Categories
Fréttir Greinar

Hannað hér – en sigrar heiminn

Deila grein

18/10/2023

Hannað hér – en sigrar heiminn

Hvern hefði órað fyrir því að íslenskir eikarvaðfuglar gætu flogið svo víða? Eða að íslenskt geimhagkerfi yrði til þess að tengja saman milljónir manna? Eða að íslenskt grjót yrði eftirsóknarvert í nytjahluti. Einhverja – en þó fæsta. Elja, áræði og stundum heppni hefur flutt íslenskt hugvit út fyrir landssteinana en aflið sem hefur skilað því hugviti lengst er góð hönnun. Íslensk hönnun er á heimsmælikvarða.

Sýnilegur árangur

Nú stendur yfir sýning á verkum 14 íslenskra hönnuða sem eiga það sammerkt að hafa hannað vörur og húsgögn sem eru þróaðar, framleiddar og seldar á Norðurlöndunum, Bretlandi og Bandaríkjunum. Með sýningunni er varpað ljósi á íslenska húsgagna- og vöruhönnun; fagi sem í alþjóðlegu samhengi er tiltölulega nýtt hér á landi en hefur sannarlega vaxtarmöguleika. Sýningin „Samband“ var upphaflega sett upp í tengslum við hönnunarvikuna 3 days of Design í Kaupmannahöfn í sumar. Það er vel við hæfi að sýningin ferðist líka hingað „heim“ og góðum árangri íslenskrar hönnunar sé miðlað til almennings.

Sóknarfæri

Fagstéttir tengdar hönnunar og arkitektúr fara stækkandi og íslenskum hönnunarfyrirtækjum fjölgar ört. Áhugi á menntun og starfsþróun á sviði hönnunar eykst og til verða spennandi og eftirsóknarverð störf. Við vitum að það eru gríðarleg sóknarfæri til verðmæta- og atvinnusköpunar í hönnunargeiranum, þar er mannauður og hugvit sem við getum virkjað til hagsbóta fyrir samfélagið allt, ekki síst með aukinni hönnunardrifinni nýsköpun og þverfaglegu samstarfi. Það er enda leiðarstef í nýrri hönnunarstefnu sem gefin var út fyrr á þessu ári. Hönnun er okkur mikilvægt breytingaafl og tæki til nýsköpunar sem nýta má á fjölbreyttari hátt en marga órar fyrir.

Gefum hönnun gaum

Íslenskt hugvit er hreyfiafl framfara og íslensk hönnun á sannarlega erindi við heiminn. Hún er allt í kringum okkur, ýmist áþreifanleg og ósýnileg. Og góð hönnun getur verið sannkallaður leikbreytir fyrir árangur og velgengni hugmynda. Um þessar mundir er verið að kynna tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands sem að þessu sinni verða afhentar í þremur flokkum – fyrir verk, stað og vöru. Fjölbreytni þeirra verkefna sem hljóta tilnefningar að þessu sinni fylla mig stolti og bjartsýni, yfir íslenskri hugkvæmni, sköpunarkrafti og fagmennsku. Ég hvet alla til þess að kynna sér tilnefningarnar og gróskuna í íslenskri hönnun.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Ófriðartímar í heiminum

Deila grein

12/10/2023

Ófriðartímar í heiminum

Tíðar frétt­ir af ófriði og átök­um um heim all­an hafa birst okk­ur á und­an­förn­um miss­er­um. Auk­inn ófriður í heim­in­um er óheillaþróun með til­heyr­andi slæm­um áhrif­um fyr­ir íbúa heims­ins. Bentu Sam­einuðu þjóðirn­ar meðal ann­ars á fyrr á ár­inu að fjöldi átaka hef­ur ekki verið meiri síðan á tím­um seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar en um 2 millj­arðar manna, fjórðung­ur mann­kyns­ins, búa á svæðum sem hafa orðið fyr­ir áhrif­um af átök­um. Það má segja að sjald­an hafi reynt jafn­mikið á þau helstu grund­vall­ar­gildi sem Sam­einuðu þjóðirn­ar voru reist­ar á; að viðhalda alþjóðleg­um friði og ör­yggi.

Far­ald­ur vald­arána í Afr­íku, þar sem vald­arán hafa verið fram­in í átta ríkj­um á þrem­ur árum og bæt­ist við ófrið sem þar var fyr­ir, deil­ur Aser­baís­j­an og Armen­íu, ólög­legt inn­rás­ar­stríð Rússa í Úkraínu og nú síðast; stríð Ísra­ela og Ham­as-liða í kjöl­far grimmi­legra árása Ham­as-liða í Ísra­el um liðna helgi.

Það sem þessi átök eiga sam­eig­in­legt er að ekki sér fyr­ir end­ann á þeim. Deil­an fyr­ir botni Miðjarðar­hafs er ára­tuga löng en full­yrða má að at­b­urðir síðustu helg­ar séu mesta stig­mögn­un henn­ar í ára­tugi. Hætta er á enn frek­ari stig­mögn­un átak­anna, en viðvör­un­ar­ljós í þá veru eru þegar far­in að blikka með skær­um á landa­mær­um Ísra­els og Líb­anon milli Ísra­els­hers og Hez­bollah-sam­tak­anna. Svæðinu öllu svip­ar til púðurtunnu. Það þarf fyr­ir alla muni að kom­ast hjá frek­ari stig­mögn­un á svæðinu, með til­heyr­andi óstöðug­leika fyr­ir alþjóðasam­fé­lagið.

Að sama skapi sér ekki enn fyr­ir end­ann á árás­ar­stríði Rússa í Úkraínu, sem haft hef­ur skelfi­leg áhrif á millj­ón­ir í Úkraínu og Rússlandi. Mikið mann­fall hef­ur verið hjá báðum lönd­um, á sama tíma og Rúss­ar eru langt frá því að ná upp­haf­leg­um hernaðarmark­miðum sín­um. Efna­hag­ur beggja landa hef­ur gjör­breyst og skaðast mikið með til­finn­an­leg­um áhrif­um á alþjóðahag­kerfið. Hækk­an­ir á orku- og mat­væla­verði í kjöl­far stríðsins smituðust í alþjóðleg­ar virðiskeðjur og urðu helsti or­saka­vald­ur­inn í hærri verðbólgu margra ríkja og eins og gjarn­an ger­ist eru það þeir sem minnst mega sín sem helst finna fyr­ir þessu. Það er mik­il­vægt að Vest­ur­lönd standi áfram af full­um þunga með Úkraínu og tryggi land­inu nauðsyn­lega aðstoð til þess að vernda frelsi og sjálf­stæði sitt.

Við erum lán­söm á Íslandi. Það að búa við frið og ör­yggi er því miður ekki sjálfsagt í heim­in­um eins og við þekkj­um hann líkt og millj­arðar jarðarbúa finna á eig­in skinni. Bless­un­ar­lega hafa heilla­drjúg­ar ákv­arðanir verið tekn­ar í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um Íslands í gegn­um tíðina sem við búum að í dag. Þá stefnu þarf að rækta áfram af alúð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Auðlegð þjóða snýst um opin alþjóðaviðskipti

Deila grein

03/10/2023

Auðlegð þjóða snýst um opin alþjóðaviðskipti

Þökk sé þeim mikla krafti sem verið hef­ur í alþjóðaviðskipt­um und­an­farna ára­tugi hafa lífs­kjör hundraða millj­óna manna batnað veru­lega með aukn­um kaup­mætti. Ísland hef­ur tekið virk­an þátt í þess­ari þróun og er eng­um blöðum um það að fletta að efna­hags­leg­ur vöxt­ur lands­ins hef­ur byggst á opn­um alþjóðaviðskipt­um – þar sem hugað hef­ur verið að greiðslu­jöfnuði þjóðarbús­ins.

Hag­saga Íslands er saga fram­fara en um leið og Ísland hóf aft­ur frjáls viðskipti og fór að nýta auðlind­ir lands­ins í eig­in þágu juk­ust hér lífs­gæði og vel­meg­un. Á þeirri veg­ferð hef­ur tækni­væðing sam­fé­lags­ins lagt sitt af mörk­um og skilað auk­inni skil­virkni og nýt­ingu fram­leiðsluþátta. Þannig störfuðu í upp­hafi 20. ald­ar­inn­ar um 80% af vinnu­afl­inu í land­búnaði og sjáv­ar­út­vegi en 100 árum síðar er sam­svar­andi hlut­fall um 10%. Á sama tíma hef­ur verðmæta­sköp­un auk­ist um­tals­vert. Ut­an­rík­is­viðskipti hafa á sama tíma orðið mun fjöl­breytt­ari en þegar um 90% gjald­eyristekna komu frá sjáv­ar­út­vegi. Meg­in­út­flutn­ings­stoðir hag­kerf­is­ins eru fjór­ar í dag; ferðaþjón­usta, sjáv­ar­út­veg­ur, iðnaður og skap­andi grein­ar.

Á und­an­förn­um árum hafa ýms­ar áskor­an­ir birst í heimi alþjóðaviðskipt­anna. Eft­ir að Brett­on-Woods-gjald­miðlaum­gjörðin leið end­an­lega und­ir lok á átt­unda ára­tugn­um tók við tíma­bil sem ein­kennd­ist af efna­hags­legri stöðnun og hárri verðbólgu. Réðust til að mynda Banda­rík­in og Bret­land í um­fangs­mikl­ar kerf­is­breyt­ing­ar til að snúa þeirri þróun við sem fólust meðal ann­ars í því að losa um eign­ar­hald rík­is­ins á ýms­um þátt­um hag­kerf­is­ins, skatt­ar voru lækkaðir, ein­blínt var á fram­boðshliðina og létt var á reglu­verki.

Eft­ir gríðarlegt póli­tískt umrót í Kína ára­tug­ina á und­an náðist samstaða um að hefja mikið efna­hags­legt um­bóta­skeið sem hóst með valda­töku Deng Xia­op­ing 1978. Í kjöl­far þess að Banda­rík­in og Bret­land fóru að styrkj­ast efna­hags­lega ásamt Kína fóru mörg önn­ur ríki að þeirra for­dæmi. Þegar nær er litið eru bestu dæm­in auk­in viðskipti inn­an EFTA, ESB og EES sem styrktu hag­kerfi inn­an þeirra vé­banda og ekki síst þeirra ríkja sem opnuðust eft­ir fall ráðstjórn­ar­ríkj­anna. Að sama skapi skipti sköp­um fyr­ir þróun heimsviðskipta inn­ganga Kína í Alþjóðaviðskipta­stofn­un­ina árið 2001. Í kjöl­farið urðu breyt­ing­ar á sam­keppn­is­hæfni og út­flutn­ingi Kín­verja með til­heyr­andi aukn­ingu í alþjóðaviðskipt­um.

Við höf­um séð viðskipta­hindr­an­ir og -höml­ur aukast tölu­vert und­an­far­inn ára­tug. Í því sam­hengi hef­ur Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn bent á að heims­fram­leiðsla geti dreg­ist sam­an um 7% en það jafn­gild­ir sam­an­lagðri stærð franska og þýska hag­kerf­is­ins! Þetta er þróun sem þjóðir heims verða að hafa aug­un á til að stuðla að áfram­hald­andi lífs­kjara­sókn í heim­in­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Verðbólga og neytendavernd

Deila grein

25/09/2023

Verðbólga og neytendavernd

Langa­tíma­af­leiðing­ar hárr­ar verðbólgu eru slæm­ar fyr­ir sam­fé­lög. Verðbólg­an hitt­ir einkum fyr­ir þá sem minnst eiga. Hóp­ur­inn sem verst fer út úr verðbólgu­hremm­ing­un­um er sá sem ný­verið kom inn á hús­næðismarkaðinn.

Í riti Seðlabank­ans Fjár­mála­stöðug­leiki 2023/​2, sem kom út í vik­unni, er staða heim­ila og fyr­ir­tækja rýnd í sam­hengi við aukið aðhald pen­inga­stefn­unn­ar að und­an­förnu. Verðbólga og hækk­andi vext­ir hafa þyngt greiðslu­byrði heim­ila og fyr­ir­tækja þó skuld­setn­ing sé lít­il í sögu­legu sam­hengi og eig­in­fjárstaðan góð. Þannig hef­ur hækk­andi vaxta­stig dregið úr um­svif­um á íbúðamarkaði en veru­lega hef­ur dregið úr nýj­um lán­veit­ing­um til heim­ila á ár­inu. Hrein ný íbúðalán fyrstu sjö mánuði árs­ins námu aðeins rúm­um 58 mö.kr., sam­an­borið við 111 ma.kr. á sama tíma­bili á síðasta ári.

Nokk­ur hluti úti­stand­andi óverðtryggðra íbúðalána sem veitt voru á ár­un­um 2020 og 2021 ber fasta vexti sem brátt losna og verða end­ur­skoðaðir með til­heyr­andi hækk­un á greiðslu­byrði lán­anna. Seðlabank­inn ger­ir ráð fyr­ir því að hald­ist vaxta­stig áfram hátt megi að öðru óbreyttu gera ráð fyr­ir að greiðslu­byrði heim­il­anna þyng­ist veru­lega. Hag­kerfið okk­ar má ekki verða eitt­hvert gæfu­hjól, þ.e. að gæf­an ákv­arðist ein­göngu út frá því hvenær komið er inn á hús­næðismarkaðinn. Öruggt þak yfir höfuðið er eitt stærsta vel­ferðar­mál sam­tím­ans.

Staða stóru viðskipta­bank­anna er sterk, eig­in­fjár­hlut­föll þeirra há og arðsemi af reglu­leg­um rekstri góð. Það er í takt við þróun und­an­far­inna ára, sem var meðal ann­ars rak­in í skýrslu starfs­hóps sem ég skipaði um gjald­töku og arðsemi ís­lensku bank­anna og kynnt var ný­lega. Það er eðli­legt að viðskipta­bank­arn­ir nýti þessa stöðu til þess að koma til móts við þau heim­ili sem glíma við og munu glíma við þyngri greiðslu­byrði en áður.

Ein af til­lög­um starfs­hóps um gjald­töku og arðsemi ís­lensku bank­anna var að efla þyrfti neyt­enda­vernd á fjár­mála­markaði. Ég hef þegar komið vinnu við hana í far­veg en haf­in er grein­ing­ar­vinna á veg­um míns ráðuneyt­is í tengsl­um við ákveðna þætti fast­eignalána til neyt­enda og neyt­endalána til að efla neyt­enda­vernd á sviði fjár­málaþjón­ustu. T.a.m. hvernig staðið er að upp­lýs­inga­gjöf og leiðbein­ing­um til neyt­enda í tengsl­um við lán­veit­ing­ar út frá mis­mun­andi lána­form­um, áhrif­um vaxta, verðbólgu o.s.frv. Skoðað verður eft­ir­lits­hlut­verk Neyt­enda­stofu og Seðlabanka Íslands gagn­vart lán­veit­end­um við fram­kvæmd lán­veit­ing­ar til neyt­enda og eft­ir að lán er veitt, þ.m.t. við skil­mála­breyt­ing­ar og van­skil. Þá verður einnig skoðað hvaða upp­lýs­ing­um og leiðbein­ing­um þarf að koma á fram­færi til neyt­enda um mis­mun­andi lána­form, áhrif vaxta, verðbólgu o.s.frv. og hvernig þeim verði miðlað með sem skil­virk­ust­um hætti.

Verðbólga er marg­slungið fyr­ir­bæri og bar­átt­an við hana krefst sam­taka­mátt­ar sam­fé­lags­ins. Þar skipt­ir stuðning­ur við heim­il­in miklu máli og öfl­ug neyt­enda­vakt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Tungumálið og tæknin

Deila grein

18/09/2023

Tungumálið og tæknin

Við sem samfélag verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja stöðu íslenskrar tungu inn í framtíðina, ekki aðeins til að forða því að hér verði rof í merkri menningarsögu þjóðarinnar heldur einnig til að koma í veg fyrir að hér alist upp kynslóðir sem eru ófærar um að tjá sig vel á eigin móðurmáli. Þróun sem þessi er lúmsk, hún á sér stað hægt og rólega með minnkandi meðvitund okkar – og áður en við vitum af gæti sú staða komið upp að þróuninni verði ekki aftur snúið.

Sókn er besta vörnin

Ég tel að breið pólitísk sátt sé um það verkefni að snúa vörn í sókn – fyrir íslenska tungu. Fjölbreytt starf hefur verið unnið á vegum ráðherranefndar um málefni íslenskunnar og ráðuneytanna í vetur og birtist afrakstur þeirrar vinnu í aðgerðaáætlun sem kynnt var í samráðsgátt í sumar. Fjölmargar gagnlegar umsagnir bárust sem bæta munu þær aðgerðir og ljóst af fjölda þeirra og inntaki að margir eru viljugir að leggjast á árarnar með okkur. Aðgerðaáætlunin verður lögð fram sem þingsályktunartillaga á Alþingi nú í haust.

Eitt stærsta verkefnið fram undan er að tryggja að íslenska verði gjaldgeng í hinum stafræna heimi og það verkefni er langhlaup. Öflug innviðauppbygging á sviði máltækni hefur átt sér stað á síðustu 5 árum, fyrir tilstilli fyrstu máltækniáætlunar íslenskra stjórnvalda, og hefur það framtak og sú sýn vakið töluverða athygli út fyrir landssteinana. Ég vil fullyrða að sú vinna sem þegar hefur verið unnin, af íslenskum háskólum og nýskapandi fyrirtækjum í máltækni sé á heimsmælikvarða.

Áfram verður fjárfest í tungu og tækni

Nú þegar fyrstu máltækniáætluninni lokið er unnið að því að móta framtíðarfyrirkomulag fyrir áframhaldandi þróun og viðhald íslenskrar máltækni, svo sú þekking, mannauður og tækni sem orðið hefur til megi nýtast okkur sem best til framtíðar. Lykilverkefni í því samhengi er að stuðla að hagnýtingu tækninnar og innleiðingu. Starfshópur með alls 15 sérfræðingum úr atvinnulífi, stjórnkerfi og menntakerfi hefur að undanförnu kortlagt áskoranir og tækifæri sem þessu tengjast og munu niðurstöður hans nýtast við tillögugerð sem skilað verður á næstu vikum.

Fjármögnun fyrir næstu máltækniáætlun er tryggð og er gert ráð fyrir 360 milljónum króna á ári í málaflokkinn árlega út árið 2026 auk 160 milljóna til viðbótar á ári í gegn um samkeppnissjóðinn Markáætlun í tungu og tækni. Í heildina er því um að ræða um tveggja milljarða króna fjárfestingu í máltækni á tímabilinu.

Íslensk máltækni eykur lífsgæði fólks

Notkun íslenskrar máltækni getur nýst á ótal sviðum og orðið ein lykilbreytan í því að efla íslenska tungu til framtíðar. Nú þegar er íslensk máltækni nýtt til að aðstoða fjölda fólks með sjónskerðingu í daglegu lífi, einfalda upplýsingagjöf fyrirtækja og stofnana og í tungumálakennslu fyrir nýja Íslendinga.

Möguleika tækninnar þarf að kynna og byggja brú á milli vísindasamfélagsins, nýsköpunargeirans og stjórnkerfisins svo við getum nýtt þessa nýju inniviði – þessa stafrænu vegagerð – til hagsbóta fyrir alla. Nú er mikilvægt að við tökum öll höndum saman við að vinna þessum málum brautargengi. Það á við um okkur í stjórnmálunum, fólk í atvinnulífinu sem og okkur öll.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Okkar kynslóð getur ekki skilað auðu

Deila grein

14/09/2023

Okkar kynslóð getur ekki skilað auðu

Snemma á síðustu öld gengu stjórn­mál­in út á hina póli­tísku bar­áttu við dönsk stjórn­völd, um full­veldið og sjálfs­ákvörðun­ar­rétt þjóðar­inn­ar. Um miðbik ald­ar­inn­ar gekk bar­átt­an út á efna­hags­legt sjálf­stæði og stefnu okk­ar í alþjóðasam­vinnu. Þjóðin fór í stríð við heimsveldi Breta til að öðlast for­ræði yfir sjáv­ar­auðlind­inni og bar­áttu­söngv­ar voru ort­ir á borð við texta Núma Þor­bergs­son­ar: „Þau eru svo eft­ir­sótt Íslands­mið, að ensk­ir þeir vilja oss berj­ast við.“ Sigr­ar unn­ust í þorska­stríðunum, sem var upp­hafið að efna­hags­legu sjálf­stæði þjóðar­inn­ar. Ut­an­rík­is­mál­in urðu einnig mikið bit­bein þjóðar­inn­ar á þess­um tíma, þar sem hart var deilt um hina vest­rænu sam­vinnu. Það var mik­il fram­sýni að taka af­ger­andi stöðu með lýðræðis­ríkj­um, ger­ast stofnaðili að Atlants­hafs­banda­lag­inu og leggja mikla rækt við opin ut­an­rík­is­viðskipti. Far­sæld Íslands er háð nánu sam­starfi við þjóðir heims­ins um versl­un og viðskipti.

Þessi póli­tíska bar­átta skilaði land­inu mikl­um auðæfum. Á skömm­um tíma var byggt upp öfl­ugt mennta- og heil­brigðis­kerfi og und­ir lok síðustu ald­ar voru þjóðar­tekj­ur á hvern ein­stak­ling meðal þeirra allra hæstu í ver­öld­inni. Forfeður og –mæður okk­ar börðust fyr­ir betri framtíð lands og þjóðar og við njót­um þess í dag. Þegar sam­fé­lag eins og okk­ar nær svona góðum lífs­kjör­um, þá breyt­ast bar­áttu­mál­in og snúa að því að verja góða stöðu en líka horfa til framtíðar um með hvaða hætti það er gert.

Ísland býr yfir mikl­um auðlind­um og ljóst er að skort­ur verður á slíku í fyr­ir­sjá­an­legri framtíð. Okk­ur ber því enn rík­ari skylda til að um­gang­ast auðlind­irn­ar af sér­stakri virðingu þar sem vall­ar­sýn­in er sjálf­bær nýt­ing.

Reglu­lega skjóta upp koll­in­um hug­mynd­ir um að ríkið losi um hluti í Lands­virkj­un með ein­um eða öðrum hætti. Í raun er það hvell­skýrt í mín­um huga og okk­ar í Fram­sókn: það verður ekki einn vatns­dropi einka­vædd­ur í Lands­virkj­un. Um slíka ráðstöf­un yrði aldrei sam­fé­lags­leg sátt á Íslandi, enda þjón­ar slíkt ekki hags­mun­um okk­ar til framtíðar.

Það er skoðun mín að al­mennt eigi ríkið ekki að standa í hinum og þess­um at­vinnu­rekstri, en það er eng­um vafa und­ir­orpið að op­in­bert eign­ar­hald á Lands­virkj­un hef­ur reynst þjóðinni far­sælt og er í raun fyr­ir­mynd­ar tákn­mynd þess blandaða markaðshag­kerf­is sem við búum í.

Ég er sann­færð um að eign­ar­hald þjóðar­inn­ar á Lands­virkj­un muni skipta enn meira máli í framtíðinni, þar sem ráðast þarf í frek­ari orku­öfl­un til að standa und­ir auk­inni lífs­gæðasókn í land­inu, enn traust­ari rík­is­fjár­mál­um og þeim grænu orku­skipt­um sem stuðla þarf að í þágu lofts­lags­mála. Þar get­um við Íslend­ing­ar orðið leiðandi á heimsvísu ef við höld­um rétt á spil­un­um, með Lands­virkj­un okk­ar allra í broddi fylk­ing­ar.

Við, okk­ar kyn­slóð, get­um ekki skilað auðu og látið sem raf­magnið komi til okk­ar úr engu og af sjálfu sér. Grænu orku­skipt­in þurfa þó að vera unn­in á grund­velli sam­vinn­unn­ar enda eru virkj­an­ir og orku­mann­virki vanda­sam­ar stór­fram­kvæmd­ir. Það er til mik­ils að vinna ef rétt er haldið á spil­um, í þágu ís­lenskra hags­muna.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Ekki einn dropi einka­væddur í Lands­virkjun

Deila grein

06/09/2023

Ekki einn dropi einka­væddur í Lands­virkjun

Allar götur frá stofnun árið 1965 hefur Landsvirkjun í almannaeigu verið burðarás í íslensku atvinnulífi og stuðlað að nýtingu orkuauðlinda landsins til að standa undir aukinni verðmætasköpun í íslensku efnahagslífi. Virkjanir og orkumannvirki eru vandasamar stórframkvæmdir sem fólk hefur sterkar skoðanir á og snerta samspil við náttúruvernd, byggðaþróun og atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Þrátt fyrir umdeilt eðli virkjanaframkvæmda, tel ég að það sé þó eitt sem mikil meirihluti þjóðarinnar geti verið sammála um: að Landsvirkjun verði áfram í fullri samfélagslegri eigu.

Reglulega skjóta upp kollinum hugmyndir um að ríkið losi um hluti í Landsvirkjun með einum eða öðrum hætti, nú síðast í þættinum Dagmál á vefnum MBL. Þar viðraði forstjóri Kauphallarinnar leiðir til þess að efla hlutabréfamarkaðinn á Íslandi, meðal annars með að ríkið seldi 20% hlut í Landsvirkjun sem væri til þess fallið að laða að erlenda fjárfesta bæði vegna stærðar félagsins en einnig vegna þeirrar sérstöðu sem fyrirtækið hefur í orkuöflun.

Ég get tekið undir með forstjóra Kauphallarinnar að það sé mikilvægt að efla hlutabréfamarkaðinn á Íslandi, dýpka hann, fjölga félögum og stuðla að skilvirkari verðmyndum íslenskra fyrirtækja. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með fjölgun félaga í Kauphöllinni undanfarin ár sem gefur fólki fleiri kosti á að fjárfesta í íslensku atvinnulífi með greiðum hætti.

Hins vegar er ég ósammála forstjóra Kaupahallarinnar að Landsvirkjun eigi að vera kostur í því að dýpka hlutabréfamarkaðinn til þess að laða að erlenda fjárfesta, meðal annars einmitt vegna þeirrar sérstöðu sem fyrirtækið hefur í orkuöflun hér á landi og því þjóðhagslega mikilvæga hlutverki sem fyrirtækið gegnir fyrir land og þjóð. Í raun er það hvellskýrt í mínum huga og okkar í Framsókn: það verður ekki einn vatnsdropi einkavæddur í Landsvirkjun. Um slíka ráðstöfun yrði aldrei samfélagsleg sátt á Íslandi, enda þjónar slíkt ekki hagsmunum okkar til framtíðar.

Það er skoðun mín að almennt eigi ríkið ekki að standa í hinum og þessum atvinnurekstri, en það er engum vafa undirorpið að opinbert eignarhald á Landsvirkjun hefur reynst þjóðinni farsælt og er í raun fyrirmyndar táknmynd þess blandaða markaðshagkerfis sem við búum í. Þess vegna á ekki að ráðast í breytingar eignarhaldinu, breytinganna vegna. Ég er sannfærð um að eignarhald þjóðarinnar á Landsvirkjun muni skipta enn meira máli í framtíðinni, þar sem ráðast þarf í frekari orkuöflun til að standa undir aukinni lífsgæðasókn í landinu, enn traustari ríkisfjármálum og þeim grænu orkuskiptum sem stuðla þarf að í þágu loftslagsmála. Þar getum við Íslendingar orðið leiðandi á heimsvísu ef við höldum rétt á spilunum, með Landsvirkjun okkar allra í broddi fylkingar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Það er borð fyrir báru hjá bönkunum

Deila grein

05/09/2023

Það er borð fyrir báru hjá bönkunum

Ný­verið var kynnt skýrsla um gjald­töku og arðsemi viðskipta­bank­anna sem er afrakst­ur vinnu starfs­hóps sem ég skipaði til þess að skoða stöðu neyt­enda og sam­keppn­isaðstæður á inn­lend­um banka­markaði þar sem m.a. yrði litið til gagn­sæi þókn­ana, vaxta­kostnaðar, gjald­töku og annarra kostnaðarliða sem neyt­end­ur bera. Þá vann hóp­ur­inn einnig grein­ingu á tekju­mynd­un stóru viðskipta­bank­anna þriggja ásamt því að gera sam­an­b­urð á starfs­hátt­um viðskipta­banka á Norður­lönd­un­um með til­liti til tekju­mynd­un­ar, einkum vaxtamun­ar.

Það eru áhuga­verðar niður­stöður sem koma fram í skýrsl­unni. Þar ber þó helst að nefna að kostnaðar­hlut­föll bank­anna hafa lækkað á síðustu árum og eru orðin sam­bæri­leg og hjá svipuðum bönk­um á hinum Norður­lönd­un­um. Hins veg­ar hef­ur auk­in hag­kvæmni í rekstri bank­anna og lækk­un sér­staka banka­skatts­ins ekki skilað sér í minni vaxtamun til neyt­enda, en hins veg­ar komið fram í bættri arðsemi bank­anna. Þá dró skýrsl­an einnig fram að sum þjón­ustu­gjöld eru ógagn­sæ og ekki alltaf ljóst hvað neyt­end­ur eru að greiða fyr­ir. Í því ljósi er meðal ann­ars vert að benda á gjald­töku ís­lensku bank­anna af kortaviðskipt­um í er­lendri mynt sem er dul­in en veg­ur engu að síður þungt í út­gjöld­um heim­il­anna fyr­ir fjár­málaþjón­ustu. Geng­isálag bank­anna á korta­færsl­ur sker sig tölu­vert úr ann­arri gjald­töku því að álagið kem­ur hvergi fram í verðskrám bank­anna og virðist vera breyti­legt milli gjald­miðla og frá ein­um tíma til ann­ars. Með ein­földuðum hætti má áætla að heim­il­in hafi greitt bönk­un­um um 6,6 ma.kr. í geng­isálag ofan á al­mennt gengi árið 2022 fyr­ir það að nota greiðslu­kort sín í er­lend­um færsl­um. Það sem kom mest á óvart var að korta­gengið er óhag­stæðara en svo­kallað seðlag­engi sem al­mennt er óhag­stæðasta gengið hjá bönk­um.

Tals­verð umræða hef­ur spunn­ist um niður­stöður skýrsl­unn­ar og hef­ur meðal ann­ars verið bent á það að vaxtamun­ur heim­ila hafi aldrei verið lægri. Á móti kem­ur hins veg­ar að vaxtamun­ur á fyr­ir­tæki er í há­marki og auðvitað er því velt yfir í verðlagið sem al­menn­ing­ur borg­ar.

Það skipt­ir miklu máli fyr­ir sam­fé­lagið að hér sé starf­rækt öfl­ugt banka­kerfi enda er hlut­verk banka veiga­mikið í að styðja við aukna verðmæta­sköp­un í land­inu. Á und­an­förn­um miss­er­um hef­ur mik­ill hagnaður bank­anna komið til umræðu og hef­ur vakið spurn­ing­ar um jafn­vægi í grein­inni og stöðu neyt­enda. Ég stend við það sem kem­ur fram í skýrsl­unni og tel að bank­arn­ir hafi rými til þess að gera bet­ur við neyt­end­ur, hvort sem það er fólk eða fyr­ir­tæki. Sú arðsemi sem birt­ist í upp­gjör­um bank­anna er mik­il og í ofanálag sýna töl­ur að vaxtamun­ur og arðsemi vaxi enn á þessu ári.

Stærsta hags­muna­mál sam­fé­lags­ins er að ná verðbólg­unni niður og þar verða all­ir að leggja sitt af mörk­um og er banka­kerfið ekki und­an­skilið því. Sú upp­byggi­lega umræða sem hef­ur átt sér stað í kjöl­far skýrsl­unn­ar er af hinu góða enda snerta neyt­enda­mál okk­ur öll. Sem ráðherra neyt­enda­mála mun ég láta upp­færa skýrsl­una ár­lega til að stuðla að upp­lýstri umræðu um þessi mál, sam­fé­lag­inu til hags­bóta.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Bankarnir geta gert betur fyrir fólkið í landinu

Deila grein

04/09/2023

Bankarnir geta gert betur fyrir fólkið í landinu

Í öllum þjóðfélögum er mikilvægt að allir standi neytendavaktina, ekki síst á verðbólgutímum. Nýverið var kynnt skýrsla um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna sem er afrakstur vinnu starfshóps sem ég skipaði til þess að skoða stöðu neytenda og samkeppnisaðstæður á innlendum bankamarkaði þar sem m.a. yrði litið til gagnsæi þóknana, vaxtakostnaðar, gjaldtöku og annarra kostnaðarliða sem neytendur bera. Þá fól ég hópnum að gera greiningu á tekjumyndun stóru viðskiptabankanna þriggja ásamt því að gera samanburð á starfsháttum viðskiptabanka á Norðurlöndunum með tilliti til tekjumyndunar, einkum vaxtamunar, og hvers kyns þóknana og gjaldtöku af almenningi, sem meðal annars horfði til Hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá árinu 2018. Hópnum var einnig falið að vinna tillögur.

Bankar eru samfélagslega mikilvægar stofnanir og sterkt bankakerfi er nauðsynlegt til að viðhalda öflugu hagkerfi og atvinnulífi. Það er mikilvægt að bankar njóti almenns trausts í samfélaginu svo þeir geti stuðlað að heilbrigðu viðskiptalífi og þar af leiðandi aukinni verðmætasköpun fyrir samfélagið. Á undanförnum misserum hefur mikill hagnaður bankanna komið til umræðu og hefur vakið hafa upp spurningar um jafnvægi í greininni og stöðu neytenda. Ég tel að þessi nýja skýrsla sé upplýsandi innlegg í þá umræðu.

Meiri vaxtamunur og aukin arðsemi

Það eru áhugaverðar niðurstöður sem koma fram í skýrslunni. Þar ber þó helst að nefna að kostnaðarhlutföll bankanna hafa lækkað á síðustu árum og eru orðin sambærileg og hjá svipuðum bönkum á Norðurlöndunum. Hins vegar hefur aukin hagkvæmni í rekstri bankanna og lækkun sérstaka bankaskattsins ekki skilað sér í minni vaxtamun til neytenda, en hins vegar komið fram í bættri arðsemi bankanna. Þannig er vaxtamunur heildareigna, þ.e. hlutfall hreinna vaxtatekna af heildareignum banka, töluvert meiri en á Norðurlöndunum þrátt fyrir svipuð kostnaðarhlutföll og svipaða arðsemi síðastliðin tvö ár. Árin 2021 og 2022 náðu bankarnir arðsemismarkmiði sínu eftir að hafa verið undir því í mörg ár þar á undan og var hún svipuð og hjá norrænum bönkum af samfélagslegri stærð.

47 milljarðar í erlendra greiðslumiðlun

Kostnaður þjóðfélagsins vegna greiðslumiðlunar, sem má líkja við pípulagnir fyrir greiðslur, er mun hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Sökum mikillar notkunar alþjóðlegra greiðslukorta hér á landi er kostnaður við greiðslumiðlun sem hlutfall af landsframleiðslu mun hærri hér en á hinum Norðurlöndunum. Þessi aukni kostnaður við greiðslumiðlun skilar sér í hærra verði á vöru og þjónustu til íslenskra neytenda, sem bera á endanum kostnaðinn. Seðlabankinn áætlar að kostnaður samfélagsins af notkun greiðslumiðla hér á landi á árinu 2021 hafi verið um 47 ma.kr. eða um 1,43% af vergri landsframleiðslu. Þar af var kostnaður vegna greiðslukorta ríflega 20 ma.kr. Greiðslumiðlunin er að miklu leyti á ábyrgð færsluhirða en ekki bankanna, og stærstu færsluhirðar landsins eru í erlendri eigu.

Þörf á meira gegnsæi í verðlagningu

Það kemur fram að útgjöld vegna fjármálaþjónustu (að vaxtagjöldum undanskildum) vegur ekki þungt í heildarútgjöldum heimilanna skv. útgjaldarannsókn Hagstofunnar en þau hafa lækkað að raunvirði. Er áætlað að þau séu áætluð 0,4% af heildarneysluútgjöldum meðalheimilis á Íslandi. Hins vegar eru sum þjónustugjöld ógagnsæ og ekki alltaf ljóst hvað neytendur eru að greiða fyrir. Í því ljósi er meðal annars vert að benda á gjaldtöku íslensku bankanna af kortaviðskiptum í erlendri mynt sem er dulin en vegur engu að síður þungt í útgjöldum heimilanna fyrir fjármálaþjónustu. Gengisálag bankanna á kortafærslur sker sig töluvert úr annarri gjaldtöku því að álagið kemur hvergi fram í verðskrám bankanna og virðist vera breytilegt milli gjaldmiðla og frá einum tíma til annars. Hjá dæmigerðu ungu pari getur kostnaður við gengisálag bankanna numið um 30% af heildarkostnaði við bankaþjónustu á ári. Með einfölduðum hætti má áætla að heimilin hafi greitt bönkunum um 6,6 ma.kr. í gengisálag ofan á almennt gengi árið 2022 fyrir það að nota greiðslukort sín í erlendum færslum.

Stóru málin og næstu skref

Eins og fram kom að ofan hefur vaxtamunur verið að aukast. Þegar uppgjör bankanna það sem af eru ári eru skoðuð er hann enn að aukast. Ég tel eðlilegt að bankarnir minnki vaxtamuninn og skipti þannig ávinningum með neytendum á sanngjarnari hátt. Sér í lagi þegar að vaxtamunurinn er enn þá að aukast en í árshlutauppgjörum fyrir árið 2023 má sjá hann aukast enn frekar. Það á ekki að vera náttúrulögmál að það halli á neytendur með þessum hætti. Þá er jafnframt mikilvægt að bankarnir bæti gagnsæi í gjaldtöku sinni hjá viðskiptavinum.

Kostnaður við erlendra greiðslumiðlun er of hár, en það er einnig þjóðaröryggismál að Ísland búi að innlendri greiðslumiðlun líkt og önnur ríki. Hefur forsætisráðherra meðal annars boðað frumvarp um innlenda greiðslumiðlun sem myndi auka efnahagslegt þjóðaröryggi Íslands. Jákvæð hliðaráhrif slíkra breytinga væri umtalsverður sparnaður fyrir þjóðfélagið, sem ætti á skila sér í lægra vöruverði til neytenda.

Aukið aðhald í þágu neytenda

Það er samfélagslegur ávinningur fólginn í öflugri neytendavakt en sú vakt þarf að vera samvinnuverkefni okkar allra. Þessi skýrsla er liður í því, en sem ráðherra neytendamála hyggst ég láta uppfæra hana árlega í þágu heimila og fyrirtækja í landinu og stuðla þannig að auknu aðhaldi og umræðu um þau kjör sem bjóðast hjá viðskiptabönkunum.

Ég vil þakka starfshópnum fyrir vel unnin störf en hann skipuðu fulltrúar menningar- og viðskiptaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, Neytendasamtakanna, Hagsmunasamtaka heimilanna, Alþýðusambands Íslands, Samstaka fjármálafyrirtækja og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Nánari niðurstöður og tillögur er að finna í skýrslunni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Verðbólgan knúin áfram af innlendum verðhækkunum

Deila grein

28/08/2023

Verðbólgan knúin áfram af innlendum verðhækkunum

Meg­in­vext­ir Seðlabanka Íslands eru 9,25% eft­ir síðustu 50 punkta hækk­un. Verðbólga hef­ur farið minnk­andi og mæld­ist 7,6% í júlí. Dregið hef­ur úr alþjóðleg­um verðhækk­un­um ásamt því að gengi krón­unn­ar hef­ur styrkst um­fram spár. Á móti veg­ur að inn­lend­ar verðhækk­an­ir hafa reynst þrálát­ar og eru enn á breiðum grunni.

Síðustu daga hafa sum­ir beint kast­ljós­inu beinst að ferðaþjón­ust­unni. Eft­ir því sem best verður séð af yf­ir­lýs­ing­um Seðlabanka­stjóra og af lestri Pen­inga­mála Seðlabank­ans virðist vera um mis­skiln­ing að ræða hvað snert­ir síðustu vaxta­hækk­un, þar sem ekk­ert kem­ur þar fram sem bend­ir til að ferðaþjón­ust­an sé um­fram aðrar at­vinnu­grein­ar að valda verðbólguþrýst­ingi, enda árar vel í flest­um at­vinnu­grein­um þjóðfé­lags­ins. Í nýj­ustu Pen­inga­mál­um er minnst á ferðaþjón­ust­una í sam­hengi við styrk­ingu krón­unn­ar, sem hef­ur hækkað um 6,6% það sem af er ári og er gengið nú að meðaltali um 10% hærra en það var lægst í lok janú­ar. Frek­ari staðfest­ingu á fram­lagi ferðaþjón­ust­unn­ar til styrk­ing­ar á krón­unni var að finna í töl­um Hag­stof­unn­ar í vik­unni þar sem fram kem­ur að verðmæti þjón­ustu­út­flutn­ings hef­ur styrkst og nær að greiða mik­inn halla á vöru­skipt­um við út­lönd og er­lend­ar fjár­fest­ing­ar líf­eyr­is­sjóðanna. Færa má sterk rök fyr­ir því að öfl­ug­ur viðsnún­ing­ur ferðaþjón­ust­unn­ar hafi stutt við gengi krón­unn­ar á síðustu mánuðum og í raun frá því að grein­in hóf að rétta úr kútn­um snemma á ár­inu 2022.

Það er ekki þörf á að dvelja lengi við áhrif geng­is­ins á verðlag á Íslandi í gegn­um tíðina, og eru áhrif­in sterk­ari hér á landi en í öðrum lönd­um, enda kem­ur fram í Pen­inga­mál­um að betri skamm­tíma­horf­ur verðbólgu­vænt­inga end­ur­spegli einkum styrk­ingu krón­unn­ar um­fram spár. Í Pen­inga­mál­um er á öðrum stað minnst á ferðaþjón­ust­una þar sem kem­ur fram að horf­ur í ferðaþjón­ustu séu áþekk­ar og í spá bank­ans í maí. Þar seg­ir einnig að horf­ur fyr­ir grein­ina séu svipaðar fyr­ir næsta ár þar sem gert er ráð fyr­ir hóf­legri fjölg­un ferðamanna milli ára. Það virðist því ekki vera nein breyt­ing á áhrif­um ferðaþjón­ust­unn­ar til hækk­un­ar á spá bank­ans. Það má halda því til haga að gert er ráð fyr­ir færri ferðamönn­um í ár en á metár­inu 2018, en það ár var verðbólg­an ekki vanda­mál.

Það eru hins veg­ar aðrir og aug­ljós­ari kraft­ar sem hafa áhrif á verðlag. Verð á mat­vöru og þjón­ustu hef­ur hækkað áfram. Verð á al­mennri þjón­ustu hef­ur hækkað um 6,8% sl. tólf mánuði og verð á inn­lendri vöru um 11,5%. Þá hef­ur dagvara hækkað um 12,2% frá sama tíma í fyrra. Enn er því til staðar nokk­ur verðbólguþrýst­ing­ur þótt dregið hafi lít­il­lega úr hon­um í júlí, en rúm­lega helm­ing­ur af neyslukörf­unni hef­ur hækkað um 5-10% frá fyrra ári og um fjórðung­ur hef­ur hækkað um meira en 10%. Menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið hyggst taka upp sam­tal við lyk­ilaðila á dag­vörumarkaðnum til að skilja bet­ur þessa hækk­un, sér í lagi vegna þess að krón­an hef­ur verið að styrkj­ast og alþjóðleg verðbólga í rén­un.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. ágúst 2023.