Categories
Fréttir Greinar

Tæknin sem breytir heiminum

Deila grein

13/05/2024

Tæknin sem breytir heiminum

Tækni­breyt­ing­arn­ar sem eru að eiga sér stað í gegn­um gervi­greind og mál­tækni eru þær mestu í ára­tugi. Tækni mun breyta því hvernig fólk vinn­ur, lær­ir, ferðast, nálg­ast heil­brigðisþjón­ustu og hef­ur sam­skipti sín á milli.

Eins og flest­um er kunn­ugt hafa mikl­ar breyt­ing­ar orðið á stöðu tungu­mála með til­komu gervi­greind­ar, alþjóðavæðing­ar og auk­inna fólks­flutn­inga. Stjórn­völd hafa á und­an­förn­um árum sett mál­efni ís­lensk­unn­ar í önd­vegi í þessu ljósi. Til að mynda samþykkti Alþingi Íslend­inga í síðustu viku aðgerðaáætl­un í mál­efn­um ís­lenskr­ar tungu til árs­ins 2026. Alls eru þetta 18 aðgerðir sem mótaðar eru í sam­starfi fimm ráðuneyta. Stjórn­völd hafa und­an­far­in ár einnig fjár­fest í mál­tækni fyr­ir ís­lensku með ver­káætl­un­inni Mál­tækni fyr­ir ís­lensku 2018-2022 og náð góðum ár­angri. Mark­miðið með henni er skýrt: að gera ís­lensk­una gild­andi í hinum sta­f­ræna heimi til framtíðar. Í heimi tækn­inn­ar þarf að tala máli ís­lensk­unn­ar gagn­vart þeim aðilum sem leiða tækniþróun í heim­in­um. Það þarf að minna á mik­il­vægi minni tungu­mála og koma á fram­færi þeim ís­lensku mál­tækni­lausn­um sem smíðaðar hafa verið hér á landi á und­an­förn­um árum sem er­lend tæknifyr­ir­tæki geta inn­leitt í vör­ur sín­ar með nokkuð greiðum hætti. Það var mik­il viður­kenn­ing fyr­ir veg­ferð ís­lenskra stjórn­valda í mál­efn­um ís­lensk­unn­ar þegar banda­ríska tæknifyr­ir­tækið OpenAI gaf út nýja upp­færslu á gervi­greind­ar-mállíkan­inu GPT í fyrra þar sem ís­lenska var val­in fyrst tungu­mála, utan ensku, í þró­un­ar­fasa þess. Var það afrakst­ur sam­tala og funda við full­trúa fyr­ir­tæk­is­ins.

Í vik­unni leiddi ég sendi­nefnd til Banda­ríkj­anna sem fundaði með stór­um tæknifyr­ir­tækj­um til að ræða stöðu smærri tungu­mála, sér­stak­lega ís­lensku, í sta­f­ræn­um heimi. Fyr­ir­tæk­in voru Microsoft, Allen Institt­u4e for AI, Ant­hropic, Google og OpenAI. Er það meðal ann­ars í sam­ræmi við nýja mál­tækni­áætl­un þar sem lagt er til að auk­inn þungi verði sett­ur í að kynna ís­lenska mál­tækni á er­lendri grundu. Jafn­framt er verið að kanna hug þess­ara fyr­ir­tækja til að koma á fót alþjóðleg­um sam­starfs­vett­vangi fyr­ir smærri tungu­mál heims. Skemmst er frá því að segja að okk­ur var vel tekið og áhugi er fyr­ir hendi á að auka veg ís­lensk­unn­ar enn frek­ar. Microsoft hef­ur til dæm­is hef­ur sýnt ís­lensku mik­inn áhuga og má nefna að ýmis for­rit á borð við Word og allt viðmót þess er hægt að nota al­farið á ís­lensku. Eft­ir heim­sókn ís­lenskr­ar sendi­nefnd­ar árið 2022, sem for­seti Íslands ásamt mér og fleir­um fór í, hef­ur Microsoft nú þegar inn­leitt ís­lenska mál­tækni í tækni­lausn­ir sín­ar til að auka gæði ís­lensk­unn­ar. Meðal þess sem við rætt var við fyr­ir­tækið í þess­ari um­ferð var ís­lenska for­ritið Copi­lot, sem vel var tekið í. Það skipt­ir framtíð ís­lensk­unn­ar öllu máli að hún sé aðgengi­leg og nýti­leg í tækj­um sem við not­um. Okk­ur hef­ur auðnast að vinna heima­vinn­una okk­ar vel hingað til í þess­um efn­um svo eft­ir sé tekið og það er að skila sér. Hins veg­ar er verk­efnið langt í frá klárað og ljóst að frek­ari ár­ang­ur kall­ar á breiða sam­vinnu með virkri þátt­töku al­menn­ings, vís­inda­fólks, fræðasam­fé­lags­ins, fyr­ir­tækja og frum­kvöðla á þessu sviði. Þannig liggja hags­mun­ir ís­lensk­unn­ar víða sem mik­il­vægt er að huga að.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Árangurssögur í efnahagsmálum

Deila grein

15/04/2024

Árangurssögur í efnahagsmálum

Sam­fé­lagið okk­ar er eitt sam­vinnu­verk­efni. Við í Fram­sókn leggj­um mikla áherslu á að fjár­festa í fólki vegna þess að fjár­fest­ing í mannauði skil­ar sér í auk­inni hag­sæld og vel­sæld í sam­fé­lög­um líkt og hagrann­sókn­ir sýna. Rík­is­stjórn Íslands hef­ur á und­an­förn­um árum sann­ar­lega fjár­fest í fólki, for­gangsraðað í þágu auk­inn­ar verðmæta­sköp­un­ar og náð ár­angri á fjöl­mörg­um sviðum, þar með talið efna­hags­mál­um, þrátt fyr­ir þau innri og ytri áföll sem á vegi henn­ar hafa orðið. Í því sam­hengi er áhuga­vert að skoða þróun nokkra lyk­il­stærða í þjóðarbú­skapn­um á und­an­förn­um árum. Í fyrsta lagi hef­ur hag­vöxt­ur á síðustu þrem­ur árum verið 20%, sem er það mik­ill vöxt­ur að það er ekki mögu­legt að bera hann sam­an við önn­ur ríki. Til dæm­is eru Dan­ir að horf­ast í augu við nei­kvæðan hag­vöxt, eng­inn hag­vöxt­ur er að ráði í Evr­ópu og helst er litið til Banda­ríkj­anna eft­ir ein­hverj­um hag­vexti í nán­ustu framtíð. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn hef­ur ein­mitt ný­lega lýst því sem miklu áhyggju­efni að þessi ára­tug­ur muni ein­kenn­ast af stöðnun í heims­bú­skapn­um.

Í öðru lagi er at­vinnu­stig mjög hátt en at­vinnu­leysi nem­ur aðeins 3,5%. Auðlegð Íslands er mik­il og það eru fá þjóðríki þar sem fullt at­vinnu­stig er ráðandi yfir langt tíma­bil. Eitt það mik­il­væg­asta í sam­fé­lag­inu okk­ar er að all­ir geti fundið sér starf við hæfi og tekið þannig virk­an þátt í sam­fé­lag­inu okk­ar, eflt at­vinnu­lífið og und­ir­byggt aukna verðmæta­sköp­un sem nýt­ist meðal ann­ars til að fjár­festa enn frek­ar í fólki.

Í þriðja lagi hafa meðallaun verið að hækka og það skipt­ir gríðarlegu máli. Þannig eru meðallaun hér á landi með þeim hæstu á byggðu bóli. Þrátt fyr­ir verðbólgu und­an­far­inna miss­era höf­um við Íslend­ing­ar séð kaup­mátt launa aukast veru­lega und­an­far­in 10 ár. Nýir lang­tíma­kjara­samn­ing­ar eru góð tíðindi fyr­ir áfram­haldið og glím­una við verðbólgu, þar skipt­ir aðkoma stjórn­valda miklu máli.

Í fjórða lagi lang­ar mig til að benda á það að hrein er­lend staða þjóðarbús­ins er óvenju sterk eða sem nem­ur um 40% af lands­fram­leiðslu. Fyr­ir um 20 árum var staðan nei­kvæð um 80%. Við vor­um í gríðarleg­um erfiðleik­um með að halda já­kvæðum gjald­eyr­is­forða en hann var iðulega tek­inn að láni sem reynd­ist mik­il áskor­un fyr­ir þjóðarbúið. Kröft­ug ferðaþjón­usta hef­ur meðal ann­ars drifið þessa þróun áfram ásamt öfl­ug­um sjáv­ar­út­vegi, iðnaði, hug­verk­um og vexti í skap­andi grein­um sem hef­ur skilað sér inn í hag­kerfið okk­ar. Sam­hliða þessu hef­ur gjald­eyr­is­markaður­inn dýpkað á sama tíma og hef­ur dregið úr sveifl­um. Til dæm­is er það merki­legt að jarðhrær­ing­arn­ar á Suður­nesj­um hafi ekki orðið til þess að krón­an hafi sveifl­ast mikið þótt eitt­hvert flökt hafi verið í fyrstu. Of­an­greint ber vitn­is­b­urð um góður ár­ang­ur sem við get­um verið stolt af. Stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar fram á veg­inn verður að ná niður verðbólgu og skapa skil­yrði fyr­ir lækk­un vaxta í þágu heim­ila og fyr­ir­tækja. Pen­inga­stefn­an, rík­is­fjár­mál­in og vinnu­markaður­inn eru far­in að ganga í takt, sem mun skila ár­angri fyr­ir sam­fé­lagið og und­ir­byggja betri lífs­kjör á Íslandi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. ágúst 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Vöxtur og vegsemd íslenskrar menningar

Deila grein

04/04/2024

Vöxtur og vegsemd íslenskrar menningar

Íslenskt menn­ing­ar­líf hef­ur átt góðu gengi að fagna og fer hróður þess um víða ver­öld. Slíkt ger­ist ekki af sjálfu sér. Hér á landi hef­ur verið al­mennt breið sátt um það að hlúa að menn­ing­ar­líf­inu með því að fjár­festa í list­námi, tryggja aðgang að slíku námi, styðja við grasrót­ar­sam­tök í menn­ing­ar­líf­inu og skapa vett­vang fyr­ir lista­menn til þess að hlúa að frumsköp­un. Þar hafa starfs­laun lista­manna þjónað sem mik­il­vægt verk­færi til að efla menn­ing­ar­starf í land­inu. Lista­manna­laun í ein­hverju formi eru rót­grón­ari en marg­an grun­ar, en saga þeirra nær allt aft­ur til 1891 þegar Alþingi samþykkti að veita skálda­laun. Um­gjörð þeirra var fyrst form­gerð með laga­setn­ingu árið 1967 þegar lög um lista­manna­laun voru samþykkt og síðar voru upp­færð árin 1991 og 2009.

Árleg­ur kostnaður við lista­manna­laun er 978 millj­ón­ir króna. Til að setja þá tölu í sam­hengi er um að ræða 1,5% af út­gjöld­um til há­skóla­stigs­ins og 0,06% af fjár­lög­um árs­ins 2024.

Ný­verið voru kynnt­ar til­lög­ur til breyt­inga á lista­manna­laun­um þar sem lagt var upp með að fjölga þeim í skref­um til árs­ins 2028, en eng­ar breyt­ing­ar hafa átt sér stað á kerf­inu í 15 ár. Eru boðaðar breyt­ing­ar gerðar í sam­ræmi við stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem fram kem­ur í stjórn­arsátt­mála, að unnið skuli að því að styrkja fag­lega starfs­launa- og verk­efna­sjóði lista­manna. Þær eru því eðli­legt skref og for­gangsraðað verður í þágu þeirra á mál­efna­sviði menn­ing­ar­mála inn­an menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins. Í breyt­ing­un­um felst meðal ann­ars að komið verði á fót tveim­ur nýj­um þverfag­leg­um sjóðum; Vexti sem er sjóður sem ætlaður er fyr­ir lista­menn und­ir 35 ára aldri, og Veg­semd, sjóði fyr­ir lista­menn yfir 67 ára aldri. Vexti er ætlað að styðja sér­stak­lega við unga lista­menn sem hafa ekki enn skapað sér styrka stöðu inn­an sinn­ar list­grein­ar og er m.a. ætlað að mæta þeirri gagn­rýni sem heyrst hef­ur, að lít­il nýliðun sé inn­an kerf­is­ins. Að sama skapi er Veg­semd sér­stak­ur, þverfag­leg­ur sjóður fyr­ir eldri lista­menn sem hafa varið sinni starfsævi til list­sköp­un­ar.

Ég tel eðli­legt að við stönd­um með lista­fólk­inu okk­ar í blíðu jafnt sem stríðu, enda er menn­ing eitt­hvað sem sam­ein­ar okk­ar – sér­stak­lega þegar vel geng­ur. Öll fyll­umst við til að mynda stolti þegar ís­lensk­um lista­mönn­um geng­ur vel á er­lendri grundu og kast­ljós um­heims­ins bein­ist að land­inu vegna þess. Dæmi er um lista­menn sem hlotið hafa eft­ir­sótt­ustu verðlaun heims á sínu sviði sem á ein­hverj­um tíma­punkti þáðu lista­manna­laun á ferli sín­um til þess að vinna að frumsköp­un sinni. Ísland er auðugra og eft­ir­sótt­ara land fyr­ir vikið, fyr­ir okk­ur sjálf sem hér búum og alla þá gesti sem hingað koma.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sagan geymir dýrmætan lærdóm

Deila grein

01/04/2024

Sagan geymir dýrmætan lærdóm

Í ágætri bók eft­ir Nicholas Waps­hott, sem ber titil­inn „The Sphinx“, er fjallað um bar­átt­una sem Frank­lin D. Roosevelt, fv. for­seti Banda­ríkj­anna, háði gegn ein­angr­un­ar­hyggju í aðdrag­anda seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar. Ein­angr­un­ar­sinn­ar voru al­farið á móti því að Banda­rík­in sendu herafla til að verja lýðræðis­ríki í Evr­ópu. Meðal helstu and­stæðinga Roosevelts var vin­ur hans Joseph P. Kenn­e­dy, viðskipta­jöf­ur og sendi­herra, ásamt ein­stak­ling­um á borð við Walt Disney og Henry Ford. Þeir töldu að Banda­rík­in, hið nýja heimsveldi, ætti ekk­ert er­indi í stríðsátök hand­an Atlants­hafs­ins. Þessi saga rifjaðist upp fyr­ir mér vegna þess að umræðan víða um heim í dag er af sama toga. Sterk öfl í Banda­ríkj­un­um tala fyr­ir ein­angr­un­ar­hyggju, sem er ekki já­kvætt fyr­ir frið, vel­sæld og alþjóðaviðskipti.

Blik­ur á lofti í alþjóðaviðskipt­um

Allt er í heim­in­um hverf­ult og tíma­bil alþjóðavæðing­ar, eins hún hef­ur birst eft­ir seinni heims­styrj­öld, virðist mögu­lega hafa runnið sitt skeið. Hlut­fall vöru- og þjón­ustu­út­flutn­ings á heimsvísu náði há­marki árið 2008 og hef­ur síðan þá farið lækk­andi. Heims­hag­kerfið hef­ur séð mik­inn vöxt í viðskipta­hindr­un­um síðastliðinn ára­tug. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn hef­ur sýnt fram á að heims­fram­leiðsla geti dreg­ist sam­an um 7% á næst­unni, ef viðskipta­hindr­an­ir aukast. Þetta er þróun sem þjóðir heims verða að hafa aug­un á og sporna við til að stuðla að áfram­hald­andi lífs­kjara­sókn í ver­öld­inni.

Auk­inn ófriður á heimsvísu og meiri skipt­ing viðskipta eft­ir póli­tískri hug­mynda­fræði hef­ur leitt af sér mikla fjölg­un í viðskipta­hindr­un­um. Sam­kvæmt Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum voru sett­ar alls 3.000 viðskipta­hindr­an­ir á síðasta ári, sem er þreföld­un frá ár­inu 2019. Saga hag­fræðinn­ar hef­ur kennt okk­ur að þegar viðskipti þjóða drag­ast sam­an, þá versna lífs­kjör. Ekk­ert þjóðríki hef­ur ávinn­ing af því að skipta hag­kerfi heims­ins í fylk­ing­ar. Þess vegna skipt­ir sam­vinna þjóða og alþjóðasam­starf svo miklu máli.

Hag­sæld Íslands grund­vall­ast á alþjóðaviðskipt­um

Íslend­ing­ar stunduðu um­fangs­mik­il viðskipti á sinni gull­öld (930-1262), fundu Norður-Am­er­íku og ferðuðust alla leið til Bakú í Aser­baís­j­an. Sagna­rit­ar­arn­ir varðveittu germanska menn­ing­ar­arf­inn og sam­in voru ein­stök bók­mennta­verk, líkt og Íslend­inga­sög­urn­ar og aðrar bók­mennta­perl­ur. Á þess­um tíma ríkti bók­mennta­leg há­menn­ing á Íslandi og segja má að landið hafið verið miðstöð viðskipta og skap­andi greina í Norður-Atlants­hafi. Mik­il viðskipti voru við Græn­land og þaðan komu dýr­grip­ir a borð við fálka, rost­ungstenn­ur og ná­hval­stenn­ur. Þetta blóma­skeið leið und­ir lok á 13. öld þegar inn­an­land­sófriður hófst og veðurfar kólnaði. Landið ein­angraðist frá Evr­ópu og á end­an­um glataði það sjálf­stæði sínu. Eft­ir svarta­dauða versnuðu lífs­skil­yrði veru­lega og náði sú þróun há­marki á 18. öld, þegar hver hung­urs­neyðin rak aðra ásamt erfiðum jarðhrær­ing­um. Dansk­ir ráðamenn töldu jafn­vel skyn­sam­legt að flytja alla Íslend­inga til Dan­merk­ur. Ein­angr­un lands­ins hafði gríðarleg áhrif á þessa nei­kvæðu þróun og eins það, að eign­ar­hald á ut­an­rík­is­viðskipt­um hvarf frá lands­mönn­um.

Sá mikli kraft­ur sem verið hef­ur í alþjóðaviðskipt­um und­an­farna ára­tugi hef­ur verið aflvaki þess að lífs­kjör hundraða millj­óna manna hafa batnað. Ísland hef­ur tekið virk­an þátt í þess­ari þróun og er eng­um blöðum um það að fletta að efna­hags­leg­ur vöxt­ur lands­ins hef­ur byggst á opn­um alþjóðaviðskipt­um. Um leið og Ísland hóf aft­ur að stunda frjáls viðskipti og fór að nýta auðlind­ir lands­ins í eig­in þágu juk­ust hér lífs­gæði og auðsæld. Tækni­væðing sam­fé­lags­ins lagði sitt af mörk­um í þess­ari sam­felldu fram­fara­sögu, skilaði auk­inni skil­virkni og nýt­ingu fram­leiðsluþátta. Þannig störfuðu í upp­hafi 20. ald­ar­inn­ar um 80% af vinnu­afl­inu í land­búnaði og sjáv­ar­út­vegi en 100 árum síðar er sam­svar­andi hlut­fall um 10%. Á sama tíma hef­ur verðmæta­sköp­un auk­ist um­tals­vert. Ut­an­rík­is­viðskipti hafa orðið mun fjöl­breytt­ari en þegar um 90% gjald­eyristekna komu frá sjáv­ar­út­vegi fyr­ir tæp­um fjór­um ára­tug­um. Meg­in­út­flutn­ings­stoðir hag­kerf­is­ins eru fjór­ar í dag; ferðaþjón­usta, sjáv­ar­út­veg­ur, iðnaður og skap­andi grein­ar.

Ein­angr­un­ar­sinn­ar sækja í sig veðrið

Á síðustu öld hafa Banda­rík­in verið leiðandi í frjáls­um viðskipt­um en síðustu miss­eri hafa stjórn­völd verið að hverfa af þeirri braut. Mik­il skaut­un hef­ur ein­kennt alla póli­tíska umræðu og óvenju­breið spjót hafa tíðkast milli Demó­krata og Re­públi­kana í umræðunni um rík­is­fjár­mál, jafn­rétt­is­mál og frjáls viðskipti. Ofan á það er ljóst að verka­fólk í Banda­ríkj­un­um hef­ur borið skarðan hlut frá borði vegna hnatt­væðing­ar, sem hef­ur fal­ist í því að mikið af banda­rísk­um störf­um flutt­ist til ríkja þar sem launa­kostnaður var mun lægri. Raun­laun þessa hóps hafa að mestu staðið í stað meðan kostnaður vegna hús­næðis og mennt­un­ar hef­ur vaxið mikið. Þessi þróun hef­ur leitt af sér óþol gagn­vart vax­andi hnatt­væðingu í Banda­ríkj­un­um. Hins veg­ar er hægt að láta alþjóðaviðskipt­in vinna fyr­ir allt sam­fé­lagið, ef vilj­inn er fyr­ir hendi. Stjórn­mál­in hafa því síðustu miss­eri ein­beitt sér að því að flytja störf aft­ur heim. Mun harðari inn­flytj­enda­stefna var tek­in upp og hef­ur sett þrýst­ing á vinnu­markaðinn, sem er að valda verðbólgu. Loft allt hef­ur verið lævi blandið í sam­skipt­um tveggja stærstu hag­kerfa heims­ins, Kína og Banda­ríkj­anna. Stjórn­völd beggja ríkja hafa mark­visst unnið að því að gera efna­hags­kerfi sín minna háð hvort öðru. Þessi þróun er ekki hag­stæð fyr­ir lítið opið hag­kerfi eins og Ísland er. Til að hag­sæld auk­ist áfram á Íslandi er afar mik­il­vægt að aðgengi að helstu mörkuðum sé greitt, hvort held­ur fyr­ir vör­ur eða þjón­ustu.

Í upp­hafi grein­ar­inn­ar fór ég aft­ur í sög­una og fjallaði um þá ein­angr­un­ar­hyggju sem ein­kenndi banda­ríska stjórn­má­laum­ræðu á 4. ára­tugn­um. Roosevelt var mik­ill vandi á hönd­um, því hann taldi úti­lokað annað en að styðja við for­sæt­is­ráðherr­ann og fé­laga sinn Winst­on Churchill og lýðræðis­rík­in í Evr­ópu. Öll vit­um við í dag að aðkoma Banda­ríkj­anna og liðsauki þeirra við banda­lags­ríki sín skipti sköp­um í að hafa sig­ur á Hitler og banda­mönn­um hans. Umræðan í Banda­ríkj­un­um í dag er keim­lík þeirri sem var á 4. ára­tugn­um og munu næstu for­seta­kosn­ing­ar ráða miklu um þróun ör­ygg­is- og varn­ar­mála í Evr­ópu og Mið-Aust­ur­lönd­um. Far­sæl sam­vinna ríkja varðar veg­inn fyr­ir áfram­hald­andi vel­sæld og ör­yggi á heimsvísu. Sag­an sjálf sýn­ir okk­ur það líkt og rakið hef­ur verið hér að ofan.

Pásk­arn­ir eru hátíð trú­ar og birt­unn­ar. Birtu­hluti sól­ar­hrings­ins er að verða lengri en hinn myrki. Þetta er einnig tími von­ar og upprisu. Von­andi fer að birta til í alþjóðamál­um. Gleðilega páska!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Bókaþjóð fær nýja bókmenntastefnu

Deila grein

23/03/2024

Bókaþjóð fær nýja bókmenntastefnu

Upp, upp mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og róm­ur með, hug­ur og tunga hjálpi til, herr­ans pínu ég minn­ast vil.

Páska­hátíðin er haf­in þar sem við njót­um sam­vista með fjöl­skyldu og vin­um. Pass­íusálm­arn­ir hafa fylgt þjóðinni í nærri 365 ár og eru meist­ara­verk bæði frá list­rænu og trú­ar­legu sjón­ar­miði og ein af mörg­um birt­ing­ar­mynd­um þess ríka bók­mennta­arfs sem Ísland býr að. Bók­mennt­ir eru samofn­ar sögu þjóðar­inn­ar eins og við þekkj­um. Þannig er bók­mennta­arf­ur Íslend­inga okk­ar merk­asta fram­lag til heims­menn­ing­ar en hand­rita­safn Árna Magnús­son­ar er til dæm­is á verðveislu­skrá UNESCO.

Á und­an­förn­um árum hafa verið stig­in stór skref til þess að efla um­gjörð menn­ing­ar og skap­andi greina á Íslandi. Fyrsta heild­stæða kvik­mynda­stefn­an fyr­ir Ísland leit dags­ins ljós árið 2020 og síðan þá hef­ur mynd­list­ar­stefna, tón­list­ar­stefna, stefna í mál­efn­um hönn­un­ar og arki­tekt­úrs verið gefn­ar út og hrint í fram­kvæmd. Unnið er að stefnu í mál­efn­um sviðslista og gær samþykkti rík­is­stjórn til­lögu mína um nýja bók­mennta­stefnu fyr­ir Ísland til árs­ins 2030. Nýrri bók­mennta­stefnu er ætlað að hlúa enn bet­ur að bók­mennta­menn­ingu okk­ar til framtíðar. Í stefn­unni er birt framtíðar­sýn fyr­ir mála­flokk­inn og jafn­framt þrjú meg­in­mark­mið sem aðgerðirn­ar skulu styðja við. Meg­in­mark­miðin snú­ast um fjöl­breytta út­gáfu á ís­lensku til að treysta stöðu ís­lenskr­ar tungu í sam­fé­lag­inu; um auk­inn og bætt­an lest­ur, ekki síst meðal ungra les­enda; og hvatn­ing til bóka­sam­fé­lags­ins um ný­sköp­un sem taki mið af tækniþróun og örum sam­fé­lags­breyt­ing­um.

Aðgerðaáætl­un­in hef­ur að geyma 19 aðgerðir sem skipt er upp í fjóra flokka: Um­gjörð og stuðning­ur; Börn og ung­menni; Menn­ing­ar­arf­ur, rann­sókn­ir og miðlun; og Ný­sköp­un og sjálf­bærni. Aðgerðirn­ar leggja ekki síst áherslu á börn og ung­menni ann­ars veg­ar og ís­lenska tungu hins veg­ar en víða er komið við.

Ein stærsta aðgerðin sem boðuð er í áætl­un­inni snýst um end­ur­skoðun á því reglu­verki og þeirri um­gjörð sem hið op­in­bera hef­ur komið upp í tengsl­um við bók­mennt­ir og ís­lenskt mál. Þar eru und­ir lög um stöðu ís­lenskr­ar tungu og ís­lensks tákn­máls, lög um bók­mennt­ir, lög um stuðning við út­gáfu bóka á ís­lensku, bóka­safna­lög o.fl. Í þeirri end­ur­skoðun er brýnt að hugað verði að breyttu lands­lagi tungu og bóka vegna til­komu gervi­greind­ar, mál­tækni, streym­isveitna og annarr­ar tækni sem er í hraðri þróun þessi miss­er­in.

Bók­mennta­stefn­an er gerð í mik­illi sam­vinnu við hags­munaaðila sem lögðu til grund­völl­inn í stefn­unni og aðgerðunum. Það er viðeig­andi að bókaþjóðin Ísland fái nýja bók­mennta­stefnu sem mun leggja grunn­inn að enn metnaðarfyllra menn­ing­ar­lífi hér á landi. Ég óska öll­um gleðilegra páska.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Tónlistarauðlegð Íslands

Deila grein

14/03/2024

Tónlistarauðlegð Íslands

Ísland stát­ar af öfl­ugu tón­list­ar­lífi sem eft­ir er tekið á er­lendri grundu. Slík þróun ger­ist ekki á einni nóttu held­ur ligg­ur þar að baki afrakst­ur mik­ill­ar vinnu í gegn­um ára­tug­ina. Það er til að mynda áhuga­vert að kynna sér sögu Tón­list­ar­fé­lags Reykja­vík­ur sem stofnað var árið 1932. Fé­lagið ruddi mik­il­væg­ar braut­ir í menn­ing­ar­líf­inu en til­gang­ur þess var að bæta aðstöðu ís­lenskra tón­list­ar­manna bæði til náms og starfs en alls al­menn­ings til tónnautn­ar. Fé­lagið á sér í raun lengri sögu, en und­an­far­ar þess eru Hljóm­sveit Reykja­vík­ur, stofnuð 1925, og Tón­list­ar­skól­inn í Reykja­vík, stofnaður 1930. Saga fé­lags­ins veit­ir inn­sýn í þann mikla metnað sem ríkti í tón­list­ar­líf­inu vel fyr­ir sjálf­stæði þjóðar­inn­ar, en Tón­list­ar­fé­lagið kom til dæm­is að því að fá eina virt­ustu tón­list­ar­menn sam­tím­ans til lands­ins að spila á tón­leik­um. Með tíð og tíma efld­ist tón­list­ar­starf víða um land með stofn­un fleiri tón­list­ar­fé­laga og tón­list­ar­skóla, má þar nefna Tón­list­ar­skóla Ak­ur­eyr­ar sem stofnaður var árið 1946 og Tón­list­ar­skóla Ísa­fjarðar sem var sett­ur á lagg­irn­ar árið 1948. Þannig hef­ur í ára­tugi ríkt metnaður fyr­ir tón­list­ar­námi, með frá­bær­um kenn­ur­um í broddi fylk­ing­ar og góðu aðgengi að slíku námi sem skipt hef­ur sköp­um fyr­ir menn­ing­ar­líf þjóðar­inn­ar.

Á Íslensku tón­list­ar­verðlaun­un­um í vik­unni end­ur­speglaðist meðal ann­ars sá mikli kraft­ur sem býr í tón­list­ar­líf­inu hér á landi. Við höf­um einnig fylgst með glæsi­leg­um ár­angri ís­lenskra tón­list­ar­manna á alþjóðleg­um vett­vangi und­an­farið. Má þar nefna eft­ir­tekt­ar­verðan ár­ang­ur Íslend­inga á Grammy-verðlauna­hátíðinni í fe­brú­ar síðastliðnum, þar sem söng­kon­an Lauf­ey Lín Jóns­dótt­ir hlaut verðlaun­in eft­ir­sóttu fyr­ir plötu sína Bewitched, og til­nefn­ingu tón­list­ar­manns­ins Ólafs Arn­alds til verðlauna í sín­um flokki. Á fjór­um árum hafa Íslend­ing­ar unnið fern Grammy-verðlaun af tíu til­nefn­ing­um. Það verður að telj­ast af­bragðsgott fyr­ir þjóð sem tel­ur tæp­lega 400.000. Í sam­heng­inu við mann­fjöld­ann má ein­mitt geta þess að í vik­unni bár­ust fregn­ir af því lagið Little Talks eft­ir ís­lensku hljóm­sveit­ina Of Mon­sters and Men náði að rjúfa eins millj­arðs múr­inn í hlust­un­um á streym­isveit­unni Spotify.

Á und­an­förn­um árum hafa stjórn­völd stigið stór skref til þess að efla um­gjörð tón­list­ar­lífs­ins í land­inu enn frek­ar með nýrri lög­gjöf og stefnu um tónlist, nýrri Tón­list­armiðstöð sem og Tón­list­ar­sjóði. Ég er sann­færð um að breyt­ing­arn­ar muni treysta enn frek­ar þann góða grunn sem er til staðar og verði til þess að okk­ar hæfi­leika­ríku tón­list­ar­menn fái enn meiri byr í segl­in með nýj­um tæki­fær­um til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Stöðugleikakjarasamningar í þágu þjóðar

Deila grein

11/03/2024

Stöðugleikakjarasamningar í þágu þjóðar

Hag­sæld þjóða bygg­ist á sam­spili fjöl­margra þátta sem huga þarf að og stilla sam­an. Þar spila kjara­samn­ing­ar meðal ann­ars veiga­mikið hlut­verk. Íslenska hag­kerfið er þrótt­mikið og sag­an kenn­ir okk­ur að það á til að bregðast hratt við þegar áföll ríða yfir. Viðspyrna hag­kerf­is­ins í fram­haldi af heims­far­aldr­in­um er eng­inn und­an­tekn­ing. Hag­vöxt­ur hef­ur verið meiri en víða í ná­granna­ríkj­un­um frá því að draga tók úr áhrif­um heims­far­ald­urs­ins á ár­inu 2022.

Sam­kvæmt end­ur­skoðuðum töl­um Hag­stof­unn­ar mæld­ist hag­vöxt­ur 8,9% árið 2022 og 4,1% 2023. Þess­ar töl­ur voru tals­vert hærri en jafn­vel nýj­ustu spár gerðu ráð fyr­ir og hef­ur hag­vöxt­ur hér á landi verið með hæsta móti hjá OECD-ríkj­um.

Ísland var fljótt að jafna sig eft­ir heims­far­ald­ur­inn vegna þess þrótt­ar sem er í ís­lensku efna­hags­lífi. Að sama skapi virkuðu stuðningsaðgerðir stjórn­valda vel, eða eins og efna­hags­leg loft­brú. Ný­leg­ar leiðrétt­ing­ar Hag­stof­unn­ar á mann­fjölda­töl­um sýna jafn­framt að hag­vöxt­ur á mann hef­ur verið mik­ill og meiri en fyrstu töl­ur gerðu ráð fyr­ir, eða um 5,9% á ár­inu 2022 og 2,1% á ár­inu 2023, þannig að þær umræður sem urðu um að hag­vöxt­ur á mann væri lít­ill áttu sér ekki stoð í raun. Hag­kerfið hef­ur því í raun verið mun heit­ara en bú­ist var við.

Ný­leg­ar hag­töl­ur benda hins veg­ar til þess að jafn­vægi sé að nást, en sam­kvæmt nýj­ustu töl­um Seðlabanka Íslands var af­gang­ur á viðskipta­jöfnuði við út­lönd eft­ir nokk­urra ára hlé og hag­kerfið virðist vera að kólna hratt ef horft er til einka­neyslu. Auk­inn þjón­ustu­út­flutn­ing­ur, sem skýrist aðallega af fram­lagi ferðaþjón­ustu, hélt uppi hag­vexti á síðasta ári. Á síðustu vik­um og mánuðum hafa verið teikn uppi um að mögu­lega sé að hægja á starf­semi ferðaþjón­ustu og má einkum rekja það til áhrifa af elds­um­brot­un­um a Reykja­nesi. Þrátt fyr­ir þetta eru verðbólga og verðbólgu­vænt­ing­ar áfram þrálát­ar. Það er ljóst að það mun hægj­ast á hag­vexti á kom­andi miss­er­um eins og víða í ná­granna­lönd­un­um. Til að byggja und­ir al­menna hag­sæld er nauðsyn­legt að fara í aðgerðir sem snúa að hag­vexti til framtíðar og orku­skipt­un­um. Hag­kerfið býr yfir mun meiri fjöl­breytni en á árum áður og þarf ekki að vera áhyggju­efni þótt dragi tíma­bundið sam­an í hag­vexti. Hins veg­ar til að byggja und­ir al­menna hag­sæld fer að verða tíma­bært að hefja sam­tal um að huga að aðgerðum sem snúa að hag­vexti til framtíðar.

Lang­tíma kjara- samn­ing­ar í höfn

Nýir kjara­samn­ing­ar á al­menn­um vinnu­markaði sem und­ir­ritaðir voru til fjög­urra ára skipta hag­kerfið miklu máli. Með þeim er leiðin fram á við mörkuð í átt að bætt­um lífs­kjör­um, en stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar er að ná niður verðbólgu og þar með vöxt­um, sem mun skila sér í aukn­um kaup­mætti fólks. Eina raun­hæfa leiðin til þess að ná því mark­miði er sam­stillt átak hins op­in­bera, vinnu­markaðar­ins og pen­inga­stefn­unn­ar í land­inu. Það er já­kvætt að sam­komu­lag hafi náðst til fjög­urra ára en tíma­lengd samn­ing­anna stuðlar að aukn­um fyr­ir­sjá­an­leika á vinnu­markaði. Aðgerðir sem stjórn­völd kynntu til að greiða fyr­ir gerð kjara­samn­ing­anna eru margþætt­ar og er mark­mið þeirra að stuðla að vax­andi vel­sæld í land­inu. Um er að ræða um­fangs­mikl­ar aðgerðir sem nema allt að 80 millj­örðum króna á samn­ings­tím­an­um. Þannig hafa stjórn­völd tekið ákvörðun um að for­gangsraða fjár­mun­um rík­is­ins með skýr­um hætti í þágu stöðug­leika á vinnu­markaði næstu árin. Á sama tíma er mik­il­vægt að ríkið rýni í eig­in rekst­ur, til dæm­is með því að nýta fjár­muni bet­ur, stuðla að auk­inni hag­kvæmni hjá hinu op­in­bera og tryggja sam­keppn­is­hæfa um­gjörð um at­vinnu­lífið til þess að standa und­ir verðmæta­sköp­un fyr­ir sam­fé­lagið.

Veru­leg­ur stuðning­ur á hús­næðismarkaði

Aðgerðir stjórn­valda snerta lífs­kjör fólks með bein­um hætti. Þannig er aðgerðunum ætlað að auka ráðstöf­un­ar­tekj­ur fjöl­skyldna um að allt 500 þúsund krón­ur á ári. Þannig verður sjö millj­örðum varið í ár í sér­stak­an vaxt­astuðning til heim­ila með íbúðalán til að koma til móts við auk­inn vaxta­kostnað, en stuðning­ur­inn kem­ur til viðbót­ar al­menn­um vaxta­bót­um. Gert er ráð fyr­ir að sér­stak­ur vaxt­astuðning­ur greiðist beint inn á höfuðstól hús­næðisláns en heim­ilt verði að óska eft­ir að nýta hann til lækk­un­ar á af­borg­un­um í til­tek­inn tíma. Að sama skapi verður dregið úr íþyngj­andi hús­næðis­kostnaði leigj­enda með hærri hús­næðis­bót­um en grunn­fjár­hæðir hús­næðis­bóta til leigj­enda hækka um 25% þann 1. júní næst­kom­andi og aukið til­lit verður tekið til fjöl­skyldu­stærðar þannig að greidd­ar verða hús­næðis­bæt­ur fyr­ir allt að 6 heim­il­is­menn í stað 4 áður. Kostnaður vegna þessa er um 2,5 millj­arðar króna á árs­grund­velli. Að sama skapi verður hús­næðis­ör­yggi leigj­enda aukið og skýr­ari rammi sett­ur um ákvörðun og fyr­ir­sjá­an­leika leigu­fjár­hæðar með breyt­ing­um á húsa­leigu­lög­um auk bættr­ar ráðgjaf­ar og upp­lýs­inga til leigj­enda. Að sama skapi verður sett­ur enn meiri kraft­ur í upp­bygg­ingu íbúðar­hús­næðis á samn­ings­tím­an­um með stofn­fram­lög­um og hlut­deild­ar­lán­um til upp­bygg­ingu 1.000 íbúða á ári. Sveit­ar­fé­lög­in munu leggja til bygg­ing­ar­hæf­ar lóðir og stofn­fram­lög til að mæta upp­bygg­ing­arþörf og líf­eyr­is­sjóðum verða veitt­ar rýmri heim­ild­ir til fjár­fest­inga í íbúðar­hús­næði.

Stutt við barna­fjöl­skyld­ur

Ráðist verður í um­fangs­mikl­ar aðgerðir til þess að styðja bet­ur við barna­fjöl­skyld­ur á samn­ings­tím­an­um. Þannig verða barna­bæt­ur hækkaðar og dregið verður úr tekju­skerðing­um, sem mun fjölga þeim for­eldr­um sem fá stuðning um 10.000. Fram­lög til barna­bóta verða auk­in um 18 millj­arða króna á samn­ings­tím­an­um. Þá verða há­marks­greiðslur úr Fæðing­ar­or­lofs­sjóði hækkaðar í þrem­ur áföng­um á næstu tveim­ur árum, þann 1. apríl 2024 úr 600.000 þúsund krón­um á mánuði í 700.000 kr., frá og með 1. janú­ar 2025 í 800.000 kr. og frá og með 1. janú­ar 2026 í 900.000 kr. Það er um tíma­bæra breyt­ingu að ræða sem mun ýta und­ir aukn­ar sam­vist­ir barna með báðum for­eldr­um. Ráðist verður í sam­hent átak til að brúa bilið milli fæðing­ar­or­lofs og leik­skóla með það að mark­miði að tryggja öll­um börn­um pláss á leik­skól­um. Þá verða skóla­máltíðir grunn­skóla­barna gerðar gjald­frjáls­ar frá og með ág­úst 2024 til loka samn­ings­tím­ans.

Sam­fé­lag er sam­vinnu­verk­efni

Heim­sókn nó­bels­verðlauna­haf­ans Jós­efs Stig­litz í síðustu viku minnti okk­ur á hvað sú efna­hags­skip­an sem við búum við á Íslandi hef­ur reynst gæfu­rík. Þó að okk­ur greini á um ýmis mál varðandi stjórn efna­hags­mála og skipt­ingu gæða höf­um við sem þjóðfé­lag náð sam­stöðu um fjár­fest­ingu í al­manna­gæðum, mennt­un, sjúkra­trygg­ing­um og fé­lags­lega kerf­inu og með sam­vinnu náð að skapa grund­völl fyr­ir fram­sækið markaðshag­kerfi þar sem frelsi ein­stak­lings­ins er í for­grunni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Vor á Vestfjörðum

Deila grein

05/03/2024

Vor á Vestfjörðum

Það var fal­legt að fljúga inn til lend­ing­ar á Ísaf­irði í gær þar sem ég varði deg­in­um í að funda með Vest­f­irðing­um um hin ýmsu mál. Það er eng­um blöðum um það að fletta að mik­il breyt­ing hef­ur orðið til batnaðar á Vest­fjörðum á und­an­förn­um árum; kraft­mik­il upp­bygg­ing hef­ur átt sér stað í at­vinnu­líf­inu á svæðinu, fjár­fest­ing hef­ur verið í betri vega­sam­göng­um og auk­in bjart­sýni og til­trú á framtíð svæðis­ins er til­finn­an­leg.

Ferðaþjón­usta hef­ur vaxið á Vest­fjörðum líkt og ann­ars staðar á land­inu. Það var mik­il viður­kenn­ing fyr­ir lands­hlut­ann þegar alþjóðlegi ferðabóka­út­gef­and­inn Lonely Pla­net valdi Vest­f­irði sem besta áfangastað í heimi árið 2022. Slíkt varð til þess að beina hinu alþjóðlega ferðak­ast­ljósi að svæðinu með já­kvæðum áhrif­um enda hef­ur svæðið upp á margt að bjóða. Hef­ur þetta meðal ann­ars birst í mik­illi ásókn í að heim­sækja Vest­f­irði und­an­far­in sum­ur og hef­ur gist­ing selst upp í fjórðungn­um.

Brýn­asta áskor­un­in í ferðaþjón­ustu í lands­fjórðungn­um er hins veg­ar að lengja ferðatíma­bilið, en mark­miðið er að heils­árs­ferðaþjón­usta verði starf­rækt á svæðinu. Lögð hef­ur verið áhersla á að draga úr árstíðasveiflu í öll­um lands­hlut­um und­an­far­inn ára­tug með þónokkr­um ár­angri, þó við get­um gert tals­vert bet­ur í þeim efn­um. Leng­ing ferðatíma­bils­ins stuðlar að betri nýt­ingu innviða, eins og hót­ela og veit­ingastaða, og skap­ar betri skil­yrði fyr­ir auk­inni fjár­fest­ingu í ferðaþjón­ustu.

Á opn­um fund­um mín­um að und­an­förnu um nýja ferðaþjón­ustu­stefnu til árs­ins 2030 og aðgerðaáætl­un henni tengda, sem farið hafa fram um allt land, hef­ur átt sér stað gagn­legt sam­tal við hag­hafa í grein­inni. Þar hafa fyrr­nefnd sjón­ar­mið meðal ann­ars verið reifuð sem mik­il­vægt er að hlýða á og nýta í því verk­efni að styrkja um­gjörð ferðaþjón­ust­unn­ar. Þannig hafa Vest­f­irðing­ar til dæm­is sam­mælst um að vinna að og kynna hina svo­kölluðu Vest­fjarðaleið, 950 kíló­metra langa ferðamanna­leið um Vest­f­irði og Dal­ina sem opnaðist með til­komu Dýra­fjarðarganga í októ­ber 2020. Á leiðinni er að finna marga af fal­leg­ustu áfanga­stöðum Vest­fjarða sem gam­an er að heim­sækja.

Stjórn­völd munu leggja sín lóð á vog­ar­skál­arn­ar til að styðja heima­menn í því að klára verk­efnið með sóma en metnaðarfull vinna ligg­ur að baki verk­efn­inu sem verður til þess að vekja auk­inn áhuga á að heim­sækja Vest­f­irði.

Vest­f­irðing­ar hafa einnig lagt kapp á að hlúa að tungu­mál­inu og aðgengi að því í gegn­um verk­efni Gef­um ís­lensku séns. Með því er leit­ast við að virkja fólk í nærsam­fé­lag­inu sem er til­búið að veita fólki af er­lend­um upp­runa hjálp við að til­einka sér ís­lensku í sam­vinnu við fyr­ir­tæki, stofn­an­ir og ein­stak­linga. Það skipt­ir meðal ann­ars at­vinnu­lífið miklu máli sem og sam­fé­lagið allt.

Tæki­fær­in eru sann­ar­lega til staðar vest­ur á fjörðum sem og út um allt land, nú er bara að vinna sam­an að því að nýta þau til hags­bóta fyr­ir sam­fé­lagið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtis fyrst í Morgunblaðinu 5. mars 2024.

Categories
Greinar

Einn af eld­hugum hag­fræðinnar: Joseph Stiglitz

Deila grein

28/02/2024

Einn af eld­hugum hag­fræðinnar: Joseph Stiglitz

Bandaríski hagfræðingurinn Joseph Stiglitz er einn virtasti hagfræðingur samtímans. Hann er þekktur fyrir framlag sitt til hagfræðinnar, einkum á sviði upplýsingahagfræði, opinberrar stefnumótunar og þróunarhagfræði.

Stiglitz hlaut doktorsgráðu í hagfræði frá Massachusetts Institute of Technology (MIT). Hann er þekktastur fyrir rannsóknir sínar um hagfræði upplýsinga sem varð til þess að hann hlaut Nóbelsverðlaunin fyrir í hagfræði árið 2001. Framlag Stiglitz á þessu sviði breytti skilningi manna á markaðsöflum með því að varpa ljósi á mikilvægi ófullkominna upplýsinga með því að varpa ljósi á það hvernig ójafn aðgangur að upplýsingum getur haft efnahagsleg áhrif.

Áhrif Stiglitz ná langt út fyrir háskólasamfélagið þar sem hann hefur tekið virkan þátt í stefnumótun í efnahagsmálum. Hann fór fyrir efnahagsráðgjafanefnd Bill Clinton Bandaríkjaforseta og talaði meðal annars fyrir stefnu sem mótaðist á svokallaðri „þriðju leið“. Hann gerðist síðar aðalhagfræðingur og aðstoðarforstjóri Alþjóðabankans. Á starfstíma sínum beitti hann fyrir því breyttum áherslum hjá bankanum í þágu fátæktar og sjálfbærrar þróunar sem á þeim tíma viku frá hefðbundnum efnahagslegum venjum. Stiglitz hefur verið íslenskum stjórnvöldum til ráðgjafar, en árið 2000 fékk Seðlabanki Íslands hann til að gera úttekt á íslensku hagkerfi, með áherslu á stýringu peninga- og gengismála í litlum, opnum hagkerfum.

Stiglitz hefur ritað fjölmarar bækur á sviði hagfræði og þjóðfélagsmála. Í bók sinni „Globalization and Its Discontents“ frá árinu 2002 benti hann annmarka ríkjandi efnahagsstefnu varðandi hnattvæðingu þar sem hann gagnrýndi svokallaða eftirlitslausa hnattvæðingu og færði rök fyrir því að hnattvæðingin ýtti undir ójöfnuð og skaðaði í raun þá sem veikast standa. Ákall Stiglitz um jafnari og félagslega meðvitaðri nálgun á hnattvæðingu vakti talsverða athygli á sínum tíma og vakti upp umræður um hlutverk alþjóðlegra stofnana í þeim efnum og nauðsyn sanngjarns alþjóðlegs efnahagskerfis Á undanförnum árum hefur Stiglitz verið ötull talsmaður þess að dregið yrði úr tekjuójöfnuði, sem hann telur eitt mikilvægasta viðfangsefni samtímans. Í bókinni: „The Price of Inequality“ frá árinu 2012 fór hann ofan í rætur og afleiðingar vaxandi tekjumunar og varpaði fram tillögur um hvernig draga úr þeirri þróun. Stiglitz heldur því fram að sanngjörn og réttlát dreifing fjármagns sé ekki aðeins siðferðilega rétt heldur einnig nauðsynleg til að viðhalda hagvexti til lengri tíma.

Hér að ofan eru eingöngu nefndar tvær bækur eftir Stiglitz, en hann hefur ritað fjölda bóka og er von á nýrri bók í apríl nk. og mun hann meðal annars fjalla um efni hennar á fyrirlestri sínum í Háskóla Íslands á föstudaginn.

Stiglitz er einn áhrifamesti hagfræðingur og hugsuður samtímans. Arfleifð Stiglitz liggur ekki aðeins í þeim viðurkenningum sem hann hefur hlotið heldur í þeim áhrifum sem hugmyndir hans hafa á alþjóðlegt efnahagslandslag undangengna áratugi. Hann heldur áfram að móta bæði fræðilega umræðu og efnahagslega stefnumótun sem leggur áherslu á félagslega samvinnu og sjálfbærni.

Haldið verður málþing með Joseph Stiglitz föstudaginn 1. mars í Veröld, húsi Vigdísar, kl. 12-13:30. Áhugasamir eru hjartanlega velkomnir!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. febrúar 2024.

Categories
Fréttir

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

26/02/2024

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ

Mánudagur 26. febrúar:
Reykjavík – Sykursalnum Grósku, kl. 20.00.
Suðurnesjabær – Samkomuhúsinu Sandgerði, kl. 20.00.

Þriðjudagur 27. febrúar:
Mosfellsbær – Skátaheimili Mosverja, kl. 20.00.
Bláskógabyggð – Efsti Dalur, kl. 20.00.
Borgarbyggð – Landnámssetrinu, kl. 20.00.

Miðvikudagur 28. febrúar:
Kópavogur – Siglingafélaginu Ými, Naustavör 14, kl. 20.00.
Akranes – Dalbraut 4, kl. 20.00.
Vopnafjörður – Safnaðarheimilinu, kl. 18.00.

Fimmtudaginn 29. febrúar:
Reyðarfjörður – Þórðarbúð, Austurvegi 39, kl. 17.30.
Sauðárkrókur – Kaffi Krók, kl. 20:15.
Egilsstaðir – Tehúsið, kl 20.00.
Árborg – Hótel Selfoss, kl 20.00.

Föstudagur 1. mars:
Húsavík – Félagsheimili eldri borgara, Hlyn, kl. 16.00.

Laugardagur 2. mars:
Hafnarfjörður – Kiwanissalnum, Helluhrauni 22, kl. 11.00.

Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.

ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.

Við erum Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.

Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir.
Við setjum manngildi ofar auðgildi.