Samfélagið okkar er eitt samvinnuverkefni. Við í Framsókn leggjum mikla áherslu á að fjárfesta í fólki vegna þess að fjárfesting í mannauði skilar sér í aukinni hagsæld og velsæld í samfélögum líkt og hagrannsóknir sýna. Ríkisstjórn Íslands hefur á undanförnum árum sannarlega fjárfest í fólki, forgangsraðað í þágu aukinnar verðmætasköpunar og náð árangri á fjölmörgum sviðum, þar með talið efnahagsmálum, þrátt fyrir þau innri og ytri áföll sem á vegi hennar hafa orðið. Í því samhengi er áhugavert að skoða þróun nokkra lykilstærða í þjóðarbúskapnum á undanförnum árum. Í fyrsta lagi hefur hagvöxtur á síðustu þremur árum verið 20%, sem er það mikill vöxtur að það er ekki mögulegt að bera hann saman við önnur ríki. Til dæmis eru Danir að horfast í augu við neikvæðan hagvöxt, enginn hagvöxtur er að ráði í Evrópu og helst er litið til Bandaríkjanna eftir einhverjum hagvexti í nánustu framtíð. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur einmitt nýlega lýst því sem miklu áhyggjuefni að þessi áratugur muni einkennast af stöðnun í heimsbúskapnum.
Í öðru lagi er atvinnustig mjög hátt en atvinnuleysi nemur aðeins 3,5%. Auðlegð Íslands er mikil og það eru fá þjóðríki þar sem fullt atvinnustig er ráðandi yfir langt tímabil. Eitt það mikilvægasta í samfélaginu okkar er að allir geti fundið sér starf við hæfi og tekið þannig virkan þátt í samfélaginu okkar, eflt atvinnulífið og undirbyggt aukna verðmætasköpun sem nýtist meðal annars til að fjárfesta enn frekar í fólki.
Í þriðja lagi hafa meðallaun verið að hækka og það skiptir gríðarlegu máli. Þannig eru meðallaun hér á landi með þeim hæstu á byggðu bóli. Þrátt fyrir verðbólgu undanfarinna missera höfum við Íslendingar séð kaupmátt launa aukast verulega undanfarin 10 ár. Nýir langtímakjarasamningar eru góð tíðindi fyrir áframhaldið og glímuna við verðbólgu, þar skiptir aðkoma stjórnvalda miklu máli.
Í fjórða lagi langar mig til að benda á það að hrein erlend staða þjóðarbúsins er óvenju sterk eða sem nemur um 40% af landsframleiðslu. Fyrir um 20 árum var staðan neikvæð um 80%. Við vorum í gríðarlegum erfiðleikum með að halda jákvæðum gjaldeyrisforða en hann var iðulega tekinn að láni sem reyndist mikil áskorun fyrir þjóðarbúið. Kröftug ferðaþjónusta hefur meðal annars drifið þessa þróun áfram ásamt öflugum sjávarútvegi, iðnaði, hugverkum og vexti í skapandi greinum sem hefur skilað sér inn í hagkerfið okkar. Samhliða þessu hefur gjaldeyrismarkaðurinn dýpkað á sama tíma og hefur dregið úr sveiflum. Til dæmis er það merkilegt að jarðhræringarnar á Suðurnesjum hafi ekki orðið til þess að krónan hafi sveiflast mikið þótt eitthvert flökt hafi verið í fyrstu. Ofangreint ber vitnisburð um góður árangur sem við getum verið stolt af. Stærsta verkefni hagstjórnarinnar fram á veginn verður að ná niður verðbólgu og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta í þágu heimila og fyrirtækja. Peningastefnan, ríkisfjármálin og vinnumarkaðurinn eru farin að ganga í takt, sem mun skila árangri fyrir samfélagið og undirbyggja betri lífskjör á Íslandi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. ágúst 2024.
Íslenskt menningarlíf hefur átt góðu gengi að fagna og fer hróður þess um víða veröld. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér. Hér á landi hefur verið almennt breið sátt um það að hlúa að menningarlífinu með því að fjárfesta í listnámi, tryggja aðgang að slíku námi, styðja við grasrótarsamtök í menningarlífinu og skapa vettvang fyrir listamenn til þess að hlúa að frumsköpun. Þar hafa starfslaun listamanna þjónað sem mikilvægt verkfæri til að efla menningarstarf í landinu. Listamannalaun í einhverju formi eru rótgrónari en margan grunar, en saga þeirra nær allt aftur til 1891 þegar Alþingi samþykkti að veita skáldalaun. Umgjörð þeirra var fyrst formgerð með lagasetningu árið 1967 þegar lög um listamannalaun voru samþykkt og síðar voru uppfærð árin 1991 og 2009.
Árlegur kostnaður við listamannalaun er 978 milljónir króna. Til að setja þá tölu í samhengi er um að ræða 1,5% af útgjöldum til háskólastigsins og 0,06% af fjárlögum ársins 2024.
Nýverið voru kynntar tillögur til breytinga á listamannalaunum þar sem lagt var upp með að fjölga þeim í skrefum til ársins 2028, en engar breytingar hafa átt sér stað á kerfinu í 15 ár. Eru boðaðar breytingar gerðar í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar sem fram kemur í stjórnarsáttmála, að unnið skuli að því að styrkja faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna. Þær eru því eðlilegt skref og forgangsraðað verður í þágu þeirra á málefnasviði menningarmála innan menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Í breytingunum felst meðal annars að komið verði á fót tveimur nýjum þverfaglegum sjóðum; Vexti sem er sjóður sem ætlaður er fyrir listamenn undir 35 ára aldri, og Vegsemd, sjóði fyrir listamenn yfir 67 ára aldri. Vexti er ætlað að styðja sérstaklega við unga listamenn sem hafa ekki enn skapað sér styrka stöðu innan sinnar listgreinar og er m.a. ætlað að mæta þeirri gagnrýni sem heyrst hefur, að lítil nýliðun sé innan kerfisins. Að sama skapi er Vegsemd sérstakur, þverfaglegur sjóður fyrir eldri listamenn sem hafa varið sinni starfsævi til listsköpunar.
Ég tel eðlilegt að við stöndum með listafólkinu okkar í blíðu jafnt sem stríðu, enda er menning eitthvað sem sameinar okkar – sérstaklega þegar vel gengur. Öll fyllumst við til að mynda stolti þegar íslenskum listamönnum gengur vel á erlendri grundu og kastljós umheimsins beinist að landinu vegna þess. Dæmi er um listamenn sem hlotið hafa eftirsóttustu verðlaun heims á sínu sviði sem á einhverjum tímapunkti þáðu listamannalaun á ferli sínum til þess að vinna að frumsköpun sinni. Ísland er auðugra og eftirsóttara land fyrir vikið, fyrir okkur sjálf sem hér búum og alla þá gesti sem hingað koma.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. apríl 2024.
Í ágætri bók eftir Nicholas Wapshott, sem ber titilinn „The Sphinx“, er fjallað um baráttuna sem Franklin D. Roosevelt, fv. forseti Bandaríkjanna, háði gegn einangrunarhyggju í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar. Einangrunarsinnar voru alfarið á móti því að Bandaríkin sendu herafla til að verja lýðræðisríki í Evrópu. Meðal helstu andstæðinga Roosevelts var vinur hans Joseph P. Kennedy, viðskiptajöfur og sendiherra, ásamt einstaklingum á borð við Walt Disney og Henry Ford. Þeir töldu að Bandaríkin, hið nýja heimsveldi, ætti ekkert erindi í stríðsátök handan Atlantshafsins. Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér vegna þess að umræðan víða um heim í dag er af sama toga. Sterk öfl í Bandaríkjunum tala fyrir einangrunarhyggju, sem er ekki jákvætt fyrir frið, velsæld og alþjóðaviðskipti.
Blikur á lofti í alþjóðaviðskiptum
Allt er í heiminum hverfult og tímabil alþjóðavæðingar, eins hún hefur birst eftir seinni heimsstyrjöld, virðist mögulega hafa runnið sitt skeið. Hlutfall vöru- og þjónustuútflutnings á heimsvísu náði hámarki árið 2008 og hefur síðan þá farið lækkandi. Heimshagkerfið hefur séð mikinn vöxt í viðskiptahindrunum síðastliðinn áratug. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sýnt fram á að heimsframleiðsla geti dregist saman um 7% á næstunni, ef viðskiptahindranir aukast. Þetta er þróun sem þjóðir heims verða að hafa augun á og sporna við til að stuðla að áframhaldandi lífskjarasókn í veröldinni.
Aukinn ófriður á heimsvísu og meiri skipting viðskipta eftir pólitískri hugmyndafræði hefur leitt af sér mikla fjölgun í viðskiptahindrunum. Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum voru settar alls 3.000 viðskiptahindranir á síðasta ári, sem er þreföldun frá árinu 2019. Saga hagfræðinnar hefur kennt okkur að þegar viðskipti þjóða dragast saman, þá versna lífskjör. Ekkert þjóðríki hefur ávinning af því að skipta hagkerfi heimsins í fylkingar. Þess vegna skiptir samvinna þjóða og alþjóðasamstarf svo miklu máli.
Hagsæld Íslands grundvallast á alþjóðaviðskiptum
Íslendingar stunduðu umfangsmikil viðskipti á sinni gullöld (930-1262), fundu Norður-Ameríku og ferðuðust alla leið til Bakú í Aserbaísjan. Sagnaritararnir varðveittu germanska menningararfinn og samin voru einstök bókmenntaverk, líkt og Íslendingasögurnar og aðrar bókmenntaperlur. Á þessum tíma ríkti bókmenntaleg hámenning á Íslandi og segja má að landið hafið verið miðstöð viðskipta og skapandi greina í Norður-Atlantshafi. Mikil viðskipti voru við Grænland og þaðan komu dýrgripir a borð við fálka, rostungstennur og náhvalstennur. Þetta blómaskeið leið undir lok á 13. öld þegar innanlandsófriður hófst og veðurfar kólnaði. Landið einangraðist frá Evrópu og á endanum glataði það sjálfstæði sínu. Eftir svartadauða versnuðu lífsskilyrði verulega og náði sú þróun hámarki á 18. öld, þegar hver hungursneyðin rak aðra ásamt erfiðum jarðhræringum. Danskir ráðamenn töldu jafnvel skynsamlegt að flytja alla Íslendinga til Danmerkur. Einangrun landsins hafði gríðarleg áhrif á þessa neikvæðu þróun og eins það, að eignarhald á utanríkisviðskiptum hvarf frá landsmönnum.
Sá mikli kraftur sem verið hefur í alþjóðaviðskiptum undanfarna áratugi hefur verið aflvaki þess að lífskjör hundraða milljóna manna hafa batnað. Ísland hefur tekið virkan þátt í þessari þróun og er engum blöðum um það að fletta að efnahagslegur vöxtur landsins hefur byggst á opnum alþjóðaviðskiptum. Um leið og Ísland hóf aftur að stunda frjáls viðskipti og fór að nýta auðlindir landsins í eigin þágu jukust hér lífsgæði og auðsæld. Tæknivæðing samfélagsins lagði sitt af mörkum í þessari samfelldu framfarasögu, skilaði aukinni skilvirkni og nýtingu framleiðsluþátta. Þannig störfuðu í upphafi 20. aldarinnar um 80% af vinnuaflinu í landbúnaði og sjávarútvegi en 100 árum síðar er samsvarandi hlutfall um 10%. Á sama tíma hefur verðmætasköpun aukist umtalsvert. Utanríkisviðskipti hafa orðið mun fjölbreyttari en þegar um 90% gjaldeyristekna komu frá sjávarútvegi fyrir tæpum fjórum áratugum. Meginútflutningsstoðir hagkerfisins eru fjórar í dag; ferðaþjónusta, sjávarútvegur, iðnaður og skapandi greinar.
Einangrunarsinnar sækja í sig veðrið
Á síðustu öld hafa Bandaríkin verið leiðandi í frjálsum viðskiptum en síðustu misseri hafa stjórnvöld verið að hverfa af þeirri braut. Mikil skautun hefur einkennt alla pólitíska umræðu og óvenjubreið spjót hafa tíðkast milli Demókrata og Repúblikana í umræðunni um ríkisfjármál, jafnréttismál og frjáls viðskipti. Ofan á það er ljóst að verkafólk í Bandaríkjunum hefur borið skarðan hlut frá borði vegna hnattvæðingar, sem hefur falist í því að mikið af bandarískum störfum fluttist til ríkja þar sem launakostnaður var mun lægri. Raunlaun þessa hóps hafa að mestu staðið í stað meðan kostnaður vegna húsnæðis og menntunar hefur vaxið mikið. Þessi þróun hefur leitt af sér óþol gagnvart vaxandi hnattvæðingu í Bandaríkjunum. Hins vegar er hægt að láta alþjóðaviðskiptin vinna fyrir allt samfélagið, ef viljinn er fyrir hendi. Stjórnmálin hafa því síðustu misseri einbeitt sér að því að flytja störf aftur heim. Mun harðari innflytjendastefna var tekin upp og hefur sett þrýsting á vinnumarkaðinn, sem er að valda verðbólgu. Loft allt hefur verið lævi blandið í samskiptum tveggja stærstu hagkerfa heimsins, Kína og Bandaríkjanna. Stjórnvöld beggja ríkja hafa markvisst unnið að því að gera efnahagskerfi sín minna háð hvort öðru. Þessi þróun er ekki hagstæð fyrir lítið opið hagkerfi eins og Ísland er. Til að hagsæld aukist áfram á Íslandi er afar mikilvægt að aðgengi að helstu mörkuðum sé greitt, hvort heldur fyrir vörur eða þjónustu.
Í upphafi greinarinnar fór ég aftur í söguna og fjallaði um þá einangrunarhyggju sem einkenndi bandaríska stjórnmálaumræðu á 4. áratugnum. Roosevelt var mikill vandi á höndum, því hann taldi útilokað annað en að styðja við forsætisráðherrann og félaga sinn Winston Churchill og lýðræðisríkin í Evrópu. Öll vitum við í dag að aðkoma Bandaríkjanna og liðsauki þeirra við bandalagsríki sín skipti sköpum í að hafa sigur á Hitler og bandamönnum hans. Umræðan í Bandaríkjunum í dag er keimlík þeirri sem var á 4. áratugnum og munu næstu forsetakosningar ráða miklu um þróun öryggis- og varnarmála í Evrópu og Mið-Austurlöndum. Farsæl samvinna ríkja varðar veginn fyrir áframhaldandi velsæld og öryggi á heimsvísu. Sagan sjálf sýnir okkur það líkt og rakið hefur verið hér að ofan.
Páskarnir eru hátíð trúar og birtunnar. Birtuhluti sólarhringsins er að verða lengri en hinn myrki. Þetta er einnig tími vonar og upprisu. Vonandi fer að birta til í alþjóðamálum. Gleðilega páska!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. mars 2024.
Upp, upp mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og rómur með, hugur og tunga hjálpi til, herrans pínu ég minnast vil.
Páskahátíðin er hafin þar sem við njótum samvista með fjölskyldu og vinum. Passíusálmarnir hafa fylgt þjóðinni í nærri 365 ár og eru meistaraverk bæði frá listrænu og trúarlegu sjónarmiði og ein af mörgum birtingarmyndum þess ríka bókmenntaarfs sem Ísland býr að. Bókmenntir eru samofnar sögu þjóðarinnar eins og við þekkjum. Þannig er bókmenntaarfur Íslendinga okkar merkasta framlag til heimsmenningar en handritasafn Árna Magnússonar er til dæmis á verðveisluskrá UNESCO.
Á undanförnum árum hafa verið stigin stór skref til þess að efla umgjörð menningar og skapandi greina á Íslandi. Fyrsta heildstæða kvikmyndastefnan fyrir Ísland leit dagsins ljós árið 2020 og síðan þá hefur myndlistarstefna, tónlistarstefna, stefna í málefnum hönnunar og arkitektúrs verið gefnar út og hrint í framkvæmd. Unnið er að stefnu í málefnum sviðslista og gær samþykkti ríkisstjórn tillögu mína um nýja bókmenntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030. Nýrri bókmenntastefnu er ætlað að hlúa enn betur að bókmenntamenningu okkar til framtíðar. Í stefnunni er birt framtíðarsýn fyrir málaflokkinn og jafnframt þrjú meginmarkmið sem aðgerðirnar skulu styðja við. Meginmarkmiðin snúast um fjölbreytta útgáfu á íslensku til að treysta stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu; um aukinn og bættan lestur, ekki síst meðal ungra lesenda; og hvatning til bókasamfélagsins um nýsköpun sem taki mið af tækniþróun og örum samfélagsbreytingum.
Aðgerðaáætlunin hefur að geyma 19 aðgerðir sem skipt er upp í fjóra flokka: Umgjörð og stuðningur; Börn og ungmenni; Menningararfur, rannsóknir og miðlun; og Nýsköpun og sjálfbærni. Aðgerðirnar leggja ekki síst áherslu á börn og ungmenni annars vegar og íslenska tungu hins vegar en víða er komið við.
Ein stærsta aðgerðin sem boðuð er í áætluninni snýst um endurskoðun á því regluverki og þeirri umgjörð sem hið opinbera hefur komið upp í tengslum við bókmenntir og íslenskt mál. Þar eru undir lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, lög um bókmenntir, lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, bókasafnalög o.fl. Í þeirri endurskoðun er brýnt að hugað verði að breyttu landslagi tungu og bóka vegna tilkomu gervigreindar, máltækni, streymisveitna og annarrar tækni sem er í hraðri þróun þessi misserin.
Bókmenntastefnan er gerð í mikilli samvinnu við hagsmunaaðila sem lögðu til grundvöllinn í stefnunni og aðgerðunum. Það er viðeigandi að bókaþjóðin Ísland fái nýja bókmenntastefnu sem mun leggja grunninn að enn metnaðarfyllra menningarlífi hér á landi. Ég óska öllum gleðilegra páska.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. mars 2024.
Ísland státar af öflugu tónlistarlífi sem eftir er tekið á erlendri grundu. Slík þróun gerist ekki á einni nóttu heldur liggur þar að baki afrakstur mikillar vinnu í gegnum áratugina. Það er til að mynda áhugavert að kynna sér sögu Tónlistarfélags Reykjavíkur sem stofnað var árið 1932. Félagið ruddi mikilvægar brautir í menningarlífinu en tilgangur þess var að bæta aðstöðu íslenskra tónlistarmanna bæði til náms og starfs en alls almennings til tónnautnar. Félagið á sér í raun lengri sögu, en undanfarar þess eru Hljómsveit Reykjavíkur, stofnuð 1925, og Tónlistarskólinn í Reykjavík, stofnaður 1930. Saga félagsins veitir innsýn í þann mikla metnað sem ríkti í tónlistarlífinu vel fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, en Tónlistarfélagið kom til dæmis að því að fá eina virtustu tónlistarmenn samtímans til landsins að spila á tónleikum. Með tíð og tíma efldist tónlistarstarf víða um land með stofnun fleiri tónlistarfélaga og tónlistarskóla, má þar nefna Tónlistarskóla Akureyrar sem stofnaður var árið 1946 og Tónlistarskóla Ísafjarðar sem var settur á laggirnar árið 1948. Þannig hefur í áratugi ríkt metnaður fyrir tónlistarnámi, með frábærum kennurum í broddi fylkingar og góðu aðgengi að slíku námi sem skipt hefur sköpum fyrir menningarlíf þjóðarinnar.
Á Íslensku tónlistarverðlaununum í vikunni endurspeglaðist meðal annars sá mikli kraftur sem býr í tónlistarlífinu hér á landi. Við höfum einnig fylgst með glæsilegum árangri íslenskra tónlistarmanna á alþjóðlegum vettvangi undanfarið. Má þar nefna eftirtektarverðan árangur Íslendinga á Grammy-verðlaunahátíðinni í febrúar síðastliðnum, þar sem söngkonan Laufey Lín Jónsdóttir hlaut verðlaunin eftirsóttu fyrir plötu sína Bewitched, og tilnefningu tónlistarmannsins Ólafs Arnalds til verðlauna í sínum flokki. Á fjórum árum hafa Íslendingar unnið fern Grammy-verðlaun af tíu tilnefningum. Það verður að teljast afbragðsgott fyrir þjóð sem telur tæplega 400.000. Í samhenginu við mannfjöldann má einmitt geta þess að í vikunni bárust fregnir af því lagið Little Talks eftir íslensku hljómsveitina Of Monsters and Men náði að rjúfa eins milljarðs múrinn í hlustunum á streymisveitunni Spotify.
Á undanförnum árum hafa stjórnvöld stigið stór skref til þess að efla umgjörð tónlistarlífsins í landinu enn frekar með nýrri löggjöf og stefnu um tónlist, nýrri Tónlistarmiðstöð sem og Tónlistarsjóði. Ég er sannfærð um að breytingarnar muni treysta enn frekar þann góða grunn sem er til staðar og verði til þess að okkar hæfileikaríku tónlistarmenn fái enn meiri byr í seglin með nýjum tækifærum til framtíðar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. mars 2024.
Hagsæld þjóða byggist á samspili fjölmargra þátta sem huga þarf að og stilla saman. Þar spila kjarasamningar meðal annars veigamikið hlutverk. Íslenska hagkerfið er þróttmikið og sagan kennir okkur að það á til að bregðast hratt við þegar áföll ríða yfir. Viðspyrna hagkerfisins í framhaldi af heimsfaraldrinum er enginn undantekning. Hagvöxtur hefur verið meiri en víða í nágrannaríkjunum frá því að draga tók úr áhrifum heimsfaraldursins á árinu 2022.
Samkvæmt endurskoðuðum tölum Hagstofunnar mældist hagvöxtur 8,9% árið 2022 og 4,1% 2023. Þessar tölur voru talsvert hærri en jafnvel nýjustu spár gerðu ráð fyrir og hefur hagvöxtur hér á landi verið með hæsta móti hjá OECD-ríkjum.
Ísland var fljótt að jafna sig eftir heimsfaraldurinn vegna þess þróttar sem er í íslensku efnahagslífi. Að sama skapi virkuðu stuðningsaðgerðir stjórnvalda vel, eða eins og efnahagsleg loftbrú. Nýlegar leiðréttingar Hagstofunnar á mannfjöldatölum sýna jafnframt að hagvöxtur á mann hefur verið mikill og meiri en fyrstu tölur gerðu ráð fyrir, eða um 5,9% á árinu 2022 og 2,1% á árinu 2023, þannig að þær umræður sem urðu um að hagvöxtur á mann væri lítill áttu sér ekki stoð í raun. Hagkerfið hefur því í raun verið mun heitara en búist var við.
Nýlegar hagtölur benda hins vegar til þess að jafnvægi sé að nást, en samkvæmt nýjustu tölum Seðlabanka Íslands var afgangur á viðskiptajöfnuði við útlönd eftir nokkurra ára hlé og hagkerfið virðist vera að kólna hratt ef horft er til einkaneyslu. Aukinn þjónustuútflutningur, sem skýrist aðallega af framlagi ferðaþjónustu, hélt uppi hagvexti á síðasta ári. Á síðustu vikum og mánuðum hafa verið teikn uppi um að mögulega sé að hægja á starfsemi ferðaþjónustu og má einkum rekja það til áhrifa af eldsumbrotunum a Reykjanesi. Þrátt fyrir þetta eru verðbólga og verðbólguvæntingar áfram þrálátar. Það er ljóst að það mun hægjast á hagvexti á komandi misserum eins og víða í nágrannalöndunum. Til að byggja undir almenna hagsæld er nauðsynlegt að fara í aðgerðir sem snúa að hagvexti til framtíðar og orkuskiptunum. Hagkerfið býr yfir mun meiri fjölbreytni en á árum áður og þarf ekki að vera áhyggjuefni þótt dragi tímabundið saman í hagvexti. Hins vegar til að byggja undir almenna hagsæld fer að verða tímabært að hefja samtal um að huga að aðgerðum sem snúa að hagvexti til framtíðar.
Langtíma kjara- samningar í höfn
Nýir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði sem undirritaðir voru til fjögurra ára skipta hagkerfið miklu máli. Með þeim er leiðin fram á við mörkuð í átt að bættum lífskjörum, en stærsta verkefni hagstjórnarinnar er að ná niður verðbólgu og þar með vöxtum, sem mun skila sér í auknum kaupmætti fólks. Eina raunhæfa leiðin til þess að ná því markmiði er samstillt átak hins opinbera, vinnumarkaðarins og peningastefnunnar í landinu. Það er jákvætt að samkomulag hafi náðst til fjögurra ára en tímalengd samninganna stuðlar að auknum fyrirsjáanleika á vinnumarkaði. Aðgerðir sem stjórnvöld kynntu til að greiða fyrir gerð kjarasamninganna eru margþættar og er markmið þeirra að stuðla að vaxandi velsæld í landinu. Um er að ræða umfangsmiklar aðgerðir sem nema allt að 80 milljörðum króna á samningstímanum. Þannig hafa stjórnvöld tekið ákvörðun um að forgangsraða fjármunum ríkisins með skýrum hætti í þágu stöðugleika á vinnumarkaði næstu árin. Á sama tíma er mikilvægt að ríkið rýni í eigin rekstur, til dæmis með því að nýta fjármuni betur, stuðla að aukinni hagkvæmni hjá hinu opinbera og tryggja samkeppnishæfa umgjörð um atvinnulífið til þess að standa undir verðmætasköpun fyrir samfélagið.
Verulegur stuðningur á húsnæðismarkaði
Aðgerðir stjórnvalda snerta lífskjör fólks með beinum hætti. Þannig er aðgerðunum ætlað að auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna um að allt 500 þúsund krónur á ári. Þannig verður sjö milljörðum varið í ár í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán til að koma til móts við aukinn vaxtakostnað, en stuðningurinn kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Gert er ráð fyrir að sérstakur vaxtastuðningur greiðist beint inn á höfuðstól húsnæðisláns en heimilt verði að óska eftir að nýta hann til lækkunar á afborgunum í tiltekinn tíma. Að sama skapi verður dregið úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda með hærri húsnæðisbótum en grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25% þann 1. júní næstkomandi og aukið tillit verður tekið til fjölskyldustærðar þannig að greiddar verða húsnæðisbætur fyrir allt að 6 heimilismenn í stað 4 áður. Kostnaður vegna þessa er um 2,5 milljarðar króna á ársgrundvelli. Að sama skapi verður húsnæðisöryggi leigjenda aukið og skýrari rammi settur um ákvörðun og fyrirsjáanleika leigufjárhæðar með breytingum á húsaleigulögum auk bættrar ráðgjafar og upplýsinga til leigjenda. Að sama skapi verður settur enn meiri kraftur í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á samningstímanum með stofnframlögum og hlutdeildarlánum til uppbyggingu 1.000 íbúða á ári. Sveitarfélögin munu leggja til byggingarhæfar lóðir og stofnframlög til að mæta uppbyggingarþörf og lífeyrissjóðum verða veittar rýmri heimildir til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði.
Stutt við barnafjölskyldur
Ráðist verður í umfangsmiklar aðgerðir til þess að styðja betur við barnafjölskyldur á samningstímanum. Þannig verða barnabætur hækkaðar og dregið verður úr tekjuskerðingum, sem mun fjölga þeim foreldrum sem fá stuðning um 10.000. Framlög til barnabóta verða aukin um 18 milljarða króna á samningstímanum. Þá verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum, þann 1. apríl 2024 úr 600.000 þúsund krónum á mánuði í 700.000 kr., frá og með 1. janúar 2025 í 800.000 kr. og frá og með 1. janúar 2026 í 900.000 kr. Það er um tímabæra breytingu að ræða sem mun ýta undir auknar samvistir barna með báðum foreldrum. Ráðist verður í samhent átak til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með það að markmiði að tryggja öllum börnum pláss á leikskólum. Þá verða skólamáltíðir grunnskólabarna gerðar gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024 til loka samningstímans.
Samfélag er samvinnuverkefni
Heimsókn nóbelsverðlaunahafans Jósefs Stiglitz í síðustu viku minnti okkur á hvað sú efnahagsskipan sem við búum við á Íslandi hefur reynst gæfurík. Þó að okkur greini á um ýmis mál varðandi stjórn efnahagsmála og skiptingu gæða höfum við sem þjóðfélag náð samstöðu um fjárfestingu í almannagæðum, menntun, sjúkratryggingum og félagslega kerfinu og með samvinnu náð að skapa grundvöll fyrir framsækið markaðshagkerfi þar sem frelsi einstaklingsins er í forgrunni.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2024.
Það var fallegt að fljúga inn til lendingar á Ísafirði í gær þar sem ég varði deginum í að funda með Vestfirðingum um hin ýmsu mál. Það er engum blöðum um það að fletta að mikil breyting hefur orðið til batnaðar á Vestfjörðum á undanförnum árum; kraftmikil uppbygging hefur átt sér stað í atvinnulífinu á svæðinu, fjárfesting hefur verið í betri vegasamgöngum og aukin bjartsýni og tiltrú á framtíð svæðisins er tilfinnanleg.
Ferðaþjónusta hefur vaxið á Vestfjörðum líkt og annars staðar á landinu. Það var mikil viðurkenning fyrir landshlutann þegar alþjóðlegi ferðabókaútgefandinn Lonely Planet valdi Vestfirði sem besta áfangastað í heimi árið 2022. Slíkt varð til þess að beina hinu alþjóðlega ferðakastljósi að svæðinu með jákvæðum áhrifum enda hefur svæðið upp á margt að bjóða. Hefur þetta meðal annars birst í mikilli ásókn í að heimsækja Vestfirði undanfarin sumur og hefur gisting selst upp í fjórðungnum.
Brýnasta áskorunin í ferðaþjónustu í landsfjórðungnum er hins vegar að lengja ferðatímabilið, en markmiðið er að heilsársferðaþjónusta verði starfrækt á svæðinu. Lögð hefur verið áhersla á að draga úr árstíðasveiflu í öllum landshlutum undanfarinn áratug með þónokkrum árangri, þó við getum gert talsvert betur í þeim efnum. Lenging ferðatímabilsins stuðlar að betri nýtingu innviða, eins og hótela og veitingastaða, og skapar betri skilyrði fyrir aukinni fjárfestingu í ferðaþjónustu.
Á opnum fundum mínum að undanförnu um nýja ferðaþjónustustefnu til ársins 2030 og aðgerðaáætlun henni tengda, sem farið hafa fram um allt land, hefur átt sér stað gagnlegt samtal við haghafa í greininni. Þar hafa fyrrnefnd sjónarmið meðal annars verið reifuð sem mikilvægt er að hlýða á og nýta í því verkefni að styrkja umgjörð ferðaþjónustunnar. Þannig hafa Vestfirðingar til dæmis sammælst um að vinna að og kynna hina svokölluðu Vestfjarðaleið, 950 kílómetra langa ferðamannaleið um Vestfirði og Dalina sem opnaðist með tilkomu Dýrafjarðarganga í október 2020. Á leiðinni er að finna marga af fallegustu áfangastöðum Vestfjarða sem gaman er að heimsækja.
Stjórnvöld munu leggja sín lóð á vogarskálarnar til að styðja heimamenn í því að klára verkefnið með sóma en metnaðarfull vinna liggur að baki verkefninu sem verður til þess að vekja aukinn áhuga á að heimsækja Vestfirði.
Vestfirðingar hafa einnig lagt kapp á að hlúa að tungumálinu og aðgengi að því í gegnum verkefni Gefum íslensku séns. Með því er leitast við að virkja fólk í nærsamfélaginu sem er tilbúið að veita fólki af erlendum uppruna hjálp við að tileinka sér íslensku í samvinnu við fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga. Það skiptir meðal annars atvinnulífið miklu máli sem og samfélagið allt.
Tækifærin eru sannarlega til staðar vestur á fjörðum sem og út um allt land, nú er bara að vinna saman að því að nýta þau til hagsbóta fyrir samfélagið.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtis fyrst í Morgunblaðinu 5. mars 2024.
Bandaríski hagfræðingurinn Joseph Stiglitz er einn virtasti hagfræðingur samtímans. Hann er þekktur fyrir framlag sitt til hagfræðinnar, einkum á sviði upplýsingahagfræði, opinberrar stefnumótunar og þróunarhagfræði.
Stiglitz hlaut doktorsgráðu í hagfræði frá Massachusetts Institute of Technology (MIT). Hann er þekktastur fyrir rannsóknir sínar um hagfræði upplýsinga sem varð til þess að hann hlaut Nóbelsverðlaunin fyrir í hagfræði árið 2001. Framlag Stiglitz á þessu sviði breytti skilningi manna á markaðsöflum með því að varpa ljósi á mikilvægi ófullkominna upplýsinga með því að varpa ljósi á það hvernig ójafn aðgangur að upplýsingum getur haft efnahagsleg áhrif.
Áhrif Stiglitz ná langt út fyrir háskólasamfélagið þar sem hann hefur tekið virkan þátt í stefnumótun í efnahagsmálum. Hann fór fyrir efnahagsráðgjafanefnd Bill Clinton Bandaríkjaforseta og talaði meðal annars fyrir stefnu sem mótaðist á svokallaðri „þriðju leið“. Hann gerðist síðar aðalhagfræðingur og aðstoðarforstjóri Alþjóðabankans. Á starfstíma sínum beitti hann fyrir því breyttum áherslum hjá bankanum í þágu fátæktar og sjálfbærrar þróunar sem á þeim tíma viku frá hefðbundnum efnahagslegum venjum. Stiglitz hefur verið íslenskum stjórnvöldum til ráðgjafar, en árið 2000 fékk Seðlabanki Íslands hann til að gera úttekt á íslensku hagkerfi, með áherslu á stýringu peninga- og gengismála í litlum, opnum hagkerfum.
Stiglitz hefur ritað fjölmarar bækur á sviði hagfræði og þjóðfélagsmála. Í bók sinni „Globalization and Its Discontents“ frá árinu 2002 benti hann annmarka ríkjandi efnahagsstefnu varðandi hnattvæðingu þar sem hann gagnrýndi svokallaða eftirlitslausa hnattvæðingu og færði rök fyrir því að hnattvæðingin ýtti undir ójöfnuð og skaðaði í raun þá sem veikast standa. Ákall Stiglitz um jafnari og félagslega meðvitaðri nálgun á hnattvæðingu vakti talsverða athygli á sínum tíma og vakti upp umræður um hlutverk alþjóðlegra stofnana í þeim efnum og nauðsyn sanngjarns alþjóðlegs efnahagskerfis Á undanförnum árum hefur Stiglitz verið ötull talsmaður þess að dregið yrði úr tekjuójöfnuði, sem hann telur eitt mikilvægasta viðfangsefni samtímans. Í bókinni: „The Price of Inequality“ frá árinu 2012 fór hann ofan í rætur og afleiðingar vaxandi tekjumunar og varpaði fram tillögur um hvernig draga úr þeirri þróun. Stiglitz heldur því fram að sanngjörn og réttlát dreifing fjármagns sé ekki aðeins siðferðilega rétt heldur einnig nauðsynleg til að viðhalda hagvexti til lengri tíma.
Hér að ofan eru eingöngu nefndar tvær bækur eftir Stiglitz, en hann hefur ritað fjölda bóka og er von á nýrri bók í apríl nk. og mun hann meðal annars fjalla um efni hennar á fyrirlestri sínum í Háskóla Íslands á föstudaginn.
Stiglitz er einn áhrifamesti hagfræðingur og hugsuður samtímans. Arfleifð Stiglitz liggur ekki aðeins í þeim viðurkenningum sem hann hefur hlotið heldur í þeim áhrifum sem hugmyndir hans hafa á alþjóðlegt efnahagslandslag undangengna áratugi. Hann heldur áfram að móta bæði fræðilega umræðu og efnahagslega stefnumótun sem leggur áherslu á félagslega samvinnu og sjálfbærni.
Haldið verður málþing með Joseph Stiglitz föstudaginn 1. mars í Veröld, húsi Vigdísar, kl. 12-13:30. Áhugasamir eru hjartanlega velkomnir!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Greinin birtist fyrst á visir.is 28. febrúar 2024.
Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.
Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ
Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.
ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.
Við erum Framsókn!
Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.
Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.
Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir. Við setjum manngildi ofar auðgildi.
Tvö ár eru liðin í dag frá því að við fylgdumst agndofa með því þegar Rússar hófu ólöglega innrás sína inn í frjálsa og fullvalda Úkraínu. Stríð var hafið í Evrópu. Daglegu lífi Úkraínumanna, þessarar fjölmennu Evrópuþjóðar, var á einni nóttu snúið á hvolf, með þeim afleiðingum að milljónir hafa neyðst til að rífa sig upp með rótum og flýja heimili sín vegna árása Rússlandshers.
Þó að upphaflegar áætlanir Rússa um að hertaka alla Úkraínu á nokkrum dögum hafi blessunarlega engan veginn gengið eftir hefur þeim tekist að hertaka um 18% af landsvæði Úkraínu. Úkraínumönnum tókst að hrekja Rússa á brott frá stórum landsvæðum framan af en á undanförnum mánuðum hefur víglínan lítið hreyfst í hörðum átökum, þar sem mannfall hefur verið mikið.
Áhrif innrásarinnar hafa hríslast út um víða veröld með neikvæðum efnahagsáhrifum og varpað ljósi á andvaraleysi í varnarmálum Evrópuríkja. Veruleiki í öryggis- og varnarmálum gjörbreyttist á svipstundu og í fyrsta sinn í áratugi var málaflokkurinn aftur kominn á dagskrá í þjóðfélagsumræðunni. Þannig hafa ríki Evrópu stóraukið samstarf og framlög til varnarmála og aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins hefur fjölgað með inngöngu Finna og inngönguferli Svía sem er á lokametrunum en þau skref teljast til sögulegra stefnubreytinga í löndunum tveimur. Þær ákvarðanir sem teknar hafa verið í öryggis- og varnarmálum Íslendinga hafa verið farsælar og staðist tímans tönn, má þar nefnda stofnaðild okkar að Atlantshafsbandalaginu árið 1949 og tvíhliða varnarsamninginn við Bandaríkin árið 1951.
Ísland hefur tekið virkan þátt í samhæfðum aðgerðum vestrænna ríkja til að styðja við Úkraínu. Tekið hefur verið á móti öllum þeim Úkraínumönnum sem hingað hafa leitað í skjól, ásamt því að margþættur efnahagslegur og pólitískur stuðningur hefur verið veittur svo dæmi séu tekin. Það er gríðarlega mikilvægt að það verði ekki rof í stuðningi Vesturlanda við Úkraínu og sérstaklega brýnt að fundnar verði leiðir til þess að tryggja öfluga hernaðaraðstoð til Úkraínumanna. Þar eru meðal annars bundnar vonir við að sátt náist milli Repúblikana og Demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings um 60 milljarða dala hernaðaraðstoð við Úkraínu.
Langtímahugsun með margháttuðum stuðningi við Úkraínu skiptir máli. Sagan kennir okkur að ef einræðisherrar verða ekki stöðvaðir, halda þeir yfirgangi sínum ótrauðir áfram. Í amstri hversdagsins vill það kannski gleymast að sú þjóðfélagsgerð sem við og þjóðirnar í kringum okkur þekkjum er ekki sjálfsögð. Tugmilljónir manna létu lífið í seinni heimsstyrjöldinni í baráttunni fyrir því frelsi, lýðræði og mannréttindum sem við búum við í dag. Innrásin í Úkraínu er grimmileg áminning um að þessi gildi eiga undir högg að sækja í heiminum. Það er óheillaþróun sem sporna verður við.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. febrúar 2024.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.