Categories
Fréttir

Fjölskyldur munu gegna risastóru hlutverki

Deila grein

04/06/2019

Fjölskyldur munu gegna risastóru hlutverki

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, minnti okkur á alþjóðlegan dag fjölskyldunnar í grein í Fréttablaðinu 15. maí s.l. En Sameinuðu þjóðirnar tileinka á hverju ári 15. maí málefnum „fjölskyldunnar“. „Ástæðan er sú að þótt fjölskyldur séu jafn ólíkar og þær eru margar eru þær grunnstoð samfélagsins og erfitt að finna aðra einingu innan þess sem gegnir jafn þýðingarmiklu og flóknu hlutverki,“ segir Ásmundur Einar.
„Í ár leggja Sameinuðu þjóðirnar sérstaka áherslu á mikilvægi fjölskyldunnar þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum en undanfarið hafa loftslagsbreytingar af mannavöldum verið í brennidepli. Stór verkefni eru fram undan til að Ísland nái markmiðum sínum í þeim efnum og ljóst að þeim verður ekki náð nema með átaki samfélagsins í heild. Þar hefur ekki skort þátttöku íslenskra barna og unglinga sem meðal annars hafa skipulagt loftslagsverkföll á Austurvelli og víðar um landið síðustu mánuði. Þrátt fyrir að kolefnisfótspor hverrar fjölskyldu sé lítið í stóra samhenginu er ljóst að fjölskyldur landsins munu í sameiningu gegna risastóru hlutverki í baráttunni fram undan,“ segir Ásmundur Einar.

Categories
Greinar

Samvinnuverkefni

Deila grein

04/06/2019

Samvinnuverkefni

Nýverið samþykkti ríkisstjórnin að veita 45 milljónum kr. til aðgerðaáætlunar til að efla menntaúrræði á Suðurnesjum. Aðgerðirnar eru liður í viðbrögðum stjórnvalda við gjaldþroti Wow air í lok mars. Með menntun stuðlum við að framþróun og uppbyggingu og þegar mæta þarf áskorunum af þessu tagi horfum við sérstaklega til aðgerða sem skapað geta tækifæri til framtíðar.

Í byrjun apríl fundaði ég með fulltrúum fræðsluaðila og íbúum Suðurnesja og í kjölfarið var stofnaður starfshópur um málið innan ráðuneytisins. Hlutverk hans var að móta aðgerðaáætlun sem byggir á sýn heimamanna og stjórnvalda ásamt því að vakta og miðla upplýsingum um stöðu og þróun mála, með sérstakri áherslu á greiningu á aðstæðum þeirra hópa sem verst stæðu. Markmið aðgerðanna er meðal annars að aðgengi að námi á öllum skólastigum sé tryggt, að þjónusta við fólk með annað móðurmál en íslensku sé tryggð og að ekki verði fall í þátttöku barna og ungmenna í frístunda- og íþróttastarfi eða tónlistarnámi. Þá er sérstök áhersla á að fyrirbyggja athafnaleysi yfir sumarmánuðina m.a. með sumarstarfsemi menntastofnana á svæðinu.

Gott samráð er við fræðsluaðila á svæðinu, svo sem Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Keili, svo og Vinnumálastofnun. Teknar hafa verið saman hugmyndir þeirra sem nýst geta ólíkum hópum á svæðinu. Í fyrri hluta áætlunarinnar verður meðal annars áhersla á íþrótta- og æskulýðsstarf , raunfærnimat með náms- og starfsráðgjöf og styttri námslínur og námskeið.

Það er fjölbreytt námsframboð á Suðurnesjum og fræðsluaðilar þar vinna frábært starf, við það viljum við styðja. Þar hefur orðið umtalsverð fólksfjölgun á síðustu árum og því er mikilvægt að innviðir geti tekið við þeim sem vilja stunda nám – til þess horfum við meðal annars með fyrirhugaðri stækkun á húsakynnum Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Forsenda velferðar og lífsgæða á Íslandi er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf þar sem til staðar eru störf fyrir menntað fólk sem stuðlar að nýsköpun og þróun. Það er samvinnuverkefni okkar að skapa slíkar aðstæður.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. júní 2019.

Categories
Fréttir

Takmarkið að veikir borgi ekki

Deila grein

04/06/2019

Takmarkið að veikir borgi ekki

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður og framsögumaður meirihluta velferðarnefndar Alþingis, fylgdi vel á eftir áherslum Framsóknarmanna í meðförum Alþingis á þingsályktun heilbrigðisráðherra „Heilbrigðisstefnu til ársins 2030“ á Alþingi í gær.
„Hér er verið að setja ramma utan um heilbrigðisstefnuna til 2030 og það sem á að rúmast innan hennar skal vera sett í aðgerðaáætlun. Það er mjög mikilvægt að þessi heilbrigðisstefna landsins fylgi ekki duttlungum hverrar ríkisstjórnar fyrir sig, að settur verði ákveðinn rammi sem við getum sætt okkur við,“ sagði Halla Signý.
Hún sagði ennfremur að „hér erum við að taka tillit til allra þegna, hvort sem er í fæðingu eða á hjúkrunarheimili, þannig að allir njóti sömu réttinda hvar á landinu sem þeir búa og á hvaða aldri sem þeir eru.“
Atkvæðaskýring, Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, alþingismanns og framsögumanns meirihluta velferðarnefndar Alþingis, 3. júní 2019.

Framsókn hefur lagt áherslu á að innlend heilbrigðisþjónusta verði áfram í fremstu röð, að við nýtum fjármuni betur og eflum þjónustu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar. Við viljum vinna að sameiningu greiðsluþátttökukerfis læknisþjónustu og lyfja. Að tryggt sé að tannlækninga-, sálfræði og ferðakostnaður sjúklinga falli undir greiðsluþátttökukerfið. Fólk á aldrei að þurfa að glíma við fjárhagsörðugleika vegna veikinda sinna, barna eða skyldmenna. Takmarkið er að veikir borgi ekki.
Heilbrigðisráðherra verður nú í framhaldi falið það verkefni að leggja fram aðgerðaáætlanir til fimm ára í senn, sem verði endurskoðaðar árlega og teknar til umræðu á Alþingi.
Markmið heilbrigðisstefnu er um rétta þjónusta á réttum stað og fólkið í forgrunni.

Ræða Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, alþingismanns og framsögumaður meirihluta velferðarnefndar Alþingis 14. maí 2019:

Categories
Greinar

Vor í menntamálum – uppskeran í hús

Deila grein

03/06/2019

Vor í menntamálum – uppskeran í hús

Nú er til­hlökk­un í loft­inu. Tími skóla­slita og út­skrifta hjá yngri kyn­slóðinni, skóla­vet­ur­inn að baki og allt sum­arið framund­an. Þessi upp­skeru­tími er öll­um dýr­mæt­ur, ekki síst kenn­ur­um sem nú horfa stolt­ir á ár­ang­ur sinna starfa. Ég hvet nem­end­ur og for­eldra til þess að horfa stolt­ir til baka á kenn­ar­ana sína og íhuga hlut­deild þeirra og hlut­verk í þeirri veg­ferð sem mennt­un er. Mennt­un er sam­vinnu­verk­efni og kenn­ar­ar eru mik­il­væg­ir áhrifa­vald­ar í lífi nem­enda sinna. Kenn­ar­ar eru líka hreyfiafl okk­ar til góðra verka og fram­fara í ís­lensku mennta­kerfi en starf og ár­ang­ur kenn­ara bygg­ist á sjálf­stæði þeirra og fag­mennsku, næmi fyr­ir ein­stak­lingn­um og þeim ólíku leiðum sem henta hverj­um nem­enda til að byggja upp hæfni sína.

Það eru virki­lega ánægju­leg­ar frétt­ir að um­sókn­um í kenn­ara­nám hef­ur fjölgað veru­lega. Þannig fjölgaði um­sókn­um um fram­halds­nám til kennslu­rétt­inda í leik- og grunn­skóla­kenn­ara­námi við Há­skóla Íslands um 30% miðað við meðaltal síðustu fimm ára, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Menntavís­inda­sviði Há­skóla Íslands, og um­sókn­um í list­kennslu­deild Lista­há­skóla Íslands fjölgaði um 122% frá síðasta ári. Þetta eru að mínu mati góðar vís­bend­ing­ar um að við séum á réttri leið. Kenn­ara­starfið er enda spenn­andi kost­ur sem býður upp á fjöl­breytta starfs­mögu­leika og mikið starfs­ör­yggi.

Fyrr í vor kynnt­um við aðgerðir sem miða að fjölg­un kenn­ara en í þeim felst meðal ann­ars að frá og með næsta hausti býðst leik- og grunn­skóla­kenn­ara­nem­um á loka­ári launað starfs­nám. Þá geta nem­end­ur á loka­ári meist­ara­náms til kennslu­rétt­inda á leik- og grunn­skóla­stigi sótt um náms­styrk sem nem­ur alls 800.000 kr. til að sinna loka­verk­efn­um sín­um sam­hliða launuðu starfs­námi. Enn frem­ur eru veitt­ir styrk­ir til að fjölga kenn­ur­um með sér­hæf­ingu í starfstengdri leiðsögn sem m.a. taka á móti nýj­um kenn­ur­um sem koma til starfa í skól­um. Um­sókn­um um slíkt nám hef­ur fjölgað um 100% milli ára, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Há­skóla Íslands.

Öflugt mennta­kerfi er for­senda fram­fara og það kerfi er borið uppi af kenn­ur­um. Það er eft­ir­tekt­ar­verð gróska í ís­lensk­um skól­um þessi miss­er­in og mik­il og þörf umræða um skólastarf og hlut­verk þess til framtíðar. Ég fagna því um leið og ég óska kenn­ur­um, nem­end­um og öðru skóla­fólki gleðilegs sum­ars.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. júní 2019.