Categories
Greinar

Nemendur eru lykillinn

Deila grein

12/09/2020

Nemendur eru lykillinn

Leik- og grunnskólar voru opnir í um 90% tilfella. Kennsla á framhalds- og háskólastigi fór alfarið í fjarkennslu. Almennt voru skólastjórnendur, kennarar, nemendur og foreldrar ánægð með hvernig staðið var að skólahaldi. Stór hópur kennara segir að tæknin hafi nýst vel og að allur aðbúnaður hafi staðist kröfur. Að sama skapi sé ljóst að álag hafi aukist vegna stöðunnar.

Fulltrúar allra skólastiga voru sammála um að hlúa þurfi sérstaklega að hópi barna og ungs fólks sem hefur veikt bakland. Það ætlum við að gera og verður það eitt af okkar forgangsmálum á komandi vetri.

Við ætlum að lágmarka neikvæð félagsleg áhrif af faraldrinum. Við ætlum að forgangsraða í þágu menntunar og tryggja að sem mest staðnám sé í boði, til að minnka brotthvarfshættu. Rannsóknir sýna að þegar skólahald er takmarkað, þá skerðist þjónustan mest hjá þeim sem þurfa mestan stuðning.

Ég er bjartsýn á að við finnum leiðir til þess að stuðla að öflugu skólastarfi í vetur. Það gerum við með því að vera í góðu samstarfi við skólastjórnendur, kennara og nemendur. Samband íslenskra framhaldsskólanema og Landssamtök íslenskra stúdenta eru okkar helstu samstarfsaðilar. Í bígerð er að efla enn frekar samstarf við nemendur til þess að ákvarðanir séu í auknum mæli teknar, þar sem þeirra mat og viðhorf hafa skýra aðkomu. Ég hlakka til samstarfsins. Í sameiningu náum við betur utan um velferð samfélagsins til lengri tíma.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. september 2020.

Categories
Greinar

Vegabréf til framtíðar

Deila grein

03/09/2020

Vegabréf til framtíðar

Það er mark­mið mitt að tryggja börn­um hér á landi mennt­un sem stenst alþjóðleg­an sam­an­b­urð. Það er skylda stjórn­valda að rýna vel mæl­ing­ar og bregðast við, ef aðrar þjóðir búa sín börn bet­ur und­ir framtíðina.

Náms­fram­vinda ræðst af ýms­um þátt­um. Góður námsorðaforði og hug­taka­skiln­ing­ur, álykt­un­ar­hæfni, færni í rök­hugs­un, ánægja af lestri og fjöl­breytni les­efn­is vega mjög þungt í því að nem­end­ur nái tök­um á náms­efn­inu. Til að skilja vel og til­einka sér inni­hald náms­efn­is án aðstoðar þarf nem­andi að þekkja 98% orða í texta. Ef hlut­fallið lækk­ar í 95% þurfa flest­ir nem­end­ur aðstoð, t.d. hjálp frá kenn­ara, sam­nem­end­um eða úr orðabók­um.

Alþjóðleg­ar sam­an­b­urðar­rann­sókn­ir hafa leitt í ljós að ís­lensk­ir nem­end­ur virðast ekki hafa sömu færni og nem­end­ur ann­ars staðar á Norður­lönd­un­um hvort sem litið er til lesskiln­ings, stærðfræði eða nátt­úru­læsis. Það kall­ar á menntaum­bæt­ur sem fel­ast meðal ann­ars í því að rýna nám­skrár, náms­gögn og viðmiðun­ar­stunda­skrár. Slík rýni hef­ur meðal ann­ars leitt í ljós, að móður­máls­tím­ar á miðstigi í Svíþjóð eru 35% fleiri en á Íslandi. M.a. þess vegna stend­ur nú til að auka vægi móður­máls­kennslu hér­lend­is. Mark­miðið með því er ekki að fjölga mál­fræðitím­um á kostnað skap­andi náms­greina, held­ur skapa kenn­ur­um svig­rúm til að vinna með tungu­málið á skap­andi og skemmti­leg­an hátt. Þeim treysti ég full­kom­lega til að nýta svig­rúmið vel, svo námsorðaforði ís­lenskra skóla­barna og lesskiln­ing­ur auk­ist. Það er for­senda alls náms og skap­andi hugs­un­ar, enda er gott tungu­tak nauðsyn­legt öll­um sem vilja koma hug­mynd­um sín­um í orð. Með auk­inni áherslu á móður­máls­notk­un er því verið að horfa til framtíðar.

Á und­an­förn­um þrem­ur árum hafa stoðir mennta­kerf­is­ins verið styrkt­ar með ýms­um hætti. Ný lög um mennt­un og hæfi kenn­ara og skóla­stjórn­enda hafa orðið að veru­leika og við höf­um ráðist í um­fangs­mikl­ar aðgerðir til að fjölga kenn­ur­um. Við höf­um stutt við út­gáfu bóka á ís­lensku með mjög góðum ár­angri, þar sem aukn­ing­in hef­ur verið mest í flokki barna- og ung­menna­bóka. Þá samþykkti Alþingi þings­álykt­un um efl­ingu ís­lensk­unn­ar, sem fel­ur í sér 10 aðgerðir sem snúa að um­bót­um í mennta­kerf­inu. Marg­ar eru þegar komn­ar í fram­kvæmd og ég er sann­ar­lega vongóð um góðan afrakst­ur.

Íslenskt skóla­kerfi er til fyr­ir­mynd­ar og hef­ur unnið þrek­virki á tím­um kór­ónu­veirunn­ar. Mik­ill metnaður ein­kenn­ir allt skólastarf og vilj­um við stuðla að frek­ari gæðum þess. Mark­mið stjórn­valda er að veita framúrsk­ar­andi mennt­un með áherslu á þekk­ingu, vellíðan og þraut­seigju. All­ir nem­end­ur skipta máli og ég hef þá trú að all­ir geti lært. Góð mennt­un er helsta hreyfiafl sam­tím­ans og hún er verðmæt­asta vega­bréf barn­anna okk­ar inn í framtíðina.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Categories
Greinar

Vinátta í verki

Deila grein

27/10/2016

Vinátta í verki

Tuttugu og fimm ár eru í dag liðin frá sögulegum fundi í Reykjavík, þar sem stjórnmálasamband Íslands við Eystrasaltsríkin var formlega skjalfest. Fáeinum dögum áður hafði Ísland orðið fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litháens eftir að löndin höfðu sagt sig úr sambandi Sovétríkjanna. Athöfnin fór fram í Höfða, þar sem leiðtogar stórveldanna tveggja, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, höfðu setið fimm árum fyrr og lagt grunninn að endalokum kalda stríðsins. Þetta voru tímar sögulegra umbreytinga.

Endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltsríkjanna átti sér nokkurn aðdraganda, samhliða því sem innviðir Sovétríkjanna veiktust. Vilji íbúa við Eystrasalt var ótvíræður eins og sást þegar tvær milljónir manna tókust í hendur og mynduðu nærri 700 kílómetra langa keðju milli höfuðborganna þriggja, Tallinn, Riga og Vilnius – tákn um órofa samstöðu – í ágúst 1989. Íslenskir ráðamenn fylgdust náið með þróuninni og ræktuðu vel tengslin við löndin þrjú. Þegar þjóðirnar lýstu yfir sjálfstæði hver á eftir annarri haustið 1991 stóð Ísland þétt við bakið á þeim og ævarandi vinátta var innsigluð.

Eystrasaltsríkjunum hefur vegnað vel. Öll breyttu hagskipan sinni, úr miðstýrðum áætlunarbúskap í átt að markaðsbúskap með sterk tengsl við Norðurlöndin og hafa á skömmum tíma skapað umtalsverða hagsæld. Þjóðartekjur á mann hafa aukist mikið, tekjudreifing er nokkuð jöfn, aðhald í ríkisfjármálum er mikið og skilyrði til fjárfestinga góð. Umskiptin eru til vitnis um mikilvægi þess, að ríki ráði sínum örlögum sjálf.

Samband Íslands við Eistland, Lettland og Litháen er einstakt. Í höfuðborgum landanna þriggja eru margar götur og torg kennd við Ísland og á vettvangi stjórnmálanna störfum við vel saman, til dæmis innan Atlantshafsbandalagsins og Eystrasaltsráðsins þar sem Ísland fer nú með forystu. Ríkin eru öll aðilar að NB8, samstarfsvettvangi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, og raunar vill svo til að í dag funda utanríkisráðherrar landanna átta í Riga í Lettlandi. Þótt málefni líðandi stundar verði þar til umræðu er ljóst að dagurinn gefur tilefni til að horfa um öxl og fagna þeim árangri sem hefur náðst.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. ágúst 2016.