Categories
Fréttir Greinar

Saman mótum við skýra framtíðarsýn

Deila grein

20/03/2023

Saman mótum við skýra framtíðarsýn

Undanfarnar vikur og mánuði hefur KPMG unnið í samstarfi við bæjarstjórn og stjórnendur stofnana í Hveragerði að úttekt á stjórnsýslu og stefnumótun sveitarfélagsins. Álíka úttekt á rekstri bæjarins fór fram fyrir um 10 árum.

Róum í sömu átt

Framsókn í Hveragerði hefur lagt mikla áherslu á skýra framtíðarsýn og mikilvægi þess að horfa til lengri tíma þegar kemur að rekstri sveitarfélagsins og stefnumörkun. Að setja sér sameiginleg markmið og móta leiðir að þeim hefur reynst farsæl leið til að ná árangri. Við stefnumótun er staðan greind eftir styrkleikum, veikleikum, ógnunum og tækifærum. Mikill samhljómur var á meðal þeirra sem unnið hafa að drögunum enda margt jákvætt unnist á undanförnum árum.

Höldum áfram

Fyrstu drög að stefnumótun hafa verið kynnt stjórnendum og nú gefst bæjarbúum tækifæri til að leggja sitt á vogarskálarnar með því að taka þátt í íbúakönnun og hafa þannig áhrif á hvert stefnan verður tekin.

Höfum áhrif

Íbúakönnunin fer fram í gegnum heimasíðu Hveragerðisbæjar hveragerdi.is og stendur til 26. mars næstkomandi. Bæjarbúar eru hvattir til að taka þátt, forgangsraða verkefnum eftir mikilvægi og setja þannig fram sínar áherslur. Að íbúakönnun lokinni verða niðurstöður tengdar við stefnumótunina og því næst lögð fram aðgerðaráætlun að innleiðingu stefnunnar fyrir samfélagið í Hveragerði. Vinnum saman að enn betri bæ.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir,
forseti bæjarstjórnar og oddviti Framsóknar í Hveragerði

Categories
Greinar Uncategorized

Vin í eyði­mörkinni

Deila grein

18/10/2022

Vin í eyði­mörkinni

Eitt mesta uppvaxtarskeiðið í sögu Hveragerðis er hafið sem ekkert lát virðist vera á. Fjölgunin kallar á uppbyggingu innviða og hefur byggingu nýs leikskóla í Kambalandi verið flýtt. Eins hefur tveggja áfanga viðbygging við Grunnskólann í Hveragerði verið sameinuð í eina og er því markvisst unnið að hönnun þeirra byggingar. Með því náum við að bregðast við þeirri fólksfjölgun sem verið hefur. Einnig er það verkefni næstu mánaða að fylgja eftir ákvörðunum um uppbyggingu nýrra íþróttamannvirkja með það að markmiði að þjóna betur þörfum íþróttastarfsins og bæjarbúa.

Fram undan eru áframhaldandi útboð á lóðum í eigu sveitarfélagsins til að mæta eftirspurn og þörf um húsnæði. Einnig vinna einkaaðilar að byggingu húsnæðis, fjöldi íbúða verður byggður við Lindarbrún og þá eru áform um að byggð verði fjölbýlishús á Tívolíreitnum. Fjölbreytt húsnæði mun því verða í boði í Hveragerði allt frá minni íbúðum í einbýlishús og markmið ríkisstjórnar um að auka framboð og jafna stöðuna á markaði höfð til hliðsjónar.

Þeir innviðir sem í uppbyggingu eru verða til þess fallnir að anna þeirri fjölgun íbúa sem gert er ráð fyrir. Fram að því verður verkefnið að takast á við vaxtarverki. Meðal annars með því að bjóða upp á foreldragreiðslur til að mæta þeirri stöðu fái barn ekki vist á leikskóla 12 mánaða gamalt.

Það er ákaflega ánægjulegt að sjá og upplifa áhuga fólks á því að búa í sveitarfélaginu og þar með velja sér Hveragerði til búsetu. Meðalaldur íbúa hefur farið lækkandi, fleira og fleira fólk með ung börn sækir í Hveragerði enda fjölskylduvænn bær og hafa bæjaryfirvöld skýr markmið um að hlúa enn betur að fjölskyldufólki. Við íbúar erum þakklát fyrir þennan mikla áhuga og hlýju sem Hveragerði er sýndur enda bærinn umvafinn einstökum náttúruperlum sem og fjölbreytileika tengdum heilsu- og þjónustu þar sem frumkvöðlar fá sín notið. Kannski er þetta einmitt umhverfið sem dregur fram það allra besta enda Hveragerði sannkölluð vin í hugum margra.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, oddviti Framsóknar og forseti bæjarstjórnar í Hveragerði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. október 2022.

Categories
Greinar

Stórskipahöfn í Hveragerði

Deila grein

12/08/2022

Stórskipahöfn í Hveragerði

Að nýloknum sveitarstjónarkosningum hefur nýr meirihluti í Hveragerði fengið verðug verkefni til að leysa og vinna úr og hefur verið ánægjulegt að finna þeim farveg. Verkefnin hafa mörg hver verið áskorun en það er einmitt það sem við sem þarna sitjum buðum okkar krafta í, fengum umboð til og tökumst á við af miklum áhuga og vilja.

Eitt af þeim fjölmörgu verkefnum sem komið hafa inn á borð bæjarstjórnar er viljayfirlýsing Hveragerðisbæjar og Þróunarfélags NLFÍ slhf. Viljayfirlýsing þessi fjallar í megindráttum um að hefja viðræður með það að markmiði að ná samkomulagi um skipulagningu á svokölluðu Sólborgarsvæði sem liggur austan Varmár og að Þróunarfélagið fái heimild til uppbyggingar á landinu.

Áformuð uppbygging felur m.a. í sér íbúðabyggð, svæði fyrir 6* hótel, heilsu- og vellíðunar dvalarstað, sem njóti sérhæfðrar ráðgjafar og faglegrar þjónustu frá Heilsustofnun, og fræðslusetur á sviði sjálfbærni og umhverfismála. Jafnframt verði fjallað um möguleika á stækkun og endurnýjun á húsnæði og aðstöðu Heilsustofnunar á núverandi svæði hennar í Hveragerði. Í viljayfirlýsingunni kemur einnig fram að farið verði yfir uppbyggingu nauðsynlegra innviða á svæðinu og greiðslur þar að lútandi. Mikil áhersla er á að hafa víðtækt samráð við íbúa sveitarfélagsins um þróun og uppbyggingu svæðisins. Viljayfirlýsingin gildir til næstu áramóta með möguleika á framlengingu um sex mánuði.

Það eru tækifæri í fyrirhugaðri uppbyggingu, m.a. á heilsu- og vellíðunar dvalarstað og íbúðabyggð, ásamt skólum og annarri þjónustu við íbúa með sjálfbærni að leiðarljósi, auk þess að styðja við starfsemi Heilsustofnunar og uppbyggingu á atvinnu í Hveragerði.

Hér höfum við í Hveragerði fengið tækifæri til að byggja upp samfélagið okkar enn frekar og er það vel þess virði að kanna málið til hlítar, hvort hér leynist ef til vill okkar eigin stórskipahöfn. Það er hlutverk okkar bæjarfulltrúanna að vera opin fyrir þeim tækifærum sem koma upp og geta eflt stoðir sveitarfélagsins, styrkt fjárhaginn og eflt atvinnulífið. Umfram allt er það mannauðurinn, íbúarnir og starfsfólkið sem er stórskipahöfnin okkar.

Fram undan er bæjarhátíð Hvergerðinga, Blómstrandi dagar, en eins og gefur að skilja hefur sú hátíð ekki verið haldin hátíðleg síðustu tvö ár frekar en aðrir viðburðir. Það er því sérstök eftirvænting fyrir hátíðinni og munum við án efa gleðjast og njóta allra þeirra viðburða sem hátíðin hefur í för með sér. Um leið og ég óska okkur öllum í Hveragerði til hamingju með hátíðina fram undan þá bíð ég gesti einnig hjartanlega velkomna til að njóta með okkur.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, oddviti Framsóknar og forseti bæjarstjórnar í Hveragerði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. ágúst 2022.

Categories
Fréttir Greinar

Sveitar­stjóri ráðinn á fag­legum for­sendum

Deila grein

10/05/2022

Sveitar­stjóri ráðinn á fag­legum for­sendum

Undanfarið höfum við átt frábært samtal við íbúa í Hveragerði um málefnin sem við í Framsókn höfum lagt fram og finnum við mikinn meðbyr með þeim málum sem við setjum í forgang. Við heyrum einnig að það skiptir íbúa í Hveragerði miklu máli hver það er sem gegnir stöðu bæjarstjóra enda eitt æðsta embætti sveitarfélagsins. Það er kallað eftir því að staðan sé auglýst og þar með staðið faglega að ráðningu þessa embættis. Við í Framsókn viljum vera alveg skýr hvað þetta varðar og munum standa faglega að ráðningu bæjarstjóra.

Það er bæjarstjórn sem fær það umboð að forgangsraða þeim verkefnum sem innt eru af hendi. Bæjarstjórn felur bæjarstjóra eða framkvæmdastjóra sveitarfélagsins að vinna verkefnunum brautargengi. Það er mikilvægt að þessi aðili starfi bæði með minni- og meirihluta og sé framkvæmdastjóri allra bæjarbúa.

Það eru fjölmörg verkefni fram undan. Við viljum faglegan, kraftmikinn og lausnamiðaðan einstakling í verkið með okkur og því munum við auglýsa stöðu bæjarstjóra.

Við hvetjum Hveragerðinga til að nýta kosningaréttinn sinn og mæta á kjörstað þann 14. maí næstkomandi.

Það er tækifæri – XB

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir

Höfundur er bæjarfulltrúi Framsóknar í Hveragerði og skipar 1. sæti lista Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. maí 2022.

Categories
Greinar

Grænar al­mennings­sam­göngur

Deila grein

30/03/2022

Grænar al­mennings­sam­göngur

Eitt af stefnumálum Framsóknar í Hveragerði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 14. maí næstkomandi er að bæta samgöngur í bæjarfélaginu. Bærinn hefur stækkað ört á síðustu misserum, íbúum fjölgað og fjarlægðir á milli ystu svæða hafa lengst. Við viljum útvíkka starfsemi frístundastrætós fyrir alla Hveragerði. Til að auka þjónustu við íbúa er mikilvægt að fjölga ferðum og stoppistöðvum en á tímum Hamarshallar gekk strætóinn eingöngu á milli frístundaheimilis og hallarinnar. Þessu þarf að breyta. Íþróttamannvirki bæjarins munu halda áfram að byggjast upp á svæði Hamarshallarinnar sem og við íþróttahúsið við Skólamörk en með fjölgun ferða og stoppistöðva munu fleiri íbúar í Hveragerði geta nýtt sér strætóinn.

Í takt við samtþykkt bæjarstjórnar á bæjarstjórnarfundi þann 14. mars 2019 um að sett verði markmið í átt að kolefnishlutleysi Hveragerðisbæjar árið 2030 er skýrt í huga Framsóknar að besti kosturinn í þessari samgöngubútbót sé að strætóinn verði knúinn rafmagni, grænn strætó. Í bókun bæjarstjórnar frá sama fundi kemur fram að með markmiði sínu um kolefnishlutleysi árið 2030 skipi Hveragerði sér í fremstu röð þeirra sveitarfélaga sem þegar hafa ákveðið að axla samfélagslega ábyrgð og setja sér markmið um kolefnishlutleysi árið 2040.

Grænn strætó eykur þjónustu við íbúa, bætir samgöngur og er markmið í átt að kolefnishlutleysi. Ný framsókn í Hveragerði.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi og skipar 1. sæti á lista Framsóknar í Hveragerði.

Categories
Greinar

Framsókn fyrir fólk eins og þig

Deila grein

20/04/2021

Framsókn fyrir fólk eins og þig

Stjórn Kjördæmasambands Framsóknar í Suðurkjördæmi hvetur þig til að hafa áhrif. Þann 19. júní næstkomandi fer prófkjör Framsóknar í Suðurkjördæmi fram þar sem  félagsmenn kjósa um fyrstu fimm sætin og velja fólk sem það treystir til þjónustu fyrir landsmenn. Á heimasíðu Framsóknar er hægt að skrá sig í flokkinn með rafrænum hætti. Einnig má finna upplýsingar um stefnu flokksins, greinaskrif þingmanna og ráðherra sem og viðburði framundan. Upplýsingar um félagsstarfið er einnig að finna í nýju appi Framsóknar.

Á kjörtímabilinu hefur Framsókn verðið límið í ríkisstjórninni. Ráðherrar hafa komið mörgum málum í gegn og má þar t.d. nefna samgönguáætlun Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Aldrei í sögunni hefur jafn miklum fjármunum verið varið til samgöngumála á Íslandi enda má sjá afrakstur þeirrar fjárfestingar á vegum landsins. Fleiri verkefni eru samgöngusáttmáli, samkomulag ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu. Loftbrú sem veitir 40 % afslátt af heildarfargjaldi fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu, verkefni sem er eflandi fyrir landsbyggðina. Samvinnuverkefni (PPP) flýtiframkvæmdir í mikilvægum samgönguframkvæmdum þar sem verkefnin fela í sér aukið umferðaröryggi og styttingu leiða og skapa um 8700 störf. Atvinna, atvinna, atvinna!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknar og mennta og menningarmálaráðherra hefur aukið jafnrétti til náms með nýjum Menntasjóði og 18 % hækkun á framfærsluviðmiði. Hún hefur komið á beinum fjárstuðningi við foreldra í námi með 30% afskrift höfuðstóls námslána við námslok sem er gríðarlegt hagsmunamál nemenda. Grundvallarbreytingar hafa verið gerðar til að jafna tækifæri nemenda í iðnnámi. Fjölgun starfslauna listamanna og 750 listgjörningar, sem án efa hafa létt lund við krefjandi heimsástand, við heimili landsmanna. Fyrsta kvikmyndastefnan, stækkun kvikmyndasjóðs og nýr sjónvarpssjóður.

Grettistaki hefur verið lyft í samþættingu á málefnum barna að frumkvæði Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra. Samþættingin felur m.a. í sér að brugðist sé við í kerfinu ef barn þarf stuðning. Einnig má nefna lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og jafnan rétt barns til samvista við báða foreldra sína, hlutdeildarlán sem slegið hafa í gegn og BataAkademíuna sem hefur það markmið að styrkja fanga sem hafa lokið afplánun. Mikilvægir styrkir til t.d. Kvennaathvarfsins, fjölmenningarseturs og vegna tómstunda barna.

Hér er ekki um tæmandi lista verkefna ráðherra Framsóknar að ræða. Framsókn vill halda áfram á sömu braut. Í Framsókn er frelsi til að hafa skoðanir til hægri og vinstri enda er Framsókn sterkt afl á miðjunni sem leitar leiða til að finna skynsömustu leiðina hverju sinni með hag heildarinnar að leiðarljósi.

Ein leið til áhrifa er að skrá sig í Framsókn eða gefa kost á sér í framboð. Kynntu þér appið og heimasíðuna. Vertu með því Framsókn er fyrir fólk eins og þig.

Fyrir hönd stjórnar Kjördæmissambands Framsóknar í Suðurkjördæmi,

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir

Categories
Greinar

Eitt sund­kort í allar laugar landsins?

Deila grein

07/01/2021

Eitt sund­kort í allar laugar landsins?

Á dögunum rakst ég á grein sem ber heitið „Mikilvægi þess að börnin fari oft í sund og jafnvel stundi sund í tómstundarstarfi.” eftir Guðmund Hafþórsson. Í grófum dráttum fjallar greinin um hversu mikilvæg og góð hreyfing sundið er. Þetta er hreyfing sem þú getur stundað alla ævina, hreyfing sem eykur liðleika og bætir líkamsstöðununa.

Ég tengdi vel við þessa grein enda æfði ég sund á árum áður og bý enn að þeirri frábæru þjálfun. Eftir að hafa lesið greinina rifjaðist upp fyrir mér hugmynd sem ég fékk fyrir nokkru um að gera sundkort í sundlaugar landsins miðlæg. Upphaflega hugmyndin var reyndar sú að nágrannasveitarfélög tækju sig saman og biðu upp á sundkort svæðisbundið. En hvers vegna ekki að taka þetta lengra og bjóða upp á sundkort sem nær yfir allt landið?

Eins og kemur fram í greinninni sem vitnað er til hér að ofan er sund ákaflega góð hreyfing sem hentar fjölbreyttum aldurshópi alla ævi. Sundlaugarnar hafa líka upp á svo margt að bjóða, hvort sem það er sundlaugin sjálf til að synda í, heitu pottarnir, gufan eða rennibrautin. Ekki síst er það félagslegi þátturinn. Samverustund fjölskyldunnar, hitta fólk í pottinum og eiga þar góðar samræður eða bara að njóta kyrrðarinnar þegar enginn annar er.

En hvert væri markmið miðlægs sundkorts? Markmið miðlægs sundkorts væri að auka þjónustu við íbúa sveitarfélaganna, stuðla að heilsubót og afþreyingu á hagkvæmari máta. Margir hverjir sem sundstaðina sækja reglulega eiga sundkort í fjölmörgum sundlaugum jafnvel víðsvegar um landið. Hver og einn á eflaust sína uppáhalds hverfislaug eða bæjarlaug en með miðlægu sundkorti eykst fjölbreytnin til heilsubótar og afþreyingar. Með aukinni rafrænni þjónustu væri hægt að losa okkur við samanvöðluð pappírskortin úr veskinu og eiga eitt kort í allar laugar með appi í símanum.

Eflaust höfum við áttað okkur enn betur á því hversu mikilvægar sundlaugarnar eru okkur eftir að þær lokuðu tímabundið vegna Covid. Ég mun áfram bíða eftir að mín uppáhalds sundlaug opni en nú er unnið að endurbótum búningsklefa Sundlaugarinnar Laugaskarði í Hveragerði. Það verða eflaust fagnarðarfundir þegar fastagestir hennar geta farið að mæta aftur að framkvæmdum loknum í apríl. Heppilegt væri að geta notað sundkortið sitt á meðan í t.d nágrannasveitarfélaginu Ölfusi. Það væri nú reyndar líka heppilegt ef Hveragerði og Ölfus væru eitt og sama sveitarfélagið en það er efni í aðra grein.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi Frjálsra með Framsókn í Hveragerði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. janúar 2021.