Categories
Greinar

Þjóðareign

Deila grein

30/09/2018

Þjóðareign

Hvalfjarðargöng eru einstök framkvæmd í íslenskri samgöngusögu. Þessi mikla samgöngubót var tekin í notkun 11. júlí 1998. Nú tuttugu árum síðar tekur íslenska ríkið yfir rekstur Hvalfjarðaganga. Göngin eru dæmi um vel heppnaða framkvæmd og eru mikil samgöngubót fyrir íslenskt samfélag í heild. Nú tuttugu árum síðar, í lok tímabils er Hvalfjarðargöng eign þjóðarinnar. Gjaldtöku hefur verið hætt.

Ávinningur

Í dag er öllum ljóst að gerð Hvalfjarðarganga var mikið gæfuspor í samgöngum á landinu og gríðarleg samgöngubót, um það verður ekki deilt. Með tilkomu þeirra styttist leiðin norður um land um 42 km og milli Reykjavíkur og Akranes um 60 km. Möguleikarnir á stærri vinnumarkaði og skólavist urðu fleiri og fjölbreyttari sem leiddi til jákvæðra íbúaþróunar eftir að bættum samgöngum var komið á. Ávinningur íbúa á Vesturlandi er þar einna mestur og hleypur væntanlega á milljörðum. Ferðakostnaður er lægri, atvinnutækifærin eru fleiri,  vöruverð hagstæðara og svona mætti áfram telja. Göngin hafa styrkt byggð og búsetu.

Umdeild neðansjávargöng

Hvalfjarðargöng eru fyrstu sinnar tegundar hér á landi, neðansjávargöng. Meðan á undirbúningi og framkvæmd stóð voru margir tortryggnir, eðlilega. Framkvæmdin var afar umdeild og meirihluti þjóðarinnar sagðist aldrei myndu aka um þau. En raunin er önnur. Á þeim tæpu tuttugu árum sem liðin eru frá opnum Hvalfjarðarganga hafa verið farnar meira en 32 milljónir ferða um göngin, sem hafa sparað akstur sem nemur um 2.100 milljónum kílómetra og þannig lagt sitt á vogarskálarnar með minni losun gróðurhúsalofttegunda. Þá eru ótalin þau jákvæðu áhrif á umferðaröryggi en vegstyttingar eru afar mikilvægar til að fækka slysum.

Hvalfjarðargangamódel

Þegar litið er til baka, verður ekki betur séð en reynslan af fyrirkomulagi við byggingu og rekstur Hvalfjarðaganga er góð. Hvalfjarðargöng sem einkaframkvæmd hafa staðið undir sér án ríkisábyrgðar. Rekstur þeirra og greiðslur af lánum hefur verið greitt með tekjum af þeim sem aka í gegnum göngin. Frekari framkvæmdir með sama fyrirkomulagi, þ.e. Hvalfjarðargangamódeli ættu því, að öllu óbreyttu, að vera fýsilegur kostur. Í samgönguáætlun eru nokkrar framkvæmdir sem geta farið fyrr af stað ef Hvalfjarðargangamódelið yrði yfirfært á fleiri svæði. Ég hef áður nefnt nokkrar framkvæmdir, s.s. brýr og göng sem væru vel til þess fallnar að verða fjármagnaðar líkt og Hvalfjarðargöngin. Önnur jarðgöng og stórar vegaframkvæmdir sem eru í samgönguáætlun, á svæðum þar sem er markaðsbrestur, ættu í því ljósi að byggjast fyrr.

Ný göng?

Umtalsverð aukning á umferð hefur orðið um Hvalfjarðargöng síðustu ár. Í kjölfarið hefur verið í umræðunni hvort ekki þurfi að grafa fyrir öðrum göngum, tvöfalda göngin sem þótti óhugsandi á sínum tíma. Meðalumferð það sem af er árs er um 7.200 bílar á dag Umferðaraukninguna má fyrst og fremst rekja til innlendra vegfarenda en minna en 10% ferða eru erlendir ferðamenn. Miðað við umferðarspá má gera ráð fyrir að ársdagsumferð nái þessu marki um 8.000 bíla á árinu 2020, en það er viðmiðunarmarkið á að tvöfalda þurfi Hvalfjarðargöng. Slík göng eru á samgönguáætlun en gert ráð fyrir að framkvæmdin verður fjármögnuð utan fjárlaga. Gera má ráð fyrir að ferlið frá ákvörðun til opnunar taki um 3 ár. Samhliða þarf að horfa til lagningar Sundabrautar en í samgönguáætlun er einnig gert ráð fyrir að hún verði fjármögnuð utan fjárlaga.

Fyrir hönd ráðuneytisins vil ég þakka Speli ehf. fyrir árangursríkt samstarf og óska landsmönnum öllum til hamingju með göngin sín.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. september 2018.

Categories
Greinar

Sveitarstjórnarstigið til framtíðar

Deila grein

28/09/2018

Sveitarstjórnarstigið til framtíðar

Sveitarstjórnarfólk um allt land er í óða önn að leggja línur fyrir starfsemi síns sveitarfélags á yfirstandandi kjörtímabili. Næstu fjögur ár verða notuð til að búa í haginn og styrkja þjónustu við íbúanna, skapa grundvöll fyrir bætt lífsskilyrði og búsetu hvar sem er á landinu. Takast á við gamlar sem nýjar áskoranir.

Áskoranir
Og þessar áskoranir eru margar og sumar flóknar. Íbúar gera eðlilega kröfu um góða þjónustu og góðu mannlífi. Rafræn stjórnsýsla ryður sér til rúms og fjórða iðnbyltingin er hafin – fer á ógnarhraða þar sem gervigreind, sjálfkeyrandi bílar, drónar verða brátt hluti af daglegu lífi. Þá leggur ný löggjöf auknar kröfur á stjórnsýslu sveitarfélaga, eins og ný sveitarstjórnarlög, upplýsingalög og nú síðast lög um persónuvernd.

Stærð og geta sveitarfélaganna
Á sama tíma stöndum við frammi fyrir því að mörg sveitarfélög eru fámenn. Sú spurning gerist áleitnari hvort þau séu nægjanlega vel í stakk búin til að takast á við umfangsmiklar áskoranir. Meira en helmingur sveitarfélaga er með færri en eittþúsund íbúa, það er að segja 39 af 72!

Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem nú stendur yfir á Akureyri, setti ég fram tillögu um að mótuð yrði sameiginleg stefna um að fækka og efla sveitarfélögin. Það mætti t.d. byrja á átaki þar sem sveitarfélög hafa tiltekin tíma, segjum fjögur til átta ár, til að ná tilteknum markmiðum í frjálsum sameiningum. Samhliða yrði fjárhagslegur stuðningur Jöfnunarsjóð sveitarfélaga við sameiningar og til skuldalækkunar stóraukin. Ég gæti séð það fyrir mér að um 15 milljarðar færu í slíkan stuðning á tímabilinu.

Eftir að þessu tímabili lyki tæki við ákvæði sveitarstjórnarlaga um lágmarksíbúafjölda. Þau sveitarfélög sem ekki hefðu nýtt tímann til að ná settu markmiði þyrftu þar með að sameinast nágrannasveitarfélagi.

Ég veit að sjónarmiðin verða ólík og áherslurnar mismunandi. En verkefnið er skýrt – að móta eina stefnu fyrir íslensk sveitarfélög, fyrir framtíðina. Stærð sveitafélaga og geta þeirra til að sinna lögbundnum verkefnum og styðja við umbreytingar og framþróun samfélagsins verður hluti af þeirri stefnumörkun.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. september 2018.

Categories
Fréttir

Sveitarstjórnarstigið til framtíðar

Deila grein

27/09/2018

Sveitarstjórnarstigið til framtíðar

Sig­urður Ingi Jó­hann­es­son, sveit­ar­stjórn­ar og sam­göngu­málaráðherra, vill að far­in verði blönduð leið hvata og skil­yrða við sam­ein­ingu sveit­ar­fé­laga á Íslandi. Í ræðu Sigurðar Inga við upp­haf Landsþings Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga sagði hann það ljóst að marg­ar áskor­an­ir sem sveit­ar­fé­lög­in standa frammi fyr­ir séu af þeirri stærðargráðu og hraða að fyr­ir sum fá­menn sveit­ar­fé­lög verði þær óyf­ir­stíg­an­leg­ar.
Glærur með ræðu Sigurðar Inga Jóhannssonar.

Ræða Sigurður Inga Jóhannssonar á Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 2018:

Sveitarstjórnarstigið til framtíðar

Ávarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga; landsþingsfulltrúar; aðrir gestir.

Ég vil byrja á því að óska sveitarstjórnarfólki til hamingju með kjörið í kosningunum í vor.
Það er í senn heiður og mikil áskorun að veljast til forystu í sínu sveitarfélagi. Íbúar hafa væntingar um að vel takist til við stjórn sveitarfélagsins síns og að það vaxi og dafni á komandi árum.
Sjálfur sat ég í sveitarstjórn Hrunamannahrepps í 15 ár og þar af sjö ár sem oddviti þannig að ég þekki vel þessa ábyrgð sem þið eru að takast á hendur.
Vissulega fer mikill tími í þessi störf, sem væri hægt að nýta með fjölskyldu og í ýmislegt annað, en ekki vildi ég vera án þessarar reynslu
Áhugaverðast er þó að vinna að framfaramálum með öllu því góða fólki sem starfar á þessum vettvangi, hvort sem það eru aðrir kjörnir fulltrúar, starfsmenn sveitarfélagsins og ekki síst íbúarnir sjálfir.
Störf kjörinna fulltrúa
Það er því ánægjulegt að sjá allan þann mikla fjölda fólks sem býður sig fram til ábyrgðar í sveitarstjórnum landsins.
Mikil endurnýjun  var í röðum kjörinna fulltrúa í vor. Rannsóknir sýna að tæp 60 % kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa snúa ekki til baka að loknum kosningum – og hefur hlutfallið farið hækkandi.
Endurnýjun er í sjálfu sér eðlileg og af hinu góða, en þegar um eða yfir helmingur kjörinna fulltrúa velur að halda ekki áfram í aðdraganda hverra kosninga þarf að staldra við – Kannski er réttara að kalla þetta brottfall frekar en endurnýjun.
Kannanir benda til þess að aukið álag, flóknari verkefni og að einhverju leyti lág þóknun skýri þessa stöðu.
Þá kann að vera að óvægin umræða á samfélagsmiðlun fæli fólk frá því að bjóða sig fram til slíkra starfa.
Þetta þarf að skoða og mun ég við tækifæri taka málið upp við stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Meðal annars þarf að meta hvort þörf er á að bæta kjör og vinnuskilyrði kjörinna fulltrúa frá því sem nú er.
Við getum hins vegar glaðst yfir því að hlutur kvenna í sveitarstjórnum hefur aukist, en þær eru nú 47% kjörinna. Þá fáum við góðar fréttir af því að fleiri konur hafi tekið við sem bæjar- og sveitarstjórar en var á síðasta kjörtímabili.
Við Íslendingar erum fyrirmynd annarra þjóð þegar kemur að stöðu og viðhorfum í jafnréttismálum og framlag ykkar, kæra sveitarstjórnarfólk, skiptir miklu máli fyrir jafnréttisstarfið í landinu.
Þróun sveitarstjórnarstigsins
Þegar við lítum yfir farinn veg þá getum við sagt að þróunin í málefnum sveitarfélaga hafi verið jákvæð.
Sveitarstjórnarstigið gegnir þýðingarmiklu hlutverki fyrir samfélagið allt. Sveitarfélögin hafa stjórnarskrárvarinn rétt til að ráða sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ráðstafa eigin tekjustofnum.
Þessi réttur hefur verið á hávegum hafður á Íslandi.
Sveitarfélögum hefur ekki verið gert að sameinast líkt og t.d. í Danmörku og Noregi – íbúarnir hafa sjálfir haft það í sínum höndum hvort þeir vilja að sveitarfélagið sameinist nágrannasveitarfélagi eða ekki.
Tekjustofnar sveitarfélaga eru þannig samsettir að í norrænum samanburði er hlutfall eiginfjármögnunar mun hærra hér á landi. Þá er horft til þess hve hátt hlutfall útsvar og fasteignaskattar eru í heildartekjum þeirra – og hve lágt hlutfall kemur í gegnum jöfnunarkerfi.
Hlutdeild Jöfnunarsjóðs í heildatekjum sveitarfélaga er t.d. um 13% –  en er allt að 50% sambærilegu kerfi í Noregi. Útsvarið og fasteignaskattar samanlagt eru á hinn bóginn um 70% hér.
Eðlileg umræða og skoðanaskipti fer fram um það hvort tekjustofnar séu nægjanlegir frá einum tíma til annars – en sem betur fer hafa ríki og sveitarfélög náð að semja sig til niðurstöðu í flestum slíkum álitamálum.
Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga hefur líka tekið breytingum. Verkefni hafa færst til sveitarfélaga á umliðnum árum – markmiðið er að tryggja að ákvarðanir séu teknar sem næst þeim sem þjónustunnar njóta.
Yfirfærsla grunnskólans árið 1996 og málefna fatlaðs fólks 2011 var mjög mikilvæg leið til að efla og styrkja sveitarstjórnarstigið hér á landi.
Þetta hefur leitt til þess að hlutur sveitarfélaganna í opinberum búskap hefur vaxið, tekjur sveitarfélaga sem hlutfall af vergri landsframleiðslu var innan við 7,5 prósent 1980 en er nú komið vel yfir 12 og hálft prósent.
Við erum þó fjarri því að ná þeirri hlutdeild sem sveitarfélög á Norðurlöndum hafa í þessum sambandi. Það skýrist að einhverju leyti af því að þar er fylkin eru einnig talin með sveitarstjórnarstiginu – hið svokallaða þriðja stjórnsýslustigi.
Það er vilji fyrir því að halda áfram á þessari braut. Öldrunarmál og rekstur framhaldsskóla hafa t.d. verið nefnd sem ákjósanleg verkefni sveitarfélaga. Með því móti væri hægt að samþætta sambærileg verkefni á einu stjórnsýslustigi, nýta betur fé skattborgaranna og umfram allt – bæta þjónustuna.
Þá er vert að nefna að margvíslegar umbætur voru innleiddar með sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi í ársbyrjun 2012. Fjármálakafli laganna tók gagngerum breytingum m.a. með tilkomu nýrra fjármálareglna. Ennfremur voru ákvæði laganna um byggðasamlög og samstarfsverkefni bættur til að auka gengsæi og skýrleika varðandi framsal á valdheimildum sveitarstjórna.
Ég tel að samstarf ríkis og sveitarfélaga sé í föstum og góðum skorðum. Lögin kveða á um reglulegt samráð sveitarstjórnarráðherra og fjármálaráðherra með stjórn sambandsins.
Svokölluð Jónsmessunefnd fundirbýr fundina og fjallar jafnframt um þau mál sem efst eru á baugi í samskiptum ríkis og sveitarfélaga hverju sinni.
Ríkisstjórnin er líka meðvituð um um mikilvægi sveitarfélaganna – í stefnuyfirlýsingu hennar er lýst yfir vilja til að auka samráð við sveitarfélögin um verkefni þeirra og fjárhagsleg samskipti.
Vinna er þegar hafin við að skilgreina hlutverk landshlutasamtaka og styrk sveitarfélaga til að rísa undir nauðsynlegri þjónustu.
Þá vill ríkisstjórnin treysta enn betur samráð og stuðning við ykkur er varðar uppbyggingu innviða, byggðaþróun og fjármálaleg samskipti.
Áskoranir sem sveitarstjórnarstigið stendur frammi fyrir
En – ágæta sveitarstjórnarfólk – þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun stendur sveitarstjórnarstigið frammi fyrir margvíslegum áskorunum sem við þurfum að ræða og taka afstöðu til – hvernig ætlum að bregðast við.
Í fyrsta lagi gera íbúarnir eðlilega kröfu um góða þjónustu á öllum sviðum. Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem nefnd á vegum ráðuneytisins vann kalla íbúar sveitarfélaga eftir góðri þjónustu og góðu mannlífi en virðast minna uppteknir af því hver veitir þjónustuna.
Í öðru lagi hafa komið til ný lagafyrirmæli sem leggja auknar kröfur á stjórnsýslu sveitarfélaga. Ég hef nefnt sveitarstjórnarlögin, sem hafa aukið kröfur um formfestu og aga í stjórnsýslu og fjármáum sveitarfélaga.
Ný lög um opinber fjármál gera ráð fyrir miklu meiri samhæfingu og samstillingu en áður og eftir því sem hlutur sveitarfélaganna í opinberum búskap stækkar vex þörfin fyrir samráð á þessu sviði.
Upplýsingalögum gera einnig ríkar kröfur um aðgengi almennings að gögnum og upplýsingum.
Þá eru verið að innleiða nýja löggjöf á sviði persónuverndar sem leggur miklar og að einhverju leyti nýjar skyldur á opinbera aðila. Sveitarfélögin fara ekki varhluta af þeim breytingum og eru að gera viðeigandi ráðstafanir til að mæta þeim skyldum.
Í þriðja lagi eru allskonar áskoranir tengdar breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar. Meðallíftími lengist og við erum virkari lengur en áður í félagslífi og samfélaginu öllu.
Erlendir ríkisborgarar og innflytjendur eru nú hærra hlutfall þjóðarinnar en áður.
Þá hefur þéttbýlismyndun gengið hratt fyrir sig, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu, við sjáum einnig byggðalögin allt þar í kring vaxa með miklum hraða.
Nýrri byggðaáætlun er hins vegar er ætlað að jafna tækifæri allra landsmanna óháð búsetu.
Í fjórða lagi stöndum við frammi fyrir miklum umbyltingum í tækni.
Rafræn stjórnsýsla riður sér til rúms og fjórða iðnbyltingin er hafin og fer á ógnarhraða þar sem gervigreind, sjálfkeyrandi bílar, drónar eru meðal orðin hluti af daglegu lífi
Þetta allt er að gerast NÚNA.
Í nýrri samgönguáætlun er t.d. verið að leitast við að ná utan um þau tækifæri sem nútíma tækni býður upp á í dag og næstu árin.
Að lokum vil ég nefna umhverfis- og loftlagsmál, þar eru risaverkefni framundan. Sveitarfélögin eru og verða lykilaðilar í að vinna að sjálfbærum lausnum á öllum sviðum.
Ríkisstjórn Íslands samþykkti nýlega tillögur verkefnastjórnar um forgangsröðun á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þið ætlið á þessu landsþingi að ákveða aðkomu sveitarfélaganna að verkefninu, en virk þátttaka ykkar er gríðarlega mikilvæg.
Þannig að áskoranirnar eru margar og stórar.
Stærð og geta sveitarfélaganna
Á sama tíma stöndum við frammi fyrir því að mörg sveitarfélaganna eru fámenn. Og sú spurning gerist áleitnari hvort þau séu nægjanlega vel í stakk búin til að takast á við þessarar áskoranir.
Meira en helmingur sveitarfélaga er með færri en eittþúsund íbúa, það er að segja 39, og 25 sveitarfélög hafa færri en 500 íbúa – ríflega þriðjungur!
Verkefnisstjórn um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga, sem skilaði áliti sínu og tillögum á síðasta ári – sem verður rædd hér á landsþinginu – komst að þeirri niðurstöðu að sveitarfélögin væru of fámenn. Það viðhorf hafi einnig komið fram í samtölum verkefnisstjórnar við sveitarstjórnarfólk um land allt.
Mikill tími og fjármunir fara í rekstur sveitarfélaga og of lítið er aflögu til stefnumótunar og til að móta framtíðarsýn fyrir sveitarfélögin. Það var mat verkefnisstjórnar að núverandi sveitarstjórnarskipan sé að hluta til haldið við með samstarfi á milli sveitarfélaga, með samningum um samvinnu, byggðasamlögum eða á vettvangi landshlutasamtaka. Núverandi uppbygging Jöfnunarsjóðs komi þar einnig við sögu.
Ég get tekið undir þetta.
Ráðuneytið hefur skoðað þessi mál sérstaklega og kallað eftir öllum samningum sem hvert og eitt sveitarfélag gerir við önnur sveitarfélög um samrekstur verkefna. Markmiðið er að afla heildstæðra upplýsinga um þá samstarfssamninga sem starfað er eftir og leggja mat á hversu vel þeir samræmast kröfum sem gerðar eru til slíkra samninga.
Þessi athugun leiðir einnig í ljós ákveðið munstur þegar hver landshluti er tekin fyrir með hliðsjón af því hvaða sveitarfélög innan landshlutans vinnan saman.
Tökum Suðurland sem dæmi – mitt góða svæði sem ég þekki vel. Þar vinna sveitarfélögin mikið saman í formi byggðasamlaga er. Samstarfið fylgir oft á tíðum hinum gömlu sýslumörkum, þ.e. Árnessýsla, Rangárvallasýsla og Vestur-Skaftafellssýsla, en Sveitarfélagið Hornafjörður og Vestmannaeyjar skera sig þó úr hvað þetta varðar. Svo fer auðvitað einnig fram samstarf einstakra sveitarfélaga innan sýslumarkanna og á milli þeirra.
Þetta samstarf gengur allt ljómandi vel – segja menn – en er það alltaf svo?
Stóra spurningin er – Viljum við hafa þetta svona?
Verkefnisstjórn um stöðu og framtíð sveitarfélaga komst amk. að þeirri niðurstöðu að fjöldi samninga um samvinnu og fjöldi byggðasamlaga undirstriki nauðsyn þess að fækka og stækka sveitarfélög, m.a. til þess að auka gagnsæi og tryggja lýðræðislegt umboð kjörinna fulltrúa gagnvart íbúum.
En hvað viljum við, kæra sveitarstjórnarfólk, gera? Hvernig sjáum við þetta fyrir okkur eftir 10 eða 15 ár.
Frekari umbætur – efling sveitarstjórnarstigsins
Við getum byrjað á því að velta fyrir okkur valkostum og taka umræðuna þaðan.
Fyrsti valkostur væri t.d. að gera ekki neitt – láta þetta bara gerast af sjálfu sér.
Það má alveg segja að árangur hafi náðst hvað fjölda sveitarfélaga varðar – þau voru um 200 árið 1990 en eru núna 72. En hættan er sú að sveitarfélögin þróist með ólíkum hætti, stefnulítið og geta þeirra til að sinna verkefnum og skyldum verði afar ólík.
Annar valkostur væri sá að halda áfram þessum reglulegu átaksverkefnum – þar sem stjórnvöld bjóða fram einhverja fjármuni og setja skilyrði um að tillögur verði settar fram í sveitarfélögum og um þær kosið.
Það var gert árið 1994 og aftur 2005 – en enginn sérstakur árangur held ég megi segja, kannski einhver óbein áhrif.
Verkefnisstjórnin benti á að komin ákveðin þreyta í slík átaksverkefni, þau skapi alltaf einhverja úlfúð í héraði og þá sé betra að fá ákvörðunina að ofan.
Þriðji valkosturinn væri að setja lög sem ákveða sveitarfélagaskipanina. Það væri t.d. hægt að setja ákvæði um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga í sveitarstjórnarlög, t.d. eittþúsund líkt og frumvarp sem Kristján Möller þáverandi sveitarstjórnarráðherra kynnti í ríkisstjórn árið 2009.
Eistland fór t.d. þessa leið, það voru sett lög og sveitarfélögin höfðu eitt og hálft ár til að ná markmiðum um lágmarkíbúafjölda. Ég kynnti mér nýlega þeirra mál og hitti m.a. formann sambands sveitarfélaga þar – hann fullyrti að þegar allt væri um garð gengið hefði þetta bara verið hið besta mál.
Fjórði valkosturinn gæti verið sá að bú til þriðja stjórnsýslustigið – líkt og Finnar eru að gera um þessar mundir.
Þar hafa menn ákveðið að hverfa frá þeirri stefnum að sameina sveitarfélögin með frjálsum kosningum en færa þess í stað meginþorra verkefna þeirra til hinna nýju landshlutabundnu stjórnsýslueininga.
Sveitarfélögin missa um 60% tekjum sínum – en fá að vera í friði með þau verkefni sem skilin eru eftir.
Ég held þó að fæstir hér inni séu spenntir fyrir þessum valkosti.
Fimmti valkosturinn væri sá að fara blandaða leið, og þá væri ég að horfa á annan og þriðja valkost.
Byrja á átaki þar sem sveitarfélög hafa tiltekin tíma, segjum fjögur til átta ár til að ná tilteknum markmiðum í frjálsum sameiningum.
Samhliða yrði veittur rausnarlegur stuðningur úr Jöfnunarsjóði við sameiningar og til  endurskipulagningu á stjórnsýslu og skuldalækkunar. Ég gæti séð það fyrir mér að allt að 15 milljarðar færu í slíkan stuðning á tímabilinu – að Jöfnunarsjóður legði verkefninu til milljarð á ári í 15 ár.
Ef til vill næðist einnig samstaða um einhverja með fjármögnun ríkisins.
Eftir að þessu fjögurra til átta ára tímabili lyki tæki hins vegar gildi nýtt ákvæði sveitarstjórnarlaga um lágmarksíbúafjölda. Þau sveitarfélög sem ekki hefðu nýtt tímann til að ná settu markmiði þyrftu þar með að sameinast nágrannasveitarfélagi til að uppfylla skilyrði laganna um íbúafjölda.
Ekki kæmi til íbúakosninga um sameiningar frá þeim tíma – heldur yrði um skyldubundna sameiningu að ræða – líkt og verkefnisstjórnin lagði til.
Ég verð að segja að þetta er sú leið sem mér hugnast best – en ég hlakka til að heyra ykkar sjónarmið.
Tekjustofnar og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga
Samhliða þessum breytingum þyrftum við einnig að huga að ýmsum útbótum á tekjustofnakerfinu.
Málefni Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hafa verið til umræðu í langan tíma án þess að heildaruppstokkun á kerfinu hafi farið fram. Menn hafa bent á að núverandi skipulag sjóðsins hamli sameiningum og dragi þannig úr hvata til umbóta. Bent er á að sjóðurinn ívilni litlum sveitarfélögum á kostnað stærri, og að sveitarfélög sem nýta ekki útsvarsheimildir að fullu fái það bætt úr Jöfnunarsjóði.
Ég hef kynnt mér tillögur um breytingar á þessu kerfi. Þær ganga út á að byrja með einfalda aðlögun á gildandi regluverki og í framhaldinu, t.d. þegar liggur nánar fyrir um sameiningarmál sé hægt að taka stærra skref.
Þessi leið hugnast mér ágætlega en vil gjarnan hlusta á ykkar sjónarmið.
Þessi vinna heldur því áfram, en ég vil undirstrika að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga gegnir mikilvægu hlutverki við það að jafna aðstöðu sveitarfélaga og tryggja að þau geti sinnt sínum lögbundnu verkefnum óháð stærð og staðsetningu.
Byggðaleg þýðing sjóðsins er einnig mikil og ég sem ráðherra byggðamála hlýt að minna okkur á að allar breytingar sem verðar gerðar þurfa að hafa slík sjónarmið að leiðarljósi.
Hvað aðra tekjustofna varðar þá er það vilji ríkisstjórnarinnar að færa gistináttagjaldið til sveitarfélaganna á kjörtímabilinu. Gjaldið skilar nú um 1,4 milljarði í ríkissjóð og það væri þá sú fjárhæð sem við erum að tala um að óbreyttum lögum.
Það er síðan sérstök umræða hvernig fjármagninu verður skipt á milli sveitarfélaga. Þar eru ýmsar leiðir færar, t.d. að horfa til þess hvar tekjurnar verða til. Það er þó ekki bara þar sem sveitarfélög verða fyrir útgjöldum vegna mikils fjölda ferðamanna, ferðamenn fara víða um og uppbygging innviða og þjónustu er í gangi um allt land. Því dugar sú leið ekki ein og sér – við þurfum að mínu mati að horfa á blandaða leið þar.
Að endingu nefna það réttlætismál að jafna þarf betur tekjur sem sveitarfélög hafa af mannvirkjum sem nýtt eru til orkuframleiðslu og dreifingar. Á þessu sviði eru margvísleg mannvirki ekki metin fasteignamati eða undanþegin álagningum meðan lagðir eru fasteignaskattar á önnur. Þau sveitarfélög sem eru svo lánsöm að stöðvarhúsið lendir á þeirra svæði fá góðar tekjur en hin ekkert.
Þetta þekkið þið vel og ég held að við getum öll verið sammála um að það er réttlætismál að gera breytingar á lögum um skráningu og mat fasteigna hvað þetta varðar. Þjóðskrá Íslands hefur unnið fyrir ráðuneytið nokkrar sviðsmyndir sem sýna hvernig hægt væri að ná slíkum markmiðum. Það væri síðan samningsatriði hve tekjuauki sveitarfélaga gæti orðið við slíka breytingu.
Ég hef ákveðið að skipa starfshóp með fulltrúum ykkar og fleiri aðilum til að vinna áfram með þær hugmyndir sem liggja á borðinu og móta tillögur í þessa veru.
Stefnumótun í sveitarstjórnarmálum – Lokaorð
Ágætu landsþingsfulltrúar.
Verkefnishópurinn um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga lagði til að stjórnvöld marki skýra langtímastefnu fyrir sveitarfélög til allt að 20 ára þar sem allt er undir, byggðamál, samgöngumál og fjármál sveitarfélaga. Kallað var eftir nýrri nálgun; horft verði til sveitarfélaga út frá þeirri þjónustu sem þau eru að veita og sem þeim er ætlað að veita, hún kortlögð og útfærð meðal annars með tilliti til landfræðilegra og lýðfræðilegra þátta.
Ég er hjartanlega sammála þessari áherslu og hef þegar tekið fyrsta skrefið. Með nýjum lögum sem Alþingi samþykkti í júní síðastliðinn verða áætlunum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála samræmdar.
Við í samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytinu leyfum okkur að halda því fram að með þessum breytingum sé verið að marka nýja hugsun í opinberri stefnumótun.
Við setjum fram skýra framtíðarsýn fyrir okkar málaflokka.
Sveitarstjórnarstigið er þar ekki undanskilið því nú er lögbundið að taka saman í eina áætlun stefnumörkun ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Ráðherra málaflokksins skal leggur að minnsta kosti á þriggja ára festi fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til fimmtán ára í senn. Í áætluninni skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára á þessu sviði.
Það er því kærkomið, við upphaf þessar vinnu, að fá tækifæri til að hitta ykkur hér á Akureyri, heyra sjónarmið og áherslur ykkar um það sem gæti orðið efni og inntak stefnumörkunar til framtíðar fyrir sveitarstjórnarstigið.
Ég veit að sjónarmiðin verða ólík og áherslurnar mismunandi. En verkefnið er skýrt – við ætlum saman að móta eina stefnu fyrir íslensk sveitarfélög, fyrir framtíðin.
Ég er sammála mati verkefnisstjórnar um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga, að jarðvegur sé til breytinga á sveitarstjórnarstiginu sem nauðsynlegt er að gefa gaum og nýta.
„Framtíðin er hér“ er yfirskrift þessa landsþings – Ég segi: Framtíðin er núna.
Kæru landsþingsfulltrúar. Ég hlakka til samtalsins við ykkur og samstarfsins – mínar dyr í ráðuneytinu standa alltaf opnar fyrir ykkur.
Ég vil að endingu þakka Halldóri Halldórssyni kærlega fyrir hans góðu störfu í þágu Sambands íslenskra sveitarfélaga og óska honum góðs gengis á nýjum vettvangi.
Gangi ykkur vel í störfum ykkar.

Categories
Greinar

Efling iðnnáms á Íslandi

Deila grein

26/09/2018

Efling iðnnáms á Íslandi

Það er frábært að heimsækja íslenska framhaldsskóla. Á ferðum mínum undanfarna mánuði hef ég komið inn í ófáa slíka og hitt þar metnaðarfullt skólafólk og öfluga nemendur. Þar er unnið geysilega fjölbreytt og mikilvægt uppbyggingarstarf alla daga. Framhaldsskólastigið er brúin milli bernskunnar og fullorðinsáranna bæði hvað varðar nám og þroska.

Á fjárlögum þessa árs kom inn umtalsverð hækkun framlaga til framhaldsskólanna, alls um 1,2 milljarðar kr., og í nýju frumvarpi til fjárlaga ársins 2019 sést að sú fjárveiting til skólanna mun halda sér á næsta ári. Heildarútgjöld til framhaldsskólastigsins eru áætluð tæpir 33 milljarðar kr. á næsta ári en þar undir er rekstur á yfir 30 skólum úti um allt land. Í þessum skólum eru um 18.000 nemendur. Auknir fjármunir sem runnið hafa til skólanna að undanförnu gera þeim kleift að efla sitt skólastarf enn frekar, meðal annars með því að bæta námsframboð, styrkja stoðþjónustu og endurnýja búnað og kennslutæki.

Forgangsröðun í verki 

Fjárlagafrumvarp næsta árs ber þess merki að ríkisstjórnin forgangsraðar í þágu verk-, iðn- og starfsnáms. Við viljum að nemendur í öllum landshlutum hafi aðgengi að fjölbreyttu starfsnámi, ekki síður en bóknámi, sem uppfyllir kröfur næsta skólastigs og atvinnulífsins. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 224 milljóna kr. hækkun til reksturs framhaldsskóla og er lögð sérstök áhersla á að hækka verð reikniflokka starfs- og verknáms. Einnig eru framlög tryggð til að efla kennsluinnviði fyrir verk- og starfsnám, t.d. bætta verknámsaðstöðu í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Borgarholtsskóla. Enn fremur er unnið að þróun rafrænna ferilbóka fyrir nemendur í starfsnámi og einföldun í skipulagi námsins.

Það er mikilvægt að hver og einn nemandi geti fundið nám við sitt hæfi. Slíkt eykur ekki aðeins ánægju nemenda heldur dregur einnig úr líkum á brotthvarfi. Umfangsmikil verkefni sem við vinnum að á framhaldsskólastiginu eru meðal annars að sporna gegn brotthvarfi, stuðla að bættri líðan nemenda og styðja betur við nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku.

Á réttri leið 

Á undanförnum mánuðum höfum við séð jákvæð teikn á lofti í menntamálum. Nemendum sem innritast á ákveðnar verk- eða starfsnámsbrautir framhaldsskóla fjölgaði umtalsvert í haust, eða hlutfallslega um 33% á milli ára. Við viljum halda áfram á þessari vegferð og sækja fram fyrir allt menntakerfið okkar. Það mun skila sér í ánægðari nemendum og samkeppnishæfara hagkerfi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. september 2018.

Categories
Greinar

Kjarasamningar – Áskorun til okkar allra

Deila grein

24/09/2018

Kjarasamningar – Áskorun til okkar allra

Nánast allir kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum renna út í lok árs auk þess sem samningar á opinberum vinnumarkaði verða lausir í mars. Margir segja að undiraldan nú sé ekkert frábrugðin því sem alltaf gerist í aðdraganda kjarasamninga. Hins vegar er margt sem bendir til þess að umræðan nú sé þyngri heldur en verið hefur í langan tíma. Stöðugleiki efnahagslífsins og aukinn jöfnuður í samfélaginu getur farið saman í komandi kjarasamningum en til þess að svo geti orðið verða allir að leggja sitt af mörkum. Við setningu Alþingis fyrr í mánuðinum hvatti ég til þess að sýnd væri ábyrgð við þessar aðstæður og allir yrðu að líta í eigin barm.

Þyngra hljóð í atvinnurekendum 

Það er margt sem bendir til þess að svigrúm til launahækkana sé ekki mikið um þessar mundir. Áætlanir gera því miður ráð fyrir því að atvinnuleysi fari vaxandi á næsta ári. Ferðaþjónustan hefur verið talsvert í umræðunni og flugfélögin glíma við rekstrarerfiðleika. Hljóðið í atvinnurekendum kringum landið er þyngra nú en verið hefur í 2-3 ár. Það eiga allir að geta verið sammála um að það versta við þessar aðstæður væru hækkanir sem í framhaldinu myndu verða étnar upp af verðbólguskoti.

Hækkanir í efstu lögum verður að stöðva 

Árin fyrir fall bankanna blöskraði mörgum hvernig toppar samfélagsins voru komnir á himinhá laun með risa kaupaukum/bónusum. Í sumum tilfellum voru árslaun einstaklinga hærri heldur en verkamaður getur látið sig dreyma um á heilli starfsævi. Eftir fall bankanna tóku allir á sig byrðar til að rífa upp efnahagslífið og það tókst með undraverðum hætti. Nú hafa margir á tilfinningunni að í gangi sé launaskrið hjá efstu lögum samfélagsins og með tali um ábyrgð í efnahagsmálum megi skilja sem svo að þar sé talað til millistéttarinnar og þeirra sem hafa lægri tekjur.

Íslenskt samfélag byggist á jöfnuði og þeirri grunnhugsun að við viljum tryggja öllum jafna möguleika. Jafnvel þó að við séum búin að tryggja öllum ákveðinn grunn verðum við líka að horfa til þess að jöfnuður snýst um raunverulegan samanburð. Því snýst þetta ekki bara um hækkanir í prósentum, heldur hvort við getum leyft börnum okkar það sama óháð efnahag.

Á sama tíma eigum við að hvetja fólk til framsækni í námi og vinnu og að þeir sem mennti sig eða leggi meira á sig fái hærri laun. Sé farið of langt í þessa átt stuðlum við að ójöfnuði.

Endurtekin áskorun – Náum samstöðu um breytingar 

Ég fagna því að fara í samtal við aðila vinnumarkaðar um það hvernig við getum aukið jöfnuð í opinbera kerfinu líkt og kallað hefur verið eftir. Hinsvegar verða bæði verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur að fara yfir óeðlilegar hækkanir og kaupaukakerfi hjá forystufólki þeirra fyrirtækja sem eru að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða. Það gengur ekki að fyrirtæki í almannaeign séu að greiða himinháa bónusa ofan á laun sem fyrir eru hærri en þekkjast annars staðar í samfélaginu. Ég trúi því ekki að skattkerfið sé eina leiðin til að ná tökum á þessari óheilbrigðu stefnu.

Ég vil endurtaka áskorun mína til forystumanna lífeyrissjóða, til verkalýðshreyfingarinnar og til samtaka atvinnulífsins að endurskoða launakerfi og kaupauka hjá toppum þeirra fyrirtækja sem þeir eru í forystu fyrir. Það er mögulegt hjá okkur sem höfum hæstar tekjur að taka nú höndum saman og sýna að það sé vilji allra í samfélaginu til að auka jöfnuð og leggja þannig okkar af mörkum til að tryggja stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Það verða allir að taka á sig byrðar ef við ætlum að halda stöðugleika á vinnumarkaði.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. september 2018.

Categories
Greinar

Fjárfest í háskólastiginu

Deila grein

24/09/2018

Fjárfest í háskólastiginu

Hagvöxtur hér á landi verður í framtíðinni fremur drifinn áfram af hugviti en auðlindum. Með því fæst meira jafnvægi í þjóðarbúskapinn og minni líkur eru á sveiflukenndum vexti í efnahagslífinu. Til þess að stuðla að slíku jafnvægi og umhverfi þar sem nýsköpun blómstrar og verkvit þróast er mikilvægt að fjárfesta í háskólastiginu og hvetja til öflugs samstarfs þess við atvinnulífið. Fjárlög ársins 2019 sem kynnt voru á dögunum bera þessari áherslu stjórnvalda glöggt vitni.

Heildarfjárframlög háskólastigsins munu nema tæpum 47 milljörðum kr. á næsta ári en að meðtöldum launa- og verðlagsbreytingum er það hækkun um 2,2 milljarða eða um 5% milli ára. Þetta eru háar fjárhæðir en sýnt er að hver króna sem fer í fjárfestingu á háskólastiginu skilar sér áttfalt til baka til samfélagsins.

Sem dæmi um hækkanir innan málefnasviðs háskólastigsins eru fjárveitingar til reksturs háskóla og rannsóknastofnana sem hækka um 245 milljónir kr. milli ára og framlög til fræða- og þekkingarsetra sem hækka um 50 milljónir kr. Í fjárlagafrumvarpinu er einnig fylgt eftir áherslum um nýliðun kennara með sérstöku 50 milljóna kr. framlagi til endurskoðunar á kennaranámi.

Stuðningur við námsmenn eykst um 3,5% milli ára, heildarfjárheimild þess málaflokks fyrir árið 2019 er áætluð 8,2 milljarðar kr. og hækkar um tæpar 282 milljónir kr. frá fjárlögum þessa árs vegna aukins framlags til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Vinnu við endurskoðun á LÍN miðar vel áfram og er stefnt að því að frumvarp þess efnis fari í opið samráð á fyrri hluta ársins 2019.

Markmiðið með auknum framlögum til kennslu og rannsókna á háskólastigi er fyrst og fremst að auka gæði náms. Sé miðað við nýjasta meðaltal Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD) um framlag á hvern háskólanemanda stefnir í að árið 2020 hafi Ísland náð því markmiði eins og ráðgert er í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Menntun er forsenda samkeppnishæfni okkar til framtíðar og því þurfa fjárfestingar okkar að taka mið af.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. september 2018.

Categories
Greinar

Við upphaf þingvetrar

Deila grein

17/09/2018

Við upphaf þingvetrar

Nú styttist í að Alþingi vereði sett að nýju. Hvaða mál verða þá helst til umræðu. Við hjá Suðurnesjablaðinu heyrðum í Silju Dögg Gunnarsdóttur úr Suðurkjördæmi.

Hvaða mál verða helst til umræðu þegar Alþingi kemur saman eftir sumarhlé?

Fjárlögin verða auðvitað stóra málið, eins og alltaf. Það er staðreynd að við Suðurnesjamenn höfum ekki fengið það sem okkur ber við úthlutun fjármuna og því ætlum við okkur að breyta. Þó að skilningur hafi aukist innan embættismannakerfisins á aðstæðum hér suður með sjó, þá er hann enn ekki nægur. Við stöndum ekki bara frammi fyrir mestu fólksfjölgun sem sögur fara af, heldur erum við einnig með sérstaka íbúasamsetningu, þar sem fjórðungur íbúa er af erlendu bergi brotinn. Einnig er ekki horft nægilega til þess hversu margir fara um flugstöðina á hverjum sólarhring sem hefur t.a.m. stóraukið álag á löggæslu og sjúkraflutninga. Í fimm ára fjármálaáætlun (sem er ramminn fyrir málasvið ráðuneyta í fjárlögum ár hvert)  sem samþykkt var í vor er eftirfarandi texti:

„Fordæmalaus fjölgun íbúa á Suðurnesjum og fjölgun ferðamanna um land allt kallar á skoðun á því hvort fjárveitingar geti í ríkari mæli færst á milli svæða. Meiri hlutinn beinir því til heilbrigðisráðherra að gera endurskoðun fjárveitinga gagnsærri en verið hefur og upplýsa um þá þætti sem ráða úthlutun fjármuna. Þar þarf sérstaklega að horfa til íbúaþróunar á Suðurnesjum þar sem heilbrigðisframlög á íbúa eru lægri en annars staðar á landinu.“

Að fá þessar setningar samþykktar í fjármálaáætlun var ákveðinn sigur fyrir okkur hér á svæðinu. En við þurfum að halda vel á spöðunum og gæta hagsmuna íbúa á Suðurnesjum.

Áhersla á umferðaröryggi

Hitt stóra málið verður án efa samgönguáætlun, sem verður lögð fram í haust. Umferðaröryggi verður að tryggja sem best og hefur auknu fjármagni verið veitt til ýmissa úrbóta til að flýta vegabótum. Fjármagn til viðhalds og lagfæringa á vegum var 5,5 milljarðar 2016 og í ár er það 12 milljarðar. Auknir fjármunir hafa verið settir í vegaþjónustu og viðhald víðsvegar um landið. Fyrr í sumar var fjórum milljörðum bætt við gildandi áætlun þessa árs til að verja vegakerfið fyrir frekari skemmdum í kjölfar stóraukins umferðarþunga. Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir sérstöku 5,5 milljarða árlegu framlagi sem bætist við til næstu þriggja ára. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu 5 árum (2019-2023). Viðhald á vegakerfinu hefur aldrei verið meira en nú.

Hvað mál munt þú helst leggja áherslu á?

Mannréttindi, félagslegt réttlæti og þá sérstaklega réttindi barna, eru mér afar hugleikin. Ég mun endurflytja þingmálin mín sem ekki voru samþykkt sl. vor, þ.e. þingsályktun um réttindi barna til að þekkja uppruna sinn, frumvarp um breytingar á lögum barnalífeyri (börn sem hafa misst foreldri), frumvarp um bótarétt fanga, þ.e. að þeir sem stunda vinnu og/eða nám á meðan á afplánun stendur geti unnið sér inn rétt til atvinnuleysisbóta, breytingar á lögum um fæðingarorlof, þ.e. að fólk sem þarf að fara að heima til að fá fæðingarþjónustu fái þann tíma bættan með lengra fæðingarorlofi, frumvarp um aukið eftirlit með dæmdum barnaníðingum sem og frumvarp um bann við ónauðsynlegum aðgerðum á kynfærum drengja (umskurðarfrumvarpið).

Þingveturinn framundan verður án efa spennandi og  skemmtilegur. Ég vona að hann verði einnig árangursríkur, okkur öllum til hagsbóta.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst í Suðurnesjablaðinu 6. september 2018.

Categories
Greinar

Bókaþjóðin les og skrifar

Deila grein

17/09/2018

Bókaþjóðin les og skrifar

Ein bók, einn penni, eitt barn eða einn kennari geta breytt heiminum.« Orð þessi eru höfð eftir Malölu Yousafzai, ungri pakistanskri konu sem barist hefur fyrir réttindum barna og þá ekki síst stúlkna til þess að fá að ganga í skóla. Bækur breyta heiminum á hverjum degi; þær eru einn farvegur hugsana okkar, ímyndunarafls, skoðana og sagna og í fjölbreytileika sínum auðga þær tilveru okkar, fræða og skemmta.

Staðreyndin er þó sú að læsi barnanna okkar hefur hrakað í alþjóðlegum samanburði. Að auki hefur bóksala í landinu dregist verulega saman eða um 36% á síðustu 10 árum. Ástæður þess má einna helst rekja til breyttrar samfélagsgerðar og örrar tækniþróunar því aukið framboð lesefnis og myndefnis á netinu hefur leitt til þess að lestur bóka á íslensku hefur minnkað verulega. Þessi þróun skapar ógn við tungumálið.

Á dögunum var kynnt heildstæð aðgerðaáætlun til stuðnings íslenskunni og þar á meðal eru aðgerðir til stuðnings íslenskri bókaútgáfu. Með nýju frumvarpi, sem lagt verður fram nú á haustþingi, verður sett á laggirnar nýtt stuðningskerfi sem felur í sér 25% endurgreiðslu vegna beins kostnaðar við útgáfu íslenskra bóka. Áætluð framlög eru um 400 milljónir kr. frá og með árinu 2019. Að auki verður stofnaður sérstakur barna- og unglingabókasjóður en yngri kynslóðin hefur bent ötullega á að auka þurfi framboð af slíkum bókum.

Mikilvægi bókaútgáfu er óumdeilt fyrir varðveislu íslenskunnar. Það er ekki síst á herðum íslenskrar bókaútgáfu að bregðast við þessum breyttum aðstæðum. Rithöfundar hafa sannarlega fundið fyrir þeim samdrætti sem orðið hefur í sölu íslenskra bóka og þeirra hagsmunir eru samofnir árangri útgefenda.

Markmiðið með þessum aðgerðum er að auka lestur og efla bókaútgáfu í landinu. Ég er sannfærð um að þessar aðgerðir eru til þess fallnar að auka framboð, fjölbreytni og sölu á íslenskum bókum til framtíðar. Þær munu stuðla að lækkun á framleiðslukostnaði bóka og auka þannig svigrúm til kaupa á vinnu og þjónustu. Þessar aðgerðir eiga fyrirmynd í endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar og hljóðritunar hér á landi en þær hafa reynst vel á þeim vettvangi og haft jákvæða keðjuverkun í för með sér.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. september 2018.

Categories
Greinar

Eflum íslenskt mál

Deila grein

14/09/2018

Eflum íslenskt mál

Á dögunum voru kynntar aðgerðir sem miða að því að styrkja stöðu íslenskrar tungu. Þær snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra allra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Heildstæð nálgun okkar til stuðnings íslenskunni tengist meðal annars íslenskum fjölmiðlum og þeirra hlutverki í framþróun tungumálsins okkar; þeir spegla sögu okkar og sjálfsmynd.

Aðgerðir stjórnvalda til styrktar einkareknum fjölmiðlum á Íslandi marka ákveðin vatnaskil en við ráðgerum að verja um 400 milljónum í beinar aðgerðir þeim til stuðnings frá og með næsta ári. Þar mun mestu muna um ritstjórnarsjóð sem veita mun endurgreiðslur vegna hluta ritstjórnarkostnaðar einkarekinna fjölmiðla. Skilyrði fyrir slíkum endurgreiðslum verða skýr og einföld og styrkveitingar hans fyrirsjáanlegar og óháðar tæknilegum útfærslum. Frumvarp þess efnis mun fara í opið samráð síðar í vetur og verður síðan lagt fyrir í ársbyrjun 2019.

Annað brýnt efni sem við höfum kynnt til þess að jafna hlut íslenskra fjölmiðla er að samræma gjaldtöku við kaup á auglýsingum svo íslenskir fjölmiðlar standi jafnfætis erlendum netmiðlum. Til skoðunar er að skattleggja kaup á erlendum netauglýsingum til þess að jafna stöðu innlendra fjölmiðla og erlendra vefmiðla sem taka til sín ört stækkandi hluta auglýsingamarkaðar. Í þessu horfum við til nágrannalanda okkar og Evrópuríkja sem einnig hafa sambærileg mál til skoðunar.

Aukinheldur munum við styðja betur við textun, talsetningu og táknmálstúlkun í myndmiðlum þar sem einkareknir fjölmiðlar munu geta sótt um endurgreiðslur til að mæta kostnaði vegna lögbundinnar textunar og talsetningar. Sérstök áhersla verður þar lögð á efni sem ætlað er börnum og ungmennum.

Þetta er í fyrsta sinn sem stjórnvöld grípa til beinna aðgerða til að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla en slíkt hefur þekkst á Norðurlöndunum um áratuga skeið. Það er von mín og vissa að þessar aðgerðir muni breyta miklu fyrir rekstrarumhverfi þeirra strax á næsta ári.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. september 2018.

Categories
Fréttir

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á 149. löggjafarþingi

Deila grein

12/09/2018

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á 149. löggjafarþingi

Virðulegi forseti, góðir landsmenn.
Samfélagið er á fleygiferð. Þannig viljum við líka hafa það. Án breytinga verður stöðnun og engin framþróun. Tækni- og upplýsingabyltingin á eftir að breyta því hvernig við lifum, högum störfum okkar og menntun. Störfin munu breytast og færast til, óháð landamærum. Miklu skiptir að samfélagið sé undir það búið að taka á móti tækifærum framtíðarinnar, en þar vega þættir eins og menntun og nýsköpun þungt svo stöðugt megi auka verðmætasköpun og bæta lífskjör.
Markmiðið er skýrt hjá ríkisstjórninni. Að koma Íslandi í fremstu röð og efla samkeppnishæfni á sem flestum sviðum. Ríkisstjórnin leggur áherslu á fjölbreytt atvinnulíf til að styrkja gjaldeyrisöflun, draga úr sveiflum og tryggja fyrirsjáanleika í afkomu heimila og fyrirtækja. Framsækin ferðaþjónusta, traustur sjávarútvegur og íslenskt hugvit eru þar mikilvægir drifkraftar tækifæra í komandi framtíð.
Fordæmalaus vöxtur hefur verið í flugsamgöngum en framlag þessara atvinnugreinar til vergrar landsframleiðslu skipta orðið miklu sem lifibrauð og eru margfeldisáhrifin umtalsverð. Nú er farin af stað vinna við að móta fyrstu flugstefnu á Íslandi sem mun taka á öllum þáttum er varða flugstarfsemi hér á landi.
Kæru landsmenn.
Þrátt fyrir góðæri og mikinn uppgang þá eru ákveðnir hópar í samfélaginu sem ekki njóta ávaxta þess til fulls. Við eigum ekki að sætta okkur við það. Hér á landi eiga að vera jöfn tækifæri fyrir alla þannig að allir njóti aukins kaupmáttar og verðmætasköpunar.
Í nýútkominni skýrslu varar Gylfi Zoëga við því að mikið launaskrið geti gert ferðaþjónustuna ósamkeppnishæfa þegar til lengri tíma er litið sem leiði til verri lífskjara. Orðrétt segir: „Verði það að veruleika mætti segja að Íslendingar hefðu farið eins illa að ráði sínu og þegar þeir ofnýttu fiskistofnana á liðnum áratugum. Í hagsögunni yrði ferðaþjónustan þá einungis enn eitt „síldarævintýrið“.
Jöfn tækifæri fyrir alla krefst samvinnu og heiðarlegs samtals þar sem sameiginlegar lausnir eru fundnar svo verðmætasköpunin skiptist jafnar sem stuðlar jafnframt að pólitískum stöðugleika sem kjósendur báðu um fyrir ári síðan.
Stefna í húsnæðismálum, kjararáð, launaþróun, atvinnuleysistryggingar, stefna í menntamálum, samspil launa, bóta, skatta og ráðstöfunartekna eru áherslur sem hafa verið á dagskrá ríkisstjórnarinnar, aðila vinnumarkaðsins og forsvarsmanna Sambands sveitarfélaga. sl. níu mánuði eða frá því að ríkisstjórnin var mynduð. Viðræðurnar hafa m.a. skilað því að Kjararáð var lagt niður, atvinnuleysisbætur og ábyrgðarsjóður launa hafa hækkað. Slíkir fundir eru mikilvægt veganesti til að hlusta eftir áherslum verkalýðshreyfingarinnar og í því samtali að huga sérstaklega að lægri tekjuhópum. Að því vinnur ríkisstjórnin.
Til marks um það er boðuð veruleg hækkun á barnabótum og hækkun á persónuafslætti í fjárlagafrumvarpi sem kemur lægri tekjuhópum vel.
Húsnæðismál eru eitt af stóru málunum. Fasteignaverð er hátt, allt of hátt fyrir suma, sem skýrist einna helst af of litlu framboði húsnæðis fyrir tekjuminni hópa. Afleiðingar þess smitast út til allra heimila í landinu í formi hærri húsnæðiskostnaðar vegna vísitölutengingar. Félagsmálaráðherra hefur talað skýrt um að bregðast verði við húsnæðisvandanum í samráði við sveitarfélög.
Þá er það áhyggjuefni að vaxtamunur í íslenskum bönkum sé fyrir utan eðlilegra marka, samanborið við Norðurlöndin.
Virðulegi forseti
Verkefnin eru mörg sem setið hafa á hakanum síðustu ár. Ríkisstjórnin er að styrkja mennta-, samgöngu-, velferðar- og heilbrigðismál. Samkeppnishæfni þjóðar byggir á því að þessir grunnþættir séu skilvirkir og standist alþjóðlegan samanburð.
Í fyrstu fjárlögum þessara ríkisstjórnar var verulega bætt í og í fjárlagafrumvarpi sem kynnt var í gær má sjá að enn er sótt fram.
Góðar samgöngur eru forsenda blómlegs mannlífs í landinu en rík áhersla er á að auka viðhald á vegakerfinu enda hefur þörfin aldrei verið meiri en nú. Ljóst er að mikið verk er óunnið við að byggja upp samgöngukerfið og færa til ásættanlegs horf. Fjármagn hefur verið stóraukið en í ár fara 12 milljarðar til viðhalds og lagfæringa samanborið við 5,5 milljarða 2016. Fyrr í sumar var fjórum milljörðum bætt við gildandi áætlun þessa árs til að verja vegakerfið fyrir frekari skemmdum í kjölfar stóraukins umferðarþunga. Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir sérstöku 5,5 milljarða árlegu framlagi sem bætist við til næstu þriggja ára. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu 5 árum.
Samgönguáætlun sem verður lögð fram í næstu viku mun taka mið af fjármálaáætlun og verkefnunum forgangsraðað út frá umferðaröryggi og þróun undanfarinna ára.
Þá er verið að skoða útfærslur á því hvernig hægt er að stórauka þá upphæð sem rynni til nýrra framkvæmda vegakerfisins með sérstöku notendagjaldi af einstökum mannvirkjum svo þau verði að veruleika.
Góðir landsmenn
Aðgerðaráætlun loftslagsmála hefur verið kynnt til næstu 12 ára. Þar verða allir að láta til sín taka og leggja sitt af mörkum. Meðal aðgerða eru orkuskipti en á næstum árum mun rafbílum fjölga stórkostlega sem flýtir fyrir orkuskiptum og uppfyllir um leið metnaðarfull loftlagsmarkmið. Ánægjulegt er að loftlagsmarkmið og efnahagslegir hvatar fara saman. Ódýrara er að reka rafmagnsbíla, jafnframt er það jákvætt að skipta út aðfluttri orku fyrir hreina innlenda orku. Til þess þarf að tryggja aðgengi að orku fyrir rafknúin ökutæki um land allt.
Fyrir mér er brýnt að íbúar víðs vegar um landið hafi jöfn tækifæri en sumir hverjir hafa mátt þola mikla óvissu í sínum rekstri. Þannig eru mál sauðfjárbænda enn óleyst. Í þeirri vinnu sem nú stendur yfir verður að tryggja að horft sé til sveiflujöfnunarverkfæra til að jafna eftirspurn og framboð. Ávinningurinn er samfélagslegur og liggur í beinum og óbeinum störfum víðs vegar um landið.
Þá hefur þróun á eignarhaldi jarða breyst hratt allra síðustu ár sem hefur eðlilega valdið miklum áhyggjum. Í því sambandi er ekki óeðlilegt að horfa til Norðurlandana m.t.t að setja skilyrði fyrir kaupum á bújörðum.
Framþróun á næstu áratugum veltur á því hversu vel okkur tekst til við að auka á fjölbreytni í atvinnulífi. Samfélag okkar er framsækið, starfar á grunni samvinnu og stendur vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Það er mikilvægt fyrir okkur sem hér störfum að leggja okkur fram við að sjá og skynja heildarmyndina til að taka ákvörðun út frá hagsmunum þjóðarinnar, til skemmri og lengri tíma. Til að finna skynsamlegustu leiðina hefur reynslan kennt mér að það er mikilvægast að hlusta.
Góðar stundir.