu að fylgt sé eftir markmiðum Embætti landlæknis. Vissulega má alltaf leitast við að gera enn betur og bókaði fræðsluráð á síðasta fundi sínum að komið yrði á reglubundnum úttektum á matseðlum og gæðum matarins í mötuneytum skólanna.

Heilnæmur íslenskur matur

Við Íslendingar erum þeirrar gæfu aðnjótandi að aðstæður okkar til matvælaframleiðslu eru að mörgu leiti einstakar, lítil notkun sýklalyfja, hreint vatn og hreint loft er eitthvað sem aðrar þjóðir öfunda okkur af og reglur um aðbúnað dýra eru með þeim ströngustu sem þekkjast. Grænmetið, kjötið og mjólkin eru hollustuvara sem við getum verið stolt af. Landbúnaður er öflugur í nærsveitum okkar og mikið af þeirri framleiðslu er síðan fullunnin hér í bænum. Leiðin úr haga í maga er því oft stutt. Akureyrarbær fer í útboð á matvælum og meðal annars var gerður samningur við Kjarnafæði eftir slíkt útboð. Kjarnfæði hefur unnið að því að draga mikið úr óæskilegum aukefnum í sinni framleiðslu. Vöruþróun síðustu ára hefur snúið mikið að því að fækka óþolsvöldum ásamt aukefnum og hefur fyrirtækið verið í fararbroddi þegar kemur að vottunum, bæði innlendum og erlendum. Minna salt og sykur er öllum til heilla hvort sem það er framleiðslufyrirtækjum eða neytendum.

Frasinn „unnar matvörur“ hefur á síðustu árum verið notaður af sumum sem samheiti við óhollustu sem er mikil einföldun. Vinnsla á matvörum er oft nauðsynlegur og eðlilegur hluti af því að gera matvörur heppilegri til neyslu og auka matvælaöryggi. Dæmi um slíkt er t.d. gerilsneyðing á mjólk og framleiðsla á undanrennu og léttmjólk fyrir þá sem kjósa minni fitu. Vinnsla á matvælum er einnig oft til þess fallin að auka geymsluþol sem stuðlar að minni matarsóun. Unnar kjötvörur eru gríðarlega fjölbreyttur flokkur matvæla hafa farið í gegnum mismunandi framleiðsluferla og er stór hluti af daglegri neyslu fólks. Akureyrarbær setur strangar kröfur um heilnæmar unnar kjötvörur í útboð sitt og hefur Kjarnafæði unnið þétt með þeim stóru samstarfsaðilum að heilnæmari matseðli hverju sinni.

Íslenskar hefðir

Við Íslendingar höfum alist upp við alls kyns hefðir, m.a. gagnvart mat. Líkt og hjá öðrum þjóðum hafa matarhefðir okkar þróast með hliðsjón af þeim aðstæðum sem þjóðin bjó við í gegnum aldirnar og eru stór hlut af okkar menningararfleifð. Ég tel afar mikilvægt að við týnum ekki ríkum hefðum í okkar samfélagi eins og sprengidegi, hátíðarmat og þorramat svo dæmi séu tekin. En einmitt þessa dagana eru börnin okkar mörg hver að fá að bragða á þorramat og sum hver í fyrsta sinn. Skólar landsins eiga heiður skilinn fyrir að halda þessum hefðum á lofti og kynna börnin fyrir þessum matvælum sem tengjast þeim.

Vinnsla matvæla er hluti af matvælaframleiðslu. Eins og umræðan hefur verið síðustu ár ekki bara í síðustu viku þá, er aukin áhersla á heilnæmi vara og er það vel, því það er mikilvægt að ný þekking um betri næringu og hollustu skili sér til neytenda allra tegunda matvæla.

Ingibjörg Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri og formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. janúar 2021.