Categories
Greinar

Fiskeldi – áhætta eða ágóði?

Deila grein

28/03/2019

Fiskeldi – áhætta eða ágóði?

Þau samfélög sem aðhyllast sjálfbærni horfa til þess að athafnir okkar skili auðlindum jarðar til komandi kynslóða í líku ástandi og við njótum nú. Samkvæmt skilgreiningu verður ákveðin athöfn að uppfylla þrjá þætti til að teljast sjálfbær félagslega, umhverfislega og efnahagslega. Ellefta markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun snýr að sjálfbærni borga og samfélaga. Þar segir m.a. að stutt verði við jákvæð efnahags-, félags- og umhverfisleg tengsl milli þéttbýlis, þéttbýlla svæða í borgarjaðri og dreifbýlissvæða með því að styrkja áætlanir um byggðaþróun á landsvísu og innan svæða.

Þegar fjallað er um uppbyggingu fiskeldis hér á landi eigum við að ganga út frá markmiðinu um sjálfbæra nýtingu. Þegar áform um uppbyggingu fiskeldis hér á landi hófust á ný á nýrri öld horfðu Íslendingar strax til þess að fara varlega enda brenndir af óvarfærni fyrri tilrauna. Ákveðið var að loka rúmlega hálfri strandlengjunni fyrir sjókvíaeldi. Áður en eldi hefst svo á þessu afmarkaða svæði þarf að fara í gegnum langt ferli, firðirnir eru burðarþolsmetnir til þess að meta lífræna álagið, framkvæmdirnar fara í ítarlegt umhverfismat og fyrirtækin þurfa að uppfylla ýmiskonar skilyrði til dæmis um búnað, gæðakerfi, vaktanir og fleira. Sem dæmi má nefna að allur lax sem er í eldi á Vestfjörðum er ASC vottaður sem er ein strangasta umhverfisvottun sem til er þegar kemur að fiskeldi og var m.a. þróuð af umhverfisverndarsamtökunum World Wildlife Fund.

Fiskeldi hefur verið stundað í Noregi í að verða fimm áratugi. Norðmenn hafa náð að komast á beinu brautina eftir margvíslegar áskoranir og telja sig hafa náð jafnvægi í sjálfbærni fiskeldis með því að byggja á reynslu og nýta sér tækni og þróun í þessum efnum. Þessa dýrmætu reynslu eigum við Íslendingar að horfa til og nýta okkur.

Unnið að stefnumótun
Atvinnuveganefnd hefur nú til umfjöllunar frumvarp um fiskeldi. Vonandi tekst í þeirri vinnu að móta nýja og endurbætta stefnu í þessari mikilvægu atvinnugrein til framtíðar en til þess að svo sé unnt verða umhverfið og umhverfismál að vera útgangspunktur.

Allir geta verið sammála um að við eigum að vernda villta laxastofa hér við land. Þeir hafa sjálfstæðan tilverurétt burtséð frá mismunandi hagsmunum veiðiréttarhafa eða fiskeldismanna. Við eigum að passa uppá laxastofninn með markvissum aðgerðum sem minnka líkur á að fiskur geti sloppið úr kvíum og ef upp koma slys séu til markviss viðbrögð og aðgerðir til þess að koma í veg fyrir möguleg umhverfisáhrif. Slíkar aðgerðir getum við kallað mótvægisaðgerðir. Hafrannsóknastofnun hefur reiknað áhættumat sem spáir fyrir fjölda laxa sem sleppa úr eldinu við strendur Íslands. Mikilvægt er að hnýta fyrrnefndum mótvægisaðgerðum til að lágmarka og koma í veg fyrir mögulega erfðablöndun við villta fiskinn. Norðmenn hafa náð miklum árangri í að minnka fjölda eldislaxa í ám með því að binda í lög og reglur aðferðir sem hafa gefist vel og hefur skilað sér í að villti laxastofninn er að ná sér á strik þrátt fyrir aukið eldi, vöktun áa og fjarlæging á eldisfiski eru þar lykilatriði. Lög um fiskeldi verður að kveða skýrt á um beitingu mótvægisaðgerða sem forsendu þess að vernda villta laxastofna hér við land.
Í stefnumótunarvinnunni verðum við ennfremur að horfa til allra þátta sem fylgja uppbyggingu greinarinnar t.d. skipulagningu strandsvæða, tryggja að heilbrigðiskröfur séu strangar, hvernig eftirliti með greininni sé háttað og tryggja að nærsamfélagið og sveitarfélögin fái réttlátan skerf af uppbyggingunni.

Sjálfbær samfélög
Þegar sjáum við jákvæð áhrif uppbyggingar fiskeldis á samfélögin fyrir vestan og austan. Þegar við höfum náð uppbyggingarmarkmiðum fiskeldis erum við að horfa til stórrar atvinnugreinar sem á eftir að skila milljörðum í þjóðarbúið.

Með því að halda rétt á spöðunum, með sterkri umgjörð og öflugu eftirliti með fiskeldi hér við land getum við viðhaldið heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni og byggt upp nýja og stönduga atvinnugrein til hagsbóta fyrir okkur öll.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingmaður.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 28. mars 2019.

Categories
Fréttir

Hafnarfjörður hljóti viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag

Deila grein

28/03/2019

Hafnarfjörður hljóti viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, segir í yfirlýsingu í gær að Hafnarfjarðarbæjar hafi skrifað undir samstarfssamning við UNICEF og að sveitarfélagið muni hefja vinnu við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. „Við stefnum að því að hljóta viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag UNICEF á Íslandi,“ segir Ágúst Bjarni.
„Börn eru í for­grunni hjá Hafn­ar­fjarðarbæ og með þess­um samn­ing við UNICEF á Íslandi vilj­um við færa þá áherslu yfir í orð og ferla. Barna­sátt­mál­inn er og verður okk­ar viðmið og rauður þráður í þjón­ust­unni gagn­vart börn­um og fjöl­skyld­um í bæn­um. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og þar spil­ar sveit­ar­fé­lagið stórt hlut­verk. Við vilj­um skapa sam­fé­lag þar sem börn­um á öll­um aldri líður vel og fái notið per­sónu­legr­ar þjón­ustu, hvatn­ing­ar og stuðnings í gegn­um sín upp­vaxt­ar­ár. Ég hlakka til sam­starfs­ins og þess að leggja enn frek­ar lín­urn­ar í þess­um mála­flokki.“
„Ég tek heilshugar undir þessi orð bæjarstjóra,“ segir Ágúst Bjarni.

Categories
Greinar

Heildarendurskoðun og lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði

Deila grein

27/03/2019

Heildarendurskoðun og lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði

Við Íslendingar getum verið stolt af fæðingarorlofskerfinu okkar. Það gerir foreldrum kleift að njóta samvista við börn sín fyrstu mánuðina í lífi þeirra. Á þeim tíma fer fram gríðarlega mikilvægt mótunarferli auk þess sem koma barns kallar á miklar breytingar í fjölskyldunni. Á næsta ári eru 20 ár síðan núverandi fæðingarorlofskerfi tók gildi. Það var Páll Pétursson, þáverandi félagsmálaráðherra, sem mælti fyrir lögunum á Alþingi 28. apríl árið 2000. Það má á margan hátt segja að þau hafi haft í för með sér byltingarkenndar breytingar enda var Ísland fyrsta landið í heiminum til að veita feðrum og mæðrum jafnan sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs.

Hækkun og lenging í samræmi við stjórnarsáttmála 

Stefna núverandi ríkisstjórnar hefur frá fyrsta degi verið að efla fæðingarorlofskerfið bæði með því að hækka greiðslur og með því að lengja samanlagðan rétt foreldra til fæðingarorlofs. Fyrri aðgerðir stjórnvalda hafa miðað að því að hækka hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Sú hækkun kom til framkvæmda 1. janúar á þessu ári þegar óskertar greiðslur hækkuðu um 80.000 krónur, eða úr 520.000 krónum í 600.000 krónur á mánuði. Nú er ætlunin að ráðast í lengingu fæðingarorlofs. Stefnt er að því að það verði gert í þrepum og að 1. janúar 2021 verði lenging þess komin að fullu til framkvæmda. Gert er ráð fyrir því að þessu verði þannig háttað að fimm mánuðir séu eyrnamerktir hvoru foreldri fyrir sig og að tvo mánuði sé hægt að velja um hvor aðilinn nýtir.

Ný löggjöf kynnt á 20 ára afmælisári 

Í tilefni af því að árið 2020 verða 20 ár liðin frá gildistöku laganna hef ég ákveðið að setja af stað vinnu við heildarendurskoðun þeirra í samráði við hagsmunaaðila. Er sú endurskoðun í samræmi við stefnu stjórnvalda þess efnis að efla fæðingarorlofskerfið, en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði lengdur. Í ljósi þess geri ég ráð fyrir að í frumvarpinu verði kveðið á um lengingu á samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs í tólf mánuði vegna barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar. Lagt verður upp með að vinnunni ljúki að hausti árið 2020 eða á tuttugu ára afmæli laganna og að unnt verði að leggja fram frumvarp á haustþingi það ár. Í millitíðinni mun verða lagt fram frumvarp þar sem kveðið verður á um að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði tíu mánuðir vegna barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2020 eða síðar.

Færri feður nýta fæðingarorlofsrétt 

Staðreyndin er sú að færri feður en mæður taka fæðingarorlof og þeir sem taka það nýta lægra hlutfall þeirra daga sem þeir eiga rétt á en mæður. Upplýsingar frá Vinnumálastofnun benda til þess að frá árinu 2009 hafi feðrum sem nýtt hafa rétt sinn til fæðingarorlofs fækkað jafnt og þétt til ársins 2014 þegar þeim fór að fjölga lítillega á ný. Frá árinu 2016 virðist sem feðrum sem hafa nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs hafi fjölgað. Það er þó enn verk að vinna og helsta áskorun fæðingarorlofskerfisins er að tryggja báðum foreldrum jafna möguleika á að annast barn sitt í fæðingarorlofi.

Brúum bilið yfir í dagvistun 

Ein forsenda þess að unnt verði að brúa það bil sem oft er talað um að myndist á milli þess að rétti foreldra til fæðingarorlofs ljúki og þess að barni bjóðist dagvistun á leikskóla er að börnum bjóðist dagvistun á leikskóla við tólf mánaða aldur. Þetta umrædda bil hefur oftar en ekki verið talið streituvaldandi hjá foreldrum og ekki síður hjá stórfjölskyldunni sem getur þurft að taka höndum saman til að dæmið gangi upp. Það má ætla að streitan við að hefja aftur þátttöku á vinnumarkaði, þegar barn er ekki komið með dagvistun á leikskóla, sé enn meiri hjá þeim foreldrum sem ekki hafa sterkt bakland. Það er því mikilvægt að samhliða heildarendurskoðun fæðingarorlofslaganna fari fram samtal og samvinna við sveitarfélög um það hvernig þetta bil verði brúað.

Börnin okkar eru besta fjárfestingin og það hvernig við styðjum við foreldra á fyrstu mánuðum í lífi hvers barns er grundvallaratriði í þeirri fjárfestingu. Það er á ábyrgð stjórnvalda að haga fæðingarorlofskerfinu með þeim hætti að foreldrar sjái sér fært og sjái hag í að nýta rétt sinn til fulls. Það er í því ljósi gríðarlega ánægjulegt að okkur sé að takast að endurreisa og efla fæðingarorlofskerfið.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. mars 2019.

Categories
Greinar

Norðurlöndin

Deila grein

22/03/2019

Norðurlöndin

Sem samstarfsráðherra Norðurlanda á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni átta ég mig enn betur á hve norrænt samstarf skiptir Íslendinga gríðarlega miklu máli. Rúmlega 30 þúsund Íslendingar búa á hinum Norðurlöndunum, sem eru samanlagt stærsta einstaka viðskiptaland Íslands. Við flytjum meira inn og út frá Norðurlöndunum heldur en til Bandaríkjanna eða Bretlands. Þátttaka í norrænu vísinda- og menntasamstarfi, nýsköpun, menningu og skapandi greinum, er lífæð fyrir okkar fólk og fyrirtæki. Samvinna Norðurlandanna á alþjóðavettvangi gefur Íslandi pólitíska fótfestu, sem er ómetanlegt á óróatímum.

Á morgun er Dagur Norðurlandanna og því ágætt að rifja þetta upp. Ég vil líka í tilefni dagsins ganga svolítið lengra og spyrja: Getur verið að við göngum að norrænu samstarfi sem gefnu, sem sjálfsögðum hlut? Hvað finnst unga fólkinu okkar um norrænt samstarf? Er danskan á útleið og þá kannski líka áhugi ungs fólks á að læra, starfa og stofna fyrirtæki á hinum Norðurlöndunum sem eru sannarlega sem annar heimamarkaður fyrir Ísland? Þykir hallærislegt að vinna í Gautaborg þegar allir eru á leið til Singapúr? Munu Íslendingar framtíðarinnar mennta sig í Kína og Kóreu og engan tíma hafa fyrir Kaupmannahöfn eða Stokkhólm? Hvernig verður staðan 2050?

Framtíðin ein veit svörin. Eina sem við vitum er að sannarlega munu tímarnir breytast – og mennirnir með. Og þó Ísland eigi vissulega að vera áfram með öflug tengsl um allan heim, þá megum við heldur ekki gleyma hvar við erum, hvaðan við komum og hvaða fjölskyldu við tilheyrum. Norðurlöndin eru nefnilega ein stór fjölskylda. Við erum ekki sammála um allt en við stöndum saman þegar á reynir. Saman eru Norðurlöndin heimavöllur fyrir menntun, vísindi, viðskipti, menningu og allt hitt sem gerir okkur að góðum samfélögum. Norrænt samstarf er drifkraftur breytinga sem er lífsnauðsynlegt í heimi á fullri ferð. Okkar styrkur er sameiginleg grundvallargildi um mannréttindi og lýðræði, sanngirni, velferð og velsæld – fyrir alla íbúa.

Ég hef bullandi trú á norrænu samstarfi. Í formennsku Íslands munum við halda áfram að þróa það og efla, ekki síst í samstarfi við ungt fólk. Norðurlöndin, já takk!

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. mars 2019.

Categories
Fréttir

Hafa neytendamál fengið nægt vægi hér á Íslandi?

Deila grein

20/03/2019

Hafa neytendamál fengið nægt vægi hér á Íslandi?

Willum Þór Þórsson, alþingismaður, var málshefjandi í sérstakri umræðu um stöðu Íslands í neytendamálum á Alþingi í gær. Willum Þór fór yfir að mikilvægt væri að neytendamál væru ekki aðeins rædd á vettvangi þingsins er fram koma lagafrumvörp eða þingsályktanir „heldur ekki síður að við veltum því upp hver staða þessara mála er, hver staða íslenskra neytenda er í raun í samanburði við Norðurlöndin t.d. og í öðrum alþjóðlegum samanburði.“
Síðustu áratugina hafi hagsmunir neytenda og neytendaréttur hefur verið að fá meira vægi í löggjöf á Vesturlöndum og þótt margt jákvætt hafi áunnist hér á Íslandi eru „neytendamál og neytendavernd engu að síður enn brotakenndur málaflokkur á Íslandi.“
„Lög og reglur eiga að tryggja rétt neytenda, aukinheldur að gera neytendum kleift að ná fram rétti sínum. Margbreytileiki viðskipta og umfang er augljós og munur á því að kaupa til að mynda gallabuxur úti í búð sem reynast vera gallaðar þegar heim kemur eða fjárfesta í húsnæði með leyndan galla eða útkljá ágreiningsefni á leigumarkaði þegar leigutaki þarf að leita réttar gagnvart leigusala,“ sagði Willum Þór.
Ræða Willum Þórs Þórssonar, alþingismanns, á Alþingi 19. mars 2019.

Ný frumvörp um úrskurðarnefndir á sviði neytendamála er ætlað „að tryggja neytendum aðgang að skilvirkri og faglegri málsmeðferð við lausn ágreinings neytenda við seljendur og treysta umgjörð um lausn deilumála utan dómstóla.“
„Einnig liggur fyrir þinginu þingsályktunartillaga um skilarétt, inneignarnótur og gjafabréf og þar er brýnt að uppfæra og samræma verklagsreglur. Þá veltir maður fyrir sér hversu upplýstir neytendur eru um rétt sinn — við tölum oft um neytendavitund í því efni — og um hvert þeir geti leitað og hversu aðgengileg þjónustan er.“
„Hvernig umhverfi höfum við búið neytendum á sviði réttar og verndar? Það eru upplýsingar, fræðsla, lög, reglur og stofnanaumgjörð. Neytendastofa gegnir mikilvægu lagalegu hlutverki á sviði neytendaréttar. Hún sinnir eftirliti í neytendamálum, stuðlar að fræðslu til almennings um neytendamál og tekur við kvörtunum og ábendingum neytenda og sinnir jafnframt kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa. Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök og sinna vel öflugu starfi við að gæta hagsmuna neytenda og tala máli þeirra. Á vegum samtakanna er líka starfrækt neytendaaðstoð sem er sérstök þjónusta fyrir alla og er hún fjármögnuð að hluta til með opinberu fé. Til marks um umfangið og mikilvægi málaflokksins, vil ég segja, bárust neytendaaðstoðinni 6.000 erindi árið 2016. Allsherjarréttarlegt eftirlit með háttsemi aðila á neytendamarkaði er svo fyrst og fremst í höndum Neytendastofu og Fjármálaeftirlits.“
Að lokum sagði Willum Þór, „eftir standa stórar spurningar, hvort neytendamál hafi hreinlega fengið nægt vægi hér á Íslandi og hvað hæstv. ráðherra hyggst fyrir til að auka vægi málaflokksins, hvað við getum lært af Norðurlöndunum til að mynda á þessu sviði, og eins og formaður Neytendasamtakanna, Breki Karlsson, kallaði nýverið eftir í umræðu um verðlagsmál matvöru, hvort ekki skorti hreinlega heildarstefnu fyrir málaflokkinn.“

Categories
Fréttir

Tap ríkissjóðs gæti numið 4-5 milljörðum kr.

Deila grein

20/03/2019

Tap ríkissjóðs gæti numið 4-5 milljörðum kr.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, gerði loðnubrest og samning við Færeyinga að umtalsefni í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær. Áður hefur Líneik Anna gert loðnubrest að umtalsefni í störfum þingsins þann 28. febrúar sl.
Loðnubrestur hefur víðtæk áhrif í íslensku samfélagi. „Bein áhrif eru á uppsjávarfyrirtækin sem og fjölda fyrirtækja um land allt sem þjónusta þau, m.a. við landanir og flutninga. Þar fyrir utan tapa einstaklingar og heimili mikilvægum tekjum. Þá verða einstök sveitarfélög og ríkissjóður fyrir miklu tapi og gæti tap ríkissjóðs numið 4-5 milljörðum kr.,“ sagði Líneik Anna.
„Sveitarfélagið þar sem áhrifin eru hvað mest í krónum talið er Fjarðabyggð. Áætlað er að sveitarsjóður og hafnarsjóður Fjarðabyggðar verði samanlagt af 260 millj. kr. en áhrifin geta verið hlutfallslega meiri í ýmsum minni sveitarfélögum þar sem þol fyrir sveiflum er minna. Þegar þessar tekjur vantar þýðir það að laun starfsmanna í sjávarútvegi í Fjarðabyggð lækka um 13% og tekjur íbúa sveitarfélagsins að meðaltali um 5% eða alls um 1,2 milljarða kr. Þá er velta fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn talin lækka um 600 milljónir,“ sagði Líneik Anna.
„Í þessari stöðu er það sérstakt fagnaðarefni að nú liggur fyrir nýtt fiskveiðisamkomulag við Færeyjar, en síðustu vikur hefur þurft að sækja kolmunna um langan veg eða á alþjóðlegt hafsvæði við Írland.
Ég spyr því: Hvað felst í samkomulaginu við Færeyinga? Má vænta samfellu í samningum við Færeyinga næstu árin? Eru einhverjar breytingar frá síðasta samningi frá árinu 2018? Hafa einhverjar viðbótarrannsóknir verið skipulagðar á loðnustofninum á þessu ári umfram það sem hefðbundið er?
Að lokum: Eru einhver tækifæri til að bregðast við tekjutapi samfélaga vegna loðnubrests, t.d. með aukningu í aflaheimildum í öðrum tegundum eða með því að sækja hráefni með einum eða öðrum hætti út fyrir íslensku lögsöguna?“
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði það „alveg rétt að þetta mun hafa töluvert mikil áhrif á þau sveitarfélög, fyrirtæki, einstaklinga og fjölskyldur sem tengjast uppsjávarútgerð í landinu, það er óumdeilt, og sömuleiðis á sveitarsjóði og ríkissjóð.“
„Samkomulagið við Færeyjar er gott og hér er spurt hvort vænta megi meiri samfellu. Já, þetta er tímamótasamkomulag að því leyti að hingað til hafa einungis verið gerðir árssamningar, en nú höfum við gert samkomulag til tveggja ára, sem gerir skipulagningu betri og meiri.“

Categories
Fréttir

„Að algjört gagnsæi sé í öllum vinnubrögðum“

Deila grein

19/03/2019

„Að algjört gagnsæi sé í öllum vinnubrögðum“

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fór yfir í ræðu á Alþingi í gær viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu.
Að mínu mati er þrennt sem við þurfum að fjalla um. Það er í fyrsta lagi hreinlega réttaröryggi á Íslandi. Í öðru lagi hvort óska eigi eftir því að málið verði tekið til endurskoðunar af hálfu yfirdeildar dómstólsins og í þriðja lagi sú aðferðafræði sem notuð var við val á dómurum. Í framsögu minni mun ég einblína á það sem ég tel að sé brýnast, þ.e. ákvörðun stjórnvalda um að beina málinu til yfirdeildar dómstólsins.
Í mínum huga er afar mikilvægt að við náum að skapa sátt um það hvernig þingheimur, stjórnsýslan og dómstólar vinna úr þessu máli. Við erum öll í þjónustu við almenning og fólkið í landinu verður að geta treyst því að dómskerfið sé traust og öll umgjörð í kringum það. Eins og ég nefndi áðan er það næsta skref að stjórnvöld meti hvort óska eigi eftir því að málið verði tekið til endurskoðunar af hálfu yfirdeildar dómstólsins. Aðilar máls hafa þrjá mánuði til að taka slíka ákvörðun. Mikilvægt er, að mínu mati, að gera ítarlegt mat á þeim hagsmunum sem mæla með því að skjóta málinu til efri deildar og að þeir verði vegnir gegn hagsmunum sem kunna hugsanlega að mæla með því að það verði látið ógert.“
Ræða Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi 18. mars 2019.

„Eins og fram hefur komið hafa stjórnvöld kallað færustu sérfræðinga til ráðgjafar. Brýnt er að allt ferlið í kringum þetta mál sé vandað og til þess fallið að mynda traust. Við getum það í sameiningu fyrir samfélagið. Hins vegar er ekki hægt að taka ákvörðun um málskot án þess að vega og meta áhrifin af því á stöðu Landsréttar og tryggja eðlilegt umhverfi dómstólsins óháð því hvaða ákvörðun verður tekin. Í mínum huga er afar brýnt að Alþingi taki höndum saman í því mikilvæga málefni til að styrkja stoðir réttarkerfisins á Íslandi.
Á sínum tíma var tekin ákvörðun á þingi um það hvernig við færum yfir málið. Framsóknarflokkurinn óskaði eftir meiri tíma til að fara yfir málið vegna þess að það var unnið nokkuð hratt. Við erum að tala um dómstig í landi okkar. Því verðum við núna að bera gæfu til þess að taka höndum saman og vinna í sátt og samvinnu. Fólkið í landinu á það skilið.
Ég hef reyndar fulla trú á því að þingið nái að vinna þannig úr málinu. Það er alveg ljóst að mælingar á trausti til þingsins eru ekki eins og þær ættu að vera og við verðum öll að taka á málinu með þeim hætti að við náum að auka traust á Alþingi Íslendinga. Þetta er mjög gott mál, tel ég, til að vinna að í sameiningu og samvinnu. Hlustum hvert á annað, hvað við erum að segja hér. Þessar umræður, sem eru að beiðni stjórnarandstöðunnar, eru mikilvægar og við eigum að nýta þær. Við eigum að nýta það sem kemur fram í máli þeirra þingmanna sem taka til máls.
Virðulegur forseti. Það kann að vera að mörgum hafi brugðið við þessa niðurstöðu. Hins vegar skiptir það engu máli akkúrat núna. Við verðum að vinna hagsmunamat fyrir Ísland og taka svo ákvörðun í kjölfarið, vega og meta kosti og ókosti. Framsóknarflokkurinn leggur gríðarlega mikla áherslu á að þetta mál sé unnið í samvinnu við allt þingið, að algjört gagnsæi sé í öllum vinnubrögðum. Það er nákvæmlega það sem hefur komið fram í máli hæstv. forsætisráðherra. Ég tel að sá málflutningur sem við heyrðum í framsögu hennar sé mikilvægur. Til þess að auka traust á Alþingi verðum við í sameiningu og samvinnu að ná utan um þetta mál og sýna þjóðinni að Alþingi geti tekið á máli af því tagi af fagmennsku og trúmennsku,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Categories
Fréttir

„Endurgreiða allt að 50% af fargjöldum“

Deila grein

19/03/2019

„Endurgreiða allt að 50% af fargjöldum“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir í viðtali við Bændablaðið, frá 15. mars, „að tillögu, sem samþykkt var á Alþingi fyrir skömmu, um að ISAVIA taki yfir rekstur allra millilandaflugvalla á Íslandi, sé ætlað að stórauka öryggi í fluginu. Þetta eigi líka að geta leitt til eflingar á uppbyggingu þessara valla sem og annarra innanlandsflugvalla.“
Fyrir um 10 til 12 árum mat erlend ráðgjafarskrifstofa efnahagsleg áhrif flugsins sem 6,6% af landsframleiðslu. Núna eru áhrifin a.m.k. 25% að lágmarki. Hvergi í heiminum er hlutfallið eins hátt og hér á landi. Staðreyndin er sú að menn hafa verið að reyna að auka fjármuni til þessara mála, en engu að síður hefur farþegum fækkað. Fargjöld hafa farið hækkandi, flugfélögin hafa það skítt og flugvellirnir hafa drabbast niður. Með öðrum orðum, það kerfi sem við höfum verið með er ómögulegt.
„Við ætlum að nota þá að hluta í þessa svokölluðu skosku leið. Hún felst í því að endurgreiða allt að 50% af fargjöldum á til að mynda átta leggjum, eða sem svarar vegna fjögurra ferða fram og til baka. Það er til að jafna aðstöðu fólks til að sækja þjónustu sem ákveðið var að byggja upp á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt byggðastefnu síðastliðin 150 ár.
Hjá þeim sem farið hafa þessa leið, eins og Skotum og fleirum, hefur ávinningurinn orðið sá að flugfarþegum hefur fjölgað, flugferðum hefur fjölgað, farmiðaverð lækkað og um leið hafa tekjur flugvallanna aukist. Það tikkar því í öll jákvæðu boxin sem í núverandi kerfi tikkar í öll neikvæðu boxin.“
„Ég held að þessar breytingar sem gerðar verða varðandi flugið séu stærri kerfisbreytingar en við höfum nokkru sinni séð,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.

Categories
Fréttir

Leikskólavist verði háð því að börn séu bólusett

Deila grein

18/03/2019

Leikskólavist verði háð því að börn séu bólusett

Sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknarflokks í Borgarbyggð lögðu fram tillögu á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar, fimmtudaginn 14. mars, þess efni að foreldrum barna á leikskólaaldri verði gert að láta bólusetja börn sín, vilji þau fá dagvistunarpláss fyrir þau á leikskólum í sveitarfélaginu. Var samþykkt samhljóða á fundi sveitarstjórnar að vísa tillögunni til byggðarráðs og velferðarnefndar.
Tillagan í heild sinni hljóðaði svo:
„Fulltrúar Framsóknarflokksins minna á að bólusetningum barna er ætlað að verja börn gegn alvarlegum smitsjúkdómum. Öllum börnum með lögheimili hér á landi stendur til boða bólusetning gjaldfrjálst. Fulltrúar Framsóknarflokksins leggja til að frá haustinu 2019 verði samþykki fyrir dagvistun í leikskólum Borgarbyggðar háð því að foreldrar eða forráðamenn framvísi skírteini sem staðfestir að börn hafi verið bólusett samkvæmt því skipulagi sem sóttvarnarlæknir leggur fram. Undirrituð óska eftir því að efni bókunarinnar verði vísað inn í byggðarráð til frekari umræðu.“

Categories
Fréttir

Ísland nýtur góðs af alþjóðasamstarfi eins og Schengen

Deila grein

18/03/2019

Ísland nýtur góðs af alþjóðasamstarfi eins og Schengen

Ásgerður K. Gylfadóttir, varaþingmaður, ræddi Schengen-samstarfið í umræðum á Alþingi á dögunum. „Ísland hóf þátttöku í Schengen-samstarfinu þann 25. mars árið 2001, fyrir 18 árum. Mikil fjölgun ferðamanna hefur orðið til og frá landinu á þeim tíma, auk mikilla breytinga á komu flóttafólks og hælisleitenda til landsins. Þótt dregið hafi úr ferðamannastraumnum undanfarið, eða hann a.m.k. ekki aukist, er ljóst að verkefnin fram undan eru krefjandi ef við ætlum að uppfylla þær kröfur sem til okkar eru gerðar. Einnig tölum við mikið um á hinu háa Alþingi að fjölga gáttum inn í landið og dreifa ferðamönnum betur um landið, að þeir komi víðar við. Það kallar á enn frekari aðgerðir af hálfu stjórnvalda til að tryggja eftirlit og öryggi við landamæravörslu óháð þróun Schengen-samstarfsins,“ sagði Ásgerður.
Schengen-samstarfið felur í grundvallaratriðum í tvennu, annars vegar afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-ríkja og hins vegar mótvægisaðgerðum, sem felast einkum í samræmdum reglum um eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins og samvinnu lögregluliða meðal þátttökuríkjanna, þar á meðal rekstri Schengen-upplýsingakerfisins, til að tryggja öryggi borgara á Schengen-svæðinu.
Ræða Ásgerðar K. Gylfadóttur á Alþingi 5. mars 2019:

„Það er nokkuð ljóst að fámenn eyja eins og Ísland nýtur á margan hátt góðs af því að vera í alþjóðasamstarfi eins og Schengen,“ sagði Ásgerður.
„Skýrslan er mjög greinargóð og gefur góða mynd af þeim verkefnum og áskorunum sem felast í samstarfinu. Segja má að kostir og gallar samstarfsins kristallist í sama atriðinu, eins og hefur komið fram í ræðum annarra þingmanna, þ.e. frjálsri för fólks innan svæðisins þar sem almennir ferðamenn njóta þess að sæta ekki landamæraeftirliti við hver og ein landamæri þátttökuríkjanna, en á sama tíma má segja að skipulagðir glæpahópar hafi stærra aðgerðasvæði, geti aukið umsvif sín og stundað afbrot yfir landamæri.“