Categories
Greinar

Þjóðhagslegt mikilvægi skóla

Deila grein

07/08/2020

Þjóðhagslegt mikilvægi skóla

Við mót­un far­sæll­ar efna­hags­stefnu þjóðríkja er ein­blínt á að auka sam­keppn­is­hæfni og styrkja viðnámsþrótt­inn. Þeim ríkj­um sem hafa þetta tvennt að leiðarljósi vegn­ar vel.

Ísland hef­ur verið þeirr­ar gæfu aðnjót­andi að efna­hag­ur heim­ila, fyr­ir­tækja og staða hins op­in­bera hef­ur styrkst mikið á und­an­förn­um árum. Vegna þess­ar­ar hag­felldu stöðu hef­ur rík­is­stjórn­in getað mótað mark­viss­ar aðgerðir til að styðja við hag­kerfið, lyk­ilþætt­ir í þeirri stefnu eru að fjár­festa í mennt­un og menn­ingu.

Í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar kem­ur fram að öf­ugt mennta­kerfi sé meg­in­for­senda fram­fara og kjarn­inn í ný­sköp­un þjóðar­inn­ar til framtíðar.

Við vilj­um að stærri hlut­ur hag­kerf­is­ins sé drif­inn áfram af hug­viti og stuðlað sé að auk­inni verðmæta­sköp­un í öllu hag­kerf­inu. Með því fæst meira jafn­vægi í þjóðarbú­skap­inn og minni sveifl­ur verða í gjald­eyr­is­sköp­un. Til þess að búa til slíkt um­hverfi, þar sem ný­sköp­un blómstr­ar og verkvit, þarf skýra stefnu í mennta­mál­um og ár­ang­ur. Mennta­stefn­an tek­ur mið af þessu hug­ar­fari og ég hlakka til að kynna hana.

Stærsta sam­fé­lags­verk­efnið okk­ar er að skól­arn­ir komi sterk­ir inn í haustið. Um all­an heim eru skól­ar ekki að opna með hefðbund­um hætti í haust og skaðinn sem hlýst af því til lengri tíma er ómet­an­leg­ur. Við verðum öll sem eitt að leggja mikið af mörk­um til að tryggja sterka stöðu allra skóla­stiga í land­inu. Á næstu dög­um fer af stað um­fangs­mikið sam­ráð og sam­vinna við alla lyk­ilaðila til að stuðla að því að það verði að raun­inni.

Skól­ar gegna þjóðhags­lega mik­il­vægu hlut­verki og lengri tíma skóla­lok­un er óæski­leg. Það er þjóðahags­lega mik­il­vægt að for­gangsraða í þágu skóla­kerf­is­ins. Stjórn­völd hafa aukið veru­lega fjár­veit­ing­ar til mennta­kerf­is­ins. Ég full­yrði að slík ráðstöf­un sé ein sú arðbær­asta sem sam­fé­lagið legg­ur í og við for­gangs­röðum í þágu mennt­un­ar. Öll heims­byggðin stend­ur frammi fyr­ir veru­leg­um áskor­un­um á tím­um far­sótt­ar og sótt er að grunn­sam­fé­lags­gerðinni.

Á Íslandi höf­um við alla burði til þess að sækja fram á þeim sviðum sem eru okk­ur dýr­mæt­ust. Við höld­um áfram að for­gangsraða í þágu framtíðar­inn­ar í sam­vinnu hvert við annað.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. ágúst 2020.

Categories
Greinar

Sjónvarpsefni selur súkkulaði

Deila grein

17/07/2020

Sjónvarpsefni selur súkkulaði

Sala á íslenskum vörum og þjónustu fyrir erlendan gjaldeyri hefur sjaldan verið mikilvægari en nú. Með slíkri gjaldeyrisöflun verða til verðmæti sem halda samfélaginu gangandi, leggja grunninn að hagsæld og velferð okkar allra. Tjónið af samdrætti í útflutningstekjum vegna kórónuveiru-faraldursins er ómælt. Tekjur af erlendum ferðamönnum hafa minnkað, mikilvægir markaðir fyrir íslenskan fisk breyst og verðlækkanir hafa orðið á áli og kísilmálmi síðustu misseri vegna breyttrar neysluhegðunar um allan heim. Áhrif þess á hagkerfið eru veruleg.

Íslendingar hafa áður tekist á við áskoranir af þessu tagi. Við höfum dregið lærdóm þeim og vitum hversu mikilvæg fjölbreytni í atvinnulífinu er. Með fleiri útflutningsgreinum minnkar höggið af stórum áföllum, rétt eins og sannast hefur á undanförnum vikum.

Íslensk kvikmyndagerð er ein þeirra greina sem skapar verðmæti. Íslenskar kvikmyndir og sjónvarpsefni hafa vakið mikla athygli erlendis og Ísland er upptökustaður á heimsmælikvarða. Náttúrufegurð á þar hlut að máli en fagþekking og metnaður þeirra sem starfa í greininni skiptir enn meira máli. Nýjasta rósin í hnappagat þeirra snýr að flutningi og upptöku á kvikmyndatónlist, en á undanförnum árum hafa tugir Netflix- og Hollywood-framleiðenda tekið upp kvikmyndatónlist á Akureyri í samstarfi við SinfoniaNord.

Um heim allan hefur sjónvarpsáhorf verið í hæstu hæðum vegna samkomutakmarkana. Ísland er í aðalhlutverki í sumu því efni sem notið hefur mestra vinsælda og efnahagsleg áhrif þess gætu orðið veruleg. „Husavík“ er nú eitt vinsælasta leitarorðið á netinu og íslenskt lúxus-súkkulaði er rifið úr hillum verslana í Bandaríkjunum, eftir að þarlendar stjörnur heimsóttu framleiðandann í vinsælum umhverfisþætti. Frá því að þátturinn var frumsýndur hafa 30 þúsund súkkulaðiplötur verið sendar með hraði vestur um haf.

Súkkulaði bjargar ekki hagkerfinu eitt og sér, en er (bragð)gott dæmi um samhengi hlutanna. Í fjölbreyttu hagkerfi leiðir eitt af öðru, menning skapar tækifæri sem vekur áhuga á landi og þjóð. Þannig mun fjárfesting í menningarstarfi skila ávinningi til allra.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. júlí 2020.

Categories
Greinar

Áhyggjulaust ævikvöld

Deila grein

17/07/2020

Áhyggjulaust ævikvöld

Eitt af grunn­gild­um Fram­sókn­ar­flokks­ins er að efla mennta­kerfið í land­inu. Mennt­un er hreyfiafl fram­fara og því brýnt að jafn­ræði ríki í aðgengi að mennt­un fyr­ir alla. Ný lög um Mennta­sjóð náms­manna tóku gildi 1. júlí. Þessi alls­herj­ar kerf­is­breyt­ing hef­ur verið bar­áttu­mál ára­tug­um sam­an. Afar brýnt var að bæta kjör náms­manna, auka rétt­indi og jafna tæki­færi til náms. Ég brenn fyr­ir það að ung­menni lands­ins njóti góðs aðgeng­is að mennt­un óháð efna­hag og staðsetn­ingu.

Eitt af því sem hef­ur ætíð staðið í mér er hvernig ábyrgðar­kerfi lána­sjóðs náms­manna þróaðist, þ.e. að ekki var veitt náms­lán án þess að ábyrgðarmanna nyti við. Í þessu fólst mis­mun­un á aðstöðu fólks í gegn­um lífs­leiðina. Marg­ar fjöl­skyld­ur hafa þurft að end­ur­skipu­leggja fjár­mál efri ár­anna vegna þessa. Marg­ir hafa þurft að tak­ast á við þá staðreynd að erfa gaml­ar ábyrgðir á náms­lán­um, jafn­vel án þess að gera sér grein fyr­ir því. Þetta hef­ur eðli máls­ins sam­kvæmt verið fólki þung­bært. Þessu hef­ur, sem bet­ur fer, verið breytt með nýju lög­un­um þegar 35.000 ábyrgðir á náms­lán­um féllu niður.

Þessi lög bera því með sér um­bylt­ingu á náms­lána­kerfi hér á landi. Ný lög kveða á um að ábyrgðir ábyrgðarmanna á náms­lán­um, tekn­um í tíð eldri laga, falli niður við gildis­töku lag­anna, enda sé lánþegi í skil­um á láni sínu. Mark­miðið er að hver lánþegi skuli sjálf­ur vera ábyrg­ur fyr­ir end­ur­greiðslu eig­in náms­lána og sam­ræma þannig náms­lán sem veitt eru fyr­ir og eft­ir árið 2009. Þá er til­tekið að ábyrgðir ábyrgðar­manns falli niður við and­lát hans enda sé lánþegi í skil­um. Þessi breyt­ing er í sam­ræmi við reglu sem lengi hef­ur gilt um lánþeg­ann sjálf­an, þ.e. að skuld­in falli niður við and­lát en erf­ist ekki. Þetta er gríðarlega mik­il­vægt enda hef­ur verið vak­in at­hygli á ágöll­um á þessu fyr­ir­komu­lagi í fjölda ára af hálfu þeirra sem hafa fengið láns­ábyrgð í arf.

Mark­mið mitt með þess­um laga­breyt­ing­um er að draga úr aðstöðumun í sam­fé­lag­inu ásamt því að tryggja jafna mögu­leika og jöfn tæki­færi til náms. Þannig á mögu­leiki á mennt­un að vera án til­lits til land­fræðilegra aðstæðna, kyns eða efna­hags­legra og fé­lags­legra aðstæðna. Það hef­ur mynd­ast góð samstaða á Alþingi um að ráðast í þess­ar kerf­is­breyt­ing­ar sem voru löngu tíma­bær­ar. Kerf­is­breyt­ing sem þessi leiðir af sér aukið rétt­læti í sam­fé­lag­inu ásamt því að auka verðmæta­sköp­un sem felst í því að fleiri hafa tæki­færi á því að mennta sig án þess að reiða sig á góðvild annarra. Eitt af mark­miðum nýrra laga var að náms­lána­kerfið væri sann­gjarn­ara og rétt­lát­ara. Þessi kerf­is­breyt­ing mun einnig greiða leiðina að áhyggju­lausu ævikvöldi.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. júlí 2020.

Categories
Greinar

Störfin heim!

Deila grein

15/07/2020

Störfin heim!

Það er ákvörðun að halda byggð í landinu. Til þess að svo megi vera þarf að huga að samgöngum, menntun, menningu og síðast en ekki síst að fjölbreytt tækifæri á atvinnumarkaði séu til staðar.

Undanfarna daga hefur umræða um opinber störf á landsbyggðinni verið á áhugaverðum stað. Fjaðrafok hefur verið vegna ákvörðunar Félagsmálaráðherra að færa störf úr Reykjavík norður á Sauðárkrók en á sama tíma finnst mörgum það sjálfgefið að þau störf sem fylgt hafa fangelsinu á Akureyri verði flutt suður. Þarna skekkist myndin. Við búum öll í einu og sama landinu og það á að vera metnaðarmál hjá okkur að dreifa störfum frá hinu opinbera vítt og breytt um landið. Það ætti reyndar að mínu mati að ganga enn lengra og miða við það að opinber störf væru almennt frekar úti á landi en í höfuðborginni þar sem fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri eru á höfuðborgarsvæðinu en víða úti á landi. Það er eðli höfuðborga að þangað safnist mikið af fyrirtækjum sem starfa á frjálsum markaði með fjölbreytta flóru vöru og þjónustu. Þess vegna væri það sanngjarnt gagnvart landsbyggðinni að opinber störf væru almennt frekar úti á landi til þess að styrkja byggðirnar og auka fjölbreytileika starfa sem þar eru. Langskólagengið fólk á oft í vandræðum með að finna störf við sitt hæfi úti í minni byggðakjörnum þar sem ekki svo margir möguleikar eru í boði. En það er eðli opinberra stofnana að oft þurfa þær á vel menntuðu fólki að halda til þess að sinna starfsemi sinni.

Öll vötn falla til Reykjavíkur

Á undanförnum áratugum höfum við sem búum á landsbyggðinni séð á eftir mörgum störfum suður á bóginn. Tilhneigingin hefur verið sú að þegar kemur að hagræðingu hjá opinberum fyrirtækjum og hinu opinbera þá er niðurskurðarhnífurinn dreginn fyrst upp úti á landi. Stofnanir sem hafa verið með starfsemi hingað og þangað eru sameinaðar á einn stað á höfuðborgarsvæðinu og eftir sitjum við sem búum úti á landi með sárt enni og horfum á eftir störfunum í burtu og einnig oft á tíðum töluverða þjónustuskerðingu. Við þekkjum öll dæmi þess að flutningur stofnana út á land hafi haft jákvæð áhrif á þjónustu og byggðirnar. Þar má meðal annars nefna Fæðingarorlofssjóð á Hvammstanga, Matvælastofnun á Selfossi og Jafnréttisstofu á Akureyri. Í nútíma samfélagi sem byggir á tækni og þekkingu á það að vera metnaðarmál að tryggja að íbúar á landsbyggðinni hafi jafnan aðgang að opinberum störfum og þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Við viljum jú öll að landið sé í byggð.

Gamaldags hugsun

Síðast liðið mánudagskvöld var viðtal við Ásmund Einar Daðason Félags og barnamálaráðherra þar sem verið var að gagnrýna ákvörðun hans um að flytja störf út á land og minntist hann á að það væri gamaldags hugsun að öll opinber störf þyrftu að vera á höfuðborgarsvæðinu og þá helst í póstnúmeri 101. Þessari nálgun gæti undirrituð ekki verið meira sammála. Það er gamaldags að hugsa sem svo að hið opinbera geti ekki rekið stofnanir og þjónustu úti á landi til jafns við höfuðborgarsvæðið. Úti á landi býr mikill mannauður sem getur vel sinnt þeim verkefnum sem þeim er falið af hinu opinbera. Aukinn fjölbreytileiki starfa eflir landsbyggðina og byggir upp sterkari samfélög. Við sem úti á landi búum viljum gjarnan taka þátt í starfsemi hins opinbera og gerum það með miklum sóma. Við erum ekki að biðja um sér meðferð í íslensku samfélagi þó við búum úti á landi. Við erum bara að biðja um að jafnræðis sé gætt.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri og formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. júlí 2020.

Categories
Greinar

RÚV og þúfnahyggjan

Deila grein

14/07/2020

RÚV og þúfnahyggjan

Í fréttum RÚV í vikunni var teiknuð upp sú mynd að flutningur opinberra starfa frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar væri eðlileg þróun og ef að æðstu ráðamenn þjóðarinnar reyndu að andæfa gegn þessari þróun væri það kjördæmapot og spilling, helst í boði framsóknarmanna. Fréttin hleypti út á mér ofnæmisviðbrögðum, bæði var hún ónákvæm og einnig var uppleggið skakkt, sjónarhornið var að störfin eiga heima í Reykjavík og einungis þangað sé hægt að ráða hæft fólk. Framsóknarráðherrar áttu að sitja eftir með skaðann en niðurstaðan er sú að fréttastofa Ríkisútvarps landsmanna situr uppi með skömmina.

Ríkisstofnanir á Íslandi eru ríflega 160 talsins, opinber störf á vegum ríkisins eru rúm 20.000 þá á eftir að telja þau störf sem eru á vegum sveitarfélaga. Á landsbyggðinni fer fram margvísleg verðmætasköpun svo sem í matvælaframleiðslu og iðnaði og þar er líka uppspretta nýsköpunar, hugvits, menningar og mannlífs sem svo allir landsmenn njóta og eigum að njóta að jöfnu. Til þess að vel geti orðið þarf að dreifa þjónustu hins opinbera sem víðast og staðsetning ríkisstarfa skiptir miklu máli og ætti það að vera forgangsmál stjórnvalda að dreifa þeim sem mest um landið, ekki bara framsóknarmanna. Efling opinberra starfa á landsbyggðinni hefur til dæmis verið í flestum ríkisstjórnarsáttmálum, en frétt RÚV afhjúpar hverjir hafa látið verkin tala.

En það er ekki nóg gert, undanfarin ár og áratugi hafa stofnanir á vegum ríkisins dregið til sín fleiri og fleiri störf til höfuðborgarsvæðisins. Í nýlegri samantekt Byggðastofnunar kom fram að á höfuðborgarsvæðinu búa 64% landsmanna en þar eru 71% starfa ríkisins. Til samanburðar búa í Noregi liðlega 23% landsmanna á Óslóar svæðinu. Í Noregi er reglulega uppi umræða um að landið megi ekki verða að borgríki. Samstaða er þar um að veita ýmiskonar ívilnanir og flytja ýmis störf og stofnanir út á land, nokkuð sem við mættum tileinka okkur meira og standa saman að. Þvert á móti standa hér um landið tómar byggingar sem minnismerki margra horfinna stofnanna eða deilda á vegum ríkisins sem hafa verið flutt á höfuðborgarsvæðið.

Ég hef átt samtöl við embættismenn ríkistofnanna sem hafa fullyrt að það þýði ekki að flytja opinber störf út á land eða starfrækja stofnanir þar því það fáist ekki menntað fólk í störfin. Sérfræðingarnir eru nefnilega fyrir sunnan. Þetta er alls ekkert náttúrulögmál og stenst auðvitað enga skoðun.  Einkageirinn áttar sig betur á þessu. Um landið allt eru mörg einkarekin fyrirtæki í hátækniiðnaði sem þarfnast hámenntaðs starfsfólks.

Frétt RÚV hefur haft þó einn jákvæðan fylgifisk, umræða hefur skapast um byggðamál og byggðastefnu, nokkuð sem við ættum að vera stöðugt að ræða. Þar er staðsetning opinberra starfa auðvitað bara einn angi af mjög stóru máli en samt mikilvægur. Framsókn hefur og mun standa með hinum dreifðu byggðum landsins. Í stað þess að gera andæfi okkar gagnvart þróuninni og kerfinu tortryggileg væri æskilegra að það legðust allir á eitt að halda úti blómlegri byggð, landið um kring.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á feykir.is 14. júlí 2020.

Categories
Greinar

Passar landsbyggðin hvergi inn í excel?

Deila grein

14/07/2020

Passar landsbyggðin hvergi inn í excel?

Þrátt fyrir að sumarið leiki um okkur landsmenn þessa dagana og áhyggjur hverfi um stund hjá okkur þá stinga upp kollinum fréttir um lokun og hagræðingar víða í samfélaginu. Nú ætla ég ekki að draga á nokkurn hátt úr þeim alvarleika sem við stöndum frammi fyrir í efnahagslífinu og nauðsyn þess að bregðast við.

Engu að síður er það mjög merkilegt að sjá ýmsar tillögur þess efnis sem verið er að vinna að nú. Stendur þar uppúr, sem dæmi, boðuð lokun fangelsisins á Akureyri sem tilkynnt var um á dögunum. Sá rekstur hefur þótt, í gegnum tíðina, hafa haft gott yfirbragð mannúðar og sem slíkur verið talinn af þeim sem til þekkja gott dæmi um betrunarúræði sem fangelsi eiga að vera.

Þá hefur það verið til fyrirmyndar að slíkur rekstur sé út á landi og þannig gefið þeim sem þurfa að afplána refsingu að gera það nær fjölskyldu. Að ógleymdu því að mikil samlegðaráhrif hafa verið með löggæslu á Akureyri sem nú hlýtur að þurfa að bæta upp með auknu fjármagni til hennar. Maður hefði haldið að allir þessir þættir yrðu til þess að skynsamlegt þætti að halda þessum rekstri áfram en svo er víst ekki. 

Í þokkabót var svo exeljafnan sett upp þannig að með þeim fjármunum sem myndu sparast með lokun á Akureyri yrði hægt að gera svo margfalt meira fyrir með því að flytja störfin á suðvesturhornið. Helst minnti lýsingin mann á söguna af Jóa og baunagrasinu þar sem fræin fáu urðu að slíkum kynjum sem baunagrasið varð.

Störfin reiknuð suður

Og þarna er mergur málsins kominn svo berlega í ljós. Á síðustu árum hefur markvisst verið dregið úr þjónustu og störfum á landsbyggðinni undir merkjum reiknaðra stærða að með ólíkindum er. Á sama tíma hefur landsbyggðin ekkert slegið af þeirri miklu verðmætasköpun sem sannarlega fer þar fram fyrir þjóðarbúið og skyldi maður ætla að með henni ætti að myndast einhver innistæða fyrir því að halda úti sanngjarni grunnþjónustu sem allir íbúar ættu að njóta óháð efnahag og staðsetningu. 

Þá ríma hagræðingaraðgerðir eins og þessar ekki síður illa við það stef sem stjórnvöld hafa slegið nú með störfum án staðsetningar. Það hefði farið betur að öll orkan, sem fer í þessar aðgerðir, hefði farið í að efla sókn á þeim vettvangi og gera fólki kleyft að starfa óháð staðsetningu og efla nýsköpun og klasasetur um land allt í þeim tilgangi frekar en reyna nú enn að klípa af störf út um land til að efla suðvesturhornið. Við erum nefnilega svo heppinn að þar er til staðar þensla sem þarf ekki að efla heldur gera því kleift að hún berist um landið allt.

Það þarf kjark til að breyta

Þá varð mikill stormur í fjölmiðlum nú þegar vitnaðist að ráðherra Framsóknarflokksins hyggðist fara með nokkur störf út á land. Farið var í mikla fréttskýringar hvernig sá flokkur hefði vogað sér að storka náttúruöflunum í gegnum tíðina og hafa þá sýn að rétt gæti verið að stofnanir þjóðarinnar ættu nú kannski að bjóða upp á að hluti sinnar landsdekkandi starfsemi gæti hugsanlega unnist úti á landi. Var það auðheyrt að hér væri á ferðinni slík ósvinna að annað eins hefur ekki heyrst enda engar líkur á að hægt væri að vinna sérhæfð störf í fásinninu úti á landi. Þar ættu menn bara að sinna grunnatvinnuvegum og ekki að vera að heimta alltaf eitthvað meira. Það er nefnilega svo að störf fyrir langskólagengið fólk eru uppistaðan hjá mörgum opinberum stofnunum. 

Ég vona svo sannarlega að heimsmynd þeirra sem þetta gagnrýna mest verði stærri og ferðasumarið innanlands sem nú stendur yfir geri þeim kleift að fara nú út um land og sjá að Ísland er stærra en suðvesturhornið. Það er blómlegt og út um land allt er kraftur og áræðni til að takast á við aukin verkefni og eflaust líka til fólk sem vill flytja þangað ef það hefur tækifæri til með aukinni og fjölbreyttari atvinnu. Framsóknarflokkurinn trúir allavega á slíkt og að hér geti þrifist gott samfélag um land allt með öflugri höfuðborg og landsbyggð. Ég er stoltur af þeirri sýn og tilbúinn til að vinna að henni með öllum sem henni deila.

Svo vona ég sannarlega að fjölmiðlar sinni sínu aðhaldshlutverki jafnvel næst þegar ákveðið verður að leggja niður opinber störf í litlu samfélagi út á landi sem hafa meiri margfeldisáhrif á það samfélag heldur en þau sem um hefur verið rætt síðustu daga í öllum fréttatímum.

Svo vona ég að landsmenn allir njóti sumarsins á okkar magnaða landi sem við viljum öll að sé í sem blómlegastri byggð um ókomna framtíð.

Jón Björn Hákonarson, er ritari Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. júlí 2020.

Categories
Greinar

Viðbótarstuðningur við aldraða

Deila grein

09/07/2020

Viðbótarstuðningur við aldraða

Á loka­dög­um þings­ins var samþykkt frum­varp til laga um fé­lags­leg­an viðbót­arstuðning við aldraða frá fé­lags- og barna­málaráðherra. Viðbót­arstuðning­ur­inn tek­ur til eldri borg­ara sem bú­sett­ir eru hér á landi og eiga eng­in eða tak­mörkuð líf­eyr­is­rétt­indi í al­manna­trygg­ing­um. Þessi hóp­ur hef­ur fallið óbætt­ur hjá garði og haft litla sem enga fram­færslu og jafn­vel þurft að reiða sig á fjár­hags­stuðning sveit­ar­fé­laga frá mánuði til mánaðar. Þetta nær til ein­stak­linga sem hafa náð 67 ára aldri, hafa fasta bú­setu og lög­heim­ili á Íslandi og dvelja hér var­an­lega. Þegar lög­in eru sett er talið að hóp­ur­inn telji um 400 ein­stak­linga. Til að eiga rétt á viðbót­arstuðningi þurfa er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar að hafa ótíma­bundið dval­ar­leyfi á Íslandi og eiga lít­inn sem eng­an rétt frá sínu heimalandi. Það á einnig við um Íslend­inga sem eru að koma heim eft­ir langa fjar­veru á er­lendri grundu. Frum­varpið bygg­ist á niður­stöðum starfs­hóps um kjör aldraðra þar sem fjallað var um þann hóp aldraðra sem býr við lök­ustu kjör­in.

Þessi hóp­ur hef­ur verið jaðar­sett­ur þar sem ís­lenska al­manna­trygg­inga­kerfið hef­ur byggst á því að fólk hafi búið hér alla sína starfsævi og því áunnið sér rétt í 40 ár þegar eft­ir­launa­aldri er náð. Við búum í fjöl­menn­ing­ar­sam­fé­lagi og þeir ein­stak­ling­ar sem hafa flust hingað til lands­ins með lít­il eða eng­in rétt­indi frá sínu heimalandi eru marg­ir hverj­ir fast­ir í fá­tækt­ar­gildru, með þess­ari breyt­ingu er verið að tryggja þeim lág­marks­fram­færslu.

Það var ánægju­legt að fá að fylgja þessu máli í gegn­um vel­ferðar­nefnd, þar sem ég var fram­sögumaður máls­ins, og lenda því í sam­hljómi þing­manna við loka­af­greiðslu máls­ins inni í þingsal.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Fram­sókn­ar­ í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. júlí 2020.

Categories
Greinar

Umsóknum í kennaranám á Íslandi fjölgar um 46%

Deila grein

08/07/2020

Umsóknum í kennaranám á Íslandi fjölgar um 46%

Mennt­un er grund­völl­ur vel­sæld­ar og fram­fara þjóða. John Stu­art Mill stjórn­mála­heim­spek­ing­ur skrifaði á sín­um tíma að: „Öll efl­ing mennt­un­ar stuðlar að jöfnuði og veit­ir fólki aðgang að sama sjóði þekk­ing­ar.“ Þetta eru orð að sönnu. Þjóðir í fremstu röð eru með framúrsk­ar­andi mennta­kerfi. Í framúrsk­ar­andi mennta­kerfi er staða kenn­ar­ans afar sterk. Því var þess getið í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar að bregðast þyrfti við kenn­ara­skorti með sam­starfi rík­is, sveit­ar­fé­laga og stétt­ar­fé­laga. Ég er stolt af að greina frá því að sam­an höf­um við náð að snúa vörn í sókn.

Staða kenn­ara­náms styrkt

Ráðist var í heild­stæðar aðgerðir í víðtæku sam­starfi við Kenn­ara­sam­band Íslands, Há­skól­ann á Ak­ur­eyri, menntavís­inda­svið Há­skóla Íslands, Lista­há­skóla Íslands, Heim­ili og skóla og Sam­tök iðnaðar­ins. Að auki komu að vinn­unni full­trú­ar fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneyt­is. Meðal ann­ars þurfti að bregðast við því að inn­rit­un í leik- og grunn­skóla­kenn­ara­nám hafði dreg­ist sam­an um 40% frá 2008. Í þess­um aðgerðum fólst meðal ann­ars launað starfs­nám leik- og grunn­skóla­kenn­ara­nema á loka­ári. Aðgerðirn­ar höfðu afar já­kvæð áhrif og hafa leitt til gríðarlegr­ar fjölg­un­ar um­sókna í kenn­ara­nám. Alls fjölgaði um­sókn­um um 591 milli ár­anna 2019 og 2020, eða um 46%. Þar af er fjölg­un­in mest við Há­skóla Íslands en þar fjölg­ar um­sókn­um um 580 milli ára, eða um 61%.

Mennta­stefna til árs­ins 2030

Þess­ar aðgerðir eru hluti af nýrri mennta­stefnu til árs­ins 2030, sem verður kynnt í upp­hafi nýs skóla­árs. Mark­mið stjórn­valda með stefn­unni er að veita framúrsk­ar­andi mennt­un með áherslu á þekk­ingu, vellíðan, þraut­seigju og ár­ang­ur í um­hverfi þar sem all­ir skipta máli og geta lært í öfl­ugu og sveigj­an­legu mennta­kerfi. Stefn­an mun end­ur­spegla leiðarljósið all­ir geta lært sem fel­ur í sér áherslu á virka þátt­töku allra í lýðræðis­sam­fé­lagi sem bygg­ist á jafn­rétti og mann­rétt­ind­um, heil­brigði, vel­ferð og sjálf­bærni. Mennta­stefn­an er mótuð með aðkomu fjöl­margra aðila úr skóla­sam­fé­lag­inu, meðal ann­ars með fundaröð um land allt um mennt­un fyr­ir alla haustið 2018 og 2019.

Mennt­un efl­ir jöfnuð og all­ir eiga að hafa jöfn tæki­færi til náms. Ég hef þá trú að all­ir geti lært og all­ir skipti máli. Kenn­ar­ar, skóla­stjórn­end­ur og aðrar starfs­stétt­ir inn­an mennta­kerf­is­ins eru ein mesta auðlind hvers sam­fé­lags og leggja grunn að öðrum störf­um. Aðsókn í kenn­ara­nám hef­ur stór­auk­ist vegna mark­vissra aðgerða sem hrint hef­ur verið í fram­kvæmd. Með skýrri sýn og stefnu er hægt að bæta sam­fé­lagið sitt. Ég vil þakka öll­um þeim sem hafa komið að því að efla stöðu kenn­ara­náms í land­inu, því það sann­ar­lega skipt­ir máli fyr­ir kom­andi kyn­slóðir.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júlí 2020.

Categories
Greinar

STYRKING FJÖLMENNINGARSETURS Á ÍS Í BOÐI MIÐFLOKKSINS

Deila grein

06/07/2020

STYRKING FJÖLMENNINGARSETURS Á ÍS Í BOÐI MIÐFLOKKSINS

Frumvarp félags- og barnamálaráðherra, Ásmundar Daða Einarssonar, um málefni innflytjenda sem snýr að móttöku flóttafólks og innflytjendaráð hefur verið afgreitt úr út velferðarnefnd á Alþingi. Eftir vandaða yfirferð, góðar umsagnir og samhljóm innan nefndarinnar var málið  samþykkt en að kröfu Miðflokksins í lok þingsins var málið ekki flutt til afgreiðslu í þingsal. Það má ætla að í þeirri kröfu endurspeglist þeirra viðhorft til málefni innflytjenda.

Frumvarp þetta er samið í félagsmálaráðuneytinu í samráði við starfshóp um móttökuáætlanir sveitarfélaga. Með þessum breytingum er verið að styrkja Fjölmenningasetrið á Ísafirði þar sem því er ætlað að stýra þessu mikilvægu verkefni og því falið víðtækara hlutverk vegna samræmdar móttöku flóttafólks með því að fela stofnuninni að veita sveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf í tengslum við móttöku flóttafólks.

Það er mikilvægt í ljósi fjölgunar flóttafólks á liðnum árum að ríki og sveitarfélög tryggi samfellda og jafna þjónustu þessa fólks. Frumvarpið var fullunnið inn í velferðarnefnd Alþingis þar sem undirrituð var framsögumaður málsins. Meirihluti velferðarnefndar taldi brýnt að bæta móttöku einstaklinga með vernd sem hafi ríka þörf fyrir aukinn stuðning fyrst við komu til landsins.

Því miður er málið sett á ís, í boði Miðflokksins.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 4. júlí 2020.

Categories
Greinar

Afglæpavæðing á neyslu fíkniefna

Deila grein

03/07/2020

Afglæpavæðing á neyslu fíkniefna

Mikið hefur verið rætt um afglæpavæðingu á neyslu fíkniefna og fjölmiðlar gera því í skóna að meirihlutinn á Alþingi hafi hafnað henni í atkvæðagreiðslu nú á síðustu degi þingsins. Sem er í raun ekki rétt. Það hefur verið unnið að þessum málum undanfarin misseri og lögð áhersla á skaðaminnkun í aðgerðum stjórnvalda til að sporna við neikvæðum afleiðingum neyslu.

Í vor var samþykkt frumvarp frá heilbrigðisráðherra um neyslurými  sem er að heimila stofnun og rekstur neyslurýma en þau teljast til skaðaminnkandi aðgerða. Mikilvægur áfangi og stór. Þá hefur verið horfið frá þyngri refsingum fyrir vörslu neysluskammta og smávægileg brot fara ekki á sakskrá lengur og með breyttum umferðarlögum sem kveða á um að mæling á ávana- og fíkniefni í blóði sé einungis grundvöllur refsinga, ekki mæling í þvagi og blóði eins og áður var. Allt er þetta samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að snúa þurfi af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefni og vinna frekar að viðunandi meðferðarúrræði.

Frumvarp Pírata sem fellt var á Alþingi fjallaði einfaldlega um  að ákvæði laga um ávana- og fíkniefni um bann við vörslu og meðferð fíkniefna verði breytt á þann hátt að bann við vörslu, kaupum og móttöku efna verði fellt brott. Lítið útfært og í litlu samráði. Vissulega er það samhljóma við skýrslu sem gerð var um málið á sínum tíma en frumvarpið sjálft var ekki unnið í samstarfi við þá aðila sem vinna þurftu svo með útkomuna. Í meðförum nefndarinnar breyttist málið og var á réttri leið þegar það var tekið út en ekki fullunnið og ekki í sátt. Þess vegna var ég ekki tilbúin að fylgja því eftir inni í þingsal þótt ég sé sammála frumhugmyndinni. Við svona stórt skref þarf að skilgreina þetta mun betur og vinna jafnframt að aðgerðum til að mæta breyttu landslagi í þessum efnum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júlí 2020.