Categories
Greinar

Af stjórnmálum og sólskini

Deila grein

30/06/2019

Af stjórnmálum og sólskini

Vor og sum­ar hafa verið þeim sem búa um sunn­an­vert landið ákaf­lega upp­lits­djarft og er langt gengið þegar fólk er farið að kvarta yfir rign­ing­ar­leysi. Eitt­hvað er nú að ræt­ast úr því þessa dag­ana.

Þessi bjarta sum­ar­byrj­un kem­ur eft­ir lang­an þing­vet­ur þar sem margt hef­ur drifið á daga. Stærsta mál vetr­ar­ins. Síðastliðið haust spáðu marg­ir miklu gjörn­inga­veðri á vinnu­markaði með hörðum vinnu­deil­um og verk­föll­um. Rík­is­stjórn­in tók strax við upp­haf sam­starfs­ins upp gott og mark­visst sam­tal við aðila vinnu­markaðar­ins og ávöxt­ur­inn var lífs­kjara­samn­ing­ur­inn sem kynnt­ur var í Ráðherra­bú­staðnum. Í þeim samn­ing­um lék rík­is­stjórn­in stórt hlut­verk. Í þeim samn­ing­um voru mál Fram­sókn­ar í brenni­depli og mik­il­væg­ur þátt­ur í lausn­inni. Vil ég þar sér­stak­lega nefna hús­næðismál­in með „sviss­nesku leiðina“ í far­ar­broddi, leng­ingu fæðing­ar­or­lofs og þá ekki síður stórt skref, gríðar­stórt skref, í átt að af­námi verðtrygg­ing­ar, sem Fram­sókn hef­ur bar­ist fyr­ir marg­ar síðustu kosn­ing­ar. Ég leyfi mér að full­yrða að án Fram­sókn­ar í rík­is­stjórn hefðu þess­ar gríðarlegu sam­fé­lags­bæt­ur ekki náð fram að ganga.

Öflug ráðuneyti Fram­sókn­ar

Þau ráðuneyti sem við höf­um yfir að ráða hafa verið öfl­ug það sem af er kjör­tíma­bil­inu. Það er stór­sókn í mennta- og menn­ing­ar­mál­um þar sem áhersla á ís­lensk­una og kenn­ara­starfið hef­ur verið áber­andi. Fé­lags­mál­in með hús­næðismál og mál­efni barna hafa verið áber­andi í fé­lags­málaráðuneyt­inu og í ráðuneyti sam­gangna og sveit­ar­stjórn­ar­mála hef­ur áhersl­an verið lögð á stór­sókn í sam­göng­um um allt land sem felst í því að auka ör­yggi á veg­um og auk­in lífs­gæði um allt land, skosku leiðina í inn­an­lands­flugi, fyrstu flug­stefnu Íslands og fyrstu stefnu­mót­un fyr­ir sveit­ar­stjórn­arstigið hér á landi.

Rauða ljósið fært í lög

Á síðustu dög­um þings­ins voru ný lög um póstþjón­ustu samþykkt og meðal mik­il­væg­ustu þátta þeirr­ar nýju lög­gjaf­ar er að send­ing­ar­kostnaður er jafnaður um land allt. Lög­in höfðu verið í vinnslu í 12 ár og afar ánægju­legt að sjá þau samþykkt á Alþingi.

Önnur lög sem hafa tekið lang­an tíma í vinnslu og strandað á þingi nokkr­um sinn­um eru um­ferðarlög­in sem samþykkt voru á vorþingi. Þetta er mik­il­væg og um­fangs­mik­il lög­gjöf þar sem er til að mynda í fyrsta sinn fært í lög að bannað sé að aka móti rauðu ljósi. Í þess­um nýju lög­um er einnig gert ráð fyr­ir að tækn­inni muni fljúga fram og sett­ur rammi um sjálf­keyr­andi bíla svo eitt­hvað sé nefnt.

Lög um netör­yggi voru einnig lögð fram og samþykkt í vet­ur leið. Þar er tek­ist á við gríðarlega mik­il­vægt mál í sam­tím­an­um og unnið að því að tryggja ör­yggi al­menn­ings og upp­lýs­inga.

Það var stór stund þegar nýr Herjólf­ur sigldi inn í Friðar­höfn í Vest­manna­eyj­um um miðjan júní. Þetta er glæsi­leg ferja sem á eft­ir að nýt­ast vel. Ekki er síst ánægju­legt að um er að ræða fyrstu raf­væddu ferj­una á Íslandi og er til merk­is um al­vör­una í stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar í orku­skipt­um í sam­göng­um.

Blóm­leg­ar byggðir

Byggðamál hafa fengið sinn verðskuldaða sess í störf­um ráðuneyt­is og stjórn­sýslu og vinna eft­ir byggðaáætl­un sem samþykkt var fyr­ir ári haf­in af krafti. Einn þátt­ur byggðaáætl­un­ar er stuðning­ur við versl­un í strjál­býli. Ég varð þeirr­ar ánægju aðnjót­andi að opna versl­un Verzl­un­ar­fjelags Árnes­hrepps fyr­ir skemmstu og óhætt að segja að sá stuðning­ur sem versl­un­in fær úr byggðaáætl­un mæl­ist vel fyr­ir og er fá­mennu sam­fé­lagi mik­il­væg­ur.

Á sum­ar­fundi rík­is­stjórn­ar á síðasta ári var nýtt þjón­ustu­kort kynnt form­lega en það er stórt stökk í að opna al­menn­ingi leið að upp­lýs­ing­um um þjón­ustu á Íslandi á mynd­ræn­an og gagn­virk­an hátt. Verk­inu, sem hef­ur verið í um­sjón Byggðastofn­un­ar, hef­ur miðað vel og á eft­ir að veita al­menn­ingi og stjórn­völd­um kær­komna yf­ir­sýn yfir þjón­ustu sem stend­ur lands­mönn­um til boða um allt land.

Í stjórn­arsátt­mála er sagt frá stefnu rík­is­stjórn­ar er miðar að því að gera stjórn­sýsl­una og stofn­an­ir henn­ar nú­tíma­legri og vin­sam­legri land­inu í heild sinni og það er að ákveðinn hluti starfa skuli aug­lýst­ur án staðsetn­ing­ar. Við í sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneyt­inu erum stolt af því að hafa riðið á vaðið og aug­lýst starf lög­fræðings í ráðuneyt­inu án staðsetn­ing­ar og ráðið í stöðuna ein­stak­ling sem hef­ur aðset­ur á Sauðár­króki. Það er gríðarlega mik­il­væg byrj­un á því að við und­ir­bú­um okk­ur und­ir fjórðu iðnbylt­ing­una og ólík­ar vænt­ing­ar fólks til at­vinnu að geta boðið upp á störf án staðsetn­ing­ar. Það eru einnig verðmæti fólg­in í því að stjórn­sýsl­an njóti krafta fólks af öllu land­inu til að tryggja að sjón­ar­hornið sé ekki ein­skorðað við það sem einu sinni var póst­núm­er 150 Reykja­vík.

Fram­sókn fyr­ir ís­lensk­an land­búnað

Það hef­ur auðvitað verið tek­ist á á Alþingi eins og heil­brigt verður að telj­ast. Eitt af þeim mál­um sem mjög hafa brunnið á okk­ur í Fram­sókn er hið svo­kallaða hráa kjöts-mál þar sem ís­lenska ríkið hafði verið dæmt til að af­nema frystiskyldu á inn­fluttu kjöti. Og hvað gerðum við í Fram­sókn í þeirri stöðu? Við hóf­um sókn og börðumst fyr­ir því að Ísland yrði fyrsta landið í heim­in­um til að banna dreif­ingu á mat­væl­um sem inni­halda til­greind­ar sýkla­lyfja­ónæm­ar bakt­erí­ur. Þessi sókn okk­ar snýst um sér­stöðu ís­lensks land­búnaðar sem skap­ar ein­staka stöðu okk­ar hvað varðar lýðheilsu en sýkla­lyfja­ónæmi er ásamt lofts­lags­breyt­ing­um helsta ógn við líf og heilsu manna og dýra í heim­in­um.

Í þessu máli sýnd­um við svo ekki verður um villst að við erum fram­sæk­inn og fram­sýnn flokk­ur. Fyr­ir ör­fá­um miss­er­um, jafn­vel mánuðum, hefði ekki verið jarðveg­ur fyr­ir slík­ar ákv­arðanir en með því að beita kröft­um okk­ar til að gefa vís­inda­mönn­um hljóm­grunn, til dæm­is með fjöl­menn­um fundi í vet­ur, hef­ur al­menn­ing­ur vaknað til vit­und­ar um gæði ís­lensks land­búnaðar og ein­staka stöðu Íslands í heim­in­um.

Sterk­ari girðing­ar um hags­muni Íslands

Orkupakk­inn hef­ur reynt mjög á rík­is­stjórn­ar­flokk­ana enda um orku­auðlind­ir lands­ins að ræða. Á miðstjórn­ar­fundi Fram­sókn­ar síðasta haust var ályktað um meðferð máls­ins sem eft­ir það fékk aðra og ít­ar­legri um­fjöll­un. Sett­ar voru sterk­ari girðing­ar til að vernda hags­muni Íslands. Með þess­ari umræðu komust orku­mál­in fyr­ir al­vöru á dag­skrá.

Það sem hef­ur verið kallað eft­ir af þjóðinni er að ís­lensk­ir stjórn­mála­menn standi vörð um ís­lensk­ar orku­auðlind­ir og það fyr­ir­komu­lag sem hef­ur ríkt hér sem felst einna helst í því að orku­fyr­ir­tæk­in eru að lang­stærst­um hluta í sam­fé­lags­legri eigu.

Það hef­ur einnig verið mjög skýrt ákall um að er­lend­ir aðilar geti ekki gert stór­inn­kaup á ís­lensku landi. Þar er sýn okk­ar skýr. Það er ekki í boði að stór­eigna­menn og brask­ar­ar geti vaðið um héruð og keypt upp jarðir og rétt­indi þeim tengd. Í því er unnið hörðum hönd­um að styrkja lagaum­hverfi í kring­um jarðir.

Slá þarf hreinni og sterk­ari tón í hags­muna­gæslu

Eft­ir átök vetr­ar­ins hlýt­ur öll­um að vera ljóst að við þurf­um að leggja mun meiri áherslu á hags­muni Íslands í allri vinnu varðandi EES-samn­ing­inn. Orkupakki þrjú kom á sjón­deild­ar­hring­inn fyr­ir meira en tíu árum og al­gjör­lega óeðli­legt að málið hafi ekki kom­ist inn í al­menna umræðu fyrr en á síðasta ári. Það er líka al­var­legt hvernig haldið var á mál­um varðandi inn­flutn­ing á kjöti á sín­um tíma. Þeir sem koma að vinnu við EES-samn­ing­inn fyr­ir Íslands hönd verða að gera sér fulla grein fyr­ir því að hag smun­ir Íslands ganga öll­um hags­mun­um fram­ar við samn­inga­borðið. Það er síðan ís­lenskra stjórn­mála að skil­greina bet­ur ríka hags­muni Íslands og slá hreinni og sterk­ari tón í hags­muna­gæsl­unni.

Fram­far­ir byggðar á sam­vinnu

Íslend­ing­ar hafa notið þess að rík­is­stjórn­ir hafa verið sam­steypu­stjórn­ir en ekki tveggja turna stjórn­mál eins og við sjá­um frá Banda­ríkj­un­um og Bretlandi. Þær miklu fram­far­ir sem þjóðin hef­ur upp­lifað á einni öld eru ekki afrakst­ur öfga held­ur sam­vinnu. Það er mín trú að sam­vinna sé grund­völl­ur góðs sam­fé­lags. Traust er skapað með heiðarleg­um vinnu­brögðum en ekki með því að ala á ófriði og sundr­ungu. Sú rík­is­stjórn sem nú er við völd er sér­stök að því leyti að í henni eru þrír flokk­ar sem all­ir standa fyr­ir ákveðnar hug­sjón­ir miðju, vinstri og hægri í ís­lensk­um stjórn­mál­um. Stjórn­in er mynduð til að standa að mik­il­væg­um fram­fara­verk­efn­um í ís­lensku sam­fé­lagi og til að skapa meiri sátt í sam­fé­lag­inu. Sú sátt ein­kenn­ist ekki af doða og fram­taksleysi held­ur því að sköpuð er umræða um mik­il­væg mál­efni og þau leidd til lykta. Um það snýst lýðræðið.

Bjóðum unga fólkið vel­komið í stjórn­mál­in

Minn fer­ill í stjórn­mál­um hófst á sveit­ar­stjórn­arstig­inu. Það er stund­um eins og sá hluti stjórn­mál­anna sem sveit­ar­stjórn­arstigið er gleym­ist í umræðunni. Á því stigi eru mörg mik­il­væg­ustu svið stjórn­mál­anna stunduð í mik­illi ná­lægð við íbúa. Eitt af þeim verk­efn­um sem ég hef veitt for­ystu sem ráðherra er að hefja vinnu við fyrstu stefnu­mót­un­ina fyr­ir sveit­ar­stjórn­arstigið. Sú vinna er vel á veg kom­in og verður lögð fyr­ir þingið í haust. Þau átök sem við höf­um horft upp á í stjórn­mál­um víða um heim snúa að því að al­menn­ing­ur upp­lif­ir sig valda­laus­an og að stjórn­mála­menn­irn­ir séu fjar­læg­ir. Það er því mik­il­vægt að stjórn­mála­menn í sveit­ar­stjórn­um séu öfl­ug­ir í því að virkja fólk til þátt­töku og að íbú­ar láti til sín taka því ef það er eitt­hvað sem ein­kenn­ir ís­lensk stjórn­mál þá er það að hver og einn get­ur haft mik­il áhrif í því að móta sam­fé­lagið. Þetta sjá­um við aug­ljós­lega nú þegar unga fólkið okk­ar hef­ur upp raust sína og hvet­ur stjórn­völd áfram varðandi lofts­lags­mál. Það er ánægju­legt að sjá þetta sterka unga fólk stíga fram með áhyggj­ur sín­ar og einnig hug­mynd­ir varðandi hvernig við tök­umst á við hlýn­un jarðar.

Lofts­lags­vá­in er staðreynd. Póli­tík­in snýst ekki um að af­neita eða taka und­ir. Póli­tík­in snýst um hvernig við ætl­um að vinna úr stöðunni. Ég vil því hvetja ungt fólk til að stíga óhrætt inn á vett­vang stjórn­mál­anna og inn í starf flokk­anna. Við ungt fólk sem þetta les vil ég segja að kraft­ur ykk­ar bæt­ir sam­fé­lagið, verið óhrædd við að hafa sam­band, þið finnið Fram­sókn á Face­book, net­fangið hjá okk­ur er fram­sokn@fram­sokn.is og síma­núm­erið 540-4300.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarmálaráðherra.

Greinin birtst fyrst í Morgunblaðinu 29. júní 2019.

Categories
Greinar

Samstaða um raunverulegar breytingar fyrir börn og fjölskyldur

Deila grein

30/06/2019

Samstaða um raunverulegar breytingar fyrir börn og fjölskyldur

Um­fangs­mik­il vinna stend­ur nú yfir við heild­ar­end­ur­skoðun barna­vernd­ar­laga og end­ur­skoðun á fé­lags­legri um­gjörð og stuðningi við börn á Íslandi. Leiðar­stefið í allri þeirri vinnu er sam­vinna. Sam­vinna þeirra ráðherra rík­is­stjórn­ar­inn­ar og ráðuneyta sem fara með mál­efni barna. Sam­vinna þing­manna úr öll­um flokk­um sem nú sitja á þingi. Sam­vinna og sam­tal fag­fólks og sér­fræðinga af ólík­um sviðum og sam­vinna og sam­tal við not­end­ur kerf­is­ins eins og það er í dag – ekki síst við börn og ungt fólk.

Í bréfi sem var sent út í fe­brú­ar til ríf­lega 600 viðtak­enda sem hafa með mál­efni barna að gera var biðlað til allra þeirra sem hefðu getu og vilja til að leggja sitt af mörk­um að taka þátt í vinn­unni fram und­an. Þar var þeim boðið að sækja fundi hliðar­hópa þar sem ýms­ar áskor­an­ir og sér­tæk verk­efni yrðu rædd. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og hafa á annað hundrað þátt­tak­end­ur verið virk­ir í hliðar­hóp­um sem hafa verið starf­rækt­ir í vet­ur og deilt þar dýr­mætri þekk­ingu og reynslu. Þar hef­ur til dæm­is verið fjallað um for­varn­ir og fyr­ir­byggj­andi aðgerðir, sam­tal þjón­ustu­kerfa, skipu­lag og skil­virkni úrræða, nýtt barna­vernd­ar­kerfi og börn í sér­stak­lega viðkvæmri stöðu.

Sam­taka­mátt­ur

20. júní síðastliðinn boðaði ég, Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra, og Svandís Svavars­dótt­ir heil­brigðisráðherra til vinnufund­ar þing­manna­nefnd­ar í mál­efn­um barna þar sem þátt­tak­end­ur hliðar­hóp­anna komu sam­an. Má segja að þar hafi farið fram eins kon­ar upp­skeru­hátíð þar sem vinna vetr­ar­ins var gerð upp og fram­haldið kort­lagt.

Fund­ur­inn var ekki bara merki­leg­ur í ljósi þver­póli­tískr­ar sam­vinnu og aðkomu aðila úr ólík­um kerf­um held­ur var það ekki síður sá andi sem sveif yfir vötn­um sem vakti lukku. Trú­in á að þetta sé hægt. Að sam­an get­um við breytt kerf­inu þannig að það vinni eins og við vilj­um og styðji bet­ur við börn og fjöl­skyld­ur þeirra.

Kerf­is­breyt­inga þörf

Verk­efnið er hins veg­ar ekki auðvelt og mögu­lega er rót­tækra breyt­inga þörf. Meðal þess sem kem­ur fram í niður­stöðum hliðar­hóp­anna er að ein­falda þurfi kerfið eins og það snýr að börn­um. Mik­il­vægt sé að skoða upp­stokk­un þess og sam­ein­ing­ar stofn­ana eða breyt­ing­ar á þeim. Þá þurfi í hví­vetna að skima fyr­ir vís­bend­ing­um um vanda hjá börn­um eða fjöl­skyld­um og meta þörf fyr­ir stuðning tím­an­lega. Tryggja þarf að hægt sé að kalla fram heild­ar­sýn þegar kem­ur að mál­efn­um barna og að börn þurfi ekki að búa við erfiðleika, stóra sem smáa, til lengri tíma.

Það þarf að finna ábyrgð á því að grípa fjöl­skyldu eða barn í nýju og breyttu kerfi og skil­greina hver á að fylgja mál­um eft­ir. Þá þurfa að vera skýr­ir verk­ferl­ar um hvert hlut­verk hvers og eins þjón­ustuaðila sé og hvernig þeir tala sam­an. Má þar nefna skóla, fé­lagsþjón­ustu, heilsu­gæslu og lög­reglu. Eins þarf að gæta þess að börn og fjöl­skyld­ur fái ekki ófull­nægj­andi þjón­ustu vegna þess að ekki er skýrt hver á að borga fyr­ir hana. Þess utan voru kynnt­ar hug­mynd­ir um að leggja niður barna­vernd­ar­nefnd­ir sveit­ar­fé­laga í nú­ver­andi mynd og setja á lagg­irn­ar mun færri fag­skipuð, þverfag­leg svæðisráð.

Vel nestuð til aðgerða

Það er af ýmsu að taka en eft­ir vinn­una í vet­ur og þenn­an af­kasta­mikla vinnufund erum við vel nestuð til und­ir­bún­ings raun­veru­legra aðgerða. Þær munu krefjast breyt­inga og lausna þvert á kerfi og sam­starfs ráðherra. Næsta skref er að und­ir­búa aðgerðaáætl­un þvert á ráðuneyti um hverju þurfi að breyta þegar kem­ur að lög­um og reglu­gerðum og hvaða skref þurfi að stíga þegar kem­ur að hinum ýmsu kerf­is­breyt­ing­um.

Við þurf­um öll að leggja okk­ar af mörk­um í þess­ari vinnu. Hún er í þágu barna og fjöl­skyldna og við erum á réttri leið. Framtíðin býr í börn­un­um.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. júní 2019.

Categories
Greinar

Ólíkir skólar fyrir ólíka einstaklinga

Deila grein

28/06/2019

Ólíkir skólar fyrir ólíka einstaklinga

Skapandi og gagnrýnin hugsun, læsi og þátttaka í lýðræðissamfélagi verður áfram undirstaða íslenska skólakerfisins. Á dögunum samþykkti Alþingi frumvarp sem festir í sessi faglega umgjörð um starfsemi lýðskóla. Til þessa hefur ekki verið nein löggjöf í gildi um slíka skóla.

Meiri fjölbreytni – minna brottfall

Hlutverk lýðskóla er fyrst og fremst að búa nemendur undir lífið, gera þá að fjölhæfum einstaklingum og reiðubúna til að takast á við tilveruna. Fjölbreytni er menntakerfinu mikilvæg, nemendur hafa ólíkar þarfir og þeir þurfa að hafa val um sitt nám. Meðal ástæðna brotthvarfs úr framhaldsskólunum okkar er ákveðin einsleitni í námsvali og það að nemendur finna sig ekki í námi. Það er vel að fjölbreytni námsframboðs hér á landi hefur aukist, ekki síst á framhaldsskólastiginu og að fleiri nemendur séu opnir fyrir námskostum t.d. á sviði verk- og tæknigreina.

Mikil gróska

Lýðskólar vinna með lykilhæfni skólastarfs, líkt og kveðið er á um í aðalnámskrá framhaldsskóla, svo sem námshæfni, skapandi hugsun, sjálfbærni og lýðræðisleg vinnubrögð en meðal markmiða þeirra samkvæmt frumvarpinu verður að mæta áhuga og hæfileikum nemenda sem vilja átta sig betur á möguleikum sínum og stefnu í lífi og starfi. Í dag starfa LungA-skólinn og Lýðháskólinn á Flateyri eftir hugmyndafræði lýðskóla og á forsvarsfólk þeirra lof skilið fyrir frjótt og gott starf. Skólarnir hafa glætt nærsamfélög sín auknu lífi og gefið nemendum úr ýmsum áttum tækifæri til að dvelja þar. Gaman væri að sjá lýðskóla verða að veruleika á Suðurnesjum. Þar liggja ákveðin tækifæri.

1916-2019

Í umræðu um lýðskóla og menntamál er áhugavert að skoða fyrstu stefnuskrá Framsóknarflokksins frá 1916, en þar segir m.a.: Alþýðumenntunina, sem flokkurinn telur hyrningarstein allra þjóðþrifa, vill hann stefnumarka og styðja, einkum með aukinni kennaramenntun og eflingu ungmennaskóla í sveitum og lýðskóla fyrir karla og konur í landsfjórðungi hverjum. Hina æðri menntun vill flokkurinn einnig láta til sín taka og halda hinu vísindalega merki Íslands hátt á lofti í öllu, sem vér getum keppt um við aðrar þjóðir. Sérstaklega vill hann styðja að því, að raunþægum vísindagreinum verði aukið við háskólanám vort og kennsla tekin upp í rafmagnsfræði og vélfræði.

Menntastefna Framsóknarflokksins frá 1916 á jafn mikið erindi nú sem fyrr. Margt hefur áunnist í menntamálum á Íslandi sl. 100 ár og ný lög um lýðskóla eru svo sannarlega  framfaraskref.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Víkurfréttum 27. júní 2019

Categories
Greinar

Eldsneyti framtíðarinnar – íslenskar orkujurtir

Deila grein

28/06/2019

Eldsneyti framtíðarinnar – íslenskar orkujurtir

Framleiðsla jarðefnaeldsneytis mun innan nokkurra áratuga dragast verulega saman. Í þeirri staðreynd felst sú áskorun að framleiða nýja orkugjafa hér á landi sem er bæði endurnýjanlegir og umhverfisvænir. Rannsóknir sýna að bíódísill úr repjuolíu geti komið í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti. Repjuræktun og framleiðsla á eldsneyti úr repjuolíu er sjálfbær leið til að sjá fiskiskipaflotanum fyrir eldsneyti sem ekki veldur koltvísýringsútblæstri. Möguleikar á því að framleiða eigið eldsneyti í stað þess að flytja það inn til landsins eiga að kalla á umfangsmikla greiningu á þeim hagræna ávinningi sem mun skapast fyrir þjóðarbúið, bændur og framleiðendur og ekki síst út frá umhverfislegum markmiðum.

Aðgerðir og ívilnanir til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis

Í samgönguáætlun íslenskra stjórnvalda eru sett fram markmið um að dregið verði úr neikvæðum umhverfisáhrifum samgangna. Stefnt verði að því að losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna á Íslandi verði undir 750 þúsund tonnum árið 2020 sem er í samræmi við aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Til að ná þessum markmiðum er lögð áhersla á að auknar verði rannsóknir á umhverfisvænum orkugjöfum til að þróa og framleiða vistvænt eldsneyti. Einnig að markvissar aðgerðir og ívilnanir miði að minni notkun jarðefnaeldsneytis og að samgöngutæki nýti orku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Sérstök áhersla er lögð á að auka notkun lífeldsneytis á fiskiskipaflotann. Þessi stefna íslenskra stjórnvalda er í takt við það sem er að gerast í kringum okkur. Evrópusambandið hefur sett reglur um framleiðslu og notkun umhverfisvænna orkugjafa og hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) hafa verið lagðar fram hugmyndir um aukna notkun á umhverfisvænum orkugjöfum í skipum sem þáttur í aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Ræktun á repju er kolefnisjöfnun

Bíódísill úr repjuolíu er lífræn dísilolía og endurnýjanlegur orkugjafi og telst einn umhverfishlutlausasti orkugjafinn sem getur komið í stað jarðdísilolíu á bíla, skip og flugvélar. Við brennslu á bíódísil, sem framleiddur hefur verið úr repjuolíu, er talið að um rúmlega 70% minni mengun sé að ræða en þegar jarðdísill er notaður. Repjuræktun felur í sér tvöfalda kolefnisjöfnun með tilliti til útblásturs á koltvísýringi þar sem ræktunin tekur til sín tvöfalt meira af koltvísýringi en brennsla olíunnar gefur frá sér við útblástur. Einn repjuhektari fullnægir vel meðalþörf fólksbíls á einu ári, þ.e. rúmlega 1000 lítrar af 100% lífdísil. Bíódísil má nota í olíubrennurum og á allar dísilvélar farartækja og varla þarf að breyta vélunum ef skipta skal yfir á bíódísil. Bíódísill virkar eins og dísilolía nema hvað hann er óeitraður, veldur lágmarks mengun og hefur einnig meiri hreinsunar- og smureiginleika.

Ræktunarland er til staðar

Með ofangreint í huga fellur repjuræktun sem orkuöflun sérstaklega vel að hugtakinu umhverfisleg sjálfbærni sem innlend og endurnýjanleg orka því ræktunina má endurtaka án þess að ganga á auðlindaforða náttúrunnar. Að auki sparar íslensk framleiðsla á bíódísil og repjuolíu innflutningi á þessum afurðum. Vinnsla þeirra hérlendis skapar atvinnu og eykur þar með þjóðartekjur sem og orkuöryggi þjóðarinnar. Ísland hefur þá sérstöðu að ekki þarf að taka undir ræktunina land sem almennt er í ræktun fyrir matjurtir. Nauðsynlegt er því að nýta það landsvæði sem almennt er ekki í ræktun hjá bændum til að rækta orkujurtir eins og repju. Samkvæmt upplýsingum frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins er gott ræktunarland hér á Íslandi um 600.000 hektarar eða einungis 6% af flatarmáli landsins. Þar af eru þegar í ræktun um 120.000 hektarar og tiltækt ræktunarland er því um 480.000 hektarar. Með sérstöku átaki mætti framleiða alla þá olíu sem íslenski skipaflotinn notar á nú ónýttu landi.

Minnkum innflutning – aukum orkuöryggi

Íslenski fiskiskipaflotinn notar að meðaltali um 160 þúsund tonn af skipagasolíu á ári. Þegar Þegar svartolía og skipaolía, sem keypt hefur verið erlendis, er meðtalin fer notkunin í um 200 þúsund tonn. Gert er ráð fyrir að á næstu 10 árum muni olíunotkun íslenskra fiskiskipa verða svipuð og í dag eða árlega í kringum 160 til 200 þúsund tonn af jarðolíu.

Tæknilega væri unnt að minnka losun margra gróðurhúsaloftegunda um allt að 70% á tiltölulega auðveldan hátt með því að breyta eldsneytisnotkun skipa þannig að þau noti jurtaolíu, bíódísil eða annað lífrænt eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis. Útgerðirnar gætu ræktað repju og breytt henni í bíódísil fyrir skip sín.

Næstu skref

Undirbúa þarf sem fyrst og með kostgæfni notkun bíódísils á aðalvélar íslenskra skipa með hagkvæmni og umhverfislegan ávinning að leiðarljósi. Byrja mætti í minni skipum og síðan auka sviðið jafnt og þétt. Einnig mætti byrja á lágu íblöndunarhlutfalli bíódísils í jarðdísil eins og til dæmis 5% og hækka síðan hlutfallið jafnt og þétt með aukinni repjuræktun og framleiðslu á bíódísil.

Undirrituð hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til samgönguráðherra varðandi ræktun og nýtingu íslenskra orkujurta fyrir fiskiskipaflotann. Það verður áhugavert að sjá hver næstu skref verða í þeim efnum, þar sem stórkostlega tækifæri felast í aukinni nýtingu íslenskra orkujurta, ekki síst fyrir umhverfið og orkuöryggi þjóðarinnar.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 26. júní 2019.

***

Hlekkir fyrir vefútgáfuna:

Fyrirspurnin: https://www.althingi.is/altext/149/s/1966.html?fbclid=IwAR2OlwGd8Hm6uPsO1jCTtIJEzg_qgGW7Iqw7qOU_1bLCB0NtWfhY7ONWE18

Skýrslan: https://www.samgongustofa.is/media/siglingar/skyrslur/Repjuraektun-a-Islandi-2018.pdf

Heimild: Jón Bernódusson, dr. Gylfi Árnason, Ólafur Eggertsson, Einar Einarsson og Sigurbjörn Einarsson. Repjuræktun á Íslandi til skipaeldsneytis. Samgöngustofa, 2018.

 

 

 

 

 

 

Categories
Fréttir

„Enginn fróðleikur er þannig meðfæddur að ekki þurfi að læra hann“

Deila grein

28/06/2019

„Enginn fróðleikur er þannig meðfæddur að ekki þurfi að læra hann“

Einar Freyr Elínarson, oddviti Mýrdalshrepps, flutti hátíðarávarp á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, í Vík. Ræða Einars Freys hefur vakið nokkra athygli, enda eftirtektarvert að heyra oddvita lítils sveitarfélags ræða þá miklu uppbyggingu er hefur átt sér stað í ferðaþjónustu á svæðinu og mikilvægi viðbragða samfélagsins sjálfs með nýja íbúa af ýmsum þjóðernum er starfa við ferðaþjónustuna og hafa þar skipt sköpum. Einar Freyr minnti á að á fyrri hluta síðustu aldar var það og samtakamáttur samfélagsins er hreyfði við málum. Að fengin var vörubifreið til að aka afurðum og aðföngum til og frá Vík. Ánægjan hafi verið almenn með breytinguna nema kannski hjá sem áður höfðu séð um flutningana með hestvögnum. En til staðar verða að vera dugnaðarforkar sem standa fyrir framförum í samfélaginu og að samtakamáttur fólksins geti auðveldað og hvatt til framfara.
„Þjóðhátíðardagurinn 17. júní skipar margs konar sess í hugum okkar. Hann er dagur til að gleðjast yfir því sem vel hefur tekist við uppbyggingu samfélagsins, dagur til að minnast þeirra brautryðjenda sem fyrr á tíð skópu framtíð þjóðarinnar með baráttu sinni og dagur til að virkja samtakamátt okkar og setja markmiðin enn hærra en áður til heilla fyrir framtíðarkynslóðir landsins,“ sagði Einar Freyr.
„Það hefur verið skemmtilegt að verða vitni að aðdáun fólks af hinum ýmsu þjóðernum, bæði ferðamanna og þeirra sem dvelja hér langdvölum fyrir íslenskri náttúru og áhuga þeirra á íslenskri menningu og siðum. Það er ástæða til að við minnum okkur sjálf á mikilvægi þess að við hlúum að og berum virðingu fyrir okkar menningararfi. Á sama tíma og við eigum að vera þakklát fyrir það að búa í opnu og frjálslyndu samfélagi sem leggur áherslu á umburðarlyndi er rétt að við munum eftir því að það er ekki sjálfsagður hlutur. Það er ef til vill ástæðan fyrir því að við komum saman á hverju ári og höldum hátíðlegan þennan dag. Til að minna okkur á það að við erum frjáls til þess að ákveða hvernig samfélag við viljum búa,“ segir Einar Freyr.
„Enginn fróðleikur er þannig meðfæddur að ekki þurfi að læra hann“
„Ég stend mig margoft að því sjálfur að vera einfaldlega upptekinn við að vera upptekinn. Því vil ég hvetja okkur sem hér eru komin til þess að gefa ykkur stund af og til og fræðast um nærumhverfið og íslenska sögu. Fyrir okkur sem ölum upp börn er mikilvægt að muna að enginn fróðleikur er þannig meðfæddur að ekki þurfi að læra hann. Það er á ábyrgð okkar að komandi kynslóðir búi yfir nægilegri þekkingu á landi og þjóð svo þau geti orðið þjóðræknir Íslendingar.“

Categories
Fréttir

„Metnaðarfullt samstarf hófst í barnaverndarmálum í dag“

Deila grein

28/06/2019

„Metnaðarfullt samstarf hófst í barnaverndarmálum í dag“

Birkir Jón Jónsson, formaður bæjarráðs Kópavogs, segir í yfirlýsingu að það sé fagnaðarefni að Kópavogsbær, félagsmálaráðuneytið, UNICEF og Kara connect hafi sett af stað metnaðarfullt verkefni í barnaverndarmálum um bæta upplýsingagjöf og samstarf „innan kerfisins“ með að markmiði að koma börnum og fjölskyldum þeirra fyrr til aðstoðar en nú sé.
„Við lögðum mikla áherslu á snemmtæka íhlutun í málefnum barna í síðustu sveitarstjórnarkosningum og gleðilegt að sjá það áherslumál raungerast. Kópavogur verður í fararbroddi sveitarfélaga þegar kemur að barnaverndarmálum,“ segir Birkir Jón.
„Ásmundur Einar Daðason, barnamálaráðherra, er að gera virkilega góða hluti í þessum málaflokki og það verður spennandi að sjá afrakstur verkefnisins. Velferð barna er forgangsmál á Íslandi í dag þökk sé metnaðarfullum ráðherra.“

Categories
Fréttir

Notkun hjálma hjá reiðhjólafólki eykur hættu á reiðhjólaslysum

Deila grein

27/06/2019

Notkun hjálma hjá reiðhjólafólki eykur hættu á reiðhjólaslysum

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, segir í yfirlýsingu í dag að málflutningur Óðins Sigþórssonar, sem sat í starfshópi sjávarútvegsráðherra um stefnumörkun í fiskeldi, verulega villandi og hafi að geyma sérstaka nálgun. Óðinn fullyrðir við Morgunblaðið í vikunni að það geti stefnt í átök vegna nýrra fiskeldislaga því ekkert samráð hafi verið haft við þá sem vilja vernda villtu laxastofnana og ákvæði um áhættumat erfðablöndunar hafi verið veikt frá drögum að nýjum ákvæðum í lögum um fiskeldi.
Halla Signý segir, að „þær mótvægisaðgerðir sem settar voru inn í lögin eru einmitt til varnar villta laxinum og eru viðurkenndar af vísindamönnum og nýttar sem slíkar við fiskeldi í Noregi. Fyrst skal nefna mótvægisaðgerðir til að varna því að eldislaxinn sleppi úr kvíum og þar má nefna notkun stærri seiða, minni möskva og notkun ljósastýringar. Svo eru mótvægisaðgerðir sem skal beita ef að slysasleppingar verða en það er vöktun í ám og heimild Fiskistofu til að fjarlægja eldislax úr nærliggjandi ám ef heimild landeiganda liggur fyrir.“
„Fullyrðingar Óttars eru eins og að halda því fram að notkun hjálma hjá reiðhjólafólki auki hættu á reiðhjólaslysum,“ segir Halla Signý.
Eins heldur Óttar Sigþórsson því fram að Alþingi sé að úthluta gríðarlegum verðmætum til einstakra fyrirtækja með nýjum ákvæðum í lögum, en með afturvirkum hætti sé gripið inn í rekstur fyrirtækja er hafi verið búin að helga sér svæði með matsáætlunum á grundvelli eldri laga sem séu í sjálfu sér fólgin gríðarleg verðmæti.
Fullyrðingar Óttars segir Halla Signý um verðmæti eldisleyfa vera villandi. „Vissulega, þegar eldisfyrirtækin eru komin í fullan rekstur aukast virði fyrirtækisins í heild sinni líkt og með annan rekstur. En eldisfyrirtækin geta ekki selt leyfin frá sér að hluta eða að öllu leiti líkt og er með aflaheimildir í sjávarútvegi. Því þurfa eldisfyrirtækin að vinna sjálf að vermæti „lottóvinningsins“ með því að byggja upp sína starfsemi með umhverfislegum hætti. Þannig auka þau verðmæti þeirrar framleiðslu sem vinna skal að enda er eldisfiskurinn mjög viðkvæm markaðsvara,“ segir Halla Signý.
„Gjaldtaka í fiskeldi samkvæmt nýjum lögum er að færeyskri fyrirmynd. Það er bratt að svo ung atvinnugrein sem fiskeldi er hér á landi skuli gjaldsett líkt og verið er að gera. En hugsunin er að skapa sterkan ramma um þessa framleiðslu í sátt við nærsamfélög, umhverfið og þjóðarbúið allt,“ segir Halla Signý.
„Nú fyrst liggur fyrir rammi sem hægt er að vinna eftir sem tryggir sjálfbæra uppbyggingu fiskeldis til hagsbóta fyrir samfélögin og í sátt við náttúruna.“

Categories
Fréttir

Þingvallafundurinn 1919

Deila grein

26/06/2019

Þingvallafundurinn 1919

Fyrsta Flokksþing Framsóknarmanna var haldið fyrir 100 árum, var það sett þann 25. júní 1919 við Öxará.
Miðstjórn Framsóknarflokksins hafði fyrr um veturinn það ár samþykkt að efna til landsfundar á Þingvöllum, m.a. til að setja flokknum stefnuskrá er flokksmenn alls staðar af landinu kæmu að. Undirtektir voru umfram væntingar forystu flokksins og sóttu þetta þing um 100 fulltrúar úr flestum héruðum landsins. Um leið var þingið það fjölmennasta sem nokkur annar flokkur hafði haldið.
Jónas Jónsson frá Hriflu setti fundinn, lýsti hann tildrögum hans og verkefnum og gekkst fyrir kosningu fundarstjóra. Ólafur Briem var kosinn fundarstjóri, en til vara Sigurður Bjarklind kaupfélagsstjóri á Húsavík og sér Jakob Lárusson í Holti. Þingið á Þingvöllum stóð yfir í alls fjóra daga.
Á lokadegi þingsins voru fluttar tillögur um stefnu flokksins í öllum málum er málefnanefndir höfðu fjallað um. Þær voru í samræmi við stefnuskrá þingflokksins frá 1916 og Tímans frá 1918, en þó ýtarlegri og fleiri málaflokkar.
Sigurður Norðdal og Valtýr Stefánsson fluttu sérstök erindi á þinginu. Sigurður flutti erindi um menningarmál og Valtýr um framtíð landbúnaðarins.

Um Þingvallafundinn segir í Tímanum 2. júlí 1919:

„Það er ekki ýkja langt síðan að einn hinn tillögubesti maður í sjálfstæðisbaráttu þessa lands, Guðmundur prófessor Hannesson, taldi það gott til fróðleiks að sækja fund íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn; það væri að skygnast inn í framtíð Íslands.
Nú er þessi leið lokuð, og ekki fyrir það eitt að við eigum okkar eiginn háskóla. Svo eru nú tímarnir breyttir og breyttir til batnaðar. Það er segin saga, að því betri muni framtíðin, sem fleiri góðir menn leggjast á þá sveifina að hafa fyrirhyggju um að sjá framtíðarhag þjóðarinnar sem best borgið.
Það var sú tíð að allra frétta um framtíð Íslands varð að leita til Danmerkur — og það til danskra manna þar. Smám saman fóru svo íslenskir menn að slægjast eftir hlutdeild um þessi mál, og skiljanlega voru það einkum menntamennirnir. Þeim hefir með vaxandi viðreisnarhug þjóðarinnar á löngum tíma tekist að flytja völdin heim, og heima hafa þau undanfarið haft aðalaðsetur sitt í Reykjavík, enda var það ofur eðlilegt, meðan einkum var fengist um formshliðar sambandsfyrirkomulagsins við Dani. En nú eru völdin enn að flytja sig um set. Þau eru að komast í hendur hugsandi borgara hvar sem eru í landinu.
Ein sönnun þessa er fundur sá sem nýafstaðinn er á Þingvöllum; margir menn og úr öllum héruðum landsins koma þar saman til þess að leggja ráð á um það hvað við eigi að taka í öllum helstu málum landsins á næstu árunum; þeim er þelta enginn leikur, ekki er svo hægt um samgöngurnar; fundurinn er sprottinn upp af þörf þjóðarinnar um að láta málin til sín taka, og fundarhaldið styðst við það að nú séu völdin í raun og sannleika komin þangað sem þau eiga að vera, í hendur borgaranna sjálfra í landinu. Og sú trú er á fylstu rökum byggð. Síðasti áfanginn var farinn þegar sambandsdeilunni með forms- og lögskýringa-togstreitunni lauk. Þá lók við fyrirhyggjan um innanlandsmálin, og þar standa menn fastar í fæturna.
Og þessi fundur er ekki aðeins að því leyti eftirtektaverður, að hann skyldi hafa átt sér stað, heldur miklu fremur fyrir það hvernig hann fór úr hendi. Þarna voru menn af öllum stéttum, að undanskildum lögfræðingum, og þessir menn koma sér saman um aðalstefnuatriði í öllum stærstu dagskrármálum þjóðarinnar.
En það sem ef til vill er stærst og mest um vert, er hugblærinn, hrifningin sem þarna ríkti; að henni búa menn lengst og hún mun reynast öllum örðugleikum hættulegust sem kunna að verða á vegi sameiginlegu áhugamálanna sem þarna voru borin fyrir brjósti.
Enda mun það svo, að ýmsir þeir, og það ekki síst eldri og reyndari mennirnir, munu telja sig hafa skygnst inn í framtíð Íslands einmitt á þessum fundi.“

***

Frétt Tímans frá 5. júlí 1919 um samþykkt stefnumála Framsóknarmanna á sínu fyrsta þingi:
 

Categories
Greinar

Ræktum eldsneyti

Deila grein

26/06/2019

Ræktum eldsneyti

Hægt er að minnka losun margra gróðurhúsalofttegunda um allt að 70% á tiltölulega auðveldan hátt með því að breyta eldsneytisnotkun skipa þannig að þau noti jurtaolíu, bíódísil eða annað lífrænt eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis. Rannsóknir sýna að bíódísill úr repjuolíu geti komið í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti. Á Íslandi er ónýtt ræktunarland til staðar fyrir repjuræktun. Eftir hverju erum við að bíða?

Tvöföld kolefnisjöfnun
Bíódísill úr repjuolíu er lífræn dísilolía og endurnýjanlegur orkugjafi og telst einn umhverfishlutlausasti orkugjafinn sem getur komið í stað jarðdísilolíu. Repjuræktun felur í sér tvöfalda kolefnisjöfnun með tilliti til útblásturs á koltvísýringi þar sem ræktunin tekur til sín tvöfalt meira af koltvísýringi en brennsla olíunnar gefur frá sér við útblástur. Bíódísil má nota í olíubrennurum og á allar dísilvélar farartækja og varla þarf að breyta vélunum ef skipta skal yfir á bíódísil.

Olíuframleiðsla á ónýttu landi
Ísland hefur þá sérstöðu að ekki þarf að taka undir ræktunina land sem almennt er í ræktun fyrir matjurtir. Gott ræktunarland á Íslandi er aðeins 6% af flatarmáli landsins, eða 600.000 hektarar. Þar af eru þegar í ræktun um 120.000 hektarar og tiltækt ræktunarland er því um 480.000 hektarar. Með sérstöku átaki mætti framleiða alla þá olíu sem íslenski skipaflotinn notar á nú ónýttu landi.

Áhersla á fiskiskipaflotann
Í samgönguáætlun íslenskra stjórnvalda er stefnt að því að losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna á Íslandi verði undir 750 þúsund tonnum árið 2020, sem er í samræmi við aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Til að ná þessum markmiðum er lögð áhersla á að auknar verði rannsóknir á umhverfisvænum orkugjöfum til að þróa og framleiða vistvænt eldsneyti. Einnig að markvissar aðgerðir og ívilnanir miði að minni notkun jarðefnaeldsneytis og að samgöngutæki nýti orku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Sérstök áhersla er lögð á að auka notkun lífeldsneytis á fiskiskipaflotann.

Undirrituð hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til samgönguráðherra varðandi ræktun og nýtingu íslenskra orkujurta fyrir fiskiskipaflotann. Það verður áhugavert að sjá hver næstu skref verða í þeim efnum, þar sem stórkostleg tækifæri felast í aukinni nýtingu íslenskra orkujurta, ekki síst fyrir umhverfið og orkuöryggi þjóðarinnar.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. júní 2019.

Heimild: Jón Bernódusson, dr. Gylfi Árnason, Ólafur Eggertsson, Einar Einarsson og Sigurbjörn Einarsson. Repjuræktun á Íslandi til skipaeldsneytis. Samgöngustofa, 2018.

Categories
Greinar

Ólíkir skólar fyrir ólíka einstaklinga

Deila grein

26/06/2019

Ólíkir skólar fyrir ólíka einstaklinga

Skapandi og gagnrýnin hugsun, læsi og þátttaka í lýðræðissamfélagi verður áfram undirstaða íslenska skólakerfisins. Á dögunum samþykkti Alþingi frumvarp sem festir í sessi faglega umgjörð um starfsemi lýðskóla. Til þessa hefur ekki verið nein löggjöf í gildi um slíka skóla.

Meiri fjölbreytni – minna brottfall

Hlutverk lýðskóla er fyrst og fremst að búa nemendur undir lífið, gera þá að fjölhæfum einstaklingum og reiðubúna til að takast á við tilveruna. Fjölbreytni er menntakerfinu mikilvæg, nemendur hafa ólíkar þarfir og þeir þurfa að hafa val um sitt nám. Meðal ástæðna brotthvarfs úr framhaldsskólunum okkar er ákveðin einsleitni í námsvali og það að nemendur finna sig ekki í námi. Það er vel að fjölbreytni námsframboðs hér á landi hefur aukist, ekki síst á framhaldsskólastiginu og að fleiri nemendur séu opnir fyrir námskostum t.d. á sviði verk- og tæknigreina.

Lýðskóli á Laugarvatni

Lýðskólar vinna með lykilhæfni skólastarfs, líkt og kveðið er á um í aðalnámskrá framhaldsskóla, svo sem námshæfni, skapandi hugsun, sjálfbærni og lýðræðisleg vinnubrögð en meðal markmiða þeirra samkvæmt frumvarpinu verður að mæta áhuga og hæfileikum nemenda sem vilja átta sig betur á möguleikum sínum og stefnu í lífi og starfi. Í dag starfa LungA-skólinn og Lýðháskólinn á Flateyri eftir hugmyndafræði lýðskóla. Willum Þór Þórsson, hefur ásamt þingflokki Framsóknar, lagt fram þingsályktunartillögu um stofnun lýðskóla UMFÍ á Laugarvatni. Í greinargerð með tillögunni segir að áhugi sé fyrir stofnun lýðskóla á Laugarvatni með aðkomu menntamálayfirvalda og Bláskógabyggðar og að UMFÍ hafi nú þegar myndað samstarfsteymi við lýðskóla í Danmörku sem sé tilbúinn til að leggja sitt af mörkum í undirbúningi og framkvæmd. Nú þegar lagaumgjörð um lýðskóla liggur fyrir verður langþráður lýðskóli á Laugarvatni vonandi að veruleika.

Þjálfun í lýðræðislegri hugsun

Lýðskólar eiga sér langa sögu en Daninn N.F.S. Grundtvig er upphafsmaður þeirrar hugmyndafræði sem skólarnir byggjast á. Grundtvig kynnti á fjórða og fimmta áratug 19. aldar til sögunnar annars konar nám og menntun en hið hefðbundna bóklega nám. Það byggðist á markmiði um að mennta dönsk ungmenni í menningu og sögu auk þess að hvetja þau til þátttöku í lýðræðislegu samfélagi en lýðræðishugmyndir í Evrópu voru að ryðja sér til rúms um þetta leyti. Nemendur skyldu stýra skólanum og hlutverk kennara væri ekki að spyrja nemendur heldur svara spurningum þeirra. Áherslan skyldi vera á hið talaða orð, umræður og rökræður og þátttöku nemandans á öllum sviðum og búa þá þannig undir lífið. Ekki skyldu þreytt próf. Þá ættu nemendur og kennarar að búa á sama stað og markmiðið væri að nemendur tileinkuðu sér færni og þekkingu sem gagnaðist þeim í hinu daglega lífi. Fyrsti lýðskólinn var settur á laggirnar í Danmörku árið 1844 í Rødding í anda þessara hugmynda og starfar hann enn.

Hugmyndafræði lýðskóla á ekki síður erindi við samfélagið í dag en árið 1844.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Dagskránni Fréttablaði Suðurlands 26. júní 2019.