Á undanförnum árum hafa heimsbúskapurinn og alþjóðaviðskiptin þurft að takast á við áskoranir af risavöxnum toga. Heimsfaraldurinn sneri daglegu lífi fólks um allan heim á hvolf eins og við öll munum eftir. Neysluvenjur fólks breyttust og stjórnvöld víða um heim kynntu umfangsmikla efnahagspakka til stuðnings fólki og fyrirtækjum ásamt því að seðlabankar fjölmargra ríkja lækkuðu stýrivexti til að örva hagkerfi. Aðfangakeðjur víða um heim fóru úr skorðum með tilheyrandi hökti í alþjóðaviðskiptum og áhrifum á markaði. Í blálok faraldursins tók svo við innrás Rússlands í Úkraínu. Innrásin markaði þáttaskil í öryggis- og varnarmálum Evrópu og varpaði skýru ljósi á veigamikla veikleika hjá ríkjum Evrópu hvað viðkom orkuöryggi, enda voru mörg þeirra háð innflutningi á rússnesku gasi og olíu. Orkuverð tók að snarhækka á meginlandi Evrópu sem og verð á fjölmörgum vöruflokkum, til að mynda matvælum. Þar hafði áhrif að Úkraína er stór framleiðandi korns, en landið hefur oft verið kallað brauðkarfa Evrópu. Þá hafa auknar hindranir í alþjóðaviðskiptum, til að mynda viðskiptastríðið milli Bandaríkjanna og Kína, bætt gráu ofan á svart.
Verðbólguþróunin á heimsvísu fór ekki varhluta af fyrrnefndri þróun eins og við þekkjum einnig hér á landi. Á árinu 2022 tók verðbólga seinna við sér á Íslandi en í mörgum samanburðarríkjum. Á tímabili mældist samræmd verðbólga á Íslandi sú næstlægsta í Evrópu, 6,4% í nóvember 2022, en var þá 11,5% hjá ríkjum Evrópusambandsins. Verðbólgan á Íslandi hefur reynst þrálátari og mælist nú 7,9%, hagvöxtur hér er kröftugri en víðast hvar. Efnahagsbatinn á heimsvísu er hins vegar hægfara og ójafn eftir svæðum. Þó að verðbólga á heimsvísu sé víða í rénun er of snemmt að fagna sigri. Verðbólgan í Bandaríkjunum er enn býsna treg enda gangur efnahagslífsins öflugur. Betur hefur gengið með verðbólguna víða í Evrópu, en þar eru önnur vandamál, t.d. mælist nú efnahagssamdráttur í Þýskalandi.
Íslensk stjórnvöld vinna að því hörðum höndum að lækka skuldir ríkissjóðs og ná heildarjöfnuði. Kjör á ríkisskuldum á heimsvísu hafa versnað verulega. Sérstaka athygli vekur hvað kjör bandarískra ríkisskulda hafa versnað og er krafan um 4,5% vextir til 10 ára. Meginástæðan fyrir þessari þróun er að fjárlagahallinn er mikill auk þess sem skuldastaðan heldur áfram að versna. Ásamt því er rekin aðhaldssöm peningastefna, þar sem vextir hafa hækkað mikið og bandaríski seðlabankinn hefur snúið við hinni umfangsmiklu magnbundnu íhlutun og hafið sölu á ríkisskuldabréfum. Margir telja að vegna þessa nái markaðurinn ekki að berjast gegn þessu mikla framboði og því hafi kjörin versnað mikið. Fyrir Ísland skiptir mestu í þessu kvika efnahagsumhverfi að halda vöku okkar og að hagstjórnin sé það styrk að verðbólgan lækki og vaxtakjörin batni hratt í kjölfarið.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. nóvember 2023.
Á undanförnum árum hefur margt áunnist til að styrkja verulega umgjörð tónlistarlífsins í landinu. Tónlist er ekki einungis veglegur hluti af menningu landsins, hún er einnig atvinnuskapandi og mikilvæg útflutningsgrein þar sem tónlistarverkefni geta skapað mörg afleidd störf. Ný tónlistarstefna var samþykkt á síðasta þingi með það að markmiði að styðja við tónlist sem listgrein, tónlistarfólk og aðra sem starfa við tónlist. Tónlistarlífið hérlendis er undirbyggt af metnaðarfullu tónlistarnámi um allt land, samstarfi og þori til þess að fara ótroðnar slóðir. Þessum mikla krafti finnur maður sérstaklega fyrir í grasrót tónlistarlífsins, sem er óþrjótandi uppspretta frumsköpunar í tónlist. Hluti af umgjörð menningarmála í landinu snýr að aðstöðu til tónlistariðkunar og aðgengi að slíkri aðstöðu. Eitt markmiða í tónlistarstefnunni er að húsnæði til tónlistariðkunar verði greint og kortlagt, t.d. hvaða húsnæði í eigu hins opinbera, t.d. menningarhús eða félagsheimili um allt land, væri hægt að nýta undir sköpun, hljóðritun eða flutning tónlistar.
Eitt okkar helsta tónlistarhús, Harpa, starfar í samræmi við eigendastefnu ríkisins og Reykjavíkurborgar, þar sem m.a. er lögð áhersla á menningarlegt hlutverk Hörpu og það markmið eigenda að með rekstri hennar sé stuðlað að eflingu íslensks tónlistar- og menningarlífs. Í samræmi við eigendastefnuna hefur Harpa mótað sér dagskrárstefnu sem miðar að því að auka fjölbreytni tónleikahalds, styðja við nýsköpun í tónlist og auðvelda aðgengi ungs tónlistarfólks úr grasrótinni, þvert á tónlistarstefnur, að Hörpu sem tónlistarhúsi allra landsmanna.
Liður í þessu er t.a.m. samstarf Hörpu, Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur og Rásar 2 um sérstaka tónleikaröð tileinkaða grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á stefnur, sem kallast Upprásin og fer fram í Kaldalóni. Auglýst var eftir umsóknum um þátttöku í tónleikaröðinni sl. vor og bárust alls 134 umsóknir. Fjöldi og gæði umsókna fór fram úr vonum aðstandenda verkefnisins. Úr varð að 88 ungir einstaklingar munu koma fram á tónleikaröðinni, á mánaðarlegum tónleikum fram á vor þar sem fluttar verða fjölbreyttar tegundir tónlistar.
Harpa leggur til salinn Kaldalón auk tækja og vinnu í tengslum við tónleikana. Tónlistarborgin tryggir að flytjendur fái greitt fyrir að koma fram. Rás 2 annast kynningarstarf fyrir tónlistarfólkið og tekur tónleikana upp. Miðaverði er stillt í hóf en tónleikagestir eru hvattir til að styrkja tónlistarfólkið með frjálsu viðbótarframlagi. Það skiptir ungt tónlistarfólk máli að fá tækifæri líkt og þetta til þess að koma tónlist sinni á framfæri í glæsilegri aðstöðu líkt og Harpa hefur upp á að bjóða. Hér er aðeins um eina góða dæmisögu að ræða af mörgum um þá miklu gerjun sem á sér stað í menningarlífi þjóðarinnar, en þær eru mýmargar sem er fagnaðarefni fyrir íslenskt samfélag.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. október 2023.
Nóbelsverðlaunin í hagfræði 2023 snúast um launaþróun kynjanna
Claudia Goldin hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði í ár fyrir að efla skilning okkar á stöðu kvenna á vinnumarkaði. Hagrannsóknir Goldin ná yfir síðustu 200 ár og fjalla um stöðu kvenna á bandarískum vinnumarkaði og vegferðina að auknu launajafnrétti. Rannsóknir hennar hafa hrakið hefðbundnar ályktanir um hvaða breytur leiði til aukins jafnréttis. Fyrir rannsóknir Goldin var talið að aukinn hagvöxtur leiddi til aukins jafnréttis á vinnumarkaðinum. Í rannsóknum sem birtar voru árið 1990 sýndi Goldin fram á að það var ekki fyrr en á tuttugustu öldinni, þegar störfum í þjónustugeiranum fjölgaði og menntun á framhaldsskólastigi þróaðist, að launamunur kynjanna fór að minnka.
Væntingar um barneignir skýra launamun
Á tuttugustu öld jókst menntunarstig kvenna stöðugt og hafði áhrif á að minnka launamuninn fram af. Önnur stór skýribreyta er aðgangur kvenna að getnaðarvarnarpillunni árið 1961 í Bandaríkjunum, þar sem hún gerði konum kleift að skipuleggja náms- og starfsferilinn. Hefðbundin söguskýring á launamun kynjanna var sú að konur og karlar hefðu á unga aldri valið sér menntun, sem leiddi síðan til ákveðinna starfa sem væru misvel launuð. Goldin komst hins vegar að því að sá launamunur sem enn er við lýði skýrist að stærstum hluta af áhrifum barneigna. Hagrannsóknir Goldin sýna fram á að launamunur kynjanna minnkaði í nokkrum skrefum. Laun kvenna hækkuðu í hlutfalli við laun karla á árunum 1820-50, og svo aftur 1890-1930, áður en þau hækkuðu á árunum 1980-2005 (sjá mynd 1).
Mestu breytingarnar eiga sér stað á áttunda áratug síðustu aldar. Kynbundinn launamunur hefur haldist nokkuð stöðugur í Bandaríkjunum undanfarin 20 ár. Árið 2022 voru meðallaun kvenna 82% af því sem karlar höfðu að meðaltali. Meginútskýring á því að launamunurinn minnkar felst í væntingum, þ.e. ef ung kona stýrir því hvenær og hvort hún eignast barn og hefur meiri væntingar um að konur geti unnið fjölbreytt störf, þá fjárfestir hún meira í framtíð sinni. Á árunum 1967-1979 jókst hlutfall 20 og 21 árs kvenna sem væntu þess að vera í vinnu 35 ára úr 35% í 80%! Einn annar mikilvægur áhrifavaldur þessara umbreytinga, sem fylgdu pillunni, var að konur gátu frestað giftingu sem olli því samkvæmt Goldin að þær tóku háskólanám fastari tökum, gátu hugsað sér sjálfstæða framtíð og mótað sjálfsmynd sína fyrir hjónaband og fjölskyldu.
Leiðréttur launamunur karla og kvenna á Íslandi er 4,3%
Samkvæmt rannsókn Hagstofu Íslands var óleiðréttur launamunur karla og kvenna 9,1% árið 2022 og dróst saman frá fyrra ári úr 10,2%. Óleiðréttur launamunur kynjanna á Íslandi hefur minnkað hægt og bítandi síðustu áratugi. Launamunur á Íslandi eykst eftir aldri og er munurinn 0,7% á meðal 24 ára og yngri og 16,3% á meðal 55-64 ára. Þessi niðurstaða er í samræmi við rannsókn sem Hagstofan gerði árið 2021 en þar kom fram að launamunur karla og kvenna dróst saman frá 2008 til 2020. Kynbundin skipting vinnumarkaðar í störf og atvinnugreinar skýrir að miklu leyti þann launamun sem er til staðar en áhrif menntunarstigs og lýðfræðilegra þátta á launamun hafa minnkað, einkum seinni árin (sjá mynd 2).
Það er afar jákvætt að launamunur kynjanna haldi áfram að minnka enda er það hagur allra. Ísland er metið vera sá staður í veröldinni þar sem best er að vera útivinnandi kona, samkvæmt tímaritinu Economist og glerþaksvísitölunni.
Enn í dag hafa barneignir og hjúskapur mikil áhrif á launamun í Bandaríkjunum
Launamunur kynjanna út frá framhaldsnámi í Bandaríkjunum hefur ekki breyst mikið frá árinu 2005 og Goldin hefur verið að leita skýringa. Í bók sem hún gaf út árið 2021 kemur hún með þá kenningu að störfum sem fela í sér mikla yfirvinnu og óvissu sé um að kenna. Fram kemur í langtímagögnum þar sem fylgst er með lífi og tekjum einstaklinga í Bandaríkjunum að laun karla og kvenna eru áberandi svipuð strax eftir framhaldsnám eða háskólanám. Á fyrstu árum starfsferilsins er launamunur lítill hjá nýútskrifuðum háskólanemum og skýrist hann að mestu leyti af ólíku náms- og starfsvali karla og kvenna. Karlar og konur byrja nánast á sama tekjugrunni og hafa mjög svipuð tækifæri. Það er ekki fyrr en lengra er liðið á ævina, um tíu árum eftir að háskólanámi lýkur, að mikill launamunur kemur í ljós hjá körlum og konum, sérstaklega þeim konum sem eiga tvö börn.
Barneignir hafa ekki mikil áhrif á launamun á Íslandi en yfirvinna skýrir muninn
Þegar svokallaður leiðréttur launamunur er skoðaður var hann 4,3% á Íslandi árið 2019. Þetta þýðir að ef karlar og konur ynnu að jafnaði sömu störf, í sömu atvinnugreinum, þá stæði eftir að konur fengju að meðaltali um 4,3% lægri laun en karlar vegna kyns síns. Hins vegar þegar aðeins er leiðrétt fyrir lýðfræðilegum breytum, þ.e. aldri, hjúskaparstöðu og fjölda barna, var leiðréttur launamunur 10,9% árið 2019. Það gefur til kynna að breyturnar í líkaninu skýri einungis að litlu leyti óleiðrétta launamuninn. Niðurstöður gefa einnig til kynna að þessar breytur hafi marktækt ólík áhrif á karla og konur. Hjúskaparstaða á Íslandi hefur til að mynda engin áhrif á laun kvenna en það að einstaklingur sé í sambúð hefur jákvæð áhrif á laun karla. Slík áhrif eru þekkt í fjölmörgum löndum en nýleg rannsókn frá Bandaríkjunum sýnir að áhrifin eru einkum vegna þess að karlmenn með hærri laun eru líklegri til þess að kvænast, þ.e. launin hafa áhrif á hjúskaparstöðu en ekki öfugt. Fjöldi barna undir tveggja ára aldri hefur samkvæmt rannsókninni ómarktæk áhrif á laun kvenna á Íslandi og lítil áhrif (til lækkunar) á laun karla.
Hagrannsóknir Goldin eru mjög áhugaverðar. Áður en Goldin hóf rannsóknir sínar töldu margir fræðimenn að spurningum um launamun kynjanna í sögulegu samhengi væri ósvarað vegna skorts á gögnum. Segja má að sú leið sem Ísland hefur farið í jafnréttismálum sanni hagfræðikenningar Goldin, þ.e. að með öflugri uppbyggingu leikskólastigsins ásamt 12 mánaða fæðingarorlofi hafi launamunurinn minnkað markvisst. Framsækin kvennabarátta í gegnum tíðina skiptir einnig sköpum. Þrátt fyrir það er launamunur og hann eykst eftir aldri. Þessu þarf að breyta ásamt því að efla leikskólastigið og starfsumhverfi kennara!
Ég óska samfélaginu til hamingju með daginn og hvet okkur öll til áframhaldandi góðra verka í þágu jafnréttismála.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2023.
Kastljós helstu stjórnmálaleiðtoga heimsins heldur áfram að beinast að ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs, sem stigmagnaðist mjög hratt í kjölfar grimmilegra árása Hamas-hryðjuverkasamtakanna í Ísrael. Svæðið er því miður aftur orðið púðurtunna þar sem hætta er á enn frekari stigmögnun og opnun nýrra víglína með slæmum afleiðingum. Vísbendingar í þessa veru birtast okkur meðal annars í átökum Ísraelshers og Hezbollah-samtakanna í Líbanon sem hafa skipst á skotum yfir landamærin í norðurhluta Ísraels. Augu margra beinast að Íran sem hefur um árabil stutt við Hezbollah- og Hamas-samstökin, ásamt öðrum vígahópum í Mið-Austurlöndum, með vopnum, þjálfun og hernaðarupplýsingum.
Joe Biden Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóð sína á fimmtudagskvöld í framhaldi af heimsókn sinni til Mið-Austurlanda í vikunni. Fór ávarpið fram úr forsetaskrifstofunni sjálfri sem þykir til marks um alvarleika málsins, en þetta var aðeins annað ávarp forsetans til þjóðar sinnar með þeim hætti. Biden fór meðal annars yfir þá varhugaverðu stöðu sem er uppi í heiminum, þar sem stríð geisar í Evrópu vegna ólöglegrar innrásar Rússa í Úkraínu og hins vegar stríðið milli Ísraels og Hamas.
Þetta eru sannarlega viðsjárverðir tímar sem við lifum á og ekki síst í ljósi þess að enn skýrari skil í alþjóðastjórnmálunum virðast vera að teiknast upp, þar sem til að mynda hernaðarleg samvinna Rússlands, Írans og Norður-Kóreu hefur aukist til muna. Í því samhengi má nefna að Norður-Kórea hefur ákveðið að sjá Rússum fyrir vopnum og skotfærum fyrir stríðsrekstur þeirra í Úkraínu, líkt og Íranir hafa gert um talsvert skeið. Því hefur meðal annars verið velt upp hvort með þýðari samskiptum sínum við Norður-Kóreu séu Rússar að búa sér til sterkari stöðu á Kóreuskaganum, þar sem ástandið er nú þegar viðkvæmt milli Norður- og Suður-Kóreu.
Á hinn bóginn urðu vatnaskil í vestrænni samvinnu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og hefur hernaðarsamvinna Vesturlanda stóraukist í kjölfarið. Blað var brotið í sögu Evrópusambandsins þegar það stóð í fyrsta sinn fyrir beinum hernaðarstuðningi við Úkraínu og öflug ríki innan sambandsins, líkt og Þýskaland, hafa stóraukið framlög sín til varnarmála.
Ísland er lánsamt ríki að mörgu leyti. Nýverið var tilkynnt að Ísland væri öruggasta ríki heims samkvæmt Alþjóðlegu friðarvísitölunni (e. Global Peace Index), en það er 15. skiptið í röð sem það gerist. Það að búa við frið og öryggi er því miður ekki sjálfsagt í heiminum eins og nútíminn ber glögg merki um. Ísland hefur tekið réttar ákvarðanir í gegnum tíðina, til dæmis með stofnaðild sinni að Atlantshafsbandalaginu 1949 og samningi um tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin 1951. Við sem þjóð verðum að halda áfram að vera á tánum, á sama tíma og við stöndum með almennum borgurum, sem því miður fara alltaf verst út úr stríðsátökum.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. október 2023.
Síðasta vika á fjármálamörkuðum hefur einkennst af flótta fjárfesta úr áhættu í öryggi, þ.e. ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf hefur lækkað meðan hlutabréfin hafa fallið í verði. Meginorsökin er að miklar væringar eru í alþjóðastjórnmálunum. Stríðin í Mið-Austurlöndum og Úkraínu hafa mest um þessa þróun að segja.
Horfurnar og hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Efnahagsbatinn á heimsvísu er hægfara og ójafn eftir svæðum. Hagvöxtur er minni hjá nýmarkaðs- og þróunarríkjum. Ýmsir þættir vega þungt, t.a.m. hafa vextir hjá ýmsum nýmarkaðsríkjum verið hærri vegna aukinnar verðbólgu, sem hefur dregið úr hagvexti. Sú verðbólga sem heimsbúskapurinn hefur verið að kljást við hefur verið drifin áfram af mörgum þáttum, en helst ber að nefna röskun á aðfangakeðjunni, umfangsmiklar stuðningsaðgerðar opinberra aðila til að styðja við eftirspurn vegna covid-19, stríðið í Úkraínu, vaxandi spennu í samskiptum Bandaríkjanna og Kína ásamt aukinni verndarstefnu ríkja um heim allan. Verðbólga á heimsvísu er víða í rénun en það er of snemmt að fagna sigri. Verðbólgan í Bandaríkjunum er enn býsna treg enda öflugur gangur efnahagslífsins, en betur hefur gengið með verðbólguna víða í Evrópu, en þar eru önnur vandamál, t.d. mælist efnahagssamdráttur í Þýskalandi. Í efnahagsspá AGS sem birtist í síðustu viku er gert ráð fyrir að hagvöxtur á heimsvísu lækki úr 3,5% árið 2022, í 3% bæði árið 2023 og árið 2024. Hagspáin er undir sögulegum vexti á heimsvísu, sem var að meðaltali 3,8% fyrstu tvo áratugi aldarinnar. Hækkun stýrivaxta seðlabanka sem beinist gegn verðbólgu heldur áfram að hægja á efnahagsumsvifum. Gert er ráð fyrir að verðbólga á heimsvísu lækki úr 8,7% árið 2022 í 6,9% árið 2023 og 5,8% árið 2024. Áætlað er að undirliggjandi (kjarna)verðbólga lækki meira og smám saman og hafa spár um verðbólgu árið 2024 verið endurskoðaðar til hækkunar. Gert er ráð fyrir að verðbólga á heimsvísu nái jafnvægi árið 2025. Spár fyrir árið 2023 og 2024 eru hins vegar endurskoðaðar lítillega til lækkunar og ekki er gert ráð fyrir að verðbólga nái markmiði fyrr en árið 2025 í flestum tilvikum.
Áframhaldandi órói í heimshagkerfinu
Áhættan í alþjóðahagkerfinu heldur áfram að aukast og endurspeglast það á fjármálamörkuðum. Greina má þessa áhættuþætti í fimm þætti. Í fyrsta lagi hafa stríðin í Úkraínu og Mið-Austurlöndum verulega neikvæð áhrif á líf fólksins á svæðinu. Skelfileg stríð sem bitna verst á saklausu fólki. Í öðru lagi, þá hækkaði verðbólgan í Bandaríkjunum lítils háttar, sem gefur til kynna að hún er þrálátari en vonir stóðu til. Þetta þýðir að vextir verða hærri til lengri tíma í Bandaríkjunum en ýmsir markaðsaðilar gerðu ráð fyrir. Í þriðja lagi ríkir stöðnun í Kína og hagkerfið þar er að mæta ýmsum nýjum áskorunum í fjármálakerfinu og á fasteignamarkaði. Þetta er ný staða fyrir kínverska hagkerfið, sem hefur vaxið gríðarlega síðustu áratugi og að mörgu leyti dregið vagninn varðandi hagvöxt í heimsbúskapnum. Að sama skapi skortir enn á gagnsæi á mörkuðum þar og því hafa fjárfestar meiri fyrirvara en ella. Í fjórða lagi hefur skuldastaða nýmarkaðs- og þróunarríkja versnað og í háu vaxtaumhverfi þurfa fleiri ríki á endurskipulagningu skulda að halda. Sömu lögmál ríkja um einkageirann sem ekki hefur farið varhluta af vaxtahækkunum eftir áratugi hagkvæmra vaxta. Að lokum má nefna að alþjóðavæðing hefur átt undir högg að sækja og hefur vöxtur alþjóðlegra viðskiptahindrana verið mikill. Sú þróun ýtir undir hækkanir á verðbólgu á heimsvísu.
Tíðar stýrivaxtahækkanir hafa ekki skilað tilætluðum árangri – hvað veldur?
Peningastefnan í Bandaríkjunum hefur verið afar aðhaldssöm í rúmt ár og verðbólgan hefur lækkað og nemur nú 3,7%. Stýrivextir hafa ekki verið jafnháir í Bandaríkjunum í 22 ár. Bandaríska hagkerfið er ekki að bregðast við stýrivöxtum með hefðbundnum hætti. Þrátt fyrir það hefur framleiðslutapið ekki verið mikið né heldur hefur atvinnuleysið aukist. Meginorsök verðbólgunnar er dýpri en að hægt sé að skýra hana út einvörðungu með efnahagsaðgerðum sem tengjast covid-19. Þó hafa margir talið að umframeftirspurnin í bandaríska hagkerfinu í kjölfar covid-19 sé rót vandans. Hins vegar er það svo að þessar efnahagsaðgerðir hafa aukið ójafnvægið sem kom vegna þeirra efnahagsaðgerða sem farið í í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar 2008-2010. Stýrivextir voru lækkaðir verulega og hin magnbundna íhlutun var afar umfangsmikil, þannig að kaup seðlabanka á skuldabréfum voru mikil og peningamagn í umferð jókst verulega eða sem nemur um 8 trilljónum bandaríkjadala. Augljóslega hefur þessi aukning mikil áhrif á eftirspurn í hagkerfinu. Peningamagn í umferð jókst frá því að vera um 500 milljarðar í 8 trilljónir frá 2007-2022. Bandaríski seðlabankinn hefur hafið áætlun um að draga úr skuldabréfakaupunum og draga úr þessu peningamagni í umferð. Að sama skapi hefur ríkisfjármálin skort aðhald enda er fjárlagahallinn í ár um 10% af landsframleiðslu þrátt fyrir kröftuga viðspyrnu hagvaxtar í kjölfar covid. Á árunum 2020 og 2021 var fjárlagahalli um 10-14% af landsframleiðslu. Seðlabanki Bandaríkjanna hefur ekki verið einn í því að stækka efnahagsreikninginn sinn verulega, sama þróunin hefur verið í öllum helstu seðlabönkum veraldar.
Stærsta viðfangsefni íslensks samfélags
Ísland hefur ekki farið varhluta af þeirri verðbólguþróun sem hefur átt sér stað í heiminum. Á árinu 2022 tók verðbólga seinna við sér á Íslandi en í mörgum samanburðarríkjum. Á tímabili mældist samræmd verðbólga á Íslandi sú næstlægsta í Evrópu, eða 6,4% í nóvember 2022 samanborið við 11,5% hjá ríkjum Evrópusambandsins. Verðbólgan hér á landi hélt áfram að hækka þar til hún náði hámarki í byrjun árs þegar hún mældist 10,2%. Síðan þá höfum við séð hana lækka en í dag stendur hún í 8%. Mikill þróttur hefur einkennt íslenska hagkerfið síðasta ár, sem skýrist af miklum viðsnúningi í ferðamennskunni og hagkvæmum viðskiptakjörum fyrir sjávarútveg og iðnað. Helsta stjórntæki Seðlabanka Íslands, stýrivextirnir, er farið að skila tilætluðum árangri til kælingar. Ríkisfjármálin hafa stigið skarpt til hliðar frá því í covid og nýlega hefur ríkisstjórnin kynnt aðhaldsamt fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 þar sem lögð er áhersla á aðhald og aukna forgangsröðun í ríkisrekstrinum á sama tíma og staðinn er vörður um mikilvæga grunnþjónustu í landinu. Glíman við verðbólguna er stærsta viðfangsefni samfélagsins, en verðbólgan bitnar verst á þeim sem síst skyldi; þeim efnaminni. Það að ná niður verðbólgu er algjört forgangsmál ríkisstjórnarinnar, en á þeirri vegferð þurfa allir að ganga í takt; stjórnvöld, Seðlabanki Íslands og aðilar vinnumarkaðarins. Ég er bjartsýn á að við munum sjá verðbólguna lækka á komandi mánuðum ef við höldum rétt á spilunum, en það er til mjög mikils að vinna fyrir heimili og fyrirtæki landsins að ná tökum á henni.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. október 2023.
Hvern hefði órað fyrir því að íslenskir eikarvaðfuglar gætu flogið svo víða? Eða að íslenskt geimhagkerfi yrði til þess að tengja saman milljónir manna? Eða að íslenskt grjót yrði eftirsóknarvert í nytjahluti. Einhverja – en þó fæsta. Elja, áræði og stundum heppni hefur flutt íslenskt hugvit út fyrir landssteinana en aflið sem hefur skilað því hugviti lengst er góð hönnun. Íslensk hönnun er á heimsmælikvarða.
Sýnilegur árangur
Nú stendur yfir sýning á verkum 14 íslenskra hönnuða sem eiga það sammerkt að hafa hannað vörur og húsgögn sem eru þróaðar, framleiddar og seldar á Norðurlöndunum, Bretlandi og Bandaríkjunum. Með sýningunni er varpað ljósi á íslenska húsgagna- og vöruhönnun; fagi sem í alþjóðlegu samhengi er tiltölulega nýtt hér á landi en hefur sannarlega vaxtarmöguleika. Sýningin „Samband“ var upphaflega sett upp í tengslum við hönnunarvikuna 3 days of Design í Kaupmannahöfn í sumar. Það er vel við hæfi að sýningin ferðist líka hingað „heim“ og góðum árangri íslenskrar hönnunar sé miðlað til almennings.
Sóknarfæri
Fagstéttir tengdar hönnunar og arkitektúr fara stækkandi og íslenskum hönnunarfyrirtækjum fjölgar ört. Áhugi á menntun og starfsþróun á sviði hönnunar eykst og til verða spennandi og eftirsóknarverð störf. Við vitum að það eru gríðarleg sóknarfæri til verðmæta- og atvinnusköpunar í hönnunargeiranum, þar er mannauður og hugvit sem við getum virkjað til hagsbóta fyrir samfélagið allt, ekki síst með aukinni hönnunardrifinni nýsköpun og þverfaglegu samstarfi. Það er enda leiðarstef í nýrri hönnunarstefnu sem gefin var út fyrr á þessu ári. Hönnun er okkur mikilvægt breytingaafl og tæki til nýsköpunar sem nýta má á fjölbreyttari hátt en marga órar fyrir.
Gefum hönnun gaum
Íslenskt hugvit er hreyfiafl framfara og íslensk hönnun á sannarlega erindi við heiminn. Hún er allt í kringum okkur, ýmist áþreifanleg og ósýnileg. Og góð hönnun getur verið sannkallaður leikbreytir fyrir árangur og velgengni hugmynda. Um þessar mundir er verið að kynna tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands sem að þessu sinni verða afhentar í þremur flokkum – fyrir verk, stað og vöru. Fjölbreytni þeirra verkefna sem hljóta tilnefningar að þessu sinni fylla mig stolti og bjartsýni, yfir íslenskri hugkvæmni, sköpunarkrafti og fagmennsku. Ég hvet alla til þess að kynna sér tilnefningarnar og gróskuna í íslenskri hönnun.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 18. október 2023.
Tíðar fréttir af ófriði og átökum um heim allan hafa birst okkur á undanförnum misserum. Aukinn ófriður í heiminum er óheillaþróun með tilheyrandi slæmum áhrifum fyrir íbúa heimsins. Bentu Sameinuðu þjóðirnar meðal annars á fyrr á árinu að fjöldi átaka hefur ekki verið meiri síðan á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar en um 2 milljarðar manna, fjórðungur mannkynsins, búa á svæðum sem hafa orðið fyrir áhrifum af átökum. Það má segja að sjaldan hafi reynt jafnmikið á þau helstu grundvallargildi sem Sameinuðu þjóðirnar voru reistar á; að viðhalda alþjóðlegum friði og öryggi.
Faraldur valdarána í Afríku, þar sem valdarán hafa verið framin í átta ríkjum á þremur árum og bætist við ófrið sem þar var fyrir, deilur Aserbaísjan og Armeníu, ólöglegt innrásarstríð Rússa í Úkraínu og nú síðast; stríð Ísraela og Hamas-liða í kjölfar grimmilegra árása Hamas-liða í Ísrael um liðna helgi.
Það sem þessi átök eiga sameiginlegt er að ekki sér fyrir endann á þeim. Deilan fyrir botni Miðjarðarhafs er áratuga löng en fullyrða má að atburðir síðustu helgar séu mesta stigmögnun hennar í áratugi. Hætta er á enn frekari stigmögnun átakanna, en viðvörunarljós í þá veru eru þegar farin að blikka með skærum á landamærum Ísraels og Líbanon milli Ísraelshers og Hezbollah-samtakanna. Svæðinu öllu svipar til púðurtunnu. Það þarf fyrir alla muni að komast hjá frekari stigmögnun á svæðinu, með tilheyrandi óstöðugleika fyrir alþjóðasamfélagið.
Að sama skapi sér ekki enn fyrir endann á árásarstríði Rússa í Úkraínu, sem haft hefur skelfileg áhrif á milljónir í Úkraínu og Rússlandi. Mikið mannfall hefur verið hjá báðum löndum, á sama tíma og Rússar eru langt frá því að ná upphaflegum hernaðarmarkmiðum sínum. Efnahagur beggja landa hefur gjörbreyst og skaðast mikið með tilfinnanlegum áhrifum á alþjóðahagkerfið. Hækkanir á orku- og matvælaverði í kjölfar stríðsins smituðust í alþjóðlegar virðiskeðjur og urðu helsti orsakavaldurinn í hærri verðbólgu margra ríkja og eins og gjarnan gerist eru það þeir sem minnst mega sín sem helst finna fyrir þessu. Það er mikilvægt að Vesturlönd standi áfram af fullum þunga með Úkraínu og tryggi landinu nauðsynlega aðstoð til þess að vernda frelsi og sjálfstæði sitt.
Við erum lánsöm á Íslandi. Það að búa við frið og öryggi er því miður ekki sjálfsagt í heiminum eins og við þekkjum hann líkt og milljarðar jarðarbúa finna á eigin skinni. Blessunarlega hafa heilladrjúgar ákvarðanir verið teknar í varnar- og öryggismálum Íslands í gegnum tíðina sem við búum að í dag. Þá stefnu þarf að rækta áfram af alúð.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. október 2023.
Þökk sé þeim mikla krafti sem verið hefur í alþjóðaviðskiptum undanfarna áratugi hafa lífskjör hundraða milljóna manna batnað verulega með auknum kaupmætti. Ísland hefur tekið virkan þátt í þessari þróun og er engum blöðum um það að fletta að efnahagslegur vöxtur landsins hefur byggst á opnum alþjóðaviðskiptum – þar sem hugað hefur verið að greiðslujöfnuði þjóðarbúsins.
Hagsaga Íslands er saga framfara en um leið og Ísland hóf aftur frjáls viðskipti og fór að nýta auðlindir landsins í eigin þágu jukust hér lífsgæði og velmegun. Á þeirri vegferð hefur tæknivæðing samfélagsins lagt sitt af mörkum og skilað aukinni skilvirkni og nýtingu framleiðsluþátta. Þannig störfuðu í upphafi 20. aldarinnar um 80% af vinnuaflinu í landbúnaði og sjávarútvegi en 100 árum síðar er samsvarandi hlutfall um 10%. Á sama tíma hefur verðmætasköpun aukist umtalsvert. Utanríkisviðskipti hafa á sama tíma orðið mun fjölbreyttari en þegar um 90% gjaldeyristekna komu frá sjávarútvegi. Meginútflutningsstoðir hagkerfisins eru fjórar í dag; ferðaþjónusta, sjávarútvegur, iðnaður og skapandi greinar.
Á undanförnum árum hafa ýmsar áskoranir birst í heimi alþjóðaviðskiptanna. Eftir að Bretton-Woods-gjaldmiðlaumgjörðin leið endanlega undir lok á áttunda áratugnum tók við tímabil sem einkenndist af efnahagslegri stöðnun og hárri verðbólgu. Réðust til að mynda Bandaríkin og Bretland í umfangsmiklar kerfisbreytingar til að snúa þeirri þróun við sem fólust meðal annars í því að losa um eignarhald ríkisins á ýmsum þáttum hagkerfisins, skattar voru lækkaðir, einblínt var á framboðshliðina og létt var á regluverki.
Eftir gríðarlegt pólitískt umrót í Kína áratugina á undan náðist samstaða um að hefja mikið efnahagslegt umbótaskeið sem hóst með valdatöku Deng Xiaoping 1978. Í kjölfar þess að Bandaríkin og Bretland fóru að styrkjast efnahagslega ásamt Kína fóru mörg önnur ríki að þeirra fordæmi. Þegar nær er litið eru bestu dæmin aukin viðskipti innan EFTA, ESB og EES sem styrktu hagkerfi innan þeirra vébanda og ekki síst þeirra ríkja sem opnuðust eftir fall ráðstjórnarríkjanna. Að sama skapi skipti sköpum fyrir þróun heimsviðskipta innganga Kína í Alþjóðaviðskiptastofnunina árið 2001. Í kjölfarið urðu breytingar á samkeppnishæfni og útflutningi Kínverja með tilheyrandi aukningu í alþjóðaviðskiptum.
Við höfum séð viðskiptahindranir og -hömlur aukast töluvert undanfarinn áratug. Í því samhengi hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bent á að heimsframleiðsla geti dregist saman um 7% en það jafngildir samanlagðri stærð franska og þýska hagkerfisins! Þetta er þróun sem þjóðir heims verða að hafa augun á til að stuðla að áframhaldandi lífskjarasókn í heiminum.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. október 2023.
Langatímaafleiðingar hárrar verðbólgu eru slæmar fyrir samfélög. Verðbólgan hittir einkum fyrir þá sem minnst eiga. Hópurinn sem verst fer út úr verðbólguhremmingunum er sá sem nýverið kom inn á húsnæðismarkaðinn.
Í riti Seðlabankans Fjármálastöðugleiki 2023/2, sem kom út í vikunni, er staða heimila og fyrirtækja rýnd í samhengi við aukið aðhald peningastefnunnar að undanförnu. Verðbólga og hækkandi vextir hafa þyngt greiðslubyrði heimila og fyrirtækja þó skuldsetning sé lítil í sögulegu samhengi og eiginfjárstaðan góð. Þannig hefur hækkandi vaxtastig dregið úr umsvifum á íbúðamarkaði en verulega hefur dregið úr nýjum lánveitingum til heimila á árinu. Hrein ný íbúðalán fyrstu sjö mánuði ársins námu aðeins rúmum 58 mö.kr., samanborið við 111 ma.kr. á sama tímabili á síðasta ári.
Nokkur hluti útistandandi óverðtryggðra íbúðalána sem veitt voru á árunum 2020 og 2021 ber fasta vexti sem brátt losna og verða endurskoðaðir með tilheyrandi hækkun á greiðslubyrði lánanna. Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að haldist vaxtastig áfram hátt megi að öðru óbreyttu gera ráð fyrir að greiðslubyrði heimilanna þyngist verulega. Hagkerfið okkar má ekki verða eitthvert gæfuhjól, þ.e. að gæfan ákvarðist eingöngu út frá því hvenær komið er inn á húsnæðismarkaðinn. Öruggt þak yfir höfuðið er eitt stærsta velferðarmál samtímans.
Staða stóru viðskiptabankanna er sterk, eiginfjárhlutföll þeirra há og arðsemi af reglulegum rekstri góð. Það er í takt við þróun undanfarinna ára, sem var meðal annars rakin í skýrslu starfshóps sem ég skipaði um gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna og kynnt var nýlega. Það er eðlilegt að viðskiptabankarnir nýti þessa stöðu til þess að koma til móts við þau heimili sem glíma við og munu glíma við þyngri greiðslubyrði en áður.
Ein af tillögum starfshóps um gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna var að efla þyrfti neytendavernd á fjármálamarkaði. Ég hef þegar komið vinnu við hana í farveg en hafin er greiningarvinna á vegum míns ráðuneytis í tengslum við ákveðna þætti fasteignalána til neytenda og neytendalána til að efla neytendavernd á sviði fjármálaþjónustu. T.a.m. hvernig staðið er að upplýsingagjöf og leiðbeiningum til neytenda í tengslum við lánveitingar út frá mismunandi lánaformum, áhrifum vaxta, verðbólgu o.s.frv. Skoðað verður eftirlitshlutverk Neytendastofu og Seðlabanka Íslands gagnvart lánveitendum við framkvæmd lánveitingar til neytenda og eftir að lán er veitt, þ.m.t. við skilmálabreytingar og vanskil. Þá verður einnig skoðað hvaða upplýsingum og leiðbeiningum þarf að koma á framfæri til neytenda um mismunandi lánaform, áhrif vaxta, verðbólgu o.s.frv. og hvernig þeim verði miðlað með sem skilvirkustum hætti.
Verðbólga er margslungið fyrirbæri og baráttan við hana krefst samtakamáttar samfélagsins. Þar skiptir stuðningur við heimilin miklu máli og öflug neytendavakt.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. september 2023.
Við sem samfélag verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja stöðu íslenskrar tungu inn í framtíðina, ekki aðeins til að forða því að hér verði rof í merkri menningarsögu þjóðarinnar heldur einnig til að koma í veg fyrir að hér alist upp kynslóðir sem eru ófærar um að tjá sig vel á eigin móðurmáli. Þróun sem þessi er lúmsk, hún á sér stað hægt og rólega með minnkandi meðvitund okkar – og áður en við vitum af gæti sú staða komið upp að þróuninni verði ekki aftur snúið.
Sókn er besta vörnin
Ég tel að breið pólitísk sátt sé um það verkefni að snúa vörn í sókn – fyrir íslenska tungu. Fjölbreytt starf hefur verið unnið á vegum ráðherranefndar um málefni íslenskunnar og ráðuneytanna í vetur og birtist afrakstur þeirrar vinnu í aðgerðaáætlun sem kynnt var í samráðsgátt í sumar. Fjölmargar gagnlegar umsagnir bárust sem bæta munu þær aðgerðir og ljóst af fjölda þeirra og inntaki að margir eru viljugir að leggjast á árarnar með okkur. Aðgerðaáætlunin verður lögð fram sem þingsályktunartillaga á Alþingi nú í haust.
Eitt stærsta verkefnið fram undan er að tryggja að íslenska verði gjaldgeng í hinum stafræna heimi og það verkefni er langhlaup. Öflug innviðauppbygging á sviði máltækni hefur átt sér stað á síðustu 5 árum, fyrir tilstilli fyrstu máltækniáætlunar íslenskra stjórnvalda, og hefur það framtak og sú sýn vakið töluverða athygli út fyrir landssteinana. Ég vil fullyrða að sú vinna sem þegar hefur verið unnin, af íslenskum háskólum og nýskapandi fyrirtækjum í máltækni sé á heimsmælikvarða.
Áfram verður fjárfest í tungu og tækni
Nú þegar fyrstu máltækniáætluninni lokið er unnið að því að móta framtíðarfyrirkomulag fyrir áframhaldandi þróun og viðhald íslenskrar máltækni, svo sú þekking, mannauður og tækni sem orðið hefur til megi nýtast okkur sem best til framtíðar. Lykilverkefni í því samhengi er að stuðla að hagnýtingu tækninnar og innleiðingu. Starfshópur með alls 15 sérfræðingum úr atvinnulífi, stjórnkerfi og menntakerfi hefur að undanförnu kortlagt áskoranir og tækifæri sem þessu tengjast og munu niðurstöður hans nýtast við tillögugerð sem skilað verður á næstu vikum.
Fjármögnun fyrir næstu máltækniáætlun er tryggð og er gert ráð fyrir 360 milljónum króna á ári í málaflokkinn árlega út árið 2026 auk 160 milljóna til viðbótar á ári í gegn um samkeppnissjóðinn Markáætlun í tungu og tækni. Í heildina er því um að ræða um tveggja milljarða króna fjárfestingu í máltækni á tímabilinu.
Íslensk máltækni eykur lífsgæði fólks
Notkun íslenskrar máltækni getur nýst á ótal sviðum og orðið ein lykilbreytan í því að efla íslenska tungu til framtíðar. Nú þegar er íslensk máltækni nýtt til að aðstoða fjölda fólks með sjónskerðingu í daglegu lífi, einfalda upplýsingagjöf fyrirtækja og stofnana og í tungumálakennslu fyrir nýja Íslendinga.
Möguleika tækninnar þarf að kynna og byggja brú á milli vísindasamfélagsins, nýsköpunargeirans og stjórnkerfisins svo við getum nýtt þessa nýju inniviði – þessa stafrænu vegagerð – til hagsbóta fyrir alla. Nú er mikilvægt að við tökum öll höndum saman við að vinna þessum málum brautargengi. Það á við um okkur í stjórnmálunum, fólk í atvinnulífinu sem og okkur öll.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 18. september 2023.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.