Categories
Greinar

Mælaborð mikilvægt í breytingum í þágu barna

Deila grein

30/09/2019

Mælaborð mikilvægt í breytingum í þágu barna

Breytingar í þágu barna er yfirskrift ráðstefnu sem ég hef boðað til miðvikudaginn 2. október næstkomandi en þar verða fyrstu tillögur að nýju velferðarkerfi fyrir börn og fjölskyldur kynntar. Mikilvægur hlekkur í því kerfi er svokallað mælaborð sem ætlað er að varpa ljósi á velferð barna.

Það hefur verið eitt af aðaláherslumálum mínum sem ráðherra að auka velferð barna og gera breytingar á kerfinu til þess að það þjóni börnunum okkar sem best. Ég setti mér það markmið strax í upphafi, hef róið að því öllum árum og nú er komið að vendipunkti í þeirri vinnu.

Ég þykist vita að flestir hugsi breytingar þannig að þær eigi að vera til batnaðar. Hér er um að ræða mjög viðamiklar breytingar og til þess að vera viss um að þær skili árangri þótti mér nauðsynlegt að styðjast við mælitæki sem gæfi til kynna hvernig staðan er, hvaða breytinga er þörf og hvernig svo tekst til með þær aðgerðir sem framkvæmdar eru.

Í því skyni var í júní síðastliðinn samið um þróun mælaborðs sem ætlað er að tryggja betri yfirsýn yfir velferð barna. Aðilar samningsins eru auk félagsmálaráðuneytisins, Kópavogsbær, UNICEF á Íslandi og hugbúnaðarfyrirtækið Kara Connect. Mælaborðinu er ætlað að vinna og greina gögn í þeim tilgangi að mögulegt verði að sjá sem allra best á hvaða sviðum þurfi að bregðast við og hvort viðbrögðin skili tilætluðum árangri. Því er ætlað að tryggja rétta stýringu aðgerða og þar með betri nýtingu fjármuna.

Vonir standa til þess að í náinni framtíð muni mælaborðið geta nýst hverju og einu sveitarfélagi og þar með landinu öllu. Á ráðstefnunni 2. október verður mælaborðið kynnt frekar og gefst þátttakendum kostur á að leggja sitt af mörkum við að þróa það áfram. Auk þess verður farið yfir fyrirhugaðar kerfisbreytingar í þágu barna í heild. Fullt er á ráðstefnuna en áhugasömum er bent á að fylgjast með beinu streymi á vef Stjórnarráðsins.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. september 2019.

Categories
Greinar

Betri tímar í umferðinni

Deila grein

27/09/2019

Betri tímar í umferðinni

Í gær skrifuðu rík­is­stjórn og stjórn­end­ur sveit­ar­fé­lag­anna á höfuðborg­ar­svæðinu und­ir tíma­móta­sam­komu­lag um stór­sókn til bættra sam­gangna. Tíma­mót­in fel­ast ekki síst í því að ríkið og sveit­ar­fé­lög­in á höfuðborg­ar­svæðinu hafa náð sam­an um sam­eig­in­lega sýn um fjöl­breytt­ar sam­göng­ur á höfuðborg­ar­svæðinu en sam­skipti þess­ara aðila hafa nán­ast verið í frosti ára­tug­um sam­an þegar kem­ur að sam­göng­um. Borg­in hef­ur bar­ist fyr­ir einni leið og Vega­gerðin fyr­ir ann­arri en báðir hafa haft sama mark­mið: að bæta og auðvelda um­ferð á svæðinu.

Ekki lausn, held­ur lausn­ir

Niðurstaðan sem kynnt var í gær er ávöxt­ur þess að strax þegar ég sett­ist stól ráðherra sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­mála ákvað ég að leiða sam­an þessa and­stæðu póla til að vinna að lausn máls­ins. Útkom­an er hag­stæð fyr­ir alla, hvort sem þeir vilja aka sín­um fjöl­skyldu­bíl, nýta al­menn­ings­sam­göng­ur, ganga eða hjóla. Ríf­lega 52 millj­arðar króna fara í stofn­vegi, tæp­lega 50 millj­arðar í upp­bygg­ingu innviða fyr­ir hágæða al­menn­ings­sam­göng­ur, rúm­lega 8 millj­arðar í göngu- og hjóla­stíga, brýr og und­ir­göng og rétt rúm­ir sjö millj­arðar í um­ferðar­stýr­ingu.

Fjöl­breytt fjár­mögn­un

Lyk­ill­inn að því að hægt sé að ráðast í svo stór­kost­leg­ar fram­kvæmd­ir er að fjár­magn sé tryggt. Ríkið legg­ur til 45 millj­arða, sveit­ar­fé­lög­in 15 millj­arða og sér­stök fjár­mögn­un verður 60 millj­arðar. Sér­stök fjár­mögn­un verður að ein­hverju leyti í formi um­ferðar­gjalda sem verður hluti af þeirri vinnu sem unnið er að í fjár­málaráðuneyt­inu varðandi end­ur­skipu­lagn­ingu fjár­mögn­un­ar­kerf­is í sam­göng­um vegna orku­skipt­anna. Sam­göngu­kerfið er nú fjár­magnað með bens­ín- og ol­íu­gjöld­um sem fara hratt minnk­andi vegna örr­ar fjölg­un­ar vist­vænna öku­tækja.

Sunda­braut

Eitt af því sem sam­komu­lagið renn­ir stoðum und­ir er bygg­ing Sunda­braut­ar sem lengi hef­ur verið í umræðunni en ekki hef­ur náðst sam­komu­lag um. Með þess­um fram­kvæmd­um er lagður grunn­ur að betri teng­ingu höfuðborg­ar­svæðis­ins við lands­byggðina með veglagn­ingu yfir sund­in upp á Kjal­ar­nes. Sú teng­ing myndi létta á um­ferð í Ártúns­brekku og með sterk­ari stofn­veg­um á höfuðborg­ar­svæðinu auðvelda mjög um­ferð í gegn­um svæðið til Kefla­vík­ur­flug­vall­ar.

Tím­inn er dýr­mæt­ur

Sam­göng­ur snú­ast fyrst og fremst um lífs­gæði. Tím­inn er stöðugt mik­il­væg­ari þátt­ur í lífs­gæðum, við vilj­um ráða því sem mest sjálf hvernig við verj­um tíma okk­ar. Tím­inn sem fer í um­ferðarflækj­ur er ekki aðeins óhag­stæður fyr­ir efna­hag­inn held­ur geng­ur hann á þann tíma sem við ætl­um okk­ur með fjöl­skyldu og vin­um. Betri um­ferðarmann­virki stuðla einnig að bættri um­ferðar­menn­ingu og ör­ugg­ari um­ferð, færri slys­um. Áhersla mín á öfl­ug­ar sam­göng­ur um allt land er kom­in til vegna þess að ég trúi því að öfl­ug­ar sam­göng­ur séu hluti af sterk­ara sam­fé­lagi. Sam­göngusátt­máli höfuðborg­ar­svæðis­ins er mik­il­væg­ur hluti af þeirri sýn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. september 2019.

Categories
Greinar

Hvers vegna þarf að styðja ungt og tekjulágt fólk til fasteignakaupa?

Deila grein

26/09/2019

Hvers vegna þarf að styðja ungt og tekjulágt fólk til fasteignakaupa?

Hér á landi er al­gengt að líta á hús­næðismál með þeim aug­um að það sé ein­göngu hlut­verk markaðar­ins að leysa mál­in. Þetta sé ein­fald­lega spurn­ing um fram­boð og eft­ir­spurn. Vissu­lega er mik­il­vægt að huga að sam­spili fram­boðs og eft­ir­spurn­ar en hús­næði er fyrst og síðast ein af grunnþörf­um allra fjöl­skyldna. Í því ljósi eiga hús­næðismál að fá aukið vægi í umræðunni um stöðu fjöl­skyldna og í raun allri umræðu um vel­ferðar­mál.

Mik­ill meiri­hluti vill kom­ast í eigið hús­næði

Áætlað er að í kring­um 30.000 heim­ili séu á leigu­markaði á Íslandi. Þetta svar­ar til um 17 pró­sent ein­stak­linga yfir 18 ára aldri. Leigu­markaður­inn nærri tvö­faldaðist í kjöl­far efna­hags­hruns­ins haustið 2008 og sam­kvæmt könn­un Íbúðalána­sjóðs telja 92 pró­sent leigj­enda það óhag­stætt að leigja og ein­ung­is átta pró­sent telja sig geta farið af leigu­markaði inn­an sex mánaða. Á sama tíma segj­ast 86 pró­sent leigj­enda myndu vilja búa í eig­in hús­næði sam­kvæmt ný­legri könn­un Íbúðalána­sjóðs og aðeins átta pró­sent leigj­enda segj­ast vera á leigu­markaði af því þeir vilja vera þar. Af þessu má draga þá álykt­un að mik­ill meiri­hluti þeirra sem er á leigu­markaði vilji kom­ast í eigið hús­næði.

Fleiri þurfa aðstoð fjöl­skyldu við kaup á hús­næði

Í mörg­um til­fell­um nær fólk ein­fald­lega ekki að brúa bilið sem þarf til að leggja fram 20-30 pró­senta eigið fé við kaup á íbúð. Niður­stöður könn­un­ar sem fram­kvæmd var í fyrra bend­ir til þess að 44 pró­sent þeirra sem keyptu sína fyrstu fast­eign á ár­un­um 2000-2009 hafi fengið aðstoð frá vin­um eða ætt­ingj­um en á meðal þeirra sem keyptu fyrstu fast­eign sína árið 2010 eða síðar hafi hlut­fallið verið 59 pró­sent. Þess­ar niður­stöður gefa til kynna að inn­an við helm­ing­ur þeirra sem hafa keypt fyrstu fast­eign sína á und­an­förn­um árum hafi gert það hjálp­ar­laust. Sam­hliða þessu fer hlut­fall þeirra sem eru í lægstu tekju­tí­und­um sam­fé­lags­ins hækk­andi á leigu­markaði. Þá eru þrjú af hverj­um fjór­um heim­il­um á leigu­markaði með sam­an­lagðar heim­ilis­tekj­ur und­ir 800.000 kr. á mánuði og meira en helm­ing­ur með und­ir 550.000 kr.

Aðgerðir hjálpi öll­um að eign­ast hús­næði

Í ljósi of­an­ritaðs hljót­um við að geta verið sam­mála um að óheft­ur markaður­inn hef­ur ekki skilað úr­lausn fyr­ir þann hóp sem nú er á leigu­markaði. Þess vegna erum við nú að skoða kerf­is­breyt­ing­ar sem miða að því að styðja við íbúðar­kaup ungs fólks, tekju­lægri ein­stak­linga og fjöl­skyldna sem misstu eign­ir sín­ar í hrun­inu. Þarna er bæði unnið að því að hægt verði að nýta líf­eyr­is­sparnað sem inn­borg­un við fast­eigna­kaup en einnig er unnið að frum­varpi til inn­leiðing­ar á sér­stök­um hlut­deild­ar­lán­um að skoskri og breskri fyr­ir­mynd.

Hlut­deild­ar­lán til að yf­ir­stíga þrösk­uld­inn

Hlut­deild­ar­lán er úrræði sem hugsað er til að mæta þeim bresti sem nú rík­ir á hús­næðismarkaði og er ætlað að auðvelda ungu fólki og tekju­lágu að eign­ast eigið hús­næði. Hlut­deild­ar­lán­in bera lægri vexti og af­borg­an­ir fyrstu árin og eiga þannig að gera tekju­lág­um kleift að kom­ast yfir út­borg­un­arþrösk­uld­inn þar sem krafa um eigið fé er lægri. Ríkið fær síðan end­ur­greitt þegar eig­andi sel­ur viðkom­andi íbúð eða greiðir lánið upp á matsvirði. Helstu kost­ir eru aug­ljós­ir. Ung­ir og tekju­lág­ir eiga auðveld­ara með að koma sér þaki yfir höfuðið, bygg­ing­araðilar njóta auk­ins fyr­ir­sjá­an­leika um markað fyr­ir íbúðir og lán­veit­end­ur fá ör­ugg­ari lán með lægra veðhlut­falli og ættu því að geta boðið hag­stæðari kjör.

Útfærsla á hlut­deild­ar­lán­um eru nú í vinnslu í góðu sam­starfi við aðila vinnu­markaðar líkt og lífs­kjara­samn­ing­ar lögðu grunn að. Þetta úrræði hef­ur skilað góðum ár­angri í Bretlandi og Skotlandi síðastliðin sex ár og erum við í góðu sam­starfi við stjórn­völd þar um heppi­lega inn­leiðingu og út­færsl­ur.

Eitt af meg­in­mark­miðum mín­um í embætti ráðherra er að gera ungu og tekju­lágu fólki kleift að kaupa sínu fyrstu íbúð. Hlut­deild­ar­lán eru góð og skyn­sam­leg leið til koma íbúðar­kaup­end­um yfir út­borg­un­arþrösk­uld­inn í upp­hafi. Ég bind mikl­ar von­ir við að þau muni ryðja sér til rúms á ís­lensk­um hús­næðismarkaði og hjálpi ungu fólki, tekju­lág­um og fólki sem misst hef­ur hús­næði að eign­ast þak yfir höfuðið.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. september 2019.

Categories
Fréttir

Vefjagigt hrjáir fólk á öllum aldri – hinn þögli sjúkdómur

Deila grein

25/09/2019

Vefjagigt hrjáir fólk á öllum aldri – hinn þögli sjúkdómur

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, endurflutti þingsályktun um vefjagift á Alþingi í gær. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í dag.
„Þar sem ég skora á heilbrigðisráðherrann að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu með það að markmiði að styrkja greiningarferlið og bjóða upp á heildræna meðferð.
Vefjagigt getur lagst mjög hart á fólk og dregið verulega úr lífsgæðum og færni til daglegra athafna. Vefjagigt hrjáir fólk á öllum aldri en er algengust hjá konum á miðjum aldri. Oft nefndur hinn þögli sjúkdómur enda nokkuð erfitt að greina hann og fólk ber þetta ekki utan á sér,“ segir Halla Signý.
 

Categories
Fréttir

Gróska í notkun stafrænnar tækni

Deila grein

25/09/2019

Gróska í notkun stafrænnar tækni

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar, segir mikla grósku í notkun stafrænnar tækni í Snælandsskóla. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í gær.
„Það var frábært að sjá þessa öflugu og kláru nemendur fara yfir forritunarverkefnin sín og kynnast þessum fjölbreyttu notkunarmöguleikum!“
Í Snælandsskóla „er lögð rík áhersla á skapandi greinar, svo sem forritun, kvikmyndagerð og sýndarveruleika,“ segir Lilja Dögg.
 

Categories
Fréttir

„Upplifi ákveðið tómarúm og djúpa þrá eftir því að vita meira“

Deila grein

25/09/2019

„Upplifi ákveðið tómarúm og djúpa þrá eftir því að vita meira“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, hefur lagt fram þingsályktun á Alþingi „um að dómsmálaráðherra tryggi það að börn sem getin eru með tæknifrjóvgun eigi rétt á upplýsingum um uppruna sinn. Réttindi barns til að vita uppruna sinn vegi þyngra en nafnleynd sæðis- og eggjagjafa.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar á dögunum.

„Lögin eins og þau eru í dag kveða á um algjöra nafnleynd sæðis- og eggjagjafa. Hvorki má veita gjafa upplýsingar um parið sem fær kynfrumurnar eða barnið né veita parinu eða barninu upplýsingar um gjafa,“ segir Silja Dögg.
„Silja Dögg segir að frumvarpið sé mikilvægt til að tryggja hagsmuni þessara barna. Mörg þeirra upplifi ákveðið tómarúm og djúpa þrá eftir því að vita meira um uppruna sinn,“ segir í frétt á vef Ríkisútvarpsins.

 

Categories
Fréttir

„Ein stærsta uppbygging atvinnulífsins í hinum dreifðu byggðum“

Deila grein

25/09/2019

„Ein stærsta uppbygging atvinnulífsins í hinum dreifðu byggðum“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, segir að það skipti „máli að unnið verði að afli að uppbyggingu og utanumhald um þessi grein, sem er ein stærsta uppbygging atvinnulífsins í hinum dreifðu byggðum síðara ára.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í dag.
„Ekki hefur ríkt einhugur hér á landi um fiskeldi og hefur uppbygging atvinnugreinarinnar sætt mikilli gagnrýni, ekki síst frá hagsmunasamtökum laxveiðimanna og veiðifélögum. Engu að síður hafa framleiðsluheimildir í fiskeldi nær tvöfaldast á þessu ári og eru nú um 85 þúsund tonn miðað við útgefin starfsleyfi Umhverfisstofnunar,“ segir í frétt á vef Viðskiptablaðsins í dag.
„Útflutningsverðmæti fiskeldis gæti þá orðið um 40 milljarðar króna árið 2021 og á þessu ári er reiknað með að útflutningsverðmæti fiskeldis verði hátt í 20 milljarðar,“ segir Halla Signý.

Categories
Greinar

Fjárfestum í heilsu og vellíðan barna

Deila grein

25/09/2019

Fjárfestum í heilsu og vellíðan barna

Vinna við fjárhagsáætlun sveitarfélaga stendur sem hæst þessi misserin. Sveitarstjórnarfólk um allt land vinnur nú að því að rýna í fjárhagsstöðu síns sveitarfélags og forgangsraða fjárheimildum til málaflokka, framkvæmda og fjárfestinga. Stærstur hluti af ráðstöfunartekjum sveitarfélagsins fer í að standa straum ef þeim kostnaði sem fellur undir þá grunnþjónustu sem sveitarfélaginu ber að sinna. Öðrum verkefnum og fjárfestingum er forgangsraðað eftir áherslum pólitískra fulltrúa á hverjum tíma.

Líðan ungs fólks

Andleg og líkamleg heilsa barna og unglinga er grunnurinn að velferð þeirra í lífinu. Á síðasta sveitarstjórnarfundi lagði ég til að sveitarstjórn í Borgarbyggð myndi sameinast um að leggja sérstaka áherslu á stuðning við íþrótta- og tómstundastarf barna og unglinga í sveitarfélaginu til framtíðar ásamt því að leggja meiri þunga í forvarnarstarf. Mikil umræða hefur verið síðasta árið um líðan barna og unglinga hér á landi ásamt almennri vakningu í samfélaginu um andlega sjúkdóma, eins og þunglyndi og kvíða, auk staðreynda um aukna lyfjanotkun ungmenna og skelfilegar afleiðingar sem þær hafa valdið. Þökk sé þeim sem hafa opnað á þessa umræðu.

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að reglubundin hreyfing getur dregið verulega úr þunglyndi og kvíða, rannsóknir sýna einnig fram á minni einkenni þunglyndis og annarra geðraskana hjá einstaklingum sem stunda reglubundna hreyfingu. Einnig hefur það komið fram að sterk tengsl eru á milli jákvæðrar sjálfsmyndar í æsku og getu til að setja sér markmið og þess að takast á við erfileika í daglegu lífi á fullorðinsárum.

En hvað getum við sem sveitarfélag gert til þess að vinna að því að börnin okkar vaxi og dafni sem sterkir einstaklingar? Það er sameiginlegt verkefni á ábyrgð okkar allra sem komum að uppeldi og umhverfi barna á einn eða annan hátt að vinna að því að þeim líði vel í eigin skinni og dafni sem ábyrgir og sterkir einstaklingar. Sýni þrautseigju í daglegum verkefnum og temji sér umburðarlyndi og virðingu gagnvart umhverfinu og öðrum. Eins og sagt hefur verið oft áður, það þarf heilt samfélag til að ala upp barn.

Sjálfboðaliðastarfið ómetanlegt

Um allt land hafa sjálfboðaliðar unnið óteljandi vinnustundir til að halda úti íþrótta- og tómstundastarfi. Saga skipulagðs íþróttastarfs fyrir börn og unglinga á sér langa sögu í Borgarbyggð. Aðstaða til íþróttaiðkunar í sveitarfélaginu hefur verið að byggjast upp á löngum tíma og hefur tekið mið af öllum þeim fjölbreyttu íþróttagreinum sem hafa verið stundaðar af kappi hér um áraraðir. Íþrótta- og tómstundastarf sem hefur verið drifið áfram af þrautseigju og óeigingjörnu sjálfboðaliðastarfi foreldra og aðstandenda barna. Um allt land hefur fólk unnið óteljandi vinnustundir í sjálfboðaliðavinnu til að halda úti íþrótta- og tómstundastarfi. Sjálfboðaliðastarf sem oft á tíðum er ekki öllum sýnilegt og eflaust ekki margir sem hafa gert sér í hugarlund hver staðan væri t.a.m. í okkar sveitarfélagi ef ekki hefði verið fyrir það óeigingjarna starf sem fólk hefur unnið til að halda upp starfseminni frá upphafi iðkunnar.

Greinar eiga undir högg að sækja

Hvernig verður staðan þegar við höfum ekki alla þessa sjálfboðaliða sem halda uppi starfinu?

Hvernig samfélag verður Borgarbyggð ef börnum og unglingum mun ekki standa lengur til boða að stunda íþróttir?

Kostnaður við rekstur hjá íþróttafélögum hefur aukist síðustu ár. Öll umgjörð um þjálfun barna og starfsemi íþróttafélaga í dag tekur mið af þeim eðlilegu kröfum sem gerðar eru til þeirra sem hafa með börnin okkar að gera í frístundum. Það er staðreynd sem við verður að horfast í augu við að í nútíma samfélagi þar sem lífsmynstur fólks er fjölbreytt að alltaf verður erfiðara að fá fólk til að vinna sjálfboðaliðastörf. Þetta á við um hvaða félagsstarf sem er. Þeim fækkar einstaklingunum sem gefa kost á sér í þessi störf og hættan er sú þeir fáu sem eftir eru gefist upp. Hvað þá? Við erum þegar farin að sjá að ákveðnar greinar eiga undir högg að sækja eins og t.d. sunddeild Skallagríms sem hefur ekki getað boðið uppá sundæfingar eins og áður.

Aukin kostnaðarþátttaka nauðsynleg

Undirrituð telur nauðsynlegt að sveitarfélagið Borgarbyggð – Heilsueflandi samfélag, geri áætlun til framtíðar og fjárfesti í heilsu og velferð barnanna okkar með markvissri uppbyggingu sjálfsmyndar og áherslu á aukin lífsgæði.

Kostnaður við rekstur á barna- og unglingastarfi í t.a.m. knattspyrnu og körfubolta er um 8 – 12 milljónir króna á ári. Framlag sveitarfélagsins til reksturs barna- og unglingastarfs er í dag rétt um 6% af kostnaði, hluti kostnaðar næst með æfingagjöldum, en það skiptir tugum milljóna á hverju ári sem íþróttafélögin þurfa að afla gegnum fjáraflanir ýmiskonar og reiða sig á styrki frá fyrirtækjum.

Sveitarfélagið verður að byggja áætlanir sínar til framtíðar á því að kostnaðarþátttaka verði aukin í rekstri íþrótta- og tómstundastarfs barna. Sveitarfélagið gæti t.a.m. létt á íþróttafélögunum með því að standa í meira mæli straum af kostnaði við þjálfun og þjálfaranámskeið. Við höfum með þekkingu og reynslu fagfólks ótal tækifæri til að vinna á heildrænan og markvissan hátt með þverfaglegum aðgerðum að því að stuðla að heilbrigði barna og unglinga. Það er okkar viðfangsefni að skapa aðstæður og efla vitund í okkar samfélagi sem gera fólki auðvelt að stunda heilsueflandi líf. Forvarnir og lýðheilsa eiga ekki að falla undir skammtímaverkefni eða átök. Við höfum ekki efni á að glata því starfi sem hefur verið unnið í uppbyggingu á íþrótta- og tómstundastarfi í sveitarfélaginu. Verum ábyrg og framsækin. Hér þarf að horfa til framtíðar, ávinningurinn verður skýr þegar fram líða stundir. Fjárfestum í heilsu og vellíðan barnanna.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknar í sveitarstjórn Borgarbyggðar.

Greinin birtist fyrst í Skessuhorni 25. september 2019.

Categories
Greinar

Metnaðarfull aðgerðaráætlun í jarðarmálum

Deila grein

25/09/2019

Metnaðarfull aðgerðaráætlun í jarðarmálum

Eitt af forgangsmálum þingflokks Framsóknar á þessi þingi er þingsályktun um aðgerðaráætlun í jarðarmálum. Tillagan er í sjö liðum en henni er ætlað að styrkja lagaumgjörð og reglur í tengslum við ráðstöfun og nýtingu auðlinda hér á landi. Markmiðið er að skapa fleiri tækifæri til heilsársbúsetu í dreifbýli, fjölbreyttrar sjálfbærrar landnýtingar og matvælaframleiðslu í landinu. Tillagan rímar því vel við markmið ríkisstjórnarinnar um að finna leiðir til að setja skilyrði um kaup á landi út frá byggðarsjónarmiðum og umgengni um auðlindir.

Miklir almannahagsmunir í húfi

Það er ekki ofsögum sagt að land er takmörkuð auðlind. Það á við um landið sjálft, jarðveginn og gróðurinn. Landi geta fylgt verðmætar auðlindir á borð við veiði- og vatnsréttindi. Þess vegna geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og hverri annarri fasteign. Með því að samhæfa lög, reglur og verklag geta stjórnvöld markað skýra stefnu í ráðstöfun lands nú og til framtíðar. Flutningsmenn tillögunnar leggja m.a. til að gerð verði krafa um að kaupandi lands búi á Íslandi, hafi búið þar í a.m.k. fimm ár eða hafi starfsemi í landinu. Áhersla er lögð á að tilgangur jarðakaupanna þurfi að vera skýr, t.d. vegna landbúnaðar, menningarverðmæta og náttúruverndar. Einnig þarf að tryggja með lögum að tekjur af jörðum og hlunnindum skili sér til nærsamfélagsins.

Erlendar fyrirmyndir

Í núverandi lagaumhverfi geta rúmlega 500 milljón manns keypt land og aðrar fasteignir hérlendis með sömu skilyrðum og íslenskir ríkisborgarar. Meiri skorður eru settar á ráðstöfun fasteigna og aðilaskipti í Danmörku og Noregi en hér á landi. Í Danmörku gildir t.d. sú meginregla að einstaklingar sem ekki eru heimilisfastir í landinu eða hafa áður búið þar í a.m.k. fimm ár þurfa að fá leyfi frá dómsmálaráðuneytinu til að geta eignast fasteignaréttindi í landinu. Ein af tillögum flutningsmanna er að jarðakaup verði leyfisskyld. Þannig yrði hægt að tryggja nauðsynlega aðkomu ríkis og sveitarfélaga að eigendaskiptum jarða til að fylgja eftir lögum, reglum og ákvæðum aðal-, svæðis- og deiliskipulaga. Það hefur ríkt ákveðið kæruleysi í þessum málum síðastliðin ár. Með aðgerðaráætluninni er ætlunin að ráða bót á því.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. september 2019.

Categories
Fréttir

„Við þurfum ekki að vaða bæjarlækinn til að sækja vatnið“

Deila grein

24/09/2019

„Við þurfum ekki að vaða bæjarlækinn til að sækja vatnið“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, segir að smávirkjanir séu „ein leið til að styrkja dreifikerfi landsins og lækka kostnað við rekstur þess. Með einföldun leyfis- og skipulagsmála smávirkjana er opnað á leið til að ná niður dreifikostnaði raforku í dreifbýli og það er leið að frekari jöfnun á raforkukostnaði og að jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land,“ sagði Halla Signý í störfum þingsins á Alþingi í dag.
„Flutningskerfi raforku er í sameign þjóðar en landsmenn sitja ekki við sama borð þegar kemur að flutningi á raforku til síns heima. Það fer nefnilega eftir því hvar þeir búa hvað þeir greiða. Dreifikostnaður raforku hefur hækkað meira í dreifbýli en þéttbýli á undanförnum árum og ljóst er að stöðugt dregur í sundur. Núverandi jöfnunargjald er langt frá því að jafna þennan mun,“ sagði Halla Signý.
En erum við að fara yfir lækinn til að sækja vatnið?
„Smávirkjanir eru skilgreindar svo að þær séu minni en 10 mW. Þeim hefur fjölgað á undanförnum árum og eru kostir þeirra margir. Þarna flæðir umhverfisvæn orka og bæði mannvirki og náttúrurask eru oft að fullu afturkræfar framkvæmdir. Smávirkjanir tengjast kerfinu um dreifiveitur landsins og styrkja þannig þær flutningsleiðir auk þess sem þær lækka flutningstap raforku og lækka rekstrarkostnað dreifiveitna. Virkjunarkostir fyrir smávirkjanir hér á landi eru margir og um allt land, sérstaklega þar sem styrkja þarf dreifikerfið, en skipulags- og leyfismál smávirkjana eru flókin og reglugerðir íþyngjandi. Ferlið frá hugmynd að tengingu er kostnaðarsamt og tímafrekt og langt frá samsvarandi ferli framkvæmda, t.d. í landbúnaði, þar sem framkvæmdir bæði á landi og mannvirkjum geta kostað umtalsvert rask.
Ljóst er að smávirkjanir eru ein leið til að styrkja dreifikerfi landsins og lækka kostnað við rekstur þess. Með einföldun leyfis- og skipulagsmála smávirkjana er opnað á leið til að ná niður dreifikostnaði raforku í dreifbýli og það er leið að frekari jöfnun á raforkukostnaði og að jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Já, við þurfum ekki að vaða bæjarlækinn til að sækja vatnið.“