Leik- og grunnskólar voru opnir í um 90% tilfella. Kennsla á framhalds- og háskólastigi fór alfarið í fjarkennslu. Almennt voru skólastjórnendur, kennarar, nemendur og foreldrar ánægð með hvernig staðið var að skólahaldi. Stór hópur kennara segir að tæknin hafi nýst vel og að allur aðbúnaður hafi staðist kröfur. Að sama skapi sé ljóst að álag hafi aukist vegna stöðunnar.
Fulltrúar allra skólastiga voru sammála um að hlúa þurfi sérstaklega að hópi barna og ungs fólks sem hefur veikt bakland. Það ætlum við að gera og verður það eitt af okkar forgangsmálum á komandi vetri.
Við ætlum að lágmarka neikvæð félagsleg áhrif af faraldrinum. Við ætlum að forgangsraða í þágu menntunar og tryggja að sem mest staðnám sé í boði, til að minnka brotthvarfshættu. Rannsóknir sýna að þegar skólahald er takmarkað, þá skerðist þjónustan mest hjá þeim sem þurfa mestan stuðning.
Ég er bjartsýn á að við finnum leiðir til þess að stuðla að öflugu skólastarfi í vetur. Það gerum við með því að vera í góðu samstarfi við skólastjórnendur, kennara og nemendur. Samband íslenskra framhaldsskólanema og Landssamtök íslenskra stúdenta eru okkar helstu samstarfsaðilar. Í bígerð er að efla enn frekar samstarf við nemendur til þess að ákvarðanir séu í auknum mæli teknar, þar sem þeirra mat og viðhorf hafa skýra aðkomu. Ég hlakka til samstarfsins. Í sameiningu náum við betur utan um velferð samfélagsins til lengri tíma.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. september 2020.