Categories
Greinar

Heilbrigðiskerfið í forgang, fyrir alla

Deila grein

24/02/2015

Heilbrigðiskerfið í forgang, fyrir alla

Elsa-Lara-mynd01-vefurÞað er staðreynd að ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, hefur sett uppbyggingu heilbrigðiskerfisins í forgang. Í fjárlögum fyrir árið 2015 kemur fram að Landspítalinn fái um 50 milljarða króna með sértekjum í sinn hlut. Að auki eru þar 875 milljónir króna, sem ætlaðar eru í fyrstu skref í byggingu á nýjum Landspitala. Í fjárlögum fyrir árið 2015 eru sérstök framlög í rekstrar – og stofnkostnað heilbrigðisstofnana og heilsugæslustöðva, þau framlög aukast um 2,1 milljarð. 100 milljónir bætast inn í rekstrargrunn heilbrigðisstofnana og jafnframt renna 100 milljónir aukalega í tækjakaup fyrir heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni.

Uppbygging er hafin.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins segir:  ,,Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera samkeppnisfært við nágrannalönd um tækjakost, aðbúnað sjúklinga og aðstæður starfsmanna. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að landsmenn njóti aðgengis að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.” Þann 8. janúar s.l. undirrituðu fulltrúar Læknafélags Íslands, Skurðlæknafélags Íslands og ríkisstjórnarinnar sameiginlega yfirlýsingu um markvissa uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Með yfirlýsingunni vilja þessir aðilar undirstrika mikilvægi heilbrigðiskerfisins og styrkja enn frekar heilbrigðisþjónustu í landinu. Helstu atriði yfirlýsingarinnar eru m.a. bygging nýs Landspítala og markviss endurnýjun tækjabúnaðar í heilbrigðiskerfinu. Markmið yfirlýsingarinnar er að bæta starfsaðstöðu heilbrigðisstarfsfólks og auka þjónustu við almenning. Auknu fjármagni verður veitt til heilbrigðismála og breytingar gerðar í þeim tilgangi að auka skilvirkni í kerfinu. Stefnt er að aukinni samvinnu heilbrigðisstofnana og markvissri verkaskiptingu. Íslenska heilbrigðiskerfið á að verða samkeppnishæft við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum.  Nauðsynlegt er að í öllu þessu ferli sé horft til þess að landsmenn allir, eigi greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu, efnahag eða stöðu.

Heilbrigðisáætlun fyrir Ísland.

Það má velta fyrir sér, að samhliða þeirri uppbyggingu sem á sér stað í heilbrigðiskerfinu, að fara þurfi í að búa til heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Þar þarf að meta og kanna með tilliti til fjarlægða, samgangna, aldurssamsetningar íbúa byggðarlaga og svo framvegis, hvaða þjónustu eigi að veita hér og þar um landið. Kanna þarf hvaða kostnað og áhrif það gæti haft í för með sér. Auk þess þarf að velta fyrir sér, hvort aukin samvinna geti átt sér stað innan heilbrigðiskerfisins. Hvort og hvernig hægt væri að nýta betur þær heilbrigðisstofnanir sem eru í kringum höfuðborgina. Þar má t.d. nefna heilbrigðisstofnanir á Akranesi, Selfossi og Reykjanesbæ. Á þessum heilbrigðisstofnunum eru auðar deildir og gott starfsfólk sem er eflaust tilbúið til að taka á móti verkefnum.

Kostnaður sjúklinga lækkar.

Afar jákvætt er að sjá að í fjárlögum fyrir árið 2015, kemur inn 150 milljóna króna auka fjármagn. Það á að hafa þau áhrif að lyfjakostnaður sjúklinga lækki um 5 %. Einnig lækkar virðisaukaskattur á lyf úr 25,5 % í 24 % sem ætlað er að koma fram í lækkun á lyfjaverði. Jafnframt starfar nú nefnd undir forystu Péturs Blöndals sem hefur það að markmiði að koma með tillögur hvernig megi fella læknis – og lyfjakostnað, rannsóknar – og sjúkraþjálfunarkostnað og annan heilbrigðiskostnað undir eitt niðurgreiðslu – og afsláttarfyrirkomulag. Í nefndinni er unnið að einfaldara og réttlátara kerfi sem hefur það að leiðarljósi að verja einstaklinga gegn of háum kostnaði.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 20. febrúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Kallað eftir auknum stuðningi vegna tæknifrjóvgana

Deila grein

22/02/2015

Kallað eftir auknum stuðningi vegna tæknifrjóvgana

Silja-Dogg-mynd01-vefSilja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, flutti á Alþingi í liðinni viku þingsályktunartillögu um aukinn stuðning vegna tæknifrjóvgana og að endurskoðun verði á reglum um greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferða fyrir árslok 2015. Við endurskoðunina verði gætt að eftirtöldum atriðum:

  1. að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái til fyrstu glasafrjóvgunarmeðferðar,
  2. að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga sé óháð því hvort pör eða einstaklingar eigi barn fyrir,
  3. ef uppsetning á fósturvísum fer ekki fram þar sem engin frjóvgun hefur orðið, þá sé full greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna þeirrar meðferðar, en þó ekki talin með öðrum tæknifrjóvgunarmeðferðum sem greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nær til,
  4. að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga taki til ferðakostnaðar vegna tæknifrjóvgunarmeðferða jafnvel þótt greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái ekki til þeirra meðferða,
  5. að kynfrumur (eggfrumur og sáðfrumur) frá tilteknum gjafa fari aðeins til eins pars eða einstaklings.

Ferðakostnaður vegna tæknifrjóvgunarmeðferða getur verið töluverður og fer það að mestu leyti eftir því hvar fólk býr á landinu. Ljóst er því að það er dýrara fyrir fólk á landsbyggðinni að fara í tæknifrjóvgunarmeðferð en þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu þar sem meðferðin er veitt.
Frjósemismeðferðum hefur fækkað um 10% síðustu missiri sem má rekja til breytinga á greiðsluþátttöku einstaklinga. Þ.e. þessi fækkun skýrist því að mestu af því að þeir sem þurfa að koma í fyrstu meðferð eiga ekki kost á að hefja ferlið þar sem kostnaðurinn er hreinlega of mikill. Ekki hefur farið fram greining á því hvort fólk af landsbyggðinni fari síður í meðferð sökum mikils ferðakostnaðar en áhugavert væri að skoða það nánar.
Nú eru keyptir fimm sæðisskammtar frá Danmörku frá hverjum gjafa. Engar reglur eru til um það hversu margar konur fái sæði frá sama manni. Ef kona vill vera viss um að barnið hennar eigi ekki hálfsystkini sem hún veit ekki um þarf hún að kaupa alla skammtana, láta frysta þá og greiða fyrir það geymslugjald þangað til búið er að nota skammtana. Eðlilegt er að foreldrar viti um hálfsystkini barna sinna en séu ekki í óvissu með það til hversu margra kvenna gjafasæði frá tilteknum manni fer, sérstaklega í svo fámennu samfélagi sem Ísland er. Hið sama á við um eggfrumur.
Ísland er á þessu sviði nokkur eftirbátur nágrannalanda okkar og þeirra landa sem við viljum almennt bera okkur saman við.
Hér má nálgast viðtal við Silju Dögg í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.
Hér má nálgast þingsályktunina af vef Alþingis.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.
 

Categories
Fréttir

Ágúst Bjarni formaður SUF

Deila grein

21/02/2015

Ágúst Bjarni formaður SUF

formenn-sufÁ 40. sambandsþingi SUF 7.-8. febrúar var Ágúst Bjarni Garðarsson, stjórnmálafræðingur, kjörinn formaður Sambands ungra framsóknarmanna.
Ágúst Bjarni tekur við formennsku af Helga Hauki Haukssyni sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku. Ágúst Bjarni er stjórnmálafræðingur og er að ljúka meistaranámi verkefnastjórnun frá Háskólanum Reykjavík.
Ágúst Bjarni var jafnframt oddviti Framsóknar í Hafnarfirði fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2014 og hefur setið í stjórn SUF undanfarið ár.
Með Ágústi Bjarna í stjórn SUF eru: Fróði Kristinsson, Ármann Örn Friðriksson, Gauti Geirsson, Fjóla Hrund Björnsdóttir, Jónína Stefánsdóttir, Dilja Helgadóttir, Elka Ósk Hrólfsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Kjartan Þór Ingason, Páll Marís Pálsson og Aðalheiður Björt Unnarsdóttir.
suf-stjorn-2015
 
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, tók á móti nýkjörinni stjórn SUF í vikunni í ráðuneyti sínu og var myndin tekin við það tilefni.
Hér eru ályktanir sambandsþings SUF 2015.
stjorn suf fundur
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Sjávarútvegsmál rædd á súpufundi

Deila grein

20/02/2015

Sjávarútvegsmál rædd á súpufundi

mynd3Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, var frummælandi á fundi Framsóknar í Reykjavík í hádeginu í dag í Iðnó. Fundurinn var vel sóttur og gagnlegur en umræðuefnið var sjávarútvegurinn og stefna Framsóknar í sjávarútvegsmálum. Fundarstjóri var Trausti Harðarson, framkvæmdastjóri.
Sjávarútvegsmál hafa verið mikið í umræðunni síðustu daga, en stjórnarflokkana greinir enn á um grundvallaratriði í frumvarpi því er Sigurður Ingi hefur lagt mjög mikla vinnu í. Var svo komið í vikunni að sjávarútvegsráðherra ákvað að leggja kvótafrumvarp sitt ekki fram á þessu þingi. Ástæðan er ágreiningur um hver fari með forræði yfir kvótanum; ríkið, eins og frumvarpið segir til um, eða útgerðin.
mynd2
Hér er frétt á visir.is af fundinum.
Framsókn í Reykjavík stefnir að því að halda fundi sem þennan um afmörkuð efni mánaðarlega í vetur.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Með sting í hjartanu

Deila grein

20/02/2015

Með sting í hjartanu

Silja-Dogg-mynd01-vefÞessi orð voru höfð eftir heilbrigðisráðherra í kjölfar umfjöllunar Fréttablaðsins fyrir skömmu um aðbúnað aldraðra og ég geri ráð fyrir að mörgum okkar hafi verið nákvæmlega eins innanbrjósts þegar þeir lásu þessar fréttir. Aðbúnaðurinn er ekki alls staðar eins og best verður á kosið. Tvímenningsherbergi er enn víða að finna og skortur á hjúkrunarrýmum. Ég hef jafnvel heyrt af því að einstaklingur hafi þurft að dvelja í salernisrými í sólarhring þar vegna plássleysis. Svona eiga hlutirnir ekki að vera.

Aðstöðumunur
Umræðan um aðbúnað aldraðra og uppbyggingu hjúkrunarrýma er ekki ný af nálinni og hún verður háværari með tímanum þar sem öldruðum fjölgar hlutfallslega með ári hverju. Stefna stjórnvalda er sú að fólk geti búið eins lengi heima hjá sér og mögulegt er og áherslan hefur því verið lögð á aukna heimaþjónustu. Aðstöðumunur getur þó verið ansi mikill á milli sveitarfélaga. Íbúar í dreifbýli eiga ekki alltaf góðan aðgang að heimaþjónustu og neyðast því til að fara á hjúkrunarheimili, þó að þeir vilji og geti séð um sig sjálfir að mestu leyti. Þarna vantar ákveðið millistig, þ.e. að eldri borgarar úr dreifbýli eigi kost á að fara í þjónustuíbúðir í þéttbýli þegar getan skerðist.

Úrbætur
Hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra er að byggja upp hjúkrunarrými en í þrengingum síðari ára hefur fjármagnið verið nýtt til reksturs hjúkrunarheimila og viðhalds. Við stöndum því frammi fyrir fjárskorti og það blasir við að við þurfum að fara að gera langtímaáætlanir varðandi uppbyggingu, til a.m.k. 20 ára.

Á árunum 2014 og 2015 er 200 mi.kr veitt aukalega í hjúkrunarrými. Um er að ræða verulega fjölgun rýma í öllum heilbrigðisumdæmum sem kemur til móts við þá gríðarlegu þörf sem safnast hefur upp undanfarin ár. Á þessu ári verður 50 mi.kr varið til að bæta stöðu minni hjúkrunarheimila. Um er að ræða heimili með 20 eða færri hjúkrunarrými. Langflest þeirra eru á landsbyggðinni og mörg þeirra hafa átt í miklum rekstrarvanda. 50 mi.kr. verður varið aukalega á árinu í heimahjúkrun fyrir fólk sem komið er með gilt færni- og heilsumat og bíður þess að komast á hjúkrunarheimili. Um er að ræða tilraunaverkefni með það að markmiði að fólk geti sem lengst búið heima.

Aukin samvinna við heimamenn
Nú er unnið að grófri framkvæmdaáætlun um byggingaframkvæmdir öldrunarstofnana til næstu fimm ára. Þeirri vinnu ætti að ljúka fljótlega. Hér er einungis er um að ræða áætlun um brýnustu þörf til skamms tíma og vinnuhópurinn sem vinnur þá áætlun er skipaður starfsmönnum velferðarráðuneytisins sem þekkja málaflokkinn og þörfina vel. Til grundvallar þeim tillögum sem fram verða bornar er faglegt mat á því hvar þörfin er mest. Ljóst er að bæði er þörf á fjölgun hjúkrunarrýma og endurbótum á þeim rýmum sem fyrir eru til að mæta þeim viðviðum um aðbúnað sem þörf er talin á í dag. Þar sem mikilvægt er að ná sem mestri sátt og samstöðu um áætlun til lengri tíma mun sú vinna væntanlega kalla á aukna samvinnu við heimamenn í hverju heilbrigðisumdæmi.

Þó að menn greini á um ýmsa hluti þá getum við örugglega verið sammála um mikilvægi þess að bæta verulega þjónustu og aðbúnað aldraðra.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 20. febrúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Að takast á við velgengni

Deila grein

19/02/2015

Að takast á við velgengni

Sigmundur-davíð

Sigurður Bessason, formaður Eflingar, sendi mér opið bréf í Morgunblaðinu í gær um þá kjarasamninga sem framundan eru. Sigurður er rökfastur maður og öflugur talsmaður verkafólks. Ég átti fund með Sigurði og félögum hans í forystusveit Alþýðusambandsins síðastliðinn þriðjudag og var um flest sammála honum, ekki síst um nauðsyn þess að bæta stöðu fólks með lágar tekjur og millitekjur.

Eins og Sigurður bendir réttilega á hef ég talað fyrir því að við gerð kjarasamninga sé í auknum mæli litið til krónutöluhækkana, enda sé það sanngjörn leið og líkleg til að leiða til sátta. Oft hafa krónutöluhækkanir á lægstu laun ratað upp allan launastigann í formi prósenta, en slíkt er ekki náttúrulögmál. Það er t.d. athyglivert að í nýrri skýrslu heildarsamtaka á vinnumarkaði, »Í aðdraganda kjarasamninga«, sést að launadreifing var jafnari á árinu 2014 en á árinu 2006 – að laun þeirra launalægstu eru nú stærri hluti af launum þeirra launahæstu en áður. Það er mikilvægt að áfram sé haldið á sömu braut og í þeirri vinnu eru krónutöluhækkanir e.t.v. besta verkfærið. Að sama skapi er mikilvægt að draga úr neikvæðum jaðaráhrifum skatt- og velferðarkerfisins, sem leiða oft til þess að kauphækkanir skila sér ekki til fulls í hærri ráðstöfunartekjum. Slíkt er ótækt og brýnt að ríkisvaldið, launþegahreyfingar og vinnuveitendur taki höndum saman til að vinna á vandanum.

Því hefur verið haldið fram að kjarasamningar ríkisins hafi raskað jafnvægi á vinnumarkaði og hækkanir á launum ríkisstarfsmanna hafi verið úr takti við aðra launaþróun. Sú er ekki raunin, enda hefur ríkið samið við tæp 90% starfsmanna sinna með líkum hætti og almenni vinnumarkaðurinn hafði áður gert. Samningar við lækna og framhaldsskólakennara, sem samtals eru um 10% starfsmanna ríkisins og 1,5% af vinnumarkaði í heild, skera sig þó úr. Í þeim samningum voru gerðar verulegar breytingar á vinnufyrirkomulagi og launauppbyggingu stéttanna. Samningarnir eru einnig til mun lengri tíma, eða tæpra þriggja ára. Þeir geta því ekki gefið fordæmi fyrir þá samninga sem framundan eru á vinnumarkaði. Ég deili hins vegar áhyggjum með Sigurði af því að fámennir hópar geti í krafti aðstöðu sinnar knúið viðsemjendur sína til verulegra frávika frá markaðri launastefnu. Þetta er vandi í hinu íslenska vinnumarkaðslíkani sem stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins verða sameiginlega að taka á.

Kaupmáttur launa hefur aukist um 5,3% síðastliðna tólf mánuði, sem verður að teljast verulega góður árangur. Margir eiga þátt í þeim árangri, sem m.a. skýrist af ábyrgum kjarasamningum á síðasta ári. Þar var samið um 6,6% hækkun sem skilaði sér að nær öllu leyti í auknum kaupmætti vegna þess mikla verðstöðugleika sem ríkti á tímabilinu. Raunar er árangurinn sögulegur, því kaupmáttur launa mældist í nóvember síðastliðnum hærri en nokkru sinni áður eins og upplýsingar frá Hagstofu Íslands sýna glögglega. Lægri skattaálögur á heimili og leiðrétting fasteignaskulda hafa svo enn frekar aukið kaupmátt heimilanna. Staðan er því betri en oftast áður og sem betur fer er eitthvað til skiptanna. Nú ríður hins vegar á að óttinn við að missa af hlutdeild í afrakstrinum verði ekki til þess að minna verði til skiptanna fyrir alla.

Sigurður Bessason hefur starfað í verkalýðshreyfingunni frá því fyrir gerð þjóðarsáttarsamninganna fyrir réttum 25 árum síðan. Hann veit hversu mikilvægur stöðugleikinn er fyrir íslenska launþega og hefur unnið ötullega að því að viðhalda honum.

Það er mikilvægt að kunna að takast á við velgengni jafnt sem mótlæti. Við skulum halda áfram á leið aukins kaupmáttar með sameiginlegu átaki því það kemur heimilum og fyrirtækjum best. Félagsleg velferð og öflugt atvinnulíf haldast í hendur. Kveðum verðbólgudrauginn niður og stöndum saman að því að auka kaupmátt enn meira.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. febrúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Ertu búinn að samþykkja skuldaleiðréttinguna þína?

Deila grein

18/02/2015

Ertu búinn að samþykkja skuldaleiðréttinguna þína?

Þorsteinn-sæmundssonÁgæti lesandi. Nú styttist að frestur til að samþykkja skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar renni út. Nú þegar þetta er ritað hafa um 75% þeirra sem rétt eiga á leiðréttingu staðfest hana. Sá sem hér ritar hefur hitt og/eða heyrt frá allmörgum sem þegar hafa samþykkt leiðréttingu sína. Flestir þeirra virðast sáttir við sinn hlut og telja leiðréttinguna góða viðspyrnu átt að betri fjárhagsaðstæðum heimila sinna. Skuldaleiðréttingin kemur ekki aðeins fram beinni lækkun höfuðstóls lána heldur koma áhrifin af henni fram í lækkaðri greiðslubyrði meðan lánstíma leiðrétts láns stendur. Þannig má taka dæmi:
Mánaðarleg greiðslubyrði af dæmigerðu 10 m.kr láni, sem fær 1,8 milljóna króna leiðréttingu, lækkar um 8.705 kr. (var 78.676 kr., lækkar í 69.972 kr.) Árleg lækkun greiðslubyrðar nemur um 105 þúsund krónum ári. 10 ára líftíma láns lækkar greiðslubyrði því um rúma milljón. Til samanburðar tekur um það bil 10 ár að safna 1,8 milljónum ef einstaklingur leggur 12 þúsund kr. inn á bók mánaðarlega.

Heildaráhrif leiðréttingarinnar í ofangreindu dæmi nema því um 2,8 milljónum króna. Ef einstaklingur hefði staðið straum af svo auknum greiðslum á eigin spýtur hefði hann þurft að auka tekjur sínar um allt að milljónir á tímabilinu. Af þessu dæmi má sjá að verulega munar um skuldaleiðréttinguna fyrir þá sem samþykkja hana. Ég vil því nota tækifærið til að hvetja alla þá sem enn hafa ekki samþykkt skuldaleiðréttingu sína að gera það áður en frestur rennur út. Víst er að hvort sem leiðréttingin er mikil eða lítil munar um hana í heimilisrekstri flestra. Einnig er ástæða til að hvetja alla sem geta nýtt sér sérstakan séreignarsparnað til skuldalækkunar að gera það. Í því tilfelli geta hjón nýtt sér sparnaðinn til skuldalækkunar allt að tveimur milljónum króna á þrem árum. Hefðu sömu hjón einnig notið leiðréttingar líkt og dæminu hér að ofan myndu heildaráhrif til skuldalækkunar nema allt að 4,8 milljónum þegar allt er talið. Það munar um minna fyrir heimili með meðaltekjur eða lægri.

Skuldaleiðrétting ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er afrek sem mun hafa víðtæk áhrif mjög marga í verulegan tíma. Þegar má greina áhrif leiðréttingarinnar í aukinni bjartsýni sem nú verður vart við þjóðfélaginu. Svo virðist sem almenningur nýti aukin fjárráð vegna skuldaleiðréttingarinnar til þess að endurnýja ýmislegt sem orðið hefur að sitja á hakanum undanfarandi eða einfaldlega að veita sér aftur sjálfsögð gæði sem fólk hefur þurft að neita sér um undanfarin ár. Aukin fjárráð heimilanna munu fljótt skila sér auknum umsvifum í þjóðfélaginu öllu.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í DV 17. febrúar 2015

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Meiri hlutinn á móti ESB aðild – enginn reginmunur á íbúum höfuðborgarsvæðisins og úti á landsbyggðinni

Deila grein

17/02/2015

Meiri hlutinn á móti ESB aðild – enginn reginmunur á íbúum höfuðborgarsvæðisins og úti á landsbyggðinni

Jóhanna María - fyrir vefJóhanna María Sigmundsdóttir, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins í dag, að enn og ný komi fram skoðanakönnun um viðhorf til aðildar Íslands að ESB. Að sögn Jóhönnu Maríu þá skiptir ekki máli hvaða samtök leggi spurninguna fram, meiri hlutinn sé á móti.
„Í morgun voru birtar niðurstöður úr nýjustu könnun þess efnis. Þar kemur fram að tæplega helmingur landsmanna er andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu. 49,1% svarenda sagðist andvígt inngöngu landsins í ESB. 32,8% sögðust hlynnt inngöngu en 18,1% svarenda var hvorki hlynnt né andvígt inngöngu,“ sagði Jóhanna María.
„Í könnuninni kemur einnig vel í ljós að það er enginn reginmunur á íbúum höfuðborgarsvæðisins og úti á landsbyggðinni, en þar sögðust 42% Reykvíkinga vera andsnúin inngöngu, í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar eru 45% andvíg aðild og munurinn er svo enn meiri í öðrum sveitarfélögum landsins en þar eru 59% íbúanna andvíg aðild að ESB en 21% hlynnt,“ sagði Jóhanna María.
„Virðulegi forseti. Ég tel orðið tímabært að við klárum þetta mál,“ sagði Jóhanna María að lokum.
Könnunin var gerð fyrir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, og tók til 1.450 manns á öllu landinu, 18 ára og eldri, sem voru handahófsvaldir úr viðhorfahópi Capacent Gallup.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.
 
 

Categories
Fréttir

Birkir Jón nýr formaður sveitarstjórnarráðs

Deila grein

10/02/2015

Birkir Jón nýr formaður sveitarstjórnarráðs

Birkir-Jon-JonssonÁ fyrsta fundi nýs sveitarstjórnarráðs Framsóknar var Birkir Jón Jónsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi, kjörinn til forystu. Aðrir í stjórninni eru Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar, og Ásgerður K. Gylfadóttir, sveitarstjórnarmaður á Hornafirði.
Birki Jón þarf vart að kynna fyrir flokksmönnum, fyrrverandi varaformaður Framsóknarflokksins, alþingismaður, aðstoðarmaður ráðherra og bæjarfulltrúi í Fjallabyggð. Það skal tekið fram að Birkir Jón er aðeins 35 ára gamall.
Hlutverk sveitarstjórnarráðs Framsóknar er að efla starfsemi Framsóknarflokksins á sviði sveitarstjórnarmála, að auka samstarf sveitarstjórnarmanna flokksins og vera flokksforystu og þingflokki framsóknarmanna til ráðuneytis.
Sveitarstjórnarráð skal koma saman a.m.k. einu sinni á ári en stjórnin ber eftir það ábyrgð á starfi ráðsins. Kjör stjórnar gildir þar til lokið er að kjósa í sveitarstjórnarráð að nýju eftir að kjörtímabil þess rennur út, 2018.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Verslunin hefur birgt sig upp með haustskipinu og bíður svo spennt eftir að vorskipið komi með nýjar birgðir

Deila grein

08/02/2015

Verslunin hefur birgt sig upp með haustskipinu og bíður svo spennt eftir að vorskipið komi með nýjar birgðir

Þorsteinn-sæmundsson„Á maður að trúa því að kaupmenn hafi birgt sig upp af sykri og sykruðum vörum nokkrum vikum áður en fyrirhuguð lækkun átti að koma til framkvæmda,“ spurði Þorsteinn Sæmundsson, alþingismaður, þingheim í liðinni viku. En rúmur mánuður er frá því að skattkerfisbreytingar urður, er lægra þrep virðisaukaskatts hækkaði og hærra þrepið lækkaði og nokkur vörugjöld lækkuðu.
„Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með hvernig þessi framkvæmd hefur verið vegna þess að það ríður mjög á að kaupmenn sýni ábyrgð og skili þessu til neytenda. Það verður að segjast eins og er að það hafa komið fram nokkur tilvik þar sem greinilegt er að svo hefur ekki verið, sem er óþolandi,“ sagði Þorsteinn.
Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustunýlegt var í viðtali nýlega þar sem hann lét hafa eftir sér að það mundu líða nokkrar vikur, allnokkrar vikur, þangað til sykurskattslækkunin mundi skila sér að fullu til neytenda.
„Ég hugsaði með mér: Það er ekki logið upp á íslenska verslun. Á maður að trúa því að kaupmenn hafi birgt sig upp af sykri og sykruðum vörum nokkrum vikum áður en fyrirhuguð lækkun átti að koma til framkvæmda? Eða er það þannig að engin þróun hafi orðið hér í 100 ár? Hafa menn birgt sig upp með haustskipinu og bíða svo spenntir eftir að vorskipið komi með nýjar birgðir?,“ sagði Þorsteinn.
„Þessi viðbrögð af hálfu kaupmanna og tregða þeirra til þess að skila þeim skattkerfisbreytingum til neytenda sem átti að gera, hlýtur að kalla á sérstakar aðgerðir af hálfu þeirra sem hér sitja,“ sagði Þorsteinn.
Ræða Þorsteins Sæmundssonar:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.