Categories
Greinar

Atvinnuuppbygging á landsbyggðinni strandar á íbúðaskorti

Deila grein

31/08/2019

Atvinnuuppbygging á landsbyggðinni strandar á íbúðaskorti

Húsnæðismál hafa verið ofarlega á baugi síðastliðin ár enda ríkir skortur á íbúðarhúsnæði víða um land. Ríkisstjórnin hefur langt mikla áherslu á að efla húsnæðismarkaðinn og stuðla að auknu jafnvægi á honum óháð efnahag og búsetu. Fjölmörgum aðgerðum hefur nú þegar verið hrundið í framkvæmd til að bregðast við og eru aðrar í bígerð. Landsbyggðin hefur lögnum þótt sitja eftir í þessum efnum. Uppbygging íbúðarhúsnæðis víða um land hefur ekki fylgt auknum íbúafjölda, frekar en á höfuðborgarsvæðinu og eru dæmi um að skortur á íbúðarhúsnæði hafi staðið atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni fyrir þrifum.

Tillögur unnar í samstarfi við sveitarfélög

Á haustmánuðum setti ég af stað tilraunaverkefni um húsnæðismál á landsbyggðinni með Íbúðalánasjóði, Byggðastofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Var það gert í því skyni að leita leiða til þess að bregðast við langvarandi stöðnun á húsnæðismarkaði víða um land.

Þrjátíu og þrjú sveitarfélög af öllu landinu sóttu um þátttöku. Sjö urðu fyrir valinu og tók valið mið af því að áskoranirnar sem þau stæðu frammi fyrir væru mismunandi og á ólíkum landsvæðum. Þannig yrði til breiðara framboð lausna í húsnæðismálum sem nýst geti sem flestum sveitarfélögum sem á þurfa að halda. Íbúðalánasjóður hefur undanfarna mánuði unnið náið með tilraunasveitarfélögunum að því að greina þann vanda sem þau standa frammi fyrir og undirbúa tillögur að aðgerðum.

Tólf tillögur að aðgerðum

Á grundvelli þeirrar vinnu voru lagðar fram tólf tillögur að lausnum sem kynntar voru fyrir ríkisstjórn í maí og birtar í samráðsgátt stjórnvalda í lok júlí. Þær umsagnir sem bárust voru allar jákvæðar og var í kjölfarið ákveðið að tillögurnar yrðu innleiddar.

Í byrjun vikunnar skrifaði ég undir breytingar á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs sem gerir það að verkum að sveitarfélög, einstaklingar og óhagnaðardrifin félög á landsbyggðinni muni geta tekið lán hjá Íbúðalánasjóði til húsnæðisuppbyggingar á stöðum þar sem opinber húsnæðisáætlun, staðfest af Íbúðalánasjóði, sýnir að skortur sé á húsnæði af því tagi sem byggja á. Þá verður brugðist við skorti á hagkvæmu leiguhúsnæði með því að gera sveitarfélögum á landsbyggðinni kleift að byggja íbúðir í almenna leigukerfinu með auknu stofnframlagi ríkisins og verður frumvarp þess efnis lagt fram á haustþingi.

Öflug byggðastefna er hagsmunamál okkar allra

Það er mikilvægt að atvinnutækifæri séu nýtt allt í kringum landið en dæmi eru um að skortur á íbúðarhúsnæði hamli frekari uppbyggingu. Sá skortur er tilkominn vegna þess að misvægi er á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs. Mikilvægt er að húsnæðisskortur standi ekki í vegi fyrir því og geri það að verkum að fólk fáist ekki til starfa. Sé það raunin ber stjórnvöldum að mínu viti skylda til þess að grípa til aðgerða og eftir því hefur ítrekað verið kallað. Með þeim aðgerðum sem ákveðið hefur verið að ráðast í til að bregðast við húsnæðisvanda á landsbyggðinni erum við að undirstrika vilja ríkisvaldsins til að standa við bakið á heimamönnum í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálráðherra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. ágúst 2019.

Categories
Fréttir

„Við flýjum ekki af hólmi þegar berjast þarf fyrir hagsmunum þjóðarinnar“

Deila grein

28/08/2019

„Við flýjum ekki af hólmi þegar berjast þarf fyrir hagsmunum þjóðarinnar“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, sagði í umræðu um 3. orkupakkan, ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn, að ekkert nýtt hafi komið fram sem ekki hefur verið hrakið af helstu lögspekingum landsins og öðrum sérfræðingum, bæði varðandi stjórnarskrá Íslands og einnig varðandi EES-samninginn sjálfan. „Hluti hans hefur áður verið tekinn inn í lög og reglugerðir og þá vinnu leiddu meira að segja þeir sem harðast berjast gegn honum í dag,“ sagði Sigurður Ingi.

Hvað felst þingsályktunartillögu og lagafrumvörpum sem rætt er um?

„Að hagsmunir neytenda verða betur varðir með sjálfstæðari og sterkari íslenskri Orkustofnun og svo hitt. Að ólíkt því sem gildir í dag verður ekki lagður raforkusæstrengur til Íslands án þess að Alþingi Íslendinga taki um það sérstaka ákvörðun fyrir utan þau réttindi sem Íslendingar hafa auðvitað í gegnum hafréttarsáttmálann sem færir okkur Íslendingum full yfirráð yfir landgrunni og landhelgi okkar.

  • Öllum spurningum um fullveldi og mögulegt fullveldisafsal hefur verið svarað með aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

  • Utanríkisráðherra og orkumálastjóri Evrópusambandsins hafa undirritað sameiginlega yfirlýsingu sem staðfestir þann skilning íslenskra yfirvalda að reglur sameiginlega orkumarkaðarins í Evrópu gildi ekki hér þar sem við erum ótengd. Þessi yfirlýsing sýnir að þótt við tengdumst með raforkusæstreng væri Ísland enn með stöðu einangraðs orkukerfis ótengt, sem eyja.

  • Enn fremur hefur verið fengin yfirlýsing EFTA-landanna sama efnis sem fulltrúar ESB í sameiginlegu EES-nefndinni mótmæltu ekki. Annars vegar hefur yfirlýsing ráðherranna pólitískt gildi og hins vegar bókun í sameiginlegu EES-nefndinni þjóðréttarlegt gildi samkvæmt 31. gr. Vínarsáttmálans.

  • Auk þess liggur fyrir áðurnefnt frumvarp sem við ræðum á morgun sem tryggir að ákvörðun um raforkusæstreng verður aðeins tekin á Alþingi Íslendinga.“

Um hvað snýst þá málið?

„Jú, hún snýst um að róta í sama grugguga vatninu og helst er í tísku að róta í víða um heim og felur í sér að etja borgurunum saman til að ná völdum. Þeir sem harðast hafa barist gegn orkupakkanum hafa hrakist frá einum hálfsannleik til annars í málflutningi sínum og hafa allar svokallaðar röksemdir verið hraktar þegar þær hafa komið fram.
Það styttist í ellefu ára afmæli hrunsins. Við erum enn að berjast við að græða þetta stóra sár sem það skildi eftir og einkennist helst af skorti á trausti. Því finna allir fyrir. Það sár verður ekki grætt og það traust verður ekki endurheimt með því að hlaupa eftir órökstuddum fullyrðingum manna sem hafa það eitt á stefnuskránni að magna upp ófrið í samfélaginu, helst til að breiða yfir eigin vandræði.

  • Við erum ekki kosin á Alþingi Íslendinga til að takmarka tækifæri komandi kynslóða.

  • Við erum heldur ekki kosin á Alþingi til að hafa vit fyrir þeim.

  • Við erum kosin til að tryggja aukin tækifæri, stærri tækifæri fyrir framtíðina og það hefur sýnt sig að framtíðinni er oftast betur treystandi en fortíðinni.

Framsókn hefur ætíð verið framsækinn og alþjóðasinnaður flokkur og það sem felst í því að vera alþjóðasinnaðir er að hafa sterkar tengingar til nágranna- og vinaþjóða í gegnum bandalög og samninga.

  • Ég nefni Norðurlandaráð og Norðurlandasamstarf.

  • Ég nefni NATO, samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fjölmarga fríverslunarsamninga við þjóðir úti um allan heim.

Ég heyri í umræðunni að margir eru farnir að óttast, jafnvel fyrirlíta, þennan stimpil, alþjóðasinnaður. Þeir telja felast í honum afsal valds og undirlægjuhátt.
Þá ber að horfa til þess að Íslendingar hafa allt frá landnámi, líkt og allar þjóðir, búið í samfélagi með öðrum þjóðum, misjafnlega nánu og niðurnjörvuðu.

  • Við höfum verið undir konungum Noregs og Danmerkur, þjóða sem í dag eru okkar helstu vina- og samstarfsþjóðir.

  • Öllu skynsömu fólki hlýtur að vera ljóst hversu gríðarlega mikilvægur samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er Íslendingum.

  • Við erum alþjóðasinnað samfélag sem á allt sitt undir því að vera í góðum samskiptum við viðskiptaþjóðir okkar.

Alþjóðasamningar eru okkur öllum mikilvægir. Horfum bara á sjávarútveginn með sína mikilvægu vinnustaði á sjó og landi.

  • Horfum á tæknigeirann, Marel, 3X, Össur.

  • Horfum á nýsköpunarfyrirtækin, Kerecis á Ísafirði, CCP hér í Reykjavík, landbúnaðinn, orkufyrirtækin, iðnaðinn, skapandi greinarnar, ferðaþjónustuna sem hefur eflt samfélag um allt land.

Fyrir hverju eiga íslenskir stjórnmálamenn að berjast ef ekki fyrir því að næstu kynslóðir Íslendinga sjái sér hag í að búa og starfa á þessu fallega landi, alls staðar á landinu og gegnum alþjóðasamninga að koma vöru sinni á markað heimsins.

Við Íslendingar stöndum árið 2019 frjáls og fullvalda þjóð og getum borið höfuðið hátt, þjóð sem má segja að hafi áhrif í heiminum langt umfram það sem eðlilegt má teljast ef miðað væri við höfðatölu.

Sú staða hefur ekki síst náðst fyrir tilstilli Framsóknar og þeirrar gríðarlegu áhrifa sem flokkurinn hefur haft á íslenskt samfélag í ríflega aldarlangri sögu sinni.
Sú staða hefur ekki náðst með því að við sitjum heima, bak við læstar dyr, heldur vegna þess að við þorum að vera í alþjóðlegu samstarfi, vegna þess að

  • við flýjum ekki af hólmi við stjórn landsins.

  • Við flýjum ekki af hólmi þegar berjast þarf fyrir hagsmunum þjóðarinnar.

Í pólitík er mikilvægt að vita hvenær á að taka slaginn og hvenær á ekki að taka slaginn. Saga Framsóknar sannar að við höfum jafnan borið gæfu til að taka yfirvegaðar ákvarðanir frekar en að slá frá okkur þegar aðrir ragmana okkur.

  • Það þarf kjark til að hugsa um hagsmuni heildarinnar, um heildarhagsmuni Íslands.

  • Það þarf sterk bein til að sitja undir aðdróttunum og jafnvel svívirðingum sem hafðar hafa verið uppi síðustu mánuðina.

Þetta er eins og á sveitaböllunum í gamla daga. Það gáfust mörg tækifærin til slagsmála þegar einstaka ófriðarmaður bauð upp í slíkan dans. Það þarf hins vegar ekki alltaf að taka þátt í þeim slagsmálum. Þau skila engu.
Þessi ríkisstjórn stendur þéttan vörð um heildarhagsmuni íslensku þjóðarinnar og tekur þá slagi sem þarf að taka. Það er mikilvægt þegar kemur að auðlindum Íslands að tryggja full yfirráð þjóðarinnar yfir þeim.

  • Það er mikilvægt að við hugsum um hagsmuni heildarinnar í bráð og í lengd.

  • Það er einnig mikilvægt að við tökum ákvarðanir um hagsmuni þjóðarinnar á réttum forsendum, að við göngum ekki inn í stjórnmál reiðinnar, stjórnmál óttans og gerum þau að okkar lögheimili og varnarþingi.

Eftir átök þessa þings hlýtur öllum að vera ljóst að við þurfum að leggja mun meiri áherslu á hagsmuni Íslands í allri vinnu varðandi EES-samninginn.
Orkupakki þrjú kom á sjóndeildarhringinn fyrir meira en tíu árum og algjörlega óeðlilegt að málið hafi ekki komist inn í almenna umræðu fyrr en á síðasta ári.
Það er líka alvarlegt hvernig haldið var á málum varðandi innflutning á kjöti á sínum tíma. Þeir sem koma að vinnu við EES-samninginn fyrir Íslands hönd verða að gera sér fulla grein fyrir því að hagsmunir Íslands ganga öllum hagsmunum framar við samningaborðið.
Það er síðan íslenskra stjórnmála að skilgreina betur ríka hagsmuni Íslands og slá hreinni og sterkari tón í hagsmunagæslunni.
Eitt af því jákvæða sem hatrömm umræða síðustu mánaða ætti að kenna okkur og við að taka með okkur út úr henni er að við verðum að vera grimmari á fyrstu stigum hvers máls sem kemur upp í EES-samningnum og við verðum smæðar okkar vegna að forgangsraða kröftunum og einbeita okkur að hagsmunum sem tengjast auðlindum okkar. Með öðrum orðum: Allt frá fyrsta degi umræðu, til að mynda um orkupakka fjögur, verður að greina áhrifin og tryggja íslenska hagsmuni, m.a. með ítrekun á núverandi fyrirvörum með bókunum á fyrstu stigum máls.

  • Ríkisstjórnin hefur sett aukinn kraft og mannafla til að geta verið öflugri í hagsmunagæslunni á fyrstu stigum.

En hvernig höfum við í ríkisstjórnarflokkunum nálgast þetta verkefni?

Jú, við höfum hlustað á áhyggjur manna. Við höfum kallað til sérfræðinga. Við höfum hlustað á álit. Við höfum komist að niðurstöðu.
Hagsmunir Íslands eru tryggðir með fyrirvörum og aðgerðum sem eru skrifaðir eftir ráðgjöf helstu sérfræðinga og taka tillit til þeirra áhyggjuradda sem hafa verið uppi í samfélaginu, ekki fyrirvörum sem eru settir einhliða af Alþingi heldur hafa bréfin tvö sem bárust í vor, annars vegar frá EFTA og hins vegar orkumálastjóra Evrópusambandsins, bæði pólitískt og þjóðréttarlegt gildi samkvæmt Vínarsáttmálanum.

  • Slíkar yfirlýsingar eru bindandi. Um það hafa fallið fjölmargir dómar sem sérfræðingar hafa vitnað um fyrir utanríkismálanefnd.

  • Ísland er fullvalda ríki.

  • Hingað leggur enginn sæstreng, virkjar eða fer í nokkrar mannvirkjaframkvæmdir án aðkomu íslenskra yfirvalda. Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar verður það enn erfiðara en til að mynda nú.

  • Það er ekki minnst á skyldu Íslendinga í orkupakka þrjú til að leggja sæstreng. Það hefur verið hrakið margsinnis. Engin grein pakkans fjallar um það.

  • Ekki er um að ræða neitt brot á fjórfrelsinu ef íslensk stjórnvöld neita að leggja hingað streng. Fjórfrelsið fjallar um viðskiptahindranir. Það er ekki viðskiptahindrun að neita að byggja mannvirki.

  • Við höfum okkar eigið regluverk, hafréttarsáttmála, skipulagslög, sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og eftir morgundaginn frumvarp þar sem Alþingi tekur ákvörðunina og margt fleira.

  • Það er ekki verið að framselja vald til erlendra stofnana með innleiðingu á orkupakka þrjú. Þátttaka EFTA-ríkjanna byggir á tveggja stoða kerfinu.

  • Eins og orkupakki þrjú er lagður fram er heldur ekki um brot á stjórnarskrá að ræða, samanber álit allra okkar helstu sérfræðinga, líka þeirra sem voru með efasemdir í upphafi, alveg eins og við Framsóknarmenn. Þess vegna stöldruðum við við og fundum leiðir sem tryggðu hagsmuni Íslands, fullveldi og yfirráð okkar yfir auðlindum landsins, líka orkuauðlindinni sem er ein okkar allra mikilvægasta auðlind til langrar framtíðar.

Ég hef hlustað á umræðuna í allan dag og fylgst með umræðunni í sumar. Það hefur ekkert breyst frá yfirferð utanríkismálanefndar frá því í vor nema hvað þessi lykilatriði eru orðin enn skýrari en áður. Því er meirihlutaálit utanríkismálanefndar enn í fullu gildi. Þar stendur í næstsíðustu málsgreininni, með leyfi forseta:

„Framangreindar yfirlýsingar hafa bæði pólitískt og þjóðréttarlegt gildi. Í tilkynningu Íslands til EFTA-skrifstofunnar um afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara verður vísað sérstaklega bæði til yfirlýsingar framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdastjórn ESB og utanríkisráðherra frá 20. mars sl. og til sameiginlegrar yfirlýsingar EFTA-ríkjanna innan EES sem gefin var í sameiginlegu EES-nefndinni 8. maí sl. Þar með er skjalfestur sá sameiginlegi skilningur allra aðila að Ísland hafi eftir sem áður full yfirráð yfir orkuauðlindum sínum.“

Móttaka þessa formlega bréfs þegar það fer án andmæla er enn ein staðfesting á máli okkar.

Ég hef hins vegar fullan skilning á áhyggjum margra landsmanna, ekki síst í ljósi þróunar heimsmála þar sem við höfum séð meiri uppskiptingu auðs þar sem þeir ríkari verða ríkari og frekari til fjár og áhrifa en aðrir bera minna úr býtum.

Ein birtingarmynd hérlendis er uppkaup auðmanna, ekki síst erlendra, á landi á Íslandi. Margir landsmenn hafa rætt það í tengslum við orkupakka þrjú sem auðvitað tengist því ekki neitt.

  • Þar er nefnilega við okkur sjálf að eiga. Við höfum ekki borið gæfu til, alla vega ekki hingað til, að setja regluverk um kaup á landi og endurskoða þar með þá löggjöf sem sett var fyrir fimmtán árum og opnaði allar gáttir og tók út allar hindranir. Ríkisstjórnin hefur hins vegar í hyggju að setja aftur á slíkar reglur.

  • Annað atriði sem margir ræða í tengslum við orkupakka þrjú en hefur heldur ekkert með orkupakka þrjú að gera er mismunandi dreifingarkostnaður á rafmagni í landi og síhækkandi kostnaður við dreifingu, ekki síst í dreifbýli. Þar sem auðlindin er að langmestu leyti í eigu almennings ættu auðvitað allir landsmenn að sitja við sama borð þegar kemur að dreifingarkostnaði. Það er jafnræði.

En núverandi fyrirkomulag er ekki vegna orkupakka eitt eða tvö.

Þetta eru íslensk lög sem við sjálf getum sett og núverandi ríkisstjórn ætlar sér að breyta. Við getum líka sett ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum til að tryggja þetta enn frekar.
Þannig er margt sem rætt er um í tengslum við orkupakka þrjú sem hefur ekkert með hann að gera en eru hins vegar mjög mikilvæg mál sem við þurfum að setja á dagskrá, þurfum að sammælast hér í þinginu um að klára á næstu vikum, mánuðum, misserum. Það erum við svo sannarlega klár í í ríkisstjórnarflokkunum.

  • Við ætlum að taka þessi mál því að þau eru í okkar eigin höndum, þau varða ekki Evrópusambandið eða orkupakka þrjú eða EES-samninginn, þau eru í okkar höndum.

  • Við ætlum í ríkisstjórnarflokkunum að breyta í þágu almennings á Íslandi.“

Categories
Greinar

Liður í að bæta lífskjör blindra og sjónskertra

Deila grein

22/08/2019

Liður í að bæta lífskjör blindra og sjónskertra

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, fagnaði áttatíu ára afmæli þann 19. ágúst síðastliðinn. Frá upphafi hefur félagið unnið að hagsmunamálum blindra og sjónskertra auk þess að veita margvíslega þjónustu og standa fyrir öflugu félagsstarfi, fræðslu og jafningjastuðningi. Félagið hefur jafnframt stuðlað að því að tryggja samræmda heild í þjónustunni þar sem ríki, sveitarfélög og hagsmunasamtök notenda hafa tekið höndum saman með góðum árangri.

Á liðnum árum hefur Blindrafélagið unnið markvisst að því að fjölga leiðsöguhundum til að mæta þörfum félagsmanna sinna. Áratugahefð er fyrir því að blindir og sjónskertir um nánast allan heim nýti hunda í daglegu lífi til þess að komast á milli staða. Hefðin er ekki eins rík hér á landi en á rætur að rekja til þess að fyrir rúmum tíu árum safnaði Blindrafélagið ásamt Lionshreyfingunni á Íslandi fyrir fjórum leiðsöguhundum sem keyptir voru frá Noregi. Það markaði upphafið að því sem síðan hefur verið kallað leiðsöguhundaverkefnið og félagið stendur að í samvinnu við Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

Tólf leiðsöguhundar hafa verið keyptir í gegnum þetta verkefni á síðastliðnum tíu árum og sem stendur eru átta leiðsöguhundar hér á landi. Fimm koma fullþjálfaðir frá Svíþjóð og þrír eru fæddir og þjálfaðir hér á Íslandi. Hundarnir mættu hins vegar vera fleiri enda eru þeir afar mikilvægur liður í því að auka sjálfstæði blindra og aðlögun þeirra og þátttöku í samfélaginu.

Fyrir liggur greinargóð skýrsla Blindrafélagsins og fyrrnefndrar Þjónustu og þekkingarmiðstöðvar um hvernig staðið hefur verið að þjálfun, fjármögnun og úthlutun á leiðsöguhundum hér á landi. Þar er jafnframt að finna tillögur til framtíðar. Í tilefni afmælis félagsins ákvað ég að leggja verkefninu lið með þriggja milljón króna styrk fyrir kaupum og þjálfun á leiðsöguhundi. Hugmyndin er að flýta þannig fyrir framvindu verkefnisins. Þá hyggst ég stofna sérstakan samráðshóp sem fær það hlutverk að vinna að framþróun verkefnisins með tilliti til þeirra tillagna sem komið hafa fram.

Blindrafélagið hefur alla tíð vakað yfir þörfum félagsmanna og stöðugt leitað leiða til að sækja fram á við með það að markmiði að bæta lífskjör og aðstæður þeirra. Leiðsöguhundaverkefnið er skýrt dæmi þess.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. ágúst 2019.

Categories
Fréttir Greinar

Í upphafi skyldi endirinn skoða

Deila grein

15/08/2019

Í upphafi skyldi endirinn skoða

Fá mál á vettvangi löggjafans hafa verið jafn mikið rædd síðustu ár og innleiðing 3 orkupakkans í löggjöf um raforkumál nú á þessu ári. Þá hefur þetta mál allt vakið upp miklar tilfinningar og ótta meðal almennings, enda erfitt að sjá og skilja hvað þessi innleiðing á regluverki geri fyrir land og þjóð. Hafa þeir, sem eru á móti innleiðingunni, sett fram ýmis rök um að með þessu sé verið að greiða fyrir lagningu sæstrengs til landsins, forræði yfir þessum mikilvægu auðlindum sem endurnýjanleg orka er sé í hættu, verð á raforku hækki og jafnframt að yfirstjórn orkumála færist af okkar hendi sem þjóðar yfir til Evrópusambandsins smátt og smátt með hverjum pakkanum sem frá Brussel kemur.
Á móti hafa þingmenn og ýmsir embættismenn bent á að um sé að ræða innleiðingu á löggjöf sem lítil áhrif hafi hér á landi þar sem Ísland er einangrað raforkukerfi í ljósi legu landsins. Um sé að ræða einn lið í samstarfi Evrópuþjóða á grundvelli EES og engin hætta sé á að við missum neitt forræði yfir okkar raforkumálum. Það sé okkur nauðsynlegt að vera í alþjóða samstarfi og samningar eins og EES kalli á samstarf á báða bóga. Þá séu þeir fyrirvarar sem ríkisstjórnin hefur sett við innleiðingu 3 orkupakkans þannig að í engu sé sjálfstæði og fullveldi okkar stefnt í voða í máli þessu.
Það væri að æra óstöðugan að týna til allt það sem sagt hefur verið um þetta mál á síðustu mánuðum enda hefur umræðan, því miður, ekki verið á köflum mjög málefnaleg né farið í röksemdir og þarfir okkar sem þjóðar. Spilað hefur verið á tilfinningar og þá taktík að búa til óvini í umræðunni á báða bóga. Þá hefur það ekki einfaldað neinum að taka afstöðu til málsins að lögfrótt fólk hefur ruðst fram á ritvöllinn með mismunandi skilning og skoðanir á málinu.
En engu að síður er nauðsynlegt að hlusta á alla þá gagnrýni sem þetta mál hefur fengið á sig og afskrifa hana ekki sem þjóðernisraus og afturhald. Kannanir sýna að þjóðin hefur áhyggjur af hvað innleiðing 3 orkupakkans hefur í för með sér, í framtíðinni, en fyrir hana vinna kjörnir fulltrúar og embættismenn þar sem hagsmunir heildarinnar ættu að vera að leiðarljósi.
Það er morgunljóst að við sem lítil og friðsæl þjóð þurfum að eiga í góðu samstarfi um heim allan. Bæði til að koma afurðum okkar í verð, flytja inn það sem okkur vantar og taka þátt í samstarfi þjóða á sem flestum sviðum til að leggja okkar að mörkum. Slík nauðsynleg samvinna er meðal annars fólgin í EES samningnum sem við höfum verið þáttakendur í síðastliðinn 25 ár og hefur fært okkur ýmsis lífsgæði sem við tökum orðið sem sjálfsögðum hlut. Engu að síður þurfum við í ljósi stærðar okkar og sérstöðu að nýta okkur undanþágur þar sem við á í því samstarfi og að tillit sé tekið til sérstöðu okkar sem lítils ríkis og um slíkt sé ekki vafi sem hægt er að rangtúlka.
Innleiðing orkupakka 3 er fyrsta mál á dagskrá þegar Alþingi kemur saman að nýju eftir sumarfrí nú í lok ágúst. Að mínu mati er brýnt til að umræðan rati ekki í sama farið aftur, með tilheyrandi sundrungu, að þingheimur sammælist um það að málið, eins og það er nú sett fram með þeim fyrirvörum að hingað sé ekki hægt að leggja sæstreng án samþykkis Alþingis og þeir hlutar orkupakkans sem snúa að flutningi yfir landamæri taki ekki gildi, verði sent til sameiginlegu EES nefndarinnar til umsagnar og staðfestingar á því hvort áðurnefndir fyrirvarar haldi þannig að slíkt sé hafið yfir allan vafa. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir þá verði orkupakkinn fyrst innleiddur þegar óvissunni hefur verið eytt og rökin í málinu orðin skýr.
Það er eðlilegt að mál sem þetta þar sem framtíð orkuauðlinda þjóðarinnar blandast inn í sé umdeilt. Því er nauðsynlegt að allt í kringum það sé skýrt framsett og óvissu gæti ekki þannig að hægt sé að ala á úlfúð og hræðslu. Framtíð okkar og byggðar í landinu öllu mun ekki síst liggja í því hvernig orkumálum verði umhaldið og nauðsynlegt er að almannaheill sé höfð í forgrunni.
Eitt af grunngildum Framsóknarflokksins sem samvinnuflokks í gegnum tíðina hefur verið slagorðið; Máttur hinna mörgu, þar endurspeglast að samvinna heildarinnar skilar ávallt meiru. Þó misjafnar skoðanir séu á samvinnu- eða einkarekstri þá hljótum við að geta verið öll sammála um að slík grunnstoð sem orkuauðlindir eru þurfa að vera í almannaeign og öll stjórnsýsla í kringum þær hafnar yfir vafa.
 
Höfundur er forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og ritari Framsóknarflokksins.
 
 

Categories
Greinar

Aðgerðir á húsnæðismarkaði að skila árangri

Deila grein

15/08/2019

Aðgerðir á húsnæðismarkaði að skila árangri

Hlutfall fyrstu kaupenda af heildarfjölda íbúðarkaupenda hefur farið stöðugt vaxandi á síðastliðnum misserum og árum að því er fram kemur í nýjustu mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs. Það eru mjög jákvæðar fréttir og sýna að nú sé orðið auðveldara en áður fyrir stærri hóp að safna fyrir útborgun í íbúð. Það er sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að eitt af lykilatriðunum í yfirlýsingu stjórnvalda um stuðning við lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins frá því í vor var að auðvelda ungu fólki og tekjulágum að komast inn á fasteignamarkaðinn.

Betur má ef duga skal

Þetta er vissulega fagnaðarefni en betur má ef duga skal. Í skýrslu sem verkefnisstjórn, sem ég skipaði til að fjalla um aðgerðir til að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn, skilaði af sér í vor, kom fram að þröskuldur ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkað væri enn of hár. Þrátt fyrir aukinn kaupmátt og sögulega lága raunvexti. Í félagsmálaráðuneytinu er því unnið að því, í samstarfi við Íbúðalánasjóð og aðila vinnumarkaðarins, að útfæra enn frekari úrræði til stuðnings fyrstu kaupendum og tekjulágum.

Hinir tekjulægstu mega ekki gleymast

Húsnæði er grunnþörf allra og það er óábyrgt ef við skiljum stóra hópa eftir á húsnæðismarkaði. Leigumarkaðurinn nærri því tvöfaldaðist í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 og samkvæmt könnun Íbúðalánasjóðs telja 92% leigjenda það óhagstætt að leigja og einungis 8% telja sig geta farið af leigumarkaði innan sex mánaða. Þá er ótalið allt það fólk sem missti húsnæði sitt í efnahagshruninu og hefur ekki komist inn á fasteignamarkaðinn á nýjan leik. Í mörgum tilfellum nær það fólk einfaldlega ekki að brúa bilið sem til þarf til að leggja fram 20-30% eigið fé við kaup á íbúð. Þessir hópar mega ekki gleymast.

Félagsmálaráðuneytið vinnur að margvíslegum fleiri aðgerðum til að stuðla að auknu jafnvægi og stöðugleika á húsnæðismarkaði. Nýlega var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda tilraunaverkefni á vegum Íbúðalánsjóðs til þess að bregðast við vanda sveitarfélaga á landsbyggðinni. Bind ég miklar vonir við að það geti orðið til þess að rjúfa stöðnun í atvinnumálum landsbyggðarinnar þar sem skortur á hentugu íbúðarhúsnæði hamlar oftar en ekki uppbyggingu atvinnulífs í héraði.

Á næsta þingi hyggst ég síðan mæla fyrir umfangsmiklum breytingum á lögum sem varða húsnæðismál. Þar á meðal eru breytingar á lögum um almennar íbúðir sem þegar hafa verið kynntar en þær felast meðal annars í breytingum á tekju- og eignamörkum þannig að fleiri eigi kost á að leigja og búa í almennum leiguíbúðum. Sömuleiðis eru fyrirhugaðar breytingar á húsaleigulögum til að tryggja enn betur réttarstöðu leigjenda.

Með fyrirhugaðri sameiningu Mannvirkjastofnunar og þess hluta Íbúðalánasjóðs sem snýr að framkvæmd húsnæðisstuðnings stjórnvalda verður til ný öflug húsnæðisstofnun. Stofnunin fær það hlutverk að framfylgja stefnu stjórnvalda um að almenningur hafi ávallt aðgang að viðunandi og öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði í samræmi við þarfir hvers og eins, óháð efnahag og búsetu. Sú krafa kom jafnframt skýrt fram í lífskjarasamningunum. Framangreindar aðgerðir eru skref í þessa átt.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. ágúst 2019

Categories
Greinar

Hringnum lokað

Deila grein

14/08/2019

Hringnum lokað

Fyr­ir ná­kvæm­lega 45 árum og ein­um mánuði, 14. júlí 1974, var blásið í lúðra við Skeiðar­ár­brú og hald­inn dans­leik­ur á palli fram eft­ir kvöldi. Til­efnið var vígsla brú­ar­inn­ar, en með henni var hringn­um lokað og Hring­veg­ur­inn, sem teng­ir byggðir um­hverf­is landið, form­lega opnaður. Skeiðar­ár­brú var án nokk­urs efa ein mesta sam­göngu­bót Íslend­inga fyrr og síðar. Upp frá þeim tíma gat ekk­ert hamlað greiðri för bif­reiða hring­inn í kring­um landið og vega­sam­göng­ur tóku stakka­skipt­um.

Í fram­hald­inu var fljót­lega farið að leggja bundið slitlag á þjóðvegi víðs veg­ar um landið. Nú, fjór­um ára­tug­um seinna, er tíma­bært og ánægju­legt að hafa lokið því brýna verk­efni að leggja slitlag á all­an hring­inn með nýj­um veg­arkafla um Beru­fjarðar­botn. Það kann að hljóma und­ar­lega í eyr­um margra að ekki hafi verið komið bundið slitlag á all­an hring­inn fyr­ir löngu og má tína til marg­ar ástæður fyr­ir því.

Skipt­ar skoðanir um leiðir

Þjóðvega­kerfið er viðamikið, um 13 þúsund kíló­metr­ar, og fyr­ir fá­menna þjóð kost­ar mikla fjár­muni að byggja það upp svo að upp­fylli megi lág­marks­kröf­ur. Á und­an­förn­um árum hafa fjár­mun­ir verið af enn skorn­ari skammti og for­gangs­röðun vega­fram­kvæmda verið í þágu um­ferðarör­ygg­is þar sem um­ferðin er mest. Und­ir­bún­ing­ur að þess­um lokakafla hring­veg­ar­ins á sér lang­an aðdrag­anda og má rekja til árs­ins 2007. Skipt­ar skoðanir voru um leiðir um Beru­fjarðar­botn, sem seinkaði und­ir­bún­ingi verks­ins, en niðurstaðan var þessi nýi veg­kafli sem ég held að við get­um öll verið ánægð með.

Flók­inn und­ir­bún­ing­ur

Það leiðir hug­ann að öðrum brýn­um vega­fram­kvæmd­um sem hafa dreg­ist úr hófi. Und­ir­bún­ing­ur nýrr­ar veg­línu er mun flókn­ari í dag, ferlið langt þar sem marg­ir aðilar og stofn­an­ir koma að mál­um, s.s. skipu­lags­yf­ir­völd, land­eig­end­ur og íbú­ar. Stjórn­sýslu­ferlið er því flókið og get­ur leitt af sér ófyr­ir­séðar niður­stöður með til­heyr­andi seink­un­um á sam­göngu­bót­um. Hverj­ar sem ástæðurn­ar kunna að vera koma þær nær oft­ast niður á al­menn­ingi og fyr­ir­tækj­um á svæðinu.

Ný sam­göngu­áætlun

Frá því að hringn­um var lokað hef­ur vega­kerfið batnað um­tals­vert und­an­farna ára­tugi. Mikið verk er þó óunnið sem brýnt er að hraða eins og kost­ur er. Um­ferð á veg­um hef­ur auk­ist mjög hratt á síðustu árum en vega­kerfið er víða við þol­mörk vegna um­ferðar og ber þess merki. Í stjórn­arsátt­mál­an­um var sam­mælst um stór­sókn í sam­göngu­mál­um og verður um 120 millj­örðum kr. varið úr rík­is­sjóði til fram­kvæmda á vega­kerf­inu á næstu fimm árum. Þess fyr­ir utan hef­ur verið leitað allra leiða til að hraða vega­fram­kvæmd­um enn frek­ar og mun ég leggja fram end­ur­skoðaða fimm ára sam­göngu­áætlun núna í haust á Alþingi. Þar ber hæst stærri fram­kvæmd­ir sem mætti flýta, en verða gjald­skyld­ar að þeim lokn­um. Gert er ráð fyr­ir sér­stakri jarðganga­áætl­un og er miðað við að haf­in verði hóf­leg gjald­taka til þess að standa straum af kostnaði við rekst­ur og viðhald þeirra. Þá er mark­mið að gera um­ferð á höfuðborg­ar­svæðinu skil­virk­ari og er ljóst að ríki og sveit­ar­fé­lög geta ekki borið nema að hluta til fyr­ir­huguð sam­göngu­mann­virki, um­ferðar­gjöld muni því renna til verk­efn­anna.

Næstu ár

Öryggi er sem fyrr leiðarljósið í öll­um fram­kvæmd­um og er stærsta verk­efnið að auka ör­yggi í um­ferðinni. Mark­mið til lengri tíma er að stytta vega­lengd­ir og tengja byggðir með bundnu slit­lagi, sem er eðli­legt fram­hald eft­ir að hafa lokað hringn­um. Til­gang­ur­inn er skýr; að efla at­vinnusvæði og bú­setu um land allt til að Ísland verði í fremstu röð með trausta og ör­ugga innviði og öfl­ug sveit­ar­fé­lög.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. ágúst 2019.

Categories
Fréttir

Ályktun sveitarstjórnarráðs Framsóknar

Deila grein

12/08/2019

Ályktun sveitarstjórnarráðs Framsóknar

Sveitarstjórnarráð Framsóknarflokksins skorar á þingmenn flokksins að beita sér hratt og af fullum þunga í þeirri viðleitni að koma böndum og regluverki á jarðarkaup erlendra aðila. Sú þróun sem hefur átt sér stað síðustu ár er óviðunandi. Forsenda fyrir heilbrigðri byggð í landinu og því að samfélög þrífist í dreifðari byggðum hlýtur að vera tengd því að eigendur búi á jörðum sínum eða í næsta nágrenni og að hagsmunir eigenda og samfélagsins fari saman.
Það er ekki hagur samfélagsins okkar í heild að aðilar fjárfesti í jörðum í stórum stíl til þess eins að nýta þær auðlindir sem þar eru en færa samfélaginu ekkert til baka, hvorki í formi útsvarstekna né annars sem má telja til hagsbóta fyrir nærsamfélagið.
Aðrar þjóðir hafa sett sér regluverk til að fyrirbyggja þá þróun sem virðist eiga sér stað á Íslandi í dag. Til eru fjölmörg fordæmi sem taka á þessu málefni og því sjálfsagt að líta til þeirra til að vinna verkin hratt og vel.
Ingibjörg Isaksen, formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar.

Categories
Greinar

Aðgerðir gegn einelti og ofbeldi á vinnustöðum

Deila grein

10/08/2019

Aðgerðir gegn einelti og ofbeldi á vinnustöðum

Ný­lega lauk þingi Alþjóðavinnu­mála­stofn­un­ar­inn­ar, Alþjóðavinnu­málaþing­inu, sem var hið 108. í röðinni. Þess var minnst með marg­vís­leg­um hætti að öld er liðin frá því að stofn­un­in hóf starf­semi árið 1919. Henni var sett það mark­mið að ráða bót á fé­lags­leg­um vanda­mál­um sem öll ríki áttu við að stríða og aðeins yrði sigr­ast á með sam­eig­in­legu fé­lags­legu átaki þjóðanna. Bjarg­föst trú þeirra full­trúa rík­is­stjórna, at­vinnu­rek­enda og launa­fólks sem mótuðu Alþjóðavinnu­mála­stofn­un­ina var að var­an­leg­ur friður yrði ekki tryggður nema fé­lags­legu rétt­læti væri fyrst komið á inn­an þjóðfé­lag­anna. Órétt­læti væri upp­spretta árekstra sem leiddu til styrj­alda þjóða í milli. Þess­ir full­trú­ar höfðu fyr­ir aug­un­um sviðna jörð og hús­a­rúst­ir og áttu marg­ir hverj­ir um sárt að binda eft­ir gíf­ur­leg­ar mann­fórn­ir í fyrri heims­styrj­öld­inni.

Fjöl­marg­ir þjóðarleiðtog­ar og for­ystu­menn í fé­lags- og vinnu­mál­um sóttu þingið af þessu til­efni. Nefna má for­seta Ítal­íu, Frakk­lands, Gana og Suður-Afr­íku. Enn frem­ur fjöl­marga for­sæt­is­ráðherra. Í þeim hópi voru for­sæt­is­ráðherr­ar Nor­egs, Svíþjóðar, Lúx­em­borg­ar, Bret­lands, Nepals o.fl. Aldrei í sögu sam­tak­anna hafa jafn marg­ir sótt þingið, eða rúm­lega sex þúsund full­trú­ar rík­is­stjórna, sam­taka at­vinnu­rek­enda og sam­taka launa­fólks.

Eitt af mik­il­væg­ustu verk­efn­um Alþjóðavinnu­málaþings­ins er að fara yfir ár­lega skýrslu sér­fræðinga­nefnd­ar stofn­un­ar­inn­ar um fram­kvæmd aðild­ar­ríkj­anna 187 á þeim alþjóðasamþykkt­um um fé­lags- og vinnu­mál sem þau hafa full­gilt. Fram­kvæmd Tyrk­lands á alþjóðasamþykkt um fé­laga­frelsi var meðal þess sem kom til kasta þings­ins. Full­trú­ar launa­fólks voru mjög gagn­rýn­ir á ástandið í land­inu og röktu mörg dæmi um það hvernig stjórn­völd hefðu komið í veg fyr­ir starf­semi stétt­ar­fé­laga sem væru þeim ekki að skapi. Einnig var rakið hvernig tug­ir þúsunda höfðu verið hneppt­ir í varðhald vegna upp­log­inna full­yrðinga um stuðning við mis­heppnað vald­arán fyr­ir nokkr­um árum.

Und­ir­bún­ing­ur fyr­ir af­mælis­árið hófst fyr­ir þrem­ur árum. Aðild­ar­rík­in voru hvött til þess að stofna til umræðna og rann­sókn­ar­verk­efna um viðbrögð við fyr­ir­sjá­an­leg­um breyt­ing­um á skipu­lagi vinn­unn­ar og vinnu­um­hverfi. Norður­lönd­in svöruðu þessu kalli með sam­eig­in­legu verk­efni sem fólst í ár­leg­um ráðstefn­um um af­markaða þætti fé­lags- og vinnu­mála. Loka­hnykk­ur­inn í nor­ræna verk­efn­inu var ráðstefna sem hald­in var í Hörpu dag­ana 4. og 5. apríl sl. Sam­eig­in­legt álit var að þessi ráðstefna hefði borið af bæði hvað varðaði skipu­lag og umræður. Nefnd á veg­um Alþjóðavinnu­mála­stofn­un­ar­inn­ar, sem laut m.a. for­mennsku Stef­an Löf­vens, for­sæt­is­ráðherra Svíþjóðar, vann úr rann­sókn­um og gögn­um frá ráðstefn­un­um sem haldn­ar voru í til­efni af ald­araf­mæl­inu og birti í skýrslu. Í henni áttu sæti þjóðarleiðtog­ar og for­ystu­menn sam­taka at­vinnu­rek­enda og launa­fólks á alþjóðavísu. Efni skýrsl­unn­ar var til um­fjöll­un­ar í sjö áhuga­verðum pall­borðsum­ræðum á Alþjóðavinnu­málaþing­inu. Helsta niðurstaðan er sú að leggja þarf áherslu á end­ur­mennt­un og þjálf­un auk fé­lags­legs stuðnings­kerf­is sem gef­ur fólki tæki­færi til að bregðast við óumflýj­an­leg­um breyt­ing­um sem fylgja nýrri tækni og breytt­um verk- og fram­leiðslu­hátt­um.

Fyr­ir þessu af­mæl­isþingi Alþjóðavinnu­mála­stofn­un­ar­inn­ar lágu til­lög­ur að nýrri alþjóðasamþykkt og til­mæli um nán­ari út­færslu á aðgerðum gegn einelti og of­beldi á vinnu­stöðum. Um var að ræða síðari umræðu en fyrri umræða fór fram á þing­inu árið 2018 og lauk í mikl­um ágrein­ingi sem m.a. sner­ist um skil­grein­ing­ar og upp­taln­ingu hópa sem gætu tal­ist í hættu á að verða fyr­ir aðkasti vinnu­fé­laga. Eft­ir mjög strembn­ar umræður tókst góð samstaða í þing­nefnd­inni sem hélt til loka þings­ins. Til­lag­an að samþykkt og til­mæl­um naut víðtæks stuðnings þing­full­trúa. Gildi þess­ara gerða felst í því að með þeim er lagður grunn­ur að aðgerðum til að skapa vinnu­um­hverfi sem bygg­ist á virðingu fyr­ir mann­legri reisn og er laust við hvers kon­ar of­beldi og einelti.

Ég hef þegar óskað eft­ir því við sam­starfs­nefnd fé­lags­málaráðuneyt­is­ins og helstu sam­taka at­vinnu­rek­enda og launa­fólks um mál­efni Alþjóðavinnu­mála­stofn­un­ar­inn­ar að hún taki samþykkt­ina til um­fjöll­un­ar með það fyr­ir aug­um að Ísland verði í hópi þeirra ríkja sem fyrst full­gilda þessa nýju alþjóðasamþykkt sem hef­ur ekki síst það mark­mið að tryggja mann­sæm­andi vinnu­um­hverfi.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. ágúst 2019.

Categories
Fréttir

„Skylda okk­ar Íslend­inga að rækta þessi tengsl af alúð og al­vöru“

Deila grein

09/08/2019

„Skylda okk­ar Íslend­inga að rækta þessi tengsl af alúð og al­vöru“

Lilja Dögg Alfreðsdóttirmennta- og menningarmálaráðherra, segir það hafa verið stór­kost­legt að taka þátt í Íslend­ingadög­un­um í Mountain í Norður-Dakóta í Banda­ríkj­un­um og í Gimli í Manitoba-fylki í Kan­ada um liðna helgi. Þetta kemur fram í grein hennar í Morgunblaðinu í vikunni, „Fjársjóður í vesturheimi“.
„Vest­ur-Íslend­ing­ar leggja mikið á sig til þess að rækta tengsl sín við Ísland og halda sögu sinni og menn­ingu á lofti. Á þess­um slóðum í Kan­ada og Banda­ríkj­un­um eru af­kom­end­ur Íslend­inga sem tala ís­lensku án þess að hafa búið á Íslandi. Þrátt fyr­ir að rúm 100 ár séu liðin frá því að bú­ferla­flutn­ing­ar vest­urfar­anna liðu und­ir lok er fólk enn mjög meðvitað um upp­runa sinn og er stolt af hon­um. Slíkt er alls ekki sjálf­gefið en sú þrautseigja, áhugi, dugnaður og þjóðrækni sem býr í Vest­ur-Íslend­ing­um er til eft­ir­breytni,“ segir Lilja.
„Íslend­inga­deg­in­um var fagnað í 120. skipti í bæn­um Mountain í Norður-Dakóta í Banda­ríkj­un­um og í 130. skipti í Gimli í Manitoba-fylki í Kan­ada um liðna helgi. Að deg­in­um standa af­kom­end­ur vest­urfara sem héldu frá Íslandi til Norður-Am­er­íku á ár­un­um 1875-1914 en talið er að milli 15.000 og 20.000 Íslend­ing­ar hafi flust bú­ferl­um og hafið nýtt líf í Vesturheimi. Á þess­um tíma fluttu um 52 millj­ón­ir Evr­ópu­búa til Vesturheims meðal ann­ars vegna þess að land­búnaðarsam­fé­lög­in gátu ekki fram­leitt nægj­an­lega mikið í takt við þá miklu fólks­fjölg­un sem átti sér stað í Evr­ópu en á tíma­bil­inu 1800-1930 fjölgaði íbú­um álf­unn­ar úr 150 millj­ón­um í 450 millj­ón­ir.“
Manitoba er fjöl­menn­asta byggðarlag Íslend­inga í heim­in­um utan Íslands en sam­kvæmt Hag­stofu Kan­ada hafa um 90 þúsund Kan­ada­menn skráð upp­runa sinn sem ís­lensk­an. Sögu þessa fjöl­menna hóps þarf að gera betri skil á Íslandi og það er skylda okk­ar Íslend­inga að rækta þessi tengsl af alúð og al­vöru,“ segir Lilja.

Categories
Fréttir

„Þoli illa að sitja hjá“

Deila grein

09/08/2019

„Þoli illa að sitja hjá“

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð og formaður Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, segir stórfelld uppkaup á jörðum er safnist í hendur fárra eignamanna og falli í flestum tilfellum úr hefðbundnum búskap ógna byggðum landsins, atvinnuuppbyggingu og sjálfstæði þjóðar. Þetta kemur fram í grein hennar í vikunni, „Uppkaup á landi“.
„Síðastliðna daga hef ég sem sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar fengið upphringingar frá blaðamönnum vegna sölu á jörðinni Atlastöðum í Svarfaðardal til fyrirtækis í eigu erlendra aðila. Spurt er hvort sveitarfélagið hafi áhyggjur af sölunni og innt er eftir viðbrögðum.
Sveitarfélagið hefur ekki forkaupsrétt að jörðum í sveitarfélaginu og því kom salan ekki inn á borð sveitarstjórnar. Aukin heldur er það ekki á stefnuskrá sveitarstjórnar að kaupa jarðir. Því getur sveitarstjórn ekki annað en setið hjá og vonað að nýir eigendur muni rækta sína jörð, standa við þær skuldbindingar sem felast í jarðareign í sveit og verði virkir þátttakendur í samfélagi sveitarinnar,“ segir Katrín.
Segir Katrín að ráðamenn hafi lengi ætlað að koma lagasetningu á þessi kaup. Bendir hún á að nágrannaþjóðir hafi brugðist við slíkum kaupum og sett lög um að „jarðir þurfi að vera í ákveðnum búskap eða nýtingu, að einn og sami aðili og tengdir aðilar megi ekki eiga fleiri en X jarðir, að eigandi þurfi að vera með lögheimili á jörðinni o.s.frv.“.
„Ég er ein af þeim sem þoli illa að sitja hjá og horfa á þetta gerast fyrir framan nefið á mér. Ég veit að þannig er með margan Íslendinginn. Því hvet ég núverandi ríkisstjórn til lagasetningar á haustþingi sem vonandi tekur fyrir uppkaup á landi með þeim hætti sem er að gerast í dag,“ segir Katrín.
Uppkaup á landi