Categories
Fréttir Nýjast Uncategorized

Gullmerki Framsóknar veitt í fyrsta sinn

Deila grein

23/04/2024

Gullmerki Framsóknar veitt í fyrsta sinn

Á 37. Flokksþingi Framsóknar um liðna helgi var gullmerki Framsóknar veitt í fyrsta sinn.

Ritari Framsóknar skal veita gullmerki Framsóknar einstaklingi sem um árabil hefur unnið framúrskarandi og óeigingjarnt starf með sérstaka áherslu á innra starf flokksins, störf í grasrót og skal viðkomandi hafa sýnt áralangt óyggjandi traust við flokkinn. Á flokksþingi var ákveðið að veita tveimur einstaklingum fyrstu gullmerki Framsóknar og afhenti Ásmundur Einar Daðason, ritari Framsóknar, þeim Einari Gunnari Einarssyni og Sigrúnu Magnúsdóttur gullmerki Framsóknar á kvöldverðarhófi flokksþings Framsóknar þann 20. apríl.

Við afhendinguna hafði Ásmundur Einar þessi orð um að segja um feril Einars Gunnars fyrir Framsókn:

,,Einar gerðist félagi í Framsókn fyrir Alþingiskosningarnar 1987 og hefur hann starfað fyrir flokkinn frá árinu 2002, fyrst á skrifstofu flokksins og nú fyrir þingflokkinn.

Einar hefur einnig sinnt ótal trúnaðarstörfum fyrir Framsókn, hann sat í miðstjórn, stjórn og framkvæmdastjórn SUF og endaði ferilinn þar sem skoðunarmaður reikninga. Þá var hann formaður í svæðisfélagi FUF og formaður kjördæmissambands ungra framsóknarmanna í Reykjaneskjördæmi. Þá hefur hann setið sem miðstjórnarfulltrúi. Einar hefur unnið með sjö formönnum Framsóknar og sex framkvæmdastjórum.

Það er einkennandi fyrir Einar, að þegar hann er spurður um hvaða skilaboðum hann vilji koma til ungs fólks sem er að íhuga þátttöku í stjórnmálum eða öðru sjálfboðaliðsstarfi. Þar setur hann unga fólkið sjálft í forgang, að það þurfi fyrst af öllu að huga að menntun sinni, en spennandi og kraftmikið stjórnmálastarf sé gott með. Þar gefist umfram allt tækifæri til að mynda tengsl við fólk á öllum aldri og alls staðar af landinu.

Ósérhlífnin og dugnaðurinn birtist í svari Einars þegar hann er spurður um hvað honum þyki skemmtilegast í flokksstarfinu. Þar svara hann því til að kosningabarátta sé allra skemmtilegasti tíminn. Þar sem liðmönnum sé skipað í framlínuna, í stuðnings- og bakvarðasveit. Tengsl sem verða til í kosningabaráttu endist í áratugi. Eins sé gaman að kynnast nýju fólki sem skipar sér í hlutverk í flokknum, sjá það vaxa til taka að sér skýrari og viðameiri verkefni í flokksstarfinu.

Þá segir Einar, þegar hann er beðinn að lýsa Framsókn: Þetta er fyrst og fremst hópur fólks sem vill með hugsjónir samvinnu og jafnaðar að leiðarljósi gera samfélagið enn betra. Horfa fram veginn, sjá fyrir verkefnin og úrlausnir þeirra og takast á við flókna og óvænta viðburði af heiðarleika, fordæmalaust og án allra kreddukenninga. Við erum hópur fólks sem tökumst á, en að því loknu erum við heild sem talar einni röddu. Einar endurspeglar þetta sterkt með sínu óeigingjarna starfi sem hann hefur lagt til Framsóknar.

Að lokum, til að undirstrika stöðugleika Einars í flokksstarfinu, þá mætti hann á sitt fyrsta flokksþing 1988, sem var það tuttugasta í sögu flokksins, nú erum við mætt á 37. Flokksþing Framsóknar og hefur Einar aðeins misst af einu þingi allan þennan tíma.

Það var heiður að fá að sæma Einar Gunnar Einarsson gullmerki Framsóknar.”

Við afhendingu á gullmerkinu til Sigrúnar Magnúsdóttur hafði Ásmundur Einar þetta að segja:

,,Sigrún gerðist félagi í Framsókn í upphafi áttunda áratugarins og hefur hún starfað af krafti fyrir flokkinn frá þeim tíma. Áður hafði hún boðið sig fram í sveitarstjórnarkosningum fyrir óháðan lista vestur á fjörðum þar sem hún var reyndar alltaf kölluð Framsóknarkonan!

Félag framsóknarkvenna í Reykjavík var eitt af fyrstu félögunum sem Sigrún gekk til liðs við innan flokksins. Í framboðsmálum þá bauð hún sig fyrst fram til borgarstjórnar og varð varaborgarfulltrúi fyrst og svo borgarfulltrúi í 16 ár. Sigrún hefur verið formaður félags framsóknarkvenna, flokksfélagsins og fulltrúaráðs Reykjavíkur en þaá sat hún einnig í framkvæmdastjórn flokksins. Sigrún varð fyrst varaþingmaður 1979 og kom inn á þing 1980 og 1982. Hún var síðan kjörin á Alþingi árið 2013 og var Umhverfis- og auðlindaráðherra frá árinu 2014-2017. Hún hefur þá sérstöðu að hafa flutt ræður á Alþingi með meira en 30 ára millibili.

Sigrún hefur verið fulltrúi í miðstjórn í mörg ár og nú síðast hefur hún staðið vaktina á síðdegisvatkinni hér í Reykjavík. Sigrún lýsir störfum sínum fyrir flokkinn þannig: „Líf mitt hefur snúist meira og minna um framsókn“

Hún hefur unnið með öllum formönnum frá því að hún gekk til liðs við flokkinn og svo nefndi hún sérstaklega að hún hafi óbeint unnið með Eysteini á sinum tíma og að áhugi hans og stuðningum við stofnun félags framsóknarkvenna hafi verið dýrmætur.

Skilaboð hennar til ungs fólks sem íhugar að taka þátt í stjórnmálum eru skýr. Það efli mann og þroski, geri ekkert nema gott þó stundum blási á móti. Þá sé varla til betri reynsla en að störf á vegum Framsóknar og því að kynnast starfi stjórnmálaafls.

Hún lýsir því sem einu aðalsmerki Framsóknar hversu öflug félagsmálataugin sé í okkur, það sjáist á fyrrverandi þingmönnum, engir séu jafn virkir þar eins og Framsókn.

Aðspurð um hvað henni þyki skemmtilegast við að starfa í flokknum þá segir hún að það sé ótrúleg tilfinning að tilheyra svona félagsmálaafli. Ekkert sé jafn skemmtilegt og að mæta á flokksþing, skemmtilegasta sem hún gerir er að hitta félaga alls staðar af landinu. Þá vill hún lýsa flokknum sem einfaldlega fólkinu sem er í honum, fólk sem vill keyra á samvinnu og félagshyggju og binst þeim samtökum.

Sigrún segist ekki sjá eftir þeim tíma sem hefur farið í Framsókn, og hún sé þakklát fyrir að hafa gengið í flokkinn og að hafa fengið að eyða ævinni í þessum einstaka félagsskap.

Það var heiður að fá að sæma Sigrúnu Magnúsdóttir gullmerki Framsóknar.”

Framsókn óskar Einari Gunnari Einarssyni og Sigrúnu Magnúsdóttur innilega til hamingju með verðlaunin og þakkar þeim fyrir vel unnin og óeigingjörn störf í gegnum árin.