Categories
Greinar

Framsókn fyrir fólk eins og þig

Deila grein

20/04/2021

Framsókn fyrir fólk eins og þig

Stjórn Kjördæmasambands Framsóknar í Suðurkjördæmi hvetur þig til að hafa áhrif. Þann 19. júní næstkomandi fer prófkjör Framsóknar í Suðurkjördæmi fram þar sem  félagsmenn kjósa um fyrstu fimm sætin og velja fólk sem það treystir til þjónustu fyrir landsmenn. Á heimasíðu Framsóknar er hægt að skrá sig í flokkinn með rafrænum hætti. Einnig má finna upplýsingar um stefnu flokksins, greinaskrif þingmanna og ráðherra sem og viðburði framundan. Upplýsingar um félagsstarfið er einnig að finna í nýju appi Framsóknar.

Á kjörtímabilinu hefur Framsókn verðið límið í ríkisstjórninni. Ráðherrar hafa komið mörgum málum í gegn og má þar t.d. nefna samgönguáætlun Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Aldrei í sögunni hefur jafn miklum fjármunum verið varið til samgöngumála á Íslandi enda má sjá afrakstur þeirrar fjárfestingar á vegum landsins. Fleiri verkefni eru samgöngusáttmáli, samkomulag ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu. Loftbrú sem veitir 40 % afslátt af heildarfargjaldi fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu, verkefni sem er eflandi fyrir landsbyggðina. Samvinnuverkefni (PPP) flýtiframkvæmdir í mikilvægum samgönguframkvæmdum þar sem verkefnin fela í sér aukið umferðaröryggi og styttingu leiða og skapa um 8700 störf. Atvinna, atvinna, atvinna!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknar og mennta og menningarmálaráðherra hefur aukið jafnrétti til náms með nýjum Menntasjóði og 18 % hækkun á framfærsluviðmiði. Hún hefur komið á beinum fjárstuðningi við foreldra í námi með 30% afskrift höfuðstóls námslána við námslok sem er gríðarlegt hagsmunamál nemenda. Grundvallarbreytingar hafa verið gerðar til að jafna tækifæri nemenda í iðnnámi. Fjölgun starfslauna listamanna og 750 listgjörningar, sem án efa hafa létt lund við krefjandi heimsástand, við heimili landsmanna. Fyrsta kvikmyndastefnan, stækkun kvikmyndasjóðs og nýr sjónvarpssjóður.

Grettistaki hefur verið lyft í samþættingu á málefnum barna að frumkvæði Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra. Samþættingin felur m.a. í sér að brugðist sé við í kerfinu ef barn þarf stuðning. Einnig má nefna lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og jafnan rétt barns til samvista við báða foreldra sína, hlutdeildarlán sem slegið hafa í gegn og BataAkademíuna sem hefur það markmið að styrkja fanga sem hafa lokið afplánun. Mikilvægir styrkir til t.d. Kvennaathvarfsins, fjölmenningarseturs og vegna tómstunda barna.

Hér er ekki um tæmandi lista verkefna ráðherra Framsóknar að ræða. Framsókn vill halda áfram á sömu braut. Í Framsókn er frelsi til að hafa skoðanir til hægri og vinstri enda er Framsókn sterkt afl á miðjunni sem leitar leiða til að finna skynsömustu leiðina hverju sinni með hag heildarinnar að leiðarljósi.

Ein leið til áhrifa er að skrá sig í Framsókn eða gefa kost á sér í framboð. Kynntu þér appið og heimasíðuna. Vertu með því Framsókn er fyrir fólk eins og þig.

Fyrir hönd stjórnar Kjördæmissambands Framsóknar í Suðurkjördæmi,

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir

Categories
Greinar

Eitt sund­kort í allar laugar landsins?

Deila grein

07/01/2021

Eitt sund­kort í allar laugar landsins?

Á dögunum rakst ég á grein sem ber heitið „Mikilvægi þess að börnin fari oft í sund og jafnvel stundi sund í tómstundarstarfi.” eftir Guðmund Hafþórsson. Í grófum dráttum fjallar greinin um hversu mikilvæg og góð hreyfing sundið er. Þetta er hreyfing sem þú getur stundað alla ævina, hreyfing sem eykur liðleika og bætir líkamsstöðununa.

Ég tengdi vel við þessa grein enda æfði ég sund á árum áður og bý enn að þeirri frábæru þjálfun. Eftir að hafa lesið greinina rifjaðist upp fyrir mér hugmynd sem ég fékk fyrir nokkru um að gera sundkort í sundlaugar landsins miðlæg. Upphaflega hugmyndin var reyndar sú að nágrannasveitarfélög tækju sig saman og biðu upp á sundkort svæðisbundið. En hvers vegna ekki að taka þetta lengra og bjóða upp á sundkort sem nær yfir allt landið?

Eins og kemur fram í greinninni sem vitnað er til hér að ofan er sund ákaflega góð hreyfing sem hentar fjölbreyttum aldurshópi alla ævi. Sundlaugarnar hafa líka upp á svo margt að bjóða, hvort sem það er sundlaugin sjálf til að synda í, heitu pottarnir, gufan eða rennibrautin. Ekki síst er það félagslegi þátturinn. Samverustund fjölskyldunnar, hitta fólk í pottinum og eiga þar góðar samræður eða bara að njóta kyrrðarinnar þegar enginn annar er.

En hvert væri markmið miðlægs sundkorts? Markmið miðlægs sundkorts væri að auka þjónustu við íbúa sveitarfélaganna, stuðla að heilsubót og afþreyingu á hagkvæmari máta. Margir hverjir sem sundstaðina sækja reglulega eiga sundkort í fjölmörgum sundlaugum jafnvel víðsvegar um landið. Hver og einn á eflaust sína uppáhalds hverfislaug eða bæjarlaug en með miðlægu sundkorti eykst fjölbreytnin til heilsubótar og afþreyingar. Með aukinni rafrænni þjónustu væri hægt að losa okkur við samanvöðluð pappírskortin úr veskinu og eiga eitt kort í allar laugar með appi í símanum.

Eflaust höfum við áttað okkur enn betur á því hversu mikilvægar sundlaugarnar eru okkur eftir að þær lokuðu tímabundið vegna Covid. Ég mun áfram bíða eftir að mín uppáhalds sundlaug opni en nú er unnið að endurbótum búningsklefa Sundlaugarinnar Laugaskarði í Hveragerði. Það verða eflaust fagnarðarfundir þegar fastagestir hennar geta farið að mæta aftur að framkvæmdum loknum í apríl. Heppilegt væri að geta notað sundkortið sitt á meðan í t.d nágrannasveitarfélaginu Ölfusi. Það væri nú reyndar líka heppilegt ef Hveragerði og Ölfus væru eitt og sama sveitarfélagið en það er efni í aðra grein.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi Frjálsra með Framsókn í Hveragerði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. janúar 2021.